Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 4. júlí 2011.

Nr. 409/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní  2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur Hæstaréttar gengur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 12. september 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en þó ekki lengur en til 30. september 2011 klukkan 16.

Varnaraðili var 16. mars 2011 dæmdur af fjölskipuðum Héraðsdómi Reykjavíkur til þriggja ára fangelsis. Einn þriggja dómara skilaði sératkvæði og vildi sýkna varnaraðila. Með yfirlýsingu 17. mars 2011 lýsti varnaraðili áfrýjun dómsins til Hæstaréttar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi frá 12. nóvember 2010 vegna þess ætlaða brots sem hann nú hefur verið dæmdur fyrir. Hefur gæsluvarðhaldið byggst á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Talið verður að skilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi á þessum grundvelli sé að mál sé rekið með fullnægjandi hraða, þar með talið við áfrýjun, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008. Er það mat Hæstaréttar að þessu skilyrði sé ekki fullnægt í málinu og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 29. júní 2011.

                Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að dómfellda, X, kennitala [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur Hæstaréttar gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 30. september nk., kl. 16:00.

                Í greinargerð ákæruvalds kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 16. mars 2011, í máli nr. S-24/2011 hafi X verið sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa mánudaginn 11. október 2010, á göngustíg í [...] í Reykjavík, ráðist með ofbeldi á A, slegið hana ítrekað með hörðu áhaldi í höfuð og tekið hana hálstaki og þrengt að þar til hún missti meðvitund, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut 3½ cm langan skurð á hnakka hægra megin, djúpan 3 cm langan skurð á enni, brot á nærkjúku hægri vísifingurs, mar á hálsi undir kverkum, mar í handarkrika hægra megin og maráverka á vinstri hendi. Hafi brotið verið heimfært undir 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 og dómfelldi dæmdur í 3 ára fangelsi. Með áfrýjunaryfirlýsingu dagsettri 17. mars 2011 hafi dómfelldi lýst yfir áfrýjun á dómi héraðsdóms.

Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 12. nóvember 2010 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en frá 16. mars sl. einnig á grundvelli 3. mgr. 97. gr. sömu laga. Úrskurðir héraðsdóms hafi þrisvar verið staðfestir af Hæstarétti, sbr. dóma nr. 636/2010, nr. 680/2010 og loks hafi úrskurður héraðsdóms frá 16. mars sl. verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 159/2011. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 13. apríl sl., í máli nr. R-190/2011, hafi X verið gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 30. júní nk., kl. 16:00.

Dómfelldi hafi verið sakfelldur fyrir alvarlegt brot. Með hliðsjón af því og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á er þess krafist að ákærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur Hæstaréttar gengur í máli hans, sbr. 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008.

----------------------------------------------------------------

                Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-24/2011, sem upp var kveðinn 16. mars sl., var dómfelldi sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Var brot hans heimfært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hann dæmdur í 3 ára fangelsi. Í kjölfarið var dómfellda með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sama dag gert að sæta gæsluvarðhaldi til þessa dags. Staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð með dómi réttarins í málinu nr. 159/2010.

                Dómfelldi áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar og er nú beðið eftir því að mál hans verði þar tekið fyrir.

                Fallist er á það með ákæruvaldinu að ríkir almannahagsmunir standi til þess að dómfelldi gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferð fyrir Hæstarétti . Með vísan til 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 verður því fallist á kröfu ákæruvaldsins um að hann sæti gæsluvarðhaldi áfram.  Á hitt ber að líta að dómfelldi hefur nú þegar sætt gæsluvarðhaldi frá 12. nóvember sl. og að dómur gekk í máli hans í héraði 16. mars sl. en enn hefur ekki verið ákveðið hvenær mál hans verður flutt í Hæstarétti, að því er fram kom hjá settum saksóknara, en réttarhlé stendur nú þar til 1. september.

                Samkvæmt framansögðu fellst dómari á að dómfelldi sæti áfram gæsluvarðhaldi en ekki verður fallist á lengri gæsluvarðhaldsvist en til mánudagsins 12. september nk. kl. 16.

Allan V. Magnússon kvað upp þennan dóm.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Dómfelldi, X, skal sæta áframhaldandi gæslu­varð­haldi þar til dómur Hæstaréttar gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til mánudagsins  12. september nk., kl. 16:00.