Hæstiréttur íslands

Mál nr. 850/2016

Veitustofnun Skútustaðahrepps (Guðjón Ármannsson hrl.)
gegn
Jónasi Pétri Péturssyni (Gizur Bergsteinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Aðfararheimild

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi fjárnámsgerð sýslumanns vegna ógreiddra hitaveitugjalda J á þeim grundvelli að V hefði brostið heimild til að byggja kröfu um gjöldin á áætlun í stað þess að staðreyna raunverulega vatnsnotkun með álestri af mælum. Í dómi Hæstaréttar var úrskurðurinn staðfestur með þeirri athugasemd að V gæti án tillits til afstöðu umráðamanns fasteignar átt úrræði til að koma við slíkum álestri.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 2. janúar 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. desember 2016, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra gerði hjá honum 1. júní 2015 fyrir kröfu sóknaraðila að fjárhæð samtals 127.495 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, en sóknaraðila var veitt leyfi til kæru 6. janúar 2017. Hann krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um ógildingu fjárnámsins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara að fyrrnefndu fjárnámi verði breytt þannig að það taki til lægri fjárhæðar og málskostnaður falli þá niður á báðum dómstigum.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði var fjárnámið, sem deilt er um í málinu, gert fyrir kröfu, sem sóknaraðili telur sig eiga á hendur varnaraðila vegna gjalda fyrir hitaveitu til tveggja nánar tilgreindra fasteigna á árunum 2011 til og með 2014, en gjöld þessi reisti sóknaraðili á áætlun um vatnsnotkun. Héraðsdómur tók til greina kröfu varnaraðila um ógildingu fjárnámsins á þeim grundvelli að sóknaraðila hafi brostið heimild til að byggja kröfu um gjöldin á áætlun í stað þess að raunveruleg vatnsnotkun yrði staðreynd með álestri af mælum. Að því verður að gæta að sóknaraðili getur án tillits til afstöðu umráðamanns fasteignar átt úrræði til að koma við slíkum álestri, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 18. apríl 1975 í máli nr. 74/1974, sem birtur er í dómasafni réttarins 1975 á bls. 423. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsenda hans.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Veitustofnun Skútustaðahrepps, greiði varnaraðila, Jónasi Pétri Péturssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. desember 2016.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar mánudaginn 10. október 2016, er komið til dómsins með bréfi sóknaraðila, Jónasar Péturs Péturssonar, Skútahrauni 16, Skútustaðahreppi, mótt. 29. júní 2015, þar sem sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sýslumannsins á Norðurlandi eystra nr. 024-2015-00463, sem fram fór hinn 1. júní 2015 að kröfu varnaraðila, Veitustofnunar Skútustaðahrepps, Hlíðarvegi 6, Skútustaðahreppi, „verði ógilt eða til vara breytt þannig að fjárnámskrafa verði lækkuð.“ Þá krefst hann málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað en umþrætt aðfarargerð staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

Með gerðinni var gert fjárnám í eignarhluta Jónasar Péturs í fasteigninni Vogum 2, Skútustaðahreppi, fnr. 216-3259, fyrir kröfu samtals að fjárhæð 127.495.

Úrskurður í málinu, upp kveðinn hinn 10. maí 2016, var ómerktur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 455/2016.

Málavextir

Sóknaraðili krefst í málinu ógildingar eða breytingar aðfarargerðar nr. 024-2015-00463. Hún fór fram hinn 1. júní 2015 og var varnaraðili þessa máls gerðarbeiðandi en sóknaraðili gerðarþoli. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumannsins á Norðurlandi eystra var krafizt fjárnáms fyrir kröfu að fjárhæð 127.495 krónur sem sundurliðaðist svo að höfuðstóll nam 98.776 krónum, dráttarvextir 23.214 krónum, innheimtuþóknun var 56.701 króna og fjárnámsgjöld 5.900 krónur. Til frádráttar skyldu koma 57.096 krónur vegna „Hlutd. í afgj. skv. samningi frá 01.07.1971.“ Loks skyldi fjárnámið ná til áfallandi dráttarvaxta, kostnaðar við gerðina og kostnaðar af frekari fullnustugerðum ef til þeirra kæmi. Segir í gerðabók sýslumanns að gert hafi verið fjárnám, að ábendingu varnaraðila, í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Vogum 2, Skútustaðahreppi, fnr. 216-3295. Af hálfu sóknaraðila var mætt við gerðina og því lýst yfir að aðförinni yrði skotið til héraðsdóms.

Í aðfararbeiðni er byggt á því að sóknaraðili hafi hvorki greitt hitaveitugjöld vegna hitaveitu í íbúðarhúsi að Vogum 2, sem sóknaraðili eigi að þriðjungi, né hitaveitugjöld vegna hitaveitu í vélageymslu að Vogum 2, sem sóknaraðili eigi 12% hlut í.

Í aðfararbeiðninni segir að varnaraðili hafi tekið við öllum réttindum og skyldum Hitaveitu Reykjahlíðar eftir að hitaveitur hafi verið gerðar skattskyldar skv. lögum nr. 50/2005. Þá segir í beiðninni að reikningar vegna ógreiddra hitaveitugjalda vegna íbúðarhússins Voga 2 séu gerðir á dánarbú Sigurgeirs Jónassonar en sóknaraðili eigi húsið að þriðjungi en reikningar vegna ógreiddra hitaveitugjalda vegna vélageymslunnar séu gerðir á Félagsbúið Vogum 2 og 4, en sóknaraðili eigi þar 12% hlut. Er vísað til þess að samkvæmt 79. gr. orkulaga nr. 58/1967 og 4. gr. reglugerðar nr. 432/1985 megi taka öll gjöld samkvæmt gjaldskrá lögtaki á kostnað gjaldanda. Í beiðninni segir jafnframt að samkvæmt. 3. gr. reglugerðarinnar hafi varnaraðili „einkaleyfi til dreifingar og sölu á heitu vatni með þeim takmörkunum sem um [geti] í 9. og 11. gr. samnings við landeigendur í Vogum frá 1971, sem [sé] meðfylgjandi aðfararbeiðni þessari.“

Hinn 1. júlí 1971 var gerður samningur milli oddvita Skútustaðahrepps fyrir hönd Hitaveitu Reykjahlíðar annars vegar og eigenda jarðarinnar Voga hins vegar. Samkvæmt samningnum skyldu landeigendur leggja á eigin kostnað asbestpípu frá skiptistöð í Reykjahlíð að Vogum, með nauðsynlegum búnaði. Að henni fullgerðri skyldi hún afhent hitaveitunni sem skyldi annast rekstur hennar, viðhald og endurnýjun. Landeigendur skyldu leggja hitaveitunni til 4,5 sekúndulítra „af heitu vatni fyrir hitaveituna“ sem skyldi greiða fyrir vatnið, árlega miðað við mestu vatnssölu á hverju almanaksári. Er til tekið hversu háar þær greiðslur skuli vera og skal fjárhæðin fara með nánari hætti eftir vatnssölu hitaveitunnar og vera verðtryggðar miðað við vísitölu byggingarkostnaðar 1. október 1971. Landeigendum sé heimilt að nota afgangsvatn til eigin þarfa til heyþurrkunar og ræktunar endurgjaldslaust.

Í málinu liggur afrit bréfs landeigenda í Vogum til sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, dags. 31. desember 1991. Þar segir: „Þar sem landeigendur í Vogum hafa ekki fengið svar við tillögu er lögð var fram á fundi með sveitarstjóra Skútustaðahrepps 19. nóvember s.l. varðandi breytingar á leigusamningi frá 1971 vegna hitaveitu Reykjahlíðar þá tilkynnist hér með að frá 1. janúar 1992 láta landeigendur í Vogum hitaveituna hafa 2,5 lítra á sek. af heitu vatni. Frá sama tíma munu þeir nota sjálfir 2 lítra á sek. til eigin þarfa og greiða því ekki til hitaveitu Reykjahlíðar fyrir vatnsnotkun.“

Þá liggur í málinu bréf landeigendanna til sveitarstjórnarinnar, dags. 20. júlí 1992. Þar segir: „Hér með tilkynnist að undirritaðir segja hér með upp leigusamningi er gerður var 1971 milli oddvita Skútustaðahrepps f.h. Hitaveitu Reykjahlíðar og landeigenda í Vogum.“

Hinn 10. febrúar 2015 höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila og öðrum eigendum jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi og krafðist þess að viðurkennt yrði annars vegar að áðurnefndur samningur 1. júlí 1971 væri gildur og hins vegar að varnaraðili væri eigandi að „asbestpípu sem liggur frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga“. Með úrskurði héraðsdóms 7. apríl 2016 var kröfu varnaraðila um að viðurkennt yrði að samningurinn væri í gildi vísað frá dómi, en með dómi Hæstaréttar Íslands 12. maí 2016 í máli nr. 311/2016 var það ákvæði úrskurðarins fellt úr gildi.

Varnaraðili sendi sóknaraðila innheimtubréf, dags. 18. júní 2014. Þar segir meðal annars: „Þann 10. júní s.l. sendum við landeigendum í Vogum og rétthöfum skv. samningi milli eigenda jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi og oddvita Skútustaðahrepps f.h. Hitaveitu Reykjahlíðar frá 1. júlí 1971 bréf þar sem upplýst er að ekki verði lengur unað við þá réttaróvissu sem uppi sé og verið hefur um árabil um gildi þess samnings og því brýnt að dómstólar skeri hið fyrsta úr réttarágreiningi þ.a.l. Á sama tíma hafa safnast upp vanskil notenda Hitaveitu Reykjahlíðar í Vogalandi.“ Er í bréfinu sögð vakin athygli á því að greiðsluskylda einstakra notenda hitaveitunnar sé reist á reglugerð nr. 432/1985 fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar og hafi hún „í sjálfu sér ekkert með samninginn frá 1971 að gera.“ Allt að einu eigi sóknaraðili „á grundvelli þess samnings rétt á afgjaldi og [nemi] ófyrndar og gjaldfallnar eftirstöðvar þess fyrir árin 2010, 2011, 2012 og 2013 samtals kr. 54.708,-.“ Komi sú fjárhæð til frádráttar skuld sóknaraðila við varnaraðila.

Innheimtubréfið, dags. 18. júní 2014, var ítrekað með öðru dags. 4. febrúar 2015. Er þar sérstaklega ítrekað að greiðsluskylda einstakra notenda sé reist á reglugerð nr. 432/1985 en hafi „í sjálfu sér ekkert með samninginn milli eigenda jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi og oddvita Skútustaðahrepps f.h. Hitaveitu Reykjahlíðar frá 1. júlí 1971 að gera.“

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst byggja á því að ákvæði orkulaga nr. 58/1967 séu ófullnægjandi aðfaraheimild í máli þessu þar sem þau uppfylli ekki lögmætisreglu stjórnskipunarréttar, sbr. einnig 40. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Það sé meginregla að aðför sé framkvæmd á grundvelli eða að undangenginni meðferð dómstóla, sbr. 1. – 3. tl. 1. mgr., 1. gr. og 11. gr. laga nr. 90/1989. Heimild til aðfarar án undanfarandi aðkomu dómstóla, svo sem 10. tl. 1.mgr. 1. gr. laganna, sé því undantekning. Af þeim sökum og vegna íþyngjandi eðlis aðfarar, verði krafa sem fella á undir slíka heimild að byggja á tvímælalausu lagaákvæði. Í 79. gr. laga nr. 58/1967 sé einungis með almennum hætti mælt fyrir um að taka megi lögtaki gjöld samkvæmt lögunum og reglugerðum og gjaldskrám settum samkvæmt þeim. Þá sé ekki að finna í lögunum neina tilgreiningu á þeim gjöldum sem að reglugerðir eða gjaldskrár hitaveitna geti mælt fyrir um, öðru en heimæðagjaldi. Jafnframt séu engin ákvæði í lögunum um andlag gjaldtöku eða á hverjum greiðsluskylda vegna gjalda skv. 79. gr. eigi að hvíla, hver geti verið gerðarþoli vegna lögtaks. Sóknaraðili segir að almenn og ótilgreind heimild í lögum nr. 58/1967 um lögtaksrétt, án nánari tilgreiningar andlags gjaldtöku, greiðanda gjalda og álagningar að öðru leyti, sé ekki fullnægjandi til skerðingar eigna. Þá geti löggjafinn ekki framselt framkvæmdavaldinu vald til að ákvarða og innheimta ótilgreind gjöld af ótilgreindum aðilum og enn síður heimilað innheimtu slíkra gjalda með valdboði í formi lögtaks. Um þetta megi vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 642/2012.

Þá segist sóknaraðili telja aðfararbeiðni varnaraðila ekki nægilega skýra og glögga til þess að sýslumaður hafi mátt byggja aðför á henni, samkvæmt 10. gr. laga nr. 90/1989. Sóknaraðili segir að varnaraðili segi kröfu sína um gjaldtöku byggða á 79. gr. laga nr. 58/1967 og 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 432/1985. Ákvæði þessi séu almenns eðlis en mæli ekki fyrir um skyldu til greiðslu tiltekinna gjalda. Sóknaraðili kveðst hér vísa til fyrri orða sinna um efni 79. gr. laga nr. 58/1967, en einnig byggja á að í 3. gr. reglugerðar nr. 432/1985 sé mælt fyrir um einkaleyfi hitaveitu Reykjahlíðar til dreifingar og sölu á heitu vatni og í 4. gr. segi að hitaveitan innheimti hitaveitugjöld samkvæmt gjaldskrá. Þannig mæli lagaákvæðið og jafnvel reglugerðin ekki fyrir um gjaldskyldan aðila, gjaldstofn eða reglur um ákvörðun gjalds. Af þessu leiði að í aðfararbeiðni sé ekki vísað til fullnægjandi og nauðsynlegra gjaldtökuheimilda. Þá sé ekki í aðfararbeiðni gerð grein fyrir þeirri gjaldskrá sem krafa gerðarbeiðanda styðjist við og enn síður sé vísað til þeirra ákvæða í slíkri gjaldskrá sem fjárkrafan sé byggð á. Beri því að ógilda fjárnámsgerðina þar sem aðfararbeiðni hafi ekki tilgreint með skýrum hætti gjaldtökuheimildina eins og krafizt sé samkvæmt 10. gr. laga nr. 90/1989.

Sóknaraðili segir að aðfararheimildin sé byggð á reikningum gerðarbeiðanda sem beint sé til þriðja aðila, en ekki sóknaraðila og hvíli engin skylda á sér að greiða slíka fjárkröfu á hendur þriðja aðila. Af því leiði að gerðarþoli samkvæmt umþrættri fjárnámsgerð sé ekki réttur gerðarþoli vegna fjárkrafna samkvæmt aðfararheimild, sbr. 3. gr. laga nr. 90/1989. Af þeim sökum eigi að ógilda aðfaragerðina. Megi hér einnig vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 642/2012.

Sóknaraðili segir að annarsvegar sé fjárkrafa varnaraðila á hendur sér byggð á reikningum sem beint sé til dánarbús Sigurgeirs Jónassonar sem greiðanda. Sóknaraðili kveðst mótmæla lögmæti þess að aðför sé gerð hjá honum vegna kröfu sem byggð sé á reikningum á hendur þessum lögaðila, sbr. 3. gr. laga nr. 90/1989. Varnaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á að sóknaraðila beri að greiða fjárkröfu á hendur þessu dánarbúi, en sönnunarbyrði fyrir því hvíli á varnaraðila.

Þá segir sóknaraðili að fjárkrafa varnaraðila sé einnig byggð á reikningum sem beint sé til félagsbúsins Voga 2 og 4 sem greiðanda. Sóknaraðili segist mótmæla lögmæti þess að aðför sé gerð hjá sér vegna kröfu sem byggð sé á reikningum á hendur þessum lögaðila, sbr. 3. gr. laga nr. 90/1989. Þá hafi varnaraðili ekki leitt í ljós á hvaða forsendum sóknaraðili beri greiðsluskyldu vegna fjárkröfu á hendur þessum þriðja aðila en sönnunarbyrði vegna þess hvíli á varnaraðila.

Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi höfðað dómsmál á hendur sóknaraðila og fleirum en í málinu sé meðal annars deilt um gildi samnings aðila og þar af leiðandi um rétt sóknaraðila til nýtingar á heitu vatni og þannig, eðli málsins samkvæmt um rétt varnaraðila til að innheimta hitaveitugjöld af sóknaraðila og öðrum landeigendum. Innheimtukrafa varnaraðila sé meðal annars byggð á hinum umþrætta samningi við landeigendur í Vogum og sóknaraðili þar með talinn eins og sjá megi af tilgreiningu samningsins í aðfararbeiðni. Landeigendur hafi sagt upp samningi við varnaraðila hinn 20. júlí 1992 en í umræddu dómsmáli sé meðal annars deilt um gildi þeirrar uppsagnar. Áður en landeigendur í Vogum hafi sagt upp samningnum hafi þeir tilkynnt varnaraðila að þeir myndu sjálfir nota 2 sekúndulítra af vatnsrétti sínum til eigin nota. Landeigendur í Vogum, sóknaraðili þar með talinn, hafi frá þeim tíma hagað ráðstöfunum sínum í samræmi við tilkynninguna og lög. Hafi þeir haft réttmætar væntingar um að geta notað eigið heita vatn til húshitunar og að hagsmunum þeirra yrði ekki raskað með fjárkröfu varnaraðila rúmum tveimur áratugum eftir uppsögn samningsins enda hafi varnaraðili ekki áður gripið til innheimtuaðgerða. Þannig hafi sóknaraðili og aðrir landeigendur í Vogum aðeins notað vatn í eigin eigu en ekki sé ágreiningur um að landeigendurnir, þar með talinn sóknaraðili, eigi 4,5 sekúndulítra af heitu vatni. Samkvæmt stjórnarskrá og 10. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé landeiganda, eins og sóknaraðila, heimilt að hagnýta án leyfis jarðhita í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa allt að 3,5 MW eða 10,48 sekúndulítrum. Hafi á engan hátt verið sýnt fram á að raunnotkun landeigenda í Vogum hafi verið meiri en þessi. Þvert á móti hafi samanlögð raunnotkun landeiganda verið áætluð innan við 1,5 sekúndulítrar. Af þessu öllu sé ljóst að engin greiðsluskylda sé enda hafi sóknaraðili einungis nýtt eigið vatn. Þá hafi notkun jarðarinnar Voga verið mun minni en eign jarðarinnar, og þar með allra landeigenda, á heitu vatni. Þá sé einnig ljóst að greiðsluskylda sóknaraðila á fjárkröfu varnaraðila sé í hæsta lagi óviss og sé ágreiningur um það efni nú fyrir dómstólum í framangreindu dómsmáli. Með vísan til þess sé ljóst að verulegur vafi sé um réttmæti kröfugerðar beiðanda. Skilyrði aðfarar um skýra og ótvíræða kröfu sé þannig ekki uppfyllt sbr. 10. gr. og 2. mgr. 27. aðfararlaga. Þessu til viðbótar feli aðförin í sér inngrip stjórnvalds í ráðstöfun réttinda sem deilt sé um fyrir dómstólum en slíkt standist ekki 2. og 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með vísan til þessa kveðst sóknaraðili mótmæla því að varnaraðili eigi þann rétt sem fjárkrafa hans sé byggð á. Verði að minnsta kosti að telja ljóst að veruleg óvissa ríki um réttinn. Af þeim sökum hafi sýslumanni því borið að hafna því að gerðin færi fram, þar að auki feli framkvæmd aðfararinnar í sér ráðstöfun réttinda sem deilt sé um fyrir dómstólum. Vegna þessa beri að ógilda aðfarargerðina.

Sóknaraðili segir að af reikningum þeim, sem krafa varnaraðila sé studd við, sé ljóst að byggt sé á áætlaðri vatnsnotkun en ekki raunnotkun vatns. Þannig segi skýrlega á umræddum reikningum að hitaveita sé áætluð. Með því að bera saman framlagða reikninga sjáist að á hverju ári sé áætlun miðuð við sama magn rúmmetra, 995 fyrir dánarbú Sigurgeirs Jónassonar og 249 fyrir Félagsbúið Vogum 2 og 4. Sé horft til gjaldskrár varnaraðila fyrir árið 2014, númer 475/2014, komi fram að aðeins sé í undantekningartilvikum heimilt að gera kröfu um gjöld samkvæmt áætlun. Þetta sé annars vegar þegar mælir hafi ekki verið settur upp en hins vegar þegar hann bilar, sbr. 3. mgr. 3. gr. gjaldskrárinnar. Ekki hafi verið sýnt fram á að slík undantekningarregla eigi við um sóknaraðila en varnaraðila beri að sýna fram á að skilyrði séu til að byggja gjaldtöku á slíkri undantekningarreglu, sé hún yfirleitt lögmæt. Þessu til viðbótar beri reikningar varnaraðila með sér að gerð sé krafa um mánaðargjald mælis, en á sumum reikningum sé sú þversögn að gerð sé krafa um greiðslu fyrir vatnsnotkun samkvæmt áætlun en ekki álestri mælis. Sóknaraðili segist mótmæla því að lögmætt sé að gera kröfu um gjald fyrir mæli sem svo virðist ekki notaður. Sóknaraðili segist byggja á því að jafnvel þó að litið væri svo á að varnaraðili geti krafizt greiðslu fyrir notkun á heitu vatni sé umkrafin fjárkrafa bæði óviss og ósönnuð þar sem ekki hafi verið sýnt fram á raunverulega notkun á vatni. Sé ekki lögmætt að byggja fjárkröfu á áætlun þegar meginreglan samkvæmt gjaldskrá varnaraðila byggi á raunnotkun. Með vísan til þessa beri að ógilda fjárnámsgerðina.

Verði þessi sjónarmið ekki tekin til greina segist sóknaraðili byggja á því að fjárnámskrafan sé alltof há og að af þeim sökum eigi að ógilda fjárnámsgerðina eða breyta henni til lækkunar.

Sóknaraðili kveðst byggja á því að hann hafi einungis notað eigið hitaveituvatn og sé þar af leiðandi ekki kaupandi heits vatns af varnaraðila. Um þetta sé meðal annars deilt í áður nefndu dómsmáli. Sýslumaður hafi ekki samþykkt þetta og hafi þannig farið inn á svið dómstóla. Sóknaraðili kveðst, hvað sem því líði, telja að jafnvel þótt fallizt væri á heimild varnaraðila til innheimtu hitaveitugjalda sé frádregið afgjald rangt reiknað. Í því sambandi sé rétt að hafa í huga að varnaraðili haldi því fram að samningur hans við landeigendur í Vogum, sóknaraðila þar með talinn, sé enn í gildi. Kom þetta meðal annars fram í því að varnaraðili dragi frá kröfu sinni leigugjald fyrir heita vatnið árin 2011 til 2014, reiknuðu samkvæmt eigin forsendum. Sóknaraðili kveðst telja útreikninga varnaraðila af afgjaldi, sem sýslumaður hafi samþykkt með framkvæmd fjárnámsins, rangt reiknaða og vegna þess galla beri að ógilda fjárnámsgerðina. Til vara sé gerð krafa um að fjárnámsgerðinni verði breytt og hún lækkuð í samræmi við útreikninga sóknaraðila. Samkvæmt útreikningum sóknaraðila nemi verðmæti hlutdeildar hans í afgjaldi jarðarinnar Voga vegna áranna 2011 til 2014 samtals 81.619 krónum. Afgjaldið sé þannig reiknað að afgjald, samkvæmt útreikningum varnaraðila frá árinu 1990, sé notað sem upphafsgjald og það síðan uppfært miðað við árlega hækkun byggingarvísitölu og fengin út hlutdeild sóknaraðila miðað við eignarhluta hans í landareign Voga. Varnaraðili reikni hins afgjaldið sem 57.096 krónur fyrir þennan tíma og muni þar 24.523 krónum. Við ógreitt afgjald eigi að bætast dráttarvextir af gjaldi hvers árs frá 1. nóvember 2011, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 en skýrt hafi verið kveðið á um það í samningi aðila frá 1. júlí 1971 að gjalddagi afgjalds væri 1. nóvember ár hvert. Nemi dráttarvextir af kröfu sóknaraðila um afgjald af tímabilinu 2011 til 1. maí 2015 samtals 92.336 krónum. Sóknaraðili kveðst byggja á því að þar sem afgjald hafi verið rangt reiknað beri að ógilda fjárnámsgerðina. Til vara sé þess krafizt að gerðinni verði breytt og hún lækkuð sem nemi vanreiknuðu afgjaldi áranna 2011 til 2014 ásamt dráttarvöxtum, samtals 116.859 krónum, eða hún að minnsta kosti lækkuð sem nemi mismuni á rétt reiknuðu og rangt reiknuðu afgjaldi, 24.523 krónum.

Þá kveðst sóknaraðili krefjast breytinga á upphæð fjárnámsgerðarinnar til lækkunar sem nemi skuldajöfnuði vegna vangreidds afgjalds áranna 1992 til 2010. Sóknaraðili segir að samkvæmt 40. gr. laga nr. 90/1989 sé gerðarþola heimilt að neyta réttar til skuldajafnaðar við kröfu gerðarbeiðanda meðal annars með kröfu sem gerðarbeiðandi viðurkennir rétta að uppfylltum almennum skilyrðum skuldajafnaðar. Fyrir liggi að varnaraðili viðurkenni að sér beri að greiða sóknaraðila afgjald og að varnaraðili hyggist líta til afgjalds vegna áranna 2011 til 2014 og lækka þannig kröfu sína. Varnaraðili reikni fjárhæð afgjaldsins hins vegar rangt og líti ekki til dráttarvaxta vegna vangreiðslu sinnar eins og sóknaraðili hafi fjallað um. Sóknaraðili segir að miðað við þær forsendur að greiðsluskylda sé til staðar krefjist sóknaraðili þess að til viðbótar því að frá kröfu varnaraðila dragist rétt reiknað afgjald áranna 2011 til 2014 verði afgjaldskröfu sóknaraðila vegna fyrri ára, ásamt dráttarvöxtum, skuldajafnað á móti því sem eftir standi af kröfu varnaraðila. Sé krafa sóknaraðila byggð á 40. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 26. gr. laga nr. 150/2007 og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1995. Sé bæði byggt á því að varnaraðili viðurkenni rétt sóknaraðila til afgjalds og að aðalkrafa og gagnkrafa séu samrættar enda sé vísað til samnings aðila frá 1971, bæði í aðfararbeiðni og reglugerð um varnaraðila nr. 432/1985. Þá haldi varnaraðili því fram í áðurnefndu dómsmáli að umræddur samningur sé í fullu gildi og yrði ekki fallizt á skuldajöfnun að þessu leyti myndi varnaraðili auðgast með óréttmætum hætti af vanefndum sínum á kostnað sóknaraðila. Sóknaraðili segir að ógreitt afgjald vegna áranna 1992 til 2010 nemi alls 195.634 krónum auk uppsafnaðra dráttarvaxta að fjárhæð 1.378.059 krónur, samtals 1.573.693 krónum. Afgjald sé reiknað út með sama hætti og vegna áranna 2011 til 2014. Sóknaraðili kveðst vegna dráttarvaxta einnig vísa til þeirra sjónarmiða sem áður hafi verið rakin varðandi afgjald sbr. lög nr. 38/2001 og eldri lög um sama efni nr. 25/1987. Með vísan til þessa sé gerð krafa um að fjárnámsgerðin verði ógilt enda sé ljóst að þegar litið hafi verið til skuldajafnaðarréttar sóknaraðila, þó einungis væri vegna afgjalds áranna 1992 til 2010, sé krafa gerðarbeiðanda orðin neikvæð. Verði ekki fallizt á ógildingu fjárnámsgerðarinnar þá sé með vísan til sömu sjónarmiða gerð krafa um að fjárnámsgerðinni verði breytt og fjárhæð kröfunnar lækkuð í 0.

Sóknaraðili segist mótmæla sérstaklega að fjárnám hafi verið gert samkvæmt dráttarvaxtakröfu varnaraðila. Í því sambandi sé rétt að benda á að reikningar beri með sér að þeir hafi aldrei verið gefnir út og hafi því aldrei borizt gerðarþola og hafi fyrst verið lagðir fram með aðfararbeiðninni. Þá sé gjaldskrá varnaraðila nr. 475/2014 óljós um hvenær gjalddagi hitaveitugjalda sé, hvort hann sé mánaðarlega eða sjaldnar. Allt að einu sé ljóst að gjalddagi geti ekki verið fyrr en við útsendingu reiknings, samkvæmt 2. mgr. 5. gr. gjaldskrárinnar.  Með vísan til þessa sé ljóst að verði fallizt á að varnaraðili eigi kröfu á hendur sóknaraðila verði dráttarvaxtakrafa ekki byggð á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 heldur 3. mgr. 5. gr. laganna. Af því leiði að krafan hafi einungis getað borið dráttarvexti 30 dögum eftir að boðun um aðför hafi borizt sóknaraðila. Með vísan til þessa beri að breyta fjárnámsgerð og lækka fjárhæð þeirrar kröfu sem fjárnám sé gert fyrir vegna dráttarvaxta sem nemi reiknuðum dráttarvöxtum fyrir 17. maí 2015 og að dráttarvextir reiknist einungis frá þeim degi.

 Þá segist sóknaraðili mótmæla því að fjárnám hafi verið gert fyrir kröfu sem að hluta til sé fyrnd enda hafi kröfu um fyrningu verið haldið uppi við framkvæmd gerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. gjaldskrár um starfsemi varnaraðila nr. 475/2014 skuli hitaveitugjöld að meginreglu vera krafin mánaðarlega, þegar eftir álestur mælis. Heimilt sé að fækka gjalddögum en það sé undantekning sem taka þurfi sérstaka ákvörðun um og liggi ekkert fyrir um að svo hafi verið gert gagnvart sóknaraðila. Sóknaraðila hafi aldrei verið sendir reikningar og hafi þeir ekki borizt fyrr en með aðfararbeiðni hinn 16. apríl 2015.

Sóknaraðili kveðst byggja á því að jafnvel þótt fallizt væri á heimild varnaraðila til að krefjast hitaveitugjalda, þá séu fyrndar kröfur vegna hitaveitugjalda sem stofnazt hafi í janúar og febrúar 2011, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007. Engu skipti þó gerðarbeiðandi hafi ekki sent reikning vegna þeirra mánaða enda geti kröfuhafi ekki varnað því að fyrningarfrestur byrji að líða með því að láta undir höfuð leggjast að senda reikning í samræmi við eigin reglur. Fyrningu krafna vegna ársins 2011 hafi þannig ekki verið slitið fyrr en í fyrsta lagi þegar sýslumanni hafi borizt aðfararbeiðni varnaraðila, 27. marz 2015, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Með vísan til þessa beri að breyta fjárnámsgerð þannig að fjárhæð fjárnámskröfu sé lækkuð sem nemi greiðslum vegna fyrndra gjalddaga í janúar og febrúar 2011 ásamt dráttarvöxtum af fjárhæð þeirra.

Sóknaraðili segir að með vísan til þess að fjárnámskrafa sé ólögmæt eða að minnsta kosti rangt reiknuð telji hann innheimtuþóknun samkvæmt henni alltof háa. Sé þess krafizt að innheimtuþóknun að fjárhæð 56.701 króna samkvæmt fjárnámsgerð verði felld brott eða lækkuð verulega samkvæmt mati dómsins.

Sóknaraðili kveðst styðja kröfu sína um greiðslu málskostnaðar við XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989.  Um heimild til að krefjast úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerð sé vísað til XV. kafla laga nr. 90/1989. 

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveðst byggja kröfur sínar á því að óháð samningi aðila frá 1971 sé hann í fullum rétti að krefja eigendur jarða í Vogum og notendur hitaveitu Reykjahlíðar um gjald fyrir notkun hitaveitunnar og kveðst byggja það á reglugerð nr. 432/1985, fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar og gjaldskrá veitunnar á hverjum tíma.

Varnaraðili segist mótmæla því að aðfararheimild sé ófullnægjandi og aðfararbeiðni sé ekki í lögmæltu formi. Heimild varnaraðila til lögtaks sé líkt og fram komi í aðfararbeiðni byggð á 79. gr. orkulaga nr. 58/1967, ákvæði reglugerðar nr. 432/1985 sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1885 og 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Í öllum þessum lagaákvæðum komi fram skýrar heimildir til þess að taka gjöld lögtaki. Því sé mótmælt sem fram komi í málsástæðum sóknaraðila að í orkulögum nr. 58/1967 sé ekki að finna neina tilgreiningu þeirra gjalda sem að reglugerðir eða gjaldskrár hitaveitna geti mælt fyrir um. Í 79. gr. laganna komi fram að öll gjöld skv. lögunum og reglugerðum og gjaldskrám settum samkvæmt þeim megi taka lögtaki. Í áðurnefndri reglugerð fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar komi fram í 4. gr. að til þess að standa straum af kostnaði við hitaveituna innheimti hún hitaveitugjöld svo sem orkugjöld og heimæðargjald, samkvæmt nánari ákvæði í gjaldskrá.

Varnaraðili kveðst mótmæla því að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 642/2012 sé fordæmisgefandi fyrir það mál sem hér sé deilt um. Í dóminum hafi ekki verið talið að í orkulögum nr. 58/1967 eða í öðrum lögum á sviði orkumála væri að finna heimild til að leggja skuld vegna orkukaupa á þriðja mann en hins vegar megi ráða af orðalagi dómsins að dómurinn telji 79. gr. orkulaga nægilega skýra heimild til þess að gjöld verði tekin lögtaki.

Til stuðnings mótmælum sínum við því að aðfararbeiðnin sé ekki í lögmæltu formi kveðst varnaraðili vísa til framangreindrar umfjöllunar um 79. gr. orkulaga og reglugerðar nr. 432/1985. Þá segist varnaraðili telja aðfararbeiðnina nægjanlega skýra og í lögmæltu formi enda uppfylli hún öll skilyrði 10. gr. laga nr. 90/1989. Í beiðninni komi glögglega fram hverjir gerðarbeiðendur og gerðarþoli séu og jafnframt sé nákvæmlega tiltekið hvers sé krafizt með aðfarargerðinni. Þá segist varnaraðili telja gjaldtökuheimild nægjanlega tilgreinda í beiðninni og það sé í samræmi við 10. gr. laga nr. 90/1989 enda sé þar vísað til orkulaga nr. 58/1967, ákvæðis reglugerðar nr. 432/1985, laga nr. 29/1885 og 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu sé ljóst að aðfararheimildir sem byggt hafi verið á í málinu og aðfararbeiðni séu nægilega skýr sem leiði til þess að aðfarargerðin verði staðfest.

Varnaraðili segir sóknaraðila byggja á því að aðför hafi ekki verið gerð hjá réttum gerðarþola þar sem fjárkröfu sé beint til þriðja aðila og vísi til þess að reikningar hafi verið gerðir á annars vegar dánarbú Sigurgeirs Jónassonar og hins vegar á félagsbúið Voga 2 og 4. Varnaraðili segir sóknaraðila vera þinglýstan eiganda þeirra eignar sem að veiturnar séu tengdar í. Í ljósi deilu aðila í áranna rás hafi nafn móttakanda reikninga vegna hitaveitugjalda ekki verið uppfært en þrátt fyrir það hafi reikningar verið sendir á það heimilisfang sem sé á reikningunum, Voga 2, Mývatni, og hafi reikningar áfram verið sendir út hinn 31. desember ár hvert. Þrátt fyrir að nafni á reikningunum hafi ekki verið breytt breyti það ekki greiðsluskyldu sóknaraðila enda sé hann eigandi þeirra eigna sem um ræði. Skuldin tilheyri því sóknaraðila og teljist þetta fullnægjandi sönnun fyrir því að hann beri þá skyldu sem um ræði. Þá hafi innheimtubréf verið sent honum. Varnaraðili segir að svo virðist sem sóknaraðili haldi því fram að hann beri ekki ábyrgð á umræddum hitaveitugjöldum eingöngu vegna þess að reikningar hafi ekki verið stílaðir á hann og hafi hann ekki mótmælt því að hann sé í raun eigandi þeirra eigna sem veiturnar séu tengdar í.

Varnaraðili segir dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 642/2012 ekki hafa fordæmisgildi í þessu máli enda lúti hann að annars konar atvikum. Hér sé ekki um það að ræða að skuld dánarbús eða skuld félagsbús færist á sóknaraðila heldur sé um það að ræða að hann, sem eigandi þeirra eigna sem veiturnar séu tengdar í, hafi sjálfur stofnað til skuldarinnar. Sóknaraðili hafi átt þær eignir frá árinu 1994 og sé því ljóst að hann hafi sjálfur stofnað til þeirrar skuldar sem um ræði.

Varnaraðili segir að þótt dómsmál hafi verið höfðað sé um að ræða tvö óskyld mál og komi umrætt héraðsdómsmál greiðsluskyldu sóknaraðila vegna hitaveitugjalda ekki við. Sú skylda sé meðal annars reist á reglugerð númer 432/1985 fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar. Sóknaraðili geti á engan hátt haft réttmætar væntingar um heimild til notkunar á vatni til húshitunar og þeim hagsmunum hans yrði ekki raskað með fjárkröfu varnaraðila. Deilur milli aðila hafi staðið um langa hríð og forsagan af uppsögn landeigenda gefi á engan hátt tilefni til réttmætra væntinga af hálfu sóknaraðila. Hinn 19. nóvember 1991 hafi komið fram ákveðnar hugmyndir landeigenda í Vogum um það til hvaða þátta endurskoðun samnings aðila frá 1971 ætti að taka. Þær hugmyndir hafi falið í sér að landeigendur seldu Hitaveitu Reykjahlíðar á leigu 2,5 sekúndulítra af vatni en tækju til eigin nota 2 sekúndulítra. Áður en hitaveitan hafi náð að bregðast við tillögunni hafi landeigendur í Vogum tilkynnt með bréfi dagsettu 31. desember 1991 að þeir myndu einhliða láta umræddar hugmyndir koma til framkvæmda og myndu því framvegis ekki greiða Hitaveitu Reykjahlíðar fyrir vatnsnotkun sína.  Veitna- og orkunefnd á vegum Skútustaðahrepps hafi fjallað um þessa tilkynningu á fundi sínum hinn 15. janúar 1992. Fram hafi komið það álit nefndarinnar að með vísan til reglugerðar nr. 432/1985 og gjaldskrár hitaveitunnar væri hún í fullum rétti til að krefja landeigendur í Vogum um greiðslu fyrir vatnsnotkun þrátt fyrir fyrri tilkynningu hlutaðeigandi aðila. Það sé því ljóst að afstaða varnaraðila til greiðsluskyldu sóknaraðila hafi legið fyrir um langa hríð og geti sóknaraðili ekki borið fyrir sig sjónarmið um réttmætar væntingar. Þá hafi reikningar vegna hitaveitugjalda verið sendir árlega á það heimilisfang sem veiturnar séu tengdar í og sóknaraðili sé eigandi að.

Varnaraðili segir að lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu breyti engu í þessu samhengi. Hinn 25. marz 1971 hafi landeigendur skrifað undir samning þar sem þeir hafi afhent ríkissjóði jarðhitaréttindi í landi Voga ásamt jarðhita og aðstöðu til nýtingar hans. Ríkissjóður hafi með sama samningi látið eigendum Voga ókeypis í té allt að 4,5 sekúndulítra af heitu vatni frá varmaveitu í Bjarnarflagi. Aðilar þessa máls hafi síðan skrifað undir samning hinn 1. júlí 1971 þar sem landeigendur hafi framselt til varnaraðila allt að 4,5 sekúndulítrum af heitu vatni gegn ákveðinni ársgreiðslu af hálfu varnaraðila. Landeigendur í Vogum eigi því sjálfir ekki jarðhita til umráða nema það sem fram komi í samningi aðila frá 1. júlí 1971, afgangsvatn til heyþurrkunar og ræktunar. Lög um rannsókn og nýtingu á auðlindum í jörðu hafi ekki tekið gildi fyrr en hinn 18. júní 1998 eða 27 árum eftir að samningur aðila hafi verið gerður. Í 10. gr. laganna segi að þrátt fyrir 6. og 7. gr. þeirra sé landeigenda heimilt án leyfis að hagnýta jarðhita í eignarlandi sínu til heimilis og búsþarfa. Í 6. og 7. gr. laganna komi einnig fram að nýting auðlinda úr jörðu sé háð nýtingarleyfi hvort um sé að ræða nýtingu auðlinda í eignarlöndum eða í þjóðlendum. Með lögunum hafi ekki verið ætlunin að breyta þeim samningum sem gerðir hafi verið fyrir gildistöku þeirra. Taki 10. gr. einungis til þess að landeigendur þurfi ekki að afla leyfis til hagnýtingar óráðstafaðs jarðhita í eignarlandi sínu. Í athugasemdum með frumvarpinu komi fram að lagt sé til að öll venjuleg nýting jarðhita á eignarlandi sé heimil án leyfis ráðherra. Í ljósi alls framangreinds séu staðhæfingar sóknaraðila um að lög nr. 57/1998 um rannsókn á nýtingu á auðlindum í jörðu heimili sóknaraðila að nýta jarðhita í landi sínu óháð samningi aðila ekki réttar.

Varnaraðili segir sóknaraðila byggja á því að ógilda eigi fjárnámsgerðina í ljósi þess að hún sé byggð á áætlun um vatnsnotkun. Rétt sé að undanfarin ár hafi verið byggt á áætlun, það sé vegna áralangs ágreinings milli aðila og þess að óframkvæmanlegt hafi verið að lesa af flestum mælum á jörðinni Vogum, þar á meðal mælum í eigum sóknaraðila. Starfsmanni Hitaveitu Reykjahlíðar, nú varnaraðila, hafi fyrir allmörgum árum verið meinaður aðgangur að mælum í flestum veitum á jörðinni Vogum. Eðli máls samkvæmt hafi starfsmenn því ekki getað lesið af mælum í eignum þar þ.m.t. hjá sóknaraðila. Varnaraðili hafi því þurft að nota áætlanir um notkun. Þær áætlanir séu byggðar á síðasta aflestri sem fram hafi farið. Sóknaraðili einn geti upplýst um raunnotkun en gera megi ráð fyrir að hún sé orðin mun meiri en áætlun segi til um enda byggð á gömlum forsendum. Verði að telja þetta falla undir þau undantekningartilvik sem vísað sé til í gjaldskrá varnaraðila, enda hafi honum verið ómögulegt að byggja á öðru en áætlun.

Varnaraðili segir að afgjaldið sé ekki rangt reiknað. Varnaraðili hafi haldið utan um leigugreiðslur til landeigenda í Vogum undanfarin ár og fært til gjalda á Hitaveituna og til skuldar við landeigendur í bókhaldi sínu. Sóknaraðili geti ekki lagt til grundvallar eigin forsendur á útreikningum og mótmæli varnaraðili þeim útreikningum. Varnaraðili segist taka fram, til að varpa frekari ljósi á skiptingu jarðarinnar Voga, að hún hafi fyrst skipzt í Voga 1, Voga 2 og Voga 3. Hver þriðjungur hafi fengið þriðjung jarðahitaréttindanna. Síðan hafi Vogar 1 skipzt í Voga 1 og Björk. Björk hafi fengið þriðjung þriðjungs Voga 1 í gömlu Vogum en Vogar 1 haldið tveimur þriðju hlutum. Vogar 2 hafi síðan skipzt í Voga 2 og Voga 4. Vogar 4 hafi fengið þriðjung Voga 2 úr gömlu Vogum, en Vogar 2 haldið tveimur þriðju hlutum. Jarðhitaréttindi hafi að sama skapi skipzt í þessu hlutfalli. Sóknaraðili eigi 12,5% hluta af jörðinni Vogum 2, sem sé 2,77% hlutur af jörðinni í heild.

Í gögnum málsins sjáist hvernig varnaraðili hafi reiknað út afgjaldið fyrir árin 2011 til 2014. Þar sjáist jafnframt að afgjaldið taki breytingum samkvæmt byggingavísitölu. Kveðst varnaraðili telja að miða beri við þessa útreikninga. Erfitt sé fyrir varnaraðila að átta sig á því hvernig útreikningar sóknaraðila séu fengnir. Varnaraðili segist í fyrsta lagi notast við grunn byggingarvísitölu frá 1955, en þar sé sá grunnur sem kveðið sé á um samningi aðila frá 1. júlí 1971. Sóknaraðili notist hins vegar við grunn frá 1983. Í öðru lagi notist sóknaraðili við grunngjaldið 740 krónur, sem hafi verið 74.000 krónur fyrir myntbreytingu. Kveðst varnaraðili telja þar vera um að ræða það sem komi fram í 7. gr. samningsins frá 1971, 50.000 krónur plús 2x12.000 krónur, samtals 74.000 krónur, eða 740 krónur eftir myntbreytingu. Slíkur reikningur sé rangur. Í 7. gr. samnings aðila frá árinu 1971 segi að árið 1992 og síðar skuli grunngjaldið vera 40.000 krónur, það hafi því lækkað frá árunum á undan úr 50.000 krónum í 40.000 krónur. Útreikningur sóknaraðila sé ekki miðaður við þetta. Varnaraðili segir að í útreikningum sínum hafi verið miðað við sölu hvers árs í sekúndulítrum sem hafi verið nálægt 8 til 10 sekúndulítrum í heildarsölu. Árið 2014 hafi salan náð hámarki og verið þá 10,52 sekúndulítrar. Hlutur landeigenda í Vogum í þeirri sölu hafi verið 2,1 sekúndulítri. Í samningi aðila frá árinu 1971 sé kveðið á um að greiða skuli fyrir 2,5 sekúndulítra meðan vatnssala Hitaveitunnar sé 2,5 sekúndulítri eða minni. Hvað sem því líði hafi útreikningur varnaraðila miðast við 3,13 sekúndulítra, sem sé sú tala þegar salan hafi verið sem mest. Allt frá árinu 2006 hafi sala landeiganda í Vogum verið vel innan við þessa 3,13 sekúndulítra og því ljóst að afgjaldið hafi verið ríflega reiknað af landeigendum í Vogum, þ.m.t. sóknaraðila. Þá sé miðað við grundvöll 400 krónur og 120 krónur fyrir einn byrjaðan sekúndulítra umfram 2,5 í samræmi við 7. gr. samnings aðila frá 1. júlí 1971. Ekki sé rétt að bæta dráttarvöxtum við afgjaldið, enda hafi það verið fært í bókhald Skútustaðahrepps á hverju ári og skuldajafnað á móti ógreiddum hitaveitugjöldum, afgjaldið sé því þegar greitt.

Varnaraðili segir sóknaraðila gera kröfu um skuldajöfnuð sem nemi vangreiddu afgjaldi áranna 1992 til 2010 og byggi kröfu sína meðal annars á 26. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt því ákvæði sé að aðalkrafan hafi stofnazt áður en gagnkrafan fyrnist. Þessu mótmæli varnaraðili. Varnaraðili segir að afgjaldinu hafi verið skuldajafnað á móti hitaveituskuld sóknaraðila í bókhaldi varnaraðila í áranna rás, afgjaldið hafi verið fært sem gjald hjá varnaraðila og til skuldar hjá sóknaraðila. Afgjaldið hafi því verið gert upp og greitt ár hvert. Verði ekki talið að afgjald hafi þegar verið skuldajafnað, kveðst varnaraðili telja ljóst að krafa sóknaraðila sé fyrnd og breyti 26. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 engu í því sambandi. Varnaraðili geri einungis kröfu um vangreidd hitaveitugjöld vegna áranna 2011 til 2014 og sé því ljóst að gjöld aftur til ársins 1992 hafi verið fyrnd þegar krafa varnaraðila hafi stofnazt. Þá geti varnaraðili með engu móti séð hvernig hann muni auðgast með óréttmættum hætti á kostnað sóknaraðila verði ekki fallizt á skuldajafnaðarkröfu sóknaraðila. Þvert á móti muni sóknaraðili auðgast á kostnað varnaraðila verði fallizt á kröfu hans með skuldajöfnun með fyrndri kröfu. Varnaraðili segir að verði ekki fallizt á þetta byggi hann á því að krafa sóknaraðila sé fallin niður sökum tómlætis. Sóknaraðili hafi ekki gert kröfu um afgjald úr hendi varnaraðila fyrr en nú og leiði það til ótækrar niðurstöðu ef fallizt yrði kröfu um vangreitt afgjald tuttugu og þrjú ár aftur í tímann án þess að sóknaraðili hafi gert nokkuð til að innheimta kröfu sína öll þau ár. Þá veki jafnframt furðu varnaraðila að miðað við málatilbúnað sóknaraðila vegna deilu aðila um gildi samnings frá 1971, þar sem sóknaraðili haldi því fram að uppsögn hans á samningnum sé gild og samningurinn sé þar af leiðandi ekki lengur í gildi, en geri samt sem áður kröfu um vangreitt afgjald langt aftur í tímann samkvæmt þeim sama samningi. Að sama skapi kveðist sóknaraðili leggja fram gögn um að hann eigi rétt á afgjaldi frá Sigurgeiri Jóhannssyni en sóknaraðili hafi eignazt jörðina Voga 2 árið 1994, en geri samt sem áður kröfur um vangreitt afgjald allt til ársins 1992. En að sama skapi hafni sóknaraðili að bera ábyrgð á greiðslu hitaveitugjalda vegna reikninga sem stílaðir hafi verið á db. Sigurgeirs Jónassonar, þrátt fyrir að varnaraðili sé þinglýstur eigandi þeirrar eignar sem um ræði. Sé málatilbúnaður sóknaraðila bæði mótsagnakenndur og illskiljanlegur og sé honum harðlega mótmælt.

Varnaraðili kveðst gera kröfu um dráttarvexti af kröfum sínum, samkvæmt aðfarargerð. Reikningar hafi verið sendir árlega á það heimilisfang sem stílað sé á þá, Voga 2. Sóknaraðili geti ekki borið fyrir sig að reikningarnir hafi aldrei borizt honum enda sé hann þinglýstur eigandi Voga 2, þess staðar þar sem reikningarnir hafa verið mótteknir. Reikningarnir séu dagsettir 31. desember ár hvert og skuli miðað við þá dagsetningu sem gjalddaga og sé það í samræmi við 2. mgr. 5. gr. gjaldskrár varnaraðila. Við þá dagsetningu miðist jafnframt dráttarvaxtakrafa varnaraðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 og hafi krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila verið færð inn í bókhald félagsins í samræmi við reikninga.

Varnaraðili segir að í ljósi þess að starfsmönnum hans hafi verið meinaður aðgangur að mæli til álestrar hafi ekki verið hægt að lesa af mælinum og senda reikninga mánaðarlega. Reikningar hafi hins vegar verið sendir út árlega með gjalddaga 31. desember og hitaveitugjöld krafin fyrir heilt ár í senn, því geti krafa varnaraðila ekki verið fyrnd enda hafi fyrningarfrestur fyrir árið 2011 ekki byrjað að líða fyrr en í fyrsta lagi 31. desember 2011, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007. Þá kveðst varnaraðili benda á að aðfararbeiðni sín sé dagsett 27. marz 2015 og sóknaraðili sé krafinn um vangreidd hitaveitugjöld fyrir árin 2011 til 2014. Engin krafa sé hins vegar gerð í aðfararbeiðni á þessu stigi fyrir fyrstu mánuði ársins 2015.

Varnaraðili kveðst mótmæla þeirri málsástæðu sóknaraðila að innheimtuþóknun samkvæmt fjárnámsgerð sé of há. Engin rök hnígi til þess að fella eigi innheimtuþóknun niður eða lækka hana, enda hafi varnaraðili verið í fullum rétti til að krefja sóknaraðila um vangreidd hitaveitugjöld og krefjast lögtaks hjá honum vegna þeirra, líkt og hafi verið rakið. Við útsendingu fyrri innheimtubréfs varnaraðila, dags. 18. júní 2014, hafi sóknaraðila verið boðið að gera upp skuld sína við varnaraðila án dráttarvaxta og innheimtuþóknunar. Í ljósi þess að engin viðbrögð hafi borizt frá sóknaraðila hafi dráttarvextir verið reiknaðir á skuld hans og innheimtuþóknun bætt við og sé það í samræmi við innheimtulög nr. 95/2008, einkum c. lið 2. mgr. 7. gr.

Varnaraðili segist styðja kröfur sínar við 79. gr. orkulaga nr. 58/1967, reglugerð nr. 432/1985 fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar, 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1885 og 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Dráttarvaxtakrafa sé studd við III. kafla laga nr. 38/2001, en málskostnaðarkrafa við XXI. kafla laga um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Óumdeilt er í málinu að fjárkrafa sú, sem varnaraðili hefur gert á hendur sóknaraðila og er grunnur hinnar umþrættu aðfarargerðar, er byggð á áætlun sóknaraðila en ekki mældri raunnotkun vatns.

Í 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 432/1985 um hitaveitu Reykjahlíðar segir að hitaveitan ákveði stærð og gerð mæla rennslis- og gjaldtökubúnaðar sem nota skuli, og láti setja þá á inntakspípur húsa sem tengd séu kerfi veitunnar og innsigla þá. Búnaður þessi sé í eigu og umsjá hitaveitunnar. Í 3. mgr. sömu greinar segir að starfsmenn hitaveitu skuli jafnan hafa frjálsan aðgang að pípulögnum bæði innanhúss og utan. Húsráðanda sé skylt að láta þeim í té þær upplýsingar sem máli geta skipt um hitun hússins og heitt kranavatn.

Í gjaldskrám Hitaveitu Reykjahlíðar, sbr. auglýsingar nr. 271/2011, 278/2012, 275/2013 og 475/2014, segir í 1. mgr. 3. gr. að fyrir afnot af heitu vatni skuli greiða samkvæmt vatnsmæli fyrir hvern rúmmetra vatns miðað við vatnshita í tengibrunni þar sem stofnæð og heimtaug/drefikerfi mætist, og er því næst rakið hvað skuli greitt miðað við vatnshita. Í 3. mgr. 3. gr. segir svo í öllum gjaldskránum: „Þar til vatnsmælir hefur verið settur upp og ef vatnsmælir bilar áætlar hitaveitan vatnsnotkunina með hliðsjón af hitaþörf hússins. Hitaveitan lætur húseigendum í té aukamæla ef þess er óskað.“

Varnaraðili vísar í málinu til áralangs ágreinings sem verið hafi milli aðila og þess að óframkvæmanlegt hafi verið að lesa af flestum mælum á jörðinni Vogum, þar á meðal þeim mælum sem séu í eigu sóknaraðila. Varnaraðili segir að „[s]tarfsmanni Hitaveitu Reykjahlíðar, nú varnaraðila, [hafi] fyrir allmörgum árum [verið] meinaður aðgangur að mælum í flestum veitum á jörðinni Vogum. Eðli máls samkvæmt [hafi] starfsmenn varnaraðila því ekki getað lesið af mælum í eignum þar, þ.m.t. í eignum sóknaraðila. Varnaraðili [hafi] því þurft að notast við áætlanir um notkun í ljósi þess að ekki [hafi] verið hægt að lesa af mælunum.“

Í gögnum málsins liggur ekkert fyrir um að varnaraðila hafi ekki verið unnt að fá lesið af þeim mælum sem mæla þá notkun sem varnaraðili krefur sóknaraðila um greiðslu fyrir. Við munnlegan málflutning var því mótmælt af hálfu sóknaraðila að neitað hafi verið um aðgang að mælunum en af hálfu varnaraðila var vísað til þess að starfsmanni hitaveitu Reykjahlíðar hefði á árunum 1991 til 1994 eða þar um bil verið meinaður aðgangur að mælunum.

Samkvæmt gjaldskrá Hitaveitu Reykjahlíðar var meginreglan sú að fyrir afnot skyldi greitt samkvæmt vatnsmæli en heimilað að byggja á áætlun í þeim tilvikum að mælir hefði ekki verið settur upp eða hann er bilaður. Varnaraðili, sem er hitaveita í opinberri eigu, ber sönnunarbyrði af því að uppi hafi verið þær aðstæður að jafna megi til þeirra undantekningartilvika sem talin eru upp í gjaldskránni. Verður ekki talið að sóknaraðili beri sönnunarbyrðina af því að áætluð vatnsnotkun sé röng. Eins og áður segir liggur ekkert fyrir um það í málinu að starfsmönnum hitaveitu hafi verið neitað um aðgang að þeim mæli sem mælir þá vatnsnotkun sem gerð er krafa um að sóknaraðili greiði fyrir, og á þetta bæði við um þau ár sem mál þetta tekur til og fyrri tíma. Þá liggur ekkert fyrir um það í málinu til hvaða ráða varnaraðili hafi gripið til að fá aðgang að þeim mælum sem munu vera í hans eigu í því húsnæði sem um ræðir. Verður við svo búið ekki litið svo á að varnaraðila hafi verið rétt að byggja fjárkröfu sína á hendur sóknaraðila á áætlun um vatnsnotkun. Samkvæmt því verður ekki talið að varnaraðili hafi átt þá lögmætu kröfu á hendur sóknaraðila sem var grunnur hinnar umþrættu aðfarargerðar og verður hún því felld úr gildi. Samkvæmt þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað.

Af hálfu sóknaraðila fór Jónas Fr. Jónsson hdl. með málið en af hálfu varnaraðila Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Fjárnámsgerð sýslumannsins á Norðurlandi eystra nr. 024-2015-00463, sem fram fór hinn 1. júní 2015, að kröfu varnaraðila, Veitustofnunar Skútustaðahrepps, er felld úr gildi.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, Jónasi Pétri Péturssyni, 500.000 krónur í málskostnað.