Hæstiréttur íslands

Mál nr. 753/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur


                                     

Miðvikudaginn 11. desember 2013.

Nr. 753/2013.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf.

(Hlynur Jónsson hrl.)

Kærumál. Frestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu S hf. um að fresta máli V hf. á hendur S hf. þar til fyrir lægi niðurstaða rannsóknar sérstaks saksóknara á ætlaðri „skuggafjármögnun“ V hf. til E hf. gegnum S hf. eða eftir atvikum úrslitum sakamáls, yrði það höfðað í kjölfarið. Hæstiréttur taldi að samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri einungis heimilt að fresta einkamáli með skírskotun til yfirstandandi rannsóknar vegna refsiverðrar háttsemi meðan á rannsókninni stæði, uns séð væri fyrir lok hennar. Yrði málinu því ekki á þessu stigi frestað lengur en þar til fyrrgreindri rannsókn sérstaks saksóknara lyki.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2013 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2013, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fresta málinu þar til fyrir liggur niðurstaða rannsóknar sérstaks saksóknara á ætlaðri „skuggafjármögnun“ sóknaraðila til Exista hf. eða eftir atvikum úrslit sakamáls yrði það höfðað í kjölfarið. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Að auki krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins veitti sóknaraðili varnaraðila lán 30. september 2008 að fjárhæð 2.000.000.000 krónur. Sama dag veitti varnaraðili Exista hf., sem nú mun heita Klakki ehf., lán er nam sömu fjárhæð. Í bréfi sérstaks saksóknara 19. september 2013 til slitastjórnar varnaraðila, sem sent var í tilefni af bréfi slitastjórnarinnar 15. mars sama ár, var staðfest að rannsókn stæði yfir hjá embættinu „á ætlaðri skuggafjármögnun VÍS til Exista“ og væri hún „langt á veg komin.“ Síðar í bréfi sérstaks saksóknara var vísað til málshöfðunar varnaraðila á hendur sóknaraðila og sagt að með bréfinu fylgdi afrit af kæru Fjármálaeftirlitsins til embættisins „vegna greindra lánveitinga.“ Af þessum sökum er fallist á með héraðsdómi að niðurstaða umræddrar rannsóknar kunni að hafa verulega þýðingu fyrir úrslit málsins.

Samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari frestað einkamáli ef hann fær vitneskju um að sakamál hafi verið höfðað eða rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis þar til séð er fyrir enda sakamáls eða rannsóknar, enda megi telja að úrslit þess máls eða rannsóknar skipti verulegu máli um úrslit einkamálsins. Eftir orðanna hljóðan er einungis heimilt að fresta einkamáli af þessum sökum meðan rannsókn á refsiverðri háttsemi stendur yfir uns séð er fyrir lok hennar. Að því virtu og þar sem um er að ræða frávik frá þeirri meginreglu réttarfars að hraða skuli meðferð máls verður ákvæðið ekki skýrt svo rúmt að vegna yfirstandandi rannsóknar sé unnt að fresta einkamáli meðan beðið er úrslita sakamáls sem höfðað kann að verða á grundvelli rannsóknarinnar. Samkvæmt því verður málinu á þessu stigi ekki frestað lengur en þar til fyrrgreindri rannsókn sérstaks saksóknara lýkur, hvort sem er með niðurfellingu máls eða saksóknar ellegar útgáfu ákæru.

Eftir þessum málsúrslitum verður málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur, þó þannig að málinu verður ekki frestað lengur en þar til lokið er rannsókn sérstaks saksóknara á ætlaðri refsiverðri háttsemi í tengslum við lán sóknaraðila, Vátryggingafélags Íslands hf.,  til varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., 30. september 2008 og lán varnaraðila til Exista hf. sama dag.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2013.

Mál þetta er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 19. júlí 2012. Það var tekið til úrskurðar þann 8. október sl. um þá kröfu stefnanda að meðferð málsins verði frestað ótímabundið á meðan rannsókn, og eftir atvikum refsimál vegna skuggafjármögnunar VÍS til Exista í gegnum Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf., er til meðferðar hjá embætti sérstaks saksóknara, ákæruvaldinu og dómstólum ef til þess kemur.

Stefnandi er Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. í slitameðferð, Lágmúla 6 í Reykjavík.

Stefndi er Vátryggingafélag Íslands, Ármúla 3 í Reykjavík.

Í málinu gerir stefnandi aðallega eftirfarandi kröfu:

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.000.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. október 2008 til greiðsludags.

Til vara gerir stefnandi eftirfarandi kröfur:

1. Að rift verði þeirri ráðstöfun sem fólst í greiðslu stefnanda inn á innlánsreikning stefnda hjá stefnanda nr. 1158-26-690689 vegna peningamarkaðsláns nr. SLT015069, dags. 30. september 2008, að fjárhæð 2.000.000.000 kr.

2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.000.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. október 2008 til greiðsludags.

Til þrautavara gerir stefnandi eftirfarandi kröfur:

                1. Að rift verði þeirri ráðstöfun að aflétta bindingu tékkareiknings stefnda hjá stefnanda nr. 1158-26-690689 þann 9. janúar 2009 og eftirfarandi útgreiðslu af reikningnum sem þá hafði verið færður til Nýja Kaupþings banka hf. og fékk þar númerið 0336-26-690689 að fjárhæð 2.000.000.000 kr. þann 23. mars 2009.

                2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.000.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu aðallega frá 9. janúar 2009 til greiðsludags en til vara er krafist dráttarvaxta frá 23. mars 2009 til greiðsludags.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi greiðslu málskostnað úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalmeðferð málsins að viðbættum virðisaukaskatti eða að skaðlausu að mati dómsins.

Stefndi gerði aðallega kröfu um að þrautavarakröfu stefnanda yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði kveðnum upp 2. júlí sl. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnda og til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórlega. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann 29. september 2008 veitti stefndi stefnanda tveggja milljarða króna peningamarkaðslán. Lánið bar 18,5% vexti og var með gjalddaga einum mánuði síðar eða 31. október s.á. Sama dag og stefnandi fékk lán frá stefnda veitti stefnandi félaginu Exista ehf. peningamarkaðslán sömu fjárhæðar og með sama gjalddaga. Vextir þess láns voru 18,75%. Á gjalddaga lánanna, þann 31. október 2008, greiddi stefnandi inn á tékkareikning stefnda andvirði lánsins ásamt umsömdum vöxtum. Tékkareikningurinn, sem var númer 1158-26-690689, var lokaður fyrir úttekt (bundinn reikningur). Að sögn stefnanda var bindingunni aflétt þann 9. janúar 2009 og fyrir liggur að stefndi tók féð út af reikningnum 23. mars það ár. Áður höfðu öll innlán stefnanda færst yfir til Nýja Kaupþings, nú Arion banka hf., á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sem vék stjórn stefnanda frá og skipaði honum skilanefnd með stoð í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 tveimur dögum fyrr, þ.e. 21. mars 2009.

Lán stefnanda til Exista var hins vegar framlengt sama dag með nýju peningamarkaðsláni en félagið greiddi stefnanda vexti. Með samningi 29. janúar 2009 var lán Exista aftur framlengt með nýju peningamarkaðsláni með gjalddaga 16. mars 2009. Vextir þess láns voru 22.5%. Í tilkynningu til Kauphallar frá 17. desember 2008 kemur fram að Exista eigi í viðræðum við innlendar og erlendar fjármálastofnanir um endurskoðun lánasamninga og uppgjör gagnkvæmra krafna. Staða félagsins sé óljós af þeim sökum og hyggist Exista leita samninga um frestun á greiðslu vaxta og afborgana á meðan á viðræðum standi. Exista hefur ekki endurgreitt stefnanda lánið.

Tengslum stefnanda, stefnda og Exista ehf. var þannig háttað að stefndi átti 4,26% eignarhlut í stefnanda, stefnandi átti um 2,41% hlut í Exista en stefndi var dótturfélag Exista, í 100% eigu félagsins. Guðmundur Hauksson var forstjóri stefnanda og átti 1,14% hlut í honum (57.280.713 hluti). Guðmundur sat í stjórn Exista og átti 0,02% hlut í félaginu (3.504.198 hluti). Guðmundur var auk þess stjórnarformaður Kistu hf., sem var í 49% eigu stefnanda, en Kista átti á 7,17% hlut í Exista. Þá var Erlendur Hjaltason annar af tveimur forstjórum Exista og stjórnarformaður stefnanda frá 27. febrúar 2008 en áður sat hann í stjórn hans. Erlendur átti persónulega 0,07% hlut í Exista (13.109.699 hluti) og aðilar honum tengdir áttu til viðbótar rúmlega 11 milljónir hluta. Erlendur átti 0,059% hlut í stefnanda (2.972.021 hlut). Erlendur sat í stjórn stefnda frá 12. desember 2006 og var um tíma varaformaður stjórnar. Sigurður Valtýsson, hinn forstjóri Exista, var stjórnarformaður stefnda frá 31. júlí 2006. Aðilar tengdir honum áttu 24.716.713 hluti í Exista.

Aðila greinir á um hvort framangreint lýsi nánum tengslum milli aðila og hvort þessi tengsl hafi áhrif að lögum. Þá greinir aðila á um forsendur og tengsl framangreindra lánveitinga. Stefnandi byggir á því að lánveitingar þessar séu viðskiptaflétta þar sem stefnandi sjálfur hafi verið milliliður en raunverulega hafi stefndi verið að lána móðurfélagi sínu, Exista, tvo milljarða. Aðkoma stefnanda hafi verið nauðsynleg að sögn stefnanda vegna þess að milliliðalaus lánveiting frá stefnda til móðurfélags hefði farið í bága við 104. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Þá heldur stefnandi því fram að endurgreiðslur lánanna hafi átt að tengja saman þannig að stefndi ætti ekki að fá sitt lán greitt nema Exista greiddi stefnanda. Til stuðnings þessum málatilbúnaði hefur stefnandi lagt fram fjölmörg gögn. Meðal þeirra eru endurrit símtala og tölvuskeyti milli aðila sem sáu um framkvæmd viðskiptanna.

Stefndi hafnar alfarið þessum málatilbúnaði og telur umrædda lánasamninga tvo sjálfstæða og ótengda gerninga enda ekkert í lánasamningunum sjálfum eða öðrum skriflegum gögnum tengdum lánveitingunum sem tengi þessa gerninga saman. Stefndi hafi enga vitneskju haft um lánveitingu stefnanda til Exista.

II

Í þinghaldi þann 8. október sl. gerði stefnandi þá kröfu að máli þessu yrði frestað ótímabundið á meðan rannsókn og eftir atvikum refsimál vegna skuggafjármögnunar VÍS til Exista í gegnum SPRON væri til meðferðar hjá embætti sérstaks saksóknara, ákæruvaldinu og dómstólum ef til þess kemur.

Stefnandi vísar til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu sinni um frestun málsins en þar segir m.a. að fái dómari í einkamáli vitneskju um að rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis og telja megi að úrslit þess máls eða rannsóknar skipti verulega máli um úrslit málsins þá geti hann frestað máli þar til séð er fyrir enda á sakamáli eða rannsókn.

Stefndi byggir á því að í máli þessu sé aðalkrafa hans byggð á meginreglum kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár og um óréttmæta auðgun. Kjarninn í málatilbúnaði í aðalkröfu hans sé sá að stefnandi hafi verið milliliður í skuggafjármögnun stefnda til Exista. Þannig hafi „flétta“ verið sett í framkvæmd í því skyni að koma 2 milljörðum króna frá stefnda til Exista hf. Lánveiting stefnda til Exista hafi verið ólögmæt. Þátttaka stefnanda í viðskiptunum hafi verið til málamynda og engin raunveruleg viðskipti átt sér stað milli aðila þessa máls. Sá þáttur, sem lýtur að ólögmætri lánveitingu stefnda til Exista sé nú til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Niðurstaða þess máls hafi augljóslega mikla þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls enda um sama sakarefni að ræða.

III

Stefndi mótmælir því alfarið að málinu verði frestað á þeim forsendum sem stefnandi byggir á. Stefndi vísar til þess að hvorki fyrrverandi né núverandi starfmenn þess eða stjórnendur hafi réttarstöðu sakbornings í því máli sem til rannsóknar sé hjá sérstökum saksóknara. Þá liggi ekkert fyrir um það hvenær rannsókn þess máls ljúki og hvort rannsóknin gefi ástæðu til útgáfu ákæru. Stefndi byggir á því að skilyrði til að fresta máli á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki fyrir hendi þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að úrslit umræddrar sakamálarannsóknar skipti verulegu máli fyrir úrslit fyrirliggjandi máls. Vísað sé til þess sem að framan er rakið að starfsmenn stefnda hafi ekki réttarstöðu sakbornings og stefnandi hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að úrslit rannsóknar séu til þess fallin að hafa veruleg áhrif á útslit þessa máls, en fyrir þeirri staðhæfingu sinni beri stefnandi sönnunarbyrði. Þá vísar stefndi til þess að heimild til að fresta máli samkvæmt nefndri grein laga nr. 91/1991 sé undantekningarregla og í andstöðu við meginregluna um hraða málsmeðferð. Af þeim sökum beri að túlka heimildina þröngt. Auk þessa sé það sérstaklega þungbært fyrir stefnda, sem sé hlutafélag sem er skráð á skipulagðan verðbréfamarkað, að þola frestun á málinu þar sem öll óvissa í rekstri valdi tjóni, einkum í ljósi þess að fjárkrafan í máli þessu nemi stórum hluta af eigin fé stefnda. Loks heldur stefndi því fram að ekki sé unnt að fallast á að fresta máli í óákveðinn tíma.

IV

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa stefnanda um að fresta málinu á meðan rannsókn stendur yfir og málssókn, ef til hennar kemur, á máli vegna ætlaðrar skuggafjármögnunar stefnda til Exista í gegnum stefnanda. Af hálfu stefnda er þess krafist að kröfu stefnanda um frestun verði hafnað.

Stefndi mótmælir því að sýnt hafi verið fram á að rannsókn sérstaks saksóknara hafi verulega þýðingu fyrir úrslit þessa máls.

Stefnandi hefur lagt fram bréf frá embætti sérstaks saksóknara frá 19. september sl. Bréfið er svar við fyrirspurn stefnanda frá því 15. mars s.á. Í fyrirspurninni er vísað til fundar stefnanda með embættinu þar sem dómsmál þetta var til umfjöllunar. Fram kemur að embættið hafi fengið afrit af öllum gögnum þessa máls Þá er vísað til allítarlegrar umfjöllun í DV um þau viðskipti sem eru tilefni málssóknar þessarar þar sem því er haldið fram að embætti sérstaks saksóknara hafi þau til rannsóknar. Í fyrirspurn stefnanda er síðan spurt um gang rannsóknar á málinu og hvort vænta megi útgáfu ákæru í bráð. Auk þess óskar stefnandi eftir aðgangi að gögnum málsins.

Í svarbréfi embættis sérstaks saksóknara segir að rannsókn greinds sakamáls sé langt á veg komin og að henni lokinni verði metið hvort ástæða sé til útgáfu ákæru. Með hliðsjón af fyrirspurn stefnanda og þeirri fréttaumfjöllun sem hann vísar til í fyrirspurn sinni fer það tæpast á milli mála að í svarbréfi embættis sérstaks saksóknara er vísað til rannsóknar á sömu viðskiptum og atvikum þeim tengdum og deilt er um í þessu máli. Í máli þessu er bæði deilt um staðreyndir máls og huglæga afstöðu einstakra aðila. Að mati dómsins liggur fyrir með fullnægjandi hætti að umrædd rannsókn sérstaks saksóknara varði þau viðskipti sem eru grundvöllur málshöfðunar stefnanda í þessu máli þótt ekki fáist upplýsingar um það á þessu stigi rannsóknarinnar hverjir hafi stöðu sakbornings og hvaða refsibrotum rannsóknin beinist að. Verður að telja að rannsókn sérstaks saksóknara geti haft verulega þýðingu varðandi úrslit þessa máls. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt fyrir liggi að enginn stjórnarmaður eða starfsmaður stefnda hafi nú réttarstöðu sakbornings í málinu.

Fyrir liggur að rannsókn embættis saksóknara er langt á veg komin. Þá er ljóst að við rannsóknina er aflað gagna og upplýsinga sem geta haft verulega þýðingu í máli þessu en hvorki stefnandi né stefndi hafa aðgang að þeim gögnum á meðan rannsókn stendur yfir.

Að virtu framangreindu er fallist á það með stefnanda að niðurstaða rannsóknar sérstaks saksóknara kunni að hafa verulega þýðingu fyrir úrslit þessa máls auk þess sem ný gögn og upplýsingar geti verið til stuðnings málsástæðum aðila. Eins og atvikum er háttar er því fallist á að skilyrði séu til að beita undantekningarreglu 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 gegn andmælum stefnda. Verður því beiðni stefnanda um frestun málsins tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki verður séð að ákvæði 3. mgr. 102. gr. standi því í vegi að frestun málsins verði markaður tími með þeim hætti sem gert er í úrskurðarorði.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er frestað þar til fyrir liggur niðurstaða rannsóknar sérstaks saksóknara á ætlaðri skuggafjármögnun stefnda til Exista í gegnum stefnanda, eða eftir atvikum úrslit sakamáls, verði það höfðað í kjölfarið.