Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2011
Lykilorð
- Skuldamál
- Kyrrsetning
|
|
Fimmtudaginn 15. desember 2011. |
|
Nr. 285/2011.
|
Kristján Ingólfsson og Sigurður Örn Leósson (Sigurður Jónsson hrl.) gegn Friðriki Þorbergssyni (Jón Einar Jakobsson hrl.) |
Skuldamál. Kyrrsetning.
F krafði K og S um greiðslu skuldar, en F hafði afhent þeim tiltekna fjárhæð sem fara skyldi í ávöxtun erlendis og bera 10% mánaðar ávöxtun og tryggðan höfuðstól. Deildu aðilar um það hvort K og S hefðu með yfirlýsingu ábyrgst 10% ávöxtun fjárins. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að túlka yrði orðalag yfirlýsingarinnar svo að fjárfesting með 10% mánaðar ávöxtun væri fyrirhuguð en að K og S hefðu ekki persónulega ábyrgst hana. Orðalag yfirlýsingarinnar um tryggan höfuðstól var aftur á móti talið fela í sér ábyrgð K og S á því að F fengi höfuðstól fjárhæðarinnar til baka, svo sem þeir hefðu sjálfir viðurkennt. Var þeim því gert að endurgreiða F höfuðstólinn að frádregnum þeim innborgunum sem þeir höfðu þegar innt af hendi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. maí 2011. Þeir krefjast þess aðallega að þeir verði einungis dæmdir til að greiða stefnda 2.100.000 krónur án vaxta en til vara sömu fjárhæð með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum frá 23. september 2010 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms. Til vara krefst hann þess að áfrýjendum verði óskipt gert að greiða honum aðra lægri fjárhæð, en að héraðsdómur verði að öðru leyti staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjendur kveðast um nokkurra ára skeið hafa leitað leiða til að ávaxta peninga erlendis sem bjóði upp á mikla ávöxtun og hafi þeir sérstaklega leitað eftir ávöxtunarleiðum þar sem fjárfestum væri áhættan fullljós enda væri ávöxtunarkrafan í samræmi við það. Áfrýjendur hafna því að þeir hafi haft atvinnu og umboð erlendra fyrirtækja til að afla fjár til ávöxtunar. Haustið 2009 hafi áfrýjendur ásamt tveimur erlendum aðilum gert samning um ávöxtunarleið við gjaldeyrismiðlun í Bretlandi sem hafi kveðið á um 10% arðsemismarkmið á mánuði en það hafi miðast við að hinn erlendi sjóður fengi að lágmarki eina milljón dollara til ávöxtunar.
Stefndi afhenti áfrýjendum 10.000.000 krónur 31. júlí 2009 til ávöxtunar. Með yfirlýsingu 31. ágúst sama ár staðfestu áfrýjendur móttöku fjárins en þar segir: „Staðfesting á móttöku 10.000.000 króna. Það staðfestist hér með að ... undirritaðir Sigurður Leósson ... og Kristján Ingólfsson ..., hafa móttekið 10.000.000 króna frá Friðrik Þorbergssyni ... Þessar 10.000.000 króna fara í ávöxtun erlendis og bera 10% mánaðar ávöxtun og tryggðan höfuðstól.“
Framangreind fjárfestingarhugmynd áfrýjenda mun ekki hafa gengið eftir og kveða þeir að þess vegna hafi ekki verið um annað að ræða en að endurgreiða stefnda höfuðstólinn. Er óumdeilt í málinu að áfrýjendur hafa greitt stefnda samtals 7.700.000 krónur þannig: 1.000.000 krónur 1. september 2009, 1.000.000 krónur 29. september 2009, 1.000.000 krónur 25. nóvember 2009, 500.000 krónur 23. desember 2009, 500.000 krónur 28. desember 2009, 1.000.000 krónur 1. febrúar 2010, 2.000.000 krónur 14. apríl 2010, 50.000 krónur 19. maí 2010, 150.000 krónur 22. júlí 2010, 200.000 krónur 23. ágúst 2010, 200.000 krónur 13. september 2010 og 100.000 krónur 23. september 2010.
Í málatilbúnaði sínum heldur stefndi því fram að framangreind staðfesting um móttöku fjárins sé skuldabréf en samkvæmt því beri áfrýjendum að endurgreiða stefnda fjárhæðina með 10% ávöxtun á mánuði í eitt ár eða frá 1. september 2009 til 1. ágúst 2010 auk dráttarvaxta frá 23. september 2010. Eigi hann því rétt á 12.000.000 króna ávöxtun ofan á 10.000.000 króna höfuðstólinn og séu innborganir áfrýjenda að fjárhæð 7.700.000 krónur greiðslur inn á ávöxtunina. Því standi 14.300.000 eftir af kröfu hans. Við meðferð málsins í héraði krafðist stefndi þess að dómari málsins viki sæti. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði 17. janúar 2011. Með dómi Hæstaréttar 3. mars 2011 í máli nr. 71/2011 var sá úrskurður staðfestur og stefnda gert að greiða áfrýjendum 100.000 krónur í málskostnað hvorum. Er samkomulag með aðilum að draga þennan málskostnað að fjárhæð 200.000 krónur frá kröfu stefnda.
Með kyrrsetningarbeiðni 7. október 2010 fór stefndi þess á leit að sýslumaðurinn í Reykjavík kyrrsetti eignir áfrýjandans Kristjáns vegna kröfu sinnar sem hann kvað vera að fjárhæð 15.777.489 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar. Var eignarhlutur áfrýjandans Kristjáns í fasteigninni Lautarsmára 31, Kópavogi og fasteign hans að Eyrarskógi 90, Hvalfjarðarsveit kyrrsett fyrir kröfunni 18. október 2010.
II
Eins og að framan er rakið segir í áðurnefndri yfirlýsingu áfrýjenda þar sem þeir staðfesta að hafa móttekið 10.000.000 krónur úr hendi stefnda svo: „Þessar 10.000.000 króna fara í ávöxtun erlendis og bera 10% mánaðar ávöxtun og tryggðan höfuðstól.“ Samkvæmt orðanna hljóðan verður ekki af framangreindri yfirlýsingu annað ráðið en að áfrýjendur hafi tekið við umræddu fé í því skyni að ráðstafa því til ávöxtunar erlendis þannig að ávöxtun verði 10% á mánuði. Höfuðstóll sé tryggður. Túlka verður orðalag yfirlýsingarinnar svo að umrædd fjárfesting erlendis með 10% mánaðar ávöxtun sé fyrirhuguð en áfrýjendur séu ekki sjálfir að ábyrgjast stefnda þessa ávöxtun í eitt ár svo sem kröfugerð stefnda gerir ráð fyrir. Orðalag yfirlýsingarinnar um tryggðan höfuðstól verður á hinn bóginn skýrt svo að áfrýjendur ábyrgist að stefndi fái höfuðstólinn til baka og hafa þeir viðurkennt skyldu sína til þess. Með hliðsjón af þessu ber áfrýjendum að endurgreiða stefnda 10.000.000 krónur að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð 7.700.000 krónur og 200.000 krónur vegna málskostnaðar sem samkomulag er um að dragist frá kröfunni eða samtals 2.100.000 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.
Staðfest verður kyrrsetning í eignum áfrýjandans Kristjáns fyrir dæmdri kröfu og áfrýjendum gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Kristján Ingólfsson og Sigurður Örn Leósson, greiði óskipt stefnda, Friðriki Þorbergssyni, 2.100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.300.000 krónum frá 23. september 2010 til 18. mars 2011 en af 2.100.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjendur greiði stefnda óskipt samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Staðfest er kyrrsetning í eignarhluta áfrýjanda, Kristjáns Ingólfssonar, í Lautamára 31, Kópavogi, og Eyrarskógi 90, Hvalfjarðarsveit, fyrir dæmdri kröfu.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. apríl 2011.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 3. nóvember 2010. Stefnandi er Friðrik Þorbergsson, kt. 221149-3009, Stuðlaseli 27, Reykjavík, og stefndu Kristján Ingólfsson, kt. 291150-5199, Lautasmára 31, Kópavogi, og Sigurður Örn Leósson, kt. 150557-2759, Tjarnarbóli 8, 170 Seltjarnarnesi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum skuld að fjárhæð 14.300.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 23. sept. 2010 til greiðsludags en að frádregnum 200.000 krónum, miðað við skuldajöfnun þann 18. mars 2011. Krafist er vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Til vara að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum skuld að fjárhæð 10.000.000 króna með dráttarvöxtum eins og að ofan greinir.
Þá er krafist staðfestingar á kyrrsetningu, sem gerð var af sýslumanninum í Kópavogi 18. október 2010 fyrir 15.777.489 kr. í eigu stefnda Kristjáns Ingólfssonar, þ.e. 50% eignarhluta í Lautasmára 31, Kópavogi, fnr. 206-3794, og Eyrarskógi 90, Hvalfjarðarsveit, fnr. 210-4575.
Þá er krafist málskostnaðar í öllum tilvikum, þ.m.t. kostnaður af kyrrsetningu og þinglýsingu gerðum samkvæmt mati dómsins og/eða málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Endanlegar dómkröfur stefndu eru að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu 2.100.000 króna.
Til vara krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu á 2.100.000 krónum með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum frá 23. september 2010 til greiðsludags. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefnandi gerði þá kröfu við fyrirtöku málsins þann 12. janúar sl. að dómari málsins viki sæti með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 vegna vanhæfis. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum 17. janúar sl. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 71/2011, uppkveðnum 3. mars sl., var sú niðurstaða staðfest. Var stefnandi þá dæmdur til að greiða stefndu 200.000 krónur í málskostnað. Með yfirlýsingu þann 3. mars sl. fór stefnandi fram á að skuldajafna þeirri fjárhæð á móti dómkröfum sínum og var það samþykkt af stefndu. Aðalmeðferð fór fram þann 6. apríl sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik.
Þann 31. ágúst 2009 undirrituðu stefndu eftirfarandi staðfestingu: „Það staðfestist hér með að við undirritaðir Sigurður Leósson knt.150557-2759 til heimilis að Tjarnarból (sic) 8 170 Seltjarnarnes og Kristján Ingólfsson knt. 291150-5199 til heimilis að Lautasmára 31 201 Kópavogi, hafa móttekið 10.000.000 króna frá Friðrik Þorberssyni (sic) knt. 221149-3009 til heimilis að Stuðlaseli 27 109 Reykjavík. Þessa 10.000.000 króna fara í ávöxtun erlendis og bera 10% mánaðar ávöxtun og tryggðan höfuðstól.“ Er undirritun stefndu staðfest af tveimur vitundarvottum.
Samkvæmt gögnum málsins lagði stefnandi inn á bankareikning stefnda Kristjáns, þann 31. júlí 2009, 10.000.000 króna. Stefndu greiddu inn á reikning stefnanda, þann 1. og 29. september 2009, 1.000.000 króna í hvort sinn. Þann 25. nóvember 2009 greiddu stefndu aftur 1.000.000 króna inn á reikning stefnanda og 23. og 28. desember 2009 greiddu stefndu inn á reikning stefnanda 500.000 krónur í hvort sinn. Þá greiddu þeir þann 1. febrúar 2010 1.000.000 króna inn á reikning stefnanda og 14. apríl s.á. 2.000.000 króna. Þann 19. maí 2010 greiddu þeir 50.000 krónur og frá 22. júlí til 23. september 2010 greiddu stefndu samtals 650.000 krónur inn á reikning stefnanda. Samtals greiddu stefndu því inn á reikning stefnanda 7.700.000 krónur.
Kyrrsetningar var krafist fyrir sýslumanninum í Reykjavík þann 7. október 2010 á eignum stefnda Kristjáns fyrir 15.777.489 krónum, sem sagt var höfuðstóll, eftirstöðvar ávöxtunarkröfu, dráttarvextir og annar kostnaður. Fór kyrrsetning fram þann 18. október sl., og voru eignir stefnda Kristjáns Ingólfssonar, sem eru 50% eignarhlutur í Lautasmára 31, Kópavogi, fnr. 206-3794, og Eyrarskógur 90, Hvalfjarðarsveit, fnr. 210-4575, kyrrsettar.
Þann 22. október 2010 var stefna útgefin af dómstjóranum í Héraðsdómi Reykjaness og málið þingfest þann 10. nóvember 2010. Þann 22. desember sl.,, lagði stefndi fram greinargerð og fór málið í úthlutun til dómara í framhaldi.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á staðfestingu þeirri er stefndu rituðu undir og efni hennar, en þeir hafi lofað því að höfuðstóllinn myndi bera 10% mánaðarlega ávöxtun. Hafi átt að endurskoða samninginn að ári liðnu, og þá hvort stefnandi fengi höfuðstólinn endurgreiddan eða legði hann áfram til ávöxtunar. Stefndu hafi greitt stefnanda strax þann 1. september 2009 1.000.000 króna sem hafi verið ávöxtun greidd fyrir fram. Þá hafi stefndu greitt stefnanda upp í ávöxtunarkröfu hans eins og að ofan greinir. Eftir standi því stefnufjárhæð, 14.300.000 krónur, auk dráttarvaxta eins og greinir í stefnu, að frádregnum 200.000 krónum sem stefnandi hafi verið dæmdur til að greiða stefndu með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 71/2011.
Stefnandi kveður stefndu hafa haft samband við sig að fyrra bragði og kynnt fyrir honum væntanlega fjárfestingu og ávöxtunarmöguleika. Ekkert samkomulag hafi verið gert um áhættu eða hvernig ætti að ávaxta féð, utan að það ætti að gera erlendis. Þá byggir stefnandi á því að ósannað sé af hálfu stefndu að engin fjárfesting hafi átt sér stað eins og stefndu haldi fram og að ofangreindar innborganir hafi verið endurgreiðsla á þeim tíu milljónum króna, sem stefnandi hafi látið stefndu í té.
Stefnandi byggir á meginreglu kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, sbr. lög nr. 7/1936. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr., sbr. 6. gr. með síðari breytingum. Kröfuna um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfuna um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. og 42. gr. laga nr. 91/1991 og 36. gr. laga nr. 31/1990.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu byggja aðalkröfu sína um sýknu gegn endurgreiðslu á 2.100.000 krónum á því að ekki sé um skuldabréf að ræða og að enginn samningur hafi verið gerður milli aðila um endurgreiðslu fjárins. Stefnandi hafi viljað leggja fé í erlenda fjárfestingu með mikilli ávöxtun og þá jafnframt mikilli áhættu. Stefndu hafi þegar greitt um 77% af höfuðstólnum til baka og að þeir ætli að greiða það sem eftir standi til stefnanda. Endurgreiðsluplanið hafi allt gengið úr skorðum vegna innheimtuaðgerða og óhóflegrar kröfugerðar stefnanda þegar hann krafðist kyrrsetningar á eignum stefnda Kristjáns. Stefnanda hafi hlotið að vera ljóst að með því að fela stefndu 10.000.000 króna til að leggja í erlendan fjárfestingarsjóð hafi hann tekið verulega áhættu. Stefnandi megi teljast heppinn að hafa þegar fengið 77% fjárhæðarinnar til baka. Það sé því stefndu að þakka að fjárhæðin tapaðist ekki í höndum erlendra fjárfesta. Stefndu hafi gætt þess að ráðstafa ekki fé stefnanda til einhverrar áhættufjárfestingar en þá hefði féð tapast og stefnandi sæti uppi með tjónið. Réttarsamband aðila sé þannig ekki samband kröfuhafa og skuldara eins og það sé skilgreint í lögum 38/2001 um vexti og verðtryggingu og eigi stefnandi þannig ekki rétt á dráttarvöxtum samkvæmt 3. mgr. 5. gr. Eins og kröfugerð stefnanda sé sett fram sé heimild hans til þess að fá dóm fyrir meintri kröfu sinni háð því almenna skilyrði að hinir stefndu séu skuldarar og að efndatími skyldunnar, sem leitað er dóms fyrir, hafi liðið án þess að þeir, sem hana bera, hafi fullnægt henni. Í stefnu sé því haldið fram að stefndu séu umboðsmenn erlendra fjármálafyrirtækja, en ef um það væri að ræða bæru þeir ekki ábyrgð á endurgreiðslunni. Stefndu séu ekki umboðsmenn erlendra fjármálafyrirtækja heldur hafi þeir orðið við beiðni stefnanda um að gera tilraun til að koma þessu fé hans í afar góða ávöxtun erlendis. Sú tilraun hafi ekki tekist og hafi stefndu því ákveðið að endurgreiða stefnanda fjárhæðina að fullu en án ávöxtunar. Hvorki hafi verið samið um endurgreiðslu né gjalddaga. Sú meginregla kröfuréttar að lán beri að endurgreiða þegar þess sé krafist af hálfu kröfuhafa gildi því ekki í þessu tilviki. Sömu rök séu fyrir kröfunni um synjun á staðfestingu kyrrsetningarinnar. Kyrrsetningin sé beinlínis ólögmæt þar sem ekki hafi verið um að ræða skuldabréf og ekki hafi verið lögð fram trygging vegna kyrrsetningarinnar fyrir kröfu sem sögð sé margfalt hærri en raunveruleg krafa.
Varðandi málskostnaðarkröfu stefnanda vilja stefndu benda á að kröfugerð stefnanda sé úr hófi og ekki studd neinum skynsamlegum rökum. Ótímabær og ólögmæt kyrrsetning, þar sem fasteign er kyrrsett fyrir kröfu sem sé mörgum sinnum hærri en möguleg krafa stefnanda sé á hendur stefndu, hljóti að vera á ábyrgð og kostnað stefnanda sjálfs, en sú aðgerð hafi beinlínis valdið stefnda Kristjáni tjóni og gert honum erfitt fyrir í bankaviðskiptum sínum.
Varakröfu sína byggja stefndu á því að þeir hafi samþykkt að endurgreiða stefnanda þær 10.000.000 króna sem þeir tóku á móti til ávöxtunar þann 31. ágúst 2009. Á endurgreiðslu þessa beri að reikna í mesta lagi eðlilega bankavexti. Er varðandi það vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 16. september 2010 í málinu nr. 471/2010, þar sem dæmt hafi verið að lánsfjárhæðin skyldi í stað svonefndrar gengistryggingar vera óverðtryggð en bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, sem væru jafn háir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. sömu laga. Ekki hafi verið samið um endurgreiðslu eða vexti í þessu máli.
Stefndu vísa til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og til almennu skaðabótareglunnar vegna tjóns stefnda Kristjáns af óhóflegum og óþörfum innheimtuaðgerðum stefnanda. Varðandi málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða.
Ekki er ágreiningur í máli þessu um að stefnandi hafi þann 31. júlí 2009 afhent stefndu 10.000.000 króna og að stefndu hafi undirritað yfirlýsingu þess efnis þann 31. ágúst 2009. Ágreiningur aðila snýst um það hvort sú ávöxtunarkrafa sem tekin er fram í yfirlýsingunni hafi verið skilyrðislaus eða átt að vera ávöxtunarmarkmið. Fyrir dóminum kom fram að stefndu hefðu að fyrra bragði haft samband við stefnanda vegna fyrirhugaðrar fjárfestingar og stefndi Kristján samið yfirlýsinguna sjálfur. Þá kom fram hjá stefndu báðum að féð hafði aldrei farið utan vegna gjaldeyrishafta og aldrei átt að gera það, heldur hafi stefndu verið í samningaviðræðum í London þar sem ná átti saman einni milljón dollara og átti að greiða stefnanda ávöxtunarkröfu hans úr þeim sjóði. Fé það sem stefnandi hafi lagt fram hafi farið í að greiða ýmsan kostnað sem hlaust af samningaviðræðum stefndu, heima og erlendis. Stefndu halda því fram að þeir hafi aldrei náð því fjármagni erlendis sem til stóð, eða einni milljón dollara. Þá kom fram að stefnandi var ekki með stefndu í ofangreindum samningaviðræðum og vissi ekki um framvindu þeirra utan að stefndu segjast hafa upplýst hann um að samningar gengju ekki sem skyldi. Stefndu halda því hins vegar fram að strax í upphafi hafi stefnandi byrjað að endurkrefja þá um greiðslur og kvaðst stefndi Kristján hafa greitt honum, af sínu eigin fé, allar þær greiðslur sem höfðu gengið til stefnanda. Stefndu hafi hins vegar verið aðþrengdir fjárhagslega og því ekki getað greitt allan höfuðstólinn út, eins og vilji þeirra hafi staðið til. Þá kom fram hjá stefnda Kristjáni að honum hafi fyrst verið ljóst að stefnandi krefðist þess að fá höfuðstólinn greiddan, þegar fulltrúi sýslumanns stóð á tröppunum hjá honum í þeim tilgangi að kyrrsetja eigur hans til tryggingar fjárkröfu stefnanda sem hafi verið í október 2010. Þá kom fram hjá stefndu að erlent fé hafi aldrei verið til á reikningum erlendis, sérgreint stefnanda eða stefndu, heldur hafi verið fé í sjóði merktum „Gateway“.
Gegn mótmælum stefnanda er alls ósannað hvort fyrirætlanir stefndu um fjárfestingasjóði erlendis hafi gengið eftir eða ekki. Engin gögn hafa verið lögð fram um þá fullyrðingu stefndu að það hafi ekki tekist, eða að stefnandi hafi ætlað að bera áhættuna af því að það tækist. Þá er ósannað að stefnanda hafi verið ljóst hvernig stefndu ætluðu að tryggja ávöxtunarkröfu stefnanda en fyrir liggur að stefndu sömdu sjálfir yfirlýsingu þess efnis að ávöxtun á fjárframlag stefnanda væri 10% mánaðarlega auk þess sem höfuðstóllinn væri tryggður. Þá varð stefndi Kristján tvísaga um það fyrir dóminum, hvort fyrsta greiðsla til stefnanda, þann 1. september 2009, hafi verið fyrsta arðgreiðslan eða innborgun á höfuðstól hans. Verður í þessu sambandi að leggja sönnunarbyrði á stefndu, að um innborganir á höfuðstólinn hafi verið að ræða, en stefndi Kristján kvað fyrir dóminum að honum hefði fyrst verið ljóst að stefnandi væri að krefja hann um höfuðstólinn þegar sýslumaður mætti til hans til að kyrrsetja eignir hans, sem hafi verið 18. október 2010. Samkvæmt gögnum málsins lögðu stefndu í byrjun þrisvar sinnum 1.000.000 króna, sem er 10% af framlögðu fé stefnanda, reglulega inn á reikning stefnanda eins og samkomulagið segir til um. Samrýmist það framburði stefnda Kristjáns, sem kvaðst hafa greitt stefnanda í byrjun ávöxtun, þar sem hann hefði treyst því að samningar þeirra erlendis gengju eftir og hann fengi þær greiðslur sjálfur til baka síðar. Verður því að telja ósannað, gegn mótmælum stefnanda, að stefndi hafi verið að endurgreiða inn á höfuðstól stefnanda á árinu 2009 og 2010, enda taldi stefndi Kristján sjálfur að krafa stefnanda um greiðslur frá stefndu snérist ekki um höfuðstólinn fyrr en í október 2010.
Þrátt fyrir að yfirlýsing stefndu, frá 31. ágúst 2009, sé ekki í formi skuldabréfs, þá er greinilega um viðurkenningu á móttöku fjár að ræða sem átti að nota til ávöxtunar. Stefndu hafa starfað hér á landi við fjárfestingar og á gjaldeyrismarkaði og áttu því að vita hvers konar yfirlýsingu þeir voru að undirrita, en orðalag hennar stafaði frá þeim sjálfum. Hljóta þeir því að bera hallann af óljósu orðalagi hennar. Samkvæmt yfirlýsingunni átti stefndi að fá 10% mánaðarávöxtun af framlagi sínu auk þess sem höfuðstóllinn átti að vera tryggður. Fram hjá því verður ekki litið. Stefnandi hafði auk þess ekkert með það að gera hvernig stefndu ráðstöfuðu fé því sem hann lagði fram, hvort þeir kæmu því til útlanda eða ekki, þrátt fyrir orðalag yfirlýsingarinnar. Ekkert bendir heldur til þess að stefnandi hafi átt að bera áhættuna af því að samningar við erlenda aðila gengju eftir eða ekki, enda kom fram hjá báðum stefndu að stefnandi hafði ekkert með þær samningaumleitanir að gera.
Stefndi Kristján kvaðst fyrir dóminum fyrst hafa vitað að stefnandi var að krefja hann um alla fjárhæðina í október 2010. Þá þegar var áfallin ávöxtun, samkvæmt yfirlýsingunni, 12.000.000 króna. Inn á þá fjárhæð höfðu stefndu greitt stefnanda 7.700.000 krónur. Með bréfi þann 23. ágúst 2010 krafði stefnandi stefndu um greiðslu á höfuðstól, ávöxtun samkvæmt yfirlýsingunni og dráttarvöxtum. Könnuðust stefndu við að hafa fengið það bréf. Verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda höfuðstól kröfunnar ásamt áfallinni ávöxtunarkröfu, fram að þeim tíma er krafa um endurgreiðslu höfuðstóls var gerð auk dráttarvaxta, allt að frádregnum innborgunum stefndu inn á kröfuna. Þá hafa aðilar sammælst um að skuldajafna málskostnaðarkröfu stefndu á hendur stefnanda samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 71/2011. Verður aðalkrafa stefnanda þannig tekin til greina. Þá ber að staðfesta kyrrsetningu þá er sýslumaðurinn í Kópavogi gerði þann 18. október 2010 í 50% eignarhluta stefnda Kristjáns Ingólfssonar í Lautasmára 31, Kópavogi, fastanúmer 206-3794, og Eyrarskógi 90, Hvalfjarðarsveit, fastanúmer 210-4575.
Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefndu in solidum til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilegur 1.000.000 króna, auk útlagðs kostnaðar við kyrrsetningargerð og útgáfu stefnu, samtals 218.100 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndu, Kristján Ingólfsson, kt. 291150-5199 og Sigurður Örn Leósson, kt. 150557-2759, greiði in solidum stefnanda, Friðriki Þorbergssyni, kt. 221149-3009, 14.100.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 12. gr., vaxtalaga nr. 38/2001 af 14.300.000 krónum frá 23. september 2010 til 18. mars 2011, en af 14.100.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Staðfest er kyrrsetning í eignarhluta stefnda Kristjáns Ingólfssonar í Lautasmára 31, Kópavogi, fastanúmer 206-3794, og Eyrarskógi 90, Hvalfjarðarsveit, fastanúmer 210-4575.
Stefndu greiði stefnanda in solidum í málskostnað 1.000.000 króna auk útlagðs kostnaðar, 218.100 krónur.