Hæstiréttur íslands

Mál nr. 684/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna
  • Niðurfelling máls


                                     

Fimmtudaginn 30. október 2014.

Nr. 684/2014.

M

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

Kærumál. Fjárslit milli hjóna. Niðurfelling máls. 

Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var mál vegna opinberra skipta til fjárslita vegna skilnaðar M og K fellt niður að kröfu K. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í málinu hefði M uppi sjálfstæðar kröfur af sinni hendi og skyldi fara með þær sem gagnkröfur, sbr. 4. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Af þeim sökum hafði brostið heimild til þess að lögum að fella málið niður í heild sinni, heldur bar einvörðungu að fella niður að ósk K þær kröfur sem hún hafði sjálf gert í málinu. Var því lagt fyrir héraðsdóm að leysa efnislega úr kröfum M á hendur K.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. október 2014 þar sem mál þetta var fellt niður. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfur sínar til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.  

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var 11. janúar 2013 kveðinn upp úrskurður um opinber skipti til fjárslita vegna skilnaðar málsaðila. Samkvæmt 1. mgr. 122. gr., sbr. 112. gr., laga nr. 20/1991 var átta nánar greindum ágreiningsatriðum þeirra á milli beint til héraðsdóms af skiptastjóra 28. mars 2014. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði sótti varnaraðili sjálf þing við þingfestingu málsins 8. maí sama ár, en þá var jafnframt mætt vegna sóknaraðila. Fékk varnaraðili frest til að skila greinargerð af sinni hálfu og var henni leiðbeint um hvernig greinargerðin skyldi vera úr garði gerð. Í þinghaldi 3. júní 2014 lagði varnaraðili svo fram greinargerð sína ásamt gögnum. Við það tækifæri fékk sóknaraðili frest til að skila greinargerð af sinni hálfu og var hún lögð fram í þinghaldi 30. sama mánaðar ásamt gögnum. Í greinargerðinni krafðist sóknaraðili þess aðallega að kröfum varnaraðila, sem settar höfðu verið fram í greinargerð hennar, yrði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þeim yrði hafnað. Ennfremur hafði sóknaraðili þar uppi sex sjálfstæðar kröfur af sinni hálfu sem allar varða fjárhagslegt uppgjör milli aðila. Í þinghaldi 8. september 2014 óskaði varnaraðili eftir því að málið yrði fellt niður og varð héraðsdómur við þeirri kröfu gegn mótmælum sóknaraðila.

Mál þetta er rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 20/1991. Eftir 2. mgr. 131. gr. þeirra gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð málsins að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum laganna. Í c. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er boðið að mál skuli fellt niður ef stefnandi krefst þess. Frá því verður þó að gera þá undantekningu að hafi stefndi þingfest gagnsök í málinu verður stefnandi að una því að gagnsökin haldi áfram sem sjálfstætt mál þar sem hann hefur einungis forræði á þeirri kröfugerð sem hann hefur haft uppi í aðalsök. Í málinu hefur sóknaraðili uppi sjálfstæðar kröfur af sinni hendi og skal farið með þær sem gagnkröfur, sbr. 4. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991. Af þeim sökum brast heimild til þess að lögum að fella málið niður í heild sinni að kröfu varnaraðila, heldur bar einvörðungu á grundvelli c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, að fella niður að hennar ósk þær kröfur sem hún hafði sjálf gert í málinu.

Staðfest verður ákvæði hins kærða úrskurðar um að málskostnaður skuli falla niður í héraði.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Lagt er fyrir héraðsdóm að leysa efnislega úr kröfum sóknaraðila, M, á hendur varnaraðila, K.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. október 2014.

Mál þetta, sem barst dóminum 2. apríl 2014, var tekið til úrskurðar 8. september 2014. Sóknaraðili málsins er K, kt. [...]. Varnaraðili er M, kt. [...].

                  Máli þessu var beint til dómsins með bréfi skiptastjóra, dags. 28. mars 2014, með vísan til 1. mgr. 122. gr., sbr. 112. gr. og 1. mgr. 105. gr., laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl. Í bréfi skiptastjóra er vísað til þess að [...] janúar 2013 hafi verið kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjaness um opinber skipti til fjárslita vegna skilnaðar aðila, en undir skiptunum hafi risið ágreiningur um hvernig fara bæri með eftirfarandi atriði:

  1. M hafi sett fram kröfu um hlutdeild í séreignarsparnaði K. K hafi hafnað þeirri kröfu.
  2. M hafi sett fram kröfu um helmings hlutdeild í 255.564 kr. tryggingabótum sem hafi verið greiddar inn á reikning K frá Tryggingamiðstöðinni vegna lekatjóns í fasteign aðila að [...], [...]. K hafi hafnað þeirri kröfu.
  3. K hafi samþykkt 681.711 kr. kröfu A í búið en M hafi samþykkt hana.
  4. Makalán – námslán frá LÍN. K geri kröfu um að M greiði makalánið að fullu á verðgildi dagsins í dag. M hafi hafnað þeirri kröfu.
  5. K geri kröfu um að M greiði sér fyrir leigu fyrir þann tíma sem hann hafi búið á [...]. M geri sambærilega kröfu á hendur K fyrir þann tíma sem hún hafi búið á [...]. Báðir aðilar hafni framkomnum kröfum gagnaðila að þessu leyti.
  6. M geri kröfu um að K greiði, að hálfu, námslán hans sem tekin hafi verið eftir stofnun hjúskapar. K hafi hafnað þeirri kröfu. 
  7. K geri kröfu um að M greiði, að hálfu, námslán hennar sem tekin hafi verið eftir stofnun hjúskapar. M hafi hafnað þeirri kröfu.
  8. M geri kröfu um að K endurgreiði barnabætur eftir samvistarslit, sem muni hafa runnið óskiptar til K. K hafi hafnað þeirri kröfu.

Við þingfestingu málsins 8. maí 2014 sótti sóknaraðili sjálf þing og var henni veittur frestur til 3. júní 2014 til að skila greinargerð. Þann dag lagði sóknaraðili, sem er ólöglærð, fram greinargerð sína en í henni eru aðeins hafðar uppi kröfur sem lúta að námslánum sóknaraðila. Varnaraðili skilaði greinargerð sinni 30. júní en í henni var aðallega gerð krafa um að dómkröfum sóknaraðila yrði vísað frá dómi, en til vara að kröfum sóknaraðila yrði hafnað. Þá hafði varnaraðili uppi kröfur vegna séreignarsparnaðar sóknaraðila og fleiri ágreiningsatriða sem getið er í framangreindu bréfi skiptastjóra. Aðalkrafa varnaraðila um frávísun var byggð á því að málatilbúnaður sóknaraðila væri svo vanreifaður að varnaraðili gæti ekki tekið til varna.

Sóknaraðili fékk frest til 2. september 2014 til að taka afstöðu til greinargerðar varnaraðila og eftir atvikum leggja fram gögn. Þegar málið var tekið fyrir þann dag mætti Valborg Þ. Snævarr hrl. fyrir hönd sóknaraðila og upplýsti að hún færi framvegis með málið fyrir sóknaraðila. Að beiðni lögmanns sóknaraðila var málinu frestað til 8. september til að lögmanninum gæfist tími til að kynna sér málið og taka ákvörðun um framhald þess. Í þinghaldinu 8. september lagði lögmaður sóknaraðila fram bréf til skiptastjóra, dags. 4. september 2014. Í bréfinu segir að kröfugerð sóknaraðila hafi ekki verið í samræmi við bréf skiptastjóra, en sóknaraðili hafi ekki áttað sig á mikilvægi kröfugerðarinnar. Þá segir í bréfinu að ekki hafi öll ágreiningsefni verið tiltekin í bréfi skiptastjóra til dómsins, en svo virðist sem ágreiningur um uppgjör útlagðs kostnaðar vegna fasteignar í eigu aðila hafi ekki komið skýrlega fram á skiptafundum. Þann ágreining þurfi einnig að leggja fyrir dóm. Jafnframt kalli afmörkun ágreiningsefnis varðandi skuldir við LÍN á frekari skoðun. Þá segir í bréfinu að lögmaður sóknaraðila óski því eftir því að mál nr. [...]/2014 verði fellt niður, án kostnaðar fyrir sóknaraðila, og að málið verði að nýju tekið fyrir á skiptafundi og ágreiningsmálum vísað til héraðsdóms að nýju. Í þinghaldinu 8. september óskaði lögmaður sóknaraðila eftir því að málið yrði fellt niður en af hálfu varnaraðila var gerð krafa um að úrskurðað yrði í málinu um þær kröfur sem varnaraðili hefur uppi í málinu. Lögmenn aðila tjáðu sig um ágreininginn og lögðu hann í úrskurð.

Niðurstaða:

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður mál fellt niður ef stefnandi (sóknaraðili) krefst þess. Dómkröfur sóknaraðila í máli þessu eru ekki í samræmi við þau ágreiningsefni sem skiptastjóri beindi til dómsins, en sóknaraðili, sem er ólöglærð og lagði sjálf fram greinargerð sína, hefur ekki áttað sig á að kröfugerðin afmarkar sakarefni málsins. Þá telur lögmaður sóknaraðila, sem tók við málinu eftir að greinargerð sóknaraðila var lögð fram, að skiptastjóri hafi ekki vísað öllum ágreiningsatriðum aðila til dómsins og að það þurfi að afmarka nánar ágreiningsefni varðandi skuldir við LÍN. Í ljósi þess hvernig mál þetta liggur nú fyrir hefur þess verið krafist af hálfu sóknaraðila að málið verði fellt niður þannig að hægt verði að koma því í rétt horf. Hefur lögmaður sóknaraðila þegar óskað eftir því við skiptastjóra að málið verði tekið að nýju fyrir á skiptafundi og ágreiningsmálum vísað til héraðsdóms að nýju. Að þessu virtu og með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, verður málið því fellt niður. Af þessu leiðir að ekki verður sérstaklega úrskurðað um kröfur varnaraðila, að öðru leyti en því sem varðar málskostnað, sbr. 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Eins og atvikum er háttað í máli þessu er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Mál þetta er fellt niður.

                Málskostnaður fellur niður.