Hæstiréttur íslands
Mál nr. 490/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Skaðabætur
- Kröfugerð
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 490/2014.
|
Brúarreykir ehf. (Guðbjarni Eggertsson hrl. gegn íslenska ríkinu (Einar K. Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Skaðabætur. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur.
B ehf. höfðaði mál gegn Í og krafðist viðurkenningar á því að nánar tilgreind stjórnvaldsákvörðun Matvælastofnunar hefði verið ólögmæt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að krafan í þessu horfi fæli í sér lögspurningu sem færi í bága við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2014 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn á því hann hafi orðið fyrir tjóni vegna ákvörðunar Matvælastofnunar 21. júní 2013 um að stöðva alla afhendingu afurða og dýra af býli hans að Brúarreykjum í Borgarbyggð. Sóknaraðili krefst ekki viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila á þessum grundvelli, heldur gerir hann þá kröfu að ákvörðunin verði dæmd ólögmæt. Fallast ber á það með héraðsdómi að krafan í þessu horfi feli í sér lögspurningu sem fari í bága við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Brúarreykir ehf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní .
Mál þetta var höfðað 19. desember 2013 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda þann 22. maí 2014.
Stefnandi er Brúarreykir ehf., Brúarreykjum, Borgarnesi. Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi gerir þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að stjórnvaldsákvörðun Matvælastofnunar, dags. 21. júní 2013, um að stöðva alla afhendingu afurða og dýra frá stefnanda hafi verið ólögmæt. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
I.
Málavextir
Brúarreykir ehf. rekur bú að Brúarreykjum í Borgarbyggð en búrekstur byggir alfarið á mjólkurframleiðslu. Framkvæmdastjóri búsins er Bjarni Bæring Bjarnason en fyrrverandi eiginkona hans, Bryndís Haraldsdóttir, er stjórnarformaður félagsins. Bjarni situr jafnframt í stjórn.
Forsaga máls þessa er nokkur eins og ráða má af gögnum málsins. Samhengisins vegna þykir rétt að gera grein fyrir henni í megindráttum. Fyrir liggur að á árinu 2012 var starfsleyfi stefnanda til matvælaframleiðslu afturkallað vegna brota á reglum um hollustuhætti. Sú ákvörðun var staðfest í úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 3. júlí 2013. Stefnandi fékk starfsleyfi að nýju 11. janúar 2013. Matvælastofnun hefur ítrekað eftir það haft afskipti af matvælaframleiðslu stefnanda eftir þetta og krafist úrbóta, einkum varðandi hollustuhætti svo og merkingar og skráningar gripa. Telur stefnandi að þau afskipti hafi verið á ólögmætum grunni.
Þann 21. júní 2013 komu aðilar frá Matvælastofnun að Brúarreykjum til eftirlits. Í kjölfarið var stefnanda sent bréf en efni þess var andmælaréttur vegna stöðvunar á afhendingu allra afurða og dýra frá Brúarreykjum ehf. Ástæðan var að við eftirlitið fundust fimm glös af sýklalyfi sem einkum er notað við júgurbólgu og er lyfseðilsskylt. Þá hafði stofnunin undir höndum afrit reikninga vegna lyfjakaupa Brúarreykja ehf. frá Ísafirði, reikninga dagsetta 20. mars 2013 og 18. apríl 2013 en samkvæmt þeim var keypt umtalsvert magn af lyfinu. Tekið er fram í bréfinu að eftir notkun umrædds lyfs sé ekki heimilt að nota afurðir til manneldis í nokkurn tíma á eftir. Við eftirgrennslan stofnunarinnar vegna reikninganna hafi komið í ljós að engin greining sjúkdóma hafði farið fram af hálfu dýralæknis en notkun lyfjanna án samráðs við dýralækni sé ólögmæt. Stofnunin vísaði til þess að ekki hefði verið gerð grein fyrir lyfjamálum búsins og afurðir frá búinu gætu verið lyfjamengaðar eða umráðamaður enn með lyf undir höndum og teldust afurði búsins ekki örugg matvæli. Að mati stofnunar var um að ræða alvarlegt tilvik í skilningi laga nr. 93/1995 um matvæli. Því var tekin sú ákvörðun að stöðva dreifingu afurða frá búinu til bráðabirgða og tók bannið strax gildi. Í bréfinu segir að bannið gildi á meðan ákvörðun um annað hafi ekki verið tekin af Matvælastofnun. Óheimilt sé að flytja gripi frá bænum nema með samþykki stofnunarinnar. Aðila var veittur frestur til 1. júlí 2013 til að tjá sig um efni málsins og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 26. júní 2013, var ofangreindri ákvörðun andmælt og mótmælt stöðvun dreifingu afurða frá Brúarreykjum til bráðabirgða með vísan til 30. gr. laga nr. 93/1995. Var vísað til þess að Matvælastofnun hefði ekki rannsakað mál stefnanda til hlítar og að ósannað væri að dýrum á bænum hefði verið gefið lyf án samráðs við dýralækni.
Bréfi lögmannsins var svarað þann 8. júlí 2013 og sú ákvörðun tekin að viðhalda stöðvun á afhendingu afurða og dýra frá Brúarreykjum eins og kynnt var með bréfi 21. júní sl. Fram kemur að stofnunin sé reiðubúin að breyta afstöðu sinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau lúti að því að stefnandi komi upp skráningarkerfi svo að tryggja megi rekjanleika afurða og dýra á Brúarreykjum og að úttekt stofnunarinnar leiði í ljós að skráningar og merkingar séu í samræmi við reglur þar að lútandi. Að uppfylltum skilyrðum þessum og að aflokinni úttekt geti Matvælastofnun aflétt gildandi banni en muni eins lengi og þörf krefji taka sýni af afurðum og dýrum frá búinu í samræmi við reglugerð nr. 30/2013.
Þann 8. júlí 2013 var stefnanda jafnframt með bréfi Matvælastofnunar gefinn kostur á andmælum til 19. júlí 2013, vegna haldlagningar og förgunar á lyfjum sem fundust við eftirlit á Brúarreykjum, áður en endanleg ákvörðun yrði tekin. Fram kom að heimild til haldlagningar væri í 15. gr., sbr. A-flokk og 1. og 2. tl. B-flokks, reglugerðar nr. 30/2012 um eftirlit með efnaleifum í afurðum dýra. Andmæli bárust frá stefnanda 23. júlí 2013. Ákvörðun um haldlagningu og förgun lyfja var tekin af Matvælastofnun 23. júlí 2013.
Með bréfi Floru-Josephine Hagen Liste héraðsdýralæknis, f.h. Matvælastofnunar, til stefnanda, dagsettu 6. ágúst 2013, voru kynntar niðurstöður úr úttekt á skráningum í hjarðbók, merkingum og sjúkdóma- og lyfjaskráningum. Í bréfinu kemur fram að ákveðna viðleitni til úrbóta megi greina í þeim gögnum sem Matvælastofnun hafi verið send og þrátt fyrir að skráningum sé enn ábótavant telji stofnunin rétt að aflétta afhendingarbanni á afurðum og lifandi dýrum með skilyrðum er varða sjúkdóma- og lyfjaskráningar, sýnatöku af mjólk og sláturdýrum, merkingu gripa og skráningu í hjarðbók samkvæmt ákvæðum reglugerða. Jafnframt kemur fram að stofnunin muni með vísan til ákvörðunar sinnar frá 8. júlí sl. taka sýni af afurðum og dýrum eins lengi og þörf krefji. Vakin er athygli á kæruheimild 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Stefndi byggir á því að dómkrafa stefnanda fjalli aðeins um stjórnsýslulega ákvörðun stefnda, dags. 21. júní 2013. Sú ákvörðun hafi verið til bráðabirgða eins og hún beri skýrlega með sér. Eftir þessa ákvörðun hafi stefndi tekið þrjár aðrar ákvarðanir í sama máli, dags. 8. júlí, 23. júlí og 6. ágúst allar árið 2013. Ákvörðunin frá 8. júlí hafi komið í stað þeirrar fyrstu eftir að andmæli stefnanda lágu fyrir. Næstu tvær ákvarðanir stefnda fylgdu síðan í kjölfarið. Tímabili fyrstu ákvörðunar stefnda lauk 8. júlí 2013. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 verða dómstólar ekki krafðir álits um lögfræðileg efni. Þessi forsenda lagagreinarinnar eigi við um kröfugerð og málatilbúnað stefnanda vegna þess að ákvörðun stefnanda frá 21. júní 2013 hafi fallið úr gildi með síðari ákvörðunum hans eins og lýst sé hér að framan. Lögvarðir hagsmunir stefnanda af niðurstöðu um ákvörðunina frá 21. júní 2013 séu því ekki lengur fyrir hendi. Samkvæmt þessu sé dómkrafa stefnanda eingöngu fræðileg fyrirspurn í eðli sínu. Slíkri kröfugerð verði að vísa frá dómi á grundvelli ofangreinds lagaákvæðis.
Jafnframt byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að málið sé vanreifað. Dómkrafa stefnanda miðist eingöngu við fyrstu ákvörðun stefnanda, eins og ítrekað hefur verið bent á. Í málatilbúnaði stefnanda (í lýsingu málsástæðna) sé hins vegar aðallega vísað til stuðnings kröfugerðar hans til tveggja af ákvörðunum stefnda, annars vegar frá 21. júní og hins vegar til 6. ágúst, báðar 2013. Auk þess sé í lýsingu málsatvika vísað til allra samskipta stefnda og stefnanda á tímabilinu frá 21. júní til 6. september 2013. Í kafla í stefnu um málsástæður og lagarök segir: „Umrædd ákvörðun MAST er tekin í skjóli stjórnsýsluvalds.“ Engar frekari skýringar sé að finna um hvaða ákvörðun stefnandi eigi hér við. Í málsatvikalýsingu stefnanda þar á undan séu nokkrar ákvarðanir reifaðar og erfitt er því að átta sig á því til hvaða ákvörðunar sé í reynd verið að vísa. Stefnandi geri ekki greinarmun á þeim ákvörðunum sem stefndi hafi þurft að taka í máli stefnanda og þar á meðal bráðabirgðaákvörðun og ákvörðun sem tekin hafi verið eftir nánari rannsókn og andmæli stefnanda. Stefndi fái því ekki auðveldlega séð hvenær stefnandi sé að fjalla um bráðabirgðaákvörðun stefnda, sem fallin sé úr gildi, og hvenær um síðari ákvarðanir. Lýsing í stefnu sé alls ekki skýr um þetta. Að mati stefnda sé því ekki hægt að leggja dóm á dómkröfur stefnanda. Beri því að vísa málinu frá dómi af ofangreindum ástæðum jafnframt.
Í kafla stefnanda í stefnu um málsástæður og lagarök sé eingöngu fjallað um ætluð brot á stjórnsýslulögum. Enga umfjöllun sé að finna um þau efnislegu rök sem hafi leitt til ákvörðunar stefnda þann 21. júní 2013. Að einhverju leyti sé þá umfjöllun að finna í lýsingu málsatvika í stefnu. Að mati stefnda sé ofangreindur málatilbúnaður bæði vanreifaður og óskýr. Vísar stefndi til d- og e-liða 80. gr. einkamálalaga. nr. 91/1991. Ítrekuð er fyrri málástæða um frávísun málsins frá dómi.
Loks er frávísunarkrafa á því byggð að ekki liggi fyrir hvort lögmæt ákvörðun hafi verið tekin af stefnanda hálfu um málshöfðun þessa, svo sem fram komi í umsögn Matvælastofnunar. Verður stefnandi að upplýsa hvort ákvörðun hafi verið tekin í einkahlutafélaginu um höfðun málsins af stjórn þess, sbr. ákvæði laga 138/1994 um einkahlutafélög.
Við flutning um frávísunarkröfuna fyrir dómi krafðist stefnandi þess að frávísunarkröfu yrði hrundið og að málið yrði tekið til efnisdóms. Þá gerði hann þá kröfu að stefnanda yrði dæmdur málskostnaður á síðari stigum. Stefnandi telur dómkröfur sínar nægilega skýrar og í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Ljóst sé að stefnandi hafi orðið fyrir stórfelldu tjóni vegna ólögmætrar ákvörðunar stefnda 21. júní 2013. Þrátt fyrir að sú ákvörðun hafi verið felld úr gildi þann 6. ágúst 2013 hafi skilyrði þeirrar ákvörðunar verið þess eðlis að stefnanda hafi verið útilokað að hefja framleiðslu á mjólk. Tilgangur málshöfðunarinnar sé sá að fá staðfestingu á því að ákvörðun Matvælastofnunar hafi verið röng og engar lagalegar forsendur fyrir henni. Hafi stefnandi því lögvarða hagsmuni af því að fá efnislega úrlausn kröfu sinnar.
II.
Niðurstaða
Fyrir liggur að þann 21. júní 2013 tók Matvælastofnun ákvörðun til bráðabirgða um stöðvun á afhendingu allra afurða og dýra frá Brúarreykjum. Eins og rakið hefur verið bárust andmæli stefnanda vegna umræddrar bráðabirgðaákvörðunar. Þann 8. júlí 2013 var tekin sú ákvörðun að viðhalda stöðvun á afhendingu afurða og dýra frá Brúarreykjum en jafnframt var þess getið að aflétta mætti banninu að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum og að aflokinni úttekt Matvælastofnunar. Þann 6. ágúst 2013 var stefnanda tilkynnt að aflétt yrði gildandi afhendingarbanni með nánar tilgreindum skilyrðum.
Stefnandi máls þessa gerir eingöngu kröfu um að viðurkennt verði með dómi að ofangreind ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. júní 2013 um að stöðva alla afhendingu afurða og dýra frá stefnanda hafi verið ólögmæt.
Að mati dómsins verður að telja að stefnandi hafi ekki hagsmuni af því að leita dóms um viðurkenningu á ólögmæti bráðabirgðaákvörðunar frá 21. júní 2013. Hvoru tveggja er að hún var leyst af hólmi með ákvörðun 8. júlí 2013 og eftir það var þeirri ákvörðun aflétt með skilyrðum þann 6. ágúst 2013. Þá er viðurkenningarkrafan ekki sett fram í tengslum við ætlað tjón stefnanda, sem hann þó heldur fram að hann hafi orðið fyrir án þess að gera grein fyrir í greinargerð sinni.
Ber því að fallast á það með stefnda að efnisdómur myndi fela í sér álit um lögfræðilegt efni og ganga í berhögg við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og kröfugerð stefnanda er háttað verður þegar af þessari ástæðu ekki hjá því komist að vísa málinu í heild frá dómi.
Með hliðsjón af niðurstöðu þessari ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 sem þykir hæfilegur 200.000 krónur.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Brúarreykir ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað.