Hæstiréttur íslands

Mál nr. 19/2016


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður
  • Álag


                                     

Miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Nr. 19/2016.

Sævar Eiríkur Jónsson og

(Þórður Már Jónsson hdl.)

Vilhjálmur Konráðsson

(Bjarni Hólmar Einarsson hdl.)

gegn

Kristínu S. Rögnvaldsdóttur

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Málskostnaður. Álag.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem mál K gegn S, V o.fl. var fellt niður og henni gert að greiða S og V málskostnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að K hafi mátt vera ljóst að krafa sú sem hún hefði uppi í málinu væri þegar greidd. Var því lagt til grundvallar að hún hefði höfðað málið að þarflausu og var henni því gert að greiða V og S málskostnað með álagi samkvæmt 2. mgr., sbr. a. lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 28. og 30. desember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum frá sóknaraðilanum Sævari Eiríki síðarnefnda daginn og frá varnaraðilanum Vilhjálmi 4. janúar 2016. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 18. desember 2015 þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðilum var fellt niður og henni gert að greiða sóknaraðilanum Vilhjálmi 300.000 krónur og sóknaraðilanum Sævari Eiríki 550.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilinn Sævar Eiríkur krefst þess að varnaraðili greiði sér „fullan málskostnað í samræmi við tímaskýrslu og málskostnaðarreikning“ að teknu tilliti til virðisaukaskatts, ásamt álagi. Sóknaraðilinn Vilhjálmur krefst þess að varnaraðili greiði sér 1.740.202 krónur í málskostnað, ásamt álagi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að sóknaraðilar greiði sér kærumálskostnað.

Í tölvupósti 17. nóvember 2015 frá fyrrum lögmanni varnaraðila kom fram að þær kröfur sem hún hafði uppi í þessu máli hafi verið greiddar að fullu á árunum 2011 og 2012. Hafi félagið VOH ehf. greitt skuldina að undangengnum viðræðum um uppgjör. Samkvæmt þessu mátti varnaraðila vera ljóst að krafa sú sem hún hafði uppi í málinu var þegar greidd. Verður því lagt til grundvallar að hún hafi höfðað mál þetta að þarflausu og verður henni því gert að greiða sóknaraðilum málskostnað með álagi samkvæmt 2. mgr., sbr. a. lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Við ákvörðun málskostnaðar til handa sóknaraðilum er þó litið til þess að málið var ekki flókið auk þess sem ekki verður fallist á kröfu sóknaraðilans Vilhjálms vegna kostnaðar við rannsókn á bókhaldi VOH ehf. Samkvæmt framansögðu verður málskostnaður ákveðinn 800.000 krónur til handa sóknaraðilanum Sævari Eiríki og 600.000 krónur til handa sóknaraðilanum Vilhjálmi.

Eftir þessum úrslitum og kröfugerð fyrir Hæstarétti verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðilanum Vilhjálmi kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.   

Dómsorð:

Varnaraðili, Kristín S. Rögnvaldsdóttir, greiði sóknaraðilanum Sævari Eiríki Jónssyni 800.000 krónur og sóknaraðilanum Vilhjálmi Konráðssyni 600.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Varnaraðili greiði sóknaraðilanum Vilhjálmi 200.000 krónur í kærumálskostnað. Kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.

 

            Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 18. desember 2015.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 17. nóvember 2015 um niðurfellingu málsins og málskostnaðarkröfur, er höfðað 20. júní s.á.

Stefnandi er Kristín Rögnvaldsdóttir, Hamragerði 7, Egilsstöðum.

Stefndu eru Gísli Marinó Auðbergsson, Strandgötu 35, Eskifirði, Réttvísi ehf., Strandgötu 19a, Eskifirði, Vilhjálmur Konráðsson, Leirubakka 2, Seyðisfirði og Sævar Eiríkur Jónsson, Þórsmörk, Seyðisfirði.

Í málinu hafði stefnandi uppi þær dómkröfur að stefndu yrðu in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 5.769.974 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.389.974 krónum frá 21. júní 2011 til 20. nóvember 2011 en af 5.769.974 krónum frá þeim degi til 21. júlí 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá var krafist málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu að skaðlausu og að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Mál þetta var þingfest á reglulegu dómþingi 1. september sl. og var málinu þá frestað til 6. október sl. til framlagningar greinargerðar stefndu. Þann dag lagði stefndi Sævar Eiríkur fram 9 bls. greinargerð sína, auk nokkurs fjölda fylgiskjala. Var í greinargerð hans krafist sýknu af öllum kröfu stefnanda og málskostnaðar. Aðrir stefndu fengu með samþykki stefnanda frekari frest til að leggja fram greinargerð, til 3. nóvember sl. Við fyrirtöku málsins þann dag krafðist stefnandi þess að málið yrði fellt niður, án kostnaðar. Stefndu Gísli M. Auðbergsson hrl. og Réttvísi ehf. féllust á það en stefndu Sævar Eiríkur og Vilhjálmur mótmæltu því að málið yrði fellt niður án kostnaðar og kröfðust málskostnaðar úr hendi stefnanda. Var málinu þá frestað til 17. nóvember sl. til málflutnings um framangreindan ágreining um málskostnaðarkröfur. Þann dag sóttu þing lögmenn af hálfu stefnanda og stefndu Sævars Eiríks og Vilhjálms og reifuðu sjónarmið sín varðandi ágreininginn. Var málið að því búnu tekið til úrskurðar um þá kröfu og niðurfellingu málsins, í samræmi við 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða:

Að kröfu stefnanda, og með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er mál þetta fellt niður.

Samkvæmt 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda þegar svo stendur á að mál er fellt niður að kröfu stefnanda, sbr. c-lið 1. mgr. sömu lagagreinar. Hafa tveir af fjórum stefndu haft uppi slíka kröfu.

Eins og rakið er hér að framan var af hálfu stefnda Sævars Eiríks lögð fram ítarleg greinargerð, ásamt nokkrum fjölda fylgiskjala, tæpum mánuði áður en stefnandi krafðist niðurfellingar málsins. Ekki kom til þess að greinargerðir yrðu lagðar fram af hálfu annarra stefndu.

Samkvæmt tímayfirlitum lögmanna stefndu, sem lögð voru fram til hliðsjónar við munnlegan málflutning, hefur lögmaður Sævars Eiríks varið 47 klst. til verksins og áskilur sér tímagjaldið 19.990 krónur, auk virðisaukaskatts. Þá krefur hann um útlagðan kostnað vegna tveggja mætinga lögmanns í héraðsdómi, alls 19.468 krónur. Samkvæmt tímayfirliti lögmanns Vilhjálms hefur hann varið 49,5 klst. í málið og er áskilið tímagjald 19.500 krónur, að viðbættum virðisaukaskatti. Þá kemur þar fram að útlagður kostnaður þessa stefnda nemi alls 543.292 krónum, 40.100 krónur vegna flugs lögmanns stefnanda til Egilsstaða, 29.202 krónur kostnaðar af þremur mætingum annars lögmanns og 473.990 krónur vegna vinnu við rannsókn á bókhaldi o.fl. Eru kröfur um kostnað af flugi, bókhaldssrannsókn og vegna tveggja mætinga annars lögmanns studdar reikningum.

Af hálfu beggja stefndu er gerð krafa um álag á málskostnað, með vísan til 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, sbr. a. og c. liði 1. mgr. sömu lagagreinar. Staðhæfa stefndu að málssókn stefnanda á hendur þeim hafi verið með öllu tilefnislaus og að stefnandi hafi mátt vita það.

Af hálfu stefnanda er þess aðallega krafist að málskostnaður milli aðila verði felldur niður, en til vara lækkaður verulega frá því sem krafist er. Þá er því mótmælt sérstaklega að skilyrði séu til að gera stefnanda að greiða álag á málskostnað og að taka eigi tillit til reiknings vegna sérfræðirannsóknar á bókhaldi, sem ekkert liggi fyrir um í málinu.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað. Ekki þykja alveg næg efni til þess að beita heimild 2. mgr. 131. gr. laganna til að gera stefnanda að greiða álag á málskostnað.

Málskostnaður til handa stefnda Sævari Eiríki þykir hæfilega ákveðinn eins og í úrskurðarorði greinir. Er þá höfð hliðsjón af tímayfirliti lögmanns hans, fjölda þinghalda í málinu og þess að lögmaðurinn lagði fram greinargerð og fjölda fylgiskjala tæpum mánuði áður en stefnandi krafðist niðurfellingar málsins. Þá hefur verið tekið tilliti til virðisaukaskatts

Málskostnaður til handa stefnda Vilhjálmi þykir hæfilega ákveðinn eins og í úrskurðarorði greinir. Er þá m.a. höfð hliðsjón af fjölda þinghalda, tímayfirliti lögmannsins og ferðakostnaði hans, en jafnframt því að ekki kom til þess að stefndi legði fram greinargerð eða gögn í málinu og hafa drög að greinargerð ekki heldur verið lögð fyrir dóminn til hliðsjónar. Þá hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ekki er fallist á að taka beri tillit til reiknings sem stefndi hefur lagt fram til hliðsjónar vegna sérfræðivinnu við bókhaldsrannsókn, enda hefur hann ekki sýnt fram á hvernig sá reikningur tengist málsvörn hans.

 Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Við uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Úrskurðarorð:

Mál þetta er fellt niður.

Stefnandi, Kristín Rögnvaldsdóttir, greiði stefnda Vilhjálmi Konráðssyni 300.000 krónur, og stefnda Sævari Eiríki Jónssyni 550.000 krónur, í málskostnað.