Hæstiréttur íslands
Mál nr. 313/2013
Lykilorð
- Samningur
- Stjórnsýsla
|
|
Fimmtudaginn 17. október 2013. |
|
Nr. 313/2013.
|
Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Gagnavörslunni ehf. (Anton B. Markússon hrl.) |
Samningur. Stjórnsýsla.
G ehf. höfðaði mál gegn Í og krafðist greiðslu fyrir þróunarvinnu í þágu embættis umboðsmanns skuldara og afnot embættisins af hugbúnaði G ehf. Skriflegur samningar þar að lútandi hafði ekki verið undirritaður. Embætti umboðsmanns skuldara var stofnað 1. ágúst 2010 með lögum nr. 100/2010 en samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögunum átti þriggja manna starfshópur að undirbúa gildistöku laganna og vera umboðsmanni skuldara til ráðgjafar um starfsemi stofnunarinnar fyrsta starfsárið. Var því talið að ráðuneytisstjóri félags- og tryggingarmálaráðuneytisins, sem var skipaður formaður starfshópsins, hefði fram til stofnunar embættisins verið bær til að ganga til samninga við G ehf. svo skuldbindandi væri fyrir Í. Með vísan til samskipta ráðuneytisstjórans og framkvæmdastjóra G ehf. var talið að bindandi óformlegur samningur hefði komist á milli aðila í lok júlí 2010 um að hefja vinnu við þróun hugbúnaðar fyrir embætti umboðsmanns skuldara og að miða bæri við að hann hefði tekið gildi frá og með 3. ágúst sama ár. Á hinn bóginn var talið að G ehf. hefði mátt gera sér í grein fyrir í í lok þess sama mánaðar að í raun hefðu ekki náðst endanlegir samningar. Þegar ekkert hefði orðið úr fyrirhugaðri undirskrift samninganna 10. september sama ár hafi ekki farið á milli mála að sá óformlegi samningur sem gerður hafði verið hafi þá runnið sitt skeið á enda. Ósannað var að komist hefði á skuldbindandi samningur milli aðila um afnot af hugbúnaði G ehf. og var Í því sýknað af reikningi þar að lútandi. Var Í á hinn bóginn dæmt til að greiða G ehf. fyrir vinnu og akstur á tímabilinu frá 3. ágúst 2010 til 10. september sama ár í samræmi við sundurliðaðar tímaskýrslur, enda hafði Í ekkert lagt fram sem rýrði sönnunargildi þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Upphaf þessa máls verður rakið til þess að með lögum nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara var það embætti sett á stofn. Lögin tóku gildi 1. ágúst 2010, að undanskildu bráðabirgðaákvæði II sem öðlaðist gildi 6. júlí sama ár. Samkvæmt því ákvæði skyldi þriggja manna starfshópur undirbúa gildistöku laganna og vera umboðsmanni skuldara til ráðgjafar um starfsemi stofnunarinnar fyrsta starfsárið. Var Bolli Þór Bollason, þáverandi ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, skipaður formaður starfshópsins, en embættið heyrði undir ráðuneytið. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 100/2010 skipar ráðherra umboðsmann skuldara til fimm ára í senn. Fer hann með forstöðu stofnunarinnar og ber faglega, fjárhagslega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri hennar. Eftir 3. mgr. sömu lagagreinar stjórnar umboðsmaður starfsemi og rekstri stofnunarinnar og ræður aðra starfsmenn. Þá er honum heimilt að gera þjónustusamning við utanaðkomandi aðila um vinnslu mála fyrir stofnunina.
Að sögn stefnda hófust viðræður milli hans og áfrýjanda í byrjun júlí 2010 um mögulega aðkomu stefnda að stofnun og starfsemi embættis umboðsmanns skuldara sem fólgin væri „í því að veita ráðgjöf í skjalastjórnun, verkferlum og hugsanlegri innleiðingu á nýju tölvukerfi fyrir embættið“ eins og komist var að orði í héraðsdómsstefnu. Hafi Bolli Þór verið fulltrúi áfrýjanda í þessum viðræðum, en síðar hafi Runólfur Ágústsson, sem skipaður hafði verið umboðsmaður skuldara, komið að viðræðunum. Í málinu liggja fyrir afrit af tölvupóstsamskiptum milli Brynju Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra stefnda, og þeirra Bolla Þórs og Runólfs í lok þessa mánaðar. Þannig sendi Brynja 28. júlí 2010 tölvubréf til hins síðarnefnda með afriti til þess fyrrnefnda þar sem fram kom að meðfylgjandi væru drög að tveimur samningum. Í tölvubréfinu sagði að annar þeirra væri „staðlaður samningur vegna kerfisins okkar, sem þið leigið bara en þurfið ekki að kaupa.“ Hinn væri „samningur vegna þróunarvinnu, og þar skilgreinum við alltaf verkefnin í samráði við verkkaupa. Við vinnum mjög agað og gefum alltaf upp unna tíma á 2-3ja vikna fresti.“ Í drögunum að síðarnefnda samningnum, sem nefndur var þróunarsamningur, sagði meðal annars að markmið með honum væri „að setja inn aðlaganir (sérsmíði) fyrir verkkaupa á skjala- og upplýsingastjórnunarkerfinu CoreData.“ Þar var jafnframt tekið fram að við undirritun samningsins yrði myndaður vinnuhópur samningsaðila, auk stýrihóps sem í sætu fulltrúar verkkaupa og aðilar, honum tengdir. Einnig að stýrihópur myndi „halda reglulega framvindufundi þar sem vinnuhópar fara yfir verkþætti og meta framvindu þeirra hvað tíma, kostnað, áhættu, úrlausnir og gæði varðar.“ Þá kom fram í samningsdrögunum að vinnuhópar skyldu skila af sér stöðuskýrslu vikulega með upplýsingum „um framvindu tiltekinna verkþátta samanborið við tímaáætlanir“. Eftir að Brynja hafði sent áðurnefnt tölvubréf svaraði Bolli Þór henni samdægurs þar sem meðal annars sagði: „Þetta lítur mjög vel út. Eitt sem ég verð að spyrja um er verðið pr. tíma ... Ég vil ... keyra þetta verkefni af stað og veit að Runólfur er sama sinnis.“ Síðar sama dag sendi Brynja tölvubréf til Bolla Þórs þar sem hún sagðist meðal annars vera „tilbúin að gera ykkur sérstakt tilboð þar sem ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni ... Ef að umboðsmaður skuldara semur við okkur um að hann fari í okkar skjala- og upplýsingakerfi (Core 2 sem ég sendi samning um), við smíðum allar brýrnar milli okkar kerfis og kerfa opinberu aðilanna og þeirra sem ná þarf gögn til ... þá er ég tilbúin að gefa sérstakan afslátt af vinnu ... eða 25% sem færi þá í 10.200 kr. án vsk.“ Þessu tölvubréfi svaraði Bolli Þór í lok dagsins og var niðurlag svars hans svohljóðandi: „Mér finnst þetta tilboð mjög ásættanlegt og er tilbúinn að tala fyrir því af okkar hálfu. Ég vil líka vera viss um að þú sért sátt við okkar samning. Eigum við að klára samninginn á þessum nótum?“ Daginn eftir, fimmtudaginn 29. júlí 2010, sendi Bolli Þór tölvubréf til Brynju þar sem hann gat þess í upphafi að hann vildi láta hana vita af stöðunni, en nokkru síðar sagði: „Við Runólfur hittumst síðan í dag til að ræða næstu skref. Við vorum sammála um að ganga til samninga við ykkur á þeim forsendum sem liggja fyrir. Runólfur taldi rétt að við fengjum óháðan aðila til að útbúa verklýsingu fyrir okkur og ætlaði að ganga strax í það mál þannig að það ætti að liggja fyrir í síðasta lagi nk. þriðjudag. Að mínu mati breytir þetta engu um að það væri mjög gott ef þið gætuð byrjað strax að vinna í öllum þessum málum. Við megum engan tíma missa og það munar um hvern dag. Þá er ég ekki að tala um að þið takið ekki frí yfir helgina. En kannski notið helgina til að hugsa um málið“.
Runólfur Ágústsson lét af störfum sem umboðsmaður skuldara 3. ágúst 2010. Var Ásta Sigrún Helgadóttir skipuð í embættið í hans stað og hóf hún störf 9. sama mánaðar. Í tölvubréfi frá Bolla Þór til Brynju 4. ágúst 2010 spurði hann hvort hún vildi bíða með að funda þar til nýr umboðsmaður væri kominn. Lét hann þess jafnframt getið að hann væri „yfir verkefnisstjórninni“ og hefði „ákvörðunarvald í málinu.“ Í tölvubréfi til Brynju 6. sama mánaðar kvaðst Bolli Þór vilja stefna á fund með þeim Ástu Sigrúnu sem fyrst og síðan „hefði ég viljað setja allt á fullt í vinnunni með eins miklum krafti og þið getið komið með.“ Í fundargerð ráðgjafarhóps vegna embættis umboðsmanns skuldara 12. ágúst 2010 kom fram að Ásta Sigrún hafi hitt fulltrúa stefnda nokkrum sinnum. Í fundargerð hópsins 23. sama mánaðar sagði að Brynja hafi verið mætt á fundinum og meðal annars kynnt hvað starfsmenn stefnda hafi verið að gera. Í tölvubréfi frá Ástu Sigrúnu til Bolla Þórs 28. ágúst 2010 óskaði hún eftir því „að verkefnið flyttist alfarið“ til embættis umboðsmanns skuldara, auk þess sem hún bað um að fá þann samning sem félags- og tryggingamálaráðuneytið hefði gert við stefnda. Samdægurs framsendi Bolli Þór tölvubréfið til Brynju, meðal annars með þeim orðum „að við munum vera aðilar að samningnum við ykkur. Hef engar athugasemdir við að það verði einhver stýrihópur hjá Ástu þar fyrir utan um sjálf verkefnin.“ Í tölvubréfi til Bolla Þórs tveimur dögum síðar, 30. ágúst 2010, ítrekaði Ásta Sigrún beiðni sína um að fá samninginn sem gerður hefði verið við stefnda. Í svari Bolla Þórs sama dag sagði að ekki væri búið að ganga formlega frá samningum við stefnda. Kvaðst hann telja eðlilegt að bæði ráðuneytið og embætti umboðsmanns skuldara skrifuðu undir samningana og bætti við að hann hafi verið „búinn að ná mjög góðum samningum við“ stefnda. Ásta Sigrún svaraði Bolla Þór samdægurs og sagðist hafa haldið að búið hefði verið að ganga frá samningunum. Kvaðst hún endilega vilja sjá þá áður en formlega yrði gengið frá þeim. Í lok dagsins framsendi Bolli Þór til Brynju þessi tölvupóstsamskipti sín og Ástu Sigrúnar. Degi síðar, 31. ágúst 2010, sendi Bolli Þór tölvubréf til Brynju þar sem meðal annars sagði að starfsfólk hans væri að lesa samningana yfir og ætti hann „ekki von á neinum meiri háttar athugasemdum, ef þá nokkrum. Hef síðan verið í sambandi við Ástu sem vill eðlilega fá að renna yfir þá áður en við skrifum undir. Værirðu til í að senda mér drögin eins og þau líta út, þó með þeirri breytingu að ég skrifi undir f.h. ráðuneytisins og Ásta f.h. UMS?“ Í svari Brynju sama dag kvaðst hún skyldu uppfæra samningana og senda þá til Bolla Þórs. Lét hún jafnframt í ljósi þá skoðun að hún hafi haldið að búið væri að samþykkja samningana þannig að formsatriði væri að skrifa undir þá. Bolli Þór svaraði að bragði þar sem sagði meðal annars: „Ég lít á samningana sem samþykkta eftir okkar samskipti og mun ekki fallast á neinar efnislegar breytingar á þeim frá því sem okkur fór á milli.“ Hinn 1. september 2010 sendi Brynja samningana til Bolla Þórs í tölvupósti og lét svo um mælt að hún hafi ekki vitað hvenær ætti að dagsetja þá. Hún hafi upphaflega miðað við 29. júlí 2010 þegar þau tvö hafi ásamt Runólfi ákveðið „að fara þessa leið“, en síðar breytt dagsetningunni í 3. ágúst sama ár, sem hafi verið fyrsti virki dagurinn í þeim mánuði. Samþykkti Bolli Þór að miðað yrði við þessa síðastnefndu dagsetningu.
Hinn 1. september 2010 tók Eva Gunnlaugsdóttir tölvunarfræðingur til starfa hjá embætti umboðsmanns skuldara sem yfirmaður upplýsingatæknimála þess. Í vitnisburði sínum fyrir dómi kvaðst hún hafa upplifað mikla pressu af hálfu stefnda við að fá embættið til að festa kaup á áðurnefndu tölvukerfi. Sagðist Eva hafa tjáð Brynju á fundi sem þær tvær hafi átt 6. eða 7. september 2010 að ekki væri búið að taka neina ákvörðun um það hjá embættinu að ganga til samninga við stefnda. Ástæðuna kvað hún meðal annars hafa verið þá að hún hafi ekki fengið „neina skriflega lýsingu á því hvernig þetta kerfi ætti að vera og hvernig það virkaði“. Nánar spurð af lögmanni stefnda svaraði Eva að það hafi verið fagleg skoðun sín að stefndi ætti að hætta vinnu sinni í bili meðan málið skýrðist frekar, en það hafi náttúrulega verið hlutverk yfirmanns síns, Ástu Sigrúnar, að taka ákvörðun um það. Að kvöldi 7. september 2010 sendi Bolli Þór tölvubréf til Ástu Sigrúnar þar sem hann sagðist hafa verið „að fá mjög neikvæðar fréttir af samskiptum ykkar“ við stefnda og liti hann það mjög alvarlegum augum. Í tölvubréfinu óskaði Bolli Þór eftir skýringum á þessu á fundi ráðgjafarhópsins, sem hann nefndi reyndar hér sem endranær „verkefnisstjórn“, en sá fundur var fyrirhugaður daginn eftir. Að auki bað hann um að fá ábendingar eða athugasemdir Ástu Sigrúnar við samningsdrögin sem hann hafi látið hana fá fyrir viku þannig að unnt væri að ganga frá samningunum. Í svari Ástu Sigrúnar sama kvöld lýsti hún því að Eva, sem væri nýráðin sérfræðingur í upplýsingatækni hjá embætti sínu, hafi farið yfir samninginn við stefnda og einnig hitt Brynju til að fá nánari upplýsingar um málið. Ásta Sigrún sagðist ekki vita um hvaða neikvæðu samskipti væri að ræða, en lagði til að farið yrði yfir málið á fyrirhuguðum fundi ráðgjafarhópsins. Framsendi Bolli Þór þessi tölvupóstsamskipti til Brynju síðar sama kvöld og lét meðal annars svo um mælt hvort það gæti verið rétt að hún myndi mæta á fund ráðgjafarhópsins. Í fundargerð frá þeim fundi, sem haldinn var miðvikudaginn 8. september 2010, kom fram að þar hafi meðal annarra verið mættar þær Eva og Brynja. Bókað var að á fundinum hafi verið farið yfir athugasemdir varðandi „starfsmannasamning og þróunarsamning“ embættis umboðsmanns skuldara og stefnda. Ennfremur að Brynja ætlaði að senda embættinu „samningana á rafrænu formi til að þau geti ritað inn athugasemdir í track changes og senda svo til baka. Skrifað verður svo undir á föstudaginn kl. 12.00.“
Ekkert varð úr því að skrifað væri undir drög að samningunum tveimur sem eins og áður greinir höfðu legið fyrir frá 28. júlí 2010. Hins vegar hittust þær Ásta Sigrún, Brynja og Margrét Eva Árnadóttir, starfsmaður stefnda, á fundi áðurnefndan föstudag, 10. september 2010, en Brynja hafði beðið Margréti Evu um það tveimur dögum áður að taka saman stöðuskýrslu um verkefnið sem stefndi hafi verið að vinna að fyrir embætti umboðsmanns skuldara. Í upphafi skýrslunnar þar sem fjallað var um rafræna stjórnsýslu sagði: „FÉL hefur samþykkt að kaupa kerfið en UMS heldur að sér höndum.“ Í fundargerð ráðgjafarhópsins 15. september 2010 var bókað að ekki hafi verið skrifað undir samninga við stefnda eins og áætlað hafi verið. Á fundinum fór lögmaður, sem Ásta Sigrún hafði leitað til, yfir fyrirliggjandi samningsdrög frá lögfræðilegu sjónarhorni og taldi að ýmsir ágallar væru á þeim. Samkvæmt fundargerðinni virðist engin niðurstaða hafa orðið um það á fundinum hvað gera skyldi í framhaldinu.
Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi hafi kynnt CoreData tölvukerfið fyrir starfsmönnum hjá embætti umboðsmanns skuldara 21. september 2010. Á hinn bóginn mun tölvukerfið aldrei hafa verið tengt embættinu þannig að starfsmennirnir gætu prófað eða notað það. Nokkrir fundir voru haldnir með starfsmönnum embættisins og stefnda fram í október 2010, en þá mun samstarfið hafa „fjarað út“ eins og það var orðað af einu af þeim vitnum sem kom fyrir dóm. Fyrir liggur að ekkert af vinnu starfsmanna stefnda, sem um er deilt í málinu, nýttist áfrýjanda, þar á meðal hafa ekki verið lögð fram nein gögn, sem urðu til í þeirri vinnu, utan áðurgreind stöðuskýrsla frá 8. september 2010.
II
Stefndi reisir kröfu sína á hendur áfrýjanda á því að tekist hafi samningar milli þeirra um þróunarvinnu í þágu embættis umboðsmanns skuldara og afnot þess af hugbúnaði stefnda, CoreData. Ber stefndi sönnunarbyrði fyrir því að samningarnir hafi komist á svo að skuldbindandi sé fyrir áfrýjanda, svo og hvert sé efni þeirra.
Þegar leyst er úr því hvort samningar hafi tekist og þá með hverjum hætti verður að líta til þess að samkvæmt 1. mgr. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 100/2010 var það umboðsmaður skuldara sem hafði einn heimild til þess að lögum að gera samninga við stefnda um vinnu við þróun hugbúnaðar og afnot af þeim búnaði fyrir embætti sitt, allt frá því að embættið var lögformlega sett á stofn 1. ágúst 2010. Fram að þeim tíma verður hins vegar að telja að þetta ákvörðunarvald hafi verið í höndum starfshóps samkvæmt bráðabirgðaákvæði II sömu laga. Í samræmi við það var ráðuneytisstjórinn í félags- og tryggingamálaráðuneytinu bær til þess, sem formaður starfshópsins, að ganga til samninga við stefnda í júlí 2010 um verkefni í þágu embættis umboðsmanns skuldara svo að skuldbindandi væri fyrir áfrýjanda. Í ljósi tölvupóstsamskipta hans við framkvæmdastjóra stefnda dagana 28. og 29. þess mánaðar, sem gerð hefur verið grein fyrir, verður litið svo á að fyrir liggi fullnægjandi sönnun þess að komist hafi á bindandi samningur milli aðila síðarnefnda daginn um að stefndi skyldi hefja vinnu við þróun hugbúnaðar fyrir embættið. Með vísan til þess, sem þeim tveimur fór síðan á milli í tölvupósti 1. september 2010, ber að miða við að þessi óformlegi samningur hafi tekið gildi frá og með 3. ágúst sama ár.
Af gögnum málsins liggur ljóst fyrir að báðir aðilar gerðu ráð fyrir að gengið yrði frá endanlegum samningum um vinnu við þróun hugbúnaðarins annars vegar og afnot af honum hins vegar með því að skrifað yrði undir formlega samninga þess efnis. Í tölvubréfi ráðuneytisstjórans til umboðsmanns skuldara 30. ágúst 2010 sagði að ekki væri búið að ganga formlega frá samningum við stefnda. Svaraði umboðsmaður samdægurs að hún vildi sjá drög að samningunum áður en gengið yrði frá þeim. Eins og áður greinir var framkvæmdastjóra stefnda sent afrit af þessum tölvupóstsamskiptum og var henni þar með kunnugt um afstöðu umboðsmanns á þeim tíma. Í vitnisburði yfirmanns upplýsingatæknimála hjá embætti umboðsmanns kvaðst hún hafa tjáð framkvæmdastjóranum á fundi 6. eða 7. september 2010 að ekki væri búið að taka neina ákvörðun um það hjá embættinu að ganga til samninga við stefnda. Í tölvubréfi ráðuneytisstjórans til umboðsmanns að kvöldi síðarnefnda dagsins sagðist hann hafa fengið mjög neikvæðar fréttir af samskiptum starfsmanna embættisins við stefnda. Samhliða bað hann um athugasemdir umboðsmanns við samningsdrögin þannig að unnt væri að ganga frá samningunum. Sem fyrr framsendi ráðuneytisstjórinn þessi tölvupóstsamskipti til framkvæmdastjóra stefnda. Á fundi fyrrgreinds starfshóps 8. september 2010 kvaðst framkvæmdastjórinn ætla að senda samningsdrögin á rafrænu formi til annarra, sem að samningsgerðinni komu, svo að þeir gætu gert athugasemdir við þau. Í stöðuskýrslu sem starfsmaður stefnda tók saman þennan sama dag kom fram að félags- og tryggingamálaráðuneytið hefði samþykkt „að kaupa kerfið“, en umboðsmaður skuldara héldi að sér höndum. Þá var fyrirhugað að skrifað yrði undir samningana 10. september 2010, en eins og áður greinir varð ekkert af því. Að virtu öllu því, sem rakið hefur verið, verður að líta svo á að stefndi hafi mátt gera sér grein fyrir, í ljósi vitneskju framkvæmdastjóra hans um afstöðu umboðsmanns, að ekki hefðu náðst endanlegir samningar um þróun hugbúnaðarins fyrir embætti umboðsmanns og afnot þess af honum í lok ágúst 2010. Þá þegar hefði verið ástæða fyrir stefnda til að hætta vinnunni sem hafin var uns gengið yrði formlega frá samningum þess efnis. Þegar ekkert varð úr fyrirhugaðri undirskrift samninganna 10. september sama ár fór síðan ekki á milli mála, að teknu tilliti til þess sem áður hafði gerst í samskiptum stefnda við umboðsmann og starfsmenn embættis hans, að sá óformlegi samningur, sem gerður hafði verið um að hefja vinnu við þróun hugbúnaðarins, hafði þá runnið sitt skeið á enda. Samkvæmt því verður að telja að sú vinna, sem starfsmenn stefnda inntu af hendi eftir það tímamark, hafi verið á áhættu hans þannig að áfrýjandi yrði því aðeins skylt að greiða fyrir hana að endanlegir samningar tækjust.
Eins og áður greinir kynnti stefndi umræddan hugbúnað fyrir starfsmönnum hjá embætti umboðsmanns skuldara 21. september 2010. Hins vegar mun búnaðurinn aldrei hafa verið tengdur embættinu þannig að starfsmennirnir gætu notað hann. Af þeim sökum er ósannað að komist hafi á skuldbindandi samningur milli aðila um afnot af hugbúnaðinum. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu samkvæmt reikningi stefnda um endurgjald fyrir áskrift af tölvukerfinu Core2 og rafræna vistun þess, auk vinnu vegna hugbúnaðarþróunar sem fram fór 1. ágúst 2010, tveimur dögum áður en hinn óformlegi samningur aðila tók gildi.
Krafa stefnda vegna vinnu við þróun hugbúnaðar er byggð á tveimur reikningum á hendur embætti umboðsmanns skuldara annars vegar og velferðarráðuneytinu hins vegar. Samkvæmt reikningunum, sem dagsettir eru 31. mars 2011, er krafist greiðslu fyrir vinnu og akstur og taka þeir mið af sundurliðuðum vinnuskýrslum. Starfsmenn stefnda hafa borið fyrir dómi að þeir hafi skráð vinnustundir sínar niður eftir bestu vitund og samvisku. Verður samkvæmt því að leggja skýrslurnar til grundvallar við úrlausn málsins, enda er ekkert fram komið af hálfu áfrýjanda sem rýrir sönnunargildi þeirra. Af þeim sökum og með vísan til þess, sem að framan greinir, verður hann dæmdur til að greiða stefnda fyrir vinnu og akstur á tímabilinu frá 3. ágúst 2010 til 10. september sama ár miðað við þá þóknun fyrir hverja vinnustund og aksturseiningu sem krafist er, en áfrýjandi hefur ekki mótmælt þeim fjárhæðum sérstaklega. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verður áfrýjandi jafnframt dæmdur til að greiða stefnda dráttarvexti eftir 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 30. apríl 2011.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður áfrýjanda eftir þessum málsúrslitum gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Gagnavörslunni ehf., 5.374.200 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2011 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2013.
I
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 18. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gagnavörslunni ehf., kt. 521107-1380, Bæjarhrauni 22, Hafnarfirði, með stefnu, birtri 13. desember 2011, á hendur íslenska ríkinu.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 12.435.456, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, frá 31. marz 2011 til greiðsludags. Þá er krafizt vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l., er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi, íslenska ríkið, verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafizt, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II
Málavextir
Stefnandi lýsir málsatvikum svo, að í byrjun júlí 2010 hafi hafizt viðræður milli stefnanda annars vegar og fulltrúa stefnda hins vegar um aðkomu stefnanda að stofnun og starfsemi embættis umboðsmanns skuldara (UMS). Hafi aðkoma stefnanda meðal annars verið fólgin í því að veita ráðgjöf í skjalastjórnun, verkferlum og hugsanlegri innleiðingu á nýju tölvukerfi fyrir embættið. Fulltrúi stefnda í þeim viðræðum hafi verið Bolli Bollason, þáverandi ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, en síðar hafi Runólfur Ágústsson, þáverandi skipaður umboðsmaður skuldara, bætzt í viðræðurnar fyrir hönd UMS.
Þann 28. júlí 2010 hafi stefnandi sent stefnda drög að samningum og frekari upplýsingar um verð fyrir þá þjónustu, sem stefndi hafi óskað eftir. Hafi stefnandi gert samkomulag við stefnda um veittan afslátt af venjulegu tímagjaldi í kjölfarið. Í tölvupósti frá Bolla, dags. 28. júlí 2010, segi, að tilboðið sé mjög ásættanlegt og að hann sé tilbúinn að tala fyrir því. Þá spyrji hann, hvort þau eigi að ljúka samningnum á þessum nótum. Næsta dag sendi Bolli annan tölvupóst, þar sem fram komi, að hann og Runólfur hafi verið sammála um að ganga til samninga á þeim forsendum, sem fyrir hafi legið. Jafnframt segi hann, að verklýsing og annað nauðsynlegt til að ganga frá samningum ætti að liggja fyrir fimm dögum síðar og bætir við: „Að mínu mati breytir þetta engu um að það væri mjög gott ef þið gætuð byrjað strax að vinna í öllum þessum málum. Við megum engan tíma missa og það munar um hvern dag.“
Þann 3. ágúst 2010 hafi Runólfur Ágústsson látið af embætti sem umboðsmaður skuldara, en hann hafi fram að þeim tíma komið að viðræðum stefnanda og stefnda fyrir hönd embættisins. Í tölvupósti daginn eftir, þann 4. ágúst 2010, fullvissi Bolli stefnanda um, að hann hafi ákvörðunarvald í málinu sem yfirmaður verkefnisstjórnarinnar og nýr umboðsmaður breyti engu um fyrri ákvarðanir. Daginn eftir ítreki Bolli, að engar breytingar séu væntanlegar með nýjum umboðsmanni og bæti við, að Ásta Sigrún Helgadóttir, nýr umboðsmaður, sé mjög spennt fyrir því, að þetta verkefni geti farið af stað af krafti sem fyrst.
Allt frá lokum júlí 2010 hafi öll skilaboð frá stefnda verið með þeim hætti, að stefnandi hafi verið styrktur í þeirri trú, að samningar hefðu náðst og aðeins væri formsatriði að undirrita skriflegan samning. Fundargerð frá 23. ágúst 2010 af fundi ráðgjafarhóps vegna embættis umboðsmanns skuldara renni enn frekari stoðum undir þann skilning forsvarsmanna stefnanda. Sé gengið út frá því sem vísu á fundinum, að stefnandi sé að þróa nýtt tölvukerfi fyrir umboðsmann skuldara að frumkvæði stefnda. Séu settir fram þrír kostir á fundinum um hugsanlegar leiðir við þróun á nýju kerfi, og séu fundarmenn, m.a. Bolli og Ásta, sammála um, að stefnandi þrói áfram kerfið fyrir UMS. Sá skilningur stefnanda, að samningar hafi í raun náðst við stefnda, sé enn fremur staðfestur með upplifun Ástu á stöðu mála. Þann 30. ágúst, eftir að hafa setið fundi með stefnanda, óski Ásta eftir afritum af samningum, sem gerðir hafi verið vegna þjónustunnar. Komi fram í svari Bolla, að aðeins eigi eftir að lesa yfir samningana, áður en formlega verði gengið frá þeim, og bæti hann við, að hann telji eðlilegt, að bæði ráðuneytið og UMS skrifi undir umrædda samninga. Að lokum skrifi hann orðrétt: „Ég var búinn að ná mjög góðum samningum við Gagnavörsluna.“ Ásta svari tölvupósti Bolla með orðunum: „Gott mál, ég hélt að það hefði verið búin að ganga frá þeim. Ég vil endilega sjá þá áður en formlega er gengið frá þeim.“
Í tölvubréfum frá 31. ágúst staðfesti Bolli þann skilning stefnanda, að í raun væri aðeins formsatriði að rita undir samningana.
Eins og sjá megi á þeim fjölmörgu tölvupóstsamskiptum, sem liggi fyrir í máli þessu, hafi átt sér stað mikil og ítarlega vinna í góðu samstarfi allra aðila af hálfu stefnanda. Stefnandi hafin hliðrað til verkefnum, svo hægt væri að setja sem flesta starfmenn í að þjónusta stefnda, enda hafi Bolli beinlínis óskað eftir því. Hafi fulltrúi stefnda ítrekað lýst því yfir, að mikilvægt væri að vinna kæmist sem fyrst af stað. Mikið lægi á, að verkefnið kláraðist sem fyrst. Eftir marga fundi, nokkurra vikna vinnu og nánast dagleg samskipti hafi viðmót UMS til verkefnisins hins vegar breytzt snögglega. Í kjölfarið hafi forsvarsmaður stefnanda haft samband við fulltrúa stefnda, Bolla, og hafi hann þá haft samband við Ástu, umboðsmann skuldara. Í tölvupósti sem Bolli hafi sent Ástu þann 7. september 2010 segi meðal annars: „Við höfum í verkefnisstjórninni fyrir löngu gengið frá óformlegum samningum við þetta fyrirtæki og af hálfu verkefnisstjórnarinnar og þ.m.t. ráðuneytisins talið þetta vera lykilatriði í að tryggja að starfsemi umboðsmanns skuldara gæti sinnt sínu starfi og tekið við þeim aukna málafjölda sem allir í verkefnisstjórninni voru sammála um að myndi skella á embættinu. Við vorum líka, eins og fram kemur í fundargerðum verkefnisstjórnarinnar, sammála um að það mætti engan tíma missa.“
Í umræddum tölvupósti Bolla til Ástu komi einnig fram, að hann muni undirrita samninga við stefnanda næsta dag, þann 8. september, að fengnum athugasemdum frá henni við samningsdrögin. Af þeirri undirritun hafi hins vegar aldrei orðið, heldur hafi þvert á móti farið að gæta mjög neikvæðra viðhorfa hjá umboðsmanni skuldara til verkefnisins, sem hafi leynt og ljóst látið í það skína, að starfskrafta stefnanda væri ekki lengur óskað. Í kjölfarið hafi stefnandi hætt vinnu við verkið eftir sex vikna þrotlausa vinnu, þar sem stórum hluta starfsfólks stefnanda hafi verið gert að vinna að þróun og uppsetningu hugbúnaðar og að sinna öðrum verkum í þágu stefnda.
Samningaviðræður aðila um lok málsins hafi ekki leitt til niðurstöðu. Í kjölfarið hafi stefnandi sent reikning til stefnda fyrir veitta þjónustu í samræmi við þá samninga, sem náðst hafi um tímagjald og afslætti. Um þrjá reikninga sé að ræða, og allir séu þeir dagsettir 31. marz 2011 með gjalddaga þann sama dag. Tveir reikninganna hafi verið sendir á umboðsmann skuldara en einn á velferðarráðuneytið. Reikningarnir séu sundurliðaðir á eftirfarandi hátt:
Reikningur fyrir verk I (dskj. 3)
Útseld vinna 741 klst. kr. 14.000 pr. klst. kr. 10.108.000
Akstur 19 ferðir, kr. 1.920 pr. ferð kr. 36.480
Afsláttur kr. -1.516.200
Virðisaukaskattur kr. 2.200.211
Reikningur fyrir verk II (dskj. 4)
Útseld vinna, 8 klst., kr. 14.000 pr. klst. kr. 112.000
Core2 áskrift, 6 mánuðir, kr. 80.000 pr. mánuð kr. 480.000
Core2 rafræn vistun, 6 stk., kr. 940 pr. stk. kr. 5.640
Afsláttur kr. -16.800
Virðisaukaskattur kr. 148.114
Reikningur (dskj 5)
Útseld vinna, 57,5 klst., kr. 14.000 pr. klst. kr. 805.000
Akstur, 8 ferðir, kr. 1.920 pr. ferð kr. 15.360
Afsláttur kr. -120.750
Virðisaukaskattur kr. 178.401
Stefndi hafi hafnað greiðslu reikninganna, samtals að fjárhæð kr. 12.435.456, í bréfi frá ríkislögmanni, dags. 6. maí 2011, á þeirri forsendu, að samningar hefðu ekki náðst og aðeins hafi verið um undirbúning eða vinnu stefnanda að ræða við að koma á samningi við stefnda. Samkomulag hafi ekki náðst um greiðslur.
Stefndi kveður málavexti vera þá, að þann 24. júní 2010 hafi lög nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara verið samþykkt á Alþingi. Hafi hið nýstofnaða embætti verið byggt á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Þann 6. júlí 2010 hafi ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 100/2010 tekið gildi, en samkvæmt því skyldi félags- og tryggingamálaráðherra skipa þriggja manna starfshóp til að undirbúa gildistöku laganna. Hafi Bolli Þór Bollason, þáverandi ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, verið skipaður formaður umrædds starfshóps. Síðari hluta júlímánaðar 2010 hafi samskipti milli Bolla og Brynju Guðmundsdóttur, fyrirsvarsmanns stefnanda, hafizt um möguleika þess, að stefnandi kæmi að vinnu við tölvukerfi hinnar nýju stofnunar. Í framhaldinu hafi tölvupóstsamskipti og viðræður hafizt milli aðila um mögulega aðkomu stefnanda að vinnu við tölvukerfi umboðsmanns skuldara. Ekki hafi stofnazt til slíkra samninga, og hafi kröfum stefnanda verið mótmælt.
Í málinu hafi stefnandi uppi kröfur til greiðslu þriggja reikninga, sem gefnir hafi verið út vegna vinnu fyrir embætti umboðsmanns skuldara og fyrir ýmiss konar kostnað, að því er virðist. Stefnandi hafi lagt fram eins konar afrit þessara reikninga í formi tölvubréfa og séu þeir dagsettir 31. marz 2011. Rúmum mánuði fyrr, eða þann 28. febrúar 2011, hafi velferðarráðuneytinu borizt tölvupóstur, þar sem fyrirsvarsmaður stefnanda lýsi vonbrigðum sínum varðandi niðurstöðu umræddra samningsumleitana og hafi erindi hennar borið með sér að vera eins konar bótakrafa í kjölfar þess, að upp úr samningaviðræðum slitnaði, að því er varðaði hugsanleg verkefni stefnanda fyrir umboðsmann skuldara. Í nefndum tölvupósti hafi stefnandi einnig sett fram tillögur um, að gefnir yrðu út og greiddir reikningar, auk þess sem stefnanda yrðu falin verkefni fyrir aðra stofnun.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína á reikningum vegna vinnu, sem hann hafi sannanlega innt af hendi fyrir stefnda, en stefndi beri greiðsluskyldu gagnvart stefnanda á þeim. Þjónustan hafi verið unnin í þágu stefnda, að frumkvæði og samkvæmt óskum hans. Við upphaf vinnunnar hafi verið samið um greiðslu fyrir hverja unna klukkustund, að frádregnum umsömdum afslætti. Sé þóknun stefnanda reiknuð á þeim grundvelli, eins og útgefnir reikningar beri vitni um (dskj. nr. 3-5).
Atvik málsins og samskipti aðila sýni, svo ekki verði um villzt, að báðir aðilar hafi litið svo á, að samningar hefðu tekizt með þeim um viðskiptin, umfang verkefnisins og þóknun stefnanda. Það að skriflegur samningur hafi ekki verið undirritaður, þar sem starfsmenn ráðuneytisins hafi átt eftir að lýsa skoðun sinni á formsatriðum, er varði samninginn, breyti engu um skuldbindingu stefnda gagnvart stefnanda vegna verkefnisins, enda séu tvær helztu meginreglur samningaréttar þær, að munnlegir samningar séu jafngildir skriflegum, og að samninga skuli halda. Stefndi hafi samþykkt verðtilboð stefnanda á veittri þjónustu og óskað sérstaklega eftir því, að vinna við verkið myndi hefjast sem fyrst. Fulltrúi stefnda hafi enn fremur fullvissað stefnanda oftar en einu sinni um, að hann liti svo á, að samningar hefðu náðst, og að áframhaldandi vinna þeirra ætti ekki að stranda á því smávægilega aukaatriði, að skriflegir samningar hefðu ekki verið undirritaðir.
Með vísan til framangreinds telji stefnandi einsýnt, að samningar hafi tekizt með stefnanda annars vegar og ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins og umboðsmanni skuldara hins vegar, f.h. stefnda, um vinnu stefnanda í þágu embættis umboðsmanns skuldara. Samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og efndir loforða beri stefnda að greiða stefnanda umsamið endurgjald fyrir vinnuna, sem stefnandi telji bæði hæfilegt og sanngjarnt. Fjárhæð framlagðra reikninga hafi aldrei verið mótmælt og byggi stefnandi á því, að upphæð þeirra sé sanngjörn, enda byggist hún á hefðbundinni gjaldskrá stefnanda, að frádregnum afslætti, sem aðilar málsins hafi samið um.
Fjárhæð stefnukröfu miðist eingöngu við þóknun fyrir útselda vinnu vegna starfsmanna stefnanda og útlagðan kostnað. Þá sé ótalið afleitt tjón af völdum þess, að önnur starfsemi stefnanda og öflun nýrra verkefna hafi alfarið stöðvazt, þegar allur kraftur hafi verið settur í að vinna í þágu UMS.
Vísað sé til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga og kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Krafa um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, sé byggð á reglum II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og um vaxtaútreikning vísi stefnandi til ákvörðunar Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991. Um aðild og fyrirsvar vísist til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 og 1. gr. laga nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu á því, að engir samningar um vinnu stefnanda fyrir stefnda eða umboðsmann skuldara hafi komizt á, sem stutt gæti kröfur stefnanda. Þá sé hvergi sannað, að mati stefnda, að stefnandi hafi unnið umrædd verkefni fyrir embætti umboðsmanns skuldara, eða að embættið hafi bakað fyrirtækinu kostnað vegna verkefna. Hvergi komi fram í stefnu, að einhver vinna hafi verið unnin, eða sýnt fram á, að stefndi, eða umboðsmaður skuldara, hafi öðlazt einhver gæði á grundvelli hennar, afurðir eða þjónustu, sem komið hafi að notum. Þar sem stefndi hafi hvergi notið vinnuframlags eða þjónustu eða afurða af hálfu stefnanda á grundvelli þeirra reikninga, sem myndi kröfu stefnanda, beri að sýkna af öllum kröfum. Engin vinna, sem ætlað sé að styðja kröfur stefnanda, hafi verið unnin fyrir stefnda. Sé kröfum og umræddum reikningum, sem og fjárhæð þeirra, eindregið mótmælt af hálfu stefnda.
Ekki beri á öðru en að kröfur stefnanda séu sprottnar af því, að með aðilum hafi ekki tekizt samningar. Fyrir liggi í gögnum málsins, að ef til samningssambands stofnaðist, skyldi samningur vera skriflegur, með undirritun og á grundvelli verklýsingar. Sé ótvírætt, að hvorki stefnda né embætti umboðsmanns skuldara sérstaklega hafi verið stætt á öðru en að gera skriflegan og undirritaðan samning um þá þjónustu eða verkefni, sem til álita hafi komið, og að þar yrði getið um helztu atriði, svo sem umfang verkefna, endurgjald fyrir þau og nánari lýsing. Engir gerningar þessa efnis hafi stofnazt til stuðnings kröfum þeim, sem stefnandi hafi nú uppi. Þá hafi verið um útboðsskyld verkefni að ræða, ef til hefði komið. Byggi stefndi einnig á því, að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því, að til samnings eða samninga um verk eða þjónustu, sem lýst sé í stefnu, hafi stofnazt. Slík sönnun sé ekki komin fram. Stefndi bendi einnig á, að í stefnu eða gögnum málsins sé hvergi lýst af nákvæmni fyrir hvaða verk eða þjónustu stefnandi telji, að félagið hafi unnið fyrir stefnda eða embættið. Engum reikninganna fylgi tímaskýrslur eða haldbær útlistun á því, fyrir hvaða verkefni eða þjónustu sé krafizt greiðslu. Mótmæli stefndi því, að þjónusta eða verk hafi verið látin í té af hálfu stefnanda, sem nýtzt hafi stefnda eða embættinu. Í reynd geti ekki verið um annað að ræða en vinnu starfsmanna stefnanda við að koma á samningi, eða leita eftir því. Slíka vinnu eða fyrirhöfn verði stefnandi að axla og bera kostnað af, svo sem alþekkt sé.
Embætti umboðsmanns skuldara hafi gert aðra samninga við stefnanda, og hafi reikningar vegna þeirra verka, sem þar hafi verið samið um, verið greiddir að fullu. Aðra samninga hafi hvorki stefndi né embætti umboðsmanns skuldara gert við stefnanda. Sé því hafnað, að á stefnda hvíli greiðsluskylda vegna umræddra reikninga, sem stefnandi krefjist greiðslu á í máli þessu.
Stefna málsins byggist á því, að komizt hafi á samningur milli umboðsmanns skuldara og stefnanda um þrjá verkþætti. Í fyrsta lagi um ráðgjöf varðandi skjalastjórnunarkerfi. Í öðru lagi um gerð verkferla og í þriðja lagi um „hugsanlega innleiðingu á nýju tölvukerfi fyrir embættið“. Í stefnu sé talað um verk I (dskj. nr. 3), verk II (dskj. nr. 4) og verk III (dskj. nr. 5). Ógjörningur sé að sjá, hvernig þessir reikningar og knappar lýsingar þar, tengist ráðgjöf í skjalastjórnunarkerfi, verkferlum eða innleiðingu á nýju tölvukerfi, eins og getið sé í upphafi stefnu. Enga nánari lýsingu sé að finna á þessu í stefnu eða öðrum gögnum, og hafi stefnandi ekki lagt fram þau samningsdrög, sem þó sé minnzt á í stefnu.
Stefnandi virðist byggja á því, að samningur, eða samningar, hafi verið komnir á að mestu leyti með tölvupóstsamskiptum þáverandi ráðuneytisstjóra félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Bolla Þórs Bollasonar, og forstjóra stefnanda, Brynju Guðmundsdóttur. Því sé mótmælt af hálfu stefnda, að nokkur samningur hafi verið kominn á við stefnanda í júlí og ágúst 2010, sem geti stutt kröfur stefnanda. Af gögnum málsins sé ljóst, að viðræður um það, hvort mögulega ætti að ganga til samninga við stefnanda, hafi átt sér stað í júlí, ágúst og fram í september 2010. Hins vegar sé það líka ljóst af gögnunum, að aðeins hafi verið á ferðinni samningaviðræður, en aldrei hafi komizt á samningur milli aðila.
Þann 28. júlí 2010 hafi Brynja Guðmundsdóttir sent Runólfi Ágústssyni, sem þá hafi verið skipaður umboðsmaður skuldara, drög að tveimur samningum. Annars vegar staðlaðan samning „vegna kerfisins okkar“ og hins vegar samning vegna þróunarvinnu, þar sem gert hafi verið ráð fyrir, að verkefnið yrði skilgreint í samráði við verkkaupa. Í svari Bolla til Brynju, dags. 29. júlí, komi fram, að Runólfur telji rétt að láta óháðan aðila útbúa verklýsingu, og að vinna við það yrði hafin. Sé augljóst, að ekki sé hægt að byggja á því, að samningur hafi verið kominn á um verk, sem ekki hafi verið gerð verklýsing fyrir. Þann 4. ágúst 2010 hafi Bolli óskað eftir því, að Brynja kæmi á „kynningarfund, frekar en ákvörðunarfund“ í ráðuneytið. Sé ljóst af orðalagi tölvupóstsins, að á þeim tíma hafi ekki verið búið að taka neinar ákvarðanir um að ganga til samninga við stefnanda.
Ljóst sé af þeim tölvupóstsamskiptum, sem fyrir liggi, að ekki hafi komizt á samningur. Telji stefndi, að ýmis ummæli í þessum bréfum séu tekin upp að hluta og önnur slitin úr samhengi. Þrátt fyrir það, sem segi í tölvupósti Bolla Bollasonar 29. júlí, sjáist, að aðeins sé um að ræða undirbúning að hugsanlegri samningsgerð. Miði bréfin að því að koma á fundum, og þann 4. ágúst sé talað um annað tveggja „ákvörðunarfund eða kynningarfund“. Í báðum tilvikum sjáist, að ekki sé komið á samningssamband. Í tölvupósti frá 6. ágúst sé lýst vilja til að koma á fundi til að kynna plön, eins og það hafi verið orðað ,og enn velt upp, hvers efnis hugsanlegur samningur eigi að vera.
Af fundargerð ráðgjafarhóps umboðsmanns skuldara, dags. 12. ágúst 2010, megi einnig sjá, að þar hafi enn verið í gangi viðræður við stefnanda, annars vegar um skjalastjórnunarkerfi og hins vegar um upplýsingasöfnunarkerfi. Einnig sjáist á fundargerð hópsins frá 23. ágúst, að enn séu menn að velta fyrir sér, hvaða leið sé bezt að fara og hafi augljóslega enginn ákvörðun verið tekin um að ganga til samninga við stefnanda, hvað þá að samningur hafi verið gerður. Öll tölvubréf, sem stefnandi hafi lagt fram, beri þess merki, að ekki hafi verið komnir á samningar.
Um mánaðarmótin ágúst september 2010 hafi embætti umboðsmanns skuldara fyrst fengið í hendur drög að þremur samningum. Hafi þá komið í ljós, að um algjör frumdrög hafi verið að ræða, og hafi umboðsmaður skuldara gert verulegar athugasemdir við fjölda atriða í samningsdrögunum. Hafi verið ljóst, að leggja hefði þurft mikla vinnu í drögin, ef úr þeim hefðu átt að verða samningar, enda hafi á þessum tíma ekki verið búið að ræða um grundvallarþætti í hugsanlegum samningum, hvað þá að smærri atriði hefðu verið útfærð. Þau samningsdrög, sem stefnandi hafi lagt fram, hafi verið eftirfarandi:
Í fyrsta lagi hafi verið um að ræða drög að samningi um ráðgjöf í skjala- og upplýsingastjórnun. Í drögunum hafi verið kveðið á um, að stefnandi skyldi útbúa upplýsingahandbók fyrir umboðsmann skuldara, sem yrði grunnurinn að innleiðingu á rafrænu upplýsinga- og skjalastýringarkerfi. Í drögunum hafi m.a. falizt, að gerð yrði úttekt á stöðu skjalamála hjá embættinu og greining á starfsemi stofnunarinnar og gerð skjalaflokkunarkerfis. Þá hafi einnig verið kveðið á um, að á grundvelli samningsins skyldi gera skilgreiningar vegna innleiðingar á rafræna skjala- og upplýsingakerfinu Core Data. Í raun virðist drögin að hluta snúa að gerð eins konar þarfagreiningar, en greiningin virðist einungis miða við, að kerfi stefnanda yrði sett upp. Gert hafi verið ráð fyrir, að samningurinn yrði ótímabundinn. Í drögunum hafi komið fram tímagjald verksala, en ekki neitt heildarverð fyrir verkið eða áætlun um fjölda tíma. Samningur hafi ekki komizt á.
Í öðru lagi hafi verið um að ræða drög að þróunarsamningi milli aðila. Markmið samningsins skyldi vera að setja inn í upplýsingastjórnunarkerfið Core Data aðlaganir eða sérsmíði fyrir umboðsmann skuldara til að fá heildstætt upplýsinga- og skjalastýringarkerfi. Einnig hafi verið gert ráð fyrir, að gerðar yrðu sjálfvirkar tengingar við upplýsingaveitur til þriggja aðila til að fylla sjálfvirkt út greiðsluáætlun skuldara. Samningurinn hafi verið ótímabundinn. Í honum hafi komið fram tímagjald, en ekki var að finna í honum áætlun um fjölda tíma eða umfang verkefnisins. Enginn samningur um þetta kerfi hafi komizt á.
Í þriðja lagi hafi verið um að ræða drög að samstarfssamningi milli aðila um afnot af Core Data hugbúnaði. Hafi drögin gert ráð fyrir, að umboðsmanni skuldara yrði veittur afnotaréttur af hugbúnaðarlausn stefnanda, Core Data og afnotarétti af kerfinu í samræmi við fjölda notendaleyfa, sem greitt yrði fyrir. Gert hafi verið ráð fyrir, að kostnaður vegna kerfisins væri kr. 80.000 á mánuði fyrir allt að 30 notendur, rekstur kerfisins í heild og afritun. Fyrir hvern viðbótarnotanda skyldu greiddar kr. 1.500. Auk þess hafi verið gert ráð fyrir, að greiddar yrðu kr. 940 fyrir hvert GB í vistun fyrir fyrstu 100 GB og kr. 280 eftir það. Þá hafi verið gert ráð fyrir, að umboðsmaður skuldbyndi sig til að greiða þjónustugjald samkvæmt samningnum, en ekki hafi verið ljóst, hvort það væru 80.000 krónurnar, sem vísað sé til hér að framan, eða önnur fjárhæð, sem bættist við hana. Ekki hafi komizt á samningur um þetta.
Fleiri útgáfur af samningsdrögum hafi borizt, en stefnandi hafi ekki lagt fram þau drög, sem minnzt sé á í stefnu, eða útskýrt, hver þau voru, eða hvenær send.
Enginn samningur hafi komizt á um ráðgjöf í skjala- og upplýsingastjórnun, sem drögin hafi borið með sér, eða um þessa fyrrnefndu þætti. Hins vegar hafi verið gerður samningur um ráðgjöf í skjalastjórnun 10. október 2010, sem ritað hafi verið undir og greitt fyrir, að fjárhæð kr. 3.251.843. Hafi verið um að ræða reikninga nr. SR 001457, dags. 30. nóvember 2010, að fjárhæð kr. 330.969, og nr. SR 001325, dags. 30. september 2010, að fjárhæð kr. 2.920.874. Þá hafi verið greiddur reikningur nr. SR 001315, dags. 30. september 2010, að fjárhæð kr. 485.371. fyrir stefnumótunarvinnu. Ekkert tölvukerfi hafi hins vegar verið innleitt frá stefnanda, og engin afnot hafi komizt á af hálfu embættis umboðsmanns um slíkt kerfi.
Þegar umrædd samningsdrög hafi legið fyrir, hafi stefnda orðið ljóst, að um væri að ræða drög að ótímabundnum samningum, án hámarksfjárhæðar. Þá hafi jafnframt orðið ljóst, að um væri að ræða verkefni, sem gert hafi verið ráð fyrir, að gætu varað lengi og orðið kostnaðarsöm. Þá hafi einnig orðið enn ljósara en áður, hversu óljóst umfang verkefnisins hafi verið og að þörf væri á því að fá óháðan aðila til að gera þarfagreiningu á verkinu, áður en gengið yrði til samninga um vinnu við það. Sé rétt að nefna, að í tölvupósti Bolla til umboðsmanns skuldara þann 30. ágúst sé sagt, að enn sé verið að lesa samningana yfir og að ekki sé búið að ganga formlega frá þeim, auk þess sem sett sé fram tillaga um, hverjir eigi að skrifa undir þá. Hafi hann talið sig hafa náð góðum samningum, en jafnljós sé sú skoðun hans, að til þeirra hafi ekki stofnazt. Í tölvubréfum hans til Brynju dagana á eftir komi einnig skýrt fram, að ekki hafi verið frá þeim gengið.
Embætti umboðsmanns skuldara hafi aflað álits lögmanns á því, hvort samningsdrögin samrýmdust ákvæðum laga um opinber innkaup, nr. 84/2007. Í álitinu hafi verið bent á, að samkvæmt 4. gr. laganna tækju þau til allra skriflegra samninga um fjárhagslegt endurgjald, sem opinberar stofnanir eða ríkisfyrirtæki geri við fyrirtæki og hafi að markmiði framkvæmd verks, sölu vara eða veitingu þjónustu. Þá hafi verið bent á, að í 20. gr. laganna væri kveðið á um, að bjóða skuli út öll vörukaup yfir kr. 5.000.000 og aðkeypta þjónustu og framkvæmdir yfir kr. 10.000.000, en í september 2010 hafi þessar fjárhæðir verið kr. 6.200.000 vegna vörukaupa og kr. 12.400.000 vegna þjónustu og framkvæmda. Loks hafi verið bent á ákvæði 22. gr. laganna um, að við innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum skuli kaupandi ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja og að gæta skuli jafnræðis og gagnsæis við opinber innkaup. Það hafi því legið fyrir, að umboðsmanni skuldara eða stefnda bæri að bjóða út aðkeypta þjónustu, sem líklegt væri, að kostaði meira en kr. 12.400.000. Hafi þetta aðeins verið ein af mörgum ástæðum þess, að varhugavert hafi þótt, í ljósi laga nr. 84/2007, að undirrita samningana að óbreyttu. Um þetta hafi stefnanda verið eða mátt vera kunnugt, þar sem landslög hafi boðið, að ekki væri stætt á að ganga til samninga nema að undangengnu útboði.
Á meðan á viðræðunum stóð, hafi starfsmenn umboðsmanns skuldara, þar á meðal sérfræðingur í upplýsingatæknimálum, óskað eftir því, að þeim yrði kynnt Core Data kerfi það, sem stefnandi byggði á. Þá hafi þeir óskað eftir frekari upplýsingum um kerfið. Mjög erfiðlega hafi gengið að fá þessar upplýsingar. Að lokum hafi kynning á kerfinu verið haldin 21. september 2010. Af kynningunni hafi mátt ráða, að virkni kerfisins hafi ekki legið ljós fyrir. Þá hafi ekki verið ljóst, hver hún yrði í framtíðinni. Hafi stefnandi síðan veitt litlar sem engar upplýsingar um kerfið.
Þann 29. september 2010 hafi verið haldinn þarfagreiningarfundur með starfsmönnum umboðsmanns og starfsmönnum stefnanda. Eftir þann fund hafi starfsmenn umboðsmanns endanlega talið ljóst, að ekki væri unnt að ganga til samninga við stefnanda um kaup og þróun á nýju tölvukerfi.
Á þessum tíma hafi einnig verið að hefja störf margir nýir starfsmenn hjá umboðsmanni skuldara. Verkefni embættisins hafi verið mikil og mikið álag á starfsmenn. Hafi verið talið, að ekki væri hægt að auka álagið með því að hefja þróun á nýju, heildrænu kerfi. Þá hafi á þessum tíma legið fyrir, að aðalástæður fyrir hægvirkum tölvukerfum embættisins hafi annars vegar verið að rekja til gamals og lélegs vélbúnaðar og hins vegar til lélegra tenginga út úr húsinu við Hverfisgötu, þar sem embættið var til húsa. Því hafi ekki verið talið, að nýtt tölvukerfi væri svar við vandamálum embættisins á þeim tíma, en taka beri fram, að flutningur embættisins hafi verið fyrirhugaður, og það hafi flutt um miðjan desember 2010.
Þessir þættir og fleiri hafi leitt til þess, að ekki hafi verið gerðir samningar milli embættisins og stefnanda um gerð nýs tölvukerfis fyrir stofnunina. Hins vegar hafi verið gerður samningur milli aðila um ráðgjöf í skjalastjórnun. Í þeim samningi hafi falizt ráðgjöf varðandi skjalastjórnunarkerfi samkvæmt staðlinum ISO 15489 og upplýsingaöryggi samkvæmt staðlinum ISO 27001. Reikningar stefnanda fyrir þá þjónustu, sem fyrirtækið veitti stofnuninni, hafi verið að fjárhæð kr. 3.251.843, og hafi þeir verið greiddir, auk reiknings fyrir stefnumótunarvinnu. Hafi að fullu verið greitt fyrir þá þjónustu á grundvelli samnings, sem hafi tekizt um það verkefni. Enginn fyrirvari hafi verið gerður við þær greiðslur.
Þann 3. desember 2010 hafi tilboði stefnanda um aðstoð við flutning stofnunarinnar í desember 2010 verið tekið. Hafi stefnandi séð um flutning alls búnaðar og húsgagna frá Hverfisgötu í Kringluna, ásamt því að flytja búnað á nýja starfsstöð embættisins í Reykjanesbæ. Hafi reikningar stefnanda fyrir þessa þjónustu, samtals að fjárhæð kr. 3.771.669 verið greiddir, en þeim hafi fylgt tímaskýrslur og skýringar.
Í tengslum við greiðslu þessara reikninga hafi ekki verið minnzt á, að umboðsmaður ætti útistandandi, ógreidda reikninga hjá fyrirtækinu. Reikningar þeir, sem dómkrafa stefnanda byggist á, séu hins vegar dagsettir löngu síðar, eða 31. marz 2011. Sýni þetta, að dómkröfur stefnanda, eða síðbúin reikningsgerð, fái ekki staðizt. Verði ekki séð, hvernig umræddir reikningar, sem ætlaðir séu til að styðja kröfur stefnanda, geti staðizt réttarreglur um bókhald og reglugerð um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattskyldra aðila, enda virðist sú tímaskráning, sem að baki þeim standi, eða vinna og þjónusta, tilheyra árinu 2010, að mati stefnanda. Tímaskráning, sem borizt hafi um síðir, virðist útbúin 13. apríl 2011. Skarist hún á við aðra tímaskráningu og verði með engu móti séð, að það sé vinnuframlag í þágu stefnda eða umboðsmanns heldur einungis skráning á tíma starfsmanna stefnanda. Stefndi, eða embætti umboðsmanns, kannist ekki við stærstan hluta þeirra erinda eða vinnu og að öðru leyti sýnist vera um að ræða undirbúning í tengslum við samningaumleitanir eða verkefni stefnanda við að koma á samningi og um eftirmála samskipta við stefnda eða umboðsmann.
Í ljósi þess, sem að framan greini, verði að telja ljóst, að aldrei hafi komizt á samningur, eða samningar, milli umboðsmanns skuldara og stefnanda, eða við stefnda, um gerð og þróun tölvukerfis fyrir stofnunina. Enginn samningur hafi verið undirritaður milli aðila og sé því mótmælt, að munnlegur samningur hafi komizt á. Að sama skapi sé því mótmælt, að komizt hafi á samningur um aðra þætti, sem byggt sé á í stefnu. Engin vinna eða þjónusta hafi verið látin í té, hvorki um hugbúnaðarþróun, Core2 áskrift né rafræna vistun. Þá sé öðrum liðum mótmælt, sem órökstuddum, þ. á m. reikningi, eða afriti af honum, sem stílaður sé á velferðarráðuneyti. Enga útskýringu sé að finna á honum, og sé því mótmælt, að vinna eða þjónusta hafi verið látin ráðuneytinu í té, eða að til samnings hafi stofnazt um þessa vinnu, hver sem hún kunni að vera.
Sem fyrr segi sé ljóst, að aðeins hafi komið til greina að gera skriflegan samning eða samninga. Jafnljóst sé, að ekki hafi komizt á munnlegur samningur með aðilum, og aldrei hafi verið ætlunin að ganga til samninga við stefnanda um verkefni eða þjónustu á þeim grundvelli. Sé þetta sjálfstæð sönnun þess, að munnlegur samningur hafi ekki komizt á. Hafi stefnanda verið fyllilega ljóst, að ekki myndi stofnast til samnings, nema hann væri skriflegur og undirritaður.
Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga, að um hafi verið að ræða hugmyndir að langtímasamningum um greiðslu hárra fjárhæða vegna vinnu við þróun flókinna tölvukerfa, en talið hafi verið, að meiri kröfur séu gerðar en ella um sönnun fyrir því, að samkomulag hafi raunverulega tekizt milli aðila, þegar um sé að ræða samninga, sem fjalli um mikla hagsmuni.
Með vísan til framangreinds, þar sem enginn samningur hafi komizt á og stefnandi hafi hvergi sýnt fram á vinnuframlag í þágu stefnda, sem samið hafi verið um, eða sem stefndi hafi skuldbundið sig til greiðslu á, beri að sýkna af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi byggi einnig á því, að ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, þáverandi, hafi ekki haft heimild til að ganga til samninga um þjónustu við umboðsmann skuldara við stefnanda. Fyrir 1. ágúst 2010 hafi enginn samningur verið kominn á, svo sem tölvupóstsamskipti sýni. Þá hafi ráðuneytisstjórinn ekki haft vald til að binda stofnunina eða stefnda vegna hennar eftir það tímamark, en í ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara segi, að ráðherra skuli, við gildistöku laganna, skipa þriggja manna starfshóp, sem undirbúa eigi gildistöku laganna, m.a. bjóða starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna annað starf hjá umboðsmanni skuldara frá 1. ágúst 2010. Eftir skipan umboðsmanns skuldara skyldi starfshópurinn vera umboðsmanni til ráðgjafar um starfsemi stofnunarinnar fyrsta starfsárið. Umræddur ráðuneytisstjóri hafi verið formaður starfshópsins. Með vísan til þessara ákvæða laga og eftir stofnun embættis umboðsmanns skuldara þann 1. ágúst 2010, hafi umræddur starfshópur ekki haft neitt ákvörðunarvald um málefni embættisins, heldur eingöngu verið umboðsmanni til ráðgjafar. Hafi ráðuneytisstjórinn, eða ráðgjafarhópurinn, því ekki haft vald til að binda embættið eða stefnda vegna þess eftir það tímamark.
Verði ekki á sýknukröfu fallizt sé gerð varakrafa um stórfellda lækkun dómkrafna. Byggi stefndi á því, að aðeins verði þá unnt að dæma þá fjárhæð fyrir vinnu, verkefni, vörur eða þjónustu, sem sannað væri, að samið hafi verið um og látin stefnda eða embætti umboðsmanns skuldara í té. Þar sem málið sé í reynd vanreifað, verði ekki séð, hvernig unnt sé að meta það, enda kröfur og málatilbúnaður stefnanda með öllu órökstuddur, sem og þeir reikningar, sem liggja eiga dómkröfum til stuðnings. Fari svo, að dómurinn telji, að til samningssambands hafi stofnazt og stefnandi hafi sannað vinnuframlag í þágu stefnda eða umboðsmanns, sem ekki hafi verið vegna samningaumleitana eða vinnu stefnanda til að koma á samningi, sé ljóst af tölvubréfum, að stefnanda hafi mátt vera ljóst, að ekki hafi verið kominn á samningur í því formi, sem til greina hafi getað komið. Tímaskráning, eða vinna stefnanda, eftir að honum hafi orðið fyllilega ljóst, að til samninga myndi ekki koma, sé því, hvað sem öðru líði, ekki á grundvelli samnings eða í þágu stefnda. Beri því að lækka kröfur verulega, ef til greiðsluskyldu komi að einhverju leyti.
Af hálfu stefnda sé kröfum um dráttarvexti mótmælt, en til vara upphafstíma þeirra.
Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi bendi á, að málið sé í öllum veigamestu atriðum vanreifað af hálfu stefnanda. Stefnandi hafi byggt kröfur sínar á þremur tölvupóstum, sem geymi einhvers konar drög að reikningum. Tveir greiðsluseðlar hafi verið sendir umboðsmanni skuldara, dags. 1. apríl 2011, vegna tveggja reikninga, sem lagðir séu fram í máli þessu sem tölvubréf. Í öðrum þeirra, sem stefnandi leggur fram í málinu, sé að finna sundurliðun eftir tímum einstakra starfsmanna stefnanda, að því er virðist, en ekki næga útlistun á því, hvers konar verk eða vinna liggi þar að baki. Engar tímaskýrslur eða nákvæmari greining á verkefnum séu lagðar fram af hálfu stefnanda, en umboðsmanni hafi hins vegar borizt tímaskráning, sem virðist tekin saman 13. apríl 2011. Þriðji reikningurinn, sem myndi kröfugerð stefnanda, sé stílaður á velferðarráðuneytið, en engin skýring liggi honum að baki. Engin haldbær lýsing sé í stefnu á því, fyrir hvaða vinnu, eða hvers konar vinnu, dómkröfurnar séu sprottnar og að því sé hvergi vikið í kafla stefnu um málsástæður. Sé ófært að sjá, hvernig þessir reikningar og sundurliðun kröfunnar í stefnu samræmist knappri lýsingu á þeim verkefnum, sem stefnandi telji, að samið hafi verið um. Telji stefndi, að málið hljóti að sæta frávísun af þessum sökum, sbr. ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Forsendur og niðurstaða
Fyrirsvarsmaður stefnanda, Brynja Guðmundsdóttir, gaf skýrslu fyrir dómi, sem og Magnús Eyjólfsson, fyrrum fjármálastjóri hjá stefnanda, Margrét Eva Árnadóttir, fyrrum ráðgjafi hjá stefnanda, Jónas Sigurðsson, framkvæmdastjóri kjarnaþróunarsviðs stefnanda, Hannes Pétursson, framkvæmdastjóri hugbúnaðar hjá stefnanda, Sigurgeir Sigurpálsson, fyrrum verkefnastjóri hjá stefnanda, Bolli Þór Bollason, skrifstofustjóri velferðarráðuneytisins, Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, Eva Gunnlaugsdóttir, starfsmaður hjá umboðsmanni skuldara, Margrét Valdimarsdóttir, sviðsstjóri ráðgjafasviðs umboðsmanns skuldara, og Jón Óskar Þórhallsson, fjármálastjóri hjá umboðsmanni skuldara.
Ágreiningur aðila lýtur að því, hvort komizt hafi á bindandi samningur milli aðila um þróun og uppsetningu hugbúnaðarkerfis fyrir embætti umboðsmanns skuldara, hvort einhver vinna hafi farið fram í þágu embættisins á grundvelli bindandi samnings og loks hvort eða hversu mikið stefnda beri að greiða stefnanda vegna þeirrar vinnu.
Það er óumdeilt, að fyrirsvarsmaður stefnanda leitaði upphaflega til velferðarráðuneytisins til þess að kynna þjónustu sína, og í framhaldi af því óskaði þáverandi ráðuneytisstjóri, Bolli Þór Bollason, eftir viðræðum um þróun umdeilds hugbúnaðarkerfis fyrir embætti umboðsmanns skuldara.
Það telst upplýst, með vísan til þess, sem fram kemur í skýrslugjöfum fyrir dómi, að í kjölfar óska Bolla Þórs, fóru fram mikil samskipti milli aðila, þar sem stefnt var að því að koma á samningi um verkefnið.
Í tölvubréfi Bolla Þórs til Brynju, dags. 29. júlí 2010, segir svo m.a.: Við Runólfur hittumst síðan í dag til að ræða næstu skref. Við vorum sammála um að ganga til samninga við ykkur á þeim forsendum sem liggja fyrir.“ Og síðar í sama bréfi segir Bolli Þór: „Að mínu mati breytir þetta engu um að það væri mjög gott ef þið gætuð byrjað strax að vinna í öllum þessum málum. Við megum engan tíma missa og það munar um hvern dag.“ Bréf þetta verður ekki skilið á annan hátt en svo, að þarna feli Bolli Þór stefnanda að hefja störf.
Enn fremur segir Bolli Þór svo m.a. í tölvubréfi frá 21. ágúst 2010: „Don´t worry. Ég lít á samningana sem samþykkta eftir okkar samskipti og mun ekki fallast á neinar efnislegar breytingar á þeim frá því sem okkur fór á milli.“
Í tölvubréfi frá 30. ágúst 2010 til umboðsmanns skuldara, Ástu Sigrúnar Helgadóttur, segir Bolli Þór svo m.a.: „Ég var búinn að ná mjög góðum samningum við Gagnavörsluna.“ Sama dag kemur fram í tölvubréfi Ástu Sigrúnar, að hún hafi talið, að búið hefði verið að ganga frá samningunum.
Fyrir dómi skýrði Bolli Þór svo frá m.a., að eftir 1. ágúst hefði ákvörðunarvaldið verið komið frá honum, en hann hafi eftir sem áður setið í ráðgjafahópi. Stangast sú fullyrðing hans á við yfirlýsingu hans í tölvubréfi til Brynju, dags. 4. ágúst 2010, þar sem hann segir svo: „Ég er auðvitað yfir verkefnisstjórninni og hef ákvörðunarvald í málinu.“ Spurður, hvort þessi orð væru ekki þversögn við annað, sem hann hafi sagt um þetta , svaraði hann því svo m.a., að hann hefði litið svo á, að það væri eðlilegt, að hann, sem formaður í verkefnastjórninni fyrir 1. ágúst og síðan yfir ráðgjafahópnum frá 1. ágúst myndi undirrita samninga ásamt umboðsmanni skuldara. Ítrekað spurður, hvort ekki hefði mátt skilja þessi orð sem svo, að hann væri búinn að samþykja verkefnið úr því að hann hefði haft heimild og umboð til þess, svaraði hann svo: „Jú, sjálfsagt hefði mátt skilja það þannig, og eins og þú segir, ég hafði náttúrlega, var á þessum tímapunkti sannfærðum um, að við ættum að ganga til samninga, þannig að “ Nánar aðspurður fyrir dómi kvaðst hann telja ótvírætt, að ráðuneytisstjórar hafi vald til þess að ganga frá samningum fyrir hönd sinna ráðuneyta og sé það algengt, að ráðuneytisstjóri undirriti verksamninga og annað, sem undir hans ráðuneyti heyri.
Spurður hvað hann ætti við með því orðalagi í tölvubréfi frá 6. ágúst 2010, að hann hefði viljað „setja allt á fullt“, svaraði hann því, að hann hefði átt við undirbúning verkefnisins og hefði talið, að fyrir þá vinnu hefði stefnandi átt að fá greitt.
Með vísan til framangreindra tölvusamskipta, sem og framburðar Bolla Þórs og Brynju fyrir dómi, þykir hafið yfir vafa, að báðir aðilar litu svo á, að kominn væri á samningur milli þeirra um, að stefnandi tæki að sér verkefnið og setti það í gang, enda þótt ekki væri búið að ganga frá endanlegum samningi, færa hann í letur og skrifa undir. Mátti stefnandi því treysta því, að hann væri að vinna að verkefninu í samræmi við óskir stefnda og samkvæmt munnlegum samningi þar um. Þá stóð umboðsmaður skuldara í þeirri trú hátt í mánuði eftir að hún hóf störf, að samningurinn við stefnanda væri frá genginn og liggur ekki annað fyrir en að þann skilning hafi hún meðtekið frá starfsmönnum ráðuneytisins.
Samkvæmt framburði Brynju og þeirra starfsmanna stefnanda, núverandi og þáverandi, sem að verkefninu komu, þykir upplýst, að veruleg vinna hafi farið í gang hjá stefnanda í lok júlí eða í síðasta lagi í byrjun ágúst, þar sem önnur verkefni voru sett til hliðar, svo unnt væri að ljúka umsömdu verkefni á sem stytztum tíma.
Stefndi vísar m.a. til þess í málatilbúnaði sínum, að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki fengið nein verðmæti frá stefnanda, og hafi vinna stefnanda öll miðað að því að kynna verkefnið og komast að samkomulagi um það.
Jónas Sigurðsson, framkvæmdastjóri kjarnaþróunarsviðs Gagnavörslunnar, lýsti fyrir dóminum, að hugbúnaðarvinna sé að mestu leyti hugmyndavinna. Ekki hafi verið búið að smíða kerfið fyrir umboðsmann á þessum tíma. Smíðin á kerfinu byrji ekki fyrr en kerfið hefur verið hannað, og sé smíðin sjálf ekki hluti af hugbúnaðarvinnunni. Smíðin taki kannski ekki meira en nokkrar klukkustundir, eftir mikla vinnu við að koma hugmyndunum heim og saman. Umboðsmaður hafi getað tengzt grunnkerfi stefnanda á þessum tíma, en síðan hafi þurft að vinna tengingar og flæði milli þess kerfis og annarra kerfa, sem þurfti að taka þangað inn. Þær sérsmíðuðu lausnir, sem stefndi vildi fá, hafi ekki verið tilbúnar, en mikil hugmyndavinna hafði farið fram, þ.e. við að teikna lausnirnar.
Hannes Pétursson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarþróunar Gagnavörslunnar, skýrði svo frá, að starfsmenn hefðu verið búnir að vera á fullu í þarfagreiningarfasa fyrir umboðsmann og hefðu verið að vinna í því, hvernig ætti að laga kerfi stefnanda að þörfum umboðsmanns. Kerfið sjálft hefði verið tilbúið til notkunar, þó að það hafi ekki verið búið að hanna það að þörfum umboðsmanns, en kröfur embættisins hefðu ekki verið alveg ljósar.
Sigurgeir Sigurpálsson skýrði svo frá, að kerfisaðgangur hefði verið búinn til fyrir umboðsmann, og hefði hann sýnt henni, hvernig það virkaði. Þetta hefði verið aðgangur, sem þau hafi mátt „fikta í“, en engin sérvinnsla hefði verið farin í gang. Hann kvað þarfagreininguna vera órjúfanlegan hluta af svona kerfisuppsetningu, og ekki væri hægt að fara að hanna kerfi, fyrr en vitað væri, hvað viðskiptavinurinn vildi.
Þegar framangreindur framburður starfsmanna stefnanda, sem unnu að hugbúnaðargerðinni, er virtur, er ljóst, að stefnandi gat ekki afhent umsamin verðmæti, fyrr en að hugbúnaðargerðinni lokinni. Með því að verkefnið var blásið af, áður en af því gat orðið, er ekki fallizt á með stefnda, að stefnanda beri ekki greiðslur fyrir þá vinnu, sem þegar hafði verið innt af hendi við hugbúnaðargerðina. Á hinn bóginn liggur fyrir, að grunnkerfi stefnanda hafði verið sett upp til afnota og kynningar hjá stefnda, enda þótt það hefði ekki þá nýtingarmöguleika, sem að var stefnt með hugbúnaðargerðinni, og ber stefnda einnig að greiða fyrir þau afnot, óháð því, hvort það nýttist þeim á þessu stigi. Er framangreindu sjónarmiði stefnda því hafnað. Að þessu virtu má fallast á með stefnanda, að honum beri greiðsla fyrir vinnuna, sem sannanlega, sbr. það sem fyrr er rakið, var unnin í þágu embættis umboðsmanns skuldara, að ósk stefnda og samkvæmt bindandi munnlegu samkomulagi, enda þótt stefndi hafi ekki fengið verðmæti fyrir þá vinnu af þeim sökum, að verkefninu var aldrei lokið, vegna atvika, sem stefndi ber ábyrgð á, þ.e. með því að afturkalla þann samning, sem búið var að gera munnlega.
Stefnandi hefur lagt fram tímaskráningar þeirra starfsmanna, sem komu að verkefninu og sem reikningar stefnanda byggjast á.
Þeir starfsmenn stefnanda, sem komu fyrir dóminn, skýrðu frá því aðspurðir, hvernig tímaskráningu þeirra hefði verið háttað vegna þeirrar vinnu, sem þeir lögðu af mörkum. Skráðu þeir tímana ýmist beint í tímaskráningarkerfi stefnanda, eða í eigin tímaskráningarbók, sem þeir færðu síðar inn í tímaskráningarkerfi stefnanda. Staðfestu þeir allir tímaskráningu sína. Þykir stefnandi hafa gert nægilega grein fyrir þeirri vinnu, sem fyrirtækið lagði til verkefnisins, enda þótt áþreifanleg verðmæti hafi ekki orðið til við þá vinnu, og hefur stefndi ekki fært að því haldbær rök, að sú tímaskráning verði ekki lögð til grundvallar vinnu stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á þremur reikningum. Eru tveir þeirra stílaðir á umboðsmann skuldara og einn á velferðarráðuneytið. Verður nú fjallað um hvern reikning fyrir sig.
Fyrsti reikningurinn er á dskj. nr. 3, að fjárhæð kr. 10.828.491, að meðtöldum virðisaukaskatti. Stefnandi hefur lagt fram vinnuskýrslu til grundvallar þessum reikningi, þar sem vinnutímar hvers starfsmanns eru skráðir eftir dagsetningu. Eru fyrstu tímarnir skráðir 3. ágúst 2010 og þeir síðustu 14. október s.á. Samkvæmt tölvusamskiptum Bolla Þórs og Brynju, sem og framburði aðila fyrir dómi, höfðu aðilar náð samkomulagi um tímagjald fyrir vinnuna. Þá kemur fram í tölvusamskiptum Bolla Þórs og Brynju hinn 1. september 2010, að samkomulag var um, að dagsetja samningana 3. ágúst 2010. Er því ljóst, að vinna sú, sem er grundvöllur þessa reiknings, var öll unnin eftir að samningur telst hafa verið kominn á. Í framburði aðila og vitna fyrir dómi kemur fram, að aldrei var formlega fallið frá samkomulagi aðila, heldur hafi verkefnið einhvern veginn fjarað út. Eftir því sem næst verður komizt munu starfsmenn stefnanda hafa fengið fyrstu vísbendingu um, að ekki væri óskað eftir frekari vinnu þeirra, á fundi með Evu Gunnlaugsdóttur hinn 6. október 2010. Þegar það er virt, að Brynju var aldrei tilkynnt staðan, sem upp var komin, formlega, má fallast á, að sú vinna, sem krafið er um í framangreindum reikningi, sé innan þeirra marka, sem telja má að samningur aðila hafi verið í gildi, og liggur ekki annað fyrir, en að hún hafi öll verið unnin í þágu embættis umboðsmanns skuldara og í góðri trú. Hefur stefndi hvorki sýnt fram á, né gert sennilegt, að tímaskráningar starfsmanna stefnanda séu rangar. Er þessi hluti kröfunnar því tekinn til greina að fullu.
Næsti reikningur er á dskj. nr. 4, að fjárhæð kr. 728.954, þar með talinn virðisaukaskattur. Stefnandi hefur lagt fram ítarlegri reikning, honum til stuðnings, þar sem fram kemur að krafan er vegna uppsetningar á CoreData kerfi stefnanda, áskriftar í ágúst, september og október 2010, rafrænnar vistunar fyrir þá mánuði og loks greiðslu í uppsagnarfresti á áskrift og rafrænni vistun. Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið um kerfisaðgang fyrir umboðsmann að kerfi stefnanda, er fallizt á, að reikningur þessi sé sanngjarn og að stefnda beri að greiða hann að fullu, enda er áskriftin innan gildistíma samnings aðila.
Þriðji reikningurinn, sem stílaður er á velferðarráðuneytið, er að fjárhæð kr. 878.011, að meðtöldum virðisaukaskatti. Stefnandi hefur lagt fram vinnuskýrslu til grundvallar þessum reikningi, þar sem vinnutímar hvers starfsmanns eru skráðir eftir dagsetningu. Eru fyrstu tímarnir skráðir 5. júlí 2010 og þeir síðustu 31. október s.á. Með vísan til þess, sem rakið er hér að ofan, þar sem fjallað er um fyrsta reikninginn, verður að telja ósannað, að vinna sú, sem unnin var fyrir 3. ágúst 2010, falli undir samningsbundna vinnu fyrir stefnda, heldur skoðast hún sem hluti af vinnu aðila við að kynna verkið og leita eftir samningi. Hins vegar er fallizt á, þar sem annað er ósannað, að stefnda beri að greiða fyrir þá vinnu, sem fram fór allt til loka október, með vísan til þess, að stefnanda var aldrei gerð skýr grein fyrir því, að verkefninu væri hafnað. Ber stefnanda því greiðsla samkvæmt þessum reikningi fyrir samtals 15 klst. Enda þótt reikningur þessi sé stílaður á velferðarráðuneytið en ekki umboðsmann, er ljóst af tímaskráningartöflunni, að um var að ræða umdeilt verkefni fyrir umboðsmann skuldara. Þá fóru samningsumleitanir einkum fram milli stefnanda og ráðuneytisstjóra velferðarráðuneytisins. Ber stefnda því að greiða stefnanda vegna þessa reikning kr. 224.018, þar með talinn virðisaukaskatt, en jafnframt hefur verið tekið tillit til 15% afsláttar, sem stefnandi veitir stefnda af útseldri vinnu samkvæmt reikningnum.
Sjónarmiðum stefnda, sem lúta að því, að ekki hafi verið farið að ákvæðum 20. gr. laga nr. 84/2007 er hafnað sem málsástæðu til sýknu, en stefndi ber sjálfur alfarið ábyrgð á því, hafi hann ekki farið að lögum í samskiptum sínum við stefnanda.
Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina með kr. 11.781.463, ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði. Þá ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 1300.000, en ekki hefur verið litið til virðisaukaskatts við þá ákvörðun, þar sem stefnandi hefur ekki gert grein fyrir því, að hann sé undanþeginn virðisaukaskatti.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenzka ríkið, greiði stefnanda, Gagnavörslunni ehf., kr. 11.781.463, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. marz 2011 til greiðsludags og kr. 1.300.000 í málskostnað.