Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2011
Lykilorð
- Ólögmæt meðferð fundins fjár
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 13. október 2011. |
|
Nr. 184/2011.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Rhonica Rae Reynisson (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Ólögmæt meðferð fundins fjár. Sératkvæði.
R var ákærð fyrir brot gegn 246. gr. almennra hegningarlaga um ólögmæta meðferð fundins fjár með því að hafa í heimildarleysi kastað eign sinni á 810.000 krónur sem B lagði ranglega inn á bankareikning hennar en hún tók fjárhæðina út af reikningum sama dag og millifærði hana inn á tvo aðra reikninga, annan í eigu X. R krafðist sýknu og hélt því fram að sú háttsemi sem henni var gefin að sök yrði ekki heimfærð undir umrætt refsiákvæði þar sem innstæða á bankareikningi gæti ekki talist brotaandlag samkvæmt því. Byggði R sýknukröfu sína einnig á því að háttsemin hefði ekki verið framin í auðgunarskyni. Hæstiréttur vísaði til þess að miklar breytingar hafi orðið á viðskiptum frá því almenn hegningarlög voru sett með tilkomu rafrænna viðskiptahátta. Yrði að telja eðlilegt, miðað við upphaflegt markmið ákvæðisins, að skýra það svo að það næði til ólögmætrar ráðstöfunar á fé, sem ranglega hefði borist viðtakanda, án tillits til þess hvort um væri að ræða reiðufé eða fjárhæð sem lögð hefði verið inn á bankareikning viðtakanda. Taldi Hæstiréttur því að háttsemin félli undir 246. gr. almennra hegningarlaga. Þá var jafnframt talið að R hafi framið háttsemina í auðgunarskyni. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu R.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. mars 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Í báðum tilvikum krefst hún frávísunar á kröfu brotaþola, B ehf.
Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Í málinu er ákærðu gefin að sök ólögmæt meðferð fundins fjár „með því að hafa í heimildarleysi kastað eign sinni á 810.000 krónur, sem voru ranglega lagðar inn á bankareikning ákærðu nr. 0322-26-8405 af B ehf. 13. október 2006, með því að taka umrædda fjárhæð út af reikningnum sama dag og millifæra inn á tvo aðra reikninga, annars vegar kr. 800.000 inn á reikning meðákærða X og hins vegar kr. 550.000 inn á annan reikning ... og þannig tileinkað sér fjármunina og ráðstafað þeim til eigin nota.“ Er háttsemin talin varða við 246. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða og meðákærði, X [...], bæði sakfelld, en meðákærði unir dómi.
Krafa ákærðu um sýknu er í fyrsta lagi byggð á því að háttsemi hennar hafi ekki verið refsiverð vegna þess að háttsemin verði ekki heimfærð undir 246. gr. almennra hegningarlaga. Á meðan peningar, það er reiðufé, sé ótvírætt andlag þess brots, sem þar er lýst refsivert, geti innstæða á bankareikningi ekki verið andlag þess.
Samkvæmt þessari skýringu á refsiákvæðinu telst það ólögmæt meðferð fundins fjár ef greiðsla berst viðtakanda fyrir mistök og hann ráðstafar henni gegn betri vitund í auðgunarskyni, svo framarlega sem greiðslan sé innt af hendi með áþreifanlegum og hreyfanlegum hlutum, svo sem peningum eða tékka, en ekki ef hún er í formi millifærslu á bankareikning viðtakandans. Frá því að almenn hegningarlög voru sett hafa hins vegar orðið miklar breytingar á viðskiptum, ekki síst með tilkomu tölva og gerbreyttra fjarskiptahátta, þar sem greiðslur eru almennt nú orðið inntar af hendi með rafrænum hætti. Af þeim sökum verður að telja eðlilegt, miðað við upphaflegt markmið þessa refsiákvæðis, að það sé skýrt svo að það nái til ólögmætrar ráðstöfunar á fé, sem ranglega hefur borist viðtakanda, án tillits til þess hvort um sé að ræða reiðufé eða fjárhæð sem lögð hefur verið inn á bankareikning hans.
Með vísan til þess fellur sú háttsemi, sem ákærðu er gefin að sök, undir 246. gr. almennra hegningarlaga.
II
Sýknukrafa ákærðu er í öðru lagi reist á því að háttsemi hennar hafi ekki verið framin í auðgunarskyni, eins og áskilið er í 243. gr. almennra hegningarlaga. Þegar tekin er afstaða til þeirrar röksemdar ákærðu þarf að kanna hvort hún hafi haft ásetning til að afla sér eða öðrum fjárvinnings á kostnað brotaþola á ólögmætan hátt er hún ráðstafaði þeirri fjárhæð, sem hann hafði fyrir mistök millifært á reikning hennar, á þann hátt sem greinir í ákæru.
Fyrir liggur af þeim skjölum, sem lögð hafa verið fram í málinu, að B ehf. keypti 30. ágúst 2006 bifreið með skráningarnúmerinu JK 610 fyrir 810.000 krónur og skrifaði ákærða undir kaupsamninginn, fyrir hönd seljandans. Félagið greiddi síðan kaupverðið, 810.000 krónur, með því að millifæra fjárhæðina á bankareikning ákærðu hjá Kaupþingi banka 5. september 2006. Var greiðslan auðkennd „jk-610“. Ákærða og meðákærði, X, báru fyrir héraðsdómi að þau hafi um þetta leyti átt von á að laun fyrir verk eða vinnu, sem hann kvaðst hafa innt af hendi, yrðu lögð inn á bankareikning ákærðu. Aðspurður taldi X að þessi útistandandi laun hafi verið á bilinu 500.000 til 700.000 krónur. Hinn 9. október 2006 voru 650.000 krónur lagðar inn á bankareikning ákærðu og síðan millifærði B ehf. fyrir mistök 810.000 krónur á bankareikninginn 13. október sama ár. Með því var augljóslega verið að tvígreiða ákærðu kaupverð bifreiðarinnar JK 610 þar sem greiðslan var auðkennd „jk-610“ á sama hátt og sú sem innt hafði verið af hendi 5. september. Samdægurs, það er 13. október, millifærði ákærða af bankareikningnum 800.000 krónur á reikning X og 550.000 krónur á reikning annars manns sem hún bar fyrir dómi að hún vissi engin deili á.
Á yfirliti yfir hreyfingar á áðurnefndum bankareikningi ákærðu frá 13. júlí 2006 til 12. janúar 2007 kemur fram að á þessu sex mánaða tímabili skáru þær þrjár innborganir, sem gerð hefur verið grein fyrir að framan, sig úr að því leyti að sú innborgun á reikninginn, sem komst næst þeim á þessu tímabili, nam rúmum 190.000 krónum. Þegar ákærðu varð ljóst að innstæða á bankareikningi hennar var rúmar 1.350.000 krónur 13. október 2006 hafði hún þar af leiðandi ærna ástæðu til að kanna hvernig á því stæði að svo há fjárhæð stæði inni á reikningnum áður en hún ráðstafaði svo til allri upphæðinni á þann veg sem hún gerði. Sýnt er, þar á meðal af nýjum gögnum sem ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt, að auðvelt var fyrir hana að sjá að hin óvenju háa innstæða stafaði meðal annars af því að B ehf. hafði fyrr þennan sama dag tvígreitt kaupverð bifreiðarinnar, enda var greiðslan sem fyrr segir auðkennd með skráningarnúmeri hennar.
Þegar allt það er virt, sem að framan greinir, telst sannað að ákærða hafi vitað að 810.000 krónur hafi verið lagðar ranglega inn á bankareikning hennar áður en hún millifærði fjárhæðina svo til alla á reikning X 13. október 2006, og þar með þá þegar haft ásetning til að afla sér, honum eða þeim báðum fjárvinnings á kostnað B ehf. á ólögmætan og þar með refsiverðan hátt. Að teknu tilliti til þess að 650.000 krónur voru lagðar inn á bankareikninginn 9. október sama ár og með vísan til fyrrgreinds framburðar ákærðu og X um að þau hafi átt von á að útistandandi laun hans yrðu lögð inn á reikninginn þykir hins vegar ósannað að hún hafi ráðstafað eftirstöðvum greiðslunnar, 10.000 krónum, með því að millifæra 550.000 krónur á reikning annars manns þennan sama dag. Þótt ákærða hafi ráðstafað framangreindum eftirstöðvum af bankareikningi sínum á annan veg, gegn betri vitund og þannig með refsiverðum hætti, verður henni því ekki gerð refsing fyrir þá háttsemi þar sem henni er ekki gefin hún að sök í ákæru. Á hinn bóginn hefur ákærða með því móti bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart brotaþola og verður krafa hans þar af leiðandi tekin að fullu til greina.
Með skírskotun til þess, sem að framan segir, er niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærða, Rhonica Rae Reynisson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 335.436 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Samkvæmt 246. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er refsivert ef „maður kastar eign sinni á fundna muni eða muni sem án aðgerða hans eru komnir í vörslur hans“. Með þessum lagatexta verður að ætla að átt sé við hluti sem menn geta haft einhvers konar líkamleg yfirráð yfir og þar með haft í vörslum sínum. Var sýnilega á þessum skilningi byggt í dómi Hæstaréttar 14. nóvember 1985, sem birtur er á blaðsíðu 1218 í dómasafni réttarins það ár, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að innstæða á bankareikningi geti ekki talist brotaandlag samkvæmt þessari lagagrein. Það getur ekki verið hlutverk dómstóla að breyta merkingu refsiákvæða vegna breytinga á almennum viðskiptaháttum og gefa þeim þannig víðari merkingu en orðalag þeirra gefur tilefni til. Tel ég því að háttsemi sú sem ákærðu er gefin að sök rúmist ekki innan verknaðarlýsingar lagaákvæðisins og beri því að sýkna ákærðu af ákærunni.
Að auki er sú aðstaða uppi í málinu að ákærða kveðst hafa átt von á [...], X, sem ákærður var með henni í héraði, kynni að leggja inn á bankareikning hennar fé vegna viðskipta sem hann átti í, án þess að hún hafi vitað um hversu háar fjárhæðir yrði þar að ræða. Verður ekki betur séð en þetta kunni að vera rétt, enda er óumdeilt að 650.000 krónur hafi verið lagðar inn á reikninginn 9. október 2006 af slíku tilefni. Ákærða sagði fyrir dómi að X hafi gefið sér fyrirmæli um að leggja 550.000 krónur inn á tilgreindan reikning og síðan afganginn inn á reikning hans. Hafi hún gert þetta 13. október 2006, en þann dag barst umrædd greiðsla frá B ehf. inn á reikninginn. Fyrir liggur að ákærða gat í heimabanka sínum millifært fé af reikningnum án þess að kalla fram um leið sérgreindar upplýsingar um einstakar innborganir sem þangað höfðu borist. Mun hún hafa þurft að kalla fram yfirlit yfir reikninginn til að sjá auðkennið „jk-610“ sem þar mun hafa verið við innborgun B ehf. þennan dag. Vel má vera að ákærða hafi framkvæmt millifærslurnar af reikningi sínum án þess að skoða annað en forsíðu reikningsins í heimabankanum þar sem aðeins mun hafa komið fram staða reikningsins en ekki upplýsingar um einstakar færslur inn á hann Með hliðsjón af þessu er að mínum dómi ekki sannað að ákærða hafi haft ásetning til auðgunarbrots, þegar hún millifærði af reikningi sínum 13. október 2006. Leiðir þetta sjálfstætt til sömu niðurstöðu og fyrr var getið.
Af forsendum héraðsdóms verður ráðið að ásetningur ákærðu til hins ætlaða brots er talinn hafa orðið til eftir að hún á að hafa fullframið það 13. október 2005 eða á tímabilinu 16. til 30. október 2006 þegar [...] X lagði í ellefu skipti inn á reikning hennar samtals 560.000 krónur. Ég er sammála því sem felst í atkvæði meirihlutans að ákæruvaldinu beri að sanna að ákærða hafi haft ásetning til brotsins á brotsdegi 13. október 2006 og að niðurstaða héraðsdóms um þetta fái ekki staðist. Ég tel að sönnun um þetta fyrir Hæstarétti geti ekki byggst á mati á skjallegum sönnunargögnum, þar sem aðeins liggur fyrir í skjölunum að ákærða hafi getað framkvæmt umræddar millifærslur án þess kynna sér fyrst hvaðan féð hafði borist inn á reikning hennar. Skjöl sem hefðu getað upplýst um það en hún kveðst ekki hafa skoðað geta ekki talist sanna þetta. Héraðsdómur er greinilega sömu skoðunar um þetta atriði og telur einnig að sönnunin hafi ekki tekist með munnlegri sönnunarfærslu fyrir dómi. Að mínu áliti felst niðurstaða héraðsdóms um þetta á mati dómsins á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu og vitna fyrir dómi. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 tel ég Hæstarétti óheimilt að endurmeta þessa niðurstöðu héraðsdóms. Leiðir þetta sjálfstætt til sýknu.
Af því, sem að framan er rakið, leiðir að ég tel þrenns konar ástæður standa til þess að sýkna beri ákærðu af sakargiftum ákærunnar í máli þessu og vísa kröfu B ehf. frá héraðsdómi. Samkvæmt því beri að leggja sakarkostnað á báðum dómstigum á ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 1. febrúar 2011.
Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn í Borgarnesi með ákæru 9. júlí 2010 á hendur ákærðu, X, kr. [...], [...] á [...], og Rhonicu Rae Reynisson, kt. 190780-2019, Suðurgötu 64 á Akranesi. Málið var dómtekið 19. janúar 2011.
Í ákæruskjali er ákærðu gefin að sök „eftirtalin auðgunarbrot framin í október til desember 2006:
I
Ákærða Rhonica Rae fyrir ólögmæta meðferð fundins fjár, með því að hafa í heimildarleysi kastað eign sinni á 810.000 krónur, sem voru ranglega lagðar inn á bankareikning ákærðu nr. 0322-26-8405 af B ehf. 13. október 2006, með því að taka umrædda fjárhæð út af reikningnum sama dag og millifæra upphæðina inn á tvo aðra reikninga, annars vegar kr. 800.000 inn á reikning meðákærða X og hins vegar kr. 550.000 inn á annan reikning þar sem eigandi er óþekktur, og þannig tileinkað sér fjármunina og ráðstafað þeim til eigin nota.
Telst þetta varða við 246. gr. almennra hegningarlaga.
II
Ákærði X fyrir hlutdeild í framangreindu broti meðákærðu Rhonicu Rae, með því að hafa á sama tíma og að framan greinir, veitt meðákærðu liðsinni í verki og tekið við framangreindri innborgun inn á bankareikning sinn nr. [...] og endurgreitt meðákærðu kr. 560.000 af því fé til baka með 12 færslum á tveggja mánaða tímabili og stutt skýringar meðákærðu þess efnis að hann og meðákærðu hefðu átt von á stórum fjárhæðum inn á reikning hennar vegna vinnu ákærða.
Telst þetta varða við sömu ákvæði og greinir í lið I, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga.“
Í ákæru er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar. Einnig er í ákæru tekin upp einkaréttarkrafa B ehf. á hendur ákærðu Rhonicu, en þess er krafist að henni verði gert að greiða fyrirtækinu 810.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 13. október 2006 til 24. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi ákærðu.
Ákærða Rhonica krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að henni verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfa. Jafnframt krefst ákærða þess að einkaréttarkröfu á hendur henni verði vísað frá dómi. Loks gerir ákærða þá kröfu að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.
Ákærði X krefst þess aðallega að hann verði sýknaður en til var að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.
I
[...]
Á árinu 2006 keypti A, [...], bifreiðina JK-610 af B ehf. til afnota fyrir ákærðu Rhonicu. Sú bifreið mun ekki hafa staðist væntingar og féllst B ehf. á að kaupin gengju til baka. Í samræmi við það var gerður kaupsamningur og afsal 30. ágúst 2006 þar sem B ehf. leysti til sín bifreiðina á 810.000 krónur. Undir samninginn ritaði ákærða Rhonica fyrir hönd seljanda samkvæmt skriflegu umboði A 22. sama mánaðar. Hinn 5. september sama ár var kaupverðið lagt inn á hlaupareikning ákærðu nr. 8405 í Kaupþing banka hf.
Hinn 13. október 2006 lagði B ehf. aftur inn á hlaupareikning ákærðu Rhonicu sömu fjárhæð og nam kaupverðinu eða 810.000 krónur og fór þessi millifærsla fram kl. 15.28 samkvæmt yfirliti Glitnis hf. Nokkrum dögum áður eða 9. sama mánaðar hafði maður að nafni C einnig lagt inn á reikning ákærðu 650.000 krónur. Eftir þessar innborganir mun innistæða á hlaupareikningi ákærðu hafa numið eitthvað á aðra milljón króna. Síðar sama dag og B ehf. lagði aftur inn á reikning ákærðu millifærði hún af reikningnum í heimabanka sínum tvær færslur samtals að fjárhæð 1.350.000 krónur. Var annars vegar um að ræða innborgun að fjárhæð 550.000 krónur inn á reikning manns að nafni D og hins vegar 800.000 krónur inn á bankareikning nr. [...] í Byr, en sá reikningur var í eigu ákærða X.
Eftir að ákærða Rhonica millifærði 800.000 krónur inn á bankareikning ákærða X 13. október 2006 voru millifærðar samtals 560.000 krónur af þeim reikningi aftur yfir á hlaupareikning ákærðu Rhonicu. Þessar millifærslur fóru fram á tímabilinu 16. til 30. október, en þær voru sem hér segir:
16. október kr. 20.000
16. október kr. 50.000
16. október kr. 100.000
17. október kr. 15.000
18. október kr. 30.000
18. október kr. 100.000
20. október kr. 60.000
23. október kr. 65.000
23. október kr. 20.000
25. október kr. 50.000
30. október kr. 50.000
Samtals kr. 560.000
Nokkru eftir innborgun B ehf. inn á hlaupareikning ákærðu 13. október 2006 kom E, stjórnarformaður B ehf., á heimili ákærðu Rhonicu og gerið henni grein fyrir þeim mistökum að kaupverð bifreiðarinnar JK-610 hefði verið tvígreitt. Jafnframt mun stjórnarformaðurinn hafa óskað eftir að þetta yrði leiðrétt. Jafnframt var ákærðu sent innheimtubréf 24. október 2006. Ákærðu var loks sent bréf lögmanns B ehf. 21. september 2007 þar sem því var haldið fram að framganga ákærðu varðaði við almenn hegningarlög. Einnig sagði í bréfinu að málið yrði kært til lögreglu ef ákærða endurgreiddi ekki fjárhæðina eða semdi um greiðslu hennar innan fjórtán daga.
Með bréfi 16. nóvember 2007 kærði B ehf. ákærðu Rhonicu til lögreglu en framganga hennar var talin fela í sér auðgunarbrot.
II
1
Við yfirheyrslu hjá lögreglunni á Akranesi 16. janúar 2008 kom fram hjá ákærðu Rhonicu að hún hefði ekki vitað að síðari greiðslan 13. október 2006 var frá B ehf. Aftur á móti sagði ákærða að hún hefði átt von á greiðslu inn á hlaupareikning sinn frá öðrum aðila, en þeim fjármunum kvaðst hún hafa ætlað að taka við fyrir hönd ákærða X. Ákærða kannaðist við að hafa fengið innheimtubréf 24. október 2006, auk þess sem maður frá B ehf. hefði komið heim til hennar og gert grein fyrir mistökunum. Henni hefði hins vegar ekki verið þetta ljóst áður en hún ráðstafaði peningunum af hlaupareikningi sínum. Neitaði ákærða því að fyrir henni hefði vakað að slá eign sinni á fé sem hún ætti ekki með réttu.
Ákærða var á ný yfirheyrð hjá lögreglunni á Akranesi 11. febrúar 2010. Nánar aðspurð um þá greiðslu sem hún hefði átt von á inn á reikning sinn kvaðst hún hafa heimilað ákærða X að vísa á reikning sinn án þess að ákærða hefði haft vitneskju um frá hverjum greiðslan kæmi. Kom fram hjá ákærðu að ákærði X hefði ekki verið með debetkortareikning á þessum tíma og því hefði hann af og til notað hennar reikning þegar hann átti von á greiðslum fyrir verk sem hann var að vinna. Aðspurð kannaðist ákærða við að hafa millifært fjármuni af eigin reikningi yfir á reikning ákærða X að hans beiðni. Ákærða tók hins vegar fram að hún hefði ekki kannað hvaðan greiðslan barst inn á hennar reikning.
2
Fyrir dómi greindi ákærða Rhonica frá því að A hefði keypt fyrir sig bifreiðina JK-610 af B ehf. Á skömmu tímabili hefði bifreiðin bilað umtalsvert og því hefði bifreiðin verið endurgreidd þar sem B ehf. hefði ekki getað útvegað aðra bifreið í svipuðum verðflokki. Í kjölfar þess að kaupin gengu til baka kvaðst ákærða ekki hafa leitt hugann frekar að þessu.
Skömmu eftir þetta sagði ákærða að ákærði X hefði farið þess á leit að greiðsla sem hann átti í vændum yrði greidd inn á hlaupareikning ákærðu. Ákærða kvaðst hafa fallist á þetta án þess þó að hún vissi hver átti að inna þá greiðslu af hendi. Þegar ákærða athugaði stöðu reikningsins í hraðbanka hefði verið umtalsvert hærri fjárhæð inni á reikningnum en hún bjóst við. Taldi ákærða sig hafa átt um 40.000 krónur á reikningnum og því hefði hún millifært eftir beiðni ákærða X 550.000 krónur inn á reikning manns, sem ákærða vissi ekki deili á, og það sem eftir var til ákærða X. Nánar aðspurð sagði ákærða að ákærði X hefði nokkrum dögum áður beðið sig að millifæra þá greiðslu sem hann átti í vændum með þessu móti. Einnig sagði ákærða að á þessum tíma hefði hún ekki verið með tölvu á heimili sínu en haft aðgang að heimabanka. Taldi ákærða sennilegast að hún hefði millifært peninganna í tölvu sem hún fékk aðgang að í Landsbanka Íslands hf. í Smáralind. Aðspurð gat ákærða ekki skýrt innborgun að fjárhæð 650.000 krónur inn á reikning sinn 9. október 2006 og þekkti ekki þann sem innti þá greiðslu af hendi.
Um framhaldið sagði ákærða að um 10 dögum síðar hefði hún að kvöldlagi fengið mann í heimsókn frá B ehf. og hefði hann sakað ákærðu um að hafa stolið peningunum. Ákærða tók fram að hún hefði fram að þessu staðið í þeirri trú að ákærði X hefði átt þessa peninga, en skömmu áður hefði hann fengið stórt lán, auk þess að eiga inni peninga hjá öðrum. Á þessum tíma hefði ákærði verið á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins en jafnframt unnið svart og því hefði hann kosið að haga greiðslum með þessu móti. Daginn eftir að ákærða fékk heimsókn frá starfsmanni B ehf., sennilega 24. október 2006, hefði hún kannað þetta nánar og fyrst þá áttað sig á að innborgunin hefði komið frá því fyrirtæki.
Aðspurð kvaðst ákærða ekkert hafa greitt B ehf. til baka af því fé sem hún fékk lagt inn á reikning sinn 13. október 2006. Hún hefði aftur á móti boðist til að endurgreiða hluta af fjárhæðinni og síðan eftirstöðvarnar á hæfilegu greiðslutímabili. Á þetta hefði ekki verið fallist og þess krafist að greiðsla yrði innt af hendi í einu lagi. Um fjárhag sinn á þessum tíma sagði ákærða að hún hefði þurft að standa straum af umtalsverðum útgjöldum en ákærði X hefði stutt sig eftir því sem efni hans leyfðu. Aðspurð kannaðist ákærða við að ákærði X hefði skömmu áður komið úr fangelsi eftir afplánun og ekki átt fé ef frá er talið stórt lán sem hann tók.
III
1
Við skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 25. ágúst 2008 kannaðist ákærði X við að ákærða Rhonica hefði millifært einhverja peninga yfir á reikning hans haustið 2006. Aðspurður um ráðstöfun þessara fjármuna sagði ákærði að hluti af fénu hefði farið í eyðslu í eigin þágu en að öðru leyti mundi hann ekki eftir í hvað peningarnir hefðu farið. Ekkert af þessum fjármunum væri hins vegar eftir á reikningi hans.
Ákærði gaf síðan skýrslu hjá lögreglunni á Akranesi 4. desember 2009, en þá var hann yfirheyrður sem sakborningur. Aðspurður um tilefni millifærslu af hlaupareikningi ákærðu Rhonicu yfir á reikning ákærða kvaðst hann á þessum tíma hafa verið verktaki í málningarvinnu. Hann hefði ekki verið með debetkort og því fengið að beina verklaunum inn á reikning ákærðu Rhonicu. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað að greiðslan kom frá B en hann og ákærða hefðu talið að um væri að ræða verklaun sem ákærði átti von á. Þegar ákærða urðu málavextir ljósir kvaðst hann hafa viljað endurgreiða fjárhæðina en B ehf. hefði ekki viljað taka við greiðslu nema öll fjárhæðin yrði greidd.
2
Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann hefði verið að vinna tilfallandi störf sem verktaki eftir að hann losnaði úr afplánun í fangelsi í lok janúar 2006. Um haustið það ár hefði hann átt von á verklaunum vegna málningarvinnu, auk þess sem hann hefði verið búinn að lána einhverja fjármuni. Nánar aðspurður taldi ákærði að útistandandi verklaun hefðu verið á bilinu 500 til 700 þúsund krónur. Hefði bæði verið um að ræða útgefna reikninga, auk þess sem hann hefði unnið án þess að gefa upp verklaun. Til skýringar á því tók ákærði fram að hann hefði á þessum tíma þegið örorkubætur.
Ákærði kvaðst hafa fengið heimild til að láta greiða inn á hlaupareikning ákærðu Rhonicu þar sem hann var aðeins með bankabók á þessum tíma og á bótum. Nánar aðspurður um ástæðuna fyrir þessu í ljósi þess að greiðslur voru þegar millifærðar af hlaupareikningi ákærðu yfir á reikning ákærða gat hann ekki skýrt þessa tilhögun. Tók ákærði fram að um hefði verið að ræða nokkrar greiðslur sem inntar hefðu verið af hendi til ákærða um hlaupareikning ákærðu.
Ákærði greindi frá því að ákærða Rhonica hefði haft samband við sig og spurt hvort hann ætti von á peningum. Einnig taldi ákærði að hann hefði beðið hana að millifæra peninga til D án þess þó að ákærði gæti greint nánar frá því hvenær hann fór þess á leit við ákærðu. Aðspurður sagði ákærði að D væri kunningi sinn frá fyrri tíð sem lánað hefði ákærða fé. Einnig sagði ákærði að C væri kunningi frá þessum tímabili og taldi ákærði sig hafa lánað honum fé. Tók ákærði fram að samskipti við þessa menn mætti rekja til óreglu á þessu tímabili.
Aðspurður sagði ákærði að hann væri ekki vanur að greiða ákærðu Rhonicu í þeim mæli sem hann gerði seinni hluta október 2006, en þó hefði hann áður lagt henni til fé. Einnig sagði ákærði að hann hefði ekki ætlað að taka peninga frá henni. Þá hefði verið reynt að endurgreiða B ehf. en fyrirtækið hefði aðeins viljað taka við heildargreiðslu. Ákærði gat ekki lýst þessu nánar og benti á að B ehf. hefði frekar beint spjótum sínum að ákærðu.
Ákærði kvaðst ekki hafa spurt ákærðu Rhonicu hvaðan greiðslan inn á hlaupareikning hennar kom. Þar til starfsmaður B ehf. setti sig í sambandi við ákærðu Rhonicu hefði hann talið að þetta væru verklaun sín eða lán sem hann hefði fengið greitt. Þetta hefði þó verið ívið hærra en þau verklaun sem ákærði átti von á án þess þó að hann myndi þetta greinilega svo löngu síðar. Aðspurður taldi ákærði sig síðar hafa fengið að mestu greidd þau verklaun sem hann átti útistandandi, en þau hefðu ýmist verið lögð inn á reikning hans eða ákærðu.
Um hagi sína sagði ákærði að hann hefði verið í einhverri neyslu vímuefna eftir að hann losnaði úr afplánun í janúar 2006, en ári síðar hefði hann hætt öllu slíku og verið allsgáður síðan.
III
Vitnið A bar fyrir dómi að hann hefði keypt og greitt bifreiðina JK-610 fyrir ákærðu Rhonicu. Þetta hefði verið til að aðstoða ákærðu, sem var ein með tvö börn. Einnig staðfesti A að hann hefði gefið henni umboð til að selja bifreiðina.
Vitnið E, stjórnarformaður B ehf., greindi frá því fyrir dómi að um það bil viku eftir að kaupverð bifreiðarinnar hafði verið tvígreitt hefði hann farið á heimili ákærðu Rhonicu til að leita eftir leiðréttingu. Sú viðleitni hefði verið árangurslaus með öllu og kvaðst vitnið ekki hafa fengið annað en glott frá ákærðu. Aðspurður kvaðst stjórnarformaðurinn ekki vita til þess að ákærðu hefðu boðist til að greiða fjárhæðina með afborgunum en vitnið taldi einboðið að því hefði verið vel tekið.
IV
Ákærðu Rhonicu er gefið að sök ólögmæt meðferð fundins fjár með því að hafa í heimildarleysi kastað eign sinni á 810.000 krónur sem ranglega voru lagðar inn á hlaupareikning hennar 13. október 2006 af B ehf. Ákærða X er jafnframt gefin að sök hlutdeild í þessu broti með því að hafa í verki veitt ákærðu liðsinni, sem fólst í því að taka við fjármunum þessum og endurgreiða ákærðu. Svo sem áður er rakið fóru þessar greiðslur fram með ellefu innborgunum á tímabilinu 16. til 30. október 2006, en í ákæru segir ranglega að greiðslurnar hafi verið inntar af hendi með tólf færslum á tveggja mánaða tímabili. Þetta stendur ekki í vegi sakfellingar, enda hefur vörn málsins ekki verið áfátt af þessum sökum, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
Samkvæmt 246. gr. almennra hegningarlaga varðar sektum eða fangelsi allt að þremur árum fyrir mann sem kastar eign sinni á fundna muni eða muni, sem án aðgerða hans eru komnir í vörslur hans.
Ákærða Rhonica hefur fyrir dómi kannast við að hafa haft aðgang á netinu að svonefndum heimabanka hjá Kaupþing banka hf. þar sem hún var með þann hlaupareikning sem B ehf. lagði fé inn á í umrætt sinn. Með þessari þjónustu var ákærðu kleift milliliðalaust að ráðstafa þessum fjármunum svo sem hún gerði síðar sama dag með því að millifæra 800.000 krónur inn á reikning ákærða X og 550.000 krónur inn á reikning D. Að þessu leyti eru umráð á fjármunum önnur en fyrr á tímum þegar ekki var hægt að ráðstafa fjármunum á innlánsreikningum nema með atbeina starfsfólks viðkomandi banka eða sparisjóðs. Þegar þetta er virt leikur ekki vafi á því að fjármunir þeir sem ákærðu Rhonicu er gefið að sök að hafa kastað eign sinni á eru verknaðarandlag sem fellur undir 246. gr. almennra hegningarlaga.
Fyrir liggur að B ehf. greiddi tvívegis söluandvirði bifreiðarinnar JK-610 inn á hlaupareikning ákærðu. Var fyrri innborgunin innt af hendi 5. september 2006 en sú síðari 13. október sama ár, eins og áður getur. Ákærða Rhonica hefur ekki vefengt að B ehf. hafi vegna mistaka lagt inn á hlaupareikning hennar síðari greiðsluna. Hún hefur hins vegar skýrt svo frá að um þetta hafi hún verið grandlaus þegar hún ráðstafaði nær öllum fjármunum af reikningnum síðar sama dag. Hefur ákærða borið því við að hún hafi álitið að innborganir inn á reikninginn hafi verið greiðslur til ákærða X sem hafi vísað á reikning hennar.
Ákærði X hefur einnig greint svo frá að hann hafi fengið að beina greiðslu til sín um hlaupareikning ákærðu Rhonicu. Til skýringar á því hefur ákærði bent á að hann hafi á þessum tíma aðeins verið með bankabók auk þess sem hann hafi verið á bótum samhliða því að taka að sér verk án þess að gefa upp þær tekjur. Þótt þetta verði tæplega skilið í ljósi þess að ákærða millifærði fjármuni rakleitt af hlaupareikningi sínum yfir á bankareikning ákærða er til þess að líta að innborgun að fjárhæð 650.000 krónur var lögð inn á reikning hennar af C, auk þess sem ákærða millifærði 550.000 krónur inn á reikning D. Ákærða hefur skýrt frá því að þessir menn séu henni með öllu ókunnir en ákærði hefur aftur á móti staðfest að hann hafi átt í samskiptum við umrædda menn á þessu tímabili. Engin efni eru til að vefengja þetta og því verður að leggja til grundvallar að ákærði X hafi með þessu móti haft aðgang að hlaupareikningi ákærðu. Jafnframt er ekki hægt að vísa því á bug að ákærða hafi fyrst gert sér grein fyrir að umtalsvert fé hafði verið lagt inn á hlaupareikning hennar þegar hún skoðaði stöðu á reikningnum í hraðbanka, en um var að ræða annars vegar fyrrgreinda innborgun að fjárhæð 650.000 krónur 9. október 2006 og innborgun B ehf. 13. sama mánaðar að fjárhæð 810.000 krónur. Verður því heldur ekki slegið föstu að ákærðu hafi verið ljóst hvaðan greiðslur bárust síðar sama dag og B ehf. greiddi inn á reikninginn, en þennan dag millifærði ákærða 1.350.000 krónur af reikningnum, þar á meðal 800.000 krónur til ákærða X. Er þá haft í huga að ekki liggur fyrir í málinu hvort greiðandi innborgunar var tilgreindur á yfirliti í heimabanka ákærðu sama dag og greiðslan var innt af hendi.
Eftir að ákærða Rhonica millifærði 800.000 krónur af hlaupareikningi sínum 13. október 2006 yfir á bankabók ákærða X millifærði hann á tímabilinu 16. til 30. þess mánaðar samtals 560.000 krónur með ellefu innborgunum aftur yfir á hlaupareikning ákærðu. Fyrir dómi var á báðum ákærðu að skilja að þetta hefði verið óvenjulegt en ákærði X hefði þó áður lagt ákærðu Rhonicu til fé. Einnig bar ákærða fyrir dómi að útgjöld hennar á þessum tíma sem og í dag væru umtalsverð, en hún væri einstæð móðir. Að áliti dómsins eru þessar skýringar ákærðu á svo umtalsverðum fjárframlögum frá ákærða X til ákærðu Rhonicu alls ófullnægjandi og í engu samræmi við annað sem liggur fyrir í málinu. Er þá til þess að líta að ákærði X lauk langri afplánun í fangelsi í lok janúar 2006 eða um 10 mánuðum áður en hann innti umræddar greiðslur af hendi til ákærðu. Á þessum tíma var ákærði ekki í fastri vinnu en fékk örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann kveðst þó hafa tekið að sér tilfallandi verk í málningarvinnu og taldi sig hafa átt útistandandi 500 til 700 þúsund í verklaun. Einnig taldi ákærði sig hafa átt inni fé sem hann lánaði öðrum. Þeirri frásögn ákærða að hann hafi átt von á greiðslum fyrir einhver verk eða átti inni fjármuni hjá einhverjum verður í sjálfu sér ekki vísað á bug. Á hinn bóginn er afar ótrúverðugt með hliðsjón af aðstæðum ákærða X að hann hafi átt von á greiðslu í þessum mæli og í raun ekkert minna en fráleitt að ákærðu hafi ekki fljótlega í kjölfarið kannað hvaðan greiðslur bárust inn á hlaupareikning ákærðu Rhonicu. Er þá til þess að líta að frásögn ákærða X kemur illa heim og saman við að hann hafi átt von einni greiðslu að fjárhæð 810.000 krónur. Þá var beint tilefni til að athuga hvaðan greiðslur bárust þótt ekki væri nema til að ganga á eftir ógreiddum kröfum miðað við þau umsvif sem ákærði X hefur sjálfur lýst.
Auk þeirra atriða sem hér hafa verið rakin er til þess að líta að greiðslur samtals að fjárhæð 100.000 krónur bárust ákærðu Rhonicu eftir að hún sjálf taldi sig hafa fengið heimsókn frá stjórnarformanni B ehf., sem greindi henni frá því að andvirði bifreiðarinnar hefði verið tvígreitt. Þannig hélt hún áfram að taka við og tileinka sér fé frá ákærða X eftir að hún kannast við að hafa verið grandsöm um hvernig í pottinn var búið. Ákærða hefur skýrt svo frá að hún hafi í kjölfarið boðist til að greiða inn á skuldina en hlutagreiðslu hafi verið hafnað. Þessi frásögn ákærðu fer aftur á móti í bága við það sem fram kemur í bréfi 21. september 2007, en þar er þess farið á leit fyrir hönd B ehf. að skuldin verði greidd eða samið um hana. Er þá einnig haft í huga að ástæðulaust væri með öllu úr því sem komið var að synja um viðtöku á greiðslu frá ákærðu sem hún segist hafa boðið fram. Á þessum framburði ákærðu er því ríkur ólíkindablær sem og frásögn hennar allri eins og hér hefur nánar verð rakið.
Samkvæmt framansögðu er sannað gegn neitun ákærðu Rhonicu að henni hafi verið ljóst að B ehf. hafði tvígreitt bifreiðina JK-610 á því tímabili sem hún fékk endurgreiddan verulegan hluta af þeim 800.000 krónum er hún lagði inn á bankareikning ákærða X sama dag og síðari greiðslan frá B barst henni 13. október 2006. Er jafnframt sannað að ákærða, sem hefur að engu leyti staðið skil gagnvart B ehf., hafi kastað eign sinni á þessa fjármuni. Með þessu atferli hefur ákærða því gerst brotleg við 246. gr. almennra hegningarlaga.
Svo sem hér hefur verið rakið lagði ákærða Rhonica 800.000 krónur inn á bankareikning ákærða X. Með því að haga endurgreiðslu á hluta af þeim fjármunum á þann veg að leggja reglulega inn óverulegar fjárhæðir hjá ákærðu var girt fyrir að unnt væri að bakfærða greiðsluna frá B ehf. Eins og áður er rætt er mjög ótrúverðug frásögn ákærða X um fjárframlög hans á þessum tíma til ákærðu Rhonicu, auk þess sem hann gat að mjög takmörkuðu leyti skýrt ástæður þess að greiðslum var hagað með þessu móti. Þá er þess að gæta að ákærði sagði fyrir dómi þegar á hann var gengið að hann hefði ekki ætlað að taka peninga frá ákærðu. Af þeim orðum ákærða og öðru því sem hér hefur verið rakið er ekki varhugavert að slá því föstu að ákærða hafi hlotið að vera ljóst hvað bjó að baki og að ekki var um að ræða fé sem hann átti með réttu. Þá er þess jafnframt að gæta að ákærði hefur ekki gert nein skil þótt honum hafi að eigin sögn síðar borist þær greiðslur verklauna sem hann heldur fram að hann hafi talið sig vera að fá greidd með innborguninni frá ákærðu. Að öllu þessu virtu er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi með því að hafa fjármunina í sinni umsýslu og haga endurgreiðslu á hluta af fjármununum með fyrrgreindu móti veitt ákærðu liðsinni í verki við að kasta eign sinni á þá fjármuni sem ranglega voru lagðir inn á hlaupareikning hennar, en með því hefur hann gerst brotlegur við 246. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 22. gr. sömu laga.
V
Með bréfi 16. nóvember 2007 var málið kært til lögreglu en málið var höfðað með útgáfu ákæru 9. júlí 2010. Þessi síðbúna saksókn skýrist af ástæðulausum drætti sem varð á málinu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Fer þessi málsmeðferð í bága við meginreglu sakamálaréttarfars um hraða málsmeðferð og er í andstöðu við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta er aðfinnsluvert og hefur áhrif við ákvörðun refsingar.
Refsing ákærðu Rhonicu, sem er með hreint sakavottorð, þykir hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi en rétt þykir að fresta fullnutu refsingarinnar og falli hún niður að einu ári liðnu frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Samkvæmt sakavottorði hlaut ákærði X dóm í Kaupmannahöfn [...] fyrir fíkniefnalagabrot. Var refsing ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Ákærði fékk reynslulausn [...] í tvö ár á óafplánaðri refsingu sem var fangelsi í 420 daga. Þá hlaut ákærði dóm fyrir ölvunarakstur [...] og voru viðurlög ákveðin fésekt og svipting ökuréttar.
Með broti því sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir rauf hann skilorð þeirrar reynslulausnar sem hann fékk 26. janúar 2006. Að gættum þeim drætti sem orðið hefur á meðferð málsins þykir rétt samkvæmt heimild í 1. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, að láta reynslulausn ákærða standa óhaggaða og gera honum refsingu sér í lagi vegna brotsins sem hér er dæmt um. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi en rétt þykir að fresta fullnutu refsingarinnar og falli hún niður að einu ári liðnu frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Með þeirri háttsemi sem ákærða Rhonica hefur verið fundin sek um bakaði hún sér bótaskyldu gagnvart B ehf. og verður sú krafa tekin til greina eins og hún er sett fram, en upphafsdagur dráttarvaxta er miðaður við þann dag er mánuður var liðinn frá því ákærðu var sent innheimtubréf 24. október 2006, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Jafnframt verður ákærðu gert að greiða málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.
Í málinu hefur ekki fallið til annar sakarkostnaður en málsvarnarlaun og ferðakostnaður verjenda ákærðu sem þeim verður hvoru um sig gert að greiða sínum verjanda, sbr. 1. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærða, Rhonica Rae Reynisson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnu einu ári frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnu einu ári frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.
Ákærða Rhonica greiði B ehf. 810.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 13. október 2006 til 24. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.
Ákærða Rhonica greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Halldórs Björgvinssonar, héraðsdómslögmanns, 376.500 krónur, og ferðakostnað verjandans, 37.730 krónur.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Huga Bjarnasonar, héraðsdómslögmanns, 313.750 krónur, og ferðakostnað verjandans, 16.650 krónur.