Hæstiréttur íslands
Mál nr. 271/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 18. júlí 2001. |
|
Nr. 271/2001. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. c. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X kærði úrskurð héraðsdóms um framlengingu gæsluvarðhalds. Hæstiréttur taldi líklegt að X myndi gerast sekur um brot að nýju ef hann gengi laus og staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ekki þóttu efni til að verða við kröfu X um styttingu gæsluvarðhaldstíma.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. september nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði fellur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
I.
Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili grunaður um að hafa skömmu eftir hádegi 23. maí 2001 framið rán í bókaverslun Máls og menningar við Laugaveg í Reykjavík, þar sem hann hafi veist að afgreiðslumanni, tekið hann hálstaki og rekið oddhvassan hlut í hnakka hans og þannig neytt hann til að afhenda sér um 21.000 krónur úr peningakassa verslunarinnar. Þá er varnaraðili einnig grunaður um að hafa seinna sama dag gert tilraun til ráns með því að hafa vopnaður lítilli sög farið inn í verslunina Tiffanys við Óðinsgötu í Reykjavík. Hafi hann veist þar að afgreiðslustúlku, hótað með söginni og ráðist á hana með þeim afleiðingum að hún féll í gólfið. Hann hafi síðan hörfað af vettvangi er annar maður kom inn í verslunina og skarst í leikinn. Skömmu síðar var varnaraðili handtekinn, en látinn laus eftir að hafa gefið lögreglunni skýrslu daginn eftir. Hann hefur gengist við síðarnefnda brotinu fyrir lögreglunni, en kveðst hins vegar ekki muna eftir að hafa drýgt fyrrnefnda brotið, þar sem hann hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna.
Varnaraðili er jafnframt grunaður um að hafa framið rán í gistiheimili við Flókagötu í Reykjavík að kvöldi 26. maí 2001 með því að hafa veist þar að afgreiðslumanni með brotinni flösku og neytt hann til að afhenda sér 5.000 krónur úr peningakassa gistiheimilisins. Afgreiðslumaðurinn bar kennsl á varnaraðila, sem er sagður hafa horfið af vettvangi þegar eftir fyrrnefnd atvik. Varnaraðili er enn grunaður um að hafa aðfaranótt 27. maí 2001 gert tilraun til ráns í Hótel Lind við Rauðarárstíg í Reykjavík, þar sem hann hafi ógnað afgreiðslumanni með sprautu. Var sprautan með nál, sem á var blóð, en varnaraðili er smitaður af lifrarbólguveiru C. Hann var yfirbugaður á staðnum og handtekinn. Fyrir lögreglunni hefur varnaraðili kannast við að hafa komið á báða þessa staði. Hann kvaðst ekki geta neitað sakargiftum um fyrrnefnda brotið, en við því gæti hann heldur ekki gengist, enda hafi hann verið verulega undir áhrifum fíkniefna umrætt sinn. Hann gekkst hins vegar við síðarnefnda brotinu.
Varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2001, sem staðið hefur óslitið síðan. Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur varnaraðila 16. júlí 2001, þar sem honum er gefið að sök að hafa framið framangreind fjögur brot, auk þess sem hann er sakaður um fíkniefnalagabrot.
II.
Samkvæmt frásögn varnaraðila hefur hann verið í mikilli fíkniefnaneyslu undanfarin ár. Hann kveðst hafa verið heimilislaus um árabil og ekki stundað vinnu síðan 1993 eða 1994. Samkvæmt framansögðu er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa 23. maí 2001 framið rán og síðan gert tilraun til annars sams konar brots í beinu framhaldi af því. Eftir að hafa verið sviptur frelsi vegna þessara atvika í tæpan sólarhring var hann látinn laus. Beinist rökstuddur grunur að honum um að hafa aftur tveimur dögum síðar gerst sekur um rán og tilraun til annars ráns. Í öllum tilvikum var beitt háskalegum aðferðum til að ógna þeim, sem fyrir broti urðu. Að því leyti, sem varnaraðili hefur gengist við sakargiftum, hefur hann skýrt þessa háttsemi sína með því að hann hafi þarfnast fjár til að afla sér fíkniefna. Að þessu virtu verður að telja nægilega sýnt að ætla megi að varnaraðili haldi áfram brotum ef hann heimtir aftur frelsi sitt meðan máli sóknaraðila á hendur honum er ekki lokið. Brot varnaraðila, ef sönnuð verða, geta varðað fangelsi samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu eru skilyrði til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ekki eru efni til að fallast á varakröfu hans um styttingu gæsluvarðhaldstíma. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíur 11. júlí 2001.
Ríkissaksóknari hefur með vísan til c. og d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, krafist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. september nk. kl. 16.00. Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu. Kærði er borinn sökum um að hafa framið 2 rán og tvær ránstilraunir hér í borg í maí 2001. Kærði kveðst ekki muna vel eftir atvikum umrædda daga sökum mikillar fíkniefnaneyslu. Kveðst hann hafa framið umrædd brot í þeim tilgangi einum að fá aðstoð vegna fíkniefnaneyslu sinnar en hann sé illa farinn af langvarandi fíkniefnaneyslu. Þegar þessa er gætt verður að fallast á það með ríkissaksóknara að ætla megi að kærði haldi áfram brotum, ef hann fer frjáls ferða sinna á meðan máli hans er ekki lokið og ennfremur ástæða til að verja aðra fyrir árásum hans. Fangelsisrefsing er lögð við þeirri háttsemi, sem kærði er borinn sökum um, en hann er grunaður um brot er varða við 252. gr. og 252. gr. sbr. 20. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940. Er því skilyrði c. og d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, fullnægt til að taka til greina kröfu ríkissaksóknara um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. september nk. kl. 16.00.