Hæstiréttur íslands
Mál nr. 526/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2016, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðar úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Með kyrrsetningarbeiðni 28. ágúst 2015 fór varnaraðili fram á að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kyrrsetti „svo mikið af eignum“ sóknaraðila að nægði til tryggingar fullnustu kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila, annars vegar að fjárhæð 5.023.200 evrur með tilgreindum dráttarvöxtum og hins vegar 28.510.835 krónur, en síðarnefnda fjárhæðin var samtala útlagðs kostnaðar vegna þýðingar, málskostnaðar, virðisaukaskatts og kyrrsetningargjalds í ríkissjóð. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns var beiðnin tekin fyrir 7. september sama ár og kyrrsett innstæða á tilgreindum reikningi sóknaraðila fyrir framangreindum fjárhæðum. Varnaraðili höfðaði síðan í júní og september 2015 mál á hendur sóknaraðila og þremur einstaklingum, sem fékk málsnúmerið E-3170/2015 í héraði, þar sem hann krafðist þess að kyrrsetningargerðin yrði staðfest til tryggingar kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila „í héraðsdómsmáli nr. E-2785/2015“ um að sóknaraðili yrði skyldaður til að innleysa 6,9% hlut varnaraðila í sóknaraðila. Jafnframt krafðist varnaraðili staðfestingar kyrrsetningargerðarinnar „að frágengnum öðrum kröfum“ varnaraðila í héraðsdómsmáli nr. E-2785/2015 til tryggingar kröfu varnaraðila um skaðabætur úr hendi sóknaraðila að fjárhæð 5.023.200 evrur vegna tjóns sem varnaraðili hafi orðið fyrir vegna ólögmætrar riftunar á 6,9% hlutaeign í sóknaraðila og afmáningar hlutarins af hlutaskrá sóknaraðila og málskostnaðarkröfu að fjárhæð 28.510.835 krónur. Enn fremur krafðist varnaraðili þess að sóknaraðila og fyrrgreindum einstaklingum yrði óskipt gert skylt að færa 6,9% hlutafjáreign varnaraðila í sóknaraðila inn á hlutaskrá sóknaraðila að viðlögðum dagsektum og „að frágengnum öðrum kröfum“ varnaraðila í héraðsdómsmáli nr. E-2785/2015 yrði sóknaraðili dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 5.023.200 evrur vegna tjóns sem varnaraðili hafi orðið fyrir vegna ólögmætrar riftunar á 6,9% hlutaeign varnaraðila í sóknaraðila og afmáningar hlutarins af hlutaskrá sóknaraðila. Að lokum krafðist varnaraðili þess að mál þetta yrði sameinað héraðsdómsmáli nr. E-2785/2015.
Með úrskurði héraðsdóms 16. mars 2016 var kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila og einstaklingunum þremur um að þeim yrði óskipt gert skylt að færa 6,9% hlutafjáreign varnaraðila í sóknaraðila inn á hlutaskrá sóknaraðila og kröfu varnaraðila um skaðabætur úr hendi sóknaraðila að fjárhæð 5.023.200 evrur vegna ólögmætrar riftunar á 6,9% hlutaeign varnaraðila í sóknaraðila og afmáningar hlutarins af hlutaskrá sóknaraðila vísað frá dómi, þar sem talið var að ágreiningur út af kröfunum ætti undir gerðardóm samkvæmt hluthafasamkomulagi og kaupréttarsamningi milli aðila. Þá var kröfu varnaraðila um sameiningu áðurnefndra mála vísað frá dómi. Á hinn bóginn var hafnað kröfu sóknaraðila um frávísun kyrrsetningarkröfu varnaraðila og málskostnaðar vegna hennar. Varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi 6. maí 2016 í máli nr. 246/2016. Við meðferð málsins hér fyrir dómi féll varnaraðili frá kröfu sinni á hendur áðurnefndum einstaklingum.
Í þinghaldi 6. júní 2016 í framangreindu héraðsdómsmáli nr. E-3170/2015 lagði varnaraðili fram beiðni um að dómkvaddir yrðu menn til að svara nánar tilgreindum spurningum. Sagði í matsbeiðni að matinu væri ætlað að vera sönnunargagn fyrir gerðardómi, en jafnframt sönnunargagn í staðfestingarmálum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna þriggja kyrrsetningargerða, sem fram hafi farið 7. september 2015, þar sem kyrrsettir hafi verið fjármunir á reikningi sóknaraðila, samtals að fjárhæð 14.477.112 evrur. Með hinum kærða úrskurði var fallist á matsbeiðni varnaraðila.
II
Varnaraðili vísar í matsbeiðni sinni um lagastoð fyrir dómkvaðningu matsmanna til 61. gr. laga nr. 91/1991, en samkvæmt þeirri grein skal matsbeiðni beint til þess dómara sem fer með mál eftir að það er höfðað.
Svo sem að framan greinir var öðrum kröfum varnaraðila en kröfu hans um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar 7. september 2015 og málskostnaðar vegna hennar vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að málsaðilar hafi samið um að efnislegur ágreiningur þeirra ætti undir gerðardóm. Liggur þannig fyrir að afdrif efniskrafna varnaraðila, sem liggja að baki kyrrsetningarkröfu hans, munu ráðast af úrlausn gerðardóms. Þar sem fjárkröfu varnaraðila hefur verið vísað frá héraðsdómi yrði matsgerð bersýnilega tilgangslaus til sönnunar kyrrsetningarkröfu hans, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verður kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna því hafnað.
Varnaraðila, Vita ehf., verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er beiðni varnaraðila, Vita ehf., um dómkvaðningu matsmanna.
Varnaraðili, Viti ehf., greiði sóknaraðila, LS Retail Holding ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2016
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 23. júní sl. er höfðað af Vita ehf., Fornubúðum 12 í Hafnarfirði, með stefnu birtri 30. júní, 17. og 19. september sl., á hendur LS Retail Holding ehf., Borgartúni 25 í Reykjavík, Brynjari Þór Hreinssyni, Kjalarlandi 12 í Reykjavík, Birnu Hlín Káradóttur, Þinghólsbraut 49 í Kópavogi og Gísla Val Guðjónssyni, Lálandi 22 í Reykjavík.
Með úrskurði dómsins þann 16. mars sl. var kröfum á hendur Brynjari, Birnu og Gísla Val vísað frá dómi sem og hluta krafna á hendur LS Retail Holding ehf. Með dómi Hæstaréttar þann 6. maí sl., í máli nr. 246/2016, var staðfestur úrskurður dómsins að því er varðar frávísun krafna á hendur LS Retail Holding.
Á dómþingi þann 6. júní lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Í næsta þinghaldi á eftir, þann 23. júní sl., krafðist stefndi þess að beiðninni yrði hafnað. Gerðu aðilar máls grein fyrir sjónarmiðum sínum um þann ágreininginn og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.
Mál þetta, svo sem það lítur úr að gengnum framangreindum úrskurði héraðsdóms og dómi Hæstaréttar, er höfða til staðfestingar á kyrrsetningu sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði á innistæðu stefnda á tilteknum reikningi að fjárhæð 5.120.520 evrur og 28.510.834 krónum þann 7. september sl. í kyrrsetningarmáli K-17/2015, sbr. VI. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Svo sem fram kemur í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 246/2016 og í dómi réttarins í máli nr. 247/2016, hefur kröfum stefnanda, sem kyrrsetningunni er ætlað að tryggja, verið vísað frá dómi. Byggir sú niðurstaða á því að efnislegur ágreiningur málsins eigi undir gerðardóm samkvæmt samningi aðila þar um.
Í matsbeiðni óskar stefnandi eftir því að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að svara eftirfarandi spurningum:
1. Hvert var markaðsvirði heildarhlutafjár LS Retail ehf. á alþjóðlegum markaði á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram þann 27. apríl 2015?
2 Var það verð sem greitt var fyrir LS Retail ehf. í samræmi við markaðsvirði hlutafjár LS Retail ehf. á alþjóðlegum markaði á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram þann 27. apríl 2015?
3. Hversu söluvænlegt var LS Retail ehf. á alþjóðlegum markaði þann 27. apríl 2015 og hvert var vænt söluandvirði alls hlutafjár í LS Retail ehf. þann 27. apríl 2015 miðað við að ekki hafi verið tímapressa á söluferlinu, þ.e. ekki sé gert ráð fyrir afslætti af söluverði til að flýta fyrir sölu.
4. Hvert var virði hlutafjár í LS Retail Holding ehf. kt. 470610-0770, þann 27. apríl 2015, að teknu tilliti til niðurstöðu matsmanna í lið 3.1. – 3.3. áður en hluthafafundur tók ákvörðun um sölu LS Retail ehf. til Anchorage Capital?
Í matsbeiðni er vísað til 61. gr. laga nr. 91/1991 og tilgangur matsins sagður sá að sanna hvert raunverulegt söluverð LS Retail ehf. hafi verið þann 27. apríl 2015, daginn sem hluthafafundur LS Retail Holding ehf. tók ákvörðun um að selja félagið. Matinu sé ætlað að vera sönnunargagn fyrir gerðardómi þar sem stefnandi hafi m.a. uppi kröfu um ógildingu og breytingu á framangreindri ákvörðun hluthafafundar stefnda. Þá segir í matsbeiðninni að matinu sé jafnframt ætlað að vera sönnunargagn í staðfestingarmálum fyrir héraðsdómi vegna þriggja kyrrsetningargerða. Auk þeirrar kyrrsetningagerðar sem er til úrlausnar í þessu máli er vísað til tveggja annarra staðfestingarmála sem nú eru rekin af öðrum aðilum gegn stefnda.
Stefndi mótmælir dómkvaðningu matsmanna og krefst þess að matsbeiðninni verði hafnað. Byggir hann þá kröfu aðallega á því að matsgerðin sé bersýnilega tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, þar sem öllum efniskröfum í málinu hafi verið vísað frá dómi og til úrlausnar gerðardóms. Gerðardómur hafi þegar verið skipaður í máli Ö-10/2013. Þá vísar hann til þess að stefnandi hafi þegar höfðað sérstakt matsmál, M-81/2016, þar sem sama matsbeiðni sé til úrlausnar. Hafi stefnandi því ekki skýrt hvað hann hyggist í raun sanna með matsgerðinni og hvernig það tengist sakarefni málsins, sem nú lúti einvörðungu að því hvort skilyrði kyrrsetningar hafi verið fyrir hendi. Jafnframt byggir stefnandi á því að matspurningar séu ótækar, órökréttar og óljóst orðaðar.
Stefnandi mótmælir því að matgerð sé þýðingarlaus og vísar til þess að það sé stefnanda að sanna að fjárhæð kyrrsetningar hafi verið rétt með hliðsjón af fjárhæð þeirra krafna sem að liggja að baki henni. Stefandi hafi forræði á sönnunarfærslu í málinu og sé því frjálst að afla matgerðar til stuðnings umdeildum staðhæfingum. Þá sé honum brýnt að afla sönnunargagna þegar í stað þar sem að öðrum kosti sé hætta á réttarfarsspjöllum þar sem skammir frestir séu til málarekstur til ógildingar ákvarðana hluthafafundar, sbr. 71. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Mál þetta hafi sjálfstæða þýðingu gagnvart gerðardómi og matgerðar megi afla í þessu máli óháð málsmeðferð fyrir gerðardómi. Þá mótmælir stefnandi sjónarmiðum stefnda um formgalla á matsspurningum.
Niðurstaða
Svo sem mál þetta snýr við héraðsdómi nú, lýtur ágreiningur þess að því hvort skilyrði kyrrsetningar í kyrrsetningarmáli K-17/2015 séu fyrir hendi, sbr. VI. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Svo sem ráða má af VI. kafla laga nr. 31/1990 er gert ráð fyrir því leyst sé úr ágreiningi um gildi kyrrsetningar samhliða því sem dæmt er um gildi þeirrar kröfu sem kyrrsetningu er ætlað að tryggja. Úrlausn þess hvort stefnandi eigi þá kröfu á hendur stefnda sem hann heldur fram hefur verið vísað til gerðardóms.
Tilgangur þeirrar matsgerðar sem stefnandi hyggst afla er að sanna sanna staðhæfingar sem stefnandi byggir efnislegar kröfur sínar á. Segir í matsbeiðni að matsgerðinni sé m.a. ætlað að vera sönnunargagn í gerðardómsmáli milli aðila og jafnframt í öðrum kyrrsetningarmálum sem rekin eru gegn stefnda.
Svo sem að framan er rakið hefur dómurinn vísað þessum hluta ágreinings aðila frá dómi. Stefndi byggir á því að matsgerð um þetta atriði sé bersýnilega þarflaus vegna þess að hún lúti að ágreiningi sem gerðardómi hafi verið falið að leysa úr.
Á það er fallist með stefnda að matsgerðin lúti að atriðum sem heyrir undir gerðardóm að leysa úr skv. samningi aðila, sbr. 9. gr. hluthafasamkomulags frá 6. desember 2013 og fyrir liggur að héraðsdómur hefur, með úrskurði í máli Ö-10/2016, þegar tilnefnt gerðardómsmann að kröfu stefnanda, enda komu aðilar sér ekki saman um gerðardómsmann. Verður því að leggja til grundvallar að gerðardómur muni nú taka til starfa og leysa úr framangreindum ágreiningi aðila.
Að mati dómsins verður hins vegar ekki talið að stefnanda sé með öllu óheimilt að afla sönnunargagna fyrir dómi um úrlausnaratriði sem gerðardómi hefur verið falið að leysa úr. Vísast í þessu efni til ummæla í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 53/1989, þar sem í skýringum við ákvæði sem varð að 7. gr. laganna er vikið að því að heimild aðila til að óska eftir vitnaskýrslum fyrir dómi til notkunar í gerðardómsmáli. Gilda sömu sjónarmið um öflun matsgerða fyrir dómi.
Að auki er ekki hægt að útiloka nú að afdrif málsmeðferðar gerðardóms verði önnur en sú að kveðinn verði upp gildur gerðardómur í málinu. Ætla verður að málatilbúnaður stefnda nú sé byggður á því að stefnandi muni byggja rétt sinn í þessu máli á niðurstöðu gerðardóms. Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 53/1998 segir að ef aðili geri það, geti gagnaðili hans vefengt gildi gerðardóms vegna þeirra atriði sem talin eru í 12. gr. laganna. Í 12. gr. er fjallað um það hvað valdið geti ógildi gerðardóms. Með hliðsjón af þessum ákvæðum laga nr. 53/1998, er ekki loku fyrir það skotið að gildi gerðardóms verði vefengt á síðari stigum. Undir þeim kringumstæðum kann það að koma til kasta dómsins að taka afstöðu til réttmæti efnislegra krafna stefnanda. Að þessu virtu er ekki fallist á það með stefnda að ljóst sé á þessu stigi málsins að matsgerð í málinu yrði bersýnilega þýðingarlaus. Verður matsbeiðni því ekki hafnað á þeim grundvelli.
Svo sem rakið er að framan lúta þær matsspurningar sem stefnandi setur fram í matsbeiðninni að ætluðu markaðsvirði hlutafjár í LS Retail ehf. á tilteknum degi og samanburði þess við raunverulegt söluverð félagsins, sbr. spurningu 1 og 2. Þá er óskað eftir því að matsmenn leggi mat á það hversu söluvænlegt félagið hafi verið og hvert líklegt söluandvirði hafi verið, miðað við tilteknar forsendur sem settar eru fram í 3. spurningu og loks óskað mats á virði hlutafjár í LS Retail Holding ehf., með hliðsjón af niðurstöðu matsmanna af framangreindum spurningum. Spurningar þessar lúta að kjarna ágreinings aðila og er ekki fallist á það með stefnanda að þær séu órökréttar eða ótækar. Þá er ekki heldur fallist á að notkun hugtaka sé svo óljós að valdið geti vafa um það um hvað er spurt enda er það á áhættu matsbeiðanda ef ágreiningur um afmörkun matspurninga leiðir til þess að sönnunargildi matsgerðar verði rýrara en ella.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er ekki fallist á mótmæli stefnda við umbeðnu mati og mun dómkvaðning matsmanna fara fram í samræmi við beiðni stefnanda.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Fallist er á beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanna.