Hæstiréttur íslands

Mál nr. 348/2000


Lykilorð

  • Eignarréttur
  • Lóðarréttindi
  • Umferðarréttur
  • Óðalsréttur
  • Vatnsréttindi
  • Hefð


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. maí 2001.

Nr. 348/2000.

Sigrún Jónsdóttir

(Helgi Birgisson hrl.

(Sigurður Sigurjónsson hdl.)

gegn

Hákoni Bjarnasyni

Birnu Jónasdóttur

Jóni B. Jónassyni

Árna Múla Jónassyni

Ingunni Önnu Jónasdóttur

Ragnheiði Jónasdóttur

(Karl Axelsson hrl.)

Sigríði J. Valdimarsdóttur

(Ásgeir Jónsson hdl.)

Halldóri Bjarnasyni,

Flosa Ólafssyni og

Ólafi Flosasyni

(Ragnar Halldór Hall hrl.

Hörður F. Harðarson hdl.)

og

Halldór Bjarnason

Flosi Ólafsson og

Ólafur Flosason

gegn

Sigrúnu Jónsdóttur

 

Eignarréttur. Lóðarréttindi. Umferðarréttur. Óðalsréttur. Vatnsréttindi. Hefð.

S krafðist ógildis eigendaskipta að jörðinni B þar sem ekki hafði verið tekið tillit til þess við sölu að jörðin væri ættaróðal. Hæstiréttur hafnaði þessum kröfulið S. Kvað hann jörðina ekki hafa verið gerða réttilega að óðalsjörð og því giltu ekki um hana þær takmarkanir á eigendaskiptum sem lýst er í 63. gr. jarðarlaga. Hæstiréttur viðurkenndi beinan eignarrétt S að íbúðarhúsi og afmörkuðum hluta lóðar umhverfis það á jörðinni B. Talið var að fallast mætti á að sönnur hefðu verið færðar að því að faðir S hefði gefið henni húsið. Umferðarréttur S að húsinu um heimreið Ha, F og Ó var jafnframt viðurkenndur. Krafa S um viðurkenningu með dómi á eignarrétti að 1/3 hluta í heitavatnslögnum á jörðinni B þótti studd ósönnuðum fullyrðingum og var hafnað. Með því að upplýst var að S greiddi hluta af rekstrarkostnaði hitaveitunnar þótti ekki unnt að fallast á að hún hefði unnið sér rétt til endurgjaldslausrar nýtingar á heitu vatni jarðarinnar, hvorki með hefð né á annan hátt. Sömuleiðis var hafnað kröfu S um viðurkenningu á rétti til endurgjaldslausrar notkunar á köldu vatni jarðarinnar B, enda þótti hún ekki hafa sýnt fram á að hún hefði unnið rétt til slíkrar nýtingar kaldavatnsréttinda.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. september 2000. Hún gerir eftirfarandi dómkröfur:

„a)  Að ógilt verði sala stefndu Sigríðar Valdimarsdóttur með afsali, dagsettu 6. mars 1997, til stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar, á jörðinni Breiðabólsstað í Borgarfjarðarsveit, Borgarfjarðarsýslu, þ.e. þeim hluta jarðarinnar sem er ofan þjóðvegar, ásamt mannvirkjum og öllu sem fylgir og fylgja ber.

b)             Að ógilt verði sala stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar með kaupsamningi, dags. 30. október 1998, til gagnáfrýjenda Flosa Ólafssonar, Halldórs Bjarnasonar og Ólafs Flosasonar, á jörðinni Breiðabólsstað í Borgarfjarðarsveit, Borgarfjarðarsýslu, þ.e. þeim hluta jarðarinnar sem er ofan þjóðvegar, ásamt mannvirkjum og öllu sem fylgir og fylgja ber.

c)             Að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur aðaláfrýjanda að íbúðarhúsi og 6.544 m² lóð umhverfis það á jörðinni Breiðabólsstað í Borgarfjarðarsveit, Borgarfjarðarsýslu, sem auðkennd er á uppdrætti á bls. 78 í ágripi, þannig hnitmerkt: frá punkti nr. 36 (x-hnit 656657.035, y-hnit 467365.083) að punkti nr. 37 (x-hnit 656552.974, y-hnit 467355.405), frá þeim punkti að punkti nr. 38 (x-hnit 656558.773, y-hnit 467293.054) og frá þeim punkti að punkti nr. 39 (x-hnit 656662.834, y-hnit 467302.732), auk umferðarréttar að greindri fasteign, nánar tiltekið um malarveg, sem liggur frá þjóðvegi að gamla íbúðarhúsinu og útihúsum.

Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur aðaláfrýjanda að íbúðarhúsi og 1.536 m² lóð umhverfis það á jörðinni Breiðabólsstað í Borgarfjarðarsveit, sem auðkennd er á uppdrætti á bls. 79 í ágripi, þannig hnitmerkt: Frá punkti 32 (x-hnit 656649.464, y-hnit 467358.666) að punkti nr. 33 (x-hnit 656601.623, y-hnit 467354.758), frá þeim punkti að punkti nr. 34 (x-hnit 656604.229, y-hnit 467322.864) og frá þeim punkti að punkti nr. 35 (x-hnit 656652.069, y-hnit 467326.773), auk umferðarréttar að greindri fasteign, nánar tiltekið um malarveg, sem liggur frá þjóðvegi að gamla íbúðarhúsinu og útihúsum.

d)             Að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur aðaláfrýjanda að 1/3 hluta í heitavatnslögnum á jörðinni Breiðabólsstað í Borgarfjarðarsveit, Borgarfjarðarsýslu.

e)             Þá krefst aðaláfrýjandi að viðurkenndur verði með dómi réttur aðaláfrýjanda til endurgjaldslausrar notkunar á heitu og köldu vatni jarðarinnar Breiðabólsstaðar í Borgarfjarðarsveit, Borgarfjarðarsýslu.

f)               Að stefndu og gagnáfrýjendur verði í öllum ofangreindum tilvikum dæmd til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað að skaðlausu vegna málsins bæði í héraði og fyrir Hæstarétti ... .”

 Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjunarstefna er gefin út 21. nóvember 2000. Gagnáfrýjendur krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum aðaláfrýjanda en til vara staðfestingar héraðsdóms. Þá krefjast þeir staðfestingar á málskostnaðarákvæði héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Þar á meðal eru ljósrit úr fasteignamatsskrá Reykholtshrepps 1973, 1976, 1978, 1979, 1981, 1982, 1983 og 1984. Jón Ingólfsson er þar skráður eigandi sumarbústaðar og lóðar, en aðaláfrýjandi er þó skráð eigandi mannvirkja tvö fyrstu árin.

I.

Í upphafi héraðsdóms er frá því skýrt hvernig aðaláfrýjandi skýrir aðild stefndu og gagnáfrýjenda. Mál þetta er að hluta höfðað sem viðurkenningarmál samkvæmt heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gildir heimildin án tillits til þess hvort unnt væri að leita dóms sem fullnægja mætti með aðför. Gagnáfrýjendur og stefndu geta öll átt hagsmuna að gæta af því að öllum kröfum aðaláfrýjanda sé hafnað. Telja þau ýmist til beins eignarréttar yfir umdeildum réttindum eða hlytu að svara til vanheimildar vegna eignaskipta að þeim. Þeim er ekki sérstakt óhagræði af því að þessum kröfum er öllum stefnt í einu máli.

Mál þetta varðar réttindi yfir jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdal, Borgarfjarðarsýslu. Samkvæmt a) og b) liðum dómkröfu aðaláfrýjanda krefst hún ógildis eignaskipta að jörðinni þar sem ekki hafi verið tekið tillit til þess við þau að jörðin hafi verið gerð að ættaróðali. Aðaláfrýjandi telur til eignar yfir sumarhúsi (gamla íbúðarhúsinu að Breiðabólsstað.) ásamt lóð og tengdum réttindum, sem talin eru í c), d) og e) liðum kröfugerðarinnar og reisir kröfur sínar á því. Atvik máls og málsástæður eru rakin í héraðsdómi. Verður afstaða tekin til hvers kröfuliðar um sig.

II.

Kröfur aðaláfrýjanda samkvæmt a) og b) liðum eru byggðar á því að jörðin Breiðabólsstaður hafi verið gerð að óðalsjörð með yfirlýsingu þar um í afsali Jóns Ingólfssonar til Gunnars sonar hans 13. janúar 1971 og athugasemdalausri þinglýsingu þess afsals. Þegar afsal þetta var gefið út voru í gildi lög nr. 102/1962 um ættaróðul, ættarjarðir, erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða. Í 1. gr. þeirra laga voru sett skilyrði fyrir því að jörð yrði gerð að ættaróðali og í 3. gr. mælt fyrir um aðferðina við þennan gerning. Nú gilda um þetta efni 47. og 49. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sbr. lög nr. 90/1984. Í héraðsdómi er því lýst að ekki var gætt þeirra aðferða, sem greindi í 3. gr. laga nr. 102/1962, og liggur því ekkert fyrir um hvort skilyrði 1. gr. laganna voru uppfyllt. Jörðin var því ekki réttilega gerð að óðalsjörð og giltu því ekki um hana þær takmarkanir á eigendaskiptum, sem lýst er í 63. gr. jarðalaga. Ber af þessum ástæðum að hafna kröfum aðaláfrýjanda samkvæmt þessum kröfuliðum.

III.

Aðaláfrýjandi byggir kröfur samkvæmt c) lið kröfugerðar sinnar á því að faðir sinn Jón Ingólfsson hafi gefið sér gamla íbúðarhúsið og lóð undir það. Er þetta tilkall hennar stutt af systur hennar Unni Jónsdóttur. Jafnframt hafa þær systur haldið því fram að Gunnar Jónsson, bróðir þeirra og fyrrum eigandi Breiðabólsstaðar, hafi viðurkennt þetta eignartilkall aðaláfrýjanda. Jón Ingólfsson lést 2. febrúar 1982 og var bú hans þá lýst eignalaust. Gunnar Jónsson lést barnlaus 9. apríl 1990 en kona hans, stefnda Sigríður, tók þá við jörðinni. Aðaláfrýjanda skortir afsalsbréf svo að hún fái ráðstafað húsinu. Af gögnum málsins verður ráðið að gagnáfrýjendur og stefndu telja ekki til eignar yfir því en mótmæla tilkalli hennar til beins eignarréttar yfir lóðinni. Gagnáfrýjendur mótmæla fyrir Hæstarétti tilkalli aðaláfrýjanda til hússins og telja sig vera rétta eigendur lóðarinnar en stefndu mótmæla að kröfum varðandi hana verði réttilega að sér beint.

Fallast má á það með héraðsdómi að sönnur hafi verið færðar að því gagnvart gagnáfrýjendum og stefndu að faðir aðaláfrýjanda hafi gefið henni sumarhúsið. Hefur ekkert komið fram um að aðrir gætu átt eignartilkall til hússins en aðilar máls þessa og Unnur Jónsdóttir.

Samkvæmt framlögðum ljósritum úr fasteignamati var Jón Ingólfsson skráður eigandi sumarhúss og lóðar í landi Breiðabólsstaðar. Lóðin er þar metin til verðs en stærðar hennar er ekki getið. Sömu upplýsingar koma fram á skattframtali sem Gunnar Jónsson undirritar fyrir hönd föður síns 1981. Aðaláfrýjandi lét girða blett kringum sumarhúsið árið 1992, að því er telja má. Sá blettur er sagður vera sömu stærðar og fram kemur í varakröfu samkvæmt þessum lið og teikningu sem aðaláfrýjandi segir komna frá Gunnari bróður sínum. Af hálfu stefndu Sigríðar er því mótmælt að sú teikning stafi frá Gunnari. Af ljósmynd sem frammi liggur í málinu verður ekki annað séð en að hluti blettsins að minnsta kosti hafi verið hluti af túni jarðarinnar 1984 þegar myndin á að hafa verið tekin. Verður ekki á það fallist að aðaláfrýjandi hafi farið með afgirta blettinn í hefðartíma fullan á þann hátt að henni verði dæmdur eignarréttur vegna hefðar. Löglíkur eru fyrir því að húsinu hafi fylgt lóðarréttindi. Í afsali Jóns Ingólfssonar til Gunnars sonar síns 13. janúar 1971 er ekkert minnst á lóðarréttindi gamla íbúðarhússins, sem undanskilið var sölunni. Af ljósritum þeim úr fasteignamati, sem lögð voru fyrir Hæstarétt, svo og áður fram lögðum gögnum, má ráða að húsið hafi verið talið hafa lóðarréttindi á meðan Jón Ingólfsson lifði og fram til þessa dags. Það styðst einnig við áðurnefnt skattframtal. Við framangreinda sölu jarðarinnar var húseign undanskilin og er rökrétt að álíta að henni hafi fylgt lóð, sem háð væri beinum eignarrétti. Þetta styðst einnig við það að lóðarleiga var ekki innheimt af eigninni, hvorki fyrir eða eftir að Jón lést. Þá hafa fasteignagjöld verið greidd af húsi og lóð. Nægilega þykir því sannað að húsinu hafi átt að fylgja eignarlóð. Aðaláfrýjandi hefur svo sem að framan greinir girt lóð í samræmi við varakröfu sína samkvæmt þessum lið. Ekki liggur fyrir að þeim framkvæmdum hafi verið formlega mótmælt. Verður lóðin í þeirri mynd ekki talin óhæfilega stór eða hafa í för með sér sérstakt óhagræði fyrir núverandi eigendur jarðarinnar. Þykir því eftir atvikum mega fallast á, að stærð lóðarinnar skuli vera sú, sem afgirt hefur verið og kemur fram á áðurnefndum uppdrætti, þótt ekki séu efni til að taka beina afstöðu til upruna teikningarinnar sem áður er á minnst.

Viðurkenna ber að gagnáfrýjendur verði að þola umferðarrétt aðaláfrýjanda að sumarhúsinu um heimreiðina enda kemst hún ekki á annan hátt að húsinu og ekki verður talið að sá réttur sé sérlega íþyngjandi fyrir þá.

Aðaláfrýjandi tók ekki þátt í upphaflegri lagningu hitaveitu heim að húsum á Breiðabólsstað. Gögn málsins styðja ekki fullyrðingar hennar um að hún hafi tekið þátt í endurgerð lagnarinnar að hluta. Verður að telja kröfu hennar samkvæmt d) lið ósannaða. Verður hún þegar af þeirri ástæðu ekki viðurkennd.

Með skírskotun til raka héraðsdóms ber að staðfesta hann að því er varðar endurgjaldslaus not af heitu vatni samkvæmt e) lið kröfugerðar aðaláfrýjanda.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt óstaðfest vottorð Ólafs Ólafssonar 25. september 2000, þar sem hann segist hafa stjórnað viðgerð á eldri hluta gamla Breiðabólsstaðarbæjarins 1997. Hann hafi þá aftengt kaldavatnsleiðslu að húsinu þar sem ekki hafi verið talið öruggt að vatn úr henni væri í lagi. Hafi aðaláfrýjandi tjáð sér að til stæði að leggja nýja vatnsveitu að býlinu sem sótt yrði í betra vatnsból. Gagnáfrýjendur hafa mótmælt þessu vottorði og haldið því fram að óupplýst sé hvenær kaldavatnsleiðslan hafi verið rofin. Samkvæmt kaupsamningi gagnáfrýjenda og stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og dánarbús Jónasar Árnasonar 30. október 1998 er nýrri kaldavatnsleiðslu þá ólokið. Fallast ber á það með héraðsdómi að aðaláfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi unnið rétt til endurgjaldslausrar nýtingar kaldavatnsréttinda.

IV.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða málsins sú að hafnað er kröfum aðaláfrýjanda samkvæmt kröfuliðum a), b), d) og e). Viðurkenndur er hins vegar gagnvart gagnáfrýjendum og stefndu eignarréttur hennar á sumarhúsi ásamt meðfylgjandi lóð samkvæmt uppdrætti að stærð 1.536 m² og umferðarrétti um heimreiðina að Breiðabólsstað.

Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði. Aðaláfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir. Gagnáfrýjendur beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Viðurkenndur er gagnvart stefndu, Hákoni Bjarnasyni, Birnu Jónasdóttur, Jóni B. Jónassyni, Árna Múla Jónassyni, Ingunni Önnu Jónasdóttur, Ragnheiði Jónasdóttur og Sigríði J. Valdimarsdóttur og gagnáfrýjendum, Halldóri Bjarnasyni, Flosa Ólafssyni og Ólafi Flosasyni, beinn eignarréttur aðaláfrýjanda, Sigrúnar Jónsdóttur, að gamla íbúðarhúsinu á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdal, Borgarfjarðarsveit ásamt 1.536m² lóð sem auðkennd er á uppdrætti frá punkti 32 (x-hnit 656649.494, y-hnit 467358.666) að punkti nr. 33 (x-hnit 656601.623, y-hnit 467354.758), frá þeim punkti að punkti nr. 34 (x-hnit 656604.229, y-hnit 467322.864) og frá þeim punkti að punkti nr. 35 (x-hnit 656652.069, y-hnit 467326.773) og umferðarrétti um heimreið sem liggur frá þjóðvegi að húsinu.

Kröfum aðaláfrýjanda um ógildi ráðstafana um hluta jarðarinnar Breiðabólstaðar 6. mars 1997 og 30. október 1998 er hafnað, svo og kröfum hennar um eignarrétt að 1/3 hluta í heitavatnslögnum jarðarinnar og til endurgjaldslausrar notkunar á heitu og köldu vatni.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Aðaláfrýjandi greiði stefndu Hákoni Bjarnasyni, Birnu Jónasdóttur, Jóni B. Jónassyni, Árna Múla Jónassyni, Ingunni Önnu Jónasdóttur og Ragnheiði Jónasdóttur sameiginlega 200.000 krónur og Sigríði J. Valdimarsdóttur 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Annar málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 9. júní 2000.

Stefnandi máls þessa er Sigrún Jónsdóttir, kt. 310823-4309, Krummahólum 17 Reykjavík. Þessum mönnum er stefnt: Hákoni Bjarnasyni, kt. 200360-2069 og Birnu Jónasdóttur, kt. 180356-0029, báðum til heimilis á Geldingalæk, Hellu; Jóni B. Jónassyni, kt. 081045-4459, Sæbraut 18 Seltjarnarnesi; Árni Múli Jónasson, kt. 140559-7769, Hjarðarhaga 36 Reykjavík; Ingunni Önnu Jónasdóttur, kt. 300848-4009, Brekkubraut 10 Akranesi; Ragnheiði Jónasdóttur, kt. 080250-4449, Kópareykjum Reykholtsdal, Borgarfjarðarsveit; Sigríði Valdimarsdóttur, kt. 140230-2199, Gnoðarvogi 24 Reykjavík; Halldóri Bjarnasyni, kt. 151140-4839, Leirutanga 33 Mosfellsbæ; Flosa Ólafssyni, kt. 271029-2179, Bergi Reykholtsdal, Borgarfjarðarsveit, og Ólafi Flossyni, kt. 131056-3549, Breiðabólsstað, Reykholtsdal, Borgarfjarðarsveit.

 Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu á hendur stefndu Sigríði 20. apríl, á hendur stefndu Hákoni og Jónasarbörnum 28. apríl og á hendur stefndu Halldóri, Flosa og Ólafi 29. apríl 1999.  Það var þingfest 4. maí sama ár.

Hinn 3. desember 1999 var málið flutt um formhlið, og 16. dag sama mánaðar var kveðinn upp úrskurður um frávísunarkröfu stefndu. Var a-lið og b-lið í kröfugerð stefnanda, sbr. hér á eftir,  vísað frá dómi, en hafnað kröfu um að vísa frá dómi kröfu stefnanda um viðurkenningu á eignarrétti að “gamla íbúðarhúsinu” á Breiðabólsstað samkv. c-lið í kröfugerð stefnanda. Úrskurður þessi var kærður til Hæstaréttar,  að því er varðaði frávísun a-liðar og b-liðar kröfugerðar stefnanda, og gekk dómur Hæstaréttar 15. febrúar 2000. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur stefnanda til efnislegrar meðferðar. Málskostnaður í þessum þætti málsins var felldur niður.

Aðalmeðferð málsins fór fram 11. og 12. maí 2000, og var málið tekið til dóms að henni lokinni.

Dómkröfur stefnanda eru þessar :

a)                        Að ógilt verði sala stefndu Sigríðar Valdimarsdóttur með afsali, dagsettu 6. mars 1997, til stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar, á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu, þ.e. þeim hluta jarðarinnar sem er ofan þjóðvegar, ásamt mannvirkjum og öllu sem fylgir og fylgja ber.

b)                        Að ógilt verði sala stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar með kaupsamningi, dags. 30. október 1998, til stefndu Flosa Ólafssonar, Halldórs Bjarnasonar og Ólafs Flosasonar, á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu, þ.e. þeim hluta jarðarinnar sem er ofan þjóðvegar, ásamt mannvirkjum og öllu sem fylgir og fylgja ber.

c)                        Að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnanda að íbúðarhúsi og 6.544 m2 lóð umhverfis það á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu, sem auðkennd er á meðfylgjandi uppdrætti, þannig hnitmerkt: Frá punkti nr. 36 (x-hnit 656657.035, y-hnit 467365.083) að punkti nr. 37 (x-hnit 656552.974, y-hnit 467355.405), frá þeim punkti að punkti nr. 38 (x-hnit 656558.773, y-hnit 467293.054) og frá þeim punkti að punkti nr. 39 (x-hnit 656662.834, y-hnit 467302.732), auk umferðarréttar að greindri fasteign, nánar tiltekið um malarveg, sem liggur frá þjóðvegi að gamla íbúðarhúsinu og útihúsum.

Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnanda að íbúðarhúsi og 1.536 m2 lóð umhverfis það á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, sem auðkennd er á meðfylgjandi uppdrætti, þannig hnitmerkt: Frá punkti nr. 32 (x-hnit 656649.464, y-hnit 467358.666) að punkti nr. 33 (x-hnit 656601.623, y-hnit 467354.758), frá þeim punkti að punkti nr. 34 (x-hnit 656604.229, y-hnit 467322.864), og frá þeim punkti að punkti nr. 35 (x-hnit 656652.069, y-hnit 467326.773), auk umferðarréttar að greindri fasteign, nánar tiltekið um malarveg, sem liggur frá þjóðvegi að gamla íbúðarhúsinu og útihúsum.

             d)               Að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnanda að 1/3 hluta í heitavatnslögnum á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu.

e)                Þá krefst stefnandi að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til endurgjaldslausrar notkunar á heitu og köldu vatni jarðarinnar.

f)                 Að stefndu verði í öllum tilvikum dæmd til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt samkvæmt mati dómsins og við þá ákvörðun verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Stefnda Sigríður J. Valdimarsdóttir krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af  öllum kröfum stefnanda, en til vara krefst hún þess, ef viðurkenndur verður með dómi eignarréttur stefnanda að “gamla íbúðarhúsinu” á Breiðabólsstað, að hún verði sýknuð af öllum öðrum dómkröfum stefnanda.

Stefnda Sigríður krefst þess ennfremur að stefnandi verði í báðum tilvikum dæmd til að greiða henni málskostnað að mati dómsins og að við málskostnaðarákvörðun verði tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Stefndu Halldór Bjarnason, Flosi Ólafsson og Ólafur Flosason krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfulið b í stefnu og öllum öðrum kröfum stefnanda, sem á hendur þeim beinast. Til vara krefjast þessir stefndu þess, ef eignarréttur stefnanda að “gamla” íbúðarhúsinu á Breiðabólsstað verður viðurkenndur með dómi, að þeir verði þá sýknaðir af kröfu stefnanda um sérstaka lóð undir og umhverfis húsið, svo og kröfu um umferðarrétt að húsinu.

Stefndu Halldór, Flosi og Ólafur krefjast í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda samkv. fram lögðum málskostnaðarreikningi og að við málskostnaðarákvörðun verði tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþjónustu.

Stefndu Hákon Bjarnason og Birna og önnur börn Jónasar Árnasonar krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefjast þau þess, ef viðurkenndur verður með dómi eignarréttur stefnanda að “gamla íbúðarhúsinu” á Breiðbólsstað, að þau verði þá sýknuð af öllum öðrum kröfum stefnanda.

Í báðum tilvikum krefjast þessi stefndu þess að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað skv. fram lögðum málskostnaðarreikningi og að tekið verði tillit til skyldu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Aðild stefndu er í stefnu skýrð þannig:

“Stefnandi höfðar mál þetta gegn Sigríði Valdimarsdóttur, Hákoni Bjarnasyni, Birnu Jónasdóttur, og erfingjum Jónasar Árnasonar, þeim Jóni B. Jónassyni, Árna Múla Jónassyni, Ingunni Önnu Jónasdóttur og Ragnheiði Jónasdóttur, til að þola ógildingu á sölu jarðarinnar Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu, samkvæmt afsali, dags. 6. mars 1997.  Verði fallist á kröfur stefnanda um ógildingu þeirrar sölu gildir hið sama um síðari ráðstafanir jarðarinnar og því beinir stefnandi kröfum sínum jafnframt að Halldóri Bjarnasyni, Flosa Ólafssyni og Ólafi Flosasyni, sem keyptu jörðina af stefndu, Hákoni, Birnu og dánarbúi Jónasar, með kaupsamningi, dags. 30. október 1998.  Þar sem ekki sé ljóst hver af stefndu þurfi jafnframt að þola kröfu um viðurkenningu á eignarrétti að íbúðarhúsi og lóð umhverfis það, auk umferðarréttar og viðurkenningu á eignarrétti stefnanda á heitavatnslögn jarðarinnar og notkunarrétti á heitu og köldu vatni, er stefnanda nauðsynlegt að beina kröfum sínum að þeim öllum.

Þar sem Jónas Árnason, sem keypti Breiðabólsstað af Sigríði Valdimarsdóttur ásamt Hákoni og Birnu, lést þann 5. apríl 1998, er stefnanda nauðsynlegt að beina kröfum sínum að erfingjum hans, en samkvæmt beiðni um leyfi til einkaskipta hafa þeir tekið á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins.”

Málavextir eru í stuttu máli þessir:

Björn Jónsson ráðherra afsalaði fyrir hönd landsjóðs jörðinni Breiðabólsstað, Reykholtsdalshreppi Borgarfjarðarsýslu, til  Ingólfs Guðmundssonar, ábúanda jarðarinnar, með afsali dags. 12. maí 1909. Einkabarn Ingólfs og konu hans, Jón, varð síðar eigandi jarðarinnar. Jón eignaðist þrjú börn, Unni, stefnanda Sigrúnu og Gunnar. Gunnar tók við búskap á jörðinni af foreldrum sínum. Árið 1955 byggði Gunnar nýtt íbúðarhús á jörðinni. Stefnda Sigríður telur að hún hafi flust að Breiðabólsstað í maí 1964 sem ráðskona Gunnars. Þau gengu í hjónaband 30. desember 1965. Með kaupsamningi og afsali 13. janúar 1971 seldi Jón Ingólfsson syni sínum Gunnari jörðina Breiðabólsstað með öllum gögnum hennar og gæðum. Undanskilið sölunni var þó “gamla íbúðarhúsið”. Gunnar lést 9. apríl 1990. Þau Gunnar og stefnda, Sigríður voru barnlaus, og var hún einkaerfingi hans. Með kaupsamningi dags. 18. mars 1996, seldi stefnda Sigríður, stefndu Hákoni, Birnu og Jónasi Árnasyni, föður Birnu, þann hluta jarðarinnar Breiðabólsstaðar sem liggur ofan þjóðvegar. Jónas er látinn. Í kaupsamningum segir að kaupendum sé kunnugt um “sumarhús sem stendur á jörðinni”. Með kaupsamningi dags. 30. október 1998 seldu stefndu Hákon og Birna og dánarbú Jónasar Árnasonar stefndu Halldóri, Flosa og Ólafi jörðina, þ.e. þann hluta sem seljendur keyptu 29. janúar 1996.

Nánar um málsatvik.

Frammi liggur í málinu ljósrit kaupsamnings og afsals, dags. 13. janúar 1971, þar sem Jón Ingólfsson selur og afsalar syni sínum Gunnari Jónssyni jörðinni Breiðabólsstað. Þar segir m.a. að jörðin sé seld með öllum gögnum og gæðum, en “undanskilið sölunni er þó gamla íbúðarhúsið, og sú kvöð fylgir jörðinni, að þeir Guðmundur og Jónas Kjerulf hafa á erfðafestu byggingalóð og ræktunarland, samkvæmt samningi.” Í greinargerð stefndu Sigríðar er upplýst að lóð þetta og land hafi verið neðan þjóðvegar og að Gunnar Jónsson hafi síðar leyst til sín þessi réttindi. Síðar í kaupsamningi og afsali segir:  “Jörðin er óðalsjörð. Kaupverðið er fasteignamatsverð.”

Fram hefur og verið lagt bréf sýslumannsins í Borgarnesi til stefnda Flosa Ólafssonar, dags. 9. desember 1998, þar sem segir: “Það vottast hér með að skv. þinglýsingabókum embættis sýslumannsins í Borgarnesi, þá hefur aldrei verið þinglýst yfirlýsingu né gjörningi þar sem jörðin Breiðabólsstaður í Reykholtsdal er gerð að ættaróðali.”

Meðal dómskjala þessa máls er fasteignamat, tímasett 1970, þar sem fasteignamatsnefnd Borgarfjarðarsýslu metur sumarbústað á Breiðabólsstað. Nánari lýsing á sumarbústaðnum er þannig: “Gömul bæjarhús frá Breiðabólsst., endurbætt og breytt. (Fellt út úr mati á Breiðsbólsst.)”  Eigandi hússins er skráð Sigrún Jónsdóttir, Reykjavík,  en lóðareigandi Jón Ingólfsson Breiðabólsstað. Sumarbústaðurinn (gamli bærinn) er metinn á kr. 110.000, en lóð á kr. 7.000, samtals kr. 117.000.  Skjal þetta er undirritað af fasteignamatsmönnum, Jóni Guðmundssyni, Ingimundi Ásgeirssyni og Jakobi Jónssyni.

Lagt hefur verið fram skattframtal Jóns Ingólfssonar Breiðabólsstað 1981. Þar er fram talin sem hans eign sumarhús Breiðabólsstað, metið á kr. 2.285.000, og “land”, metið á kr. 162.000, samtals kr. 2.447.000.

Stefnandi hefur lagt fram skjal, sem við meðferð málsins hefur ýmist verið kallað teikning eða uppdráttur. Um er að ræða línustrikað skrifblokkarblað. Lítið ofan við mitt blað hefur verið teiknaður ferhyrningur, 7,4 sm á breidd og 5,3 sm á hæð, og er honum skipt með lóðréttu striki nokkurn veginn til helminga. Ofan við efri langhlið er ritaður bókstafurinn V, neðan við neðri langhlið stafurinn A, við vinstri skammhlið S og við hægri skammhlið N. Efst á blaðið, nokkrum línum ofan við efri langhlið er ritað “32 nn”, sem við meðferð máls hefur verið lesið sem 32 metrar, og út á vinstri jaðar blaðsins “48 nn”, sem lesið hefur verið sem 48 metrar. Undir bókstafinn A, neðan við neðri langhlið er ritað “1536 2 mm”, og hefur verið lesið sem 1536 fermetrar. Þar undir er þetta handritað: “Lóðamörk við gamla bæinn á Breiðabólsstað, ákveðið 9 maí 1976”, og þar fyrir neðan eru nafnritanir: “Sigrún Jónsdóttir Garðastræti 39 R.vk.  Gunnar Jónsson Breiðabólsstað Guðni Jónsson”

  Í stefnu segir: “Í júní 1997 barst stefnanda lóðarleigusamningur frá stefndu, Hákoni, Birnu og Jónasi, nýjum eigendum jarðarinnar.  Í samningnum var kveðið á um, að hann gilti í 15 ár, væri óframseljanlegur og unnt að segja honum upp með 6 mánaða fyrirvara.  Kom umræddur gerningur stefnanda mjög á óvart og í kjölfar þessa kannaði stefnandi hvernig á þessu gæti staðið og við þá athugun varð henni kunnugt um ofangreinda gerninga stefndu Sigríðar Valdimarsdóttur.  Stefnandi ritaði síðan stefndu Hákoni og Birnu bréf, dags. 30. desember 1997, þar sem hún skýrði sjónarmið sín og krafðist viðurkenningar á eignarrétti að íbúðarhúsi, lóðarréttindum og vatnslögn.  Ennfremur var tekið fram að jörðin væri ættaróðal og við ráðstöfun hennar hefði ekki verið fylgt ákvæðum jarðalaga um óðalsjarðir.  Stefnanda barst ekki formlegt svar frá stefndu Hákoni og Birnu heldur lögmanni stefndu Sigríðar Valdimarsdóttur þann 20. apríl 1998.  Stefndu Hákon og Birna óskuðu hins vegar eftir því við stefnanda með bréfi, dags. 14. maí 1998, að stefnandi myndi láta í ljós afstöðu sína til erindis lögmanns Sigríðar.  Stefnandi svaraði því bréfi þann 13. júlí 1998.” 

Í bréfi lögmanns stefndu Sigríðar til lögmanns stefnanda, dags. 20. apríl 1998, er því mótmælt, að stefnandi sé eigandi lóðar umhverfis húsið. Þar er m.a. vísað til afsals Jóns Ingólfssonar á jörðinni til sonar hans Gunnars og sagt: “Afsalið felur í sér að eignarréttur á landinu féll til Gunnars Jónssonar og áréttað er að fasteign umbj.[óðanda] y.[ðar], gamla íbúðarhúsið, sé undanskilið sölunni. Umræddri fasteign er þannig í mesta lagi ætluð leigulóð.” Jafnframt er mótmælt eignarhluta stefnanda í vatnsveitu, því að jörðin sé óðalsjörð og loks skorað á stefnanda að ganga til samninga við núverandi eigendur um lóðarleigusamning og hitaveitu. Í bréfinu segir um teikningu þá eða uppdrátt að lóð sem lýst hefur verið hér að framan: “Ef svo ólíklega vill til að skjal þetta hefði einhverja þýðingu þá ber skjalið ekki með sér að umræddur lóðarskiki sé eign umbjóðanda yðar, heldur miklu fremur að lóðin sé leigulóð.”

Með bréfi dagsettu 14. maí 1998 óskuðu stefndu Hákon og Birna viðbragða stefnanda við bréfi lögmanns stefndu Sigríðar. Lögmenn stefnanda svöruðu með bréfi dagsettu 13. júlí 1998 og áréttuðu fyrri sjónarmið.

Lögmaður stefndu Halldórs, Flosa og Ólafs ritaði stefnanda bréf þann 22. desember 1998. Þar er kröfum stefnanda á hendur stefndu mótmælt, sérstaklega tekið fram, að Breiðabólsstaður hafi ekki verið gerður að óðalsjörð, en sagt að þessir stefndu leiddu hjá sér eignarrétt að húsinu sjálfu. Var tekið fram, að þeir teldu húsið ekki hluta þess sem þeir keyptu.

Í lýsingu málsatvika hér að framan hefur m.a. verið höfð hliðsjón af greinargerð stefndu Halldórs, Flosa og Ólafs.

Í stefnu segir í kafla um málsatvik, að árið 1964 hafi Jón Ingólfsson gefið stefnanda “gamalt steinsteypt íbúðarhús ásamt áfastri um 100 ára gamalli timburbaðstofu og geymsluskúr ásamt því sem hann kallaði “bletti” í kringum húsið. Þá var stærð lóðarinnar ótilgreind. Húseignir þessar höfðu þá staðið ónotaðar og óupphitaðar í 7 ár og voru að falli komnar. Stefnandi lagði í mikinn kostnað við að lagfæra mannvirkin, m.a. voru undirstöður gömlu baðstofunnar treystar, nýtt járnþak klætt yfir gömlu súðina, skipt var um þak á steinhúsinu og veggir klæddir að utan sem innan, gluggar endurnýjaðir og innréttingar.”

Þá segir í stefnu að umrædd húseign hafi verið sérmetin af fasteignamatsnefnd að beiðni Jóns Ingólfssonar. Þó að stefnandi væri eigandi sumarhússins og lóðar þá hafi eignin verið skráð á nafn Jóns Ingólfssonar. Ástæðan hafi verið sú að stefnandi hafi átt í fjárhagslegum erfiðleikum á þessum tíma. “Af þeim sökum skýrist það að í skattframtali Jóns Ingólfssonar fyrir árið 1981 taldi Jón fram sem sína eign sumarbústað og lóð.”

Síðar segir í stefnu að “stefnandi tekur fram að upphaflega hafi stærð lóðar verið ótilgreind en hafi síðar verið ákvörðuð við úttekt fasteignamatsnefndar 1970 og á  því byggt síðar, sbr. skattframtal Jóns fyrir árið 1981. Samkomulag systkinanna frá 1976 fól í sér að stefnandi notaði einungis 1.536 m2 af lóðinni og aldrei kom annað til greina en að lóðin öll væri hennar eign.”

Enn segir í málsatvikalýsingu stefnu að Gunnar Jónsson hafi hafið endurbyggingu á hitaveitu jarðarinnar árið 1989. Stefnandi hafi tekið þátt í þeirri endurbyggingu og rekstri hennar og hafi greitt 1/3 af kostnaði sem til féll. Vegna “vensla” [svo] þeirra hafi hins vegar ekki verið gengið frá skriflegum samningi um þetta efni, en stefnandi hafi nýtt veituna án athugasemda og endurgjaldslaust frá upphafi.

Stefnandi segir að að 1992 hafi hún girt “lóð sína” í samræmi við fyrrgreinda teikningu Gunnars Jónssonar, en teikningin hafi verið forsenda girðingar lóðarinnar. Syni stefndu, Sigríðar, hafi verið afhent ljósrit af lóðarmarkalýsingu áður en hafist hafi verið handa við girðingarframkvæmdir. Hvorki hann né stefnda Sigríður hafi gert athugasemdir við umrædda teikningu eða girðingu lóðarinnar.

Í greinargerð stefndu Sigríðar J. Valdimarsdóttur er lýst málsatvikum. Þar segir m.a. að talið sé að stefnandi og eiginmaður hennar hafi hafist handa við endurbætur á “gamla íbúðarhúsinu” árið 1968.  Stefnda hafi ekki verið viðstödd þegar Jón Ingólfsson “á að hafa gefið” stefnanda “gamla íbúðarhúsið”.  Henni hafi hins vegar skilist á eiginmanni sínum að stefnanda væri ætlað “gamla íbúðarhúsið”, en engin lóðarréttindi hafi fylgt því.   Gunnar Jónsson muni hafa verið andsnúinn því að marka nokkra lóð umhverfis “gamla íbúðarhúsið”, sem standi mjög nálægt útihúsum jarðarinnar.

Jón Ingólfsson, segir í greinargerð stefndu Sigríðar, seldi syni sínum Gunnari  jörðina Breiðabólsstað  með öllum gögnum og gæðum.  Ekkert hafi verið undanskilið í sölunni nema “gamla íbúðarhúsið” og erfðafesturéttindi Guðmundar og Jónasar Kjerulf (neðan þjóðvegar), sem Gunnar hafi leyst til sín síðar.  Ekkert annað hafi verið undanskilið, s.s. landsréttindi, hitaréttindi eða veiðiréttindi.

Gunnar Jónsson og stefnda hafi hætt búskap á Breiðabólsstað árið 1980, en flust af jörðinni árið 1984.  Brynjólfur, sonur stefndu, sem hafi búið í Breiðagerði, sem er á jörðinni neðan þjóðvegar, frá árinu 1980 [upphaflega svo í greinargerð, en í samræmi við vætti Brynjólfs Einarssonar var ártalið leiðrétt í 1973], hafi árið 1984 flust í “nýja íbúðarhúsið” og búið þar allt til ársins 1996, þegar stefnda seldi jörðina, þann hluta sem er fyrir ofan þjóðveg.  Hafi Brynjólfur aðallega stundað búskap með hross, auk þess að vera með þjónustu fyrir ferðamenn.

Guðmundur Kjerulf, segir í greinargerðinni, hafði forgöngu um að farið var að nýta heitt vatn á jörðinni, með því að gera borholu neðan þjóðvegar.  Á árinu 1981 eða 1982 hafi Gunnar Jónsson lagt heitavatnslögn úr plasti í “nýja íbúðarhúsið” frá borholunni [neðan þjóðvegar], og þá fyrst hafi húsið verið hitað upp með heitu vatni.  Heitavatnsafrennsli frá “nýja íbúðarhúsinu” hafi verið notað til að hita upp útihús á jörðinni.  Eiginmaður stefnanda, Guðni Þórðarson, hafi fljótlega falast eftir því að fá að hita “gamla íbúðarhúsið” upp með heitu vatni.  Hafi þá verið lögð leiðsla frá “nýja íbúðarhúsinu” í það gamla og afrennsli beint þaðan til upphitunar á útihúsum.  Frá borholu í “nýja íbúðarhúsið” séu um 900 metrar.  Vegna hæðarmunar þurfi dælu til að koma vatninu  þangað og af því hafi hlotist nokkur rafmagnskostnaður.  Ekki sé vitað til þess að Gunnar hafi krafið systur sína um að taka þátt í þeim kostnaði.  Eftir að Brynjólfur flutti í “nýja íbúðarhúsið” árið 1984, muni hann hafa greitt kostnað við dælingu vatnsins.  Hann hafi rætt það við Gunnar Jónsson hvort ekki væri eðlilegt að stefnandi og eiginmaður hennar tækju þátt í þessum rafmagnskostnaði vegna öflunar heits vatns.  Gunnari hafi ekki fundist það óeðlilegt að þau greiddu 1/3 af rafmagnsreikningum vegna dælingar á vatninu. Brynjólfur muni hafa rukkað þetta og fengið greitt nokkrum sinnum með eftirgangsmunum, en gefist síðan upp á því að fá stefnanda og eiginmann hennar til að greiða hlut í rafmagnskostnaðinum.  Stefnandi hafi aldrei tekið þátt í kostnaði við lagningu leiðslna frá borholu í “nýja íbúðarhúsið”.  Þá muni Gunnar Jónsson hafa greitt fasteignagjöld og tryggingar af “gamla bænum”, líklegast til dánardags árið 1990.

Á árinu 1989 hafi verið endurnýjaðir fyrstu 300 metrar heitavatnsleiðslunnar með varanlegu efni, járnrör með einangrun, þar sem plaströrin hafi illa þolað hita vatnsins og þrýsting næst borholunni.  Kostnað af þessu hafi Gunnar Jónsson borið.

Stefnda Sigríður mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, að hún hafi greitt 1/3 af kostnaði við hitaveitulagnir, og tilkalli hennar til eignarréttar að vatnslögninni að þeim hluta.  Stefnda segir það rangt að stefnandi hafi ekki verið krafinn um greiðslu fyrir notkun á heitu vatni.  Stefnandi hafi greitt syni stefndu, Brynjólfi Einarssyni, fyrir slík afnot.

Í greinargerð stefndu Sigríðar segir að haustið 1992 hafi stefnandi skyndilega tekið upp á því að girða umhverfis “gamla íbúðarhúsið”.  Áður hafi synir hennar, Jón og Ingólfur Guðnasynir, rætt um það við Brynjólf Einarsson að gera þyrfti samning um lóðarréttindi fyrir “gamla íbúðarhúsið”, en hann hafi tekið því fálega.  Orðrétt segir í greinargerðinni: “Þegar Brynjólf bar að þegar girðingarframkvæmdir stóðu yfir mun Jón sonur stefndu hafa sýnt honum blaðsnepil, sem er á dskj. nr. 5, og sagt móður sína, stefnanda, hafa fundið þetta bréf í drasli hjá sér.  Brynjólfur kveðst hafa lagt lítinn trúnað á þetta skjal og hafi hann andmælt því að reist yrði girðing.”

Þá segir í greinargerð stefndu að þeim sem keyptu jörðina af henni, þ.e. stefndu Hákoni og Birnu og Jónasi Árnasyni hafi verið ljóst að í sölunni fylgdi ekki “gamla íbúðarhúsið”.  Stefnda hafi t.d. gert kaupendunum gagntilboð, dags. 25. janúar 1996 (lagt fram í málinu), þar sem m.a. sé að finna þennan fyrirvara, eða takmörkun á hinu selda:

“Tilboðsgjöfum er kunnugt um sumarhús sem stendur á jörðinni.  Lóðarsamningur hefur aldrei verið útbúinn vegna þessa sumarhúss, en sjálfsagt þurfa nýjir eigendur að útbúa einhvern leigusamning.  Eigandi sumarhússins er Sigrún Jónsdóttir og lét hún mig hafa ónákvæman uppdrátt af leigulóð sem fylgir hér með.  Þessi uppdráttur er að sögn Sigrúnar undirskrifaður af Gunnari Jónssyni, sem ég efa stórlega og einnig er hann óvottaður, enda vildi Gunnar aldrei ganga frá samningi við þau að mér vitandi”.

Í kaupsamningnum og endanlegu samþykktu kauptilboði, dags. 29. janúar 1996 (liggur frammi) sé sérstaklega vísað til þess að kaupendum sé kunnugt um sumarhús sem stendur á jörðinni, og sé þar verið að vísa til þess sem stefnda upplýsti kaupendur um fyrir gerð kaupsamningsins og endanlegs kauptilboðs, sem samþykkt var af báðum aðilum. 

Stefnda kveðst minnast þess að þegar hún var að rýma “nýja íbúðarhúsið” vegna afhendingar á því til nýrra eigenda, en afhendingardagur var þann 1. mars 1996, hafi Guðni Þórðarson, eiginmaður stefnanda komið að máli við sig og spurt sig hverjir væru kaupendur.  Hann hafi jafnframt minnst á það að ekki hefði verið gengið frá dánarbúi Jóns Ingólfssonar, sem væri þinglesinn eigandi “gamla íbúðarhússins”. Af þeim sökum komi stefndu mjög á óvart sú fullyrðing stefnanda í stefnu, að í kjölfar lóðarleigusamnings, sem Hákon Bjarnason o.fl. sendu henni, sem á að hafa borist júní 1997, hafi henni fyrst verið ljóst að stefnda hefði selt jörðina.

Stefnda telur að stefnanda og maka hans hafi verið fullkunnugt um að jörðin hafði verið um langt skeið á sölu hjá Magnúsi Leópoldssyni, fasteignasala, sem hafi auglýst jörðina nokkrum sinnum til sölu í dagblaði. 

Þess er getið í greinargerð stefndu Sigríðar að hún vefengir ekki tilkall stefndu til eignarréttar á “gamla íbúðarhúsinu”.

Stefndu Hákon Bjarnason og Birna og önnur börn Jónasar Árnasonar vísa um málavexti  alfarið til málavaxtalýsinga í greinargerðum meðstefndu, svo og þeirra dómskjala sem lögð verða fram af þeirra hálfu.  Að sínu leyti vísa þessi stefndu jafnframt til þeirra dómskjala sem stefnandi hefur lagt fram og óumdeild eru.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Um a-lið og b-lið kröfugerðar:

Stefnandi byggir á því að jörðin Breiðabólsstaður sé óðalsjörð og því hafi borið að fylgja ákvæðum jarðalaga nr. 65/1976 um óðalsjarðir fyrir sölu hennar.  Það komi skýrt fram í afsali Jóns Ingólfssonar til Gunnars Jónssonar, dags. 13. janúar 1971, að jörðin sé óðalsjörð  Stefnandi byggir á því að í umræddu afsali felist yfirlýsing um að jörðin sé ættaróðal og með undirritun sinni á afsalið hafi Gunnar undirgengist og samþykkt að lúta þeim reglum sem um ættaróðul gilda.  Þar með hafi jörðin Breiðabólsstaður verið bundin þeim kvöðum og sérákvæðum laga sem um slíkar jarðir giltu og gilda enn óbreytt að meginstefnu til.

Stefnandi tekur fram að sérstakar skrár yfir óðalsjarðir hafa ekki verið haldnar hjá Sýslumanninum í Borgarnesi eða Bændasamtökum Íslands (áður Búnaðarfélagi Íslands) og því geti það ekki bitnað á óðalsbónda eða óðalsréttarhöfum enda þótt stjórnvöld hafi ekki fullnægt lagaskyldu sinni í því efni.  Þá tekur stefnandi fram að kaupverð jarðarinnar sé tiltekið í greindu afsali sem fasteignamatsverð jarðarinnar og staðfesti það framangreinda afstöðu stefnanda þar sem kaupverð ættaróðals hafi ekki mátt fara fram úr fasteignamatsverði, sbr. 17. gr. laga nr. 102/1962.  Sýslumaður hafi tekið við umræddu afsali og því verið þinglýst á jörðina athugasemdalaust.  Hefði sýslumaður talið að frekari aðgerða hefði þurft til að lögum til þess að ákvæði jarðalaga um óðalsjarðir gætu tekið til jarðarinnar hefði honum borið að leiðbeina aðilum um það í samræmi við leiðbeiningarskyldu sína.  Það hafi hann ekki gert og  því talið áðurgreinda yfirlýsingu fullnægjandi og að uppfyllt væru skilyrði jarðalaga um ættaróðul.  Verður því að miða við að skilyrðum laganna um stofnun ættaróðals hafi verið fullnægt, ella hefði afsalinu, þar sem yfirlýsingin kom fram, ekki verið þinglýst.

Stefnandi heldur því fram að með undirritun sinni á afsalið 13. janúar 1971 hafi Gunnar Jónsson skuldbundið sig til að nýta jörðina og fara með hana í samræmi við þær lagareglur sem um ættaróðul gilda á hverjum tíma.  Óðalsrétturinn byggist á því að óðalið erfist eftir sérstökum reglum sem fram koma í 63. - 66. gr. jarðalaga nr. 65/1976 með síðari breytingum.  Stefndu, Sigríði, hafi því borið að leita til systkina Gunnars Jónssonar, áður en hún ráðstafaði jörðinni, og bjóða þeim hana með þeim skilmálum sem mælt er fyrir um í lögunum, sbr. 51. gr.  Þar sem þessum reglum hafi ekki verið fylgt við sölu jarðarinnar telur stefnandi af þeim sökum skilyrði til þess að ógilda sölu jarðarinnar. 

Verði umrædd ráðstöfun jarðarinnar talin andstæð lögum, telur stefnandi að   hið sama gildi um síðari sölu jarðarinnar til stefndu Halldórs, Flosa og Ólafs.  Eiga þar við sömu sjónarmið og áður eru rakin.

Um c-lið kröfugerðar:

Stefnandi byggir kröfu sína um eignarrétt sinn á því að árið 1964 hafi faðir stefnanda, Jón Ingólfsson, gefið henni gamla íbúðarhúsið á jörðinni og lóð umhverfis það.  Ekki hafi verið gengið frá skriflegum gerningi vegna gjafarinnar enda jörðin í eigu gefandans.  Börn Jóns Ingólfssonar, Unnur og Gunnar, hafi verið þessari ráðstöfun samþykk, enda hafi húsið ekki verið talið mikils virði þá, og lóðin, sem fylgdi, einungis lítill hluti af stórri landareign. 

Stefnandi byggir á því að Jón Ingólfsson hafi ætíð ætlað stefnanda beinan eignarrétt bæði að gamla íbúðarhúsinu og lóðarréttindum, rétt til að nýta heitt og kalt vatn, og eðlilegan umferðarrétt að eigninni.  Því til stuðnings bendir stefnandi á, að árið 1970 hafi verið sérmetið af fasteignamatsnefnd bæði gamla íbúðarhúsið og lóð umhverfis það.  Í c-lið matsins sé tekið fram að eigandi sé Sigrún Jónsdóttir, Reykjavík, og vísað nánar um eigendur og eignaskiptingu til bls. 2.  Þar komi fram að virðingarverð lóðar sé kr. 7.000 og virðingarverð sumarbústaðar kr. 110.000, samtals virðingarverð því  kr. 117.000.  Þá hafi í afsalinu frá 1971 verið undanskilið gamla íbúðarhúsið, og hafi síðar verið gerð teikning þar sem afmarkað hafi verið hvernig nýta skyldi lóðina.  Þrátt fyrir að ekki hafi verið kveðið á um lóðarréttindi í fyrrgreindu afsali telur stefnandi ljóst að þau hafi fylgt fasteigninni og staðfesti virðing fasteignamatsnefndar og teikning Gunnars Jónssonar frá 9. maí 1976 það.  Ennfremur hafi Jón Ingólfsson talið fram til eignar á skattframtali sínu fyrir árið 1981 bæði gamla íbúðarhúsið og lóð.  Undir framtalið hafi Gunnar Jónsson ritað fyrir hönd föður síns. 

Við uppgjör á dánarbúi Jóns Ingólfssonar hafi því verið lýst yfir af hálfu erfingja að það væri eignalaust, og að mati stefnanda staðfesti það afstöðu allra aðila og vitneskju.  Ennfremur bendir stefnandi á að hvorki hafi verið krafist leigusamnings né lóðarleigu í meira en þrjátíu ár eða síðan 1964 og engar athugasemdir verið gerðar við nýtingu stefnanda á húsinu og lóð umhverfis það.  Öll síðari samskipti aðila staðfesti því fyrrgreindan gjafagerning Jóns Ingólfssonar.

Í þessu sambandi bendir stefnandi á, að það hafi löglíkur með sér að lóðarréttindi fylgi húsi stefnanda því að öðrum kosti væri ekki um fasteign að ræða í skilningi eignaréttar.  Hugtakið fasteign hafi verið skilgreint sem afmarkaðir hlutar af yfirborði jarðar ásamt þeim verðmætum, lífrænum og ólífrænum, sem varanlega er við landið skeytt.  Varanleg viðskeyting feli ekki aðeins í sér hvernig verðmætin eru fest við landið, heldur taki einnig til þeirra heimilda sem tengja verðmætin við landið.  Fræðilega séð sé því ekki um fasteign að ræða ef hús hefur ekki varanleg lóðarréttindi.  Mannvirki án varanlegra lóðarréttinda sé ekki fasteign heldur lausafé.  Því sé eðlilegt að líta svo á að lóðarréttindi fylgi eign stefnanda því ella hafi það ekki varanlegan tilvistarrétt.  Jón Ingólfsson hafi ætlað stefnanda lóð undir húsið, og hún hafi tekið til við að lagfæra eignina og gera upp.  Stefnandi og systkini hennar hafi ætíð staðið í þeirri trú að varanleg lóðarréttindi fylgdu húsinu, sbr. teikningu Gunnars Jónssonar, skattframtal Jóns Ingólfssonar og uppgjör á dánarbúi hans.  Hefðu lóðarréttindi ekki fylgt húsinu, þá hefði það einfaldlega verið rifið og flutt af jörðinni.

Þegar stefnda Sigríður Valdimarsdóttir erfði mann sinn, Gunnar Jónsson, hafi hún eignast jörðina með þeim kvöðum sem henni fylgdu.  Í kaupsamningi og afsali jarðarinnar til stefndu Hákons Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar og í kaupsamningi meðstefndu, Halldórs Bjarnasonar, Flosa Ólafssonar og Ólafs Flosasonar, hafi hins vegar ekki verið undanskilin við sölu jarðarinnar lóð um fasteign stefnanda, heldur tekið fram að kaupendur skyldu taka að sér lausn ágreiningsmáls um lóðarréttindi hússins.  Þar sem hvorki stefnda Sigríður né stefndu Hákon, Birna, og dánarbú Jónasar hafi haft heimild til þessarar ráðstöfunar hafi gerningar þessir ekki haft í för með sér yfirfærslu á eignarheimild stefnanda á lóðinni.  Sé það í samræmi við þá grundvallarreglu í eignarrétti, að sá sem afsalar fasteign, geti ekki veitt viðtakanda sínum víðtækari rétt en hann sjálfur átti. 

Stefnandi bendir á að hjá Fasteignamati ríkisins sé gamla íbúðarhúsið skráð sem sumarbústaður og landstærð tiltekin.  Grundvöllur þessarar skráningar sé mat fasteignamatsnefndar frá árinu 1970.  Í kaupsamningum um jörðina sé vísað til þess að stefndu sé kunnugt um sumarhús, sem stendur á jörðinni.  Að mati stefnanda hefði það að öllu jöfnu gefið tilefni til að spyrjast nánar fyrir um þessa fasteign og hvernig eignarhaldi á henni væri háttað.  Þá tekur stefnandi fram, að samkvæmt þágildandi 3. tl. 10. gr. laga nr. 34/1986 um fasteigna- og skipasölu, sbr. nú lög nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, hafi fasteignasala borið að afla upplýsinga um matsverð eignar samkvæmt fasteigna- og brunabótamati, svo og önnur matsgögn ef til voru.

Stefnandi kveðst jafnframt byggja kröfur sínar um eignarrétt á gamla íbúðarhúsinu og lóð umhverfis það á því að hefð sé fullnuð í merkingu hefðarlaga nr. 46/1905.  Stefnandi hefur litið á umrædda fasteign sem sína eign og farið með hana sem sína í rúm þrjátíu ár eða frá árinu 1964.  Enginn hafi dregið eignarrétt hennar í efa allan þennan tíma.  Skilyrði hefðarlaga um óslitið eignarhald séu því uppfyllt. Því til stuðnings er ótvíræð huglæg afstaða hefðanda og almennt álit nágranna hennar.  Stefnandi hafi því orðið eigandi að gamla húsinu og lóð umhverfis það fyrir hefð, ef ósannað yrði talið, að faðir hennar hefði afsalað henni því.

Kröfu sína um að húsinu fylgi 6.544 m2 eignarlóð byggir stefnandi á úttekt fasteignamatsnefndar árið 1970, sem gerð hafi verið að beiðni og með vitund Jóns Ingólfssonar.  Þar hafi lóðin, sem hluti af ræktuðu landi, verið metin á kr. 7.000, en allt ræktað land jarðarinnar, alls 20,1 hektari, á kr. 215.000.  Samkvæmt því hafi Jón Ingólfsson ákveðið að lóðin væri 6.544 m2.  Verði ekki fallist á þessa kröfu stefnanda er þess krafist að stærð lóðar verði ákveðin 1.536 m2 í samræmi við teikningu Gunnars Jónssonar frá 1976.

Krafa um eðlilegan umferðarrétt að gamla íbúðarhúsinu og lóð, segir í stefnu, að sé í samræmi við þá megin­reglu í ís­lenskum rétti að menn verði að hafa að­gang að fasteignum sínum til allra venju­legra nota eða a.m.k. þeirra nota sem við­komandi eignir séu ætlaðar fyrir, og verði eignarréttur stefnanda viðurkenndur fylgir óhjákvæmilega umferðarréttur að greindri fasteign og þá eftir þeirri leið sem farin hefur verið.  Stefnandi hafi ætíð farið um malarveg, sem liggi frá þjóðvegi að gamla íbúðarhúsinu og öðrum útihúsum.

Um d-lið kröfugerðar:

Eignarrétt sinn að hitaveitulögn jarðarinnar byggir stefnandi á því að hún hafi greitt þriðjung af kostnaði við endurnýjun hitaveitulagnar árið 1989.  Hins vegar hafi hún ekki tekið við kvittun frá bróður sínum fyrir greiðslunni, enda slíkt ekki venja þeirra systkina.  Gunnar hafi síðan annast greiðslur vegna verksins eins og fylgiskjöl beri með sér.  Stefnandi tekur jafnframt fram að hún hafi nýtt veituna án athugasemda og ekki verið krafin um greiðslu fyrir notkun heitavatnsins öll þessi ár.

Um e-lið kröfugerðar:

Um viðurkenningu á rétti stefnanda til að nýta heitt og kalt vatn jarðarinnar til þeirra nota, sem fylgja eignarráðum hennar, vísar stefnandi til þess, að hún hafi frá árinu 1964 nýtt vatn á jörðinni Breiðabólsstað, og hafi vatnstakan verið með leyfi föður hennar, þáverandi eiganda jarðarinnar.  Engar athugasemdir hafi  heldur verið gerðar við umrædda nýtingu af hálfu bróður hennar, Gunnars Jónssonar, eða síðari eigenda.

Sökum þess hversu langan tíma stefnandi hafi nýtt heitt og kalt vatn jarðarinnar með þessum hætti lítur stefnandi svo á að hún hafi þar með öðlast rétt til að nýta þessi réttindi framvegis með þeim hætti sem verið hefur.  Vísar stefnandi hér til 1. og 2. gr. laga nr. 14/1905 um hefð.  Stefnandi tekur jafnframt fram að eigendur jarðarinnar hafa aldrei amast við umræddri nýtingu.  Ennfremur skal tekið skýrt fram að nýting stefnanda raskar ekki með nokkrum hætti nýtingu núverandi landeigenda eða skerðir hagsmuni þeirra á neinn hátt.

Um lagarök segir sérstaklega í stefnu að stefnandi byggi á VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976 með síðari breytingum, sbr. eldri jarðalög nr. 102/1962.  Ennfremur sé byggt á almennum reglum samninga- og eignaréttar.  Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð og 3. tl. 10. gr. laga nr. 34/1986 um fasteigna- og skipasölu, sbr. nú lög nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu.  Um málskostnaðarkröfu vísast til  XXI. kafla einkamálalaga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu Halldórs, Flosa og Ólafs.

Um b-lið í kröfugerð stefnanda:

Í greinargerð stefndu Halldórs o.fl. segir að fullyrðing stefnanda um að jörðin Breiðabólsstaður sé óðalsjörð, sýnist byggð eingöngu á setningu í kaupsamningnum frá 13. janúar 1971, það er “Jörðin er óðalsjörð”. Í VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976 sé nú fjallað um óðalsjarðir. Í 49. gr. laganna sé fjallað um það, hvernig jörð verði gerð að óðalsjörð, það er með yfirlýsingu til sýslumanns. Þegar kaupsamningurinn og afsalið frá 13. janúar 1971 var gert, voru í gildi lög nr. 102/1962 um ættaróðöl og fleira. Ef ætlunin hafi verið að gera Breiðabólsstað að ættaróðali hafi borið að fara eftir 3. gr. þeirra laga, en 1. og 2. mgr. hennar hafi verið nákvæmlega samsvarandi 49. gr. núgildandi jarðalaga.

Vera megi að hugur Jóns heitins Ingólfssonar hafi staðið til þess að gera jörðina að ættaróðali, en um það verður ekki fullyrt nú. Hitt sé ljóst að til aðgerða, sem þörf hafi verið á, hafi hann ekki gripið. Lagarök stefnanda um, að þinglýsing sýslumanns á umræddu afsali frá 1971, jafngildi samþykki sýslumanns við þeim gerningi sem yfirlýsingu um að jörðin hafi verið gerð að óðalsjörð, standist ekki. Samkvæmt 1. gr. þágildandi laga um ættaróðöl, nr. 102/1962, hafi jörð ekki orðið gerð að ættaróðali nema uppfyllt væru skilyrði í stafliðum a-d í greininni, það er samkvæmt a-lið, að jörðin væri nægilega stór og gæðarík til þess að framfleyta meðalfjölskyldu að dómi Búnaðarfélags Íslands; b-liður kveði á um, að jörðin skuli ekki vera stærri en svo að hún hafi verið fullnytjuð af einum ábúanda að dómi Búnaðarfélags Íslands, og samkvæmt c-lið skyldi liggja fyrir samþykki barna jarðeiganda 16 ára og eldri. Samkvæmt 3. gr. laganna hafi hvílt beinar aðgerðaskyldur á þeim sem hugðist gera jörð að ættaróðali, þar á meðal að afhenda sýslumanni skilríki fyrir því, að skilyrði 1. gr. væru uppfyllt. Væri þeim aðgerðaskyldum ekki sinnt, hefði jörð ekki orðið að óðalsjörð. Breiðabólsstaður sé því ekki óðalsjörð í lagaskilningi.

Hafi þáverandi sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu vanrækt skyldur sínar, eða Búnaðarfélag Íslands, verði jörðin ekki að óðali fyrir það, heldur hafi hugsanlega getað stofnast réttur stefnanda og systur hennar á hendur íslenska ríkinu, eða Búnaðarfélagi Íslands.

Þar sem Breiðabólsstaður hafi ekki verið óðalsjörð og stefnda Sigríður J. Valdimarsdóttir verið eini erfingi Gunnars Jónssonar, hafi henni verið frjáls ráðstöfun jarðarinnar, að gættum ákvæðum jarðalaga nr. 65/1976. Af dómskjölum sjáist, að jarðanefnd Borgarfjarðar[sýslu] og hreppsnefnd Borgarfjarðar[sveitar] hafi ákveðið að  að samþykkja söluna/neyta ekki forkaupsréttar. Verði í því ljósi að telja, að salan til Hákonar Bjarnasonar og Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar hafi jafnframt verið samþykkt án athugasemda, en gögn um það hafa ekki verið lögð fram. Því hafi engar skorður verið við ráðstöfun jarðarinnar, hvorki til þeirra Hákonar né stefndu Halldórs o.fl.  Sé  þá engin lagastoð fyrir ógildingarkröfum stefnanda og beri að hafna þeim.

Um c-lið í kröfugerð stefnanda:

Í greinargerð stefndu Halldórs o.fl. segir að eignarréttarkrafa stefnanda sé ekki studd neinum skjallegum gögnum, að undanskildu fasteignamati frá 1970. Stefnandi telji að faðir hennar hafi gefið henni húsið ásamt með ótiltekinni lóð umhverfis það þegar á árinu 1964.  Ljóst sé að stefnandi og hennar fólk hafi nýtt húsið sjálft um alllangt skeið. Í ljósi þess að Gunnar Jónsson hafi verið eigandi allrar jarðarinnar, að undanskildu gamla íbúðarhúsinu, frá afsali 1971 og að Jón Ingólfsson hafi talið sér til eignar sumarhús á jörðinni ásamt landi á skattframtali 1981 og að á vottorði Fasteignamats ríkisins sé dánarbúi Jóns Ingólfssonar talin eign sumarbústaðar á árinu 1997, verður að telja að afnot stefnanda af húsinu hafi byggst á leigusamningsígildi hennar við föður sinn upphaflega, en síðar við dánarbú hans. Slík afnot geta ekki heimilað hefð, sbr. 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905, jafnvel þótt stefnanda tækist að sanna umráð í hefðartíma fullan, það er 20 ár. Leigusamningsígildi þetta sé uppsegjanlegt hvenær sem er með eins árs fyrirvara, sbr. 2. tl. 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

Stefndu Halldór, Flosi og Ólafur  leiða hjá sér deilu um eignarrétt að gamla íbúðarhúsinu. Það hús hafi verið, segja þeir,  undanskilið í afsali Jóns Ingólfssonar á jörðinni til Gunnars sonar hans, þessir stefndu, eins og stefndu Sigríður og þau Hákon, leiði rétt sinn frá því afsali. Þar sem þeir stefndu Halldór o.fl. telji ekki til eignarréttar að húsinu sé kröfunni ranglega beint að þeim og ber að sýkna þá af kröfuliðnum á grundvelli aðildarskorts samkvæmt 2. mgr. 16. gr. nr. laga 91/1991.

Krafa stefnanda um 6.544 m2 lóð umhverfis gamla íbúðarhúsið, segir í greinargerð stefndu, er fyrst höfð uppi í stefnu og sé samkvæmt því, sem þar greinir, reist á einföldum framreikningi frá fasteignamatinu frá 1970. Jafnvel þótt styðjast mætti við þann framreikning, sé ljóst að á þeim tíma hafi Jón Ingólfsson verið eigandi allrar jarðarinnar samkvæmt skjallegum gögnum, þar með talið gamla íbúðarhúsið. Þess vegna verði engin sérstök merking lögð í það, hvernig hann kunni að hafa ákveðið land umhverfis gamla íbúðarhúsið, hafi fasteignamatið 1970 yfirleitt verið gert í samráði við hann, sem sé ósannað í málinu. Af því sem síðar greinir sé ljóst, og viðurkennt af stefnanda, að hún hafi aldrei orðað kröfu um 6.544 fermetra lóð við Gunnar bróður sinn, né heldur helgað sér það land á nokkurn hátt. Eins og fyrr segir, beri stefnandi sönnunarbyrði um að hún hafi eignast þetta land fyrir hefð, en fráleitt sé að hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga um 20 ára óslitið eignarhald á þessu landi. Séu borin saman hnitauppdráttur og ljósmynd af Breiðabólstað, sem fram hafi verið lögð sem dskj., sé ljóst að eignarréttarkrafa stefnanda nái verulega inn á túnið á Breiðabólstað.  Hafi stefnandi ekki sýnt fram á, hvernig óslitið eignarhald hennar gat farið saman við not túnsins til slægna eða beitar. Stefndu Halldór, Flosi og Ólafur mótmæla því, að fallist verði á þessa kröfu.

Um kröfu stefnanda um 1.536 fermetra lóð segir í greinargerð stefndu, að hún sé  reist á uppdrættinum eða teikningunni, sem stefnandi segir að sýni lóðarmörk sem samkomulag hafi orðið um milli hennar og Gunnars bróður hennar. Um tilurð þess skjals sé allt ósannað, að Gunnar Jónsson hafi gert teikninguna, að með henni hafi verið afmarkað eignarland, að hann hafi skrifað undir hana. “Skjalið” sé ekki vottað, og verði því ekki nú gengið úr skugga um hvort Gunnar Jónsson hafi yfirleitt gert það eða undirritað, nema ef það væri fært með rithandarrannsókn. “Skjalið” beri heldur ekki með sér annað, væri fullur trúnaður lagður á það, en að með því séu lóðamörk gamla íbúðarhússins ákveðin. Í því segi ekkert um eignarhald lóðar, og sé þá, eins og með gamla íbúðarhúsið, eðlilegast að líta svo á að lóðamörkin tilheyri leigulóð, sem ekki getur orðið eign fyrir hefð og sé uppsegjanleg með eins árs fyrirvara. Einkar athyglisvert sé, að stefnandi hafi ekki hafist handa við að girða af lóð, sem hún taldi sína, fyrr en eftir andlát bróður síns, sem hún nú telji sig leiða rétt sinn frá. Þetta sé viðurkennt í stefnu, og á fram lagðri ljósmynd sjáist að á árinu 1984 sé þessi lóð ekki í umráðum stefnanda. Því fari fjarri, að stefnandi hafi sýnt fram á eignarhald sitt að þessu landi fyrir hefð. Stefndu Halldór, Flosi og Ólafur mótmæla því að dómskjal 5 hafi nokkra þýðingu í málinu og að dómur verði á því byggður. Athyglisvert sé að stefnandi reisi eignarrétt sinn á þessu skjali, sem hún kveðist aðili að, en skjalið gangi í berhögg við kröfu hennar um 6.544 fermetra lóð

Þá segir enn í greinargerð stefndu Halldórs o.fl., að þar sem þeir mótmæla því, að nokkur réttur til fasteignar hafi skapast stefnanda til handa, verði að líta svo á að gamla íbúðarhúsið, hvort sem það yrði talin eign stefnanda eða ekki, sé lóðarlaust og því lausafé í lagaskilningi. Umferðarrétt um land annarra eigi menn ekki að lausafé, enda virðist stefnandi líta svo á að grundvöllur umferðarréttar hennar sé eignarhald á fasteign. Hvað sem því líður verði að líta á umferðarrétt sem ósýnilegt ítak, og geti hefð á því ekki unnist nema með 40 ára notkun, en stefnandi haldi ekki fram lengri notum en 35 ára.

Um d-lið í kröfugerð stefnanda:

Stefndu vísa til fram lagðra reikninga fyrir kostnaði Gunnars Jónssonar við hitaveitulagnir á Breiðabólstað. Þeir segja að stefnandi hafi ekkert fært fram sem styðji eignarréttarkröfu hennar, annað en fullyrðingu sína eina. Þeir mótmæla því að stefnandi eigi 1/3 eða nokkurn annan hluta hitaveitulagnar jarðarinnar og segja að stefnandi hafi sönnunarbyrði sönnunarbyrði um það.

Um e-lið í kröfugerð stefnanda:

Í greinargerð stefndu segir að stefnandi reisi þessa kröfu sína á því, að hún hafi nýtt þetta vatn án athugasemda allt frá 1964 og hafi því eignast þennan nýtingarrétt fyrir hefð. Hér sé þess að gæta, að samkvæmt frásögn stefndu Sigríðar og Brynjólfs Einarssonar, sonar hennar, sem lengi hafi verið heimilisfastur og búandi á Breiðabólsstað, hafi ekki verið leitt heitt vatn í íbúðarhús jarðarinnar fyrr en um það bil á árunum 1981-1982, en heitt vatn í “gamla íbúðarhúsinu” muni hafa runnið frá íbúðarhúsi jarðarinnar. Fari því þá fjarri að stefnandi hafi nýtt heitt vatn á jörðinni í hefðartíma fullan.

Nýting þessi verður að teljast ósýnilegt ítak, nema stefnandi sanni að tilfæringum til þessara nota einna hafi verið komið upp. Teljist þessi not ósýnilegt ítak sé hefðartími 40 ár, og hefð þá ekki fullnuð samkvæmt viðurkenningu stefnanda sjálfrar, en hafi tilfæringum til nytjanna verið komið upp beri stefnandi sönnunarbyrði um, að þær hafi verið komnar meira en 20 árum fyrir þingfestingu málsins. Þetta hafi stefnandi ekki sannað, og mótmæla stefndu Halldór, Flosi og Ólafur þessum kröfulið.

Þá segir í greinargerð stefndu að ekki sé ljóst, á hverju stefnandi byggir kröfu sína um endurgjaldslausa notkun á köldu vatni jarðarinnar. Það vatn hafi hún ekki nýtt. Muni tilhögun hafa verið sú, að heitt vatn hefur runnið frá íbúðarhúsinu að “gamla íbúðarhúsinu”, og þaðan í útihús, en heitt vatn kælt niður og notað sem neysluvatn í “gamla íbúðarhúsinu”.

Málskostnaður. Krafa stefndu um málskostnað er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu Sigríðar J. Valdimarsdóttur.

Um a-lið kröfugerðar stefnanda:

Stefnda Sigríður tekur undir og gerir sínum málsástæður og lagarök, sem koma fram í greinargerð stefndu, Halldórs Bjarnasonar o.fl., sbr. hér að framan, þar sem fjallað er um b-lið í dómkröfum, en þær málsástæður eigi einnig alfarið við um a-lið dómkrafna stefnanda.

Um c-lið kröfugerðar stefnanda:

Í greinargerð stefndu Sigríðar segir  að hún hafi ávallt litið svo á að stefnandi væri eigandi gamla íbúðarhússins, án þess að hafa fyrir því áreiðanlegar skjalfestar heimildir. Stefnda hafi ekki og muni ekki standa í vegi fyrir eignarréttartilkalli stefnanda til gamla íbúðarhússins.  Enginn ágreiningur sé um það milli allra stefndu að stefnda Sigríður undanskildi hús þetta í sölu sinni á hluta Breiðabólsstaðar.    

Varðandi kröfu stefnanda um eignarrétt á lóð umhverfis gamla bæinn kveðst stefnda taka undir og gera að sínum málsástæður og lagarök, sem koma fram í greinargerð stefndu, Halldórs Bjarnasonar,  þar sem fjallað er um tilkall stefnanda til lóðarréttinda.

Stefnda áréttar að stefnandi hafi ekki hafist handa við að helga sér land fyrr en með girðingu sem var reist í leyfisleysi árið 1992.  Því fari fjarri að óslitið eignarhald á hinum girta lóðarparti hafi staðið í fullan hefðartíma, sem sé 20 ár, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905.

Gögn málsins beri með sér að stefndu hafi aldrei verið gefin lóð umhverfis húsið.  Sérstaklega er áréttað að í fasteignamati frá 1970 sé Jón Ingólfsson skráður lóðareigandi, en stefnandi eigandi sumarhúss (gamla íbúðarhússins).  Í afsali Jóns til Gunnars Jónssonar sé gamla íbúðarhúsið undanskilið í sölunni, þannig að Jón hafi afsalað Gunnari jörðinni Breiðabólstað og þar með til eignar land undir gamla íbúðarhúsinu.

Stefnda dregur í efa að uppdráttur varðandi lóðarmörk við gamla íbúðarhúsið á Breiðabólstað sé undirritaður af Gunnari Jónssyni. Hún segir að hann hafi aldrei viljað ganga frá samningi við stefnanda um leigulóðarréttindi.  Ekki sé hægt að dæma um það, án rithandarrannsóknar, hvort sama rithönd sér á nafninu á uppdrættinum og á fram lögðu skattframtali Jóns Ingólfssonar sem Gunnar hafi undirritað.  Þá sé ekkert í uppdrættinum sem styður eignartilkall stefnanda til lóðarinnar.  Fyrir utan ritun nafna Gunnars og stefndu á skjalið virðist nafn eiginmanns stefnanda vera á því.  Stefnda kveður Gunnar Jónsson alltaf hafa kennt sig við Breiðabólsstaði, þ.e. fleirtölumynd staðarnafnsins, en ekki Breiðabólsstað, eins og gert er í skjalinu.  Skjalið sé ekki vottað og texta og uppdrætti mætti hæglega hafa verið bætt inn á blað þar sem nafn Gunnars var eitt áritað áður.  Sönnunargildi þessa skjals sé því ekkert, sbr. og umfjöllun þar um í greinargerð stefndu Halldórs o.fl.

Varðandi kröfu stefnanda um umferðarrétt tekur stefnda undir og gerir sínum málsástæður og lagarök, sem koma fram í greinargerð stefndu, Halldórs Bjarnasonar o.fl.,  þar sem fjallað er um tilkall stefnanda til umferðarréttar.

Um d-lið kröfugerðar stefnanda:

Stefnda tekur undir og gerir sínum málsástæður og lagarök, sem koma fram í greinargerð stefndu, Halldórs Bjarnasonar o.fl., þar sem fjallað er um d-lið í dómkröfum stefnanda. Vísað er til fram lagðra reikninga, gíróseðla og greiðsluseðils, sem beri með sér að Gunnar Jónsson hafi kostað framkvæmdir vegna umræddrar hitaveituvatnslagnar árið 1989, sem hann og gerði þegar hitaveitulögn var fyrst lögð.  Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum sínum um að hafa tekið þátt í greiðslu kostnaðar að 1/3 hluta.  Stefnda telur að stefnandi kunni að vera að rugla saman kröfu um að hún tæki þátt í rafmagnskostnaði vegna dælingar á heitu vatni við kostnaðarþáttöku vegna lagningar heitavatnslagnar.

 

Um e-lið kröfugerðar stefnanda:

Stefnda Sigríður segir að stefnandi hafi ekki nýtt heitt vatn án endurgjalds. Hafi stefnandi og eiginmaður hennar greitt Brynjólfi Einarssyni óbeint fyrir það með því að greiða hluta rafmagnsnotkunar vegna dælingar á heitu vatni, þegar hann bjó á jörðinni.  Að öðru leyti tekur stefnda undir og gerir að sínum málsástæður og lagarök, sem koma fram í greinargerð stefnu, Halldórs Bjarnasonar o.fl., þar sem fjallað er kröfulið e í stefnu.

Um aðild stefndu Sigríðar J. Valdimarsdóttur:

Í greinargerð hennar segir að hún byggi ennfremur á eftirfarandi málsástæðum og lagarökum:

Verði fallist á dómkröfur stefndu um sýknu af kröfum stefnanda skv. kröfuliðum a og  b í stefnu og kröfulið c hvað varðar eignarrétt á gamla íbúðarhúsinu, og eins þótt fallist verði á eignarréttartilkallið, heldur stefnda því fram að hún eigi ekki aðild að málinu vegna annarra krafna stefnanda skv. kröfuliðum c og d  í stefnu, þ.e. um lóðarréttindi umhverfis gamla íbúðarhúsið, kröfu um umferðarrétt, kröfu um eignarrétt á 1/3 hluta heitavatnslagnar, og kröfu vegna kalds vatns í kröfulið e í stefnu, þar sem þær kröfur hljóta að beinast að núverandi eigendum jarðarinnar, og beri því að sýkna stefndu hvað þær kröfur varðar.  Stefnda sé hins vegar eigandi heitavatnsréttinda og borholu neðan þjóðvegar, en þaðan sé leitt heitt vatn til upphitunar í nýja og gamla íbúðarhúsið og útihús á Breiðabólsstað ofan þjóðvegar.  Krafa stefnanda skv. e-lið í stefnu um endurgjaldslaus afnot af heitu vatni eru því stefndu viðkomandi.  Þegar stefnda hafi selt jörð ofan þjóðvegar hafi fylgt endurgjaldslaus afnot fyrir kaupendur á 6 mín./ltr. af heitu vatni til ársins 2011, sbr. kaupsamninga.

Málskostnaðar krefst stefnda úr hendi stefnanda með vísan til 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.  Krafist er greiðslu á virðisaukaskatti á tildæmdan málskostnað með vísan til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefndu Hákonar Bjarnasonar og Birnu og annarra barna Jónasar Árnasonar.

Um a-lið og b-lið í kröfugerð stefnanda:

Um kröfugerð og málatilbúnað stefnanda um vísa stefndu Hákon o.fl. alfarið til greinargerðar meðstefndu  Halldórs og fl.  Taka þau undir og gera að sínum málsástæður þær og lagarök þau sem  þar eru tilgreind, sbr. og greinargerð meðstefndu Sigríðar. 

Um c-lið kröfugerðar stefnanda:

Um kröfulið þennan vísa stefndu Hákon o.fl. með sama hætti og fyrr til málsástæðna þeirra og lagaraka sem tilgreind eru í greinargerðum meðstefndu, sbr. hér að framan. Stefndu taka sérstaklega fram “varðandi meint eignarréttartilkall stefnanda til hins lóðarréttindalausa mannvirkis, sem kallað er gamla íbúðarhúsið í skjölum málsins”, að þau lýsa yfir fullri samstöðu við málsástæður og málflutning meðstefndu Halldórs Bjarnasonar og fl. Þau telji þannig meint eignarhald á mannvirki þessu vera sér algerlega óviðkomandi, og það með þeim hætti að leiði til sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. eml., enda óumdeilt að það fylgdi ekki með í kaupum þeirra á jörðinni. 

Yfirlýsingum þeim, sem af hálfu stefnanda hafa verið lagðar hafa verið fram til styrktar eignarréttartilkalli hennar til húss og lóðar, mótmæla stefndu sem algjörlega þýðingarlausum í ljósi þinglýstra eignarheimilda og annarra opinberra gagna.  Auk þess beri engin þessara yfirlýsinga með sér að neinn vottorðsgefenda hafi í raun verið viðstaddur hinn meinta gjafagerning. Yfirlýsingarnar geti því aldrei skoðast sem neinskonar grundvöllur yfirfærslu eignarréttinda. 

 

 

Um d-lið og e-lið í kröfugerð stefnanda:

Varðandi þessa kröfuliði  skv. stefnu taka stefndu Hákon o.fl. undir og gera alfarið að sínum málatilbúnað þann, málsástæður og lagarök sem færð eru fram vegna þess sama í greinargerðum meðstefndu Halldórs Bjarnasonar o.fl. og meðstefndu Sigríðar Valdimarsdóttur, sbr. hér að framan.

Þá segir í greinargerð stefndu Hákonar o.fl.: “Verði fallist á dómkröfur stefndu um . . . sýknu af kröfum stefnanda skv. kröfuliðum a og  b í stefnu þá er þess krafist að það leiði þá þegar til sýknu þessara stefndu af öðrum dómkröfum stefnanda,  enda hljóta þær kröfur, eðli málsins samkvæmt, að beinast að núverandi eigendum jarðarinnar, en eru umbjóðendum mínum óviðkomandi, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.”

Kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnanda styðja stefndu við XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129 og 130. gr.

Skýrslur fyrir dómi.

Stefnandi og stefnda Sigríður gáfu aðiljaskýrslur. Þessir menn báru vitni: Guðni Þórðarson, eiginmaður stefnanda; Brynjólfur Einarsson, sonur stefndu Sigríðar; Tveir menn sem voru í fasteignamatsnefnd Borgarfjarðarsýslu 1970, Jakob Jónsson á Varmalæk, f. 1916, og Jón Guðmundsson á Hvítárbakka, f. 1928. Í málinu liggja fyrir 8 vottorð eða yfirlýsingar varðandi kröfu stefnanda um eignarrétt á gamla íbúðarhúsinu og lóð með því. Fjórir þessara vottorðsgjafa komu fyrir dóminn sem vitni: Eyjólfur Sigurjónsson á Kópareykjum í Reykholtsdal, f. 1932, Jón Björnsson Deildartungu Reykholtsdal, f. 1955, systursonur stefnanda; Vigfús Pétursson, Hægindi Reykholtsdal, f. 1936, og Unnur Jónsdóttir Deildartungu, f. 1920, systir stefnanda.

Stefnandi, Sigrún Jónsdóttir, sagði í aðiljaskýrslu sinni, að hún væri fædd og upp alin á Breiðabólsstað og hefði átt þar heima til 22ja ára aldurs. Hún kvaðst hafa verið  9 ára þegar steinhúsið, “nýi bærinn”, sem svo var þá kallaður, var reistur. Gamli torfbærinn og steinhúsið mynda það sem nú er kallað gamla íbúðarhúsið. Gunnar bróðir hennar hefði svo byggt það sem nú er kallaður nýi bærinn eða nýja íbúðarhúsið  1955-56.

Stefnandi kvaðst hafa eignast gamla íbúðarhúsið kringum 1964. Einn góðan veðurdag hefði faðir sinn komið að máli við sig  “og sagðist vilja að við ættum þetta hús, ég ætti þetta hús, ef ég vildi eiga við að reisa það við og laga það til. Það stóð autt og var að hruni komið, einkum gamli torfbærinn. Það dróst í þrjú ár að við hæfumst handa að endurreisa bæinn. [19]68 byrjuðum við að reisa við gamla bærinn og svo að klæða steinhúsið að utan og innan.”

Stefnandi sagðist aðspurð engin skilríki hafa fengið fyrir húsinu. Engin vitni hefðu verið viðstödd. “Hann gaf mér þetta með bletti. Á þeim tíma var ekki talað um lóðir, það var talað um bletti. Var ekki tilgreint nánar.”

Stefnandi kvaðst efast um, aðspurð, að Gunnari, bróður hennar, hefði verið kunnugt um gjöfina fyrirfram, en strax eftir á hefði honum verið þetta kunnugt, og einnig systur hennar, Unni.

Undir stefnanda var borin teikning sú, sem hún segir að feli í sér samkomulag hennar og Gunnars um mörk lóðar er fylgja skuli gamla íbúðarhúsinu. Hún sagði:  “Þetta skjal gerðum við Gunnar, þ.e.a.s. hann gerði teikninguna, ef teikningu skyldi kalla, uppdrátt, og hvað marga metra á hvern kant það skyldi vera. Og svo bara einfaldlega skrifuðum við undir þetta eins og stendur hér, 9. maí 1976. Svo var því lokið.” Hún sagði aðspurð að þau hefðu verið að afmarka lóðarstærðina kringum gamla íbúðarhúsið. Lóðin hefði ekki verið girt fyrr en löngu seinna, 1991 eða 92. Þá hefði verið girt eftir þessum uppdrætti. Hún var spurð hver hefði skrifað textann á skjalinu. Hún sagði fyrst  að Gunnar hefði gert það, en  tók upp svarið: “Nei, það lítur út fyrir að ég hafi skrifað þennan texta.” Sagðist þó ekki hafa skrifað tölurnar, það hefði Gunnar gert. “Það var enginn annar viðstaddur.” Nánar spurð um þetta, sagði hún að Guðni hefði verið viðstaddur þegar dregið var upp. Þau hefðu verið úti  að stika breidd og lengd. Svo hefðu þau farið inn til að skrifa við borð.

Stefnandi er spurð hvers vegna  ekki hefði verið girt kringum gamla húsið fyrr en 16 árum eftir að uppdráttur er gerður [15-16 árum, aths. dómara]. Hún kunni enga skýringu á því.

Fram kom í skýrslu hennar að Brynjólfur Einarsson hefði búið á Breiðabólstað þegar girt var. Hún sagði aðspurð að á þeirri stundu sem girt var hefðu engar athugasemdir verið gerðar við framkvæmdina. En skv. yfirlýsingu Brynjólfs, sem lögmaður stefndu Sigríðar hefði vitnað til, hefði það gerst síðar, að Brynjólfur hefði mótmælt við Jón Guðnason, son stefnanda. Ekki hefði verið mögulegt að mótmæla við Jón þegar girt var, því að hann hefði ekki verið á staðnum þá og raunar ekki allt það ár. Hann hefði hvergi komið nálægt girðingarframkvæmdum.

Fram kom að gamla íbúðarhúsið nýtur heits vatns frá borholu á jörðinni neðan þjóðvegar. Stefnandi kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær hitaveita var leidd í nýja íbúðarhúsið, “en það var löngu seinna sem það kom inn til okkar, þó nokkuð mörgum árum seinna.” Hún sagði að hún hefði ekki tekið þátt í kostnaði við upphaflegu heitavatnslögnina. En hún hefði tekið þátt í viðgerð eða viðbót sem þurfti að gera síðar. “Við tókum þátt í því að einum þriðja, þegar skipt var út plaströrum og sett einangruð stálrör í staðinn.” Hún sagði að hún hefði líka tekið þátt í kostnaði við dælur, það er að segja að kaupa dælu, og svo rafmagnskostnaði við dælu, að einum þriðja. Hún sagði að þau [hún og Guðni, eiginmaður hennar] hefðu fengið heitt vatn í gamla húsið áður en endurbygging leiðslunnar átti sér stað. Hún sagðist hafa greitt Gunnari með peningum. Hún hefði engar kvittanir fengið.  “Það var bara ekki siður okkar á milli.”

Stefnandi var spurð hvenær henni hefði fyrst orðið kunnugt um sölu stefndu Sigríðar á jörðinni til stefndu Hákonar o.fl.  Svar: “Ég tel að okkur hafi verið fyrst kunnugt um það seinni part vetrar, þegar Guðni var þarna uppfrá og hitti Sigríði og talaði um að það þyrfti að ganga frá afsali á blettinum [ þ.e. lóð fyrir gamla húsið] . Þá var faðir minn dáinn fyrir löngu og Gunnar líka, þannig að það virtist liggja fyrir að það kæmi í hennar hlut að sinna þessu. En hún taldi að það bæri að eiga við nýjan eiganda jarðarinnar. ...”  Hún sagði í framhaldi af þessu að sér hefði fyrst orðið kunnugt um samninginn fyrri hluta árs 1997. Nánar spurð sagði hún þó að það hefði getað verið síðla vetrar 1995-96. Stefnda Sigríður hefði þá verið flutt frá Breiðabólsstað, en hefði verið þarna uppfrá einhverra erinda.

Stefnandi sagði að stefnda Sigríður hefði á þessum tíma dregið í efa að bletturinn væri  eign stefnanda. Sagðist hafa sýnt henni “þessa teikningu”, þ.e. margnefndan uppdrátt af “lóðarmörkum”.

Stefnandi bar að hún hefði greitt fasteignagjöld af húsi og lóð frá þeim tíma að búið hefði verið að koma húsinu í “búhæfa notkun”. Þá hefði verið farið að leggja á fasteignagjöld. Nánar spurð sagði hún að þetta hefði verið 1 1/2  til 2mur árum eftir að byrjað var að gera við húsið.

Stefnandi sagði aðspurð að hún hafi ekki talið húsið eða lóð fram til skatts. Það hefði verið vegna þess, að raunverulega hefði þetta verið hús í smíðum, þótt það hefði verið orðið íbúðarhæft. Það hefði tekið lengri tíma að gera það fullbúið hús.   Hún hefði ekki hafa látið þess getið á skattframtölum að hún hefði verið eigandi að sumarhúsi og lóð. Hún hefði verið skattframteljandi með bónda sínum, hann hefði séð um framtölin. Mörgum árum seinna sagðist hún hafa farið að telja sjálfstætt fram, þegar hún hefði farið að vinna utan heimilis. 

Stefnandi var spurð hvort hún hefði heyrt talað um að jörðin væri ættaróðal meðan faðir hennar lifði. Hún kvaðst hafa heyrt talað um það, en “maður gerði svo sem ekkert með það”.  Hún hefði heyrt föður sinn tala um það og sjálfsagt einhverja fleiri, foreldra sína. “Þetta kom fyrir að þetta var nefnt, en svo ekkert meira.” Hún gat ekki svarað ákveðið spurningu um hvort talað hefði verið um að jörðin væri ættaróðal eða hvort til stæði að gera hana það. Hún neitaði því aðspurð að faðir hennar hefði borið það upp við hana hvort hún hefði athugasemdir við að jörðin yrði gerð að ættaróðali.

 

Stefnda Sigríður Jóhanna Valdimarsdóttir sagði í skýrslu sinni að hún hefði  flust að Breiðabólsstað í maí 1964 og átt þar heima í 19 ár, eða til 1984. Þegar hún hefði komið á Breiðabólsstað hefði Gunnar Jónsson verið farinn að búa, og Jón faðir hans hefði verið þar hjá syni sínum og nokkur næstu ár hjá þeim Gunnari  og stefndu.

Stefnda kvaðst aðspurð ekki hafa heyrt Jón eða neinn annan tala um eignarhald á gamla bænum, “ekki beint svona”.

Vitnað var til þess að fram væri komið að stefnda hefði talið stefnanda eiga gamla íbúðarhúsið. Spurt var hvers vegna. Stefnda kvaðst hafa talið það vegna þess að stefnandi hefði farið “út í þessar framkvæmdir”, að það mundi vera. Stefnda var spurð hvort hún hefði haft einhverja ástæðu til að ætla að stefnandi ætti lóð við gamla bæinn. Stefnda sagði að hún hefði aldrei heyrt talað um það. Gunnar hefði aldrei nefnt við sig neitt um lóðarréttindi undir gamla bæinn.

Stefnda var spurð um fram lagða teikningu af “lóðarmörkum”. Hún sagðist ekki hafa séð þetta skjal fyrr en það hefði komið frá þeim Guðna og Sigrúnu. Hún kvaðst halda að það hefði verið 1992 eða 93. Það hefði borist í tal milli hennar og sonar hennar, Valdimars,  að hann hefði séð þetta skjal. Hann hefði farið og sótt skjalið til Guðna, þ.e.a. s. ljósrit af því. Spurt var um ástæðu fyrir því að hún hefði efast um að nafnritun Gunnars væri á skjalinu. Hún sagði að hún hefði aldrei heyrt Gunnar tala um það að hann léti stefnanda hafa nokkra lóð eða að hún ætti nokkra lóð undir gamla húsið. Hún sagði einnig að hann hefði alltaf skrifað nafn jarðarinnar Breiðabólsstaðir.  Ennfremur sagði hún að sér fyndist rithöndin á skjalinu ekki vera hans rithönd, en líkari rithönd systur hans. Hún taldi að rithönd Gunnars væri ekki á tölunum á skjalinu.

Stefnda sagði að hún hefði ekki verið spurð um leyfi þegar girt var kringum gamla bæinn. Hún kvaðst þá hafa verið farinn burt af jörðinni, en hefði þó átt hana. Hún kvaðst ekki muna hvort hún sá uppdráttinn áður en girt var eða eftir það. Mundi ekki hvort girt var 1992 eða 93. Hélt að hún hefði séð uppdráttinn 1992. Hún kvaðst ekki hafa verið hrifin af girðingunni kringum gamla bæinn, hún hefði talið að girt hefði verið í óleyfi. Það hefði aldrei verið rætt neitt við hana um girðinguna. Hún kvaðst aðspurð ekki hafa vitað að Jón Ingólfsson hefði verið skráður eigandi að gamla húsinu löngu eftir að stefnandi og eiginmaður hennar fóru í að endurbyggja það.

Stefnda kvaðst ekkert geta sagt um greiðslur stefnanda vegna hitaveitunnar. Gunnar hefði ekkert talað um  þetta við sig. Hún kannaðist við að hann hefði greitt einhverja rafmagnsreikninga vegna dælingar á heita vatninu. Stefnda minntist þess ekki að hann hefði talað um að hann gerði kröfu á hendur stefnanda vegna þess kostnaðar.

Stefnda var spurð um það hvenær stefnandi og Guðni hefðu vitað af sölu jarðarinnar. Stefnda sagðist hafa verið stödd þarna uppfrá til að losa húsið vegna sölunnar. Þá hefði hún hitt Guðna þarna fyrir utan. Þá hefði hann ekki þóst vita neitt.  Jörðin hefði verið búin að vera í sölu frá 1992. Það hefðu allir vitað, því að hún hefði verið margauglýst í blöðum og víðar. Þau hefðu hist þarna áður en jörðin var afhent í mars 1996.

Stefnda var spurð hvort hún hafi heyrt Gunnar Jónsson, systur hans eða föður þeirra, Jón Ingólfsson, tala um að jörðin væri ættaróðal. Hún kvað nei við.

Vitnið Guðni Þórðarson bar að honum væri kunnugt um það að tengdafaðir hans hefði árið 1964  komið að máli “við okkur” og hefði boðið stefnanda að að gefa henni gamla íbúðarhúsið og lóð. Hann var  spurður hvort hann hefði verið viðstaddur þegar faðir stefnanda gaf henni hús og lóð. Svar: “Nú get ég ekki alveg svarað á hvaða augnabliki það var, en það oft ræddi hann þessi mál við mig um það leyti, að ég tel að ég geti þá fullyrt það að hann hafi þá endurtekið gjafagerninginn í minni viðurvist.” Vitnið sagði að Jón hefði orðað það þannig, að þetta yrði “rúmgóð lóð fyrir okkur”, en ekki tiltekið hana í fermetrum.

Undir Vitnið Guðna var borin teikning af “lóðarmörkum”. Hann kvaðst kannast við skjalið. Þetta væri teikning af lóð sem Gunnar Jónsson hefði gert“ í samráði við okkur” um lóðarstærð, enda þótt Jón hefði ætlast til að lóðin væri kannski eitthvað stærri. Gunnari hefði verið annt um túnið, hefði þá verið með búskap á jörðinni, “og það varð að samkomulagi að Sigrún sætti sig við að taka við þessari lóð.”  Hann sagðist ekki muna hver teiknaði lóðarmörkin. Nafnritun sín hefði átt að vera vottun vitundarvotts. Hann taldi líklegt að Gunnar hefði teiknað, því að honum sýndist textinn skrifaður með hans hendi, án þess hann þyrði að fullyrða það. Þau systkin hefðu haft mjög líka rithönd. Hann var spurður hvort hann hefði verið viðstaddur þegar skjalið var gert. Hann kvaðst í það minnsta hafa verið viðstaddur þegar það var undirritað, en sagðist ekki muna nákvæmlega hvernig vinnubrögðin hefðu verið.

Vitnið Guðni sagði að skatta og skyldur af lóðinni hefði stefnandi greitt, og af stærri lóð en hér um ræðir. Hún hefði greitt af lóð að stærð 2.500 m2. Hann mundi ekki frá hvaða tíma, en sagði að það væru ákaflega mörg ár frá því fyrst var krafist greiðslu.

Vitnið kvaðst hafa séð um skattframtöl þeirra hjóna. Þessarar eignar hefði aldrei verið getið á framtölum. Ástæðan hefði verið sú, að út af viðskiptum hans hefði fjárhagur þeirra verið ákaflega erfiður, og eignir þeirra yfirleitt öðru hverju undir hamrinum, og sumt af þeim hefði verið selt á nauðungaruppboði. Þegar Jón heitinn hefði viljað  að “við gengjum frá þessu og hann afsalaði þessu”, þá hefðu þau beðist undan því að það yrði gert af þessum ástæðum. Vitnið mundi ekki hvenær þetta var, sagði að  þau hefðu ekki þorað að telja þetta fram. Sjálfsagt hefðu þau þannig gerst sek um skattsvik, vegna þess að þau hefðu verið svo hrædd um að missa þetta á nauðungaruppboði.

Spurður um hitaveitu sagði vitnið Guðni, að þau hjónin hefðu upphaflega ekki tekið beinan þátt í framkvæmdum við hana, en síðan hefði það atvikast þannig, að þegar Gunnar lenti í fjárhagsvandræðum vegna sjoppu sem hann rak neðan vegar, hefði það orðið að samkomulagi að þau hjónin greiddu ýmsa reikninga, eins og tóbaksreikninga hjá ÁTVR, og að það kæmi sem greiðsla fyrir eignarhluta þeirra í hitaveitunni. Gunnar hefði viljað að þau ættu 1/3 í hitaveitunni. Hann hefði síðan látið þau borga allt að þriðjungi í rekstarkostnaði hitaveitunnar, en aldrei neitt fyrir notkun á henni eða heita vatninu. Hins vegar hefðu þau greitt 1/3 af dælukostnaðinum og 1/3 af endurbótum, nýlagningu á hluta hitaveitunnar. Stefnandi hefði greitt Gunnari það beint án þess að taka kvittun fyrir. Það hefði ekki verið vani þeirra systkina, þau hefðu verið náin. Ítrekað aðspurður bar vitnið, að þau hafi aldrei greitt fyrir notkun á vatninu, nema dælukostnað og endurbótakostnað, og aldrei verið krafin um það.

Vitnið sagði að aldrei hefði verið orðað við þau að greiða leigu af þeirri lóð sem þau telja sig eiga.

Vitnið sagði að það hefði aldrei verið neinn vafi af sinni hálfu að  gjafagerningurinn um hús og lóð hefði farið fram, því að annars hefðu þau hjón ekki varið til framkvæmda við húsið fjárhæðum, sem kaupa mætti fyrir gilda blokkaríbúð í Reykjavík. Hann sagði og að gjafagerningurinn hefði verið alveg skýr um það að lóðin hefði átt að vera eignarlóð, en ekki hefði verið rætt um önnur lóðarréttindi.

 

Vitnið Brynjólfur Einarsson kvaðst hafa verið 11 ára þegar hann fluttist með móður sinni að Breiðabólsstað.  Á unglingsaldri hefði hann flust til Borgarness, það hefði verið 1971-72, verið að vinna þar og læra, en verið með lögheimili á Breiðabólsstað. Hann hefði svo flust aftur upp eftir 1973, og þá átt heima í húsi sem heitir Breiðagerði, neðan vegar, bak við bensínstöðina. Hann hefði að vísu verið að vinna í Borgarnesi næstu tvö ár, ekið á milli. Ári 1984 eða 85 hefði hann flust í nýja íbúðarhúsið, en hefði hafið búskap á jörðinni áður. Árið 1996 hefði hann flust í burtu af jörðinni. Hann sagði að árið 1984 hefðu Gunnar og stefnda Sigríður flust til Reykjavíkur, og þá hefði hann flust inn í nýja íbúðarhúsið.

Vitnið kvaðst hafa átt mikil samskipti við Gunnar, á hverjum degi, þau ár sem hann átti heima í Breiðagerði.  Jóni Ingólfssyni hefði hann kynnst sem barn og unglingur. Hann hefði verið þarna inni á heimilinu mörg ár, þangað til hann fluttist niður í Deildartungu.

Vitnið Brynjólfur var spurður hvort hann hefði heyrt Jón Ingólfsson eða Gunnar Jónsson ræða um hver ætti gamla bæinn. Hann kvaðst ekki minnast þess, ekki neins í sambandi við það. Sagði að hann hefði aldrei heyrt talað um hver ætti gamla bæinn. Hann kvaðst hafa heyrt þegar í tal barst að stefnandi og fjölskylda hennar fengi lóð undir bústaðinn og að girt yrði kringum gamla bæinn svo að hægt væri að rækta þar einhvern garð. Gunnar hefði alfarið verið á móti því. Vitnið kvaðst hafa heyrt hann segja einu sinni að það væri alveg óvíst hver ætti gamla bæinn, “og var mjög þungur”. Þetta hefðu verið einu ummælin sem vitnið hefði heyrt Gunnar hafa um gamla bæinn. Hann  hefði haft á móti því að girt yrði kringum gamla bæinn og sagt að það kæmi aldrei til baka aftur, ef girt yrði lóð; hún yrði þá eins og þeirra eign. Vitnið kvaðst hafa spurt Gunnar af hverju hann vildi ekki girðingu, hvort “Rúna” ætti ekki bústaðinn, og Gunnar hefði þá svarað: “Það er ekki þar með sagt að hún eigi bústaðinn.” Vitnið kvaðst hafa heyrt að stefnandi hefði falast eftir lóð kringum gamla bæinn til að geta ræktað þar, en hann kvaðst ekki minnast þess að “þau” hefðu talað við sig um það. Þetta hefði oft verið til umræðu milli sín og barna stefnanda og Guðna, Ingólfs, Margrétar og Jóns. Vitninu hefði fundist þetta í lagi, að þau fengju að girða, það hefði verið snyrtilegra og skemmtilegra. Þessi þrjú Guðnabörn hefðu verið mikið þarna uppfrá., sérstaklega Ingólfur og Margrét.

Vitnið Brynjólfur kvaðst hafa verið ábúandi á jörðinni 1992 þegar girðingin var reist, hefði haft hana á leigu. Hann var spurður hvort hann hefði verið spurður leyfis fyrir þeirri framkvæmd. Hann kvað nei við. Hann kvaðst aðspurður hafa gert athugasemdir við framkvæmdina. Hann hefði orðið fjúkandi reiður fyrst þegar þau byrjuðu að girða, en hefði ekkert aðhafst. Svo þegar girðingarvinnan hefði verið komin af stað hefði hann hitt þau úti og talað um það við þau, að hann kærði sig ekki um þetta og að þetta væri á móti sínum vilja og hann væri viss um að móðir sín væri ekki ánægð með þetta. Hann kvaðst hafa spurt Ingólf Guðnason með hvað rétti þau gerðu þetta, en hann hefði svarað: “Þetta bara verður svona.” Hann hefði sagt þeim að þetta væri ekki leyfilegt, en engar aðgerðir hefðu orðið út af þessu. Vitnið kvaðst muna eftir við girðingarvinnuna Ingólfi og líka Jóni, sambýlismanni Margrétar Guðnadóttur.

Vitnið Brynjólfur var spurður hvenær Gunnar hefði talað um það að óvissa væri um eignarhald á gamla bænum. Vitnið kvaðst ekki muna hvaða ár það var, en þetta hefði verið áður en Gunnar fluttist frá Breiðabólsstað. Komið hefði til umræðu fyrir utan bæinn spurningin um það hvort stefnandi vildi fá lóð. Vitnið kvaðst hafa spurt Gunnar að því hvort ekki væri hægt að girða eitthvað í kringum bæinn, hvort “Rúna” ætti ekki bæinn. Þá hefði Gunnar sagt þetta. Þegar hér var komið skýrslutöku dró lögmaður stefnanda fram að vitnið hefði verið hlynntur því að girt væri, en orðið fjúkandi reiður þegar var girt.  Vitnið sagði þá að hann hefði orðið reiður, því að sér hefði fundist afgirti bletturinn allt of stór. Hann hefði haldið að “þau” hefðu ætlað að hefja þarna kúabúskap, þetta hefði verið svo stór girðing, án þess að tala við Pétur eða Pál. Innan fjölskyldunnar, sagði vitnið, að komið hefði til tals skiki, sem ekki hefði verið í neinu samræmi við þetta.

Undir vitnið var borin teikningin af “lóðarmörkum”. Hann kannaðist við að hafa séð ljósrit af svipuðu skjali, sagði að á þeim dögum sem verið var að girða kringum gamla bæinn, þá hefði Guðni komið “út í hús” og sýnt þetta skjal, sagt: “Ég vildi bara sýna ykkur þetta.” Vitnið kvaðst hafa talið að þetta væri bara kringum gamla bæinn, en stærðina hefði hann ekki séð. Sér hefði ekki unnist tími til að lesa skjalið. Vitnið kvaðst hafa orðið undrandi og gramur, fundist þetta ósvífið. Ingólfur og Jón hefðu talað um það lengi að það þyrfti að fá þær uppeftir stefnanda Sigrúnu og stefndu Sigríði, svo að hægt væri að ná samkomulagi um leigulóð í kringum bæinn, svo að hægt væri að girða. Þetta hefði verið til umræðu kannski tvö-þrjú ár, og það hefði aldrei verið minnst á samning um lóð.

Vitnið bar að Gunnar Jónsson hefði haft það fyrir sið að skrifa nafnið sitt í tíma og ótíma, og hefði þá alltaf skrifað Gunnar Jónsson Breiðabólsstöðum. Þetta hefði verið kækur hjá honum, t.d. þegar hann hefði verið að tala í síma. Hann hefði aldrei skrifað Gunnar Jónsson Breiðabólsstað. Þetta hefði verið deiluefni milli hans og vitnisins. Vitnið hefði skrifað nafn sitt Brynjólfur Einarsson Breiðabólsstað, og Gunnar hefði “hundskammað” sig fyrir það.

Vitnið Brynjólfur var spurður um hitaveituna. Hann sagði að eftir að hann byrjaði að búa þarna uppfrá hefði hann tekið við að greiða rekstarkostnað af dælingu á vatninu uppeftir. Eftir svolítinn tíma hefði hann spurt Gunnar að því hvort ekki væri sanngjarnt að “þau” [stefnandi og eiginmaður hennar] borguðu þann hluta sem þau notuðu af vatninu, hvort ekki væri sanngjarnt að þau greiddu hitakostnað. Gunnari hefði fundist það, og ástæða væri til að ræða það. Þá hefði verið spurningin hversu mikið. Fljótlega hefði það komið upp að hluti vatnsins færi í nýja húsið, hluti í útihús og hluti í gamla bæinn. Því hefði þótt sanngjarnt að þau borguðu sem svaraði dælingarkostnaði að einum þriðja. Þetta hafi verið borið undir “þau” og verið auðsótt. Síðan hefðu þau verið rukkuð öðru hverju, en ekki tekinn hver reikningur fyrir sig, rukkað einu sinni á ári eða svo. Vitnið kannaðist ekki við að stefnandi hafi tekið þátt í kostnaði við heitavatnslögnina sjálfa: “Ég veit ekki betur en við höfum greitt það allt saman.”, þ.e. lagninguna á 300 m leiðslu. Upphaflega hefði Gunnar lagt plastleiðslu frá hvernum og uppeftir. Hún hefði fljótlega farið að gefa sig, því að hún hefði ekki þolað þrýstinginn og hitann. Þá hefði verið farið út í það að leggja 300 m af kápuklæddum járnrörum frá hvernum og áleiðis uppeftir, en svo hefði verið hugmyndin að bæta við það síðar. Gunnar hefði látið gera það sjálfur.  Nánar spurður sagðist vitnið ekki vita betur en Gunnar hafi greitt bæði framkvæmdina sjálfa og einnig kaupin á rörunum, en stefnandi hefði tekið þátt í dælukostnaði að einum þriðja hluta: “Við litum á þetta sem endurgjald fyrir vatnið.” Vitnið mundi ekki að greina frá hvenær samkomulag um þetta komst á, en sagði að það hefði verið áður en endurbætur voru gerðar á lögninni. Aðspurður sagði vitnið að þau stefnandi og Guðni hafi staðið við þetta samkomulag að mestu leyti, en samt hefði eitthvað verið eftir. Vitnið kvaðst hafa haft frumkvæði að þessu, þar sem honum hefði þótt ósanngjarnt að greiða þetta allt sjálfur. “Þau” hefðu ekki greitt neitt áður, að sögn Gunnars.

Vitnið skýrði svo frá að lögnin á hitaveitunni hefði farið þannig fram, að fyrst hefði verið lagt í nýja húsið. Afrennslið frá því og umframvatn kvaðst vitnið hafa tekið út í hesthúsið (áður fjósið, fyrir ofan gamla bæinn). Síðan hefði umframvatnið verið leitt þaðan í gamla bæinn. Síðar hefði verið lögð heitavatnsleiðsla frá nýja húsinu yfir í gamla bæinn.

Vitnið Brynjólfur kvaðst aðspurður aldrei hafa heyrt á búsetutíma sínum á Breiðabólsstað að jörðin væri óðalsjörð.

Aðspurður sagði vitnið Brynjólfur að hann vissi ekki til þess að stefnandi eða Guðni hefðu greitt einhverja reikninga fyrir Gunnar. Þekkti ekki dæmi þess.

Vitnið Jakob Jónsson var spurður um fasteignamatið 1970 á gamla íbúðarhúsinu og lóð. Hann sagði að það hefðu verið mörg hundruð fasteignir sem matsmenn hefðu átt að meta. “Þetta byrjaði með því að við fengum ekki réttar upplýsingar með þessa jörð. Þar var þetta hús metið með jörðinni upphaflega, altsvo þessi gamli bær. Svo fengum við síðar upplýsingar um að þetta væri allt annar eigandi, og þá var farið í að meta það sér.” Vitnið var spurt  hvaðan matsmenn hefðu fengið þær upplýsingar. Hann kvaðst ekki vera alveg viss um það.

Vitnið Jakob sagði að matsmenn hefðu skoðað eignina. Hann var spurður hverjir af eigendum hefðu verið viðstaddir. Svar: “Það var Gunnar Jónsson sem gaf upplýsingar. Það var yfirleitt einvörðungu farið eftir því sem forráðamenn eignanna gáfu upp, alls ekki heimtaðir neinir lögformlegir gerningar.” Vitnið sagði einnig að matsmenn hefðu aldrei fengið vitneskju um stærð á lóð. “Þarna var talið að lóðin væri óaðskiljanlegur hluti af húsinu, ásamt einhverri spildu í kring. Menn mættu nú stíga til jarðar utan við húsið.” Vitnið Jakob var þá spurður hvort hann gæti skilgreint hvaða lóð matsmenn voru í raun að meta. Svar: “Nei, við fengum aldrei nein svör.” Þetta hefði verið metið sem hluti af húsinu. “Það fengust aldrei nein svör um stærðina.”

Lögmaður spurði: “En þið fenguð samt upplýsingar um að það væri lóð með húsinu, eða gáfuð þið ykkur það bara sjálfir?” Svar: “Já, já,  svona síðar. Þarna hefur Ingimundur Ásgeirsson verið líka. Við gengum eftir því að fá uppgefna stærð á lóð, en það virtist bara alls ekki vera til nein vitneskja um það.” Lögmaður: “Og var þá bara slegið á þetta án þess að þið hefðuð það?”  Svar: “Já, já, það var örþrifaráð, því að ef að hefði átt að fara heimta lögformlegan gerning um allar fasteignir sem voru metnar, þá væri matinu ekki lokið ennþá, að 30 árum liðnum. Það varð að treysta því sem forráðamenn gáfu upp, enda gafst það yfirleitt vel.”

Nánar spurður sagði vitnið Jakob að matsmenn hefðu fengið upplýsingar um að gamla íbúðarhúsinu fylgdi lóð. Gunnar Jónsson hefði gefið þær upplýsingar. Dómari spurði: “Hvernig getur það þá verið að í þessu skjali er lóðareigandi skráður Jón Ingólfsson, en eigandi hússins Sigrún Jónsdóttir?” Svar: “Já, það var litið á þetta sem eins konar leigulóð.”

Vitnið bætti við síðar: “Það sem við héldum og töldum víst að þessu mundi verða kippt í lag þannig að það þyrfti ekki nema einfaldan gerning til að breyta þessu í eignarlóð.” Og enn síðar: “Við vorum aldrei í neinum vafa um að Sigrún ætti þetta hús.” “En hvað með lóðina?” var þá spurt. Svar: “Jón Ingólfsson var talinn lóðareigandi. Önnur svör fengust ekki, alls ekki neitt um stærð.”

Vitnið Jón Guðmundsson kvaðst ekki muna eftir matinu, en kannast við nafnritun sína. Hann hefði verið varamaður matsmannsins Péturs Ottesen, sem hefði fallið frá áður en matinu var fyllilega lokið. “Ég kom inn þegar eftir var síðasti frágangur, en meginvinnan var afstaðin. Verið var að meta jarðir um alla Borgarfjarðarsýslu.”

Vitnið mundi ekki hverjir voru viðstaddir þegar matsmenn komu á staðinn; þorði ekki að fullyrða að hann hefði verið meðal matsmanna á staðnum. Hann gat ekki borið um hvaðan matsmenn fengu upplýsingar, en sagði að það hefði verið viðtekin venja að sá sem sýndi eignina, gaf upplýsingar, og þær hefðu yfirleitt ekki verið vefengdar. Sagði einnig að það hefði verið vinnuregla að meta ekki hús á jörðum öðruvísi en að meta lóð líka, og þar með að þetta væri í góðri sátt við þá aðila sem að málinu komu.

Vitnið Eyjólfur Sigurjónsson á heima á Kópareykjum í Reykholtsdal. Þeir eru gengt Breiðabólsstað, sunnan ár. Vitnið kvaðst hafa átt heima á Kópareykjum alla sína ævi,  68 ár.

Frammi liggur í málinu skrifleg yfirlýsing vitnisins, dags. 10. maí 1998. Þar segir m.a. að vitnið Eyjólfur hafi verið nákunnugur grönnum sínum á Breiðabólsstað, þeim hjónum Jóni Ingólfssyni og Valgerði konu hans og börnum þeirra, Unni, Sigrúnu og Gunnari. Einnig segir í yfirlýsingu þessari: “Mér er vel kunnugt um það að Jón Ingólfsson gaf Sigrúnu, dóttur sinni, húsið ásamt lóð enda hefði enginn lagt í slíkar viðgerðir sem Sigrún framkvæmdi á húsinu nema því fylgdi réttur til notkunar á eigninni. Ég tel að flestir í sveitinni hafi vitað um þennan gjörning hjá Breiðafjölskyldunni enda fréttamat annað á þeim tíma en er í dag.”

Vitnið kannaðist við skjalið og undirritun sína og staðfesti efni skjalsins. Hann kvaðst hafa verið gjörkunnugur Gunnari Jónssyni, sem hefði verið 5 árum eldri en hann. Vitnið var spurt hvort þeir Gunnar hefðu einhvern tíma rætt sérstaklega málefni gamla hússins. Vitnið svaraði: “Ja, ég man það nú ekki svo. Hann sagði mér einhvern tíma, þegar við vorum að stinga út tað, að Sigrún ætti húsið. Það hefur kannski verið einhvern  tíma milli 1960 og 70.“ Vitnið var þá spurt hvort Gunnar hefði minnst á skika eða blett. Svar: “Já, einhvern skika, húsið og einhvern blett, sem hann sagði mér.” Nánar spurður um þetta bar vitnið Eyjólfur, að Gunnar hefði sagt sér að Sigrún ætti húsið og “að mig minnir einhvern blett í kringum það.” Vitnið var þá spurt hvort þetta væri ekki alveg víst. Svar: “Það eru nú margir áratugir síðan.” Hann kvaðst aðspurður ekki muna hvort talað hefði verið um eignarlóð eða lóð til afnota.

Vitnið Eyjólfur neitaði því aðspurður að fleiri hefði verið viðstaddir þegar Gunnar var að tala við hann um þetta.  Hann neitaði því einnig að hafa heyrt Jón Ingólfsson sjálfan tala um eignarhald á þessu húsi?

Vitnið Jón Björnsson á heima í Deildartungu, Reykholtsdal. Hann hefur gefið svofellda skriflega yfirlýsingu, ótímasetta,  sem frammi liggur sem dómskjal:

“Jón Ingólfsson móðurafi minn dvaldi hér í Deildartungu frá því um 1970 og fram undir 1980. Einhvern tíma á þeim tíma þegar Sigrún dóttir hans kom í heimsókn, heyrði ég þau ræða um “gamla bæinn á Breiða, sem verið hefur sumarhús Sigrúnar og fjölskyldu hennar frá því fyrir 1970. Sigrún sagði föður sínum að hún vildi að bærinn yrði á hans nafni enn um sinn, vegna þess hversu höllum fæti þau stæðu fjárhagslega.”

Vitnið Jón staðfesti yfirlýsingu þessa. Hann sagði að Jón Ingólfsson hefði áreiðanlega verið kominn að Deildartungu til að vera samfellt  árið 1971.

Vitnið Vigfús Pétursson hefur alla sína ævi átt heima á Hægindum í Reykholtsdal. Hægindi eru sunnan megin í dalnum. Vitnið sagði að lönd þeirra og Breiðabólsstaðar lægju saman á stuttum kafla. Vitnið hefur gefið svohljóðandi skriflega yfirlýsingu sem lögð hefur verið fram sem dómskjal, dagsetta fyrsta sumardag 1998:

“Hér með lýsi ég því yfir að ég veit til þess að Jón Ingólfsson á Breiðabólsstöðum gaf Sigrúnu dóttur sinni hús það sem kallað er gamli bærinn á Breiða. Síðar fékk hún þ.e. Sigrún lóð hjá Gunnari bróður sínum um það bil hálfa dagsláttu að stærð.

Vitnið Vigfús staðfesti yfirlýsinguna. Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvenær stefnandi hefði fengið lóðina. Hann var þá spurður hvaðan hann hefði vitneskju um þetta. Svar: “Það er frá mínum hreppsnefndarárum, sem voru á milli 1974 og 82.” Nánar spurður um þetta sagði vitnið:“Þá fór hreppsnefndin yfir fasteignamatsskrár og út af því spinnast kannski umræður, ef það er eitthvað sem maður vissi ekki fyrir.” Hann sagðist ekki hafa verið viðstaddur gjafagerninginn. Hann neitaði því að hann hafi heyrt Jón Ingólfsson segja sjálfan frá gjöfinni.

Vitnið var spurt hvort skilja mætti orð yfirlýsingarinnar: “Síðar fékk hún . . . lóð hjá Gunnari” svo að engin lóð hefði fylgt þegar Jón gaf húsið. Vitnið játaði þessu.

Vitnið sagði að hálf dagslátta gæti verið svona frá 1400 til 1800 fermetra. “Dagsláttan er um 3200 fermetrar, ef ég man rétt.”

Vitnið Unnur Jónsdóttir bar að systir hennar, stefnandi, og maður hennar, Guðni Þórðarson, ættu gamla íbúðarhúsið. Faðir þeirra systra hefði gefið stefnanda húsið. Hún var þá spurð hvort henni væri kunnugt um að faðir þeirra hefði jafnframt gefið stefnanda skika eða blett kringum húsið. Svar: “Já, það held ég. Fylgir það ekki alltaf?”

Vitnið sagði aðspurð að hún héldi að gjafagerningurinn hefði átt sér stað í kringum 1970. Hún myndi það ekki.

Í málinu liggur frammi sem dskj. svohljóðandi skrifleg yfirlýsing vitnisins:

“Þegar við systkinin Gunnar Sigrún og ég gerðum upp dánarbú föður okkar Jóns Ingólfssonar Breiðabólsstað Reykholtsdal var það gert upp eignalaust vegna þess að Gunnari og mér var fullkunnugt um að faðir okkar hafði gefið systur okkar Sigrúnu gamla íbúðarhúsið á Breiðabólsstað ásamt landskika í kringum það og hún endurbyggt það til að gera það aftur íbúðarhæft. Gunnar bróðir okkar gerði dánarbúsyfirlýsinguna sem við systur undirrituðum. Deildartungu 3. maí 1998.”Í annarri skriflýsingu vitnisins, sem er meðal dómskjala, dags. 4. maí 1998,  segir m.a. að faðir þeirra hafi gefið “Rúnu systur minni gamla bæinn ásamt lóð til að standa á. Svo nú er þetta bær þeirra Rúnu og Guðna.”

Vitnið Unnur staðfesti yfirlýsingar þessar.  Tvær aðrar skriflegar yfirlýsingar vitnisins liggja frammi, en ekki er ástæða til að rekja þær hér.

Enn er að nefna að frammi liggur sem dómskjal afrit af bréfi sem vitnið ritaði oddvita Borgarfjarðarsveitar 4. desember 1999 “vegna fasteignagjalda gömlu bæjarhúsanna og lóðar þeirra á Breiðabólsstað . . .” Segir þar m.a. að stefnandi sé eigandi þessarar fasteignar “og hefir verið svo síðan um 1964. Hún hefur í meira en 30 ár fengið beint senda reikninga og greitt öll opinber gjöld af eigninni þar með talin fasteignagjöld af húsi og landi og sýsluvegasjóðsgjöld til sýslumanns Mýra og Borgarfjarðarsýslu svo dæmi séu nefnd.”

 Vitnið kannaðist við að hafa ritað bréfið. Hún sagðist efnislega hafa samið skjölin sjálf.

Aðspurð sagði vitnið að faðir hennar, Jón Ingólfsson, hefði flust alkominn að Deildartungu eitthvað í kringum 1970.

Vitnið Unnur var spurð hvort hún myndi eftir því að faðir hennar eða foreldrar hefðu talað um að Breiðabólsstaður væri ættaróðal. Hún kvað já við því. Spurt var: “Var það þannig að hann talaði um að jörðin væri ættaróðal eða hugur hans stæði til að gera hana að ættaróðali?” Svar: “Hann gerði hana að ættaróðali. Ég veit nú ekki með hvað gerningi það var, það var eitthvað hjá sýslumanni.” “Manstu hvenær það var?” Svar: “Ætli það hafi ekki verið 1940, milli 1930 og 40, nær 40, mundi ég halda.”

 

Forsendur og niðurstöður.

A-liður og b-liður í kröfugerð stefnanda.  Kröfur stefnanda skv. þessum kröfuliðum eru á því byggðar að jörðin Breiðabólstaður hafi verið gerð að óðalsjörð með yfirlýsingu um það í afsali Jóns Ingólfssonar á jörðinni til sonar hans, Gunnars, og með athugasemdalausri þinglýsingu þess afsals. Á þetta verður ekki fallist. Í 1. gr. laga nr. 102/1962 um ættaróðul o. fl., sem í gildi voru þegar afsalið var gert, eru sett skilyrði í fjórum stafliðum, a-d, fyrir því að jörð verði gerð að ættaróðali. Upplýst er að ekki var gætt þeirra skilyrða sem sett eru í stafliðum a-c í þessari grein. Ekkert liggur fyrir um að uppfyllt hafi verið skilyrði d-liðar. Samkvæmt 3. gr. sömu laga átti jarðeigandi, sem óskaði eftir að gera jörð sína að ættaróðali, að afhenda sýslumanni yfirlýsingu þar að lútandi ásamt lýsingu á jörð og jarðarhúsum og skilríki fyrir því að fullnægt væri ákvæðum 1. gr. laganna. Þetta var ekki gert. Verður ekki á það fallist að afhending á afsalinu frá 1971 til sýslumanns og þinglýsing þess hafi getað komið í stað yfirlýsingar skv. 3. gr. laga nr. 102/1962. Þótt svo væri að Gunnar Jónsson hefði með undirritun sinni á afsalið skuldbundið sig til að fara með jörðina sem óðalsjörð, verður ekki talið að stefnda Sigríður hafi gengist undir þá skuldbindingu, þar sem jörðin varð ekki að óðalsjörð lögum samkvæmt. Er í þessu sambandi rétt að nefna að jörðin var byggð syni stefndu, Brynjólfi, þegar stefnda og Gunnar fluttust burt af jörðinni 1994. Var sú ráðstöfun ekki í samræmi við lagareglur um óðalsrétt, en fram er komið að sú ráðstöfun sætti ekki andmælum af hálfu stefnanda.  

Stefnandi gat ekki fyrir dómi svarað ákveðið spurningu um hvort talað hefði verið um að jörðin væri ættaróðal eða hvort til stæði að gera hana það. Systir hennar, vitnið Unnur Jónsdóttir, taldi að jörðin hefði verið gerð að ættaróðali á fjórða áratug þessarar aldar. Að mati dómara bendir framburður þeirra systra til þess, að til tals hafi komið innan fjölskyldunnar að gera jörðina að ættaróðali, en af framkvæmdum ekki orðið.

Með því sem nú er ritað fellst dómari á málsástæður og lagarök stefndu fyrir sýknu af kröfum stefnanda skv. a-lið og b-lið kröfugerðar.

C-liður kröfugerðar stefnanda. Sýnt hefur verið fram á að stefnandi á gamla íbúðarhúsið á Breiðabólsstað beinum eignarrétti. Hús þetta var undanskilið þegar Jón Ingólfsson seldi Gunnari syni sínum jörðina 1971, aftur við sölu jarðarinnar 1996 og enn 1997. Vætti vitna styður fullyrðingu stefnanda um að faðir hennar hafi gefið henni húsið, þ. á m. vætti Unnar, systur stefnanda. Á fasteignamati 1970, þar sem hús þetta er sérmetið, er stefnandi talinn eigandi þess. Stefnda, Sigríður J. Valdimarsdóttir, hefur skv. greinargerð hennar og aðiljaskýrslu ávallt litið svo á að stefnandi væri eigandi hússins. Samkvæmt þessu er beinn eignarréttur stefnanda að húsinu sannaður.

 Ósannaður er beinn eignarréttur stefnanda að lóð undir og umhverfis gamla íbúðarhúsið. Í fasteignamatinu frá 1970 er hún skráð eigandi húss, en eigandi lóðar er skráður faðir hennar, Jón Ingólfsson. Samkvæmt vætti vitnisins Jakobs Jónssonar fengust ekki þær upplýsingar um lóðina að hún væri eignarlóð stefnanda, þegar hún var metin 1970. Vitnið sagði að litið hefði verið á hana sem “eins konar leigulóð”. Teikning sú eða uppdráttur, sem stefnandi hefur lagt fram og sýna á, að hennar sögn og eiginmanns hennar, mörk lóðar um gamla íbúðarhúsið, sannar ekkert um eignarrétt hennar að lóð. Skjal þetta er óvottað. Það er ónákvæmt um hlutföll og af því verður ekki séð staðsetning húss á lóð. Engin vitni voru að því þegar Jón Ingólfsson gaf dóttur sinni gamla íbúðarhúsið. Fram lögð vottorð og vætti vitna skera ekki úr um að hann hafi gefið stefnanda lóð og heldur ekki að Gunnar Jónsson, bróðir hennar, hafi gefið henni lóð til eignar.

Stefnandi girti eða lét girða blett kringum gamla íbúðarhúsið árið 1992, að því er víst má telja. Sá blettur er sagður vera sömu stærðar og umrædd teikning eða uppdráttur tiltekur, eða 1536 m2.  Ekki er annað að sjá en blettur þessi, eða a.m.k. hluti hans, hafi allt fram að þeim tíma er girt var, verið hluti af túni jarðarinnar. Má m.a. sjá þetta af ljósmynd sem fram hefur verið lögð í málinu. Af hálfu stefndu Halldórs o.fl. er sagt að hún muni hafa verið tekin árið 1984, og hefur því ekki verið mótmælt. Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist að stefnandi hafi farið með hinn afgirta blett sem sína eign hefðartíma fullan, og verður henni ekki dæmdur eignarréttur af þeirri ástæðu.

Dómari fellst á það með stefnanda, að það hafi löglíkur með sér að lóðarréttindi fylgi gamla íbúðarhúsinu á Breiðabólsstað, en í því felst ekki óhjákvæmilega að um eignarlóð stefnanda sé að ræða, eins gæti verið um að ræða lóð til afnota eða til leigu. Til leigulóðar bendir vætti vitnisins Jakobs Jónssonar, um að litið hafi verið á lóð sem fylgdi húsinu sem “eins konar leigulóð”. Vitnið Eyjólf Sigurjónsson minnti að Gunnar Jónsson hefði sagt sér að stefnandi ætti einhvern blett í kringum húsið. Nánar spurður kvaðst hann ekki muna hvort talað hefði verið um að lóðin væri eignarlóð eða lóð til afnota með húsinu. Vitnið Vigfús Pétursson bar að stefnandi hefði fengið lóð hjá bróður sínum Gunnari.  Af orðum hans verður ekki ráðið hvers konar lóðarréttindi átti að vera um að ræða. Stefnandi hefur haldið því fram að hún hafi greitt fasteignagjöld af húsi og lóð. Hún hefur lagt fram óundirritaða kvittun fyrir 4.200 króna sveitargjöldum til Reykholtsdalshrepps “fast. 1978”, og virðist þar í raun vera um innheimtuseðil að ræða skv. handritaðri orðsendingu á kvittunina. Hún hefur einnig lagt fram álagningarseðil fasteignaskatts árið 1979. Frá sama ári er fram lagður innheimtuseðill sýsluvegasjóðsgjalds. Vottorð og vætti Unnar Jónsdóttur, systur stefnanda bendir til þess að stefnandi hafi greitt öll opinber gjöld af húsi og lóð, þar með talin fasteignagjöld. Ekkert af þessu sannar þó beinan eignarrétt stefnanda að lóð, en styður það að hún eigi lóðarréttindi. Um önnur lóðarréttindi en eignarrétt verður þó ekki dæmt í málinu, þar sem ekki er gerð um þau nein krafa.

Ekki verður á það fallist að stefnandi hafi með hefð unnið umferðarrétt um malarveg þann sem liggur frá þjóðvegi að gamla íbúðarhúsinu. Ótvírætt er að hún hefur í meira en 30 ár neytt umferðarréttar óátalið um veg þennan, en hefðartími er ekki fullnaður skv. 8. gr. hefðarlaga nr. 46/1905, þar sem telja verður að hér sé um ósýnilegt ítak að ræða, enda getur eign stefnanda, gamla íbúðarhúsið, ekki talist mannvirki sem stefnandi hefur komið fyrir til að nýta umferðarréttinn.

Það er niðurstaða í máli þessu að stefnandi eigi gamla íbúðarhúsið á Breiðabólsstað. Upplýst er að að hún hefur lagt í verulegan kostnað við uppbyggingu og viðgerð þess húss allt frá sjöunda áratug þessarar aldar. Henni er rík nauðsyn að eiga umferðarrétt að húsi sínu. Sitthvað er því til stuðnings að hún eigi einhvers konar réttindi að lóð undir og umhverfis hús sitt. Ekki verður talið að umferðarréttur stefnanda sé íþyngjandi fyrir stefndu Halldór, Flosa og Ólaf, umfram það sem þeir máttu ætla er þeir keyptu jörðina. Að þessu athuguðu þykir dómara rétt að verða við kröfu stefnanda um umferðarrétt, eins og hún er orðuð í kröfugerð hennar. 

Dómari fellst á það með stefndu Sigríði og stefndu Hákoni, Birnu o.fl., með vísan til úrslita máls um a-lið og b-lið krafna stefnanda, að öllum þremur kröfuatriðum c-liðar kröfugerðar stefnanda, um eignarrétt að húsi og lóð og um umferðarrétt, sé ranglega að henni þessum stefndu beint, og beri því að sýkna þau af kröfum c-liðar með vísan til 2. mgr. 16. laga nr. 91/1991. Hið sama á mati dómara ekki við um stefndu Halldór, Flosa og Ólafs að því er varðar kröfu um eignarrétt að gamla íbúðarhúsinu, svo sem þeir halda fram.

D-liður kröfugerðar stefnanda. Óumdeilt er að stefnandi tók ekki þátt í upphaflegri lagningu hitaveitulagnar heim að húsum á Breiðabólsstað. Ósannað er gegn mótmælum stefndu að hún hafi tekið þátt í endurgerð lagnarinnar að hluta. Af hálfu stefndu Sigríðar hefur verið lagður fram reikningur á Gunnar Jónsson sem greiðanda, tímasettur 1989 og samkvæmt meðfylgjandi gíróseðli greiddur 15. desember það ár. Reikningurinn ber með sér að vera vegna hitaveitu, fjárhæð kr. 32.200. Sýkna ber stefndu Halldór, Flosa og Ólaf af kröfu stefnanda um eignarrétt að 1/3 hluta í heitavatnslögnum á jörðinni Breiðabólsstað. Fallist er á það með stefndu Sigríði og stefndu Hákoni, Birnu o.fl., að þau beri að sýkna sökum aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

 

E-liður í kröfugerð stefnanda. Gunnar Jónsson lagði heitavatnslögn frá borholu neðan vegar árið 1981 eða 82, skv. því sem segir í greinargerð stefndu Sigríðar. Aðrar upplýsingar liggja ekki fyrir um það hvenær það verk var unnið. Ekki liggur fyrir hvenær stefnandi fékk heitt vatn lagt  í gamla íbúðarhúsið, en það var löngu seinna, eða þó nokkrum árum seinna, skv. því sem stefnandi bar fyrir dómi, en skv. greinargerð stefndu Sigríðar er svo að skilja að það hafi verið “fljótlega” eftir að lagt var í nýja íbúðarhúsið. Borhola sú, sem vatn er tekið úr er neðan vegar, á þeim parti jarðarinnar sem stefnda Sigríður undanskildi þegar hún seldi stefndu Hákoni o.fl. jörðina 1996. Í kaupsamningi um þá sölu, dags. 18. mars 1996,  og síðar afsali, dags. 6. mars 1997, segir: “Í kaupunum fylgja 6 mín/lít. af heitu vatni endurgjaldslaust í 15 ár úr borholu neðan þjóðvegar, að þeim tíma liðnum skal semja um endurgjald fyrir vatnsnotin.” Í kaupsamningi stefndu Hákonar o.fl. og stefndu Halldórs o.fl., dags. 30. október 1998, segir: “Með í kaupunum fylgja 6 mín./lítr. af heitu vatni endurgjaldslaust til ársins 2011, úr borholu neðan þjóðvegar. Að þeim tíma liðnum skal semja um endurgjald fyrir vatnsnotin.”

Ekki verður á það fallist með stefnanda, að hún hafi endurgjaldslaust notað heitt vatn jarðarinnar. Sjálf bar hún í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hefði tekið þátt í rafmagnskostnaði við dælu að einum þriðja. Eiginmaður hennar, vitnið Guðni, bar að Gunnar hefði látið þau borga allt að þriðjungi í rekstarkostnaði hitaveitunnar, en aldrei neitt fyrir notkun á henni eða heita vatninu. Hins vegar hefðu þau greitt 1/3 af dælukostnaðinum og 1/3 af endurbótum, nýlagningu á hluta hitaveitunnar. Ítrekað aðspurður bar vitnið, að þau hefðu aldrei greitt fyrir notkun á vatninu, nema dælukostnað og endurbótakostnað, og aldrei verið krafin um það. Vitnið Brynjólfur Einarsson bar að stefnandi hefði um árabil greitt 1/3 af dælukostnaði, og hann skýrði út hvernig hlutfallið 1/3 hefði verið hugsað. Ekki  verður séð frá hvaða tíma stefnandi tók þátt í dælukostnaði, en skv. framburði hennar fékk hún ekki hitaveitu í hús sitt fyrr en þó nokkuð mörgum árum eftir að hitaveita var lögð í nýja íbúðarhúsið. Vitnið Brynjólfur bar að hann hefði hreyft þessu máli eftir að hann fór að búa á jörðinni. Ekki er upplýst hvenær það var nákvæmlega, en hann fluttist í nýja íbúðarhúsið 1984.

Með því að upplýst er að stefnandi tók þátt í dælukostnaði, þ.e. greiddi hluta af rekstarkostnaði hitaveitunnar, verður ekki fallist á að hún hafi unnið sér rétt til endurgjaldslausrar nýtingar á heitu vatni jarðarinnar, hvorki með hefð né á annan hátt. Ber að sýkna stefndu Halldór, Flosa og Ólaf og stefndu Sigríði af kröfu hennar um þetta. Fallist er á að sýkna beri önnur stefndu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Í málinu er upplýst að inn í gamla húsið er ekki leiðsla með köldu vatni. Kalt vatn er þar fengið með því að kæla niður heitt vatn úr heitavatnslögninni. Ekki liggur fyrir hve lengi það ástand hefur varað. Hefur stefnandi ekki sýnt fram að hún hafi unnið rétt til endurgjaldslausrar nýtingar kaldavatns réttinda með hefð eða öðrum hætti. Ber að sýkna stefndu Halldór, Flosa og Ólaf af kröfu um þetta, og önnur stefndu ber að sýkna með vísan til 2. mgr. 16. gr. einkamálalaga.

Um málskostnað. Við ákvörðun um málskostnað verður tekið tillit til þeirra úrslita máls að stefnandi hefur fengið framgengt kröfum sínum að litlum hluta. Að flestu leyti eru niðurstöður stefndu í hag. Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmd til að greiða stefndu málskostnað sem hér segir: Til stefndu Sigríðar J. Valdimarsdóttur  300.000 krónur; til stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu og annarra barna Jónasar Árnasonar 300.000 krónur sameiginlega; til stefndu Halldórs Bjarnasonar, Flosa Ólafssonar og Ólafs Flosasonar, sameiginlega 300.000 krónur.  Er í fjárhæðum þessum tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.

Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Helgi Birgisson hrl.; af hálfu stefndu Sigríðar J. Valdimarsdóttur Ásgeir Jónsson hdl.; af hálfu stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu og annarra barna Jónasar Árnasonar, Karl Axelsson hrl., og af hálfu stefndu Halldórs Bjarnasonar, Flosa Ólafssonar og Ólafs Flosasonar, Halldór H. Hall hrl.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefnandi, Sigrún Jónsdóttir, á beinum eignarrétti gamla íbúðarhúsið á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdal, Borgarfjarðarsveit. Stefnandi á umferðarrétt að húsi þessu eftir malarvegi sem liggur frá þjóðvegi að húsinu.

Stefndu, Sigríður J. Valdimarsdóttur, Hákon Bjarnason, Birna Jónasdóttir, Jón B. Jónasson, Árni Múli Jónasson, Ingunn Anna Jónasdóttir, Ragnheiður Jónasdóttir, Halldór Bjarnason, Flosi Ólafsson og Ólafur Flosason, eiga að vera sýkn af öllum öðrum kröfum stefnanda.

Stefnandi greiði stefndu málskostnað sem hér segir: stefndu Sigríði J. Valdimarsdóttur  300.000 krónur; stefndu Hákoni Bjarnasyni, Birnu Jónasdóttur, Jóni B. Jónassyni, Árna Múla Jónassyni, Ingunni Önnu Jónasdóttur og Ragnheiði Jónasdóttur, 300.000 krónur sameiginlega; stefndu Halldóri Bjarnasyni, Flosa Ólafssyni og Ólafi Flosasyni, sameiginlega 300.000 krónur.  Er í fjárhæðum þessum tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.