Hæstiréttur íslands

Mál nr. 774/2015

Sigurður Frans Þráinsson (Jónas Haraldsson hdl.)
gegn
Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf. (Jón Magnússon hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Sjómaður
  • Veikindalaun

Reifun

S krafði Ú ehf. um greiðslu staðgengilslauna á grundvelli 1. og 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, í kjölfar slyss sem hann kvaðst hafa orðið fyrir í vinnu sinni hjá Ú ehf. Talið var að S hefði ekki sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir slysi við vinnu sína og var byggt á því að óvinnufærni S mætti rekja til veikinda hans eins og fyrirliggjandi læknisvottorð sýndu. Þá var nægilega í ljós leitt að S hefði verið fullkunnugt um ástand sitt er hann réð sig til starfa hjá Ú ehf. og að hann hefði leynt Ú ehf. þeim upplýsingum. Átti S því hvorki rétt á veikindalaunum á þeim forsendum að hann hefði slasast við vinnu sína hjá Ú ehf. né vegna sjúkdóms samkvæmt 1. og 2. mgr., sbr. og 4. mgr. 36. gr. sömu laga. Var Ú ehf. því sýknað af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2015. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 584.904 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. apríl 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti og að viðurkenndur verði sjóveðréttur í Glófaxa VE 300, skipaskrárnúmer 968, til tryggingar öllum dæmdum kröfum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 11. janúar 2016. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Í héraðsdómsstefnu var dómkrafa aðaláfrýjanda að fjárhæð 2.500.000 krónur. Í þinghaldi 25. febrúar 2015 lækkaði hann kröfu sína og krafðist aðallega 1.076.830 króna en til vara 584.904 króna. Í þinghaldi 6. maí sama ár gerði aðaláfrýjandi enn frekari breytingar á kröfufjárhæð sinni og krafðist aðallega að gagnáfrýjandi greiddi sér 2.885.383 krónur, til vara 1.076.830 krónur en til þrautavara 584.904 krónur. Í upphafi aðalmeðferðar málsins 21. september 2015 mótmælti lögmaður gagnáfrýjanda breyttri kröfugerð aðaláfrýjanda og taldi hann bundinn af kröfugerð sinni 25. febrúar 2015.

Við munnlegan málflutning hér fyrir dómi gerði aðaláfrýjandi enn á ný breytingu á kröfugerð sinni á þann hátt að hann féll frá aðal- og varakröfu og gerði eingöngu kröfu um greiðslu þeirrar fjárhæðar sem upphaflega var sett fram sem þrautavarakrafa.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, Sigurður Frans Þráinsson, greiði gagnáfrýjanda, Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf., samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 19. október 2015.

            Mál þetta, sem dómtekið var 21. september sl., er höfðað með stefnu birtri 11. nóvember sl.

            Stefnandi er Sigurður Frans Þráinsson, kt. [...], Hrauntúni 29, Vestmannaeyjum.

            Stefndi er Útgerðarfélagið Glófaxi, kt. [...], Illugagötu 36, Vestmannaeyjum.

            Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda aðallega 2.885.383 krónur en til vara 1.076.830 krónur en til þrautavara 584.904 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. apríl 2014 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og jafnframt að viðurkenndur verði sjóveðréttur í Glófaxa VE-300, skipaskrárnúmer 968, til tryggingar öllum dæmdum kröfum.

            Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi auk álags á málskostnað.

Málavextir.

            Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir að í september 2007 hóf stefnandi störf hjá stefnda sem skipstjórnarmaður á Glófaxa VE-300, skipaskrárnúmer 968, en um er að ræða 349 brúttótonna netaveiðibát í eigu stefnda. Samkvæmt lögskráningarvottorði stefnda mun stefnandi hafa starfað ýmist sem skipstjóri eða stýrimaður um borð í bátnum. Samkvæmt ráðningarsamningi, sem aðilar munu hafa gert sín á milli, hafi stefnandi átt að gegna stöðu skipstjóra á ráðningartímabilinu 19. október 2013 til 31. desember sama ár og skyldi staða stefnanda endurskoðuð um áramótin, en annars myndi stefnandi halda starfi sínu sem 1. stýrimaður á grundvelli samnings frá 11. febrúar sama ár. Þann 16. desember sama ár hafi stefnanda verið afhent uppsagnarbréf þar sem fram komi að honum sé sagt upp störfum sem 1. stýrimaður frá og með þeim degi vegna samstarfsörðugleika. Þá hafi stefnanda verið kynnt að verið gæti að óskað yrði eftir því að hann ynni uppsagnarfrestinn. Stefnanda hafi auk þess verið tilkynnt að samningurinn frá 19. október sama ár yrði ekki endurnýjaður. Stefnandi mun hafa verið boðaður til vinnu þann 6. janúar 2014 og heldur stefndi því fram að stefnandi hafi mætt til vinnu daginn eftir og unnið við málningu eitthvað fram eftir degi. Hann hafi ekki mætt til vinnu næstu daga og ekki tilkynnt um forföll. Stefnandi heldur því hins vegar fram að hann hafi þann 8. janúar sama ár verið við vinnu í bátnum og verið að skrapa ryð þegar hann hafi runnið á lausu ryði og fengið mikinn og slæman verk í bakið. Stefndi kveður framkvæmdastjóra sinn hafa verið upplýstan um það þann 13. janúar sama ár að stefnandi væri óvinnufær vegna veikinda í baki. Hafi stefnandi í kjölfarið komið með læknisvottorð dagsett 8. janúar sama ár þar sem fram komi að stefnandi sé óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms og í síðari vottorðum sé óvinnufærni stefnanda einnig talin stafa af sjúkdómi. Í beiðni um sjúkraþjálfun frá 4. september 2013 komi fram að sjúkdómsgreining stefnanda sé „Spinal Stenosis“ og þá segi í vottorðinu að saga sé um brjóskloseinkenni fyrir mörgum árum. Stefnandi kveðst hafa verið óvinnufær í rúma fimm mánuði og hafi hann þurft að gangast undir brjósklosaðgerð í apríl 2014. Stefndi kveður stefnanda ekki hafa upplýst sig um ofangreind veikindi sín fyrr en 13. janúar sama ár en fyrst í mars sama ár hafi stefnandi farið að halda því fram að óvinnufærni hans ætti rætur að rekja til vinnuslyss sem hann hefði lent í um borð í bátnum þann 8. janúar sama ár. Taldi stefndi því ljóst að stefnandi ætti ekki rétt á greiðslum samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga en taldi rétt að greiða honum laun að fullu í uppsagnarfresti.        

Málsástæður og lagarök stefnanda.

            Stefnandi byggir á því að stefnda beri að greiða honum full og óskert staðgengilslaun í 2 mánuði frá 8. janúar 2014 vegna óvinnufærni stefnanda í kjölfar meiðsla sem hann hafi hlotið um borð í Glófaxa VE-300, sbr. 1. og 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga og grein 1.21 í kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ. Stefnandi hafi verið í ráðningarsambandi við stefnda er hann hafi orðið óvinnufær samkvæmt læknisvottorðum og því beri stefnda að greiða honum umkrafin laun. Stefnandi kveður stefnda skylt að greiða honum fyrstu fjóra mánuðina í óvinnufærni hans samkvæmt 1. og 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga. Deilt sé um fjárhæð veikindalauna stefnanda því stefndi hafi aðeins greitt staðgengilslaun frá slysdegi til 15. febrúar 2014 en ekki í fulla tvo mánuði, til og með 9. mars sama ár. Stefnandi krefjist mismunar þeirra launa sem hann hafi fengið greidd frá slysdegi til og með 9. mars 2014 og þeirra staðgengilslauna sem hann hefði átt að fá greidd frá sama tíma. Ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga sé skýrt og ófrávíkjanlegt varðandi rétt skipverja til staðgengilslauna fyrstu 60 dagana í óvinnufærni sinni. Stefnandi hafi aflað upplýsinga frá Fiskistofu um aflamagn og aflaverðmæti bátsins á staðgengilslaunatímabili hans. Hafi aflaverðmæti bátsins numið um 30 milljónum króna í febrúar en um 80 milljónum króna í mars. Þau laun sem stefnandi sé vanhaldinn um samkvæmt þessum upplýsingum og ákvæðum kjarasamninga sjómanna séu um 2.500.000 krónur. Sé þá miðað við að stefnandi hafi gegnt að jöfnu stöðu skipstjóra og yfirstýrimanns á umræddu tímabili hefði hann ekki meiðst. Stefndi hafi greitt stefnanda kauptryggingu þriðja og fjórða mánuði í óvinnufærni og segir stefnandi ekki deilt um fjárhæð veikindalauna fyrir þann tíma.

            Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 15. apríl 2014 en það tímamark sé gjalddagi veikindakaups fyrir mars 2014. Til einföldunar sé farin sú leið að miða upphafstíma dráttarvaxta allrar veikindalaunakröfu stefnanda við þetta tímamark.

            Krafa um sjóveðrétt í bátnum er byggð á 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga.

            Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 en einnig er byggt á 2. mgr. 131. gr. sömu laga í ljósi bersýnilegra haldlausra varna stefnda í málinu.

Málsástæður og lagarök stefnda.

             Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki átt rétt til veikindalauna í skilningi 36. gr. sjómannalaga og jafnvel þótt hann kynni að hafa átt slíkan rétt hafi hann fyrirgert þeim rétti með háttsemi sinni. Samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga og grein 1.21 í kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ sé mælt fyrir um rétt skipverja til greiðslna verði hann óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla á ráðningartímabili. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar eigi skipverji ekki rétt á kaupi þann tíma sem hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna störf sín af hendi, né fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína. Sama gildir ef skipverji er ekki starfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur sjálfur bakað sér af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. 

            Stefndi byggir á því að stefnandi eigi fyrri sögu um brjóskloseinkenni sem hann hafi verið grandsamur um og þá hafi læknir greint hann með mænuþrengsli í september 2013 og gefið fyrirmæli um að hann skyldi fara í sjúkraþjálfun. Hafi stefnandi við komu til læknisins gefið þær upplýsingar að hann hafi verið með einkenni í tvo mánuði frá vinstra ganglim. Því liggi fyrir að stefnandi hafi verið með verki í baki allt frá því í júlí 2013 og hafi þeir verið orðnir það slæmir í september sama ár að hann hafi talið nauðsynlegt að leita til læknis. Þá hafi stefnandi kosið að leita sér ekki aðstoðar sjúkraþjálfara. Stefnandi hafi undirritað ráðningarsamning við stefnda sem skipstjóri tæpum mánuði eftir að læknir hefði skrifað beiðni um sjúkraþjálfun og greint hann með sjúkdóm í baki og þá hefði  hann nokkrum mánuðum fyrr undirritað ráðningarsamning sem 1. stýrimaður. Í samningunum séu ákvæði um að tilkynna beri um forföll af völdum veikinda og slysa og þá hafi stefnandi lýst því yfir að vera ekki haldinn neinum þeim sjúkdómi, t.d bakverkjum eða meiðslum, sem hafi í för með sér líkur á fyrirsjáanlegum forföllum á ráðningartímanum. Tilvik stefnanda falli því undir 4. mgr. 36. gr. sjómannalaga og þegar af þeirri ástæðu hafi stefnandi ekki átt rétt til greiðslna vegna veikinda meðan á uppsagnarfresti hans hjá stefnda hafi liðið.

            Stefndi byggir á því að síðari tilkomin skýring stefnanda um að óvinnufærni sé afleiðing slyss sé ótæk. Í fyrsta lagi sé í öllum læknisvottorðum staðfest að orsök óvinnufærni sé sjúkdómur en ekki slys. Í öðru lagi hafi ekkert verið skráð um slys í skipsbók Glófaxa en stefnandi hafi sem æðsti yfirmaður um borð borið ábyrgð á þeirri skráningu samkvæmt 4., 6. og 7. gr. reglna um skipsbækur nr. 138/1986 með síðari breytingum. Þá segi í gr. 1.21. í kjarasamningi LÍÚ og FFSÍ að verði skipverji óvinnufær af völdum veikinda eða meiðsla skuli hann tilkynna það svo fljótt sem verða má til skipstjóra eða útgerðarmanns. Einnig liggi fyrir starfsreglur um tilkynningu um forföll af völdum veikinda og slysa frá 21. september 2011 en samkvæmt 1. gr. þeirra skal skipverji tilkynna skipstjóra tafarlaust verði hann óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla. Slasist skipverji um borð skuli atvikið skráð í dagbók skips og tekin lögregluskýrsla ef ástæða þyki til. Þá segi í reglunum að vanræksla á tilkynningarskyldu geti leitt til missis forfallakaupsréttar nema um óviðráðanlegar ástæður sé að ræða. Stefnandi verði að bera hallann af því að hafa ekki skráð slysið hefði það raunverulega átt sér stað og engin gögn styðji hina breyttu frásögn hans um slys. Í þriðja lagi hafi enginn skipverja orðið vitni að því að stefnandi hafi slasast um borð í bátnum. Stefnandi hafi yfirgefið verkstað án þess að ræða við nokkurn mann eða tilkynna um forföll. Þegar kallað hafi verið eftir skýringum hafi stefnandi sagst vera óvinnufær vegna bakmeiðsla en ekki minnst einu orði á slys. Hafi stefnandi ekki nefnt fyrr en nokkrum mánuðum síðar að hann hefði lent í slysi og væri óvinnufærnin afleiðing þess.

            Stefndi byggir á því að verði talið að stefnandi eigi rétt til greiðslna samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga hafi hann fyrirgert slíkum rétti með því að sinna ekki nægjanlega skyldu sinni til að leita sér lækninga, sbr. gr. 1.21 í umræddum kjarasamningi. Það sé því á ábyrgð skipverja að takmarka tímabil óvinnufærni með því að leita sér aðstoðar án tafar. Með því að leita ekki til sjúkraþjálfara í september 2013 hafi stefnandi sýnt af sér verulega vanrækslu og sé afleiðing hennar sú að hann hafi fyrirgert rétti til greiðslna skv. 1., sbr. 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga.

            Stefndi byggir á því að stefnandi hafi þegar móttekið allar þær greiðslur sem hann hafi átt rétt á og raunar rúmlega það. Stefnandi hafi fengið ráðningu sína sem skipstjóri greidda að fullu skv. desemberuppgjöri 2013 og hann hafi síðan fengið laun í janúar, febrúar, mars, apríl og maí og þar af hafi tveir mánuðir verið greiddir á hlut og þrír á kauptryggingu í samræmi við fyrirmæli laga og kjarasamnings. Til viðbótar hafi stefndi einnig greitt lyfja- og lækniskostnað sem og kostnað vegna sjúkraþjálfunar, en þær greiðslur hafi verið umfram skyldu en í samræmi við venju hjá stefnda. Þessar greiðslur geti á engan hátt aukið greiðsluskyldu stefnda og hafnar stefndi þeim staðhæfingum í stefnu að með þessum greiðslum hafi stefndi viðurkennt rétt stefnanda til forfallalauna.

            Stefndi segir ljóst að fjárkrafa stefnanda byggi á ágiskun stefnanda um aflaverðmæti Glófaxa í febrúar og mars. Staðreyndin sé sú að ágiskun stefnanda um aflaverðmæti sé langt umfram það sem raunverulega hafi verið og sé því ljóst að fjárkrafa stefnanda sé langt umfram raunvirði staðgengilslauna.

            Stefndi byggir á því að jafnvel þótt fallist verði á kröfur stefnanda að hluta beri að hafna kröfu hans um málskostnað, enda hafi stefndi greitt honum allar þær greiðslur sem hann hafi átt rétt til lögum samkvæmt. Stefnandi hafi breytt frásögn sinni um orsakir óvinnufærni í því skyni að fá hærri greiðslur og hafi stefndi þurft að leggja í talsverðan kostnað til að bera hönd fyrir höfuð sér.

            Stefndi vísar til sjómannalaga nr. 35/1985, siglingalaga nr. 34/1985, kjarasamnings LÍÚ og FFSÍ frá 1. janúar 2009, starfsreglna um tilkynningu um forföll af völdum veikinda og slysa frá 21. september 2011, reglna um skipsbækur nr. 138/1986 ásamt breytingum nr. 183/1987. Þá vísar stefndi til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði. Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um álag á málskostnað er byggð á 2. mgr. sama ákvæðis.

Niðurstaða.

                Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort stefnandi eigi rétt á greiðslum samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga en stefndi hefur byggt á því að rétt hefði verið að greiða stefnanda laun að fullu í uppsagnarfresti. Stefnandi byggir á því að greiða eigi honum full og óskert staðgengilslaun í 2 mánuði frá 8. janúar 2014 vegna óvinnufærni stefnanda í kjölfar meiðsla sem hann hafi hlotið um borð í Glófaxa VE-300, sbr. 1. og 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga og grein 1.21 í kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ. Af hálfu stefnda er því haldið fram að ósannað sé að stefnandi hafi slasast um borð í bátnum, enda hafi ekkert verið skráð um það í skipsbók og þá sé hvergi á það minnst í læknisvottorðum. Stefndi telur tilvik stefnanda falla undir 4. mgr. 36. gr. sjómannalaga og þegar af þeirri ástæðu hafi stefnandi ekki átt rétt til greiðslna vegna veikinda meðan á uppsagnarfresti hans hjá stefnda hafi liðið.

            Stefnandi heldur því fram að hann hafi slasast við vinnu sína um borð í bátnum Glófaxa þann 8. janúar 2014 en ljóst er að ekkert hefur verið skráð um það í skipsbók. Þá benda framlögð læknisvottorð til þess að óvinnufærni stefnanda hafi stafað af sjúkdómi í baki en ekki vegna slyss. Er því að mati dómsins ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir slysi eins og hann  heldur fram og verður á því byggt í máli þessu að óvinnufærni hans stafi af veikindum hans eins og læknisvottorð staðfesta. Þá liggur fyrir að stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda þann 16. desember 2013. Fyrir liggur í máli þessu að staðfest hafi verið með vottorði frá 4. september 2013 að stefnandi hafi átt fyrri sögu um brjóskloseinkenni og þá lá fyrir að hann hefði verið greindur með þrengsli í mænugöngum. Við undirritun ráðningarsamnings við stefnda þann 19. október 2013 lýsti stefnandi því yfir að hann væri ekki haldinn neinum þeim sjúkdómi, t.d. bakverkjum eða meiðslum, sem hafi í för með sér líkur á fyrirsjáanlegum forföllum á ráðningartímanum. Í 1. og 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga eru reglur um greiðslur til skipverja sem verða óvinnufærir vegna sjúkdóms eða meiðsla meðan á ráðningartíma stendur. Samkvæmt 4. mgr. 36. gr. sömu laga á skipverji ekki rétt á kaupi þann tíma sem hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna störf sín af hendi né fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína. Nægilega er leitt í ljós að stefnanda var fullkunnugt um ástand sitt við undirritun ráðningarsamningsins og þá hefur því ekki verið mótmælt að hann hafi leynt stefnda hvernig ástand hans var. Þegar af þessari ástæðu á stefnandi ekki rétt til frekari launagreiðslna en stefnandi hefur þegar reitt af hendi til hans. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

            Stefndi, Útgerðarfélagið Glófaxi ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sigurðar Frans Þráinssonar, í máli þessu.

            Málskostnaður fellur niður.