Hæstiréttur íslands

Mál nr. 103/2011


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Fjársvik
  • Hylming
  • Skjalabrot
  • Umferðarlagabrot
  • Fíkniefnalagabrot
  • Skilorðsrof
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Skaðabætur
  • Upptaka


                                                                                              

Fimmtudaginn 17. nóvember 2011.

Nr. 103/2011.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Hreiðari Erni Svanssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Þjófnaður. Fjársvik. Hylming. Skjalabrot. Umferðarlagabrot. Fíkniefnalagabrot. Skilorðsrof. Hegningarauki. Ítrekun. Skaðabætur. Upptaka.

H var dæmdur í 2 ára fangelsi fyrir þjófnað, fjársvik, hylmingu, skjalabrot, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Var hann sviptur ökurétti ævilangt auk þess sem honum var gert að að greiða skaðabætur til brotaþola og sæta upptöku á fíkniefnum. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að dómur héraðsdóms verði óraskaður að öðru leyti en því að ákærði verði sviptur ökurétti ævilangt frá dómsuppsögu.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og að hún verði að öllu leyti eða að hluta skilorðsbundin. Þá krefst hann þess að upphafstími sviptingar ökuréttar teljist frá dómsuppkvaðningu.

Fyrir héraðsdómi var farið með mál ákærða sem játningarmál, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er hún réttilega færð til refsiákvæða. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærði nú sakfelldur fyrir mörg brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, eða níu þjófnaðarbrot, ýmist einn eða með öðrum, hylmingu í tvö skipti, fjársvik, auk skjalamisnotkunar. Þá er hann sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa meðal annars ekið bifreið fjórum sinnum undir áhrifum fíkniefna og margoft fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Að lokum er hann sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa í vörslu sinni ávana- og fíkniefni.

Sakarferli ákærða er lýst í héraðsdómi og nær hann aftur til loka árs 2004 en hlé varð á brotum hans frá 2005 til 2008. Þrátt fyrir að ákærði hafi oftar en einu sinni hlotið dóma fyrir hegningarlagabrot hefur einungis einn þeirra verið óskilorðsbundinn er hann var 17. desember 2009 dæmdur til sektargreiðslu fyrir brot gegn 244. gr. og 1. mgr. 157. gr. laganna. Hafa aðrir dómar ekki ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar ákærða, sbr. 61. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn verður litið til þess að fjórum sinnum frá því að ákærði varð 18 ára hefur hann hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot sem áhrif hafa á ákvörðun refsingar hans nú. Eins og greinir í héraðsdómi var refsing samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2010 tekin upp og dæmd með í dómi sama dómstóls 14. júní sama ár og ber með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp refsingu samkvæmt síðastgreindum dómi og dæma í einu lagi með þeirri refsingu sem ákærða verður nú ákveðin, sbr. 77. gr. og 78. gr. sömu laga, en brot þau sem ákærði er fundinn sekur um eru ýmist framin fyrir eða eftir þann dóm.

Loks ber við ákvörðun refsingar ákærða að líta sérstaklega til þess að fram er komið að ákærði hefur breytt lifnaðarháttum sínum og er tekið undir með héraðsdómi að refsing hans skuli jafnframt ákveðin með tilliti til 5. og 8. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt öllu framansögðu ákveðst refsing ákærða fangelsi í tvö ár.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna, skaðabætur og sakarkostnað verða staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu verður, eins og málsaðilar krefjast báðir, staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Eftir þessum úrslitum málsins verður ákærða gert að greiða helming sakarkostnaðar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara nemur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti 8.651 krónu, en við þá fjárhæð bætast málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Hreiðar Örn Svansson, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði  er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna, greiðslu skaðabóta og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem nemur samtals 159.251 krónu, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns 150.600 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. janúar 2011.

Mál þetta, sem þingfest var 16. desember 2010 og dómtekið sama dag er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 9. nóvember 2010 á hendur Hreiðari Erni Svanssyni, kt. [...], [...], [...],

fyrir neðangreind brot á umferðar- og hegningarlögum:

I.

með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 7. desember 2008 ekið bifreiðinni [...] suður Vesturlandsveg um Brúartorg í Borgarnesi, óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns og metamfetamíns og fyrir að hafa umrætt sinn í vörslum sínum 4,57 gr af kókaíni sem lögregla fann við leit á ákærða og 1,52 gr af amfetamíni sem fundust við leit í bifreið ákærða eftir handtöku hans. (013-2008-4967)

Teljast brot ákærða varða  við 1., sbr. 2. mgr.  45. gr. a., umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga og  2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

II.

með því að hafa á tímabilinu 24. til 26. febrúar 2010 brotist inn í geymsluhúsnæði við [...] í Þorlákshöfn með því að spenna upp glugga á vesturhlið húsnæðisins og stolið þaðan hleðslutæki, brúnum trékassa er innihélt sandblásturskönnu, hvítum trékassa er innihélt haglabyssuskot og bílkerti, þvottavél, gaseldavél og camo felubirgi. (033-2010-1207)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

III.

með því að hafa, á sama tíma og í ákærulið II greinir, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, að og frá innbrotsstað; [...] í Þorlákshöfn. (033-2010-1207)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

IV.

með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 27. febrúar 2010 í smábátahöfninni í Grundarfirði stolið tveimur handfærarúllum úr [...] þar sem umræddur bátur lá við landfestar í höfninni. (014-2010-3623)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

V.

með því að hafa skömmu eftir að atburðir samkvæmt ákærulið IV áttu sér stað stolið 4 handfærarúllum úr [...]þar sem báturinn stóð á bátavagni norðan við hús [...] í Grundarfirði. (014-2010-3553)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

VI.

með því að hafa þá sömu nótt og frá greinir í ákæruliðum IV og V í iðnaðarhverfinu í Grundarfirði, stolið 30 til 40 lítrum af eldsneyti af [...] vörubifreið, sem ákærði setti á bifreiðina [...], sbr. ákærulið VII. (014-2010-3553)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

VII.

með því að hafa að kvöldi föstudagsins 26. febrúar 2010 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti frá Reykjavík áleiðis á Grundarfjörð og um Grundarfjörð sbr. ákæruliði IV – VI og þaðan aftur til Reykjavíkur.  (014-2010-3553)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

VIII.

með því að hafa að morgni 11. mars 2010 á heimili sínu að [...] í [...], haft í vörslum sínum Facom verkfæraskáp, ýmis handverkfæri, loftpressu og ryksugu sem stolið var í tveimur innbrotum í bifreiðageymslu við [...] í Mosfellsbæ á tímabilinu 25. febrúar 2010 til 5. mars 2010, en ákærða var ljóst eða mátti vera ljóst að um þýfi var að ræða. (007-2010-13272 & 007-2010-14020)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

IX.

með því að hafa í byrjun mars 2010 stolið yfirbyggðri vélsleðakerru þar sem hún stóð á bifreiðastæði við [...] í Reykjavík. (033-2010-1641)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

X.

með því að hafa í byrjun árs 2010 í heimildarleysi og blekkingarskyni fært skráningarmerki bifreiðinnar [...] yfir á bifreið sem bera átti skráningarnúmerið [...]. (033-2010-1497)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

XI.

með því að hafa, síðdegis miðvikudaginn 10. mars 2010 ekið óþekktri bifreið sviptur ökurétti frá dvalarstað sínum að [...] í [...], að lögreglustöðinni við [...] í [...].  (033-2010-1497)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

XII.

með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 11. mars 2010 í samverknaði við X, kt. [...] brotist inn í tvo vörugáma er stóðu við [...] í Reykjavík og stolið þaðan 4 vetrarhjólbörðum af gerðinni Groundhog 38x15” á hvítum stálfelgum og tveimur vetrarhjólbörðum af gerðinni Monster mudder 38x15” á álfelgum alls að áætluðu verðmæti 1.000.000 kr. (007-2010-15728)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

XIII.

með því að hafa að morgni miðvikudagsins 24. mars 2010 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti norður Þorlákshafnarveg í Ölfusi. (033-2010-1814)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

XIV.

með því að hafa, að morgni fimmtudagsins 11. mars 2010 á heimili sínu að [...] haft í vörslu sinni 4 ljósbláa jeppabrettakanta en ákærða var ljóst, eða mátti vera ljóst að um þýfi var að ræða. (007-2010-4202/033-2010-1497)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

XV.

með því að hafa sunnudaginn 18. apríl 2010 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns vestur Eyrarbakkaveg og þaðan suður Hraunteig án þess að virða stöðvunarmerki lögreglu, sem gefin voru með hljóð- og ljósmerkjum, þaðan vestur Háeyrarvelli og Eyrargötu með allt að 136 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km á klukkustund áfram vestur Búðarstíg með allt að 112 km hraða á klukkustund, en Búðarstígur er vistgata og er afmörkuð sem slík með umferðarmerkinu D14.11 og skal hámarkshraði þar að jafnaði ekki vera meiri en 15 km á klukkustund. (033-2010-2459)

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., 1., sbr. 2. mgr.  45. gr. a., 3. mgr. 5. gr., 1. mgr., sbr. 4. mgr. 37. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 7. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga

XVI.

með því að hafa að morgni sunnudagsins 2. maí 2010 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti vestur Bíldshöfða í Reykjavík, óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns. (007-2010-27274)

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr.  45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga

XVII.

með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 17. júní 2010 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti norður Norðurlandsveg við Torfalæk í A-Húnavatnssýslu, óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns.  (020-2010-1166)

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr.  45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga

XVIII.

með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 8. júlí 2010 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti norður Hafnafjarðarveg við Silfurtún í Hafnarfirði. (007-2010-43912)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

XIX.

með því að hafa síðdegis sunnudaginn 25. júlí 2010 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti vestur Grundargötu í Grundarfjarðarbæ. (014-2010-15467)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

XX.

með því að hafa, snemma morguns laugardaginn 18. september 2010 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti vestur Hallsveg í Reykjavík. (007-2010-60925)

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum, frá 12. ágúst 2013 að telja, til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá nr. 14992 & 15000), samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

1.                  Vegna ákæruliðar II gerir Gestur Óskar Magnússon hdl. kröfu um að ákærða verði gert að greiða kr. 622.617,- í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi til þess dag ser dómsmál var höfðað, en vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.

2.                  Vegna ákæruliðar IV gerir Pétur Kristinsson hdl. kröfu um að ákærða verði gert að greiða kr. 1.010.000 í skaðabætur, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 27. febrúar 2010 til 27. mars 2010 og dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. s.l.  Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta.  Til vara er þess krafist að fjárhæð skaðabóta verði 700.000 kr., með sömu vöxtum og í aðalkröfu.

3.                  Vegna ákæruliðar V gerir Gestur Óskar Magnússon hdl. kröfu um að ákærða verði gert að greiða kr. 569.000,- í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi til þess dag er dómsmál var höfðað, en vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.”

Einnig hefur lögreglustjórinn á Hvolsvelli, höfðað mál á hendur ákærða með ákæru dags. 14. desember 2010. Hlaut sú ákæra málanúmerið s-581/2010 og hafa málin verið sameinuð undir málanúmerinu s-559/2010.  Í síðargreindu ákærunni er mál höfðað á hendur ákærða

I.

fyrir innbrot og þjófnað

með því að hafa í samverknaði ásamt Y, kt. [...] á tímabilinu 25. janúar 2009 til 2. febrúar 2009, að [...] í Rangárþingi Eystra

a.

brotist inn í bifreiðina [...] af gerðinni Nissan Patrol og tekið þaðan dvd-spilara, GPS-tæki af gerðinni Magellan, VHF-talstöð af gerðinni Motorola, loftdælu af gerðinni FINE, verkfæri (sic), geisladiska og dvd-diska að óþekktu verðmæti.

b.

brotist inn í vöruskemmu og stolið þaðan tveimur torfæruhjólum af gerðinni Yamaha IX 125 og Thumpster, hvort tveggja að óþekktu verðmæti.

c.

stolið fjórhjóli af gerðinni Raptor, að óþekktu verðmæti,

Telst ofangreind háttsemi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

fyrir skjalabrot

með því að hafa, í aprílmánuði 2009 í heimildarleysi og blekkingarskyni sett skráningarmerki bifreiðarinnar [...] yfir á bifreiðina [...], en lögreglan hafði fjarlægt skráningarnúmer af bifreiðinni [...] vegna tjóns þann 10. nóvember 2008. Lögreglu barst tilkynning um stuld á skráningarnúmerum bifreiðarinnar [...] þann 25. apríl 2009 þar sem bifreiðin stóð á bifreiðastæði við Bíldshöfða.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

fyrir fjársvik

með því að hafa, þann 19. apríl 2009, í heimildarleysi og óleyfi, selt bifreiðina [...] og móttekið greiðslu fyrir söluandvirði hennar að upphæð kr. 50.000,- úr hendi A, kt. [...],

Telst brot ákærða varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

IV.

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa að morgni laugardagsins 23. október 2010 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, norður Þverholt í Mosfellsbæ, uns aksturinn var stöðvaður af lögreglu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Í málinu gerir A, kt. [...], kröfu um „[..] greiðslu kaupverðs sem andvirði bifreiðar, að upphæð 50.000 kr., sem ég greiddi í góðri trú, og auk þess greiðslu dráttarvaxta frá greiðsludegi til þess tíma sem skuldin verður greidd“. (sic)“

Ákærði mætti við þingfestingu málsins ásamt Sveini Andra Sveinssyni hrl. og óskaði  eftir honum sem verjanda og var lögmaðurinn skipaður verjandi ákærða í þinghaldinu.  Ákærði játaði sakargiftir að fullu og hreinskilnislega í öllum liðum beggja ákæranna.  Aðspurður af dómara kvaðst ákærði ekki taka afstöðu til fram kominna einkaréttarkrafna.  Var málið tekið til dóms skv. 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eftir að sækjandi og ákærði hafði tjáð sig um lagaatriði og viðurlög.

Um málavexti vísast til ákæruskjala.  Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins og ekki er ástæða til að draga í efa að sé rétt, er sannað að ákærði framdi brot þau sem greinir í ákærum og eru réttilega færð til refsiákvæða.  Með háttsemi sinni hefur ákærði unnið sér til refsingar.

Samkvæmt sakavottorði sem liggur frammi í málinu hófst sakaferill ákærða með því að á árunum 2004-2006 var honum þrívegis gert að greiða sektir fyrir fíkniefnabrot, alls að fjárhæð kr. 142.500.  Þann 18. desember 2006 var frestað ákæru á hendur ákærða, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir þjófnað.  Þann 12. ágúst 2009 hlaut ákærði 177.500 kr. sekt fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, önnur umferðarlagabrot og fíkniefnabrot.  Þá var hann sviptur ökurétti í 12 mánuði.  Þann 4. nóvember 2009 fékk ákærði 60.000 kr. sekt fyrir akstur sviptur ökurétti.  Þann 17. desember 2009 var ákærði dæmdur til að greiða 300.000 kr. sekt fyrir skjalamisnotkun, þjófnað og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, og sviptur ökurétti í 2 ár.  Þann 14. janúar 2010 var ákærði dæmdur í 5 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir skilasvik og þjófnað og loks var ákærði dæmdur þann 14. júní 2010 í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir of hraðan akstur, akstur sviptur ökurétti, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og önnur umferðarlagabrot, ásamt skjalamisnotkun.  Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í 1 ár.  Var dómurinn að hluta hegningarauki og var fyrri skilorðsdómur dæmdur með.

 Brot þau sem ákærði er nú sakfelldur fyrir eru ýmist framin fyrir eða eftir uppsögu síðast greindra tveggja dóma og ber að líta til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar ákærða nú.  Ber að dæma ákærða hegningarauka að hluta til, en jafnframt verður litið til þess að ákærði hefur margsinnis rofið skilorð dómsins frá 14. janúar 2010 og jafnframt rofið skilorð dómsins frá 14. júní 2010.  Ber að dæma síðastgreindan dóm upp og gera ákærða refsingu í einu lagi sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga.  Ákærði hefur játað brot sín hreinskilnislega. Hann kvaðst hafa snúið af vegi afbrota og fíkniefnaneyslu, jafnframt því að hann hygðist hefja nám í [...] í [...] í janúar 2011, en um væntanlega skólavist sína lagði ákærði fram gögn.  Þykir mega líta til 5. og 8. tl. 70. gr., 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar sem er hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.  Ekki kemur til álita að binda refsinguna skilorði, en þá er einkum litið til sakaferils og þess að ákærði hefur margsinnis rofið skilorð tveggja síðustu skilorðsdóma.

Með hliðsjón af sakaferli og því að ákærði hefur öðru sinni gerst sekur um ítrekaðan akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna ber að svipta hann ökurétti ævilangt sbr. tilfærð ákvæði í ákæru, einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og telst upphafstími hinnar ævilöngu sviptingar frá 12. ágúst 2013 en þá rennur út tímabundin svipting ökuréttar ákærða.

Í málinu eru gerðar einkaréttarkröfur eins og lýst er í ákærum.  Þegar einkaréttarkröfur voru bornar undir ákærða við dómsmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki taka afstöðu til þeirra.  Telur dómurinn að í því felist sú afstaða að ákærði hafi ekki mótmælt þeim.  Í einkaréttarkröfu nr. 1 vegna ákæruliðar II krefst Gestur Óskar Magnússon hdl. þess, fyrir hönd B hf., að ákærða verði gert að greiða bætur að fjárhæð kr. 622.617 ásamt vöxtum og dráttarvöxtum, auk málskostnaðar.  Samkvæmt gögnum málsins hefur B greitt bætur vegna umrædds innbrots, en gögn málsins bera með sér að greiddar hafa verið bætur vegna hvarfs ýmissa muna sem ákærða hefur ekki verið gefið að sök að hafa stolið en jafnframt verður ekki séð á gögnum sem fylgdu bótakröfu að greiddar hafi verið bætur vegna allra þeirra muna sem tilteknir eru í ákærunni og ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að hafa stolið.  Þykir bótakrafan vera svo vanreifuð að óhjákvæmilegt er að vísa henni frá dómi án kröfu.  Í einkaréttarkröfu nr. 2, vegna ákæruliðar nr. IV, hefur Pétur Kristinsson hdl., fyrir hönd C ehf., gert kröfu um að ákærða verði gert að greiða bætur að fjárhæð kr. 1.010.000, en til vara kr. 700.000, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.  Af fjárhæðinni eru 100.000 vegna lögfræðikostnaðar við að halda fram bótakröfunni.  Er vafalaust að mati dómsins að ákærði hefur bakað sér bótaskyldu með broti sínu, en bótakrafan er í samræmi við gögn málsins.  Með því að ákærði hefur ekki mótmælt kröfunni verður hann dæmdur til að greiða hana ásamt vöxtum og dráttarvöxtum eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.  Í einkaréttarkröfu nr. 3, vegna ákæruliðar nr. V, hefur Gestur Óskar Magnússon hdl., fyrir hönd B hf., krafist þess að ákærði verði dæmdur til að greiða kr. 569.000 í skaðabætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum, auk málskostnaðar.  Kemur fram í bótakröfu að B hafi bætt hinar stolnu rúllur, annars vegar með greiðslu á kr. 300.000 þann 13. apríl 2010 og hins vegar með greiðslu á kr. 269.000 þann 27. maí 2010.  Er vafalaust að mati dómsins að ákærði hefur bakað sér bótaskyldu með broti sínu, en hann hefur ekki mótmælt bótakröfunni og bótakrafan er í samræmi við gögn málsins.  Ber að dæma ákærða til greiðslu bóta, en ekki þykir fært að láta fjárhæðirnar bera vexti frá þeim degi sem ákærði framdi verknað sinn og þykir rétt að miða við þann tíma sem bætur voru greiddar fyrir rúllurnar.  Ekki eru efni til að ákveða málskostnað enda verður ekki séð að B hf. hafi haft af því kostnað að halda fram kröfunni.  Í fjórðu einkaréttarkröfu, vegna ákæruliðar nr. III í ákæru dags. 14. desember 2010,  krefst A þess að ákærði verði dæmdur til „greiðslu kaupverðs sem andvirði bifreiðar, að upphæð 50.000 kr., sem ég greiddi í góðri trú, og auk þess greiðslu dráttarvaxta frá greiðsludegi til þess tíma sem skuldin verður greidd.“  Ljóst er að með háttsemi sinni og móttöku fjárins hefur ákærði valdið A tjóni og með því skapað sér bótaskyldu sem hann hefur ekki mótmælt, en krafan er í samræmi við gögn málsins.  Verður hann því dæmdur til greiðslu bóta, kr. 50.000, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.

Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 ber að gera upptæk haldlögð fíkniefni, sbr. efnaskrá nr. 14992 og 15000.

Samkvæmt 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar.  Samkvæmt sakarkostnaðaryfirlitum sem ákæruvaldið hefur lagt fram er útlagður kostnaður vegna blóðsýna og rannsóknar á þeim kr. 374.182 og ber að dæma ákærða til að greiða þann kostnað, ásamt málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, sem ákveðast kr. 100.000 að meðtöldum virðisaukaskatti og akstri.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Kröfu B hf. um að ákærði greiði bætur að fjárhæð kr. 622.617, auk vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar, er vísað frá dómi.

Ákærði, Hreiðar Örn Svansson, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá 12. ágúst 2013.

Ákærði greiði C ehf. kr. 1.010.000, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 910.000, frá 27. febrúar 2010 til 27. maí 2010, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001, af kr. 910.000, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B hf. kr. 569.000 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 300.000 frá 13. apríl 2010 og af kr. 269.000 frá 27. maí 2010, hvort tveggja til 27. júní 2010, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001, af kr. 569.000 frá þeim degi til greiðsludags. 

Ákærði greiði A kr. 50.000 ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. apríl 2009 til 29. maí 2009, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Upptæk eru gerð 4,72 gr. af kókaíni og 1,52 gr. af amfetamíni (efnaskrár nr. 14992 og 15000)

Ákærði greiði kr. 474.182 í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., kr. 100.000.