Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-17

Guðmundur Ásgeirsson (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Fyrning
  • EES-samningurinn
  • Neytendalán
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 14. febrúar 2022 leitar Guðmundur Ásgeirsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. janúar sama ár í máli nr. 671/2020: Guðmundur Ásgeirsson gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili telur vafa leika á að skilyrði nefnds lagaákvæðis um veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt.

3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til þess að leyfisbeiðandi tók árið 2006 verðtryggt neytendalán hjá Landsbankanum hf. sem var að fullu greitt árið 2015. Árið 2020 höfðaði hann mál á hendur gagnaðila til greiðslu skaðabóta sem námu þeim lánskostnaði sem hann greiddi umfram þá fjárhæð sem hann telur að Landsbankinn hf. hefði haft heimild til að innheimta. Kröfuna reisir hann á því að tilskipun 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán hafi verið ranglega innleidd í íslenskan rétt með þágildandi lögum nr. 121/1994 um neytendalán. Það hefði leitt til þess að hann hefði orðið fyrir fyrrgreindu fjárhagslegu tjóni.

4. Í dómi Landsréttar, sem staðfesti héraðsdóm um sýknu gagnaðila, kom fram að fyrningarfrestur kröfu hans hefði byrjað að líða eigi síðar en 26. nóvember 2015. Þá var hafnað þeirri málsástæðu leyfisbeiðanda að málarekstur hans gegn Landsbankanum hf. fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hefði slitið fyrningu kröfunnar á hendur gagnaðila á grundvelli 16. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að krafan hefði verið fyrnd þegar málið var höfðað fyrir héraðsdómi 4. mars 2020.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Í þeim efnum vísar hann til að úrslit þess muni hafa fordæmisgildi um rétt fjölda lántaka til skaðabóta. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi og efni til. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að ranglega hafi verið lagt til grundvallar að upphafstími fyrningarfrests kröfunnar hafi verið 26. nóvember 2015. Rétt hefði verið að miða við 28. maí 2018 þegar hann fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjón sitt. Þá telur hann að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant meðal annars vegna þess að ekki hafi verið tekin afstaða til tiltekinna þátta í málatilbúnaði hans.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.