Hæstiréttur íslands
Mál nr. 345/2014
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 11. desember 2014. |
|
Nr. 345/2014.
|
Bragi Þór Pétursson (Jónas Þór Jónasson hrl.) gegn Þorbirni hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur.
B, sem ráðinn var í skiprúm hjá Þ hf. á tilgreindu tímabili með ellefu tímabundnum ráðningarsamningum, höfðaði mál á hendur Þ hf. þegar tímabundin hans ráðning hans rann út. Krafðist B skaðabóta sem svöruðu til launa í einn mánuð og bar því við að hann hefði átt rétt til launa í uppsagnarfresti sem því nam. Hvorki var talið að B hefði öðlast slíkan rétt við lok tímabundinnar ráðningar hans, né heldur að ítrekuð ráðningin hefði brotið í bága við lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna. Var Þ hf. því sýknaður af kröfu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. maí 2014. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.757.152 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. maí 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi var áfrýjandi ráðinn í skipsrúm hjá stefnda á tímabilinu 12. apríl 2011 til 27. janúar 2013 með ellefu tímabundnum ráðningarsamningum. Krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur sem svara til launa í einn mánuð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjandi hafi ekki átt rétt á uppsagnarfresti þegar tímabundin ráðning hans rann út 27. janúar 2013. Verður krafa hans því ekki reist á þeirri málsástæðu.
Í annan stað byggir áfrýjandi á því að ítrekuð ráðning hans tímabundið hafi brotið í bága við lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna og því eigi hann rétt til skaðabóta úr hendi stefnda eftir 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. þeirra er óheimilt að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár. Eins og áður getur stóð ráðning áfrýjanda hjá stefnda skemur en það. Þegar af þeirri ástæðu er þessi málsástæða áfrýjanda haldlaus, enda takmarka lögin ekki heimild til að gera tímabundna ráðningarsamninga á tveggja ára tímabili. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. febrúar 2014.
Mál þetta var þingfest 29. maí 2013 og tekið til dóms 21. janúar sl. Stefnandi er Bragi Þór Pétursson, Miðbraut 5, Hrísey, en stefndi er Þorbjörn hf., Hafnargötu 12, Grindavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.757.152 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. maí 2013 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
I
Málavextir eru þeir að stefnandi var háseti á b.v. Hrafni GK-111(1628), sem gerður var út af stefnda, og voru gerðir tímabundnir ráðningarsamningar við hann. Eftir síðustu veiðiferð, sem lauk 28. janúar 2013, óskaði stefnandi eftir fastráðningu á skipið en fékk ekki. Lauk þar með starfi stefnanda hjá stefnda og hefur hann ekki unnið hjá stefnda síðan. Hafði stefnandi þá starfað hjá stefnda á 11 tímabundnum ráðningarsamningum á tímabilinu 12. apríl 2011 til 28. janúar 2013. Ágreiningur aðila er annars vegar um hvort stefnandi eigi rétt á launum í uppsagnarfresti og hins vegar um hvort stefndi hafi gerst brotlegur við ákvæði laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna og sé því bótaskyldur gagnvart stefnanda.
Eftirfarandi ráðningarsamningar voru gerðir við stefnanda: Þann 12. apríl 2011 gerði stefndi tímabundinn ráðningarsamning við stefnanda. Lengd ráðningartímans var ein veiðiferð skipsins eða til 9. maí 2011 eins og segir í ráðningarsamningnum. Þann dag landaði skipið. Ekki var gerður við stefnanda nýr tímabundinn ráðningarsamningur en hann hélt áfram störfum á skipinu í næstu veiðiferð sem lauk þann 6. júní 2011. Sama gilti með næstu veiðiferð á eftir sem lauk þann 24. júní 2011. Þann 14. júlí 2011 var gerður við stefnanda annar tímabundinn ráðningarsamningur og skyldi sú ráðning gilda frá þeim tíma og vera ein veiðiferð skipsins eða til 15. ágúst 2011. Þann 23. september 2011 var gerður þriðji tímabundni ráðningarsamningurinn við stefnanda og skyldi ráðningin gilda frá þeim tíma og vera ein veiðiferð skipsins eða til 24. október 2011. Þann 17. nóvember 2011 var gerður við stefnanda fjórði tímabundni ráðningarsamningurinn og skyldi ráðningin gilda frá þeim tíma og vera ein veiðiferð skipsins eða til 27. nóvember 2011. Skipið landaði á þessu tímabili tvisvar sinnum, þ.e. þann 28. nóvember 2011 og 22. desember 2011. Þann 2. janúar 2012 var gerður fimmti tímabundni ráðningarsamningurinn við stefnanda og skyldi ráðningin gilda frá þeim tíma og vera ein veiðiferð skipsins eða til 30. janúar 2012. Þann 9. mars 2012 var gerður við stefnanda sjötti tímabundni ráðningarsamningurinn og skyldi ráðningin gilda frá þeim tíma og vera ein veiðiferð skipsins eða til 9. apríl 2012. Skipið landaði á þessu tímabili tvisvar, þann 23. mars og 12. apríl 2012. Þann 4. júlí 2012 var stefnandi lögskráður á skipið en sá tímabundni ráðningarsamningur, sá sjöundi, liggur ekki fyrir í málinu. Stefnandi var þá lögskráður frá 4. júlí til 12. október 2012 eða í 101 dag. Skipið landaði úr fjórum veiðiferðum á þessu tímabili. Þann 6. ágúst 2012 var gerður við stefnanda áttundi tímabundni ráðningarsamningurinn og skyldi ráðningin gilda frá þeim tíma og vera ein veiðiferð skipsins eða til 3. september 2012. Þann 7. september 2012 var gerður við stefnanda níundi tímabundni ráðningarsamningurinn og skyldi ráðningin gilda frá þeim tíma og vera ein veiðiferð skipsins eða til 8. október 2012. Þann 19. nóvember 2012 var gerður við stefnanda tíundi tímabundni ráðningarsamningurinn og skyldi ráðningin gilda frá þeim tíma og vera ein veiðiferð skipsins eða til 23. desember 2012. Skipið landaði á þessu tímabili tvisvar, þann 11. og 28. desember 2012. Þann 2. janúar 2013 var gerður við stefnanda ellefti tímabundni ráðningarsamningurinn og skyldi ráðningin gilda frá þeim tíma og vera ein veiðiferð skipsins eða til 27. janúar 2013. Skipið landaði á þessu tímabili tvisvar, þann 14. og 28. janúar 2013.
Málavextir, eins og þeir horfa við stefnda, eru þeir að stefnandi var ráðinn sem afleysingamaður á skip stefnda, Hrafn GK-111. Á skipum stefnda sé málum almennt þannig háttað að hvert skip hafi sína föstu skipverja sem ráðnir séu ótímabundið á skipið og skiptist á að fara í veiðiferðir þess. Oft komi það hins vegar fyrir að skipverja vanti á skip vegna forfalla, leyfa eða af öðrum ástæðum og sé þá ráðinn á skipið aðili til afleysingar tímabundið. Standi afleysingamenn sig sæmilega geti komið til þess að leitað sé til þeirra aftur þegar vantar í áhöfn skipsins og svo jafnvel ítrekað eins og eigi við um stefnanda. Skipstjóri skips meti á hverjum tíma, ef losnar pláss, hvort afleysingamaður fái ótímabundna ráðningu eða ekki, enda mönnun hvers skips á valdi skipstjóra þess. Tímabundin ráðning skipverja til afleysinga sé undantekning, enda sé föst áhöfn á hverju skipi sem ráðin sé ótímabundið. Stefndi telur að fyrirkomulag þetta sé almennt á öllum skipum flotans og hafi verið svo um mjög langan tíma. Í seinni tíð hafi stefndi lagt áherslu á það við skipstjóra útgerðarinnar að þeir geri tímabundna ráðningarsamninga við þá skipverja sem séu ráðnir tímabundið, enda slíkt skylt samkvæmt 6. grein sjómannalaga nr. 35/1985 og í samræmi við þær kröfur sem dómstólar hafi gert til þess að sönnun teljist liggja fyrir um tímabundna ráðningu.
II
Krafa stefnanda er um laun í eins mánaðar uppsagnarfresti. Byggir stefnandi mál sitt á því, að þrátt fyrir að hann hafi stöðugt verið ráðinn aftur og aftur með tímabundnum ráðningarsamningi til einstakrar veiðiferðar og ákveðins tíma í senn, hafi hann engu að síður áunnið sér rétt til eins mánaðar uppsagnarfrests. Samkvæmt kjarasamningi Landsambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins og Sjómannasambands Íslands, 2. mgr. 1.11. gr., skuli uppsagnafrestur vera einn mánuður hafi sjómaður starfað í þrjá mánuði samfleytt hjá útgerð.
Fyrsta tímabundna ráðning stefnanda hafi verið í eina veiðiferð og sú ráðning hafist þann 12. apríl 2011 og henni átt að ljúka þann 9. maí 2011. Stefnandi hafi haldið áfram störfum í næstu tvær veiðiferðir án þess að gerður væri við hann nýir tímabundnir ráðningarsamningar. Skipið hafi landað 24. júní 2011 og stefnandi þá verið afskráður af skipinu. Hafi stefnandi þá verið búinn að fara þrjár veiðiferðir samfellt og starfa á skipinu tímabilið 12. apríl 2011 til 24. júní 2011 en ekki eingöngu til 9. maí 2011 eins og ráðningartími hans hafi verið ákveðin.
Með vísan til 4. mgr. 10. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og almennra reglna vinnuréttar og dómafordæma hafi stefnandi þá þegar verið búinn að vinna sér rétt til 7 daga uppsagnarfrests.
Tímabilið 4. júlí til 12. október 2012 hafi stefnandi verið lögskráður á skipið í 101 dag eða samfellt í rúma þrjá mánuði. Með vísan til 4. mgr. 10. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, 2. mgr. 1.11. gr. kjarasamnings aðila og almennra reglna vinnuréttar og dómafordæma hafi stefnandi verið búinn að ávinna sér rétt til eins mánaðar uppsagnarfrests og breyti síðar gerðir tímabundnir ráðningarsamningar engu þar um. Hin almenna regla vinnuréttar sé einnig sú að haldi starfsmaður áfram störfum fram yfir þann tíma sem hann er ráðinn til, teljist hann fastráðinn með hefðbundnum uppsagnarfresti þar sem starfsaldursútreikningur telist frá upphafi ráðningardags.
Með lögum nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna hafi verið lögfestar reglur EES- samningsins varðandi evrópskar reglur um þetta efni. Komi skýrt fram í þeim lögum að verið sé að koma í veg fyrir misnotkun sem byggist á því að einn tímabundinn ráðningarsamningur taki við af öðrum. Til að koma í veg fyrir misnotkun verði hlutlægar ástæður að liggja að baki tímabundum ráðningarsamningum. Tímabundinn ráðningarsamningur sé ráðningarform sem geti hentað vinnuveitendum og starfsmönnum við ákveðnar aðstæður en mikilvægt sé að starfsmönnum sé ekki mismunað á grundvelli þeirra miðað við þá sem ráðnir eru ótímabundið. Megintilgangur laganna sé því að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningarsamningum.
Hafi komið í ljós að sumar útgerðir séu farnar að ráða sjómenn til tímabundinna starfa í stað ótímabundinna. Ástæðurnar geti að sjálfsögðu verið ýmsar og efnislega lögmætar. Oftar en ekki virðist hinn raunverulegi tilgangur vera fyrst og fremst að skerða rétt sjómanns til launa vegna óvinnufærni og að svipta sjómanninn rétti til uppsagnarfrests og um leið til starfsöryggis með því að vita aldrei fyrirfram hvort hann fái ráðningu í næstu veiðiferð, eða yfirhöfuð einhvern tímann, þrátt fyrir væntingar viðkomandi um fastráðningu, sérstaklega ef mánuðir og misseri líða.
Megintilgangur laganna sér því að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningarsamningum. Komi skýrt fram í lögunum, t.d. 2. gr. laganna, að alger forsenda þess að hver tímabundin ráðning af annarri geti átt sér stað sé að málefnalegar og hlutlægar ástæður liggi að baki tímabundnum ráðningum. Sú hafi ekki verið raunin í tilviki stefnanda. Breyti engu þótt í lögunum sé ákvæði þess efnis að hámarkstími tímabundinna ráðningarsamninga sé tvö ár en það ákvæði sé fengið úr lögum um opinbera starfsmenn nr. 70/1996, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna. Í þeim lögum sé ákvæði um gagnkvæman uppsagnarfrest á gildistíma tímabundins ráðningarsamnings, enda þeir tímabundnu samningar ætlaðir til lengri tíma. Eigi þau sjónarmið á engan hátt við um sjómenn.
Í þessu sambandi leggur stefnandi ríka áherslu á þá staðreynd að enginn munur hafi verið á sjótíma eða lögskráningartíma og frítíma stefnanda og fastráðinna háseta á skipinu. Af lögskráningarvottorði verði ráðið að aðeins einn háseti af hásetunum hafði lengri sjótíma en stefnandi á ráðningartímabili stefnanda þrátt fyrir að stefnandi hafi eingöngu verið ráðinn tímabundið í afleysingar. Þá leggur stefnandi líka áherslu á að engar rekstrarlegar forsendur hafi legið að baki ákvörðun stefnda að ráða stefnanda í 20 mánuði stanslaust á tímabundum ráðningarsamningum. Bendir stefnandi á að með því að hafa ráðninguna tímabundna hefði stefndi ekki verið skuldbundinn til þess að greiða veikindalaun. Stefnandi telur fullljóst að með gerð þessara tímabundnu ráðningarsamninga hafi stefndi verið að fara á svig við meginregluna um ótímabundna ráðningu og lögmætan uppsagnarfrest. Það leiði til þess að venjulegur uppsagnarfrestur skuli gilda gagnvart stefnanda. Samkvæmt almennum reglum vinnuréttar eigi ólögmætið sér stað við fyrsta tímabundna ráðningarsamninginn sem geti skipt máli einkum varðandi tímalengd uppsagnarfrestsins, starfsaldursálag o.þ.h.
Með tilvísun í skaðabótaákvæði 8. gr. laganna nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna telur stefnandi með vísan til framanritaðs að hann eigi bótarétt sem nemi óskertum launum í eins mánaðar uppsagnarfresti. Áréttar stefnandi að samkvæmt sérreglu 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 4. gr., sé óheimilt, hvað sjómenn varðar, að draga frá á uppsagnartíma laun sem sjómaður hefur unnið sér inn hjá öðrum vinnuveitanda.
Krafa stefnanda sé um staðgengilslaun í eins mánaðar uppsagnarfresti. Um sé að ræða veiðiferð sem landað hafi verið úr þann 18. febrúar 2013 og þann 4. mars 2013. Hásetahlutur hafi verið 1.757.152 krónur sem sé stefnufjárhæð máls þessa.
Stefnandi byggir kröfur sínar einkum á 4. gr., 6. gr., 9. gr., 10. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 27. gr. Einnig á 2. mgr. 1.11 gr. kjarasamnings L.Í.Ú. og S.S.Í. Þá einnig á 5. mgr. 1.10 gr. Byggt er á lögum nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna, einkum 2. gr. og 8. gr. Um dráttarvexti vísar stefnandi til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. nr. 91/1991.
III.
Stefndi hafnar málsástæðum stefnanda og telur að hann hafi í samningum sínum við stefnanda fylgt ýtrustu ákvæðum sjómannalaga nr. 35/1985, kjarasamnings aðila og laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningarsamninga.
Þegar gerður sé tímabundinn ráðningarsamningur sé fyrirfram um það samið milli aðila hvenær samningnum ljúki og því verði samningslok hluti af samningi milli aðilanna en ekki einhliða ákvörðun annars aðila samningsins eins og eigi við þegar ótímabundnum samningi er sagt upp. Ákvörðun um lok tímabundins samnings milli tveggja aðila, vinnuveitanda og starfsmanns, hafi sömu afleiðingar fyrir báða aðila, þ.e. að þeir njóti ekki eftir lok samningsins réttinda eða skyldna samkvæmt honum.
Með kröfum sínum á hendur stefnda sé stefnandi hins vegar að leita eftir því að hann njóti réttinda samkvæmt ráðningarsamningi án þess að bera skyldur, eftir það tímamark sem hann samdi við stefnanda um að ráðningarsamningi milli þeirra væri lokið, og stefndi var ekki í aðstöðu lengur til að óska eftir vinnuframlagi frá stefnanda. Grundvöllurinn fyrir þeirri kröfugerð sé sá að ákvæði kjarasamninga um uppsagnarfrest eigi að leiða til þess að samningurinn skuli teljast vera áfram í gildi eftir það tímamark sem samningsaðilar voru sammála um að honum skyldi ljúka. Í grundvallaratriðum gangi þessi málatilbúnaður ekki upp.
Í stefnu komi fram að stefnandi byggir málatilbúnað sinn á tveimur málsástæðum sérstaklega. Fyrri málsástæðan sé sú að stefnandi hafi samkvæmt kjarasamningi „unnið sér inn“ uppsagnarfrest, annað hvort lágmarks uppsagnarfrest 7 daga eða 30 daga uppsagnarfrest þar sem hann hafi unnið samfellt lengur en í 3 mánuði á tímabilinu 4. júlí til 12. október 2012. Ekki sé fyllilega ljóst hvað stefnandi telji að felist í að „vinna sér inn uppsagnarfrest“ og hvort „uppsagnarfrestur“ þýði eitthvað annað í málatilbúnaði stefnanda en réttur til þess að fá tilkynningu með tilteknum fyrirvara um væntanleg samningslok vegna uppsagnar. Þá sé ekki ljóst hvaða áhrif það ætti að hafa á hans eigin heimild til að semja um starfslok, en almennt sé viðurkennt að jafnvel aðili sem hafi rétt til ríflegs uppsagnarfrests hafi frjálsar hendur um að semja um starfslok sín við vinnuveitanda og gera tímabundinn ráðningarsamning í kjölfar á hinum ótímabundna.
Ekki sé fyllilega ljóst hvernig hinn áunni uppsagnarfrestur skapi greiðsluskyldu á hendur stefnda samkvæmt fyrri meginmálsástæðu stefnanda en helst virðist mega ráða að stefnandi telji sig óbundinn af síðasta samningi aðila um tímabundna ráðningu og samningslok eða starfslok þann 27. janúar 2013. Annað hvort vegna þess að í kjarasamningi séu ákvæði um uppsagnarfrest sem þýði þá að allir tímabundnir ráðningarsamningar eigi að vera með uppsagnarfresti (sem sé mótsögn), eða á þeirri forsendu að gerð tímabundins ráðningarsamnings við aðila sem var áður með ótímabundinn samning, sé óheimil. Sem væri þá ný réttarregla og í andstöðu við þær meginreglur sem taldar eru gilda í vinnurétti.
Síðargreind málsástæða stefnanda sé rökstudd þannig að haldi starfsmaður áfram störfum eftir lok tímabundins ráðningarsamnings þá teljist hann vera í ótímabundinni ráðningu. Sú staðhæfing geti verið rétt en komi máli þessu lítið við, enda sé þessi aðstaða ekki uppi í málinu. Í málinu sé ekki deilt um það hvort ráðning stefnanda hafi verið tímabundin eða ótímabundin og alls ekki um það hvort starfslok hans þann 27. janúar 2013 hafi verið samkvæmt tímabundnum samningi eða ekki. Þá sé heldur ekki ágreiningur milli aðila um að stefnandi sé bundinn af þeim samningi sem hann gerði við stefnda, a.m.k. sé engin krafa eða málsástæða stefnanda sem lúti að því að ráðningarsamningur aðila sé ógildur eða óskuldbindandi fyrir hann af einhverjum ástæðum.
Seinni málsástæða stefnanda snúist um að stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda á grundvelli 8. greinar laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningarsamninga fyrir að hafa brotið gegn sömu lögum. Stefnandi byggi ekki á að stefndi hafi brotið gegn efnisreglum laganna, heldur markmiðum þeirra eins og þau eru skýrð í 2. gr. laga nr. 139/2003. Þannig virðist sem stefnandi byggi á því að í almennri yfirlýsingu 2. gr. um markmið þeirra efnisreglna, sem lögin hafi að geyma, megi lesa aðrar og strangari reglur en fram komi í hinum settu efnisreglum laganna. Þannig byggi stefnandi á því að engu skipti þótt löggjafinn hafi kosið að ná fram markmiðum laganna, um að hver tímabundni ráðningarsamningurinn taki ekki endalaust við af öðrum, með því að setja slíkum endurtekningum tímatakmörk í 5. grein laganna. Að mati stefnda geti þetta ekki staðist, enda feli efnisreglur laganna í sér leið löggjafans að markmiðum þeirra.
Óumdeilt sé milli aðila málsins að stefndi hafi ekki brotið gegn ákvæðum laganna um hámarkslengd samfelldrar tímabundinnar ráðningar. Samfelld ráðning stefnanda, tímabundið samkvæmt skilgreiningu 2. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003, hafi annars vegar verið frá 12. apríl 2011 til 13. apríl 2012 eða í 12 mánuði og hins vegar frá 4. júlí 2012 til 27. janúar 2013 eða tæpa 7 mánuði. Á tímabilinu hafi lengsta hlé milli ráðningarsamninga aðila verið frá 13. apríl 2012 til 4. júlí 2012 eða í tæplega 12 vikur. Í öðrum tilvikum hafi hlé milli ráðningarsamninga verið innan þeirra 6 vikna marka sem ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003 marka sem skilyrði þess að um samfellda ráðningu sé að ræða.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að sumar útgerðir séu farnar að ráða sjómenn til tímabundinna starfa í stað ótímabundinna, a.m.k. eigi það ekki við stefnda. Stefndi hafi í engu breytt þeirri venju sinni að áhafnir skipa eru fastráðnar en afleysingamenn séu ráðnir tímabundið og almennt til einnar veiðiferðar í senn. Stefndi telur að þetta sé almennt og viðurkennt fyrirkomulag hjá útgerðum landsins og kannast ekki við breytingar að þessu leyti hjá öðrum útgerðum.
Þá sé alröng sú staðhæfing stefnanda að tilgangurinn með tímabundnum samningum sé fyrst og fremst að skerða rétt sjómanna til launa vegna óvinnufærni. Hér sé auðvitað farið með staðlausa stafi og það gert með almennri fullyrðingu án þess að séð verði að þessu sé haldið fram um stefnda. Sjómaður sem veikist eða slasast við vinnu haldi réttindum til slysa- og forfallalauna þó svo ráðningarsambandi ljúki. Hins vegar eigi hann ekki rétt til veikindalauna ef hann verður veikur eða slasast á meðan hann er ekki í ráðningarsambandi. Það eigi við um alla launþega ekki aðeins sjómenn. Þetta eigi því við um alla tímabundna samninga og sé kannski ein ástæða þess að löggjafinn hafi kosið að setja lög um tímabundna samninga og hámarkstíma.
Stefnandi haldi því fram að sjónarmið að baki ákvæði 5. gr. laga nr. 139/2003 um hámarkslengd tímabundinnar ráðningar eigi ekki við um sjómenn þar sem tveggja ára viðmiðun í ákvæðinu sé sótt til 41. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996. Ekki verði séð að þessi staðhæfing eigi við rök að styðjast, hvorki þannig að lög nr. 139/2003 taki ekki til sjómanna eða að það séu fyrir hendi sérstök rök eða sjónarmið sem standi til þess að annað skuli gilda um sjómenn en alla aðra launþega hér á landi. Í skýringum með ákvæðinu komi fram að löggjafinn kaus að miða hámarkstíma tímabundinnar ráðningar við tvö ár til samræmis við þágildandi ákvæði í lögum um opinbera starfsmenn og þannig að samræmi væri að þessu leyti á vinnumarkaðinum í heild sinni. Í þessu samhengi skipti litlu máli hvort stefnandi telji að þau sjónarmið sem á sínum tíma lágu að baki ákvæðinu um hámarkstíma tímabundinnar ráðningar í lögum um opinbera starfsmenn eigi við um hann eða sjómenn almennt.
Stefnandi telji að í ljósi þess að sjótími hans, á því tímabili sem hann var ráðinn tímabundið, hafi verið sambærilegur við sjótíma fastráðinna skipverja, séu sérstök rök fyrir því að stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 139/2003. Stefndi fær ekki séð hvernig þetta geti skipt máli eða geti talist óeðlilegt, enda stefnandi ráðinn til fullra starfa á skipið hverju sinni. Umrædd staðreynd geti varla verið rök fyrir því að ráðning stefnanda hafi verið óeðlileg, heldur fremur rök fyrir því að honum hafi ekki verið mismunað að þessu leyti á meðan á tímabundinni ráðningu stóð, þ.e. að hann hafi fengið fullan og jafnvel mjög mikinn sjótíma á þeim tíma sem hann var við afleysingar.
Varðandi tjón stefnanda af hinni meintu skaðabótaskyldu háttsemi stefnda byggi stefnandi á því að það samsvari „óskertum launum í eins mánaðar uppsagnarfresti“ án þess að leitast sé við að skýra það eða rökstyðja sérstaklega. Ekki sé sjáanlegt að stefnandi geri í málatilbúnaði sínum tilraun til að afmarka það sem telja megi tjón sem uppfylli það skilyrði að vera orsök eða sennilega afleiðing af meintu lögbroti stefnda, sem honum sé þó skylt þar sem hann byggi á því að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda. Að mati stefnda hafi stefnanda því ekki tekist að sýna fram á tjón vegna meintra brota stefnda.
Um fjárkröfu sína vísi stefnandi til sérreglu 25. gr. sjómannalaga varðandi það að ekki skuli draga frá bótum samkvæmt þeirri grein laun sem skipverji vinnur sér inn annarsstaðar eftir ólögmæta uppsögn. Stefnandi byggi hins vegar ekki á því að hann eigi rétt til skaðabóta samkvæmt 25. gr. sjómannalaga. Stefnandi krefjist skaðabóta á grundvelli 8. gr. laga nr. 139/2003 en þær fari ekki eftir 25. gr. sjómannalaga heldur almennum reglum. Stefnandi komist því ekki undan því að færa fram rök fyrir meintu tjóni og tengja það við hina skaðabótaskyldu háttsemi og bætur til hans geti ekki orðið hærri en sannanlegt tjón hans. Því yrði ekki undan því vikist að draga frá þeim launagreiðslur sem hann hefur fengið annars staðar á þeim tíma sem hann krefst bóta frá stefnda vegna launamissis.
Stefndi telur að skaðabótakrafa stefnanda sé vanreifuð, enda sé ekki að finna í stefnunni útlistun á því hvert tjón stefnanda hafi orðið af meintum brotum stefnda og í raun sé ekki að finna í stefnunni málsástæður sem afmarki það hverjar séu orsakir og afleiðingar hins meinta brots stefnda, þ.e. hvernig atvik hefðu orðið ef stefnandi hefði notið uppsagnarfrests og hvert sé tjóns hans af því að þau atvik urðu ekki.
IV
Stefnandi byggir kröfu sína annars vegar á þeirri málsástæðu að hann hafi áunnið sér eins mánaðar uppsagnarfrest með störfum sínum hjá stefnda á tímabilinu 12. apríl 2011 til 28. janúar 2013 og beri því laun í uppsagnarfresti. Í þessu sambandi vísar hann til 2. mgr. 1.11. gr. í kjarasamningi Landsambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins og Sjómannasambands Íslands þar sem segir að hafi undirmaður starfað á sama skipi eða hjá sömu útgerð samfellt í þrjá mánuði skuli uppsagnarfrestur vera einn mánuður. Þá vísar stefnandi einnig til 4. mgr. 10. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 þar sem segir að ef skipverji sé ráðinn í ákveðinn tíma eða til ákveðinnar ferðar en verður kyrr á skipinu eftir að ráðningartíma lýkur, og eigi sé gerður nýr samningur, eigi hann samkvæmt 9. gr., sé ekki um annað samið, rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti nema á íslenskum fiskiskipum 7 daga.
Hins vegar byggir stefnandi kröfu sína á þeirri málsástæðu að stefndi hafi brotið rétt á honum með því að sniðganga ákvæði laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna. Vísar stefnandi einkum til 2. gr. laganna þar sem segir að markmið laganna sé að bæta tímabundnar ráðningar og að tryggja að starfsmönnum sé ekki mismunað með því að hver tímabundinn ráðningarsamningur taki við af öðrum án hlutlægrar ástæðu.
Í málavaxtalýsingu hér að framan er það rakið að 11 tímabundnir ráðningarsamningar voru gerðir við stefnanda á tímabilinu 12. apríl 2011 til 2. janúar 2013 en síðustu veiðiferð lauk 28. janúar 2013. Fyrsta tímabundna ráðning stefnanda var 12. apríl 2011 og skyldi henni ljúka 9. maí 2011 en stefnandi hélt störfum áfram á skipinu án þess að gerður væri nýr samningur og fór hann í tvær veiðiferðir til viðbótar. Lauk þeirri síðustu 24. júní 2011 og var stefnandi þá afskráður af skipinu. Var stefnandi þá búinn að vinna á skipinu í 2 mánuði og 12 daga. Tímabilið 4. júlí til 12. október 2012 var stefnandi lögskráður á skipið í 101 dag eða samfleytt í rúma þrjá mánuði.
Ekki er hins vegar unnt að líta svo á, eins og stefnandi heldur fram, að hann hafi á þessum tveimur tímabilum áunnið sér 7 daga eða eins mánaðar uppsagnarfrest samkvæmt 4. mgr. 10. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 9. gr., og ákvæðum 1.11. gr. kjarasamnings aðila, vegna þess að á þessu tímabili, þann 6. ágúst 2012, var gerður tímabundinn ráðningarsamningur við stefnanda sem lauk 3. september 2012 og svo aftur 7. september 2012 en þeim tímabundna ráðningarsamningi lauk 12. október 2012. Þessir tveir síðastgreindu tímabundnu ráðningarsamningar tóku af öll tvímæli um að ráðning hans var tímabundin og lauk þar með réttindum og skyldum beggja samningsaðila. Uppsagnarfrestur er réttur til þess að fá tilkynningu með ákveðnum fyrirvara um væntanleg samningslok vegna uppsagnar. Tímabundinni ráðningu fylgir hins vegar ekki uppsagnarfrestur og átti því hvorugur aðila rétt til þess að segja upp samningi þegar fyrirfram ákveðnum ráðningartíma lauk. Verður því ekki fallist á með stefnanda að hann hafi áunnið sér uppsagnarfrest og rétt til launa í þeim fresti.
Seinni málsástæða stefnanda, um að stefndi hafi gerst brotlegur við lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna, byggist á því að stefndi hafi misnotað tímabundna ráðningarsamninga gagnvart stefnanda þar sem hlutlægar ástæður hafi ekki legið að baki þeim samningum, sbr. 2. gr. laganna. Stefnanda hafi verið mismunað miðað við þá sem voru ráðnir ótímabundið. Eigi hann því rétt á skaðabótum samkvæmt 8. gr. laganna.
Fyrir liggur í málinu að stefnandi var ráðinn tímabundið til stefnda í einstakar veiðiferðir í forföllum fastráðinna háseta. Ráðningin var vegna tiltekinna aðstæðna og bundin við ákveðin verkefni í afmarkaðan tíma. Hlutlægar ástæður í skilningi 2. gr. laga nr. 139/2003 lágu því að baki ráðningunum.
Í 1. mgr. 5. gr. laganna segir að óheimilt sé að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfleytt lengur en tvö ár nema annað sé tekið fram í lögum. Samfelld ráðning stefnanda tímabundið samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003 var annars vegar frá 12. apríl 2011 til 13. apríl 2012, eða í 12 mánuði, og hins vegar frá 4. júlí 2012 til 27. janúar 2013, eða tæpa 7 mánuði. Á tímabilinu var lengsta hlé milli ráðningarsamninga aðila frá 13. apríl 2012 til 4. júlí 2012 eða í tæplega 12 vikur. Í öðrum tilvikum var hlé milli ráðningarsamninga innan þeirra 6 vikna marka sem ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003 marka sem skilyrði þess að um samfellda ráðningu sé að ræða.
Með tilvitnaðri 1. mgr. 5. gr. laganna um hámarkstíma á tímabundnum ráðningarsamningum kaus löggjafinn að ná fram markmiðum laganna um hver séu hæfileg tímamörk í þessu sambandi. Svo sem áður sagði hefur stefndi ekki farið fram úr þeim tímamörkum og verður því krafa stefnanda ekki tekin til greina á þessum grunni.
Ósönnuð er sú staðhæfing stefnanda að sumar útgerðir séu farnar að ráða sjómenn til tímabundinna starfa í stað ótímabundinna og hefur ekki verið sýnt fram á að sú fullyrðing snúi að stefnda. Sama á við þá almennu fullyrðingu stefnanda að raunverulegur tilgangur með tímabundinni ráðningu sé fyrst og fremst að skerða rétt sjómanna. Ekki er hald í þeirri mótbáru stefnanda að sjónarmið að baki 1. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003 um hámarkslengd tímabundinnar ráðningar eigi ekki við sjómenn. Þá verður ekki séð að það séu sérstök rök fyrir því að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 139/2003 þar sem sjótími stefnanda var sambærilegur við sjótíma fastráðinna starfsmanna.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Þorbjörn hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Braga Þórs Péturssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.