Print

Mál nr. 457/2001

Lykilorð
  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Brottrekstur úr starfi

Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. maí 2002.

Nr. 457/2001.

Samskip hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

gegn

Gunnari Hilmarssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Brottrekstur úr starfi.

Skipverjinn G hafði leynt tollskyldum varningi um borð og var því talið ótvírætt að skipstjóri hefði haft heimild samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 til að víkja G úr skipsrúmi vegna brota hans. Þar sem það var ekki gert innan þess 7 daga frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 24. gr. sömu laga, og S hf. hafði ekki sýnt fram á að í þessu tilviki væru sérstakar ástæður sem réttlættu lengri frest, var uppsögn G talin ólögmæt. Á þeim grundvelli átti G rétt til bóta samkvæmt 1. mgr. 25. 25. gr. sjómannalaga, sbr. 9. gr. laganna. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að honum verði einungis gert að greiða stefnda 150.510 krónur og til þrautavara 294.040 krónur, en í báðum tilvikum falli málskostnaður niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Samskip hf., greiði stefnda, Gunnari Hilmarssyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2001.

 

I

Mál þetta sem dómtekið var þann 31. ágúst sl. að loknum munnlegum málflutningi var höfðað með stefnu birtri 7. febrúar 2001 af Gunnari Hilmarssyni kt. 031060-4869, Túnbrekku 4, Kópavogi, á hendur Samskipum hf. kt. 440986-1539, Holtavegi, Holtabakka, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda krónur 466.978, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 1. desember 2000 til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Til vara gerir hann þær kröfur að hann verði einungis dæmdur til að greiða stefnanda krónur 150.510 og til þrautavara að hann greiði stefnanda krónur 294.040.  Stefndi gerir kröfu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu í aðalkröfu, en að málskostnaður verði felldur niður í varakröfu og þrautavarakröfu.

II

Málavextir eru þeir að stefnandi hóf störf hjá stefnda í júní 1997, fyrst sem háseti en síðar sem bátsmaður á ms. Arnarfelli.  Gegndi hann þeim starfa sínum þar til honum var vikið úr starfi með bréfi 2. október 2000.  Um ástæður brottvikningarinnar er í bréfinu vísað til 6. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Þótt það hafi ekki verið tekið fram í uppsagnarbréfinu er óumdeilt að þau atvik sem leiddu til umræddrar brottvikningar tengist atburðum sem áttu sér stað í Rotterdam í Hollandi þann 19. september 2000 er ms. Arnarfell lá við höfn er verið var að losa og lesta skipið.  Í Rotterdam festu stefnandi og háseti skipsins, Jón Ingþórsson, kaup á 250 lítrum af sterku áfengi, 96% spíra og 10 lengjum af sígarettum og fluttu það í skipið.   Stuttu síðar komu hollenskir tollgæslumenn um borð í skipið til að spyrjast fyrir um varning þennan, en þeir höfðu undir höndum gögn um hann.  Skipstjóri skipsins, Karl Arason hafði þá ekki vitneskju um að umræddur varningur væri um borð.  Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að stefnandi og Jón Ingþórsson höfðu keypt umrætt áfengi og sígarettur og komið því fyrir í málningageymslu sem stefnandi hafði lyklavöld að og yfirumsjón með.  Viðurkenndu þeir strax að hafa keypt umræddan varning og sýndu hann tollvörðunum.  Við svo búið fóru tollverðirnir á brott, enda var tilgangur veru þeirra í skipinu eingöngu að fá það staðfest að umræddur varningur hefði verið fluttur um borð í skipið.

Í framhaldi af þessum atburðum fór skipstjórinn á ms. Arnarfelli fram á að áfengið yrði fjarlægt úr skiprúmi.   Hafa stefnandi og Jón Ingþórsson borið að þeir hafi gert árangurslausar tilraunir til að skila varningnum til seljanda hans.  Þegar skipið lét úr höfn um kvöldið þann 19. september 2000 var varningurinn enn um borð og fyrirskipaði skipstjóri að áfenginu yrði hent í sjóinn.  Var svo gert þegar skipið var komið á haf út.

Ms. Arnarfell kom til Reykjavíkurhafnar 26. september 2000 og stóð stefnandi hafnarvakt til miðnættis 27. september 2000 en að en að vakt lokinni fór hann frí til útlanda.  Skipstjórinn fór strax morguninn eftir  á fund fyrirsvarsmanna stefnda og tilkynnti um framangreinda atburði.   Hefur komið fram hjá stefnda að skipstjóri hafi ætlað að tilkynna Kristjáni Ólafssyni deildarstjóra skiprekstrardeildar um málið en þar sem hann hafi verið erlendis hafi hann látið Pálmar Ó. Magnússon framkvæmdastjóra rekstrarsviðs stefnda vita um málið.  Stefnanda var síðan vikið úr starfi með bréfi þann 2. október 2000 eins og að ofan greinir.

Með bréfi 30. október 2000 krafðist stefnandi bóta úr hendi stefnda vegna ólögmætrar brottvikningar.   Með bréfi lögmanns stefnda 23. desember 2000 var þeirri kröfu hafnað.

Í máli þessu er deilt um lögmæti brottvikningar stefnanda úr skiprúmi og eftir atvikum hvað felist í hugtakinu kaup samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Fyrir dóminum gáfu skýrslur auk stefnanda, Jón Ingþórsson, Karl Arason og Kristján Ólafsson.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi fyrirvaralaust rift ráðningu hans sem bátsmanns á ms. Arnarfelli þann 24. október 2000 og eigi hann því rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sjómannalaga.  Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga eigi skipverji, sem vikið sé úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. laganna,  rétt á kaupi þann tíma sem mælt sé fyrir um í 9. gr. laganna, einn mánuð samkvæmt  1. mgr. 9. gr., en samkvæmt því ákvæði skuli uppsagnarfrestur vera einn mánuður á skiprúms-samningum nema á íslenskum fiskiskipum 7 dagar, sé eigi á annan veg samið.  Þá sé uppsagnarfrestur gagnkvæmur.  Þar sem ms. Arnarfell sé kaupskip eigi stefnandi, sem hafi starfað sem bátsmaður,  eins mánaðar uppsagnarfrest.

Samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga geti skipstjóri vikið skipverja úr skiprúmi ef hann leyni tollskyldum varningi eða þeim varningi sem útflutningsbann gildi um á fráfararstað skipsins eða innflutningsbann á ákvörðunarstað þess.  Stefnandi viðurkenni að hafa flutt um borð í ms. Arnarfell, ásamt Jóni Ingþórssyni háseta, 250 lítra af 96% spíra. Hann neiti því hins vegar að hafa gert tilraun til að leyna áfenginu um borð í ms. Arnarfelli.  Varningurinn hafi verið nýkominn á skipsfjöl þegar hollenskir tollgæslumenn hafi komið um borð til að kynna sér innihald hans.  Strax hafi verið orðið við þeirri kröfu skipstjórans að fjarlægja varninginn úr skipinu og þar sem seljandinn hafi neitað að taka við honum hafi áfenginu verið kastað í sjóinn að kröfu skipstjórans.

Kveðst stefnandi mótmæla því að hafa haft í hyggju að smygla umræddum varningi til Íslands. Engin ákvörðun hafi verið tekin um slíkt. Það sé ljóst að útflutningsbann á 96% spíra sé ekki í gildi í Hollandi, því annars hefðu hollensku tollgæslumennirnir gert varninginn upptækan í framhaldi af skoðun þeirra á varningnum.

Samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga, sem hafi að geyma tæmandi brottvikningarheimildir til handa skipstjóra, sé gert að skilyrði að skipverji leyni tollskyldum varningi, þ.e. að brot sé fullframið.  Veiti ákvæðið skipstjóra ekki rétt til að víkja skipverja úr skiprúmi fyrir að hafa hugsanlega ætlað að leyna tollskyldum varningi um borð. Vafasamt sé að ætla að um tilraun til refsiverðrar háttsemi hafi verið að ræða en verði talið að svo hafi verið, veiti slík tilraun skipstjóra ekki rétt til að víkja skipverja úr skiprúmi samkvæmt nefndu ákvæði sjómannalaga.

Þá séu skipstjóra sett tímamörk til brottvikningar skipverja samkvæmt 3. - 7. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga, sbr. 2. mgr. 24. gr. en vilji hann nýta sér heimild þessa skuli hann skýra skipverja frá því hið fyrsta og eigi síðar en 7 dögum eftir að hann fái vitneskju um þau atvik sem brottvikning byggist á nema sérstakar ástæður réttlæti lengri frest.

Kveður stefnandi að skipstjóranum á ms. Arnarfelli hafi verið kunnugt um meintan smyglvarning stefnanda þann 19. september 2000.  Hafi hann talið að háttsemi stefnanda varðaði brottvikningu skv. 6. tl. l. mgr. 24. gr. sjómannalaga, hafi honum borið honum að skýra stefnanda frá brottvikningunni hið fyrsta samkvæmt skýlausu ákvæði 2. mgr. 24. gr. sjómannalaga.  Hafi skipstjórinn ekki getað dregið ákvörðun sína lengur en í 7 daga og verði ekki séð að neinar sérstakar ástæður hafi réttlætt lengri frest.  Telji stefndi að skipstjórinn hafi haft réttmæta ástæðu til að draga ákvörðun sína fram yfir 7 daga þá verði að gera þá kröfu að stefnanda sé skýrt frá þeirri ástæðu er brottvikningu er beitt. Af skjölum málsins verði ekki séð að stefndi hafi reynt að réttlæta þennan drátt fyrir stefnanda.

Kveður stefnandi að skipstjórinn hafi samstundis verið meðvitaður um þann varning sem fluttur var um borð.  Ákvörðun um brottvikningu, teljist hún tæk, hafi alfarið verið í höndum skipstjórans. Í þeim efnum þurfi ekki að beita öðrum lögskýringaraðferðum en þeim að skýra ákvæði 24. gr. sjómannalaga samkvæmt orðanna hljóðan.

Í bréfi lögmanns stefnda 23. desember 2000 sé dráttur á brottvikningu stefnanda úr skiprúmi, 35 dagar frá meintri tilraun til smygls,  réttlættur með því að forráðamönnum útgerðarinnar hafi ekki verið kunnugt um málið fyrr en nokkrum dögum eftir að skipið kom til Reykjavíkur þann 26. september 2000.  Hafi stefnanda verið sent uppsagnarbréf í ábyrgðarpósti þann 2. október 2000 sem honum hafi borist þann 24. sama mánaðar.

Kveður stefnandi að samkvæmt sjómannalögum hafi skipstjóri klárlega vald til að reka skipverja úr skiprúmi. Hafi skipstjórinn á ms. Arnarfelli talið lögbundnu stöðuumboði sínu frá stefnda til brottvikningar stefnanda úr skiprúmi í einhverju áfátt,  þá hafi honum borið að afla um það upplýsinga hjá stefnda áður en hann tók þá ákvörðun að láta málið afskiptalaust og leggja það í hendur stefnda þegar honum þóknaðist; 28 dögum eftir að ms. Arnarfell kom til Reykjavíkur.  Sé ms. Arnarfell væntanlega búið öllum nútíma fjarskiptabúnaði og hafi því ekkert verið því til fyrirstöðu af skipstjórans hálfu að hafa samband við fyrirsvarsmenn stefnda um leið og hann stóð stefnanda að hinum meinta ólögmæta verknaði.

Umræddur varningur hafi komið um borð í skipið 19. september 2000.  Sama dag hafi skipstjórinn fyrirskipað að honum yrði kastað í hafið.  Þann 24. október 2000 sé stefnanda fyrirvaralaust vikið úr starfi með bréfi frá skiparekstrardeild stefnda, eða 35 dögum eftir að meintum smyglvarningi var kastað í hafið.  Af þessari ástæðu einni saman hafi aðferð stefnda við brottvikningu stefnanda úr skiprúmi verið andstæð 2. mgr. 24. gr. sjómannalaga.  Brottvikningin hafi verið ólögmæt og varði stefnda bótaskyldu samkvæmt 25. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. sjómannalaga.

Varðandi útreikning skaðabóta (meðalbóta) samkvæmt 25. gr. sjómannalaga, kveðst stefnandi miða kaup miðað við hvað staða viðkomandi skipverja hafi tekjulega gefið af sér fyrir ráðningarslitin sbr. Hrd. 1988:518.  Ekki sé miðað við þau laun sem skipverjinn hefði haft eftir riftunina enda feli ákvæði 25. gr. sjómannalaga í sér hlutlæga bótaabyrgðarreglu; bæturnar séu fastákveðnar hvort sem sýnt sé fram á að tjón skipverjans sé meira eða minna vegna riftunarinnar.  Hefði skipverjinn átt að taka sér frí eftir riftunina, komi slíkt frí ekki til frádráttar bótunum, sbr. Hrd. 1990:1246. Kröfu sína reiknar stefnandi þannig:

1. Desemberuppbót samkvæmt grein 1.11. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Sjómannafélags Reykjavikur hafi numið kr. 28.200,00 fyrir árið 2000. Ráðningu stefnanda hafi verið rift 2. október 2000 og hefði ráðningu hans því átt að ljúka 2. nóvember 2000. Uppsagnarfrestur stefnanda sé einn mánuður sbr. 1. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Því sé um að ræða tímabilið 01.01.00 - 31.10.00, 10 mánuði, eða samtals kr. 23.500,00 (28.200,00/12 * 10 = 23.500,00)

2. Orlofsuppbót samkvæmt grein 1.12. í kjarasamningnum nemi kr. 9.400,00 fyrir orlofsárið 0l.05.00 - 31.10.01, eða kr. 4.700,00 í hálft ár, (9.400,00/12 * 6 = 4.700,00).

3. Fæðispeningar samkvæmt grein 1.14. í kjarasamningnum nemi kr. 548,00 pr. skráningardag eða samtals kr. 16.440.00 í 30 daga. (548,00 * 30 = 16.440,00). Að öllu jöfnu séu fæðispeningarnir greiddir meðan skipverjar séu lögskráðir um borð, burt séð frá því hvort fæði sé um borð eða ekki; skipverjar endurgreiði síðan útgerðinni þá fjárhæð vegna útlagðs fæðiskostnaðar útgerðar.  Um sé að ræða skattskyld laun og falli því fæðispeningarnir undir bótaákvæði 25. gr. sjómannalaga.

4. Í 1. mgr. f liðs greinar 3.3. í kjarasamningnum segi um svokallaða verslunarfrídaga: "Skipverjar skulu fá hálfan virkan dag frí tvisvar í mánuði eða einn heilan dag virkan í mánuði í erlendri höfn að viðhöfðu samráði við stýrimann eða vélstjóra." Í 4. mgr. f liðs greinar 3.3. segi: "Þeir af framangreindum dögum, sem ekki hafa verið veittir um áramót, eða þegar skipverji hættir störfum, greiðast með 1/30 af mánaðarkaupi með 80% álagi." Samkvæmt launatöflu sem tekið hafi gildi 06.05.00 skuli bátsmaður á hagræðingartaxta, eftir 5 ára starf, hafa mánaðarlaun að fjárhæð kr. 111.019,00. Verslunarfrídagur nemi því kr. 6.660.00 (111.019,00/30 = 3.700,00 * 1.8 = 6.660,00). Stefnandi hafi tekið laun hjá stefnda miðað við hagræðingartaxta eftir 5 ára starf.

5. Mánaðarlaun bátsmanns á hagræðingartaxta nemi kr. 111.019,00 eftir 5 ára starf. Það séu þau mánaðarlaun sem stefnandi hafi haft hjá stefnda.

6. Á skipum stefnda gefi staða bátsmanns samtals 170 yfirvinnuklst. á mánuði að jafnaði (miðað við 30 daga). Í grein 1.3. í kjarasamningnum segi: "Öll yfirvinna háseta og starfsmanna í vél greiðist með 1.0385% af grunnlaunum fyrir hverja klst. Dagvinnukaup finnist með því að deila í grunnlaun með 173.33." Samkvæmt launatöflu nemi yfirvinna A kr. 1.152,93 (111.019,00/100 * 1.0385 =1.152,93). Yfirvinna í 170 klst nemi kr. 185.471.00 ( 170 * 1.152,93 = 195.998,00).

7. Um ákvæðisvinnu fari samkvæmt grein 1.4. í kjarasamningnum: "Með tilliti til ákvæðis ­og premíulaunakerfa verkamanna í hafnarvinnu skal greiða þeim skipverjum sem vinna lestunar- og losunarstörf á farmi í höfnum kaupauka fyrir þann tíma sem unnið er við þessi störf. - Kaupauki þessi verði kr. 377 frá 6. maí 2000, ... á mann pr. unna klukkustund ... " Samkvæmt bókun frá Ríkissáttasemjara skuli kaupauki þessi vera tvöfaldur frá 06.05.00 eða kr. 754,00 pr klst. Tímar þessir þyki hæfilega ákveðnir 50. Samtals nemi þessi kröfuliður því fjárhæð kr. 37.700,00 (50 * 754,00 = 37.700,00).

8. Bætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga miðist einnig við svokallaða frídaga sbr. Hrd. 1988:75. Í a-lið greinar 3.3. í kjarasamningnum segi: "Fyrir hvern laugar-, sunnu-, helgi- og/eða tyllidag utan heimahafnar eða unninn í heimahöfn vinna skipverjar sér inn einn frídag.  Séu skipverjar skyldaðir til að vera um borð að næturlagi í heimahöfn skulu þeir fá heilan frídag fyrir hverja nótt." Í 1. mgr. c-liðs greinar 3.3. segir: "Þeir innunnir frídagar samkvæmt ofanskráðu, sem ekki hafi verið veittir við afskráningu eða áramót skuli greiddir með 1/21,67 af mánaðarkaupi." Frídagar þessir hafi verið 8 í október 2000.  Mánaðarkaupið nemi kr. 111.019,00 og greiðsla fyrir hvern frídag nemi því kr. 5.123,00 ( 111.019,00/21.67 = 5.123,00) eða kr. 40.984,00 fyrir átta daga (8 * 5.123,00 = 40.984,00).

Stefnandi eigi rétt á orlofi samkvæmt 1. mgr. greinar 6.1. í kjarasamningnum: "Orlof háseta og starfsmanna í vél skal vera 10,17% af kaupi samkvæmt lögum um orlof. Fæðispeningar skulu einnig greiddir í orlofi." Samtals nemi framangreindar kröfur stefnanda kr. 426.474,00. Orlof reiknist ekki af orlofs- og desemberuppbót en þessir liðir nemi samtals kr. 28.200,00. Orlof reiknist því af kr. 398.274,00, 10,17%, og nemi kr. 40.504,00 (398.274,00 * 0,1017 = 40.504,00).

Samkvæmt ofanreifuðu nemi kröfur stefnanda á hendur stefnda kr. 466.978,00. Ekki sé beitt frádrætti vegna launa annars staðar frá því stefnandi þurfi ekki að sæta frádrætti frá framangreindum bótum (kaupi) vegna tekna hans annars staðar frá eftir riftun ráðningarinnar.  Í þeim efnum vísar stefnandi meðal annars til Hrd. 1993:946 og Hrd, sem kveðinn var upp þ. 01.02.2001 í málinu Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf. gegn Þorgrími Jóel Þórðarsyni.

Samkvæmt 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 beri skaðabótakröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.  Með bréfi lögmanns stefnanda, 30. október 2000 hafi kröfur stefnanda verið kunngerðar stefnda og þyki stefnanda því rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta við 1. desember 2000.

Um málskostnað kveðst stefnandi vísa til 1. mgr. 130. gr. EML nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt vísar hann til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

 

IV

Stefndi kveðst rökstyðja sýknukröfu sína með því, að stefnandi hafi með því að kaupa og flytja um borð í m.s. Arnarfell 250 lítra af 96% spíra og 10 lengjum af vindlingum brotið svo alvarlega gegn starfsreglum stefnda og fyrirmælum skipstjóra að brostnar forsendur hafi verið fyrir áframhaldandi starfi hans hjá stefnda.

Mótmælir stefndi fullyrðingum stefnanda um að hann hafi ekki gert tilraun til að leyna spíranum um borð í skipinu né ætlað að smygla honum til Íslands, sem röngum og ósönnuðum.  Það komi skýrt fram á tollskýrslu að varningurinn hafi farið um borð í Arnarfell, Noregi.  Hafi það augsýnilega verið gert til þess að villa um fyrir tollgæslu og tryggja það að ekki bærust upplýsingar til tollgæslu á Íslandi um að varningur þessi hafi farið um borð í m.s. Arnarfell, þar sem talið væri samkvæmt pappírunum að um norskt skip væri að ræða.  Þá hafi stefnandi viðurkennt fyrir skipstjóranum að sá sem seldi þeim spírann hafi fullyrt að hann yrði afgreiddur án allra pappíra þannig að tollgæslan fengi engar upplýsingar um kaupin.

Það hafi svo verið fyrir hreina tilviljun að upp hafi komist að framangreindur varningur væri kominn um borð í skipið.  Hollenskir tollverðir sem komið hafi um borð hafi í raun verið að kanna hvort söluaðili spírans hefði skilað honum af sér um borð í skip en varningurinn ekki fluttur á land út af hafnarsvæðinu sem væri tollfrjálst svæði.  Þá komi fram í skýrslu skipstjóra að hann hafði fyrst haft pata af því að varningurinn hefði komið um borð í skipið þegar hollensku tollverðirnir komu til hans til að fá staðfest að umræddur varningur hafi verið móttekin um borð í ms. Arnarfelli.  Þegar skipstjórinn hafi neitað því að varningur þessi hefi komið um borð hafi tollverðirnir óskað eftir því að fá að fara í tollvörugeymslu skipsins.  Hafi tollverðirnir talið upp áfengi, bjór og tóbak í geymslunni og hafi magnið þar stemmt við skýrslu skipstjóra til tollyfirvalda.  Skipstjóri hafi þá beðið yfirstýrimann skipsins um að láta skipverja vita um erindi tollvarðanna og ganga úr skugga um það hvort einhverjir þeirra hefðu vitneskju um það hvort umræddur varningur hefði komið um borð.  Þegar gengið hafi verið á þá hafi stefnandi og Jón Ingþórsson háseti viðurkennt að eiga varninginn og hefðu þeir falið hann í málningageymslu skipsins, á yfirráðasvæði bátsmannsins.  Bátsmaður fari með lyklavöld og hafi yfirumsjón með málningageymslu skipsins.  Því hafi verið vitað að enginn yfirmanna ætti erindi í geymsluna og litlar líkur á því að varningurinn fyndist þar.

Kveður stefndi stefnanda reyna að gera lítið úr broti sínu og haldi fram að hann hafi gert ítrekaðar og árangurslausar tilraunir til þess að skila varningnum til seljanda.  Þegar það hafi ekki tekist hafi stefnandi umyrðalaust hent vörunni í sjóinn.  Þessi lýsing stefnanda sé röng þar sem skipstjóri skipsins hafi gefið stefnanda kost á því að koma varningnum aftur í land.  Þegar skipstjórinn hafi komist að því við brottför að áfengið væri enn um borð hafi hann fyrirskipað að því væri hent fyrir borð undan strönd Hollands.   Hafi svo verið gert undir eftirliti stýrimanna, en stefnandi og  bátsmaðurinn hafi haldið sígarettunum.

Stefndi kveður að 250 lítrar af 96% spíra sé gífurlegt magn af áfengi en það samsvari samsvari um 500 lítrum af whisky eða 55 kössum af þriggja pela flöskum af whisky eða um 660 flöskum.  Starfsreglur stefnda séu þær að skipverjum sé óheimilt að kaupa áfengi, bjór og sígarettur í höfnum erlendis nema eftir fyrirfram gerðri pöntun til skipstjóra. Annist skipstjóri innkaup á áfengi, bjór og sígarettum fyrir skipshöfnina til eigin nota og svokallaðan skammt, þ.e. það sem heimilt sé að flytja tollfrjálst til landsins.  Samkvæmt reglugerð nr. 526/2000 sé skipverja á skipi sem er innan við 15 daga í ferð heimilt að hafa með sér við komu til landsins 0,75 lítra af áfengi yfir 22% að styrkleika, ásamt 1,5 lítrum af áfengi undir 22% eða 12 lítra af bjór. Auk þess megi hann hafa með sér eina lengju af sígarettum.  Stefnanda sem gegnt hafi trúnaðarstarfi um borð í skipinu hafi verið þetta fyllilega ljóst.  Hafi hann vitað að hann væri að taka áhættu á að fórna starfi sínu ef upp kæmist um varning þann sem hann hafi flutt um borð í skipið í heimildarleysi.

Á liðnu ári hafi ekki farið fram hjá starfsmönnum stefnda fréttir af ólöglegum innflutningi með skipum stefnda með þátttöku starfsmanna til sjós og lands. Í kjölfar þess hafi stefndi hert á reglum um heimildir skipverja til að flytja um borð tollvarning. Vegna framangreinds brots telji stefndi að stefnandi hafi brotið það alvarlega af sér að brostnar hafi verið forsendur fyrir áframhaldandi starfi hans hjá stefnda.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda gerir hann varakröfu um að honum verði einungis gert að greiða stefnanda krónur 150.510, sem sundurliðist svo:

Mánaðarlaun……………………..kr. 111.019

Orlof……………………………..kr.   11.291

Desemberuppbót…………………kr.  23.500

Orlofsuppbót……………………..kr.    4.700

Stefnukrafa sé sögð grundvölluð á hugtakinu kaup samkvæmt sjómannalögum.  Mótmælir stefndi að útreikningar stefnanda séu í samræmi við það sem felist í hugtakinu kaup í sjómannalögum og kjarasamningi.  Þá mótmælir stefndi því að dómar í málum fiskimanna hafi fordæmisgildi í þessu máli.  Með kaupi sé ekki átt við mögulegar heildartekjur eins og stefnandi geri ráð fyrir heldur föst laun fyrir viðkomandi starf og sé varakrafa grundvölluð á útreikningi slíks kaups.  Þá gerir stefndi kröfu til þess að vextir reiknist ekki fyrr en frá þingfestingardegi.

Verði ekki fallist á varakröfu krefst stefndi því að honum verði aðeins gert að greiða stefnanda samtals kr. 294.040 sem sundurliðist svo:

Mánaðarlaun……………………..kr. 111.019

Yfirvinna 113x1.152,93………….kr. 130.281

Orlof……………………………..kr.   24.540

Desemberuppbót…………………kr.  23.500

Orlofsuppbót……………………..kr.    4.700

 

Byggi sú krafa á því að til viðbótar greiðslum sem reiknaðar eru samkvæmt varakröfu verði einungis reiknuð meðalyfirvinna fyrir mánuðina janúar til október 2000.  Þá gerir stefndi kröfu um að vextir reiknist ekki fyrr en frá þingfestingardegi.

Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefndi til 3. mgr. 6., 10.,24.,25.,27.,28.,58.,og 67. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Þá vísar hann til tollalaga nr. 55/2987 einkum III. og VIII. kafla, reglugerð nr. 526/2000 sbr. og reglugerð nr. 791/2000.  Um vexti vísar hann til 9. og 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.  Hvað snertir málskostnað þá styður hann kröfu sína við 129. sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

V

Samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 getur skipstjóri vikið skipverja úr skiprúmi ef hann leynir tollskyldum varningi eða þeim varningi sem útflutningsbann gildir um á fráfararstað skipsins eða innflutningsbann á ákvörðunarstað þess.  Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að ef skipstjóri vill víkja skipverja úr skiprúmi, samkvæmt 3.-7. tl. 1. mgr. skuli hann skýra skipverja frá því hið fyrsta og eigi síðar en 7 dögum eftir að hann fékk vitneskju um atvik sem brottvikning byggist á, nema sérstakar ástæður réttlæti lengri frest.

Óumdeilt er í máli þessu að stefnandi, í félagi við annan skipverja, keypti 250 lítra af áfengi, 96% spíra og 10 sígarettulengjur í Rotterdam.  Þá er einnig óumdeilt að það magn er langt umfram það magn af áfengi og tóbak sem skipverja er heimilt að flytja inn til landsins samkvæmt reglugerð nr. 526/2000 sem meðal annars er sett samkvæmt heimild í 2. tl. 1. mgr. sbr. 5. gr. svo og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987 með síðari breytingum.   Þá hefur stefnandi lýst því yfir fyrir dómi að um þetta hafi honum verið fullkunnugt.  Í málatilbúnaði stefnanda er því haldið fram að að hann hafi ekki gert tilraun til að leyna áfengi þessu og tóbaki um borð eða hafa ætlað að smygla því til Íslands.  Fyrir dómi bar stefnandi að kaup hans á umræddum varningi hafi verið gert í einhverju “bríaríi” og hafi hann ekkert verið búinn að hugsa það þegar upp komst um varninginn um borð í skipinu, hvort hann hygðist leyna varningnum um borð eða smygla honum inn til Íslands.  Málið hafi ekki verið komið á það stig.

Það liggur fyrir að stefnandi flutti umræddan varning í skipið án vitneskju skipstjóra og setti hann í geymslu sem skipstjóri átti almennt ekki leið um.  Upplýsti stefnandi ekki um varning þennan fyrr en eftir því var gengið, eftir að hollenskir tollverðir komu um borð í skipið til að kanna hvort varningurinn væri um borð. Verður ráðið af gögnum málsins, ekki síst framburði stefnanda sjálfs fyrir dómi, að það sé engum vafa undirorpið að stefnandi leyndi umræddum varningi.  Þykir því fullnægt skilyrðum 6. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 að skipstjóra skipsins eða útgerðarmanni hafi verið heimilt að víkja stefnanda úr skipsrúmi.

Í málinu liggur fyrir að skipstjórinn á ms. Arnarfelli, Karl Arason, fékk vitneskju um framangreinda háttsemi stefnanda þann 19. september 2000 og skipaði hann svo fyrir að áfenginu yrði komið af skipinu og var því fleygt í sjóinn að hans kröfu eftir að skipið lét úr höfn frá Rotterdam.  Samkvæmt gögnum málsins sigldi skipið frá Rotterdam til Cuxhaven, Aarhus, Varberg og Moss áður en það kom til Reykjavíkur þann 26. september 2000. Strax morguninn eftir að skipið kom til Reykjavíkur fór skipstjóri á fund útgerðarinnar og upplýsti um framangreindan atburð.  Það var síðan ekki fyrr en 2. október 2000 að stefnanda var sent uppsagnarbréf af hálfu stefnda.   Í því bréfi segir orðrétt:  “Samkvæmt 24. gr. 6. tl. sjómannalaga hefur þú Gunnar Hilmarsson kt. 031060-4869 fyrirgert starfi þínu sem bátsmaður á ms. Arnarfelli skipi Samskipa af. og lætur af störfum nú þegar.”  Ekki er í bréfinu tilgreint nánar hvers vegna stefnandi hefði fyrirgert starfi sínu heldur látið nægja að vísa til þeirrar lagagreinar sem háttsemin varðaði við, en ekki er ágreiningur í málinu um að ástæða uppsagnarinnar var framangreind háttsemi stefnanda að leyna tollskyldum varningi. 

Þegar uppsagnarbréf þetta var dagsett voru liðnar tæpar tvær vikur frá því að skipstjóri fékk vitneskju um þau atvik sem brottvikning byggði á. Var þannig liðinn sá frestur, sem skipstjóri eða útgerðarmaður hefur samkvæmt 2. mgr. sjómannalaga til að skýra skipverja frá því að honum sé vikið úr skiprúmi af ástæðum, sem greindar eru í 1. mgr. 24. gr. sbr. einkum 6. tölulið þeirrar málsgreinar. 

Í greinargerð með frumvarpi til sjómannalaga nr. 35/1985 segir um 2. mgr. 24. gr. að ákvæðið byggist á því að mikilvægt sé fyrir viðkomandi skipverja að fá að vita það sem fyrst hvort hann fær að halda skiprúmi eða ekki ef einhver þau tilvik hefur borið að höndum sem ákvæði 3.-7. tl. eigi við um.  Þá gerir ákvæðið ráð fyrir því að lengri frestur verði eingöngu réttlættur af sérstökum ástæðum. 

Skipstjórinn, vitnið Karl Arason bar fyrir dómi að hann hafi ekki viljað segja stefnanda upp sjálfur þar sem hann og stefnandi hefðu á sínum tíma deilt erfiðri lífsreynslu er þeir börðust fyrir lífi sínu í sjávarháska fyrir nokkrum árum.  Tilkynnti hann síðan útgerðinni um atburðinn eftir að skipið kom til Reykjavíkur, rúmri viku eftir atburðinn.  Í málatilbúnaði stefnda eru ekki tilgreindar aðrar ástæður fyrir þessum drætti en þær að forráðamönnum stefnda hafi ekki verið kunnugt um málið fyrr en nokkrum dögum eftir að skipið kom til Reykjavíkur.   

Ótvírætt er að skipstjóri hafði heimild samkvæmt áðurgreindu lagaákvæði til að víkja stefnanda úr skiprúmi vegna brota hans.  Ef hann ætlaði að gera það bar honum að skýra stefnanda frá því hið fyrsta og eigi síðar en 7 dögum eftir að hann fékk vitneskju um atburðinn.  Það gerði hann ekki og þar sem stefndi þykir ekki hafa sýnt fram á að í þessu tilviki séu sérstakar ástæður sem réttlæti lengri frest en mælt er fyrir um í 2. mgr. 24. gr. verður því uppsögn ráðningarsamnings stefnanda talin ólögmæt.  Vegna þeirrar ólögmætu uppsagnar á stefnandi rétt á bótum samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga sbr. 9. gr. sömu laga, en í 25. gr. sjómannalaga felst sérregla um skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar á skiprúmssamningi, svokölluð meðalbótaregla.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga á skipverji rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. laganna ef honum er vikið úr skiprúmi áður en ráðningatími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr.  Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. er uppsagnarfrestur undirmanna einn mánuður nema um annað sé samið og er ekki um það deilt í málinu að uppsagnarfrestur gagnvart stefnanda var einn mánuður.  Að því gefnu að stefnandi eigi rétt á kaupi samkvæmt 25. gr. sjómannalaga hefur stefndi gert þá varakröfu að stefnandi fái einungis greidd mánaðarlaun, orlofslaun, desemberuppbót og orlof.  Þá hefur hann gert þá þrautavarakröfu verði ekki fallist á varakröfu að við varakröfu bætist meðaltal yfirvinnu vegna janúar til október 2000.  Aðilum ber því ekki allskostar saman um hvað felist í rétti stefnanda á kaupi en tölulegum útreikningum kröfuliða stefnanda hefur ekki verið mótmælt sem slíkum.  Með því að slegið hefur verið föstu að stefnandi eigi rétt á skaðabótum vegna ólögmætrar uppsagnar á hann rétt á óskertum launum í uppsagnarfresti sem er einn mánuður.

1.                      Mánaðarlaun stefnanda samkvæmt launatöflu frá 6. maí 2000 í kjarasamningi milli samtaka atvinnulífsins og Sjómannafélags Reykjavíkur sem gildir frá 6. maí 2000 eru krónur 111.019 og er ekki ágreiningur með aðilum um að sú fjárhæð falli innan kauphugtaksins í 25. gr. sjómannalaganna.

2.                      Þá ber aðilum saman um að innan þess hugtaks falli einnig svokölluð desemberuppbót samkvæmt grein 1.11. í framangreindum kjarasamningi og að sú fjárhæð sé í tilviki stefnanda krónur 23.500.

3.                      Ennfremur eru aðilar sammála að í kaupi felist orlofsuppbót samkvæmt grein 1.12. í kjarasamningnum að fjárhæð krónur 4.700.

4.                      Stefnandi gerir kröfu um fæðispeninga samkvæmt grein 1.14 í kjarasamningi.  Þar segir að fæðispeningar skuli vera krónur 548 pr. skráningardag og hækki eða lækki í samræmi við  hráefniskostnað útgerðar.  Eins og fram kemur hjá stefnanda eru fæðispeningar greiddir meðan skipverjar eru um borð án tillits til þess hvort fæði er um borð eða ekki en skipverjar endurgreiða síðan útgerðinni útlagðan kostnað vegna fæðis.  Fæðispeningar eru skattskyld hlunnindi sem eru hluti af ráðningarkjörum sjómanna eins og greinir í tilvitnaðri grein kjarasamningsins.  Verður því fallist á það með stefnanda að hér sé um að fastar greiðslur sem eru hluti af launakjörum stefnanda og því innifalið í hugtakinu kaup samkvæmt 25. gr. sjómannalaganna.  Samkvæmt því er viðurkennd krafa stefnanda að fjárhæð krónur 16.440.

5.                      Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu verslunarfrídaga samtals að fjárhæð krónur 6.660 og vísar til f liðs greinar 3.3. í kjarasamningnum.  Þar kemur fram að skipverjar skuli fá hálfan virkan dag frí tvisvar í mánuði eða einn heilan dag virkan í mánuði í erlendri höfn að viðhöfðu samráði við stýrimann eða vélstjóra.  Þeir af framangreindum dögum sem ekki hafi verið veittir um áramót eða þegar skipverji hætti störum skuli greiðast með 1/30 af mánaðarkaupi með 80% álagi.  Með vísan til þessa ákvæðis kjarasamningsins verður að telja þessa kröfu stefnanda að fjárhæð krónur 6.660 falla innan kauphugtaksins í 25. gr. sjómannalaganna.

6.                      Þá gerir stefnandi kröfu um frídaga í samræmi við grein 3.3. í kjarasamningnum.  Þar segir í a lið að fyrir hvern laugar- sunnu-helgi- og eða tyllidag utan heimahafnar eða unninn í heimahöfn vinni skipverjar sér inn einn frídag.  Þá segir í c lið ákvæðisins að þeir innunnir frídagar sem ekki hafi verið veittir við afskráningu eða áramót skuli greiddir með 1/21,67 af mánaðarkaupi.  Samkvæmt þessu eru frídagar þessir hluti af launakjörum stefnanda sem fellur undir bótaákvæði 25. gr. sjómannalaganna. Er óumdeilt að frídagar þessir voru 8 í október 2000.  Með vísan til þessa ákvæðis kjarasamningsins verður að telja þessa kröfu stefnanda að fjárhæð krónur 40.984 falla innan kauphugtaksins í 25. gr. sjómannalaganna.

7.                      Ekki er ágreiningur um að laun fyrir hvern unnin yfirvinnutíma sé krónur 1152,93  og er óumdeilt að greiða skuli fyrir unna yfirvinnu í samræmi við grein 1.3 í títtnefndum kjarasamningi.  Af fyrirliggjandi launaseðlum er ljóst að stefnandi hefur á tímabilinu janúar til október 2000 unnið töluverða yfirvinnu, samtals 1015 tíma.  Hefur stefndi í þrautavarakröfu sinni gert ráð fyrir yfirvinnu sem nemur meðaltali þessara yfirvinnustunda eða 113 tímar á mánuði.  Verður að telja það sanngjarna niðurstöðu að reikna með því meðaltali við útreikning á bótum stefnanda, en krafa stefnanda um 170 yfirvinnustundir er ekki studd neinum haldbærum gögnum.  Með vísan til þessa verður því slegið föstu að stefnandi eigi rétt á greiðslu yfirvinnu í uppsagnarfresti sem nemur krónum 130.281 og að slík krafa falli innan kauphugtaks 25. gr. sjómannalaganna.

8.                      Stefnandi gerir kröfu um 50 tíma ákvæðisvinnu í samræmi við grein 1.4 í kjarasamningnum og samkvæmt honum skal kaupauki vera krónur 377 frá 6. maí 2000.  Kemur fram hjá stefnanda að samkvæmt bókun frá Ríkissáttasemjara skuli kaupauki þessi vera tvöfaldur frá 6. maí 2000 eða krónur 754.  Samkvæmt fyrirliggjandi launaseðlum eru greiðslur vegna ákvæðisvinnu mismunandi eftir mánuðum og er meðaltalið um 46 stundir.  Ekki eru fyrirliggjandi gögn um fullyrðingar stefnanda um tvöföldun kaupauka þessa og bera launaseðlar ekki með sér að svo hafi verið og því ekki við annað að styðjast en framangreinda grein í kjarasamningi.  Þykir með sömu rökum og greinir að ofan varðandi yfirvinnu rétt að miða ákvæðisvinnu við meðaltal, 46 tíma.  Er þessi kröfuliður því viðurkenndur að fjárhæð kr. 17.342.

9.                      Ekki er ágreiningur um að stefnandi á rétt á orlofi samtals 10,17% af kaupi samkvæmt lögum um orlof sbr. 1. mgr. greinar 6.1 í kjarasamningi. Þar sem orlof reiknast ekki af orlofs- og desemberuppbót verður grundvöllur orlofskröfu krónur 322.726 eða krónur 32.821.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda krónur 383.747 með dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá þingfestingardegi 15. apríl 2001 til 1. júlí 2001 er ný lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 tóku gildi en frá þeim degi til greiðsludags greiðast dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra laga sbr. 9. gr. sömu laga.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilegur krónur 110.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Friðrik Á. Hermannsson hdl. flutti málið af hálfu stefnanda en Jón H. Magnússon hdl. af hálfu stefnda.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi Samskip hf. greiði stefnanda Gunnari Hilmarssyni krónur 383.747 auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 15. apríl 2001  til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda krónur 110.000 í málskostnað þar með talinn virðisaukaskatt.