Hæstiréttur íslands
Mál nr. 245/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2017, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að tekin yrði skýrsla af Bryndísi Hrafnkelsdóttur, forstjóra sóknaraðila. Um kæruheimild er vísað til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómur, þrátt fyrir ótvíræð fyrirmæli 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991, komist að þeirri niðurstöðu að skýrsla skuli tekin fyrir dómi af fyrirsvarsmanni sóknaraðila vegna máls sem varnaraðili rekur gegn sóknaraðila fyrir Hæstarétti. Slíkur úrskurður, sem felur ekki í sér synjun um heimild til að afla sönnunargagns, er hins vegar ekki kæranlegur samkvæmt gagnályktun frá e. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 31. mars 2017
Mál þetta, sem barst dóminum 7. mars sl., var tekið til úrskurðar 20. mars sl. Sóknaraðili er Gunnlaugur Hrannar Jónsson, Hörðukór 3, Kópavogi. Varnaraðili er Happdrætti Háskóla Íslands, Tjarnargötu 4, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að tekin verði skýrsla fyrir dómi af Bryndísi Hrafnkelsdóttur, forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
I
Málsatvik
Forsaga þessa máls er sú að sóknaraðili höfðaði 7. nóvember 2015 mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur varnaraðila. Ágreiningur aðila snerist um hvort að happdrættismiði sóknaraðila hjá varnaraðila væri gildur eða ekki, þ.e. hvort að varnaraðila væri skylt að greiða sóknaraðila út vinning sem kom á númer varnaraðila. Sóknaraðili krafðist þess að varnaraðili greiddi sér 9.980.500 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Varnaraðili krafðist sýknu. Með dómi héraðsdóms í máli nr. E-854/2016 sem upp var kveðinn 18. nóvember 2016 var varnaraðili sýknaður af kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili hefur áfrýjað málinu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu útgefinni 13. febrúar sl. Í beiðni sóknaraðila til dómsins, frá 7. mars sl., var þess krafist að nánar tilgreindir einstaklingar auk Bryndísar Hrafnkelsdóttur, forstjóra varnaraðila, gæfu skýrslu fyrir dóminum. Við fyrirtöku málsins 5. mars sl. gáfu Sigrún Jónsdóttir og Úlfar Gauti Haraldsson, rekstrarstjóri flokkahappdrættis varnaraðila skýrslu fyrir dóminum, en varnaraðili hefur mótmælt því að Bryndís Hrafnkelsdóttir gefi skýrslu og er sá þáttur málsins eingöngu til úrlausnar hér fyrir dóminum.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður að í tilefni af áfrýjun málsins til Hæstaréttar sé sóknaraðila nauðsynlegt að leiða fyrir dóminn fyrirsvarsmann varnaraðila til að gefa skýrslu og eftir atvikum að afla staðfestingar á nýjum skjölum og gögnum, sem sóknaraðili hyggst leggja fram í Hæstarétti.
Sóknaraðili vísar til 76. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá vísar hann í ákvæði 75. gr. og VII. kafla laganna um skýrslugjöf aðila.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir á að forstjóri varnaraðila sé fyrirsvarsmaður aðila máls og hafi hún því ekki vitnaskyldu. Gert hafi verið ráð fyrir að óskað væri eftir skýrslum til að upplýsa mál og því hafi rekstrarstjóri flokkahappdrættis varnaraðila verið boðaður til að gefa þær upplýsingar, í ljósi þekkingar hans.
Varnaraðili byggir á því að 1. mgr. 76. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. mgr. 73. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verði ekki beitt til að knýja gagnaðila til að koma fyrir dóm og gefa skýrslu, enda takmarkist sú heimild sem þar sé að finna, til að afla gagna í tengslum við reksturs máls fyrir æðra dómi, við að aðili óski sjálfur að gefa skýrslu. Því eigi 2. mgr. 48. gr. laganna ekki við.
Varnaraðili vísar til þess að þrátt fyrir að í 1. mgr. 75. gr. laganna segi að fara skuli eftir ákvæðum II. og VII.–X. kafla þegar gagnaöflun af þessu tagi fari fram þá sé áskilið að það verði gert eftir því sem átt getur við. Við gagnaöflun sem fram fari samkvæmt 77. gr. laganna beri einnig að fara eftir ákvæðum II. og VII.–X. kafla eftir því sem átt geti við en Hæstiréttur hafi ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að skýrsla verður ekki tekin samkvæmt þessum heimildum fyrir dómi af þeim, sem fyrirsjáanlega yrði aðili að væntanlegu dómsmáli.
Þá byggir varnaraðili á því að þó að aðila væri heimilt að beita XI. kafla laga nr. 91/1991 til að knýja gagnaðila til að gefa skýrslu fyrir dómi þá liggi ekkert fyrir um nauðsyn þess að forstjóri varnaraðila gefi skýrslu fyrir dóminum, enda hafi rekstrarstjóri flokkahappdrættis varnaraðila þegar komið fyrir dóminn og svarað öllum spurningum sem lögmaður sóknaraðila lagði fyrir hann. Við lok þeirrar skýrslutöku hafi komið fram að lögmaður sóknaraðila hafi ekki haft fleiri spurningar og hann hafi ekki upplýst um neinar spurningar sem nauðsynlegt sé að afla svara við sem rekstrarstjórinn sé ekki í stakk búinn að svara af hálfu varnaraðila. Því telji varnaraðili hvorki tilefni né ástæðu til að forstjóri hans komi fyrir dóminn til skýrslugjafar.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess, á grundvelli 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að tekin verði skýrsla af Bryndísi Hrafnkelsdóttur, forstjóra varnaraðila, Happdrættis Háskóla Íslands. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991 er Bryndís fyrirsvarsmaður varnaraðila og hefur hún því ekki vitnaskyldu í þessu máli. Kemur þá til skoðunar hvort henni beri að gefa aðilaskýrslu.
Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram að ákvæðum 75. gr. laganna skuli beitt þegar gagna sé aflað í héraði í tengslum við reksturs máls fyrir æðra dómi. Í 1. málslið 1. mgr. 75. gr. laganna er svo meðal annars vísað til VII. kafla sem fjallar um skýrslugjöf aðila. Af skýru orðalagi ákvæðisins verður að telja að skýrslutökur aðila séu heimilar í málum sem rekin eru fyrir dómi á grundvelli 76. gr. laganna.
Varnaraðili byggir á því að það sé með öllu þarflaust að fyrirsvarsmaður hans gefi skýrslu. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991 er dómara rétt að kveðja aðila fyrir dóm, eftir kröfu gagnaðila, nema dómari telji sýnilegt að skýrslan sé þarflaus og tilgangslaus. Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi ekki skýrlega greint frá því hvaða tilgangi umbeðin skýrslutaka þjónar er þó ekki, eins og málið liggur fyrir dóminum, unnt á þessu stigi að fullyrða að umbeðin sönnunarfærsla sé þarflaus í skilningi áðurnefnds ákvæðis. Bendir dómurinn á að það er að lokum Hæstaréttar að taka afstöðu til þýðingar hennar við efnislega úrlausn málsins. Verður því að taka beiðni sóknaraðila til greina.
Málskostnaðar var ekki krafist og úrskurðast hann því ekki.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 20. mars 2017.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Skýrsla skal tekin fyrir dómi af Bryndísi Hrafnkelsdóttur, forstjóra varnaraðila, Happdrættis Háskóla Íslands.