Hæstiréttur íslands
Mál nr. 483/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 11. júlí 2012. |
|
Nr. 483/2012. |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn Y (Flosi Hrafn Sigurðsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að Y skyldi
sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu
til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum
9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2012, þar
sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. júlí
2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1.
mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega
hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi
verði markaður skemmri tími. Að því frágengnu krefst hann þess að sér verði
ekki gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Það athugist að þegar krafa um gæsluvarðhald yfir varnaraðila var tekin fyrir á dómþingi 7. júlí 2012 hefði í ljósi atvika málsins verið rétt af héraðsdómara að spyrja varnaraðila hvort hann hafi framið brot þau sem hann er sakaður um. Er þá til þess litið að við skýrslutöku hjá lögreglu daginn áður hafði varnaraðili neitað með öllu þeim sakargiftum sem á hann eru bornar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
laugardaginn 7. júlí 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist
þess að Héraðsdómur
Reykjavíkur úrskurði að Y, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt
til föstudagsins 13. júlí 2012 kl. 16.
Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á
gæsluvarðhaldinu stendur.
Í
greinargerð Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að í gær hafi
lögreglu borist tilkynning frá [...] hér í borg um að maður hafi verið sviptur
frelsi og rændur á heimili sínu. Þar hafi lögreglumenn hitt A sem sagði tvo
menn hafa ruðst inn í íbúð sína, haldið sér í gíslingu og neytt með ofbeldi og
hótunum til að millifæra af bankareikningi sínum inn á reikning sem mennirnir
hafi gefið upp ásamt því að stela munum úr íbúðinni.
A hafi
lýst mönnunum fyrir lögreglu og skömmu síðar hafi kærði, Y, sem samsvarað hafi
lýsingu á öðrum mannanna, verið handtekinn skammt frá, við [...].
Í
framburði A komi fram að hann hafi vaknað kl. 03:00 við að dyrabjöllunni hafi
verið hringt. Er hann hafi opnað hurðina hafi ruðst inn tveir menn, annar
talandi með erlendum hreim, fjötrað, troðið tusku upp í munn hans og límt
límband fyrir. Næstu sex klukkustundirnar hafi mennirnir leitað í íbúðinni að
verðmætum og neytt A með ofbeldi og hótunum til að millifæra símleiðis 453.000
kr. af bankareikningi hans inn á bankareikning kærða, Y (reikning nr. [...]),
en annar mannanna hafi skrifað niður upplýsingar á blað. Við atlögurnar hafi A hlotið
sýnilega áverka ásamt því að vera í andlegu áfalli. Nánar um atvikalýsingu og
áverka vísist til gagna lögreglu.
Samstarfsfólk
A hafi farið að undra hví hann kæmi ekki til vinnu um morguninn og afráðið að
fara heim til hans og kanna hvort í lagi væri með hann. Er þau hafi knúið dyra
á íbúð A, klukkan rúmlega 10:30, hafi árásarmennirnir verið þar inni. Er þeir
hafi orðið varir við samstarfsfólkið hafi þeir haft sig á brott út um
svaladyrnar, bakdyramegin.
Ásamt
því að samsvara lýsingu A á öðrum árásarmannanna hafi kærði, Y, haft í fórum
sínum við handtökuna rúmlega 308.000 kr. í seðlum og skiptimynt, tvær
lyklakippur og minnislykil sem hafi verið í eigu A, ávísun stílaða á A og blað,
sem A hafi verið sýnt, með handskrifaðri kennitölu kærða Y, og bankanúmeri
hans.
Við
yfirheyrslur hafi kærði Y neitað öllum sakargiftum og gefið ótrúverðugar
skýringar á ástæðu millifærslu á milli bankareikninga hans og A og engar
skýringar gefið á hví hann hafi verið með persónulega muni A í fórum sínum við
handtöku. Þá liggi fyrir upplýsingar frá starfsmönnum [...]bankans að skömmu
fyrir handtökuna hafi kærði millifært tæplega helming upphæðarinnar, sem
millifærð hafi verið af reikningi A, inn á hans reikning, inn á reikning meints
samverkamanns, sbr. gögn lögreglu, og tekið út um 305.000 kr. í peningum út af
eigin bankareikningi.
Af
framansögðu telji lögreglan að kærði, Y, sé undir rökstuddum grun um að hafa í
félagi við annan mann frelsissvipt og rænt A á heimili þess síðastnefnda.
Rannsókn
málsins sé á frumstigi og á lögreglan eigi eftir að hafa hendur í hári
samverkamanns kærða, yfirheyra vitni og klára rannsókn í tengslum við vettvang
og þess sem stolið hafi verið. Sé því brýnt að kærða verði gert að sæta
gæsluvarðhaldi þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókninni
með því ýmist að koma undan munum eða hafa áhrif á aðra samseka og/eða vitni.
Með
vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b.
liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að
krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt
því sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra og ráða má af öðrum gögnum
málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa rænt og svipt mann frelsi
sínu síðustu nótt í félagi við annan mann, sem enn er ófundinn. Brot það sem
kærði er grunaður um getur varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist
á það með lögreglustjóranum að kærði geti torveldað rannsókn málsins, svo sem með
því að hafa áhrif á samseka eða vitni, gangi hann laus. Með vísan til þess og
framangreinds rökstuðnings í greinargerð lögreglustjóra að öðru leyti verður
krafan tekin til greina eins og hún er fram sett, en ekki þykir ástæða til að
marka varðhaldinu skemmri tíma. Með sömu rökum er fallist á að kærði sæti
einangrun í gæsluvarðhaldinu.
Hervör
Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, Y, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. júlí 2012 kl. 16.00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.