Hæstiréttur íslands

Mál nr. 89/2002


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Skilorðsrof
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. maí 2002.

Nr. 89/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Helga Þór Magnússyni

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Þjófnaður. Skilorðsrof. Ítrekun.

Í samræmi við játningu H var hann sakfelldur fyrir þjófnað. Við ákvörðun refsingar var litið til 5. og 7. tl. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. H hafði ítrekað gerst sekur um þjófnaðarbrot, sbr. 71. gr. laganna, og enn á ný rofið skilorð með broti sínu. Þótti því ekki fært að skilorðsbinda refsingu H og var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að refsing ákærða verði staðfest.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa stolið 10. nóvember 2001 ferðatölvu að verðmæti 200.000 krónur í verslun í Reykjavík. Hefur ákærði játað brot sitt og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði hefur áður hlotið fimm refsidóma fyrir þjófnað. Var refsing hans í þeim öllum, að þeim fyrsta undanskildum, skilorðsbundin í þrjú ár. Var hann fyrst dæmdur 30. október 1989 í fangelsi í 3 mánuði. Rúmum sjö árum síðar, 20. nóvember 1996, var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir stuld á áfengisflösku. Á árinu 1999 hlaut hann tvo refsidóma, þann fyrri 16. febrúar, tveggja mánaða fangelsi fyrir fyrir þjófnað á matvörum, sælgæti og potti, samtals að verðmæti 16.297 krónur, og var refsing samkvæmt dóminum frá 20. nóvember 1996 dæmd með, en þann síðari 29. apríl, fimm mánaða fangelsi fyrir þjófnað á rakspíra og myndbandsspólu, samtals að verðmæti um 5.000 krónur. Var refsing samkvæmt fyrri dóminum dæmd með þar sem ákærði hafði rofið skilorð þess dóms. Loks var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi 23. ágúst 2001 fyrir þjófnað á herrabol, að verðmæti tæplega 900 krónur, og enn var skilorðsbundin refsing þess dóms er hann hlaut þar á undan dæmd með.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð fram skýrsla Páls Ásgeirssonar geðlæknis 12. apríl 2002 um andlega hagi ákærða, en hann leitaði til læknisins í kjölfar þess brots, sem mál þetta snýst um, og hefur mætt reglulega í viðtöl hjá lækninum fram að þessu. Í niðurstöðum skýrslunnar segir meðal annars að ákærði sé haldinn skyndihvöt til að stela verðmætum, sem hann hafi enga þörf fyrir, enda hafi hann ávallt átt nægilegt fé til að greiða fyrir þann varning sem hann hafi stolið. Góð von sé á að í geðlæknismeðferðinni takist ákærða að koma lífi sínu í betri skorður. Hann sé nú í sjálfboðavinnu og hafi lokið námskeiðum hjá Rauða krossi Íslands og stefni að því að hefja framhaldsnám að nýju. Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til 5. og 7. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þess að hann hefur játað brot sitt greiðlega. Það er sammerkt þeim brotum, sem fjallað er um í þeim dómum sem ákærði hefur hlotið frá árinu 1996, að verðmæti hinna stolnu muna er smávægilegt. Með því broti sem ákærði hefur gengist við í máli þessu hefur hann rofið skilorð dómsins frá 23. ágúst 2001. Verður því að ákveða refsingu hans í einu lagi fyrir þau brot, sem þar voru til meðferðar og það brot sem hann er nú sakfelldur fyrir, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum, og ber að ákveða refsingu hans með tilliti til 71. gr. og 77. gr. sömu laga. Að öllu þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Þar sem ákærði hefur ítrekað gerst sekur um þjófnaðarbrot og enn á ný rofið skilorð þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

         Ákærði, Helga Þór Magnússon, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

         Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

        

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2002.

Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 18. desember sl. á hendur ákærða, Helga Þór Magnússyni, kt. 130868-4959, Miðstræti 3, Reykjavík, „fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 10. nóvember 2001 stolið ferða­tölvu, að verðmæti um kr. 200.000, í verslun Landssímans hf., verslunar­miðstöðinni Kringlunni, Kringlunni 8-12, Reykjavík.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Málavextir

Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða. 

Ákærði á að baki talsverðan sakferil.  Hann hefur rofið skilorð 6 mánaða fangelsisdóms frá því í ágúst í sumar.  Dæma ber upp þann dóm og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Helgi Þór Magnússon, sæti fangelsi í 8 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.