Hæstiréttur íslands
Mál nr. 578/2015
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Vanreifun
- Málsgrundvöllur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2015. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 20. október 2015. Hann krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um riftun greiðslna Milestone ehf. til aðaláfrýjanda 31. desember 2008 að fjárhæð 139.576.000 krónur og 18. febrúar 2009 að fjárhæð 54.781.007 krónur. Þá krefst hann þess að rift verði greiðslu Milestone ehf. til aðaláfrýjanda 30. maí 2008 að fjárhæð 10.598.953 krónur og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 98.949.739 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. ágúst 2010 til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Af gögnum málsins verður ráðið að Milestone ehf. hafi verið stofnað í mars 1988 en þá borið annað heiti. Tilgangur félagsins var eignarhald á öðrum félögum og fjárfestingarstarfsemi, inn- og útflutningur, leigu- og lánastarfsemi, rekstur fasteigna og annar skyldur rekstur. Í upphafi árs 2004 var félagið sameinað Apóteki Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapóteki ehf. og Ísrann ehf. og nafninu breytt í kjölfarið í Milestone ehf. Umsvif félagsins jukust mjög á árunum 2005 til 2007 og átti félagið meðal annars stóra eignarhluti í Glitni banka hf., Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Lyfjum og heilsu ehf., auk þess sem félagið keypti á fyrri hluta ársins 2007 sænskt fjármálafyrirtæki.
Bú Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 18. september 2009 og var frestdagur við skiptin 22. júní sama ár. Var aðaláfrýjandi stjórnarformaður og stærsti hluthafi Milestone ehf. á árunum 2005 til 2009.
II
Gagnáfrýjandi krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um riftun annars vegar á ráðstöfun 31. desember 2008 að fjárhæð 139.576.000 krónur, sem færð var í viðskiptamannareikningi aðaláfrýjanda hjá Milestone ehf. sem ,,Arður 2007“, og hins vegar ráðstöfun 18. febrúar 2009 að fjárhæð 54.781.007 krónur, sem færð var á viðskiptamannareikningi hans vegna ,,Netjets“. Þá krefst gagnáfrýjandi þess að rift verði ráðstöfun 30. maí 2008 að fjárhæð 10.598.953 krónur. Á hinn bóginn unir hann niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að hafna riftun ráðstöfunar 24. september 2007 að fjárhæð 299.288.364 krónur. Um lagarök fyrir riftunarkröfum sínum hefur gagnáfrýjandi vísað til 2. mgr. 131. gr., 2. mgr. 134. gr., 136. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá hefur hann vísað til 1. mgr. 142. gr. sömu laga um endurgreiðslukröfu sína, en að auki vísaði hann til 79. gr. og 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Fyrir Hæstarétti hefur hann einnig vísað til 77. gr. síðastnefndra laga, en sú málsástæða var ekki höfð uppi í héraði og kemst hún því ekki að í málinu, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Til að riftun nái fram að ganga samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 21/1991 þarf sönnun að liggja fyrir um það að Milestone ehf. hafi verið ógjaldfært á því tímabili sem ákvæðin taka til. Samkvæmt ársreikningi Milestone ehf. fyrir árið 2007 var eigið fé félagsins 84.132.000.000 krónur í árslok 2007, en ársreikningurinn var áritaður án fyrirvara af endurskoðendum félagsins.
Af hálfu skiptastjóra gagnáfrýjanda var aflað matsgerðar dómkvaddra manna um ,,ógjaldfærni Milestone ehf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins“. Þess var óskað að metið yrði hvenær markaðsvirði eigna Milestone ehf. hafi orðið minna en skuldir félagsins og einnig með hvaða hætti Milestone ehf. hafi fjármagnað skuldbindingar félagsins frá september 2007 og fram að gjaldþroti þess. Þá var óskað mats á því hvort Milestone ehf. hafi fjármagnað greiðslur skuldbindinga félagsins með lánum frá Glitni banka hf. með beinum eða óbeinum hætti. Jafnframt hvort Milestone ehf. hafi fjármagnað greiðslur skuldbindinga félagsins með lánum frá dótturfélögum eða tengdum félögum með beinum eða óbeinum hætti. Enn fremur að metið yrði hvenær Milestone ehf. hafi ekki getað staðið að fullu í skilum við lánardrottna sína, með öðrum hætti en beinum eða óbeinum lánveitingum frá Glitni banka hf. eða félögum tengdum Milestone ehf., þegar kröfur lánardrottna féllu í gjalddaga og ekki var talið sennilegt að greiðsluerfiðleikar félagsins myndu hjá líða innan skamms. Að lokum var óskað mats á því hvenær Milestone ehf. gat ekki staðið að fullu í skilum við lánardrottna sína, þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga og ekki var talið sennilegt að greiðsluerfiðleikar félagsins myndu hjá líða innan skamms.
Í samantekt matsgerðar hinna dómkvöddu manna 28. apríl 2014 sagði að markaðsvirði eigna Milestone ehf. hafi verið talsvert lægra en fram kom í ársreikningum móðurfélagsins frá miðju ári 2006. Eignir Milestone ehf. hafi rýrnað um rúmar 83.000.000.000 krónur frá miðju ári 2006 fram á mitt ár 2008, samkvæmt varfærnu mati, sem byggði á forsendu um áframhaldandi rekstur undirliggjandi eigna. Skuldir Milestone ehf. hafi verið hærri en markaðsverðmæti eigna undir lok fyrsta ársfjórðungs eða í byrjun annars ársfjórðungs 2008. Það að Milestone ehf. hafi þurft að nota Sjóvá-Almennar tryggingar hf. til þess að standa í skilum við Morgan Stanley í lok nóvember 2007 bendi til þess að gjaldfærni Milestone ehf. hafi verið dregin í efa undir lok árs 2007 af viðskiptabanka félagsins, þar sem jákvæð eiginfjárstaða hafi ekki verið álitin nægilega traust til þess að viðskiptabanki félagsins vildi lána því meira fé. Á fyrstu mánuðum ársins 2008 hafi komið enn í ljós takmarkað greiðsluhæfi Milestone samstæðunnar. Sú staðreynd að Milestone ehf. hafi einungis getað fengið lánsfé frá viðskiptabanka sínum með því að fara í gegnum dótturfélög frá lokum ársins 2007 bendi til þess að greiðslufærni Milestone ehf. hafi verið orðin takmörkuð talsvert áður en skuldir urðu meiri en eignir. Ef félagið hefði ekki getað fengið lán frá viðskiptabanka sínum í gegnum dótturfélög undir lok ársins 2007 og á fyrstu mánuðum ársins 2008 hefði það neyðst til að selja lykileignir sem hefði valdið því að eigið fé þess hefði orðið neikvætt fyrr en raun bar vitni. Að lokum segir í matsgerðinni: ,,Eftir fall Glitnis banka gat Milestone ekki staðið við skuldbindingar gagnvart lánardrottnum sínum þegar kröfur lánardrottnanna féllu á gjalddaga. Þá var ekki sennilegt að greiðsluerfiðleikar félagsins myndu hjá líða innan skamms tíma og félagið því ekki greiðslufært.“
Matsgerð þessari hefur ekki verið hnekkt með yfirmati og á henni eru engir þeir annmarkar að hún verði ekki lögð til grundvallar. Jafnvel þótt fyrir liggi samkvæmt ofangreindu að miklar blikur hafi verið á lofti varðandi greiðsluhæfi Milestone ehf. á fyrstu mánuðum ársins 2008 og að skuldir félagsins hafi verið orðnar hærri en markaðsverðmæti eigna undir lok fyrsta ársfjórðungs eða í byrjun annars ársfjórðungs 2008 verður við mat á hugtakinu gjaldfærni í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991 lagður til grundvallar sá mælikvarði sem stuðst er við í 64. gr. og upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. laganna. Tekur þetta mið af því að ekki skiptir máli þótt andvirði eigna sé á tímabili lægra en nemur skuldum ef skuldari getur til framtíðar litið staðið í skilum með skuldir sínar.
Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ósannað sé að Milestone ehf. hafi orðið ógjaldfært áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf. 7. október 2008 og skilanefnd var skipuð, en ekki liggur annað fyrir í málinu en að fram til þess tíma hafi Milestone ehf. staðið í skilum við lánardrottna sína.
III
Samkvæmt fundargerð aðalfundar Milestone ehf. 29. febrúar 2008 var samþykkt að greiða arð að fjárhæð 2.000.000.000 krónur til eigenda félagsins, sem skiptast skyldi í samræmi við eignarhlut þeirra. Samþykkt arðgreiðsla nam um 5% af bókfærðum hagnaði ársins 2007 samkvæmt ársreikningi og var því ekki andstæð XII. kafla laga nr. 138/1994. Hinn 1. september 2008 var arðgreiðsla til aðaláfrýjanda samkvæmt framangreindri samþykkt færð á viðskiptamannareikning hans og nam hún 584.000.000 krónum. Við færsluna breyttist skuldastaða aðaláfrýjanda á viðskiptamannareikningi hans hjá gagnáfrýjanda þannig að eftir hana jafnaðist skuld hans út og félagið stóð í skuld við aðaláfrýjanda sem nam 467.164.325 krónum. Færslan á arði var síðan bakfærð 31. desember 2008 og lækkuð í 139.576.000 krónur en eftir það var skuld félagsins við aðaláfrýjanda 49.990.492 krónur. Þessi ráðstöfun fól því aðeins í sér lækkun á arðgreiðslu sem hafði þegar verið færð á viðskiptamannareikning 1. september 2008, eins og áður greinir. Á þeim tíma verður eins og að framan er rakið lagt til grundvallar að félagið hafi verið gjaldfært. Er því ekki fallist á að ráðstöfunin hafi verið riftanleg samkvæmt 2. mgr. 131. gr., 136. gr., eða 141. gr. laga nr. 21/1991, eins og gagnáfrýjandi hefur byggt á.
Í öðru lagi hefur gagnáfrýjandi krafist riftunar á ráðstöfun 18. febrúar 2009 að fjárhæð 54.781.007 krónur, sem færð var á viðskiptamannareikning aðaláfrýjanda vegna ,,Netjets“. Sú ráðstöfun fór fram eftir að aðaláfrýjanda mátti vera ljóst að Milestone ehf. var ógjaldfært og verður ekki af gögnum málsins ráðið að um sé að ræða kostnað sem Milestone ehf. hafi að réttu lagi átt að greiða. Var ráðstöfunin því ótilhlýðileg, en hún leiddi til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns og verður því fallist á riftun hennar, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafnað verði riftun ráðstöfunar 30. maí 2008 að fjárhæð 10.598.953 krónur.
IV
Í stefnu til héraðsdóms krafðist gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi greiddi sér 418.793.766 krónur og byggði fjárhæð kröfunnar á því að samkvæmt bókhaldi Milestone ehf. hefði félagið á árunum 2007 til 2009 innt af hendi fjölda greiðslna til aðaláfrýjanda sem færðar hefðu verið sem skuld á viðskiptareikningi hans. Taldi gagnáfrýjandi greiðslur þessar vera lán félagsins til aðaláfrýjanda sem honum bæri að endurgreiða. Í stefnu var krafist endurgreiðslu ætlaðra ólögmætra lána frá 24. júlí 2007, er aðaláfrýjandi stóð í skuld við félagið samkvæmt viðskiptamannareikningi, til 13. mars 2009, en þá stóð félagið í 92.048.621 krónu skuld við aðaláfrýjanda.
Fyrir Hæstarétti lækkaði gagnáfrýjandi kröfu sína í 98.949.739 krónur og kvaðst una niðurstöðu héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um riftun á greiðslu 24. september 2007 að fjárhæð 299.288.364 krónur. Sá ágalli er á málatilbúnaði gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti að upphafstími kröfu hans er síðar en miðað var við í kröfu hans fyrir héraðsdómi, eða 28. september 2007 í stað 24. júlí sama ár. Fyrir vikið fellur sú ráðstöfun sem héraðsdómur hafnaði riftun á, að fjárhæð 299.288.364 krónur, utan kröfugerðar hans fyrir Hæstarétti. Hefur aðaláfrýjandi mótmælt því að þessi breyting komist að í málinu, enda hafi gagnáfrýjandi lagt málið fyrir á þeim grundvelli sem varnir aðaláfrýjanda hafi miðast við. Er fallist á með aðaláfrýjanda að gagnáfrýjanda hafi verið óheimilt að gera þessar breytingar á málatilbúnaði sínum, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 sem leitt hafi til breytinga á málsgrundvelli.
Auk framangreindra breytinga á málsgrundvelli gagnáfrýjanda milli dómstiga, er kröfugerð hans um margt óljós. Þannig er í stefnu byggt á 79. gr. laga nr. 138/1994 og vísað almennt til þess hvernig félag megi ráðstafa fjármunum til hluthafa og stjórnenda og til þess að ekkert gagngjald hafi komið frá aðaláfrýjanda vegna þeirra ætluðu ólögmætu lána sem gagnáfrýjandi telur að hann hafi notið. Engin grein er þó gerð fyrir einstökum færslum og hvernig þær tengjast því sakarefni. Þá var endurgreiðslukrafa gagnáfrýjanda samhliða reist á 142. gr. laga nr. 21/1991 þótt hún tæki til ráðstafana sem voru eldri en þær ráðstafanir sem krafist var riftunar á. Að öllu framangreindu virtu er endurgreiðslukrafa gagnáfrýjanda svo vanreifuð að vísa verður henni frá héraðsdómi, sbr. d., og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir þessum úrslitum verður málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Rift er greiðslu Milestone ehf. til aðaláfrýjanda, Karls Emils Wernerssonar, 18. febrúar 2009 að fjárhæð 54.781.007 krónur. Að öðru leyti er aðaláfrýjandi sýkn af riftunarkröfum gagnáfrýjanda, þrotabús Milestone ehf.
Endurgreiðslukröfu gagnáfrýjanda er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2015.
Mál þetta var höfðað 8. nóvember 2010, þingfest 13. janúar 2011 og tekið til dóms 17. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Þrotabú Milestone ehf., kt. 640388-1109, Borgartúni 26, Reykjavík.
Stefndi er Karl Emil Wernersson, kt. [...], Engihlíð 9, Reykjavík,.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum hins gjaldþrota félags, Milestone ehf., til stefnda, samtals að fjárhæð 504.244.324 krónur:
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 24. september 2007 að fjárhæð 299.288.364 kr.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 30. maí 2008 að fjárhæð 10.598.953 kr.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 31. desember 2008 að fjárhæð 139.576.000 kr.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 18. febrúar 2009 að fjárhæð 54.781.007 kr.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 418.793.766 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001,
af 34.090 kr. frá 24. júlí 2007 til 31. júlí 2007,
af 51.595 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2007
af 148.878.560 kr. frá þeim degi til 2. ágúst 2007
af 226.773.260 kr. frá þeim degi til 9. ágúst 2007
af 229.425.792 kr. frá þeim degi til 23. ágúst 2007
af 232.925.792 kr. frá þeim degi til 29. ágúst 2007
af 237.825.792 kr. frá þeim degi til 1. september 2007
af 237.862.275 kr. frá þeim degi til 11. september 2007
af 241.219.460 kr. frá þeim degi til 18. september 2007
af 256.219.460 kr. frá þeim degi til 19. september 2007
af 286.060.839 kr. frá þeim degi til 20. september 2007
af 292.672.019 kr. frá þeim degi til 21. september 2007
af 322.672.019 kr. frá þeim degi til 24. september 2007
af 323.180.155 kr. frá þeim degi til 28. september 2007
af 323.201.335 kr. frá þeim degi til 30. september 2007
af 323.220.148 kr. frá þeim degi til 9. október 2007
af 323.233.976 kr. frá þeim degi til 3. desember 2007
af 323.261.936 kr. frá þeim degi til 31. desember 2007
af 323.363.195 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2008
af 374.863.195 kr. frá þeim degi til 7. janúar 2008
af 376.543.811 kr. frá þeim degi til 31. janúar 2008
af 376.713.811 kr. frá þeim degi til 8. febrúar 2008
af 378.174.616 kr. frá þeim degi til 28. febrúar 2008
af 378.345.141 kr. frá þeim degi til 7. mars 2008
af 380.111.810 kr. frá þeim degi til 12. mars 2008
af 380.391.810 kr. frá þeim degi til 31. mars 2008
af 380.597.379 kr. frá þeim degi til 1. apríl 2008
af 380.635.156 kr. frá þeim degi til 7. apríl 2008
af 384.618.564 kr. frá þeim degi til 25. apríl 2008
af 384.978.564, kr. frá þeim degi til 30. apríl 2008
af 386.208.155 kr. frá þeim degi til 6. maí 2008
af 386.464.155 kr. frá þeim degi til 31. maí 2008
af 386.486.300 kr. frá þeim degi til 9. júní 2008
af 388.614.687 kr. frá þeim degi til 23. júní 2008
af 388.676.767 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2008
af 388.751.296 kr. frá þeim degi til 31. júlí 2008
af 388.843.645 kr. frá þeim degi til 8. september 2008
af 391.552.461 kr. frá þeim degi til 27. september 2008
af 391.579.342 kr. frá þeim degi til 30. september 2008
af 391.582.512 kr. frá þeim degi til 31. október 2008
af 393.177.594 kr. frá þeim degi til 23. desember 2008
af 406.059.923 kr. frá þeim degi til 31. desember 2008
af 406.070.888 kr. frá þeim degi til 13. mars 2009
en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 206.000.000 kr. þann 24. september 2007, 22.530 kr. þann 1. október 2007 og 35.010 kr. þann 1. október 2008, sem dragast frá kröfunni miðað við stöðu á innborgunardögum og ganga fyrst til greiðslu áfallinna dráttarvaxta.
Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.
I.
Málsatvik
Milestone ehf. var stofnað í mars 1988 og hét þá Deiglan-Áman. Í upphafi ársins 2004 var félagið sameinað Apóteki Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapóteki ehf. og Ísrann ehf. Nafninu var í kjölfarið breytt í Milestone. Umsvif félagsins jukust mikið á árunum 2005-2007. Félagið átti m.a. stóra hluti í Glitni banka hf., Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Lyfjum og heilsu ehf., auk þess sem félagið keypti á fyrri hluta ársins 2007 sænska félagið Moderna Finance AB.
Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. september 2009. Frestdagur við skiptin er 22. júní 2009.
Stefndi var stjórnarformaður og stærsti hluthafi Milestone ehf. á árunum 2005-2009 bæði sjálfur og í gegnum félög í hans eigu.
Skiptastjóri lét fara fram rannsókn á fjárreiðum þrotabúsins. Rannsóknin var framkvæmd af Ernst & Young. Í skýrslu Ernst & Young kemur fram að stefndi hafi á síðustu 24 mánuðum fyrir gjaldþrot Milestone ehf. fengið fjölmörg lán frá félaginu.
Stefnandi telur að nánar tilteknar ráðstafanir sem framkvæmdar voru til að lækka skuld stefnda við Milestone ehf. séu riftanlegar í skilningi XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Enn fremur telur stefnandi lán til stefnda vera ólögmæt samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög og að stefnda beri að greiða þau til baka. Stefnandi krefst því endurgreiðslu úr hendi stefnda og að stefndi greiði stefnanda skaðabætur.
Stefndi telur málsatvikalýsingu stefnanda ekki tæmandi og í greinargerð er ítarlega lýst rekstri Milestone ehf. á árunum 2007-2008. Vísar stefndi m.a. til þess að Milestone ehf. hafi á árinu 2007 verið orðið stórfyrirtæki, bæði á íslenskan og erlendan mælikvarða. Félagið hafi verið eignaumsýslufélag sem átti að hluta eða öllu leyti meðal annars innlend sem og erlend fjármálafyrirtæki og tryggingarfélög auk félaga í öðrum rekstri. Vöxtur félagsins hafi verið mjög mikill, sérstaklega á árunum 2005 til 2007.
Með vísan til nánar tilgreindra atvika í rekstri Milestone ehf. rekja málsaðilar ógjaldfærni félagsins til mismunandi tíma. Ólík afstaða aðila til þessa atriðis kemur nánar fram í reifun málsástæðna og lagaraka hér á eftir.
Hvað viðvíkur ætluðum lánum Milestone ehf. til stefnda vísar stefnandi til þess að félagið hafi á árunum 2007-2008, samkvæmt bókhaldsgögnum, innt af hendi fjölda greiðslna til stefnda sem voru færðar sem skuld stefnda á viðskiptareikningi hans. Greiðslurnar hafi verið lán félagsins til stefnda sem stefnda beri að endurgreiða. Vísar stefnandi í þessu samhengi til bls. 143-146 í skýrslu Ernst & Young þar sem teknar eru saman hreyfingar á viðskiptareikningi stefnda hjá Milestone ehf. Í stefnuskjali er jafnframt að finna yfirlit yfir færslur af reikningi þessum frá 22. júní 2007 til 13. mars 2009.
Stefnandi vísar til þess að á tímabilinu frá 25. júlí 2007 til 13. mars 2009 hafi lán Milestone ehf. til stefnda numið samtals 418.793.766 kr. Af hálfu stefnanda hefur því verið lýst yfir að fallist sé á að draga tilteknar innborganir frá þessari fjárhæð. Krafa stefnanda hljóðar því þannig að stefndi greiði stefnanda 418.793.766 kr. með dráttarvöxtum, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 206.000.000 kr. þann 24. september 2007, 22.530 kr. þann 1. október 2007 og 35.010 kr. þann 1. október 2008.
Skilningur stefnanda á þeim viðskiptum sem nú hefur verið lýst er með öðrum orðum sá að þau hafi falið í sér lán til stefnda og myndað kröfu félagsins á hendur honum. Með málshöfðun þessari freistar stefnandi þess að rifta fjórum greiðslum frá Milestone ehf. til stefnda sem leitt hafi til þess að skuld stefnda við félagið hafi verið lækkuð, en skuldin hafi orðið til vegna ólögmætra hluthafalána. Ráðstafanirnar sem stefnandi telur riftanlegar eru nánar tiltekið þessar:
1) Hinn 24. september 2007 voru dregnar frá skuld stefnda 299.288.364 kr. með skýringunni „Innborgun“.
2) Hinn 30. maí 2008 voru dregnar frá skuld stefnda 10.598.953 kr. með skýringunni „JP Morgan, EUR 91.829.829,43“.
3) Hinn 31. desember 2008 voru dregnar frá skuld stefnda 139.576.000 kr. með skýringunni „Arður 2007“.
4) Hinn 18. febrúar 2009 voru dregnar frá skuld stefnda 54.781.007 kr. með skýringunni „Netjets“.
Með bréfi, dags. 12. júlí 2010, krafðist stefnandi endurgreiðslu lánanna og rifti framangreindum ráðstöfunum. Með vísan til ástæðna sem reifaðar verða nánar hér á eftir hefur stefndi hafnað kröfum stefnanda og er því komið til kasta héraðsdóms að höggva á hnútana.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
1. Riftun skv. XX. kafla gþl.
Stefnandi byggir á því að fjórar færslur í bókhaldi Milestone ehf., þ.e. í raun greiðslur Milestone ehf. til stefnda, sem leiddu til lækkunar á skuld stefnda, hafi verið riftanlegir gerningar. Er þess krafist að þeim ráðstöfunum verði rift. Um er að ræða eftirfarandi ráðstafanir:
- Hinn 24. september 2007 voru dregnar frá skuld stefnda 299.288.364 kr. með skýringunni „Innborgun“.
- Hinn 30. maí 2008 voru dregnar frá skuld stefnda 10.598.953 kr. með skýringunni „JP Morgan, EUR 91.829.829,43“.
- Hinn 31. desember 2008 voru dregnar frá skuld stefnda 139.576.000 kr. með skýringunni „Arður 2007“.
- Hinn 18. febrúar 2009 voru dregnar frá skuld stefnda 54.781.007 kr. með skýringunni „Netjets“.
1.1. „Innborgun“ hinn 24. september 2007.
Stefnandi byggir á því að skuld stefnda við Milestone ehf. hafi verið lækkuð 24. september 2007 með skuldajöfnun. Milestone ehf. hafi lækkað kröfu sína á hendur stefnda með því að draga frá henni 299.288.364 kr.
Lækkun á skuld stefnda á viðskiptareikningi hafi verið framkvæmd þannig að Milestone ehf. greiddi stefnda 299.288.364 kr. Í raun hafi farið fram skuldajöfnuður. Með þessu hafi Milestone ehf. verið að greiða að hluta til aðra og óskylda skuld sína við stefnda sem hafði verið í vanskilum frá 1. júní 2007.
Stefnandi krefst þess að greiðslunni til stefnda verði rift.
a) Riftun skv. 136. gr. gþl.
Stefnandi byggir kröfu sína um riftun í fyrsta lagi á því að skuld Milestone ehf. við stefnda hafi verið greidd með skuldajöfnuði. Samkvæmt 136. gr. gþl. megi rifta greiðslu sem greidd er með skuldajöfnuði ef ekki mátti beita honum skv. 100. gr. gþl.
Skilyrði 100. gr. gþl. fyrir skuldajöfnuði hafi ekki öll verið til staðar þegar skuldajöfnuður fór fram, en í ákvæðinu sé m.a. gert að skilyrði að lánardrottinn hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum.
Stefndi hafi verið stjórnarformaður Milestone ehf. þegar hin riftanlega ráðstöfun var framkvæmd. Milestone ehf. hafi verið orðið ógjaldfært þegar ráðstöfunin fór fram og stefndi verið grandsamur í skilningi 100. gr. gþl. um ógjaldfærni félagsins. Þeir sem hafi vitneskju eða eiga að hafa vitneskju um fjárhagsstöðu skuldara geti ekki knúið fram skuldajöfnuð og fengið þar með betri stöðu en aðrir kröfuhafar.
Á þessum grunni telur stefnandi að rifta beri umræddri ráðstöfun 24. september 2007 samkvæmt 136. gr. gþl. og þar með greiðslu skuldar Milestone ehf. við stefnda að fjárhæð 299.288.364 kr.
b) riftun skv. 2. mgr. 134. gr. gþl.
Stefnandi vísar til þess að þegar umrædd greiðsla, að upphæð 299.288.364 kr. fór fram hafi Milestone ehf. verið byrjað að vanefna gjaldfallnar skuldir sínar enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Á þessum tíma hafi þannig verið fyrirséð að Milestone ehf. gæti ekki greitt allar skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga.
Milestone ehf. hafi skuldað SJ1 ehf. lán sem var einnig á gjalddaga 1. júní 2007, eins og skuldin við stefnda. Lán SJ1 ehf. hafi aldrei verið greitt en hins vegar hafi lán Milestone ehf. hjá stefnda verið greitt að fullu. Augljóst sé að Milestone ehf. gat ekki staðið við allar skuldbindingar sínar 24. september 2007. Það sjáist best á því að skuldin við stefnda var greidd en ekki skuldin við SJ1 ehf. Þannig hafi þessar tvær sambærilegu skuldir, sem báðar voru komnar nokkra mánuði fram yfir gjalddaga, verið meðhöndlaðar með ólíkum hætti. Ástæðan sé sú að ekki hafi verið til fjármunir til að greiða allar skuldir. Við slíkar aðstæður hafi Milestone ehf. verið óheimilt að mismuna kröfuhöfum, sérstaklega ekki í þágu aðaleiganda félagsins.
Stefnandi byggir jafnframt á því að greiðsla með skuldajöfnuði við þessar aðstæður teljist óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. gr. gþl.
Við þessar aðstæður hafi greiðsla félagsins á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Ljóst hafi verið að greiðslan myndi skerða greiðslugetu félagsins og þannig leiða til þess að fjármunirnir yrðu ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Af þeim sökum hafi skuld Milestone ehf. við stefnda verið greidd fyrr en eðlilegt var jafnvel þótt gjalddagi hennar hafi verið kominn. Því beri skv. 2. mgr. 134. gr. gþl. að rifta þeirri ráðstöfun og þar með eftirgjöf skuldar Milestone ehf. við stefnda að fjárhæð 299.288.364 kr.
c) riftun skv. 141. gr. gþl.
Stefnandi telur skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. gþl. vera til staðar. Samkvæmt 141. gr. gþl. megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Allt þetta telur stefnandi eiga við um það tilvik sem hér um ræðir.
1.2. „JP Morgan, EUR 91.829,43“ hinn 30. maí 2008
Stefnandi byggir á því að 30. maí 2008 hafi verið millifærðar 10.598.953 kr. frá JP Morgan Chase Bank til Milestone ehf. Upphæðin hafi í kjölfarið verið greidd stefnda og þar með færð til lækkunar á skuld stefnda við Milestone ehf. skv. viðskiptareikningi stefnda hjá félaginu. Hvergi komi fram fullnægjandi skýringar á þessari færslu í bókhaldi Milestone ehf. Hvergi sé útskýrt af hverju umrædd upphæð eigi að greiðast stefnda og koma til lækkunar á skuld hans við Milestone ehf.
Þessi færsla telst að mati stefnanda gjöf Milestone ehf. til stefnda í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Tap stefnanda hafi verið 10.598.953 kr. vegna þessarar greiðslu. Gjöfin hafi átt sér stað 30. maí 2008 og verið afhent á síðustu 24 mánuðum fyrir frestdag, enda séu stefndi og stefnandi nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991.
1.3. „Arður 2007“ 31. desember 2008
Upphafleg ákvörðun um greiðslu arðs vegna reksturs Milestone ehf. árið 2007 hafi verið tekin 14. febrúar 2008. Þessi arðgreiðsla vegna ársins 2007 hafi svo verið færð til lækkunar á skuld stefnda við Milestone ehf. 1. september 2008 en sú færsla hafi verið bakfærð 31. desember 2008. Sama dag hafi skuld stefnda samkvæmt viðskiptareikningi verið lækkuð um 139.576.000 kr. með skýringunni „Arður 2007“. Þannig hafi Milestone ehf. greitt stefnda 139.576.000 kr.
Stefnandi telur að skilyrði til arðsúthlutunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 138/1994 hafi ekki verið fyrir hendi. Skilyrðin hafi ekki verið fyrir hendi 14. febrúar 2008 og enn síður 31. desember 2008, enda hafi Milestone ehf. þá verið komið að fótum fram og félagið í viðræðum við kröfuhafa sína um fjárhagslega endurskipulagningu.
Stefnandi skírskotar í þessu sambandi til þess að hafi fjárhagur félags versnað eftir að reikningsárinu lauk beri stjórn að taka tillit til þess og samþykkja ekki meiri arðsúthlutun en forsvaranlegt er með hliðsjón af þeirri þróun. Samkvæmt drögum að ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 var eigið fé neikvætt um 72,5 milljarða króna í lok árs 2008 þegar stefndi og bróðir hans tóku ákvörðun um úthlutun arðs úr Milestone ehf. Ekkert bendi því til þess að stjórn Milestone ehf. hafi farið eftir ákvæðum XII. kafla ehfl. þegar arðgreiðslan var ákveðin.
Stefnandi telur ljóst að skilyrði ehfl. um arðgreiðslu til stefnda að fjárhæð 139.576.000 kr. hafi ekki verið fyrir hendi.
a) riftun skv. 2. mgr. 131. gr. gþl.
Þar sem skilyrði til arðsúthlutunar hafi ekki verið til staðar teljist greiðsla arðsins gjöf Milestone ehf. til stefnda í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Öll framangreind skilyrði riftunar á greiðslu 139.576.000 kr. skv. 2. mgr. 131. gr. gþl. séu uppfyllt.
b) riftun skv. 136. gr. gþl.
Stefnandi byggir á því að nefnd ráðstöfun sé riftanleg skv. 136. gr. gþl. Samkvæmt ákvæðinu megi rifta greiðslu sem greidd er með skuldajöfnuði ef ekki mætti beita honum skv. 100. gr. laganna. Skilyrði 100. gr. laganna fyrir skuldajöfnuði hafi ekki öll verið til staðar sökum vitneskju stefnda um ógjaldfærni Milestone ehf. Því beri skv. 136. gr. gþl. að rifta þeirri ráðstöfun sem fólst í skuldajöfnun og þar með greiðslu Milestone ehf. við stefnda að fjárhæð 139.576.000 kr. Auk þess skorti upp á almenn skilyrði til skuldajöfnunar þar sem krafa stefnda sé ekki gild, enda arðsúthlutunin ólögmæt.
c) riftun skv. 141. gr. gþl.
Stefnandi byggir á því að öll skilyrði 141. gr. gþl. séu til staðar sem leiði til riftanleika ráðstöfunarinnar. Því beri að rifta ráðstöfuninni skv. 141. gr. gþl.
1.4. „Netjets“ hinn 18, febrúar 2009
Hinn 18. febrúar 2009 hafi skuld stefnda við Milestone ehf. verið lækkuð um 54.781.007 kr. með skýringunni „Netjets“ í bókhaldi félagsins. Hvergi komi fram fullnægjandi skýringar á þessari færslu í bókhaldi Milestone ehf. Hvergi sé útskýrt af hverju umrædd upphæð eigi að greiðast stefnda og koma til lækkunar á skuld stefnda við Milestone ehf.
a) riftun skv. 2. mgr. 131. gr. gþl.
Þessi greiðsla teljist gjöf Milestone ehf. til stefnda í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Öll framangreind þrjú skilyrði riftunar á greiðslu 54.781.007 kr. skv. 2. mgr. 131. gr. gþl. séu uppfyllt.
b) riftun skv. 2. mgr. 134. gr. gþl.
Jafnvel þótt sýnt væri að stefndi hefði greitt félaginu Netjets framangreinda fjárhæð, og þannig ef til vill lækkað skuld Milestone ehf. við Netjets, þá sé greiðslan til stefnda engu að síður riftanleg. Um sé að ræða greiðslu Milestone ehf. á skuld með óvenjulegum greiðslueyri. Milestone ehf. greiði stefnda með skuldajöfnuði.
Greiðsla við þessar aðstæður með skuldajöfnuði teljist óvenjulegur greiðslueyrir og riftanleg skv. 2. mgr. 134. gr. gþl.
c) riftun skv. 136. gr. gþl.
Sýni stefndi fram á að hann hafi greitt félaginu Netjets framangreinda fjárhæð, sé um að ræða greiðslu á skuld með skuldajöfnuði. Skuldin hafi ekki verið greidd félaginu heldur kröfuhafa Milestone ehf. Samkvæmt 136. gr. laga nr. 21/1991 megi rifta greiðslu sem greidd er með skuldajöfnuði ef ekki mætti beita honum skv. 100. gr. laganna. Skilyrði 100. gr. laganna fyrir skuldajöfnuði hafi ekki verið öll til staðar en þar er m.a. gert að skilyrði að stefndi hafi hvorki vitað né mátt vita að Milestone ehf. átti ekki fyrir skuldum.
d) riftun skv. 141. gr. gþl.
Stefnandi telur öll framangreind skilyrði 141. gr. gþl. vera til staðar sem leiða til riftanleika þessarar ráðstöfunar. Beri því að rifta ráðstöfuninni skv. 141. gr. gþl.
2. Ógjaldfærni Milestone ehf. þegar ráðstöfun/greiðsla átti sér stað
2.1. Almennt um ógjaldfærni
Stefnandi byggir á því að samkvæmt 2. mgr. 131. gr., 2. mgr. 134. gr. og 141 gr. laga nr. 21/1991 verði ráðstöfun rift nema leitt verði í ljós að Milestone ehf. hafi verið gjaldfært þegar ráðstöfun/greiðsla fór fram og að Milestone ehf. hafi einnig verið gjaldfært þrátt fyrir ráðstöfunina/greiðsluna.
Milestone ehf. hafi verið „ógjaldfært“ ef annað hvort af eftirfarandi átti við um það, þegar hinn riftanlegi gerningur átti sér stað:
1. Eignir Milestone ehf. voru minni en skuldir félagsins.
2. Fyrirséð var að Milestone ehf. gat ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga.
Í umfjöllun um ógjaldfærni beri að hafa í huga, að það er ekki skilyrði að kröfur hafi fallið í gjalddaga eða að vanskil hafi þegar orðið á kröfum á hendur Milestone ehf. Samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum geti Milestone ehf. talist ógreiðslufært á tilteknu tímabili jafnvel þótt félagið hafi þá enn verið í fullum skilum við kröfuhafa. Nægjanlegt sé að það hafi verið orðið fyrirsjáanlegt að Milestone ehf. myndi ekki geta staðið í skilum við alla kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga.
Mat á því hvort Milestone ehf. hafi ekki getað staðið í skilum við lánardrottna sína þegar skuldir þeirra féllu í gjalddaga ráðist af heildarmati ýmissa atriða, eins og t.d. fjárhæðum krafna, gjalddaga krafna, lausafjárstöðu Milestone ehf., eignastöðu Milestone ehf., hversu auðvelt hafi verið að koma eignum í verð, hvort eignir voru bundnar kvöðum, væntanlegum framtíðartekjum og fleiri atriðum.
Af framangreindum lagaákvæðum og dómaframkvæmd telur stefnandi ljóst að stefndi, sem riftunarþoli, beri sönnunarbyrðina fyrir því að Milestone ehf. hafi verið gjaldfært þegar ráðstöfunin átti sér stað. Í því samhengi er áréttað að almennt sé talið að mat skuldarans sjálfs á eigin eignum verði ekki lagt til grundvallar þegar eignarstaða hans er könnuð. Stefnda dugi þannig ekki að vísa til ársreikninga Milestone ehf. til að sýna fram á að eignir félagsins hafi verið nægjanlegar og umfram skuldir. Til þess að stefndi geti með fullnægjandi hætti leitt í ljós gjaldfærni Milestone ehf. verði hann að sýna fram á raunverulegt söluverðmæti eignanna þegar ráðstöfun/greiðsla fór fram.
2.2. Afstaða eigenda Milestone ehf. til gjaldfærni félagins
Samkvæmt ársreikningi Milestone ehf. fyrir árið 2007 nam eigið fé félagsins rúmum 84 milljörðum króna í lok ársins 2007 og þar af nam óráðstafað eigið fé rúmum 74 milljörðum króna.
Ársreikningur sé aftur á móti ekki hlutlaus greining á stöðu félagsins enda er ársreikningur saminn af stjórn og framkvæmdastjóra félagsins, sbr. 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Stjórn Milestone ehf. hafi hvorki verið óháð né skipuð fagmönnum. Stjórn Milestone ehf. var skipuð stefnda og Steingrími Wernerssyni en þeir áttu um 95% alls hlutafjár í Milestone ehf. Framkvæmdastjóri félagsins var Guðmundur Ólason en hann átti 1,5% í félaginu. Þeir aðilar sem sömdu ársreikninginn hafi haft gríðarlega hagsmuni af gengi félagsins. Sönnunargildi ársreiknings fyrir árið 2007 verði því að meta í samræmi við meginreglur réttarfars um skjöl sem annar aðilinn útbýr og með hliðsjón af þeim hagsmunum sem stjórnarmenn og framkvæmdastjóri höfðu af efni ársreikningsins.
Bókhald Milestone ehf. beri með sér að rekstur félagsins var erfiður allt árið 2008 þar sem félagið fjármagnaði sig ítrekað með yfirdráttarlánum og lánum frá tengdum aðilum.
Trú stjórnenda Milestone ehf. eða annarra um stöðu félagsins á hverjum tíma skipti engu við mat á gjaldfærni félagsins. Jafnvel þótt stjórnendur og aðrir hafi talið að staða félagsins hafi verið góð fram á síðustu mánuði ársins 2008 hafi seinni tíma könnun á staðreyndum leitt í ljós að svo var alls ekki.
2.3. Afstaða stefnanda, þb. Milestone ehf., til gjaldfærni Milestone ehf.
Stefnandi telur ljóst að Milestone ehf. hafi ekki verið gjaldfært þegar greiðsla fór fram.
Milestone ehf. þurfi annaðhvort að hafa verið fyrirsjáanlega ófært um að greiða skuldir á gjalddaga eða hafa átt minni eignir en skuldir. Hvor aðstaðan fyrir sig sé nægjanleg til að Milestone ehf. teljist hafa verið ógjaldfært.
2.3.1. Aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði árin 2007 og 2008
Stefnandi færir rök fyrir því í stefnu að fjármálakerfi landsins í heild hafi verið komið í óefni strax árið 2006. Alþjóðleg fjármálakreppa hafi hafist sumarið 2007 og með lækkandi hlutabréfaverði veturinn 2007-2008 hafi tryggingastaða erlendra lána íslensku fjárfestingafélaganna versnað. Um nánari rökstuðning vísar stefnandi til framlagðrar skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young hf. sem stefnandi fékk til að kanna bókhald Milestone ehf. og rannsaka rekstur félagsins á tímabilinu 22. júní 2007 til 18. september 2009. Meðal þess sem stefnandi vísar til í skýrslunni er aðmiðað við samningsbundna gjalddaga hafi Milestone ehf. verið í greiðsluvandræðum strax í upphafi árs 2008 og eftir fyrstu þrjá mánuði ársins hafi félagið vantað 1,1 milljarð króna til að standa við gjaldfallnar greiðslur. Heildarfjármagnsþörf félagsins á árinu 2008 hafi verið rúmir 18,2 milljarðar króna en auk þess hafi Milestone ehf. verið í ábyrgð fyrir 14,4 milljarða króna láni Þáttar International hjá Morgan Stanley. Lánið hafi verið gjaldfellt hinn 28. janúar 2008.
Félagið hafi átt erfitt með á að fjármagna sig til langs tíma og því orðið að sætta sig við fjármögnun til skamms tíma með tilheyrandi kostnaði. Hlutfall skammtímalána hafi verið 22% af heildarskuldum við lok ársins 2006 en verið orðið 54% við lok ársins 2007.
Aðalbankareikningur Milestone ehf. hafi orðið neikvæður strax 7. janúar 2008 og svo oft á árinu eftir það. Dótturfélög og félög tengd Milestone ehf. hafi rétt reikninginn af með því að leggja ítrekað inn á reikninginn á árinu 2008.
Milestone ehf. hafi selt allar helstu eignir sínar dótturfélagi sínu, Þætti ehf. í árslok 2007. Eignirnar hafi svo verið færðar frá dótturfélagi Þáttar eignarhaldsfélags ehf. til Racon Holdings AB, þaðan til Racon Holdings II AB og að lokum til félagsins Invik & Co. AB. Eignarhald Milestone ehf. hafi því verið verulega flókið enda í gegnum fjögur dótturfélög. Ályktun Ernst & Young er sú að lánardrottnar dótturfélaganna hafi haft forgang að tekjum af þeim eignum sem færðar voru frá Milestone ehf. til Invik & Co. AB með framangreindum hætti. Áhrifin hafi verið þau að tekjustreymi, t.d. arðgreiðslur, frá dótturfélögunum til Milestone ehf. hafi minnkað og dregið þannig enn úr líkum á því að Milestone ehf. gæti staðið við skuldbindingar sínar.
Milestone ehf. hafi átt lítið handbært fé í árslok 2007 og ekki getað staðið við skuldbindingar sínar nema með sölu eigna og/eða nýjum lánum. Þrátt fyrir um 40 milljarða hagnað samkvæmt ársreikningi ársins 2007 hafi handbært fé frá rekstri verið neikvætt um tæpa 3,5 milljarða. Samkvæmt drögum að sex mánaða uppgjöri Milestone ehf. hafi tap á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2008 verið rúmir 13,4 milljarðar.
Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemd við ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2007 og talið að Milestone ehf. uppfyllti ekki kröfur tilskipunar um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Af svörum Milestone ehf. verði ekki annað ráðið en að félagið hafi fyrst og fremst ætlað að bregðast við með því að færa eignir frá Milestone ehf. til Invik & Co. AB. Stefnandi segir Ernst & Young telja að slík tilfærsla hefði ekki leyst eiginfjárvanda Milestone ehf., auk þess sem eignir félagsins hafi rýrnað umtalsvert í verði á árunum 2007-2008.
2.4. Milestone ehf. hafi þegar verið byrjað að vanefna skuldir sem fallnar voru í gjalddaga
Stefnandi leggur áherslu á að félagið sé ógjaldfært þegar fyrirséð er að það getur ekki greitt skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga. Greiði félag ekki skuldir á gjalddaga sé það orðið ógjaldfært. Milestone ehf. hafi vanefnt nokkrar skuldir sínar löngu fyrir frestdag og úrskurð um gjaldþrot.
Skuld Milestone ehf. við Leiftra Ltd. hafi verið í vanskilum frá 23. nóvember 2007. Milestone ehf. hafi skuldað SJ1 ehf. lán sem var á gjalddaga 1. júní 2007, en hafi aldrei verið greitt. Milestone ehf. hafi einnig átt að greiða Karli Wernerssyni, stærsta hluthafa félagsins, lán á sama gjalddaga, þ.e. 1. júní 2007. Lánið sem Karl veitti hafi ekki verið greitt á gjalddaga frekar en lánið við SJ1 ehf. en skuldin við Karl hafi þó verið greidd í lok september 2007, ekki þó með hefðbundinni greiðslu, heldur skuldajöfnuði. Það eitt veiti vísbendingu um greiðsluerfiðleika að tvær sambærilegar skuldir, sem báðar voru komnar nokkra mánuði fram yfir gjalddaga, séu meðhöndlaðar með svo ólíkum hætti.
Þá hafi Milestone ehf. einnig vanefnt aðrar skuldbindingar, eins og t.d. um þátttöku í „Indlandsverkefni“ Aska Capital hf.
2.5. Fjármögnun fékkst aðeins hjá Glitni banka hf.
Stefndi staðhæfir, m.a. með vísan til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, að frá og með seinni hluta ársins 2007 hafi Milestone ehf. einungis fengið lán frá Glitni og aðilum tengdum aðilum Milestone ehf. (eigendum félagsins og dótturfélögum). Eina undantekningin hafi verið níu daga lán (frá 21. maí 2008 til 30. maí 2008) sem Milestone ehf. fékk frá Icebank að upphæð 1.065.000.000 kr. Að öðru leyti hafi fjármögnun Milestone ehf. fyrst og fremst falist í því að Glitnir veitti Milestone ehf. ný lán, veitti ítrekaða fresti á eldri lánum til félagsins og endurfjármagnaði kröfur annarra lánveitenda, sem misst höfðu trú sína á Milestone ehf.
Milestone ehf. hafi frá og með hausti 2007 verið ófært um að standa við skuldbindingar sínar á gjalddögum og félagið þar með verið ógjaldfært. Milestone ehf. hafi komist hjá því að vanefna allar skuldir félagsins frá og með seinni hluta ársins 2007 með sífelldri fjármögnun Glitnis banka hf. Vegna tengsla Milestone ehf. við Glitni sé ljóst að lán Glitnis banka hf. til Milestone ehf., a.m.k. frá og með síðari hluta ársins 2007, hafi ekki verið veitt á viðskiptalegum forsendum, heldur verið tilkomin vegna hagsmuna Glitnis banka hf. sjálfs af því að rekstur Milestone ehf. virtist ganga vel.
Glitnir banki hf. hafi lánað Milestone ehf. ítrekað og frá miðju ári 2007 hafi félagið nánast eingöngu verið rekið með lánum frá bankanum. Glitnir banki hf. hafi verið eini bankinn í heiminum sem var reiðubúinn að lána Milestone ehf. Sjáist það af því að Askar Capital hf. leitaði að lánum fyrir Milestone ehf. víða um heim á tímabilinu maí til september 2007 en án árangurs. Það sé óeðlilegt og ósannfærandi að félag með 80 milljarða króna eigið fé hafi eingöngu lánstraust hjá einni fjármálastofnun – og sé um leið einn af stærstu eigendum fjármálastofnunarinnar. Slíkt bendi til þess að markaðurinn hafi talið að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Fjármögnun Glitnis banka hf. hafi enda ekki verið byggð á viðskiptalegum forsendum.
Glitnir banki hf. hafi gengið svo langt í að fela ógjaldfærni Milestone ehf. að bankinn endurfjármagnaði lán Milestone-samstæðunnar í gegnum félag utan samstæðunnar til að komast hjá reglum um stórar áhættuskuldbindingar og lán til tengdra aðila. Í febrúar 2008 hafi Morgan Stanley krafist greiðslu á um 217 milljóna evra láni sem bankinn hafði veitt Milestone ehf. Milestone ehf. hafi ekki getað greitt lánið og staðið frammi fyrir því að vanefna gríðarstórt lán við einn stærsta banka heims. Milestone ehf. átti ekki í önnur hús að venda en Glitni banka hf. sem þó hafi verið óheimilt að veita félaginu lánið vegna reglna um hámark áhættuskuldbindinga. Þá hafi verið gripið til þess að veita lánið Svartháfi ehf., félagi í eigu Werners Rasmussonar föður Karls og Steingríms, þáverandi aðaleigenda Milestone ehf. .Svartháfur ehf. hafi í kjölfarið greitt upp lánið við Morgan Stanley í gegnum flókna keðju lánveitinga til félaga tengdra Milestone ehf.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til þess að hinn 3. febrúar 2008 hafi Milestone ehf. veitt handveð í innistæðu bankareiknings. Handveðið var sett til tryggingar láni hjá Glitni banka hf. að upphæð 1.700.000 kr. sem stofnað var til 1. maí 2006. Stefnandi hefur þegar rift þessum gerningi og telur það vera til marks um greiðsluvandræði ef skuldari tekur upp á því að veita tryggingar fyrir skuldum sem áður hefur verið stofnað til. Þykir stefnanda slíkt vera vísbending um að skuldari vilji tryggja endurheimtur tiltekinna nákominna kröfuhafa vegna fyrirsjáanlegra vanefnda. Slíkar eftirfarandi tryggingar séu enda grundvöllur riftunar samkvæmt 137. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi byggir einnig á því að gögn málsins sýni að Milestone ehf. hafi ekki haft burði til að greiða út arð vegna ársins 2007 sem ákveðinn var 29. febrúar 2008 á hluthafafundi. Að mati stefnanda bendir þetta til þess að Milestone ehf. hafi ekki haft burði til að greiða arðinn út með peningum.
Í stuttu máli telur stefnandi að Milestone ehf. hafi verið orðið ógjaldfært síðla árs 2007 og er sú ályktun studd tilvísun til niðurstöðu áðurnefnds endurskoðunarfyrirtækis.
3. Stefndi er nákominn stefnanda skv. 3. gr. gþl.
Stefnandi byggir á því að stefndi sé nákominn stefnanda í skilningi 3. gr. gþl. Er þar sérstaklega vísað til 4.-6. tl. ákvæðisins. Stefndi var aðaleigandi og stjórnarformaður Milestone ehf. á þeim tíma sem um ræðir og telur stefnandi skilyrði ákvæðisins því uppfyllt.
4. Krafa um greiðslu úr hendi stefnda
Krafa stefnanda um greiðslu 418.793.766 kr. auk dráttarvaxta að frádregnum innborgunum, úr hendi stefnda byggir í fyrsta lagi á 142. gr. gþl., í öðru lagi á 79. gr. laga nr. 138/1994, og í þriðja lagi á almennum skaðabótareglum, einkum sakarreglu og 108. gr. laga nr. 138/1994.
4.1. Krafa um greiðslu skv. 142. gr. gþl.
Verði ekki falist á kröfu stefnanda um greiðslu skv. 79. gr. ehfl. byggir stefnandi kröfu sína um greiðslu úr hendi stefnda á 142. gr. gþl.
Stefnandi vísar til þess að auðgun stefnda hafi falist í því að skuld hans við stefnanda lækkaði. Um leið felist tjón stefnanda í lækkun á kröfu búsins, sem stofnaðist með ólögmætum lánum Milestone ehf. til stefnda.
4.2. Krafa um greiðslu skv. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög
Stefnandi byggir á því að lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög (hér eftir einnig vísað til sem „ehfl.“), setji ströng skilyrði fyrir því hvernig félag má úthluta fjármunum til hluthafa og stjórnenda félagsins.
Ef einhver vafi er uppi um grundvöll fjárúthlutunar til hluthafa eða stjórnenda beri að skýra það svo að úthlutunin teljist lán í skilningi 79. gr. ehfl. þangað til sýnt er fram á annað. Viðtakandi lánsins beri sönnunarbyrðina fyrir því að úthlutun fjármuna til hans sé lögmæt.
Samtals hafi Milestone ehf. greitt stefnda 418.793.766 kr. á árunum 2007 til 2009. Ekkert gagngjald hafi komið frá stefnda á móti og voru þessar greiðslur þannig lán Milestone ehf. til stefndu. Enginn samningur hafi verið gerður milli Milestone ehf. og stefnda um lánveitinguna og ekki verði séð að önnur gögn séu til um greiðslur félagsins til stefnda.
Lánin hafi ekki verið Milestone ehf. til framdráttar enda félagið ekki haft neinn hag af lánveitingunni og enga tryggingu fyrir því að lánin yrðu greidd til baka. Þá hafi önnur skilyrði og kjör lánanna ekki verið sambærileg við almennan markað.
Stefnandi telur að líta beri fram hjá eftirfarandi ráðstöfunum sem færðar voru til lækkunar skuld stefnda í bókhaldi félagsins:
- Eftirgjöf skuldar stefnda við Milestone ehf. þann 24. september 2007, 299.288.364 kr., með skýringunni „Innborgun“.
- Eftirgjöf skuldar stefnda við Milestone ehf. þann 30. maí 2008, 10.598.953 kr., með skýringunni „JP Morgan, EUR 91.829.829,43“.
- Eftirgjöf skuldar stefnda við Milestone ehf. þann 31. desember 2008, 139.576.000 kr., með skýringunni „Arður 2007“.
- Eftirgjöf skuldar stefnda við Milestone ehf. þann 18. febrúar 2009, 54.781.007 kr., með skýringunni „Netjets“.
Fyrsta lækkun skuldarinnar, 24. september 2007, sé ekki vegna innborgunar stefnda, heldur vegna skuldajöfnunar á móti skuld Milestone ehf. við stefnda, sem stefnandi telur ekki fullnægja endurgreiðsluskyldu stefnda.
Önnur lækkun skuldarinnar, 30. maí 2008, sé ekki vegna innborgunar stefnda. Lækkunin sé til komin vegna greiðslu frá JP Morgan Chase banka og engar skýringar í bókhaldi Milestone ehf. bendi til þess að greiðslan komi frá stefnda.
Þriðja lækkun skuldarinnar, 31. desember 2008, sé ekki vegna innborgunar stefnda, heldur vegna skuldajöfnunar á móti arðgreiðslu úr Milestone ehf. Óheimilt sé að endurgreiða hluthafalán með skuldajöfnun og auk þess hafi ekki verið skilyrði til arðgreiðslunnar.
Fjórða lækkun skuldarinnar, 18. febrúar 2009, sé ekki vegna innborgunar stefnda, heldur vegna greiðslu á skuld Milestone ehf. við Netjets. Lækkunin sé þannig til komin vegna skuldajöfnunar til kröfuhafa Milestone ehf. löngu eftir að félagið var orðið ógjaldfært.
Stefnandi krefst þess þannig að stefndi endurgreiði stefnanda öll lánin, alls að upphæð 418.793.766 kr. með dráttarvöxtum af hverju láni fyrir sig frá og með þeim degi er það var veitt, að frádregnum innborgunum, eins og tilgreint er nánar í dómkröfum. Dráttarvaxtakrafa byggir á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og 4. mgr. 79. gr. ehfl.
4.3. Krafa um greiðslu skaðabóta
Stefnandi byggir jafnframt sjálfstætt á því að stefnda beri að greiða skaðabætur. Krafan er reist á almennum reglum skaðabótaréttar (einkum sakarreglunni) ásamt 5. mgr. 79. gr. og 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Við gjaldþrotaskiptin hafi stefnandi eignast skaðabótakröfur Milestone hf. á hendur stjórnarmönnum félagsins, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi, sem stjórnarformaður Milestone ehf. og aðaleigandi, vitað eða mátt vita um þá gerninga sem mál þetta lýtur að. Er þá bæði átt við lán Milestone ehf. til stefnda og einnig lækkun krafna á hendur honum.
Stefndi hafi verið svo nátengdur félaginu og stjórnendum þess að hann hafi vitað eða mátt vita að reglulegar lántökur hans úr sjóðum félagsins voru ólögmætar.
Stefnandi telur að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi og einnig ólögmæta, sem valdið hafi félaginu tjóni. Stefnandi telur að stefndi beri skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem þrotabúinu, öðrum hluthöfum og kröfuhöfum þess var bakað með framangreindum ráðstöfunum. Að mati stefnanda eru orsakatengsl milli tjóns Milestone ehf. og ólögmætra athafna stefnda. Tjón félagsins sé einnig sennileg afleiðing háttseminnar.
Verði ekki fallist á að fjárkrafan skuli bera dráttarvexti sem krafa um endurgreiðslu ólögmætra lána samkvæmt 79. gr. ehfl. byggir stefnandi fjárkröfuna á því að stefndu beri að greiða tjón búsins á grundvelli 142. gr. gþl. Auðgun stefnda samsvari tjóni stefnanda og því sömu fjárhæð. Auk þess er byggt á almennum skaðabótareglum. Í því tilviki er krafist dráttarvaxta af 418.793.766 kr. að frádregnum innborgunum, frá 12. ágúst 2010 til greiðsludags, þ.e. mánuði frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu með kröfubréfi, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Inn á kröfu stefnanda voru greiddar 206.000.000 kr. 24. september 2007, 22.530 kr. 1. október 2007 og 35.010 kr. 1. október 2008, sem dragast frá kröfunni m.v. stöðuna á innborgunardögum og ganga fyrst til greiðslu áfallinna dráttarvaxta.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga-, skaðabóta- og kröfuréttar og laga nr. 7/1936, um ógilda löggerninga og málamyndagerninga. Dráttarvaxtakrafa stefnanda er studd tilvísun til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um kröfusamlag er vísað til ákvæðis 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað vísar stefnandi til 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 32. gr., 1. mgr. 35. gr., 40. gr. og 41. gr. sömu laga.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skilyrði riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga séu ekki uppfyllt.
a. Almennt um ógjaldfærni.
Stefndi vísar til þess að kröfur stefnanda um riftun byggist á 131., 134., 136. og 141. gr. gþl. Þar sem meira en sex mánuðir hafi verið á milli þeirra greiðslna sem stefnandi vill rifta og frestdags þá standi og falli málatilbúnaður stefnanda með því hvenær Milestone varð ógjaldfært.
Stefndi mótmælir því að Milestone hafi verið orðið ógjaldfært og þar af leiðandi ógreiðslufært á haustmánuðum 2007. Stefndi heldur því fram að til að félag teljist ógjaldfært í skilningi riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga þurfi tvö skilyrði að vera uppfyllt, þ.e. eignir félagsins hafi verið minni en skuldir þess og auk þess hafi verið fyrirsjáanlegt að félagið gæti ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Þessi skilyrði þurfa að mati stefnda að vera uppfyllt á þeim tíma sem meintur riftanlegur gerningur á sér stað.
Varðandi gjaldfærni/greiðslufærni þá telur stefndi að skera þurfi úr því hvort skuldari geti staðið í skilum þegar kröfur, sem beint er að honum, falla í gjalddaga. Meta þurfi hvort greiðsluþrot skuldarans sé fyrirsjáanlegt eða ekki. Við það mat þurfi, auk athugunar á þeim kröfum sem beint er að skuldaranum og gjalddögum þeirra, að kanna tvennt. Annars vegar hvaða eignir skuldarinn eigi og hvaða möguleika hann hafi á því að koma þeim í verð og hins vegar hvaða tekjum hann geti átt von á í framtíðinni. Að auki þurfi að skoða möguleika skuldara til fjármögnunar og frekari lántöku.
Hvað varðar mat á verðmæti eigna skuldarans beri almennt að leggja til grundvallar söluverð þeirra. Það geti haft mikla þýðingu fyrir skuldarann, hvað hann hefur mikinn tíma til að selja eignir, þannig að ætla megi, að hann geti greitt skuldir sínar, þegar þær falla í gjalddaga. Við mat á því, hvert svigrúm skuldari hefur í þessu efni, skipti mestu hvenær gjalddagi krafnanna er. Hann hefur a.m.k. þann tíma, sem líður fram að gjalddaga þeirra. Með orðalaginu að ekki verði talið að greiðsluörðugleikar skuldara muni líða hjá innan skamms tíma, sé vísað til þess að ekki megi vera um tímabundið ástand að ræða. Með þessu sé meðal annars gefið svigrúm til að taka mið af mismunandi aðstæðum og tímabundnum sveiflum í vissum atvinnugreinum. Við mat á þessu atriði verði í raun að spyrja hversu löng venjuleg lægð sé í greiðslugetu þeirra sem fást t.d. við sömu atvinnugrein og viðkomandi skuldari og hvort batamerki sjáist í tilviki skuldarans þegar sú lægð hefur liðið hjá.
Af þessu telur stefndi mega ráða að skuldari hafi visst svigrúm til þess að ráða bót á fjárhagslegum erfiðleikum sínum. Stefndi telur að af orðalagi 2. mgr., sbr. 1. mgr. 64. gr. gþl. megi ráða að fjárhagsleg endurskipulagning sem felist í því að skuldarinn tekur fé að láni og/eða gengur á eignir sínar, falli hér undir.
Stefndi telur margar fullyrðingar í framlagðri skýrslu Ernst & Young hf. um málsatvik beinlínis rangar. Nauðsynlegt sé að réttar upplýsingar liggi fyrir um atriði sem snúa að mati á gjaldfærni félagsins til þess að unnt sé að komast að upplýstri niðurstöðu með viðurkenndum lögskýringaraðferðum.
Stefndi telur að Milestone hafi verið gjaldfært a.m.k. fram til þess tíma er íslenska bankakerfið hrundi. Félagið hafi brugðist við þrengingum á fjármálamörkuðum með eignasölu og viðleitni til þess að ná fram sem hagkvæmastri samsetningu eigin fjár og lánsfjár. Þetta ferli hafi verið stutt fullkomlega af helstu lánardrottnum og síðar í fullu samráði og með aðkomu þeirra. Því sé ljóst að Milestone hafi augljóslega getað staðið við skuldbindingar sínar allt fram að hruni íslenska fjármálakerfisins í lok ársins 2008, m.a. með því að ganga á eignir sínar eða taka fé að láni. Ekki hafi verið fyrirséð að fjármögnunarþörf Milestone myndi aukast og ekki útlit fyrir annað en að félagið hefði trausta fjármögnun hjá aðalviðskiptabanka samstæðunnar, Glitni banka hf.
Stefndi heldur því fram að lánveitingar Glitnis banka hf. til Milestone séu ekki tortryggilegar. Hér séu til skoðunar gjald- og greiðslufærni Milestone, en ekki innri málefni Glitnis banka hf. Þar sem Milestone náði að fjármagna sig, hvaðan sem þeir fjármunir komu, þá hafi ekki verið uppfyllt skilyrði þess að félagið væri bæði ógreiðslufært og ógjaldfært. Ekki sé hægt að leggja það á lántaka, sem ekki hefur neina stöðu innan fjármálafyrirtækis og/eða yfirsýn yfir það hvort lánareglum þess sé fylgt þegar kemur að ákvarðanatöku, að fylgjast með innri málefnum fjármálafyrirtækis þegar kemur að ákvörðun um lánveitingu. Þar sem Milestone hafi getað endurfjármagnað sig og komið í veg fyrir að skuldir þess féllu í gjalddaga þá var félagið ekki ógreiðslufært fyrr en eftir fall bankakerfisins. Mótmælir stefndi því einnig að fyrirsjáanlegt hafi verið orðið að Milestone gæti ekki staðið í skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga. Engar kröfur hafi fallið í gjalddaga fyrr en eftir hrun íslenska bankakerfisins.
Í stefnu og skýrslu Ernst & Young kemur fram að Milestone hafi þegar á árinu 2007 verið farið að vanefna skuldbindingar sem féllu á gjalddaga. Stefndi mótmælir þessu og vísar til þess að það teljist ekki vanefnd á skuld þegar lánveitandi samþykkir skilmálabreytingu á láni sem felur í sér að gjalddagi greiðslu er færður. Þetta hafi verið tilfellið varðandi kröfur Leiftra Ltd., SJ1 ehf. og Karls Wernerssonar.
Stefndi reisir varnir á því að forsendur Ernst & Young hf. byggi ekki á þeim reikningsskilastöðlum sem gilda um gerð og framsetningu ársreikninga fyrirtækja. Niðurstöðurnar byggi frekar á fullyrðingum, án tilvísana í reglur, og tilvísunum í viðmiðanir sem ekki sé heimilt að beita við gerð ársreikninga samkvæmt þeim stöðlum sem um það gilda. Af hálfu stefnda er lögð áhersla á að til grundvallar ársreikningsgerð hjá Milestone og dótturfélögum þess liggi fjölmargar matsgerðir um virði eigna. Ítarleg yfirferð endurskoðenda samstæðunnar og dótturfélaga liggi jafnframt til grundvallar. Allir þessir aðilar miði vinnu sína við alþjóðlega reikningsskilastaðla IFRS sem viðurkenndir séu í þeim ríkjum sem félögin störfuðu í.
Um áramótin 2007/2008 hafi átt sér stað umfangsmikil tilfærsla á eignum innan Milestone samstæðunnar. Þeirri yfirfærslu hafi verið endanlega lokið um mánaðamótin mars/apríl 2008. Sú eignatilfærsla hafi byggst á ítarlegum verðmötum sem fjölmargir íslenskir og erlendir aðilar komu að (sjá dskj. nr. 133-138). Til viðbótar því hafi farið fram ítarleg skoðun eftirlitsaðila bæði á Íslandi og í Svíþjóð á reikningum félaganna í því skyni að ganga úr skugga um að eftir endurskipulagninguna myndu félögin uppfylla þær kröfur sem gerðar voru um eftirlit með fjármálasamsteypum á Evrópska efnahagssvæðinu. Með þeim forsendum sem Ernst & Young hf. leggur til grundvallar í skýrslu sinni og þeirri niðurstöðu að Milestone hafi verið ógjaldfært haustið 2007, sé því í raun haldið fram að illa rökstutt álit Ernst & Young hf. eigi að ganga framar eða sé marktækara en vinna allra þeirra þaulreyndu sérfræðinga sem komu að mati á efnahag og gjaldfærni Milestone á þessum tíma, hvort sem þeir störfuðu hjá endurskoðunarstofum, alþjóðlegum fjárfestingarbönkum og/eða opinberum eftirlitsaðilum. Af þessum sökum mótmælir stefndi því að slíkar skilmálabreytingar sýni fram á að félagið hafi verið ógjaldfært á þessum tíma. Stefnandi, sem og Ernst & Young, hefði getað fengið þessar upplýsingar frá stjórnendum félagsins ef eftir því hefði verið leitað. Stefndi kannast ekki við að Milestone hafi vanefnt „aðrar skuldbindingar“ eins og til dæmis um „Indlandsverkefni“ Aska Capital hf.
Í tengslum við yfirfærslu allra íslenskra eigna Milestone til Invik um áramótin 2007/2008 hafi eignarhald Invik á eftirlitsskyldum félögum í Svíþjóð, Hollandi og á Íslandi hlotið samþykki þarlendra eftirlitsaðila. Af umsóknarferlinu megi ráða að slíkt samþykki hefði ekki fengist ef móðurfélag Invik, þ.e. Milestone, hefði verið ógjaldfært í þeim skilningi sem hér er til umræðu.
Ársreikningur fyrir rekstrarárið 2007 sýni að eigið fé Milestone var um þau áramót 84.132.000.000 króna. Fráleitt sé að halda því fram að félag með slíkt eigið fé teljist ógjaldfært. Ársreikningurinn hafi verið staðfestur án fyrirvara af óháðum endurskoðendum félagsins, KPMG hf.
Í samræmi við kenningar fræðimanna og dómaframkvæmd beri að leggja ársreikninga og skattframtöl félags til grundvallar við mat á því hvort eignir þess hafi verið hærri en skuldir á tilteknum tíma. Slíkum samtímagögnum verði ekki haggað nema eitthvað mikið komi til.
Með vísan til annars vegar þess að Milestone náði að endurfjármagna sig á árinu 2008 og að engar kröfur féllu í gjalddaga fyrr en eftir hrun íslenska bankakerfisins og hins vegar þess að ársreikningur félagsins miðað við 31. desember 2007 sýndi greinilega fram á góða stöðu félagsins telur stefndi að sönnunarbyrði um að Milestone hafi verið ógreiðslufært og ógjaldfært haustið 2007 hafi færst yfir á stefnanda.
Stefndi gagnrýnir þá aðferðarfræði Ernst & Young hf. að leggja til grundvallar eftirá- skýringar og staðreyndir sem lágu ekki fyrir á þeim tíma sem hér um ræðir, taka í engu tillit til samtímagagna og horfa ekki til eðlis félagsins og þeirrar atvinnugreinar sem um ræðir. Þá megi gagnrýna þau vinnubrögð Ernst & Young hf. að óska aldrei eftir skýringum eða afstöðu fyrrverandi stjórnenda Milestone, endurskoðenda, eftirlitsaðila og fjármálaráðgjafa, að því er varðar efni skýrslunnar.
Stefndi byggir á því að félagið hafi ekki getað verið orðið ógjaldfært í september 2007. Sönnunarbyrði um gjaldfærni félagsins á þeim tíma sé fullnægt meðal annars vegna þess að öll samtímagögn, svo sem ársreikningar, skattframtöl, greiningar og óháðar sérfræðiskýrslur endurskoðunarfyrirtækja, gefi til kynna að félagið hafi verið gjaldfært. Engin lán hafi verið vanefnd á því tímabili sem um ræðir eða næstu misserum þar á eftir. Fjölmörg lán hafi verið greidd upp hvort heldur skömmu fyrir það tímabil sem um ræðir, samhliða því eða næstu mánuði þar á eftir. Ný lán hafi verið tekin allnokkru eftir það tímabil sem um ræðir, sem meðal annars voru nýtt til þess að standa við eldri skuldbindingar.
Skýrsla endurskoðunarfyrirtækis sem aflað er einhliða löngu eftir þann tíma sem um ræðir og eftir hrun íslensks bankakerfis sem ekki var fyrirséð í september 2007, sem aukinheldur grundvallist á rangri lagatúlkun á því lykilhugtaki sem um ræðir, geti ekki haggað þessari sönnun. Ekkert í skýrslu Ernst & Young bendi til þess að Milestone hafi verið ógjaldfært í september 2007, sé rétt lagatúlkun þess hugtaks lögð til grundvallar.
Stefndi mótmælir fullyrðingum um að lánardrottnar dótturfélaga hafi haft forgang að tekjum af eignum og að tekjustreymi hafi minnkað frá dótturfélögum til Milestone.
Stefndi heldur því fram að Milestone hafi ekki orðið ógjaldfært fyrr en í lok árs 2008 og krefst því sýknu af öllum kröfum stefnanda.
b. Almennt um riftun þeirra ráðstafana sem um ræðir
Krafa stefnanda um riftun hinna tilgreindu ráðstafana er í öllum tilvikum á því byggð að stefndi hafi staðið í skuld við Milestone og þær „greiðslur“ sem þar er lýst hafi komið til lækkunar á þeirri skuld í bókhaldi félagsins. Þetta segir stefndi vera rangt enda hafi stefndi þvert á móti átt inneign hjá Milestone á þeim tíma.
Ætluð skuld stefnda sé aðeins tilkomin með þeim hætti að stefnandi krefst riftunar á færslum framar á viðskiptamannareikningnum, sbr. einkum greiðslu skv. lið c. hér að neðan. Aðeins með því að reikna út stöðu á reikningnum miðað við að sú færsla hafi ekki átt sér stað fái stefnandi út að stefndi hafi staðið í skuld við Milestone. Í kjölfar þess sé síðan fundið út að þær færslur sem á eftir komu hafi leitt til lækkunar á skuld stefnda við Milestone en ekki til aukningar á skuld Milestone við stefnda. Það sé síðan eingöngu á þeirri forsendu sem riftunar sé krafist á síðari greiðslum.
Stefndi byggir á því að með þessu sé þess freistað að gera ráðstafanir riftanlegar af þeirri ástæðu einni að ráðstöfun sem á undan kom hafi verið riftanleg. Slíkt standist hvorki meginreglur né undirliggjandi röksemdir riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga. Með því sé í raun verið að stefna að auðgun búsins á kostnað stefnda og standist því riftunarkröfurnar ekki það meginskilyrði að þær ráðstafanir sem rift er hafi verið búinu til tjóns.
c. Krafa um riftun greiðslu að fjárhæð 299.288.364 krónur
Stefndi segir ýmsar rangar fullyrðingar koma fram í stefnu varðandi umrædda greiðslu, meðal annars þá að Milestone hafi verið byrjað að vanefna gjaldfallnar skuldir þann 24. september 2007 og félagið hafi þá verið orðið ógjaldfært. Skilyrði riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga um ógjaldfærni hafi því ekki verið uppfyllt og gerningurinn því ekki riftanlegur.
Óumdeilt sé að 1. júní 2007 hafi stefndi átt inneign á viðskiptamannareikningi sínum hjá Milestone, þ.e., Milestone stóð í skuld við stefnda. Sami dagur hafi verið gjalddagi skuldar Milestone við stefnda sem að stærstum hluta komi til umfjöllunar í öðru dómsmáli stefnanda gegn stefnda.
Að sögn stefnda hafi verið samið um að skuldin skyldi greiðast með úttektum af viðskiptamannareikningi stefnda annars vegar og hins vegar með peningum 24. september 2007 sem og hafi verið gert, þ.e., með millifærslum á tilgreinda reikninga að ósk stefnda. Hafi því smám saman verið greitt inn á skuldina með þeim úttektum sem fram fóru af viðskiptamannareikningi stefnda á tímabilinu frá 1. júní 2007 til 24. september 2007. Þann dag var síðan bókfært í bókhaldi Milestone að skuldin hafi verið greidd með þeim hætti. Engin greiðsla hafi þó borist stefnda þann dag vegna þessarar færslu, enda hafði hann þegar fengið þann hluta skuldarinnar greiddan með úttektum sínum.
Stefndi hafnar því að skuldin hafi verið greidd með færslu í bókhaldi Milestone þann 24. september 2007. Afstöðu sína byggir stefndi á því að engin verðmæti hafi með þeirri færslu flust frá Milestone til stefnda. Umrædd færsla hafi eingöngu verið gerð til að endurspegla það sem þá þegar hafði átt sér stað með úttektum, þ.e., að greitt hafði verið inn á lán stefnda til Milestone. Byggir stefndi á því að við mat á því hvenær greiðsla á skuld eigi sér stað beri að líta til þess hvenær yfirfærsla verðmæta á sér stað, en ekki hvenær einstakar færslur eiga sér stað í bókhaldi. Samkvæmt þessu hafi stefndi aldrei staðið í skuld við Milestone. Þær færslur sem áttu sér stað í bókhaldi félagsins geti því ekki hafa verið lán til stefnda. Þvert á móti hafi þær verið greiðsla inn á skuld Milestone við stefnda.
Greiðsla á gjalddaga í umsömdu greiðsluformi sé ekki óvenjuleg, greidd með óeðlilegum greiðslueyri eða greidd fyrr en eðlilegt var. Hún sé heldur ekki ótilhlýðileg eða stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Á þessum tíma og langt fram eftir árinu 2008 hafi Milestone greitt allar skuldir sínar á gjalddaga. Því telur stefndi óskiljanlegt hvernig stefnandi kemst að því að skuld sem greidd sé á gjalddaga sé greidd fyrr en eðlilegt var.
Stefndi hafnar því að umrædd greiðsla hafi verið í óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Grunnrök reglunnar séu þau að greiði skuldari í öðrum greiðslueyri en peningum séu löglíkur fyrir því að hann eigi ekki reiðufé og það sé ástæða greiðslu með þeim hætti. Við mat á því hvort greitt sé í óvenjulegum greiðslueyri beri því að líta til þess í hvaða mynd greiðslan fer frá skuldara. Þá geti greiðsla í peningum aldrei talist óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi greinarinnar. Þar sem greiðslurnar fóru frá Milestone í peningum sé ekki um að ræða óvenjulegan greiðslueyri. Þá sé fyllilega ljóst að greiðslan hafi ekki verið greidd fyrr en eðlilegt var enda gjalddagi verið kominn.
Þá teljist greiðsla á skuld með úttektum af viðskiptamannareikningi aldrei skuldajöfnun. Stefndi telur að stefnandi misskilji það hugtak. Einfaldlega sé um að ræða greiðslu skuldara í peningum með þeim hætti sem kröfuhafi kýs. Þess utan sé 136. gr. laganna ekki sjálfstæð riftunarheimild líkt og orðalag greinarinnar beri skýrlega með sér. Verði henni því ekki beitt til riftunar á gerningi. Jafnvel þótt um skuldajöfnun hefði verið að ræða hafnar stefndi því að skilyrði 100. gr. laganna hafi verið uppfyllt. Bendir stefndi í því sambandi á að því verði ekki haldið fram að stefndi hafi í september 2007 átt að vera grandsamur um ætlaða ógjaldfærni Milestone. Með því að leggja til grundvallar grandsemi stefnda um ætlaða ógjaldfærni sé í raun verið að gera þá kröfu til hans að hann hafi átt að sjá fyrir hrun íslensks bankakerfis. Slíkt gangi ekki upp, en sönnunarbyrðin um grandsemi stefnda hvíli á stefnanda.
Stefndi mótmælir því að skilyrði 141. gr. gþl. eigi við um umrædda greiðslu. Stefndi vísar til fyrri röksemda um þetta efni. Skilyrði um ógjaldfærni séu óuppfyllt, sem og önnur skilyrði greinarinnar. Í fyrsta lagi hafi ráðstöfunin ekki verið ótilhlýðileg enda um greiðslu á gjaldfallinni skuld að ræða á sama tíma og aðrar gjaldfallnar skuldir voru greiddar. Í öðru lagi verði, samkvæmt áðurnefndum rökum, því ekki haldið fram að stefndi hafi verið grandsamur um ætlaða ógjaldfærni, þaðan af síður um ætlaðan ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar.
d. Krafa um riftun greiðslu að fjárhæð 10.598.953 krónur
Stefndi mótmælir því að skilyrði riftunar þessarar greiðslu samkvæmt 131. gr. gþl. séu uppfyllt. Umrædd greiðsla sé til komin með þeim hætti að kaup Milestone á Sjóvá-Almennum tryggingum á árinu 2005 hafi verið fjármögnuð að hluta með láni frá JP Morgan Chase Bank. Til tryggingar láninu hafi stefndi persónulega lagt fram reiðufé inn á reikning bankans. Þetta tryggingarfé hafi síðan verið endurgreitt stefnda. Sú fjárhæð sem hér um ræðir séu vextir af tryggingarfé stefnda sem virðist fyrir mistök hafa verið lagðir inn á reikning Milestone. Þar sem um hafi verið að ræða eign stefnda sem Milestone átti ekkert tilkall til hafi færslan verið færð sem inneign stefnda hjá Milestone.
Stefndi telur að skilyrði 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga séu ekki uppfyllt til riftunar á umræddri greiðslu. Greiðslan hafi hvorki leitt til eignaaukningar stefnda né eignarýrnunar Milestone, enda um eign stefnda að ræða sem Milestone hafi ekki átt neitt tilkall til. Af sömu staðreynd leiði að enginn gjafatilgangur hafi verið fyrir hendi. Ekki hafi komið til neinnar greiðslu þar sem færslan leiddi aðeins til þess að inneign stefnda hjá Milestone jókst. Þá byggir stefndi einnig á því að Milestone hafi verið gjaldfært á þessum tíma. Stefndi telur að sýkna beri stefnda af þessari kröfu þar sem riftunarkrafa hafi ekki verið byggð á öðrum grundvelli.
e. Krafa um riftun greiðslu að fjárhæð 139.576.000 krónur
Riftunarkrafa stefnanda er á því byggð að sú arðgreiðsla sem samþykkt var á aðalfundi Milestone þann 29. febrúar 2008 hafi verið ólögmæt. Þá er á því byggt að þessari ákvörðun hafi verið „breytt“ með tilteknum bakfærslum og nýjum færslum í bókhaldi Milestone undir lok árs 2008. Stefndi telur stefnanda fara með rangt mál að þessu leyti og vísar til þess að stjórn Milestone hafi gert það að tillögu sinni á aðalfundi Milestone 29. febrúar 2008 að arður að fjárhæð 2 milljarðar króna yrði greiddur hluthöfum út úr félaginu. Það hafi verið innan við 10% af bókfærðum hagnaði ársins 2007 og því heimilt samkvæmt XII. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Því hafi ekki verið hnekkt í málinu að ársreikningur félagsins fyrir árið 2007 gefi rétta og sanna mynd af stöðu þess.
Stefndi fullyrðir að tillaga stjórnar félagsins hafi verið lögð fram að vel athuguðu máli. Ekkert í rekstri félagsins þann skamma tíma sem liðinn var af árinu 2008 hafi bent til þess að fjárhagur félagsins hefði versnað svo mjög eftir að reikningsárinu lauk að arðgreiðsla sem næmi undir 10% af hagnaði síðastliðins árs teldist ekki forsvaranleg. Þróun í rekstri félagsins eftir ákvörðunina breyti hér engu enda sé ekki heimilt að breyta ákvörðun um arðgreiðslur, hvorki af hluthafafundi né stjórn.
Arður hafi verið greiddur út með þeim hætti að viðkomandi fjárhæð var skuldfærð á viðskiptamannareikningi hluthafanna. Hluthöfunum hafi síðan verið frjálst að taka þá fjármuni út með þeim hætti sem þeir kusu, oftast með úttektum af viðskiptamannareikningi sínum í ýmsu formi. Þetta hafi verið samkvæmt venju hjá félaginu og ekki í bága við lög.
Undir lok ársins 2008 hafi legið fyrir að félagið þyrfti að greiða staðgreiðslu skatta vegna útgreidds arðs. Á þeim tíma hafi staða félagsins verið orðin erfið enda hafði þá íslenska bankakerfið hrunið. Því hafi ekki verið ljóst hvort allur ákveðinn arður félagsins yrði greiddur hluthöfum. Óeðlilegt hafi þótt að félagið greiddi fjármagnstekjuskatt af arði sem ekki yrði greiddur út. Því hafi verið ákveðið að láta færslur í bókhaldi félagsins endurspegla þann arð sem þeir hluthafar sem tekið höfðu út hluta arðsins höfðu fengið greiddan. Um hafi verið að ræða lítið hlutfall þess arðs sem ákveðinn var. Hafi þetta verið gert með því að bakfæra hina upphaflegu skuldfærslu og færa nýja sem nam þessu hlutfalli.
Enginn arður hafi komið til útgreiðslu úr félaginu við þessar færslur og engin breyting verið gerð á ákvörðun aðalfundar félagsins um arðgreiðslu frá febrúar 2008. Ekki sé gert ráð fyrir því í einkahlutafélagalögum að slíkar breytingar séu heimilar, hvort sem er af hluthafafundi eða stjórn félags. Því hafi engin slík ákvörðun verið tekin.
Með vísan til þessa hafi ákvörðun um greiðslu arðs verið tekin á aðalfundi félagsins í febrúar 2008. Greiðslur hafi á hinn bóginn verið inntar af hendi smám saman af viðskiptamannareikningum hluthafa en aldrei náð nema litlum hluta þeirrar fjárhæðar sem ákveðin var.
Nær engar greiðslur hafi borist stefnda þar sem hann hafði lítið sem ekkert tekið út af viðskiptamannareikningi sínum á þessu tímabili. Greiðsla sem nemur stefnufjárhæð hafi því aldrei átt sér stað.
Greiðslu sem aldrei átti sér stað verði ekki rift á grundvelli riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga. Gildi það jafnt um 131., 136. og 141. gr. laganna.
Stefndi hafnar því að um gjöf hafi verið að ræða í skilningi 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Milestone hafi verið gjaldfært á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin í febrúar 2008. Greiðsla hafi ekki farið fram og því hvorki verið um það að ræða að eignir Milestone rýrnuðu né að stefndi auðgaðist. Þá hafi enginn gjafatilgangur verið á bak við útgreiðslu arðs enda um að ræða ákvörðun aðalfundar félags sem samrýmdist fyllilega lögum.
Hvað 136. gr. áhrærir sé þar ekki um að ræða sjálfstæða riftunarheimild. Verði henni því ekki beitt til riftunar á gerningi. Þá hafi skilyrði 100. gr. laganna verið uppfyllt við töku ákvörðunar í febrúar 2008. Með því að leggja til grundvallar grandsemi stefnda um ætlaða ógjaldfærni sé í raun verið að gera þá kröfu til hans að hann hafi átt að sjá fyrir hrun íslensks bankakerfis. Þá liggi ekkert fyrir um að skuldajöfnuði hafi verið beitt í málinu. Þannig hafi viðskiptamannareikningur stefnda ekki verið í skuld þegar kom til færslunnar og ekkert liggi fyrir um að hún hafi verið notuð til skuldajöfnunar.
Þá séu skilyrði 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga ekki uppfyllt í málinu. Í fyrsta lagi hafi ráðstöfunin ekki verið ótilhlýðileg enda um lögmæta ákvörðun um arðgreiðslu að ræða. Í öðru lagi hafi hún ekki leitt til þess að eignir þrotabúsins voru ekki kröfuhöfum til reiðu enda hafi engin greiðsla runnið til stefnda. Í þriðja lagi verði því ekki haldið fram að stefndi hafi verið grandsamur um ætlaða ógjaldfærni, þaðan af síður um ætlaðan ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar.
f. Krafa um riftun greiðslu að fjárhæð 54.781.007 krónur
Stefnandi krefst riftunar á umræddri greiðslu með vísan til 131., 134., 136, og 141. gr. gþl. Stefndi mótmælir því að lagaskilyrði ákvæðisins séu uppfyllt fyrir því að riftun megi fara fram.
Stefndi segir ofangreinda greiðslu vera til komna með þeim hætti að stefndi hafi persónulega gert samning við þotufyrirtækið Netjets um reglubundna leigu á þotu. Hafi það verið gert með þeim hætti að stefndi lagði fram 1.000.000 dollara við upphaf samnings. Í hvert sinn sem stefndi notaði þotu á vegum félagsins hafi verið greitt með þeim hætti að félagið lækkaði þessa inneign stefnda.
Í kjölfar ofangreinds samnings hafi bróðir stefnda gert annan samning við félagið f.h. Milestone. Í kjölfar hruns íslenska bankakerfisins hafi myndast skuld á þeim reikningi að fjárhæð 54.781.007 kr. við uppgjör stefnda á samningi sínum við félagið. Félagið Netjets hafi dregið þessa skuld Milestone frá inneign stefnda. Hafi stefndi þannig í raun, gegn vilja sínum, verið látinn greiða kostnað Milestone. Þann sama dag hafi verið fært í bókhald Milestone að stefndi hafi greitt kostnað fyrir Milestone og það því komið til hækkunar á inneign á viðskiptamannareikningi stefnda hjá Milestone. Engar greiðslur hafi hins vegar borist stefnda vegna þessa. Þessi atriði megi öll ráða af þeim gögnum sem stefnandi leggur fram til stuðnings kröfu sinni, sbr. dskj. 100.
Stefndi byggir á því að ekki geti verið um að ræða gjafagerning í skilningi 131. gr. gþl. Þessi færsla í bókhaldi Milestone hafi hvorki leitt til eignaukningar stefnda né eignarýrnunar Milestone, þar sem greiðslan hafi komið til hækkunar á inneign stefnda hjá Milestone sem aldrei var greidd. Ekki hafi verið um gjafatilgang að ræða þar sem einungis var um að ræða færslu í bókhaldi Milestone í samræmi við það sem átt hafði sér stað, þ.e. stefndi hafi greitt kostnað Milestone.
Ekki geti heldur verið um að ræða greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. gþl. Hvorki hafi verið um skuld að ræða né greiðslu, hvað þá að hún hafi farið fram með óvenjulegum greiðslueyri. Þannig hafi færslan í bókhaldi Milestone verið bókuð samhliða því að stefndi greiddi þann kostnað sem um ræðir. Aldrei hafi því myndast skuld Milestone við stefnda vegna þessa. Þá hafi stefndi ekki staðið í skuld við Milestone á þessum tíma heldur hafi það þvert á móti verið þveröfugt. Engin greiðsla hafi borist stefnda enda hafi þessi inneign hans hjá Milestone aldrei verið greidd. Geti hún því ekki hafa farið fram með óvenjulegum greiðslueyri enda hafi þá ekki heldur neinn skuldajöfnuður átt sér stað. Af sömu ástæðu verði greiðslunni ekki rift á grundvelli 136 gr. laganna. Lagaákvæði þetta sé heldur ekki sjálfstæð riftunarheimild líkt og orðalag greinarinnar ber bersýnilega með sér. Því verði henni ekki beitt til riftunar á gerningi.
Umræddri greiðslu verði heldur ekki rift á grundvelli 141. gr. laganna. Hún hafi ekki verið á neinn hátt ótilhlýðileg í skilningi greinarinnar þar sem aðeins var um að ræða færslu í bókhaldi sem endurspeglaði það sem átti sér stað. Verði raunar að ætla að annars konar færsla í bókhaldi, eða ef henni hefði verið sleppt, hefði brotið í bága við bókhaldslög. Lögbundnar ráðstafanir geti aldrei talist ótilhlýðilegar í skilningi 141. gr. laganna. Þá hafi stefndi sem fyrr segir engar greiðslur fengið vegna færslunnar.
Hvað varðar fjárkröfu í stefnu á þeim grundvelli sem hún er sett fram, mótmælir stefndi tveimur færslum á viðskiptamannareikningi sínum hjá Milestone sem röngum. Ósannað sé að stefnda beri að greiða þá reikninga sem eru grundvöllur þeirra. Annars vegar sé um að ræða færslu 23.12.2008 með skýringunni „GE Capital USD106.836,37“ að fjárhæð 12.882.329 krónur. Ljóst sé af fylgiskjali í bókhaldi Milestone að greiðandi reikningsins sé ekki stefndi heldur félagið Close Air Ltd. (dskj. 96). Hins vegar sé um að ræða færslu 13. mars 2009 með skýringunni „Flugþj. v/ Netjets“ að fjárhæð 12.722.878 krónur.
g. Fjárkrafa skv. 142. gr. gþl.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að fallast beri á riftun á hluta eða allra þeirra krafna er stefnandi reynir að rifta telur stefndi að sýkna beri stefnda á grundvelli þess að greiðsluskylda sé ekki fyrir hendi.
Stefndi telur með öllu óljóst með hvaða hætti stefnandi byggir kröfur sínar á 142. gr. gþl. Nær enga umfjöllun um það sé að finna í stefnu og stefnda því gert mjög erfitt um vik að taka til varna á þeim grunni.
Stefndi byggir á því að hann hafi ekki haft hag af þeim ráðstöfunum sem krafist er riftunar á. Þannig hafi engar greiðslur borist stefnda vegna þeirra, heldur hafi aðeins verið um að ræða færslur í bókhaldi félagsins sem í flestum tilvikum leiddu til þess að inneign stefnda hjá Milestone jókst. Ekki hafi komið til greiðslu vegna þessarar hækkunar.
Þar sem stefndi telur að riftunarkröfur verði ekki reistar á 141. gr. laganna komi 3. mgr. 142. gr. ekki til álita. Jafnvel þótt svo væri beri að sýkna stefnda þar sem stefnandi varð ekki fyrir tjóni vegna þeirra ráðstafana. Þvert á móti myndi endurgreiðslukrafa leiða til óeðlilegrar auðgunar búsins.
Verði stefndi dæmdur til greiðslu stefnufjárhæðar þá verði endurgreiðsla kröfunnar honum svo þung að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiði til þess sama, sbr. 145. gr. gþl. Telur stefndi að fella beri niður fjárkröfu stefnanda með vísan til þess eða að minnsta kosti lækka hana verulega. Stefnandi hafi höfðað fjölda riftunarmála á hendur stefnda og hlaupi fjárkrafa stefnanda á milljörðum. Slíkt sé stefnda ómögulegt að greiða, enda hafi fjármunir hans að langmestu leyti verið bundnir í Milestone. Hann hafi glatað þeim fjármunum að öllu leyti. Að auki megi benda á að verði riftunarkrafa stefnanda tekin til greina muni greiðslu sem innheimtist vegna hennar verða dreift á kröfuhafa stefnanda sem að mestu leyti eru stórfyrirtæki, fjármálafyrirtæki eða fjármálafyrirtæki í slitameðferð og félög á þeirra vegum. Telur stefndi það enn fremur styðja niðurfellingu fjárkröfu eða að minnsta kosti verulega lækkun hennar.
h. Krafa um greiðslu skaðabóta
Stefndi mótmælir því að stefnandi geti stutt kröfu sína um skaðabætur á ákvæði 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög eða almennum reglum skaðabótaréttar. Stefndi hafi ekki á nokkurn hátt valdið Milestone tjóni. Öll störf stefnda fyrir Milestone hafi verið unnin með hagsmuni Milestone og hluthafa þess í huga. Ákvarðanir sem stefndi tók í stjórn Milestone hafi verið byggðar á upplýstu mati stefnda á efnislegu innihaldi þeirra eða teknu tilliti til þeirra heimilda er hann hafði. Allar ákvarðanir hans hafi því byggst á viðskiptalegum forsendum en ekki með annarlega hagsmuni í huga. Af hálfu stefnda er á það bent að staða hans innan Milestone hafi verið sú að hann var þar formaður þriggja manna stjórnar. Til ákvarðanatöku hafi þurft að minnsta kosti ákvörðun tveggja stjórnarmanna. Stefndi hafi því ekki upp á sitt einsdæmi getað tekið neina ákvörðun innan stjórnar. Þeir gerningar sem fjallað er um í þessu máli hafi hvorki verið óvenjulegir né mikils háttar. Þeir hafi því ekki verið sérstaklega til umfjöllunar í stjórn félagsins, ef frá er talin tillaga um greiðslu arðs, heldur teknar af þar til bærum stjórnendum félagsins.
Stefnda hafi heldur ekki verið veitt nein lán af hálfu Milestone. Viðskiptamannareikningur stefnda hjá félaginu hafi aldrei farið í mínus. Þær færslur sem þar eru tilgreindar hafi því í öllum tilvikum verið greiðsla Milestone upp í skuld við stefnda en aldrei lánveiting til stefnda.
Stefndi byggir einnig á því að 79. gr. einkahlutafélagalaga taki ekki til starfsemi Milestone. Tekið sé fram í 7. mgr. greinarinnar að ákvæðum 1. og 2. mgr. verði ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir. Hugtakið fjármálastofnun sé ekki sérstaklega skilgreint í lögunum. Milestone var eignarhaldsfélag sem átti að langstærstum hluta eignir í fjármálafyrirtækjum. Meðal eigna þess voru Askar Capital, Sjóvá-Almennar, Invik & Co og eignarhluti í Glitni banka. Fyrir liggur að Invik & Co var skilgreint sem fjármálasamsteypa í Svíþjóð í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2002/87/EC. Staðið hafi til að skilgreina Milestone sem fjármálasamsteypu um leið og tilskipunin yrði innleidd hér á landi (dskj. 20). Lánveitingin hafi jafnframt verið veitt til að fjármagna kaup á hlutafé í fjármálastofnun, Öskum Capital. Af öllu framangreindu leiði að telja verði Milestone hafa verið fjármálastofnun í skilningi 7. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Verður greininni því ekki beitt um gerninga félagsins.
Stefndi byggir einnig á því að þeir gerningar sem krafið er um í stefnu hafi ekki verið lán í skilningi nefndrar 79. gr. Þannig hafi ekki verið um að ræða greiðslu frá Milestone á peningaupphæð með áskilnaði um endurgreiðslu. Hafa verði í huga í því sambandi að ákvæðið leggur ekki bann við því að einkahlutafélög stofni til inneignar hjá þeim aðilum sem tilgreindir eru í greininni, svo sem löggjafanum hefði verið í lófa lagið, ef ætlunin hefði verið að ákvæðið tæki til þess. Þá sé eðli máls samkvæmt enginn áskilnaður af hálfu félagsins um endurgreiðslu enda félagið sjálft með þeim færslum sem um ræðir að endurgreiða lán til stefnda.
Stefndi byggir einnig á því að alls óljóst sé hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna hinna tilgreindu ráðstafana og þá hvort það ætlaða tjón svari til stefnufjárhæðar. Í því sambandi bendir stefndi sérstaklega á að allt málið er grundvallað á því að greiðsla á gjaldfallinni skuld við stefnda á árinu 2007 sé riftanleg. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki sé grundvöllur kröfugerðar stefnanda brostinn.
i. Krafa á grundvelli 79. gr. laga um einkahlutafélög
Stefndi hafnar því að honum beri að endurgreiða ætlaðar lánveitingar á grundvelli 79. gr. laga um einkahlutafélög. Ekki hafi verið um lán til stefnda að ræða og jafnvel þótt svo hefði verið tæki 79. gr. laga um einkahlutafélög, að mati stefnda, ekki til þeirra færslna sem hér um ræðir. Þá megi ljóst vera að krafa á hendur stefnda verði ekki byggð á 5. mgr. 79. gr., enda sé ljóst af efni hennar og samspili við 4. mgr. sömu greinar að hún taki ekki til þess aðila sem var andlag ætlaðra lánveitinga.
Með vísan til þessa mótmælir stefndi öllum málsástæðum og rökum stefnanda, en auk þess mótmælir hann upphafsdegi dráttarvaxta sem ósönnuðum og órökstuddum. Riftun fari aðeins fram með dómi og verður stefndi því ekki krafinn réttilega um greiðslu á grundvelli riftunar fyrr en í kjölfar dóms.
Um málskostnað vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.
IV.
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins komu dómkvaddir matsmenn, þeir Eggert Þór Kristófersson og Gylfi Zoega, fyrir dóm og gáfu skýrslu. Auk þeirra gáfu eftirtalin vitni skýrslu fyrir dómi: Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Morgan Stanley, Bryndís Dagsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður reikningshalds hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Guðjón Ásmundsson, fyrrverandi starfsmaður Milestone ehf., Matthias Björk, fjármálastjóri Invik & Co. AB. Volati, Sigurður Freyr Jónatansson, starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, Guðni B. Guðnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Lyfjum og heilsu ehf., Magnea Rannveig Hansdóttir, fyrrverandi fjárreiðustjóri hjá Lyfjum og heilsu ehf., Sigríður Inga Guðmundsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Sjóvár- Almennra trygginga hf., Þóra Hallgrímsdóttir, fyrrverandi aðallögfræðingur nefnds tryggingarfélags, Alexander K. Guðmundsson, fyrrverandi fjármálastjóri Glitnis banka hf., Halldór Benjamín Þorbergsson, fyrrverandi verkefnastjóri hjá Milestone ehf., Arnar Guðmundsson, fyrrverandi fjármálastjóri Milestone ehf., Guðný Sigurðardóttir, fyrrverandi lánastjóri á fyrirtækjasviði Glitnis banka hf., Rúnar Guðmundsson, starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, Jóhannes Sigurðsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Milestone ehf. og Eggert Þorvarðarson, fyrrverandi bókari hjá Milestone ehf.
Í máli þessu krefst stefnandi riftunar fjögurra nánar tilgreindra ráðstafana, en hefur auk þess uppi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda vegna sömu ráðstafana. Bú Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. september 2009 og frestdagur við skiptin er 22. júní 2009.
Stefnandi styður dómkröfur sínar við tilgreind ákvæði 20. kafla laga nr. 21/1991, sem heimila riftun ráðstafana þrotamanns að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum, þ. á m. um ógjaldfærni.
Áður en tekið er til við að leysa úr öðrum atriðum málsins þykir rétt að huga nánar að hugtaksskilyrðum gjaldfærni í skilningi laga nr. 21/1991 með tilliti til þess hvort títtnefnt félag teljist hafa verið gjaldfært þegar hinar umþrættu ráðstafanir voru gerðar.
Skilyrði riftunarreglna laga nr. 21/1991 um gjaldfærni verða ekki skýrð án tillits til ákvæða 64. gr. sömu laga. Af því leiðir að skuldari verður ekki talinn gjaldfær ef svo er komið að kröfur lánardrottna hans falla í gjalddaga án þess að skuldari geti þá staðið í fullum skilum eða innan skamms tíma frá því. Í samræmi við þetta verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði riftunar meðan búið sem um ræðir telst hafa verið greiðslufært.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að Milestone ehf. hafi verið orðið ógjaldfært haustið 2007, en því hefur stefndi hafnað. Þótt sönnunarbyrði um gjaldfærni hvíli að meginstefnu á stefnda færist sú byrði yfir á stefnanda sjálfan sanni stefndi að bú Milestone ehf. hafi verið greiðslufært þegar ráðstöfun var gerð. Stefndi staðhæfir að Milestone ehf. hafi verið gjaldfært fram til 7. október 2008 og byggir þá staðhæfingu m.a. á tilvísun til framlagðra gagna um fjárhagsstöðu félagsins.
Við úrlausn um þetta álitaefni vegur þungt framlögð matsgerð þeirra Eggerts Þórs Kristóferssonar og Gylfa Zoega, sem dagsett er 28. apríl 2014 (dskj. 168). Matsgerð þessi ber með sér að grundvallast á ítarlegum gögnum um fjárhagsstöðu Milestone á tímabilinu 2007-2008. Í matsgerð er um gjaldfærni félagsins komist að þeirri niðurstöðu að markaðsvirði eigna Milestone ehf. hafi verið orðið minna en skuldir félagsins undir lok fyrsta ársfjórðungs eða í byrjun annars ársfjórðungs 2008. Hvað greiðslufærni viðvíkur töldu matsmenn sig geta ráðið af fyrirliggjandi gögnum að Milestone ehf. hafi átt „í erfiðleikum með að standa í skulum með skuldir sínar og dótturfélaga a.m.k. frá nóvember 2007“. Þar er nánar rakið hvernig „fjármögnun láns Morgan Stanley í lok árs 2007“ sýni hvernig Glitnir og félög tengd Milestone hafi gert Milestone kleift að standa í skilum „við ótengda aðila“. Fram kemur að þetta hafi m.a. verði gert með því að Glitnir hafi millifært 8,6 milljónir evra á reikning Milestone. Þá segir að á fyrstu mánuðum ársins 2008 hafi „enn [komið] í ljós takmarkað greiðsluhæfi Milestone samstæðunnar“. Í framhaldi af þessu segir á bls. 28 í matsgerð að ljóst sé „að Milestone ehf. hafði takmarkaða greiðslufærni í lok árs 2007 og á fyrri hluta 2008 án aðstoðar Glitnis banka og dótturfélaga sinna“. Síðar á sömu blaðsíðu segir orðrétt: „Greiðslufærni félagsins var undir lok árs 2007 orðin takmörkuð og í lok febrúar var félagið orðið ógreiðslufært án fyrirgreiðslu Glitnis banka og með aðstoð dótturfélaga Milestone.“ Að áliti matsmanna markaði fall Glitnis banka hf. endapunkt í þessum efnum. Vísa matsmenn í niðurstöðum sínum til þess að 7. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið sett skilanefnd yfir Glitni banka hf. og telja matsmenn ljóst að eftir það „gat Glitnir banki ekki veitt Milestone ehf. þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg var til að tryggja greiðslufærni Milestone“. Í þessu samhengi er í matsgerð vísað til tölvupósts Jóhannesar Sigurðssonar, þáverandi aðstoðarforstjóra Milestone, 28. október 2008, þar sem fram kom að Milestone „muni ekki geta staðið að fullu í skilum með kröfur á gjalddaga“. Ekki verður séð að tölvupóstur þessi hafi verið lagður fram sem sjálfstætt dómskjal undir rekstri málsins, en við skýrslugjöf undir aðalmeðferð málsins staðfesti Jóhannes Sigurðsson að við fall bankanna hafi hann metið það svo að Milestone ehf. gæti ekki staðið lengur í skilum. Þá hafi orðið verðfall á eignum og þar með hafi skuldir orðið meiri en eignir. Bætti Jóhannes því við að fram að þessum tíma hafi menn haldið í vonina um að úr rættist. Í skýrslum sínum hér fyrir dómi staðfestu matsmenn niðurstöður sínar, þ. á m. að eftir að skilanefnd var sett yfir Glitni banka 7. október 2008 hafi félagið ekki verið greiðslufært. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum matsgerðar, sem stefnandi hefur ekki hnekkt með yfirmati, þykir héraðsdómi ógerlegt að staðhæfa að ógjaldfærni Milestone ehf. skuli miðast við fyrra tímamark en þetta. Hefur í því sambandi verið til þess litið að ársreikningur félagsins fyrir rekstrarárið 2007 bar vott um sterka eiginfjárstöðu á þeim tíma. Eigið fé Milestone ehf. um áramót 2007-2008 er þar tilgreint sem 84.132.000.000 króna. Við það heildarmat sem héraðsdómur stendur hér frammi fyrir verður ekki fram hjá því litið að ársreikningur þessi var staðfestur án fyrirvara af óháðum endurskoðendum undir merkjum KPMG ehf. Þá ber stefna málsins með sér að stefnanda sé ljóst að stefndi hafi í reynd náð að fjármagna sig fram til 7. október 2008 „með yfirdráttarlánum og lánum frá tengdum aðilum“, eins og það er orðað í stefnuskjali. Ágreiningslaust er með aðilum að Milestone ehf. stóð í skuld við stefnda á þessum tíma, en nánar tiltekið var þar um að ræða lán stefnda til félagsins sem var á gjalddaga 1. júní 2007. Stefnandi hefur sjálfur lýst því svo að í nefndri ráðstöfun 24. september 2007 hafi í reynd falist uppgjör á skuld sem hafði verið í vanskilum frá 1. júní 2007. Viðvíkjandi kröfu stefnanda um riftun greiðslu sem fram fór 30. maí 2008 þykir ekki sýnt að millifærslan þjónað gjafatilgangi. Að teknu tilliti til þessa og að virtum ofangreindum niðurstöðum dómkvaddra matsmanna ber að hafna kröfum stefnanda um riftun þeirra ráðstafana sem gerðar voru fyrir áðurnefnt tímamark, þ.e. 7. október 2008. Skýrsla endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young hf., sem aflað var af hálfu stefnanda í aðdraganda þess að dómsmál þetta var höfðað, fær ekki haggað framangreindu mati dómsins.
Að öllu framanskráðu athuguðu þarf næst að fjalla sérstaklega um þær riftunarkröfur stefnanda sem settar eru fram í þriðja og fjórða lið stefnukrafna og lúta að ráðstöfunum sem gerðar voru 31. desember 2008 og 18. febrúar 2009. Verður nú nánar vikið að tveimur síðastgreindum liðum kröfugerðar stefnanda og afstaða tekin til þeirra.
Ráðstöfun 31. desember 2008 að fjárhæð 139.576.000 krónur
Á aðalfundi Milestone ehf. 29. febrúar 2008 var samþykkt arðgreiðsla til stefnda. Af þeim gögnum og upplýsingum sem fram hafa komið undir rekstri málsins má ráða að arðgreiðslum Milestone ehf. hafi verið þannig háttað að sú fjárhæð sem kom í hlut hvers hluthafa um sig hafi verið skuldfærð á viðskiptamannareikning viðkomandi. Í samræmi við þetta má finna svohljóðandi færslur á reikningi stefnda 1. september 2008:
|
1.9.2008 |
11940 |
Arður 2007 |
-584.000.000 |
-525.564.325 |
|
|
1.9.2008 |
11940 |
Fjárms.tsk. arðs |
58.400.000 |
-467.164.325 |
Í árslok 2008, nánar tiltekið 31. desember það ár, fóru neðangreindar færslur fram á nefndum viðskiptamannareikningi stefnda:
|
31.12.2008 |
12389 |
Bakf. fskj. 11940 |
584.000.000 |
134.027.908 |
|
|
31.12.2008 |
12389 |
Bakf. fskj. 11940 |
-58.400.000 |
75.627.908 |
|
|
31.12.2008 |
12390 |
Arður 2007 |
-139.576.000 |
-63.948.092 |
|
|
31.12.2008 |
12390 |
Fjármt.sk. af arði |
13.957.600 |
-49.990.492 |
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að með þessu hafi skuld stefnda við félagið, samkvæmt viðskiptareikningi hans, verið lækkuð um 139.576.000 krónur með svofelldri skýringu: „Arður 2007.“ Stefnandi telur þetta jafngilda greiðslu og krefst riftunar á henni. Um varnir hefur stefndi m.a. vísað til þess að skilyrði arðsúthlutunar hafi verið fyrir hendi þegar úthlutun arðs var ákveðin snemma árs 2008, auk þess sem enginn arður hafi komið til útgreiðslu út úr félaginu við þessar færslur.
Af framlögðum gögnum fær dómurinn ekki séð að þegar greindar ráðstafanir voru gerðar í árslok 2008 hafi stefndi í reynd fengið greiddan allan þann arð sem honum hafði á fyrri stigum verið úthlutað vegna ársins 2007. Svo sem fyrir liggur í skjölum málsins, og var raunar staðfest við skýrslutökur hér fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, hafði Milestone ehf. þrotið fjárhagslegt örendi þegar umræddar ráðstafanir voru gerðar í árslok 2008. Í því ljósi er skiljanleg sú ráðstöfun að bakfæra arðsúthlutunina í bókum félagsins, m.a. með tilliti til fjármagnstekjuskatts sem arðgreiðslur bera lögum samkvæmt. Í greinargerð stefnda til héraðsdóms er viðurkennt að staða félagsins hafi verið „orðin erfið“ undir lok árs 2008 og því ekki verið ljóst „hvort allur arður félagsins yrði greiddur út til hluthafa“. Óeðlilegt hafi þótt að félagið greiddi fjármagnstekjuskatt af arði sem ekki yrði greiddur hluthöfum. Því hafi verið ákveðið að láta færslur í bókhaldi félagsins „endurspegla þann arð sem þeir hluthafar sem tekið höfðu út hluta arðsins höfðu fengið greitt“. Sá hængur er á röksemdafærslu stefnda að bókhaldsgögn bera ekki með sér að þær fjárhæðir sem á þessum tímapunkti höfðu runnið til stefnda af nefndum viðskiptamannareikningi eftir áðurnefnda ákvörðun í febrúar 2008 hafi nálgast þá rúmlega 139 milljóna króna fjárhæð sem stefnda var samkvæmt framangreindu úthlutað 31. desember 2008 undir yfirskriftinni „Arður 2007“. Hér að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að Milestone ehf. teljist sannanlega hafa orðið ógjaldfært eigi síðar en 7. október 2008. Síðastgreinda úthlutun í árslok 2008 verður að meta með hliðsjón af þeirri staðreynd. Í því samhengi verður heldur ekki horft fram hjá nánum tengslum stefnda og Milestone ehf., en stefndi var þar bæði stjórnarformaður og stærsti hluthafi á þeim tíma sem hér um ræðir. Í ljósi þessarar stöðu sinnar mátti stefnda vera ljóst að félagið hafði á þessum tíma enga burði til að standa undir arðgreiðslum. Þótt ákvörðun um bakfærslu arðgreiðslna sé skiljanleg fyrrnefndu ljósi var engu að síður tekin ný ákvörðun um arðsúthlutun 31. desember 2008 vegna ársins 2007. Að teknu tilliti til þeirra aðstæðna sem þá voru upp komnar í rekstri Milestone ehf. voru skilyrði til arðsúthlutunar samkvæmt ákvæðum 12. kafla laga nr. 138/1994 ekki uppfyllt. Verður því að líta svo á að gerningur þessi hafi falið í sér gjöf til stefnda og því riftanleg ráðstöfun samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt framangreindu var umrædd ráðstöfun þessi ljóslega ætluð stefnda til hagsbóta og það var hún einnig í reynd að svo miklu leyti sem hún leiddi til lækkunar á skuld stefnda við Milestone ehf., þ.e. 75.627.908 kr. Síðastgreind fjárhæð telst vera sá hagur sem stefndi hafði af ráðstöfun þessari og verður honum því með vísan til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 gert að endurgreiða búinu þá fjárhæð ásamt dráttarvöxtum frá 12. ágúst 2010 en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar.
Ráðstöfun 18. febrúar 2009 að fjárhæð 54.781.007 kr.
Í stefnuskjali er að finna yfirlit yfir allar hreyfingar á viðskiptamannareikningi stefnda hjá Milestone ehf. frá 22. júní 2007 til 13. mars 2009. Þar má sjá, að næst á eftir þeim færslum sem lýst var hér að ofan og gerðar voru 31. desember 2008, er svofellda bókun að finna:
|
18.2.2009 |
12928 |
Netjets |
-54.781.007 |
-104.771.499 |
Eins og áður hefur komið fram er málatilbúnaður stefnanda á því byggður að allar greiðslur Milestone ehf. í þágu stefnda beri að skilgreina sem lán félagsins til stefnda sem stefnda beri að endurgreiða. Þessu hefur stefndi andmælt með skírskotun til þess að færslan hafi verið til komin vegna þess að stefndi hafi á fyrri stigum verið látinn greiða kostnað félagsins af leiguflugi. Þetta hafi verið fært inn í bókhald félagsins 18. febrúar 2009 á þann hátt að stefndi hafi greitt kostnað fyrir Milestone ehf. og inneign hans á viðskiptamannareikningi því verið hækkuð.
Af framlögðum skjölum má álykta að fyrirtækið NetJets, sem vísað er til í hinni umþrættu færslu, stundi útleigu á einkaflugvélum. Framlögð dómskjöl nr. 94 og 100 bera með sér að kostnaður hafi fallið til vegna ,,flugtíma“ stefnda, þ.e. ,,KW“eins og það hefur verið bókað. Af þessu verður ekki afdráttarlaust ráðið að hér hafi verið um kostnað að ræða sem átti með réttu að falla á Milestone ehf. né að þetta megi telja eðlilegan rekstrarkostnað eins og ástatt var fyrir félaginu á þeim tíma sem hér um ræðir. Með því að stefndi hefur ekki fært fram fullnægjandi rök öndverðri niðurstöðu til stuðnings og að teknu tilliti til þess hvenær ráðstöfunin var gerð telur dómurinn rétt að líta svo á að hér hafi verið um gerning að ræða sem falli undir ákvæði 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Hefur þá jafnframt verið litið til þess að stefnda mátti á þessum tíma vera fyllilega ljóst að Milestone ehf. átti ekki fyrir skuldum. Verður greiðslu þessari því rift samkvæmt framanskráðu og stefndi dæmdur til endurgreiðslu, ásamt dráttarvöxtum frá 12. ágúst 2010 en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar.
Svo sem áður greinir telst óumdeilt að Milestone ehf. hafi staðið í skuld við stefnda um mitt ár 2007. Í ljósi þessa og að virtum eindregnum mótmælum stefnda þykir stefnandi ekki hafa fært sönnur fyrir því að þær fjárhæðir sem eftir standa og runnu til stefnda á síðustu misserunum fyrir þrot þess hafi í reynd verið í formi ólögmætra lána í skilningi 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Af hálfu stefnda hafa verið færð fram rök fyrir því að um lögmætar arð- og endurgreiðslur hafi verið að ræða og hafa staðhæfingar hans í þá veru ekki verið hraktar. Verður stefndi því sýknaður af endurgreiðslukröfum stefnanda að öðru leyti en því sem leitt verður af riftun þeirra tveggja ráðstafana sem fjallað var um hér framar.
Með hliðsjón af þessum úrslitum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af rekstri málsins.
Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu stefnanda, þrotabús Milestone ehf., um riftun á greiðslu Milestone ehf. til stefnda, Karls Wernerssonar, 24. september 2007 að fjárhæð 299.288.364 krónur.
Hafnað er kröfu stefnanda um riftun á greiðslu Milestone ehf. til stefnda 30. maí 2008 að fjárhæð 10.598.953 krónur.
Rift er greiðslu Milestone ehf. til stefnda 31. desember 2008 að fjárhæð 139.576.000 krónur.
Rift er greiðslu Milestone ehf. til stefnda 18. febrúar 2009 að fjárhæð 54.781.007 krónur.
Stefndi endurgreiði stefnanda 130.408.915 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. ágúst 2010 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.