Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
|
|
Föstudaginn 25. janúar 2002. |
|
Nr. 33/2002. |
Gestur Eggertsson(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hdl.) gegn Árna Þórhalli Leóssyni (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð.
G réð L til að annast búskap á jörðinni S, en G dvaldi ekki á jörðinni á umræddum tíma. Í málinu var upplýst að Á, sonur L, hafði búið með föður sínum að S og aðstoðað hann við bústörfin. Eftir að L lét af störfum reis ágreiningur um eignarhald á dráttarvél sem hafði verið keypt meðan hann annaðist búreksturinn. Á krafðist þess að dráttarvélin yrði tekin úr umráðum G og fengin sér með beinni aðfarargerð. Talið var að Á hefði sýnt fram á eignarrétt sinn að dráttarvélinni með nægilega skýrum hætti þannig að fallast mætti á kröfu hans, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. janúar 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá dráttarvélina ZM 084 tekna úr umráðum sóknaraðila og fengna sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um heimild til fyrrgreindrar aðfarargerðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Gestur Eggertsson, greiði varnaraðila, Árna Þórhalli Leóssyni, 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. janúar 2002.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. desember s.l., barst dóminum með aðfararbeiðni Helga Teits Helgasonar hdl., dags. 9. október s.l.
Sóknaraðili málsins er Árni Þórhallur Leósson, Melasíðu 2f, Akureyri, en varnaraðili Gestur Eggertsson, Steinsstöðum, Öxnadal.
Kröfur sóknaraðila eru, að dráttarvélin ZM-084, Massey Ferguson, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin Helga Teiti Helgasyni hdl. f.h. sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Kröfur varnaraðila í málinu eru, að kröfu sóknaraðila um að dráttarvélin ZM-084 (MF-290) verði tekin úr vörslum varnaraðila, verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
Úrlausnarefni máls þessa er hvort réttur sóknaraðila til dráttarvélarinnar ZM-084 sé svo ljós, sbr. 78. gr. laga nr. 90, 1989, að honum verði með úrskurði heimilað að láta taka vélina úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð.
Málsatvik eru þau, að varnaraðili hefur um margra ára skeið rekið búskap á jörðinni Steinstöðum 1, Öxnadalshreppi. Undanfarin ár hefur varnaraðili hins vegar ekki búið á jörð sinni þar sem hann hefur afplánað refsidóm í fangelsi ríkisins að Kvíabryggju. Hefur hann af þeim sökum þurft að reiða sig á ráðsmenn við rekstur búsins.
Þann 1. nóvember 1997 gerðist Leó Leósson, faðir sóknaraðila, ráðsmaður á jörð varnaraðila og sá hann um rekstur þess búskapar, sem á jörð varnaraðila var stundaður. Heldur varnaraðili því fram, að á meðan Leó Leósson var ráðsmaður á jörðinni hafi sóknaraðili sjálfur búið þar og aðstoðað föður sinn við búreksturinn.
Hin umdeilda dráttarvél var keypt þann 28. maí 1998. Við kaupin var annars vegar tekið lán hjá Glitni hf. og hins vegar hjá Bújöfri hf., sem nú er í innheimtu hjá Landsbanka Íslands. Allar þessar skuldbindingar eru á nafni sóknaraðila.
Í kjölfar kaupanna var dráttarvélin flutt að Steinstöðum 1 í Öxnadal þar sem hún var notuð við bústörfin.
Leó Leósson var sagt upp störfum sem ráðsmaður á jörð varnaraðila þann 24. mars 2001. Samdi varnaraðili í kjölfarið við nýjan aðila um rekstur búsins.
Með bréfi dags. 27. ágúst 2001 skoraði sóknaraðili á varnaraðila að afhenda dráttarvélina. Varð varnaraðili ekki við áskorun sóknaraðila.
Sóknaraðili kveðst vera ótvíræður eigandi dráttarvélarinnar ZM-084 og hafi hann allt frá því í sumarbyrjun 2001 óskað eftir því við varnaraðila að hann afhenti dráttarvélina, en án árangurs.
Með bréfi dags. 27. ágúst 2001 hafi verið skorað á gerðarþola að afhenda dráttarvélina og hafi bréfið verið birt þann 28. ágúst 2001 fyrir dóttur gerðarþola á lögheimili hans að Steinsstöðum í Öxnadal. Ítrekaðar tilraunir sóknaraðila eftir þetta hafi engan árangur borið og honum sé því sá kostur einn fær, að krefjast beinnar aðfarargerðar, svo hann megi fá umráð dráttarvélarinnar.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til 78., sbr. 73. gr. laga nr. 90, 1989 um aðför.
Varnaraðili kveðst byggja á þeirri málsástæðu, að hann sé einn eigandi hinnar umdeildu dráttarvélar og af þeim sökum beri að hafna kröfu sóknaraðila, þar sem skilyrðum 78. gr. laga nr. 90, 1989 um aðför sé ekki fullnægt.
Í 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga kveður varnaraðili felast skilyrði, sem sóknaraðila beri að sanna að sé fullnægt samkvæmt skýru efni ákvæðisins. Varnaraðili bendir á, að við skýringu nefnds skilyrðis verði að horfa til þess, að aðfarargerð samkvæmt tilvitnaðri grein teljist til bráðabirgðagerða en slíkar gerðir séu, ásamt öðrum fullnustugerðum, undantekning frá þeirri grunnreglu íslensks réttar, að aðför fari ekki fram án undangengins dóms. Af þessu leiði, að skýra beri ákvæði 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga þröngri lögskýringu og gera í því sambandi sérstaklega strangar kröfur til sóknaraðila um sönnun fyrir skýrum rétti hans.
Varnaraðili kveður í 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga felast það efnisskilyrði, að réttindi sóknaraðila verði að vera svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verði samkvæmt 83. gr. laganna. Með tilvísun til 83. gr. sé sett sú regla, að sóknaraðili verði að geta fært sönnur á rétt sinn með sýnilegum sönnunargögnum, þ.e. skjalfestum gögnum. Eina skjalfesta sönnun sóknaraðila fyrir meintum rétti hans sé skráningarskírteini hinnar umdeildu dráttarvélar hjá Skráningarstofunni hf. Sú skráning byggi á tilkynningu til stofunnar. Þeirri tilkynningu hafi verið skilað til Skráningarstofunnar hf. í kjölfar útgáfu reiknings af hálfu seljanda vélarinnar, en seljandi hafi verið Bújöfur hf. Á reikningnum hafi dráttarvélin verið tilgreind með eftirfarandi texta: MF 290 4x4 1987 Fast. NO.ZM-084.
Nafn kaupanda á ofangreindum reikningi kveður varnaraðili ranglega hafa verið fært Árni Þórhallur Leósson. Kaupverð dráttarvélarinnar samkvæmt reikningnum hafi verið kr. 700.000,-, en kr. 871.500,- að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili telur að ekki sé unnt að byggja á áðurnefndu skráningarvottorði Skráningarstofunnar hf. í málinu. Þó almennt megi telja löglíkur fyrir því að þinglýsingabækur og aðrar bækur varðandi skráningu fasteigna og lausafjár séu réttar, þá séu þær langt frá því að vera fullkomnar og óskeikular. Almennt sé viðurkennt í dómaframkvæmd að haldi aðili því fram, að hann sé eigandi fasteignar eða lausafjár og sanni eignarrétt sinn með sönnunargögnum, þá beri að víkja frá skráðum heimildum um eignarrétt.
Varnaraðili kveður hina umdeildu dráttarvél hafa verið keypta fyrir hans fé, sem faðir sóknaraðila hafi haft umráðarétt yfir, en sóknaraðili hafi í þeim kaupum komið fram sem kaupandi. Varnaraðili hafi ávallt talið vélina vera sína eign og hafi hún frá upphafi verið færð sem eign hans á landbúnaðarframtali, og þær skuldbindingar sem stofnað var til við kaupin, sem hans skuldir. Landbúnaðarframtöl varnaraðila hafi á umræddu tímabili verið unnin af Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og hafi faðir sóknaraðila sjálfur sent öll bókhaldsgögn til sambandsins og annast samskipti við það varðandi uppgjör. Ekki liggi fyrir í gögnum málsins að faðir sóknaraðila hafi gert athugasemdir við færslu landbúnaðarframtalsins þrátt fyrir að sú dráttarvél, sem nú sé deilt um, hafi verið færð í framtalinu sem eign varnaraðila.
Til stuðnings eignarrétti sínum vísar varnaraðili ennfremur til útprentunar af reikningi varnaraðila hjá Kaupfélagi Eyfirðinga og útprentunar af reikningi hans nr. 24280 hjá Landsbanka Íslands hf., Akureyrarútibúi. Af þeim megi ráða, að við greiðslu á lánum, sem stofnað hafi verið til við kaup á dráttarvélinni, hafi að verulegu leyti verið notaðir fjármunir af áðurnefndum reikningum varnaraðila. Varnaraðili kveður þrjár innborganir hafa verið inntar af hendi til Lögmannsstofu Vesturlands, þann 25. ágúst 2000, þann 11. janúar 2001 og að lokum þann 23. mars 2001. Þegar bornar séu saman tvær fyrstu innborganirnar við útprentanir af áðurnefndum reikningi varnaraðila hjá Landsbanka Íslands hf. komi í ljós samhengi þarna á milli. Þannig hafi þann 25. ágúst 2000 verið teknar út af reikningi varnaraðila kr. 80.080,- og þann 11. janúar 2001 kr. 60.080,-. Tekur varnaraðili fram að færslugjald viðskiptabanka fyrir færslu milli tveggja banka sé kr. 80,- og útskýri það mismuninn á fjárhæðunum. Þegar síðasta innborgunin til Lögmannsstofu Vesturlands sé borin saman við úttektir af reikningi varnaraðila hjá Kaupfélagi Eyfirðinga komi í ljós, að tekið hafi verið út af reikningi varnaraðila kr. 119.581,- hjá kaupfélaginu þann 23. mars og hafi sú fjárhæð verið greidd til Lögmannsstofu Vesturlands.
Heldur varnaraðili því fram, að framangreind landbúnaðarframtöl, svo og áðurnefndar innborganir, kasti svo miklum vafa á rétt sóknaraðila til hinnar umdeildu dráttarvélar að telja verði að skilyrði 78. gr. aðfararlaga, um skýran rétt sóknaraðila til vélarinnar, sé á engan hátt fullnægt.
Verði ekki fallist á að varnaraðili sé einn eigandi títtnefndrar dráttarvélar þá byggir varnaraðili á þeirri málsástæðu, að málsaðilar eigi dráttarvélina í óskiptri sameign, þar sem fjármunir varnaraðila hafi að verulegu leyti verið notaðir til að greiða fyrir hana. Af þeim sökum sé ekki hægt að fallast á kröfu sóknaraðila, heldur verði hann að byggja mál sitt á heimildum laga nr. 90, 1991 um nauðungarsölu, sbr. 8. gr. laganna. Um rökstuðning fyrir þessari málsástæðu vísar varnaraðili til framanrakinnar umfjöllunar um eignarrétt varnaraðila.
Sóknaraðili er skráður eigandi dráttarvélarinnar ZM-084, sbr. skráningarskírteini vélarinnar og framlagt veðbandayfirlit. Fyrirliggjandi reikningur Bújöfurs hf. vegna sölu vélarinnar, dags. 28. maí 1998, er stílaður á sóknaraðila. Þá er óumdeilt að þær skuldbindingar, sem til var stofnað vegna kaupanna, annars vegar veðskuldabréfalán hjá Glitni hf. og hins vegar lán hjá Bújöfri hf., sem nú er til innheimtu hjá Landsbanka Íslands hf., eru á nafni sóknaraðila.
Umrædd dráttarvél var færð sem eign varnaraðila á landbúnaðarframtölum jarðarinnar Steinsstaða 1 árin 1998 og 1999 og þá voru skuldir vegna kaupa á vélinni jafnframt færðar sem hans skuldir. Það eitt og sér getur hins vegar ekki vikið til hliðar þeim ótvíræðu gögnum um eignarrétt sóknaraðila, sem áður eru nefnd. Þá verður í máli varðandi beina aðfarargerð ekki tekin afstaða til þess hvort faðir sóknaraðila hafi í störfum sínum fyrir varnaraðila misfarið með fé hans í þágu sóknaraðila.
Í gögnum málsins er ekki að finna nokkra vísbendingu í þá átt, að ætlunin hafi verið að dráttarvélin ZM-084 yrði sameign aðila. Fullyrðing varnaraðila í þá veru er því með öllu ósönnuð.
Að fenginni ofangreindri niðurstöðu er það álit dómsins, með vísan til áðurnefndra gagna, sem bera með sér eignarrétt sóknaraðila, að honum hafi tekist að sýna fram á eignarrétt sinn yfir dráttarvélinni ZM-084 með nægilega skýrum hætti í skilningi 78. gr. laga nr. 90, 1989 um aðför. Þykir því með vísan til nefndrar lagagreinar, sbr. 73. gr. sömu laga, verða að fallast á þá kröfu sóknaraðila, að honum verði heimilað að láta taka dráttarvélina úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð.
Með vísan til úrslita málsins þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 50.000,- í málskostnað.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
Á L Y K T A R O R Ð :
Sóknaraðila, Árna Þórhalli Leóssyni, er heimilað að láta taka dráttarvélina ZM-084 úr vörslum varnaraðila, Gests Eggertssonar, með beinni aðfarargerð.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kr. 50.000,- í málskostnað.