Hæstiréttur íslands
Mál nr. 600/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Mánudaginn 16. september 2013. |
|
Nr. 600/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Víðir Smári Petersen hdl.) |
Kærumál. Farbann.
X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til þriðjudagsins 8. október 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að kærði haldi frelsi sínu gegn því að hann setji tryggingu, en að því frágengnu að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærða X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi farbanni til þriðjudagsins 8. október 2013 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu rannsaki andlát A, kt. [...], sem, sunnudagskvöldið 17. mars sl., hafi verið flutt meðvitundarlaus af heimili sínu í Reykjavík á Landspítalann við Hringbraut. Stúlkan hafi látist nokkrum klukkustundum eftir komu á slysadeild vegna heilablæðingar. Það hafi verið niðurstaða læknis, sem hafi skoðað barnið, að útlit blæðingarinnar samræmdist blæðingu af völdum áverka, höggs eða því þegar heili kastast til inni í höfuðkúpu. Þá hafi áverkar á höndum bent til þess að barnið hefði verið beitt ofbeldi.
Vegna framangreinds hafi kærði verið handtekinn og yfirheyrður vegna málsins. Hann hafi neitað að hafa valdið áverkum dóttur sinnar. Hann hafi greint lögreglu frá því að hafa verið einn heima með barnið sem hafi vaknað skömmu eftir að móðir þess hafi farið til vinnu. Barnið hafi grátið og verið óvært en hann hafi reynt að róa það með því að ganga með það um gólf og fara með það út að ganga. Þegar kærði hafði gengið um gólf með barnið, eftir að hann kom inn úr göngutúrnum, hafi farið að koma frá því undarleg hljóð og jafnframt hafi líkami þess orðið máttlaus. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi móðir barnsins farið til vinnu kl. 17:40 og barnið þá verið sofandi. Laust fyrir klukkan 19:00 hafi kærði hringt í móður barnsins og sagt henni að eitthvað amaði að barninu.
A hafi verið krufin þriðjudaginn 19. mars sl. og bráðabirgðarsamantekt á niðurstöðum krufningarinnar bendi til þess að barnið hafi verið beitt ofbeldi með þeim hætti að það hafi verið hrist skömmu fyrir andlát þess. Þetta sjáist á ytri áverkum á handleggjum barnsins og blæðingu í höfði og hjarta þess. Þá beri barnið einnig merki þess að hafa verið beitt ofbeldi áður, en eldri blæðingar og áverkar hafi verið sjáanlegir á rifjum og vinstri sköflungi barnsins. Það sé niðurstaða krufningarinnar að barnið hafi látist vegna svokallaðs shaken baby syndrome.
Kærði neiti alfarið að hafa valdið áverkum dóttur sinnar en geti ekki gefið skýringar á þeim miklu blæðingum og útvortis áverkum sem hún hafi borið við komu á slysadeild 17. mars sl. en hann hafi verið sá eini sem hafði með barnið að gera þar til það missti meðvitund.
Rannsókn málsins sé að mestu lokið en enn sé beðið endanlegrar niðurstöðu krufningar svo unnt sé að senda málið Ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi réttarmeinafræðingurinn, sem krufði barnið, lokið niðurstöðum sínum en bíði nú eftir áliti annars sérfræðings í Bandaríkjunum svo unnt sé að ljúka og senda niðurstöður krufningar til lögreglu. Endanleg niðurstaða hafi átt að liggja fyrir um miðjan ágústmánuð en töf hafi orðið á henni þar sem sérfræðingurinn hafi óskað eftir frekari lífsýnum til að leggja mat sitt á málið.
Kærði hafi upphaflega verið úrskurðaður í gæsluvarðhald með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, 18. mars sl., í máli nr. R-109/2013 sem Hæstiréttur hafi staðfest með dómi réttarins í máli nr. 184/2013. Kærða hafi í framhaldi verið gert að sæta farbanni sem Hæstiréttur hafi meðal annars staðfest með dómi í máli réttarins nr. 551/2013.
Kærði liggi, samkvæmt framansögðu, undir sterkum rökstuddum grun um að hafa valdið dauða dóttur sinnar, A, og hafa þar með framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varði allt að 16 ára fangelsi eða eftir atvikum gegn 215. gr. sem geti varðað fangelsi allt að 6 árum.
Að mati lögreglustjóra sé þetta brot þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða á landinu vegna rannsóknar málsins og mögulegrar málsmeðferðar fyrir dómi. Kærði búi hér á landi en hann sé breskur ríkisborgari. Hann hafi einungis verið búsettur hér í rúmt ár og sé atvinnu- og húsnæðislaus. Eftir andlát dóttur sinnar hafi hann lítil tengsl við landið þar sem hann hafi fyrst og fremst verið í tengslum við barnsmóður sína og fólk tengt henni. Það sé því mat lögreglustjóra að nauðsynlegt sé að kærði sæti farbanni á meðan meðferð þessa máls standi.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði sé sakaður um, teljist uppfyllt skilyrði til að hann sæti farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008.
Fram er komið að dóttir kærða, tæplega hálfs árs, lést aðfaranótt 18. mars sl. Hún var í umsjá kærða er hún missti meðvitund og samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi við umönnun hennar gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Kærði hefur sætt farbanni vegna þessa frá 18. mars sl., nú síðast samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 19. ágúst 2013. Rannsókn málsins er langt á veg komin, en enn er þó beðið sérfræðiálits um niðurstöðu krufningar þar sem sá sérfræðingur í Bandaríkjunum sem leitað var álits hjá óskaði eftir frekari lífsýnum sem voru send honum eins fljótt og kostur var. Lögregla væntir niðurstöðu rannsóknarinnar innan örfárra vikna. Kærði, sem er erlendur ríkisborgari, hefur takmörkuð tengsl við landið. Þegar endanleg niðurstaða rannsóknar réttarmeinafræðinga liggur fyrir þarf að bera hana undir kærða. Því er fallist á það með lögreglustjóra að enn sé þörf á því að tryggja nærveru kærða svo unnt verði að ljúka rannsókn málsins og taka ákvörðun um hvort sækja skuli hann til saka, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Verður því að telja að enn séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 100. gr., sbr. b.-lið 1. mgr. 95. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að fallast megi á kröfu lögreglustjóra um farbann. Ekki er fallist á að trygging samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægjandi ráðstöfun til að tryggja nærveru kærða og því er varakröfu kærða hafnað. Ekki þykja heldur rök fyrir því að fallast á þrautavarakröfu hans og marka farbanninu skemmri tíma.
Eins og atvikum er háttað þykir meðferð málsins ekki enn hafa dregist úr hófi fram enda hefur lögregla gefið skýringar á því hvers vegna niðurstaða sérfræðings í Bandaríkjunum liggur ekki enn fyrir. Af þessum sökum er fallist á þá kröfu lögreglustjórans að kærði sæti áfram farbanni, eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingiríður Lúðvíksdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærða, X, kt. [...], er bönnuð för af landinu allt til þriðjudagsins 8. október 2013, kl. 16:00.