Hæstiréttur íslands

Mál nr. 161/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


Þriðjudaginn 16

 

Þriðjudaginn 16. apríl 2002.

Nr. 161/2002.

Ingólfur Sveinsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Skeljungi hf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

S hf. krafðist þess að bú I yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Krafa S hf. var komin fram innan tilskilins frests, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og fullnægði skilyrðum 1. mgr. 66. gr., sbr. 1. mgr. 67. gr. laganna til að fá efnismeðferð. Ekki var fallist á að krafan væri nægilega tryggð með nánar tilteknum handveðsamningi, en sönnunarbyrði um það hvíldi á I. Var því fallist á kröfu S hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. mars 2002, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ingólfur Sveinsson, greiði varnaraðila, Skeljungi hf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. mars 2002.

Málið var þingfest 15. mars síðastliðinn og tekið til úrskurðar samdægurs.  Sóknar­aðili er Skeljungur hf., kt. 590269-1749, Suðurlandsbraut 4, Reykjavík.  Varnar­­aðili er Ingólfur Sveinsson, kt. 200651-2199, Hæðarbyggð 27, Garðabæ.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.  Jafn­framt er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að synjað verði um kröfu sóknaraðila.  Þá er krafist máls­kostnaðar. 

I.

Hinn 25. september 1997 gaf Búri ehf., kt. 440195-2969, út skuldabréf til sóknaraðila að fjárhæð krónur 6.500.000.  Sama dag undirrituðu Búri ehf. og Outer Ocean Ltd., Jersey, Channel Islands, handveðsyfirlýsingu til sóknaraðila, en með henni settu félögin að handveði veðsamning útgefinn 15. ágúst 1997 af Daybreak Fishing Company Ltd., Monroviu, Líberíu, þess efnis að Outer Ocean Ltd. fengi veð á 2. veðrétti í skipinu „Peter“ (áður Klöru Sveinsdóttur) fyrir USD 1.730.000.  Í hand­veðs­yfirlýsingunni segir að handveðið skuli standa til tryggingar skilvísri og skað­lausri greiðslu á öllum þáverandi og síðar til komnum skuldum Búra ehf. og Outer Ocean Ltd. gagnvart sóknaraðila að fjárhæð allt að krónur 16.000.000, miðað við vísi­tölu neysluverðs í september 1997, ásamt vöxtum, verðbótum og hvers konar kostnaði, sem á kröfur sóknaraðila kynnu að falla.  Af gögnum málsins verður ráðið að umræddar kröfur hafi stofnast vegna olíukaupa af sóknaraðila.  Varnaraðili var einn af fyrirsvarsmönnum Búra ehf.

II.

Hinn 13. október 1999 gerðu Búri ehf., varnaraðili og fjórir aðrir nafngreindir einstaklingar dómsátt við sóknaraðila um greiðslu á krónum 12.001.200 auk dráttar­vaxta af þeirri fjárhæð frá 11. ágúst 1998 til greiðsludags, en umrædd skuld var til komin vegna olíukaupa og hafði verið tryggð með 12.000.000 króna tryggingavíxli, útgefnum 14. ágúst 1997.  Krafan hefur ekki fengist greidd nema að litlu leyti.

Hinn 1. nóvember 2001 var gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila fyrir tæplega 2.000.000 króna kröfu Fiskiðjusamlags Húsavíkur hf., en við þá gerð lýsti umboðs­maður varnaraðila yfir eignaleysi fyrir hans hönd.  Í framhaldi lagði sóknar­aðili fram kröfu um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila, sem móttekin var í héraðsdómi 1. febrúar 2002.  Krafan er studd við áður nefnda dómsátt og hljóðar nú á krónur 24.239.149 með dráttarvöxtum og öðrum áföllnum kostnaði.  Kröfunni til stuðnings er vísað til ákvæða 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

III.

Varnaraðili telur að synja beri um gjaldþrotaskipti á búi hans og styður það eftirfarandi rökum.  Í fyrsta lagi hafi meira en þrír mánuðir liðið frá hinu árangurs­lausa fjár­námi og þar til krafa um gjaldþrotaskipti hafi verið móttekin í héraðsdómi.  Því séu ekki uppfyllt skilyrði 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. nefndra laga til að taka megi bú hans til gjaldþrotaskipta.  Í annað stað sé krafa sóknaraðila ekki rétt tilgreind, en raun­veru­leg skuld varnaraðila sé mun lægri.  Í þriðja lagi er á því byggt að sóknaraðili hafi nægilega tryggingu fyrir skuldinni í áður nefndum handveðssamningi og á meðan hann skili ekki þeim samningi sé honum óheimilt að ganga að varnaraðila, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga.  Beri sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því að umrædd trygging sé ekki fullnægjandi.

IV.

Af hálfu sóknaraðila er framangreindum málsástæðum öllum mótmælt sem þýðingar­lausum fyrir úrslit þessa máls.  Augljóst sé að krafan um gjaldþrotaskipti hafi verið lögð fram innan tilskilins frests samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. gjaldþrota­skipta­­laga.  Þá sé krafan nægilega tilgreind og sundur­liðuð í gjaldþrotaskipta­beiðni.  Loks er því mótmælt að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með umræddum hand­veðs­samningi, enda sé með öllu ókunnugt um stað­setningu veðandlagsins, skipsins „Peter“ og ekkert vitað um fjárhæð kröfu á 1. veð­rétti í skipinu.  Því fari víðs fjarri að fyrir hendi sé nægileg trygging fyrir nefndri kröfu sóknaraðila, en sönnunarbyrði fyrir því hvíli óhjákvæmilega á varnar­aðila.  Jafnframt mótmælir sóknaraðili því að honum beri skylda til að skila veð­samningnum, enda eigi varnaraðili ekkert með þann samning að gera.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti telst frestdagur í skilningi laganna sá dagur, sem héraðsdómi berst krafa um gjaldþrotaskipti.  Í 1. tölu­lið 2. mgr. 65. gr. laganna er það meðal annars gert að skilyrði fyrir því að lánar­drottinn geti krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldara að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá honum „á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag“.  Af þessu orðalagi má ráða að frestinn beri að reikna svo, að átt sé við árangurslaust fjárnám, sem gert hafi verið á síðustu þremur heilu mánuðum fyrir frestdaginn og að frestdagurinn reiknist því ekki með.  Í málinu liggur fyrir að gert var árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 1. nóvember 2001 og að krafa sóknar­aðila um gjaldþrotaskipti barst héraðsdómi 1. febrúar 2002.  Samkvæmt því telst krafan fram komin innan lögmælts frests. 

Sú mótbára varnaraðila að krafa sóknaraðila sé ekki rétt tilgreind í gjaldþrota­skipta­beiðni er haldlaus, en fyrir liggur að sóknaraðili á gjaldfallna kröfu á hendur varnar­aðila, sem hann er ófær um að greiða.  Ágreiningur um raunverulega fjárhæð kröfunnar í dag er atriði, sem leyst verður úr við gjaldþrotaskipti, ef til þeirra kemur á annað borð, en krafa sóknaraðila fullnægir skilyrðum 1. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 67. gr. laganna, til að fá efnismeðferð í málinu.

Loks verður ekki fallist á að krafa sóknaraðila sé „nægilega tryggð“ með títt­nefndum handveðssamningi, sbr. 1. töluliður 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, en sönnunar­byrði fyrir því hvílir alfarið á varnaraðila.

Engin ástæða er til að ætla að varnaraðili sé nú fær um að standa full skil á fjár­kröfu sóknaraðila eða verði það innan skamms tíma.  Með hliðsjón af því og öðru, sem að framan er rakið, ber að verða við kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.  Í ljósi þeirra málsúrslita ber jafnframt að úrskurða varnaraðila til greiðslu málskostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn 60.000 krónur.         

Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara, sem var úthlutað málinu 12. mars 2002.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Bú varnaraðila, Ingólfs Sveinssonar, er tekið til gjaldþrota­skipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, Skeljungi hf., 60.000 krónur í málskostnað.