Hæstiréttur íslands

Mál nr. 132/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit


                                                        

Þriðjudaginn 23. mars 2010.

Nr. 132/2010.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Þór Kolbeinssyni

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni Þ um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál hans á hendur Í. Fallist var á það með Þ að efni væru til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau grunnatriði sem málatilbúnaður hans hvíldi á.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2010, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál hans á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, svo og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur hann því ekki komið að fyrir Hæstarétti kröfu um málskostnað í héraði.

Samkvæmt gögnum málsins varð varnaraðili, sem er húsasmíðameistari að mennt, fyrir vinnuslysi 28. júlí 2001, þar sem hann var við störf í iðngrein sinni við byggingu verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar í þágu Ístaks hf. Nánar er atvikum að þessu slysi lýst þannig að varnaraðili hafi fallið niður úr um 5 m hæð af millilofti, sem hann hafi unnið við ásamt tveimur öðrum smiðum, og hlotið af því bæði tímabundið og varanlegt líkamstjón. Hann höfðaði mál 23. júní 2004 á hendur Ístaki hf. til heimtu bóta að fjárhæð 9.302.765 krónur vegna þessa og stefndi hann jafnframt vátryggingafélagi þess félags til réttargæslu. Í dómi Hæstaréttar 20. desember 2005 í því máli, sem var nr. 246/2005, var meðal annars lýst aðstæðum á vinnustað þegar atvik þetta gerðist og tekið fram að í skýrslu Vinnueftirlitsins hafi sagt að orsakir slyssins mætti rekja til þess að hvorki hafi verið til staðar fallvarnir né öryggisbelti. Því var einnig lýst að aðilarnir hafi verið sammála um að erfitt hafi verið að beita líflínum við þá vinnu, sem varnaraðili leysti af hendi, og yrði heldur ekki séð hvernig hefði átt að koma þar við fallvörnum. Augljóst þótti á hinn bóginn að tryggja hefði mátt frekar öryggi varnaraðila og samstarfsmanna hans á nánar tilgreindan hátt, sem hann hafi mátt vita vegna menntunar sinnar og starfsreynslu án þess að vinnuveitandinn gæfi honum sérstök fyrirmæli eða leiðbeiningar í þeim efnum, en eins og atvikum væri háttað mætti raunar telja það fremur hafa verið í verkahring hans sjálfs, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Með því að slysið yrði af þessu sökum ekki rakið til atvika, sem Ístak hf. hafi borið ábyrgð á, var félagið sýknað af kröfu varnaraðila.

Varnaraðili höfðaði mál þetta 23. september 2009 og krefst að sóknaraðila verði gert að greiða sér 13.119.396 krónur. Samkvæmt sundurliðun í héraðsdómsstefnu er hér um að ræða skaðabætur sömu fjárhæðar og varnaraðili krafði Ístak hf. um í hæstaréttarmálinu nr. 246/2005 að meðtöldum vöxtum og dráttarvöxtum til þess dags, sem dómur í því máli var upp kveðinn, en að frádregnum tilteknum greiðslum, sem varnaraðili kveðst hafa fengið úr slysatryggingu launþega og almannatryggingum. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er málatilbúnaður varnaraðila í þessu nýja máli í meginatriðum reistur á því að úrslit máls hans á hendur Ístaki hf. beri með sér að sóknaraðili hafi ekki orðið við skyldum sínum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins nr. 89/391/EBE frá 12. júní 1989 um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, tilskipunar ráðsins nr. 89/654/EBE frá 30. nóvember 1989 um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu á vinnustöðum og tilskipunar ráðsins nr. 92/57/EBE frá 24. júní 1992 um framkvæmd lágmarkskrafna um öryggi og hollustuhætti á bráðabirgða- eða færanlegum byggingarsvæðum. Varnaraðili telur sóknaraðila bera skaðabótaskyldu gagnvart sér af þessum sökum með því að úrslit fyrra dómsmálsins hefðu orðið á annan veg ef sóknaraðili hefði réttilega sinnt þessum skyldum. Fallist verður á með varnaraðila að efni séu til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau grunnatriði, sem þessi málatilbúnaður hans hvílir á, enda var þeim ekki ráðið til lykta með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 20. desember 2005. Að því verður á hinn bóginn að gæta að í málatilbúnaði varnaraðila er auk þessa öðrum þræði byggt á þeirri skoðun hans að niðurstaða fyrra dómsmálsins kunni að hafa ráðist af því að „Hæstiréttur hafi fyrir mistök túlkað íslenskan rétt í andstöðu við tilskipanir Evrópusambandsins“, sem reyndar verður ekki séð að varnaraðili hafi á nokkru stigi borið fyrir sig í því máli, en að hugleiðingum af þeim toga geta spurningar, sem lagðar verða fyrir EFTA-dómstólinn, ekki lotið. Að þessu virtu ásamt því að ekki verður séð að fyrrnefnd tilskipun ráðsins nr. 89/654/EBE frá 30. nóvember 1989 geti varðað sakarefni þessa máls verður spurningum til EFTA-dómstólsins hagað á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kærumálskostnað.

Dómsorð:

Leitað er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

1. Samræmist það ákvæðum tilskipunar ráðsins nr. 89/391/EBE frá 12. júní 1989 um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum og ákvæðum tilskipunar ráðsins nr. 92/57/EBE frá 24. júní 1992 um framkvæmd lágmarkskrafna um öryggi og hollustuhætti á bráðabirgða- eða færanlegum byggingarsvæðum (áttundu sértilskipunar í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE) að starfsmanni sé sjálfum vegna eigin sakar gert að bera ábyrgð á tjóni, sem hann verður fyrir vegna vinnuslyss, þegar fyrir liggur að vinnuveitandi hefur ekki að eigin frumkvæði fylgt reglum um öryggi og aðbúnað á vinnustað?

2.  Ef svarið við framangreindri spurningu er neikvætt, er íslenska ríkið þá skaðabótaskylt gagnvart starfsmanni, sem hefur orðið fyrir vinnuslysi og verið látinn í ósamræmi við ofangreindar tilskipanir bera tjón sitt sjálfur í heild eða að hluta vegna eigin sakar, á þeirri forsendu að ríkið hafi ekki staðið réttilega að innleiðingu þessara tilskipana í íslenskan rétt?

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2010.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. febrúar sl., var höfðað 23. september sl. af Þór Kolbeinssyni, Breiðuvík 18, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 13.119.396 krónur með skaðabótavöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2005 til stefnubirtingardags en dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Í þinghaldi 18. janúar sl. var af hálfu stefnanda vakið máls á því hvort þörf væri á að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um efni tilskipana sem vísað er til í málinu. Af hálfu stefnda var ekki talin þörf á því. Í þinghaldinu var gert ráð fyrir að kveðinn yrði upp úrskurður um álitaefnið en áður en til þess kom lagði stefnandi fram bókun í þinghaldi 26. janúar sl. þar sem þess var krafist að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um tiltekin atriði. Af hálfu stefnda var óskað eftir fresti til að taka afstöðu til kröfunnar og í þinghaldi 3. febrúar sl. var af hálfu stefnda lögð fram bókun þar sem koma fram andmæli við því að leitað verði ráðgefandi álits samkvæmt kröfu stefnanda. Var af hálfu stefnda hvorki talið hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins að leita ráðgefandi álits né að spurningar stefnda væru tækar eins og þær væru fram settar.

Af þessu tilefni var óskað eftir því af hálfu stefnanda að fá að leggja fram spurningar á ný sem leitað verði svara við og ráðgefandi álits hjá EFTA-dómstólnum. Í þinghaldi 5. febrúar sl. var lögð fram bókun af hálfu stefnanda svohljóðandi:

„Af hálfu stefnanda Þórs Kolbeinssonar er þess krafist að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi:

1.       Samræmist 1. mgr. 26. gr. l. nr.  46/1980, í ljósi túlkunar Hæstaréttar á henni í málinu nr. 246/2005, ákvæðum eftirfarandi tilsk. 89/391/EBE, 92/57/EBE og 89/654/EBE með því að:

a.        Að telja stefnanda skv. atvikum máls bera einan ábyrgð á því hvernig fór þegar hann þann 28. júlí 2001 féll ofan af milligólfi sem hann var að klæða með steinull og niður á steinsteypt gólfið fyrir neðan?

b.       Sú skipting sönnunarbyrði sem felst í dómi Hæstaréttar um hvort nægjan­legt hafi verið gert til að tryggja öryggi stefnanda?

c.        Að telja stefnanda og samstarfsmenn hans við verkið ekki þurfa fyrirmæli eða leiðbeiningar við vinnu þeirra?

d.       Að skortur á fallvörnum kalli aðeins á úrræði af hálfu stefnanda við framkvæmd vinnur sinnar í stað þess að telja atvinnurekanda hans þurfa að tryggja betur með einhverjum hætti öryggi stefnanda og félaga hans við framkvæmd vinnunnar t.d. við skipulagningu framkvæmdar í öndverðu?

2.       Er ákvæðið svo túlkað í andstöðu við framangreindar tilskipanir að öðru leyti?“

Stefnandi vísar til þess varðandi tilskipanirnar, sem fram koma í bókuninni, að aðallega sé óskað álits á þeim ákvæðum sem nefnd eru í stefnu. Með bókun í þinghaldi 5. febrúar sl. var óskað eftir því að umfjöllun um það í stefnu verði skoðuð sem hluti af bókuninni.

Af hálfu stefnda var því hafnað að þörf væri á að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Báðir lögmenn tjáðu sig um framangreint álitaefni áður en það var tekið til úrskurðar. Úrskurðurinn er kveðinn upp af þessu tilefni samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

II.

Forsaga máls þessa er sú að stefnandi varð fyrir vinnuslysi 28. júlí 2001 við vinnu sína hjá Ístaki hf. við að einangra og setja milliloft í verslunarmiðstöðinni Smáralind. Stefnandi hlaut af þessu varanlega örorku og höfðaði mál gegn Ístaki hf. og vátryggingafélaginu Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu til greiðslu bóta vegna tjónsins. Með dómi Hæstaréttar 20. desember 2005 í máli nr. 246/2005 var Ístak hf. sýknað af bótakröfu stefnanda. Stefnandi telur að sú niðurstaða sé bein afleiðing þess að tilskipanir Evrópusambandsins hafi annað hvort ekki verið réttilega leiddar inn í íslenskan rétt eða að Hæstiréttur hafi fyrir mistök túlkað íslenskan rétt í andstöðu við tilskipanir Evrópusambandsins og þar með í andstöðu við 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Stefnandi hafi af þessum sökum orðið fyrir tjóni sem nemi sömu fjárhæð og stefnandi krafðist úr höndum Ístaks hf. í framangreindu máli. Stefnda beri skaðabótaábyrgð á tjóninu.

III.

Stefnandi telur nauðsynlegt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því hvort lagatúlkun í málinu gegn Ístaki hf. samræmist ákvæðum tilskipana Evrópu­sambandsins en þær hafi ekki verið réttilega innleiddar í íslenska löggjöf. Hefði það verið gert hefði niðurstaðan orðið önnur í framangreindu máli stefnanda fyrir Hæstarétti. Íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð ef reglur Evrópska efnahags­svæðisins væru ekki réttilega innleiddar í íslenska löggjöf. Haga beri löggjöf og lagaframkvæmd hvers ríkis til samræmis við EES-samninginn.

Stefnandi lýsir því í stefnu að í formála tilskipunar Evrópuráðsins 89/391/EBE komi fram að umbætur er varði öryggi á vinnustöðum megi ekki víkja fyrir hreinum efnahagssjónarmiðum. Hæstiréttur hafi í málinu talið að slysið yrði ekki rakið til atvika, sem Ístak hf. bæri ábyrgð á, en félaginu hafi verið virt það til vorkunnar að erfitt hefði verið að gera öryggisráðstafanir. Með þessu hafi allri ábyrgð verið létt af atvinnu­rekandanum og hún öll lögð á stefnanda. Niðurstaðan hafi verið sú að íslenskur réttur leyfði efnahagsleg sjónarmið á kostnað öryggis sem væri brot gegn þessu ákvæði tilskipunarinnar. Í 5. gr. sé gert ráð fyrir að atvinnurekandi tryggi öryggi og heilsu starfsmanna við allar aðstæður í vinnu. Í máli stefnanda hafi verið talið að íslensk lög legðu þær skyldur á stefnanda sjálfan að huga að öryggi sínu en ekki á atvinnu­rekandann. Þetta sé í andstöðu við 1. og 3. mgr. 5. gr. Samkvæmt 6. gr. beri vinnu­veitenda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til varnar hættu og væru forvarnir sérstak­lega nefndar í því sambandi. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að atvinnurekanda beri að forðast áhættu og sporna gegn því að hún geti skapast. Í málinu hafi orðið mis­brestur á þessu. Þá er í stefnu vísað til þess að í málinu hefði verið brotið gegn 9. gr., 11. gr. og 12. gr.

Í formála tilskipunar 92/57/EBE sé sérstaklega tekið fram að ófullnægjandi ákvarðanir um fyrirkomulag og/eða skipulagskosti eða slæmt vinnuskipulag á undirbúningsstigi verks hafi átt sinn þátt í meira en helmingi vinnuslysa sem hafi orðið á byggingarsvæðum í bandalaginu. Reglur á grundvelli þessara sjónarmiða virtust ekki hafa verið réttilega innleiddar í íslenskan rétt, eins og Hæstaréttar­dómurinn staðfesti. Í formála tilskipunar 89/654/EBE sé sérstaklega vikið að vinnu­umhverfi. Vísað er í 6. gr. og viðauka I, m.a. 9. gr. og 12. gr.  

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að hann fái ekki réttláta málsmeðferð verði ekki leitað ráðgefandi álits varðandi þessi atriði. Málið sé byggt á því að eins og ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum hafi verið beitt í máli stefnanda fyrir Hæstarétti samræmist lagaákvæðið ekki ákvæðum tilskipana sem stefnandi vísi til í málatilbúnaði sínum. Til að dóminum verði fært að leysa úr þessu verði að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Einnig verði að gera það í þeim tilgangi að tryggja samræmda og einsleita túlkun á þessum tilskipunum.

IV.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að dómkrafa stefnda í málinu sé hin sama og krafan í máli stefnanda gegn Ístaki hf. Í ljósi dómafordæma séu engar líkur á því að ráðgefandi álit geti haft raunhæfa þýðingu við úrlausn málsins þar sem ekki séu skilyrði til að hagga við dómi Hæstaréttar. Á sama hátt sé óraunhæft að héraðsdómur endurmeti dóm Hæstaréttar og því geti ráðgefandi álit ekki haft þýðingu fyrir málið. Spurningar sem fram komi í bókun stefnanda séu því ekki tækar.

Þá er af hálfu stefnda vísað til þess að í þeim tilskipunum, sem beiðni um ráð­gefandi álit snúi að, sé ekki fjallað um bótaskyldu eða bótaábyrgð vegna vinnuslysa. Ákvæði þeirra útiloki ekki reglur skaðabótaréttar, meðal annars þeirra sem byggi á eigin sök tjónþola. Úrlausn um skaðabótaskyldu eigi almennt undir héraðsdóm.

Þrátt fyrir þetta sé það þó hlutverk dómsins að meta hvort brýn þörf sé á, við úrlausn málsins, að leita eftir ráðgefandi áliti og, ef til komi, hvaða spurningar verði hafðar uppi.

V.

Í málinu krefst stefnandi skaðabóta úr höndum stefnda með vísan til þess að láðst hafi að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipana Evrópusambandsins sem stefnandi vísar til í málatilbúnaði sínum. Bótagrundvöllurinn varðar því túlkun eða skýringar á tilvitnuðum ákvæðum tilskipananna og er ekki sá sami og í framangreindum Hæstaréttardómi sem stefnandi vísar til sem staðfestingu á því að tilskipanirnar hafi ekki verið innleiddar í íslenskan rétt eða lögum hafi ekki verið réttilega beitt til samræmis við efni tilskipananna.

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið þykir stefnandi hafa fært fyrir því fullnægjandi rök að álit EFTA-dómstólsins geti skipt máli við úrlausn á sakarefninu. Með vísan til þess ber að taka til greina kröfu hans um að ráðgefandi álits verði leitað.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi atriði: 

Samræmist 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980, í ljósi túlkunar Hæstaréttar á henni í máli nr. 246/2005, ákvæðum eftirfarandi tilskipana: 89/391/EBE, 92/57/EBE og 89/654/EBE með því að:

a.        telja stefnanda samkvæmt atvikum máls bera einan ábyrgð á því hvernig fór þegar hann féll ofan af milligólfi 28. júlí 2001, sem hann var að klæða með steinull, og niður á steinsteypt gólfið fyrir neðan?

b.       skipta sönnunarbyrði eins og gert var í dómi Hæstaréttar við mat á því hvort nægjan­­legt hafi verið gert til að tryggja öryggi stefnanda?

c.        telja stefnanda og samstarfsmenn hans við verkið ekki þurfa fyrirmæli eða leiðbeiningar við vinnu þeirra?

d.       skortur á fallvörnum kalli aðeins á úrræði af hálfu stefnanda við fram­kvæmd vinnur sinnar í stað þess að telja atvinnurekanda hans þurfa að tryggja betur öryggi stefnanda og félaga hans við framkvæmd vinnunnar, t.d. við skipulagningu framkvæmdar í öndverðu?

Er ákvæðið svo túlkað í andstöðu við framangreindar tilskipanir að öðru leyti?