Hæstiréttur íslands
Mál nr. 52/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 19. janúar 2015 |
|
Nr. 52/2015. |
Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að tiltekið gagn yrði ekki lagt fram í máli ákæruvaldsins á hendur honum. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæran uppfyllti ekki áskilnað 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að tiltekið gagn yrði ekki lagt fram í máli sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í kæru varnaraðila eru engar dómkröfur gerðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í skriflegri kæru til héraðsdómara greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í skriflegri kæru varnaraðila til héraðsdóms var hvorki greint frá kröfu um breytingu á hinum kærða úrskurði né þeim ástæðum sem hún væri reist á. Kæran fullnægir því ekki skilyrðum fyrrgreinds lagaákvæðis og verður málinu samkvæmt því vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2015.
Mál þetta er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 19. ágúst 2014, á hendur X, kt. [...] fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga, laga um ávana- og fíkniefni, vopnalaga, og almennra hegningarlaga. Undir málsnúmer þessa máls hafa verið sameinaðar með heimild í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð sakamála í héraði, þrjár ákærur útgefnar af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sú fyrsta útgefin 23. september 2014, fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga, önnur útgefin 8. október 2014, fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga og ákvæðum almennra hegningarlaga, og þriðja ákæran var útgefin 9. janúar 2015, fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni og almennra hegningarlaga.
Í ákæru útgefinni 9. janúar 2015, er ákærða nánar gefið að sök að hafa þriðjudaginn 25. nóvember 2014, á bílastæði við [...], veist að A og slegið hana ítrekað hnefahögg í andlit, höfuðið og á hendur og úlnlið, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á augnloki og augnsvæði, blóðnasir, heilahristing, mar á úlnlið og hönd, yfirborðsáverka á öðrum hlutum höfuðs, brot í aftasta jaxl í efri góm hægra megin (brotið úr mesialt tönn 16). Er brotið talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Við fyrirtöku málsins 9. janúar sl. neitaði ákærði sök að nefndri líkamsárás og krafðist þess að synjað yrði um framlagningu rannsóknargagna merkt II-8, bls. 1-6, „skýrsla rannsakara [...]“ dags. 27. nóvember 2014. Af hálfu ákæruvalds var þess krafist að kröfu ákærða yrði hafnað. Fór fram munnlegur málflutningur um þennan þátt málsins og málið tekið til úrskurðar 12. janúar sl.
I
Í fyrrgreindum rannsóknargögnum kemur fram að við handtöku ákærða og húsleit þann 27. nóvember 2014, að [...] í [...], íbúð B, hafi mátt sjá borðtölvu sem hafi verið tengd við sjónvarp með opinni Facebook vefsíðu þar sem notandanafn ákærða kom fram. Húsráðandi hafi sagst eiga tölvuna en ákærði hafi verið að nota hana. Hafi verið tekin ákvörðun um að skoða og mynda samskiptin sem þar komu fram sem hafi verið á milli ákærða og brotaþola málsins. Hafi verið skoðuð samskipti þeirra allt aftur til 3. október 2014.
II
Ákærði vísar til þess að gagnanna hafi verið aflað með ólögmætum hætti og með því hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs hans og jafnvel annarra. Hafi ákærði kært rannsókn lögreglu í þessu máli til Ríkissaksóknara fyrir meint brot gegn hennar ákvæðum IX. og X. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og gegn ákvæðum 228. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki lægju fyrir tilgreindar myndir og ekki hafi verið óskað eftir því við ákærða að hann veitti lögreglu aðgang að þeim upplýsingum sem fram komi í gögnunum og því ekki legið fyrir samþykki hans á skoðun þeirra. Skýrt sé kveðið á um þessa skyldu í 2. mgr. 68. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ákvæðið sé að finna í IX. kafla laga um meðferð sakamála, en ákæruvaldið hafi aðeins aflað leitarheimildar samkvæmt X. kafla laganna. Ekki hafi því legið fyrir heimild til þess að skoða persónuleg gögn ákærða og að leggja hald á þau samkvæmt IX. kafla, en lögregla hefði getað aflað sömu gagna hjá brotaþola. Þá hafi verið skoðuð samskipti ákærða og brotaþola langt aftur fyrir þann tíma sem meint líkamsárás átti sér stað og ómögulegt sé að vita hvað annað lögreglan hafi skoðað án heimildar í öðrum samskiptum ákærða á sama samskiptamiðli. Dómara væri í 3. mgr. 110. gr. laga um meðferð sakamála, veitt heimild til að meina aðila um sönnunarfærslu ef bersýnlegt væri að gagnið væri tilgangslaust til sönnunar og ætti því að geta meinað ákæruvaldinu um framlagningu gagna sem aflað væri með ólögmætum hætti.
Að hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að legið hafi fyrir skrifleg heimild húsráðanda til leitar í fasteigninni að munum sem tilheyrðu ákærða. Einnig hafi húsráðandi upplýst að hún ætti þá tölvu þar sem samskiptin áttu sér stað. Hafi samskiptin sem voru opin, blasað við lögreglu við leit í eigninni. Ákæruvaldið afli sönnunargagna samkvæmt 110. gr. laga um meðferð sakamála í héraði og í 109. gr. sömu laga komi fram að sönnunarmat dómara sé frjálst. Kæra ákærða til Ríkissaksóknara hafi ekki fengið neina skoðun og sú kæra sé ekki staðfesting á því að rannsóknaraðgerðir lögreglu hafi verið ólöglegar. Ákæruvaldið telji að gagnanna hafi verið aflað með lögmætum hætti og jafnvel þó svo að síðar kæmi í ljós að rannsóknaraðgerðir lögreglu í þessu máli hafi verið ólöglegar þá hefði það ekki áhrif á framlagningu gagnanna, enda ekkert í íslenskum lögum sem banni slíka framlagningu gagna og þá væri það undir mati dómara komið, miðað við atvik máls hverju sinni hvaða gildi framlagt gagn hefði við ákvörðun um sekt eða sýknu.
III
Í 2. mgr. 134. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, kemur fram að ákærandi leggi fram skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og sönnunargildi hafa að hans mati. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna skal leggja hald á muni, þar með talin skjöl, ef ætla má að þeir, ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli. Óheimilt er skv. 2. málslið í nefndu lagaáakvæði að leggja hald á muni ef þeir hafa að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli, svo og upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. sömu laga tekur til. Að öðru leyti metur dómari sönnunargildi gagna skv. 109. gr. og 137. gr. laga um meðferð sakamála með hliðsjón af atvikum hverju sinni og samkvæmt 3. mgr. 110. gr. sömu laga, getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnlegt að gagnið sé tilgangslaust til sönnunar.
Þau gögn sem ákærði krefst að ákæruvaldinu verði meinuð framlagning á varða samskipti milli ákærða og brotaþola um hina meintu líkamsárás og geta þau ekki talist tilgangslaus við sönnunarfærslu í máli þessu. Gögnin hafa ekki að geyma upplýsingar sem nefndar eru í 2. málslið 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð sakamála. Ákvæði 2. mgr. 68. gr. laganna hafa að geyma meðalhófsreglu um rannsókn lögreglu í sakamálum í því skyni að varna tjóni og óhagræði fyrir eigendur muna sem kann að hljótast af því að lagt sé hald á mun svo sem með því að halda tölvu frá eiganda hennar. Í þeim tilfellum skal beina því til eiganda eða vörsluhafa að veita aðgang að tölvunni eða láta í té upplýsingar úr henni í stað þess að haldleggja tölvuna. Ekki verður séð að nefndar aðstæður eigi við í máli þessu. Meint brot rannsakenda geta ekki leitt til þess að synja beri um framlagningu gagna en þau gætu eftir atvikum haft áhrif á sönnunarmat í málinu. Af framangreindum ástæðum verður kröfu ákærða hafnað.
Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu ákærða, X, um að ákæruvaldinu verði synjað um framlagningu rannsóknargagna, merkt II-8, bls. 1-6, „skýrsla rannsakara [...]“ dags. 27. nóvember 2014.