Hæstiréttur íslands
Mál nr. 487/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 10. desember 2004. |
|
Nr. 487/2004. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. febrúar 2005 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2004.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X verði á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en miðvikudagsins 16. febrúar 2005, kl. 16:00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að kæri hafi verið handtekinn aðfaranótt þriðjudagsins 27. júl sl., grunaður um aðild að lífshættulegri árás á A. Ákærði hafi verið ásamt þremur öðrum einstaklingum farþegi í leigubifreið A og hafi hann ekið þeim að [...] í Reykjavík að beiðni þeirra. Þegar þangað var komið hafi ákærði ráðist að A fyrirvaralaust og skorið hann á háls þannig að A hafi við það hlotið skurð á háls, 18 cm langan og 4 5 cm að dýpt.
Ákærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 27. júlí sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt á grundvelli almannahagsmuna með dómi Hæstaréttar 9. ágúst svo og 15. september með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og 29. október með dómi Hæstaréttar.
Ákærði hafi ekki tjáð sig um árásina í yfirheyrslum hjá lögreglu eða fyrir dómi og borið því við að hann sé haldinn minnisleysi um þessa nótt sökum mikillar áfengisneyslu. Í málinu liggi hins vegar fyrir framburðir vitna sem allir bendi til þess að ákærði hafi ráðist á A í umrætt sinn.
Þann 30. nóvember sl. hafi ríkissaksóknari gefið út ákæru í málinu. Ákærði sé þar ákærður fyrir tilraun til manndráps sem talin sé varða við 211., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem talin sé varða við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Ákæran hafi verið sendi Héraðsdómi Reykjavíkur en málið ekki verið þingfest.
Öll rannsóknargögn lögreglu bendi til þess að ákærði hafi gerst sekur um brot sem geti lögum samkvæmt varðað fangelsisrefsingu í allt að 16 ár. Ekkert í málinu bendi til þess að ákærði eigi sér sérstakar málsbætur þar sem um sé að ræða fyrirvaralausa árás á einstaklingi, sem ákærði hafi ekkert átt sökótt við, með sérstaklega hættulegu vopni og megi telja mikla mildi að ekki hlaust mannsbani af. Sé því með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og dóma Hæstaréttar í málum nr. 331/2004 og 430/2004, þess krafist að krafan nái fram að ganga. Hagsmunir almennings krefjist þess að maður sem framið hafi eins alvarlegt brot og hér um ræði verði í gæsluvarðhaldi uns mál hans hafi verið afgreitt fyrir dómstólum.
Eins og fram kemur í gögnum málsins og hér að framan er rakið verður að telja að fyrir liggi sterkur og rökstuddur grunur um að ákærði hafi veitt A alvarlegan áverka á hálsi með eggvopni aðfaranótt 27. júlí sl. Samkvæmt læknisvottorði sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss Fossvogi sama dag reyndist A vera með langan, skáskorinn skurð vinstra megin á hálsi sem var allt að 4 5 cm að dýpt.
Brot þetta getur varðað allt að 16 ára fangelsi ef sök sannast, sbr. 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fallist er á að almannahagsmunir krefjist þess að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Ákæra vegna verknaðarins var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en aðalmeðferð er áætluð 28. janúar nk.
Með vísan til þessa og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 eru uppfyllt skilyrði til að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Ber því að fallast á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald ákærða svo sem greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en miðvikudagsins 16. febrúar 2005, kl. 16:00.