Hæstiréttur íslands

Mál nr. 472/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Aðfararheimild
  • Stjórnvaldsúrskurður
  • Afhending gagna
  • Lögjöfnun


                                     

Mánudaginn 24. ágúst 2015.

Nr. 472/2015.

Sveitarfélagið Ölfus

(Guðjón Ármannsson hrl.)

gegn

Íslenska gámafélaginu ehf.

(Jón Þórir Frantzson fyrirsvarsmaður)

Kærumál. Aðför. Aðfararheimild. Stjórnvaldsúrskurður. Afhending gagna. Lögjöfnun.

Í kjölfar útboðs gerði sveitarfélagið Ö samning við G hf. um sorphirðu í sveitarfélaginu. ÍG ehf., sem tók þátt í útboðinu, krafðist aðgangs að tilboðsgögnum G hf. en Ö hafnaði þeirri beiðni. Var synjunin kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem komst að þeirri niðurstöðu að Ö væri skylt að veita ÍG ehf. aðgang að gögnunum. ÍG ehf. beindi aðfararbeiðni til héraðsdóms eftir 1. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1989 og krafðist þess að sér yrðu afhent gögnin í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndarinnar. Í úrskurði héraðsdóms var fallist á kröfu ÍG ehf. um að aðfararbeiðnin færi fram. Með úrskurðinum var því hafnað að kæra ÍG ehf. til úrskurðarnefndarinnar hefði borist eftir þann frest sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 140/2012. Þá var ekki talið að afhending upplýsinganna gæti leitt til röskunar á eðlilegri samkeppni, en í úrskurðinum kom fram að Ö hefði ekki lagt fyrir dóminn þau gögn sem um væri deilt. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þar sem ágreiningur aðila snerist um gildi úrskurðar úrskurðarnefndarinnar hefði borið að leysa úr ágreiningnum á grundvelli 13. kafla laga nr. 90/1989, sbr. 2. mgr. 14. gr. þeirra, á sama hátt og ef ágreiningurinn hefði lotið að beiðni um innsetningargerð. Var því ekki talið að það hefði komið að sök hvernig beiðni ÍG ehf. var úr garði gerð í upphafi. Þá var í dómnum tekið fram að Ö hefði getað lagt fram þau gögn sem um var deilt í málinu fyrir héraðsdómara í trúnaði samkvæmt lögjöfnun frá 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, án þess að ÍG ehf. fengi aðgang að þeim. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 26. júní 2015 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá nánar tilgreind gögn tekin úr vörslum sóknaraðila og fengin sér með aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara að hafnað verði kröfu varnaraðila um aðför. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 11. mars 2015 í máli nr. 150/2015 hefði varnaraðili átt að beina aðfararbeiðni sinni til héraðsdóms eftir 1. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1989 í stað þess að gera það með beiðni um innsetningargerð samkvæmt 1. mgr. 78. gr. þeirra. Þar sem ágreiningur málsaðila snýst um gildi úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál 24. júlí 2014 sem aðfararheimildar bar að leysa úr ágreiningnum á grundvelli 13. kafla sömu laga, sbr. 2. mgr. 14. gr. þeirra, á sama hátt og borið hefði að gera ef ágreiningurinn hefði lotið að beiðni um innsetningargerð, sbr. 2. mgr. 78. gr. laganna. Að þessu virtu kemur ekki að sök hvernig beiðni varnaraðila var úr garði gerð í upphafi.

Í hinum kærða úrskurði er tekið fram að þau gögn, sem varnaraðili krefst að sér verði afhent úr hendi sóknaraðila, hafi ekki verið lögð fram í málinu til að unnt sé að meta þau á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem kveðið er á um aðgang aðila að stjórnsýslumáli að gögnum um hann sjálfan og jafnframt gerðar undantekningar frá þeirri reglu. Eftir 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur dómari ákveðið að skjal, sem er skylt að láta af hendi samkvæmt 67. gr. laganna, þar á meðal skjal sem er í vörslum manns sem ekki er aðili að máli, sbr. 3. mgr. hennar, verði lagt fyrir hann í trúnaði og gegn þagnarskyldu ef skjalið hefur að geyma atriði sem hlutaðeigandi væri óskylt eða óheimilt að bera vitni um. Þar sem gögnin, sem um er deilt í þessu máli og eru í vörslum sóknaraðila, stafa frá Gámaþjónustunni hf. og sóknaraðili heldur því fram að þau hafi að geyma viðkvæmar rekstrarupplýsingar um það félag, sem beri að halda leyndum á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, hefði honum verið fært að leggja umrædd gögn fyrir héraðsdómara í trúnaði samkvæmt lögjöfnun frá 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, án þess að varnaraðili fengi aðgang að þeim. Að þessu virtu verður sóknaraðili að bera hallann af því að hafa ekki lagt gögnin fram í málinu.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

                                             Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sveitarfélagið Ölfus, greiði varnaraðila, Íslenska gámafélaginu ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðs­dóms Suður­lands 26. júní 2015.

            Sóknaraðili er Íslenska gámafélagið ehf., kt. [...], Gufunesvegi, Reykjavík, en varnaraðili er Sveitarfélagið Ölfus, kt. [...], Hafnarbergi 1, Þorlákshöfn.

            Sóknaraðili, hér eftir gerðarbeiðandi, krefst dómsúrskurðar um að fram fari aðfarargerð til þess að fá gerðarþola til að afhenda gerðarbeiðanda gögn í samræmi við úrskurðarorð úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-541/2014, frá 24. júlí 2014. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar.

            Varnaraðili, hér eftir gerðarþoli, krefst þess að hafnað verði kröfu gerðarbeiðanda um aðfarargerð á grundvelli úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-541/2014. Til vara gerir gerðarþoli kröfu um að í úrskurði verði kveðið á um að málskot á honum fresti aðfarargerð, sbr. 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Í báðum tilvikum krefst gerðarþoli málskostnaðar.

            Framangreind krafa gerðarbeiðanda barst dóminum 15. september 2014 og var málið þingfest 14. október 2014. Var kveðinn upp úrskurður í málinu 30. janúar 2015 og kröfu gerðarbeiðanda hafnað. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 150/2015, uppkveðnum 11. mars 2015, var úrskurður héraðsdóms „felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka efnislega afstöðu til kröfu sóknaraðila, að teknu tilliti til þeirra málsástæðna og lagaraka sem varnaraðili hefur fært fram og lúta að form- og efnisannmörkum á stjórnvaldsúrskurðinum, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar.“

            Var málið endurflutt 11. maí 2015 og tekið til úrskurðar á ný þann dag.

            Fyrir uppkvaðningu úrskurðar var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. 

                Málavextir

                Ágreiningur aðila málsins snýst um afhendingu gagna í útboði vegna verksins „Sorphirða í Ölfusi 2014-2019“. Voru tilboð opnuð 23. desember 2013. Voru þrír bjóðendur í verkið, Kubbur ehf. með tilboð að fjárhæð kr. 125.312.395-, gerðarbeiðandi með tilboð að fjárhæð kr. 91.150.000- og Gámaþjónustan hf. með tilboð að fjárhæð kr. 73.665.330-. Með bréfi til gerðarþola 30. desember 2013 óskaði gerðarbeiðandi eftir aðgangi að tilboði Gámaþjónustunnar hf., sem lagðist gegn því við gerðarþola að gögnin yrðu afhent. Gerðarþoli hafnaði beiðni gerðarbeiðanda með tölvupósti 17. janúar 2014. Var tekið fram í svarinu að tilboð væru ekki að fullu metin og ekki hefði verið gengið til samninga um verkið. Gerðarbeiðandi ítrekaði beiðni sína með bréfi hinn 25. mars 2014 og svaraði gerðarþoli því með tölvupósti 29. mars 2014 þar sem sagði að aðgangi að umbeðnum gögnum hefði þegar verið hafnað með tölvupósti 17. janúar 2014.

Gerðarbeiðandi kærði ákvörðun gerðarþola til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með kæru dags. 23. apríl 2014. Kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð nr. A-541/2014 í málinu hinn 24. júlí 2014 og var úrskurðarorð „Sveitarfélaginu Ölfusi ber að afhenda kæranda útboðsgögn Gámaþjónustunnar hf. vegna útboðs í verkið „Sorphirða í Ölfusi 2014-2019.“

Með bréfi, dags. 6. ágúst 2014, fór gerðarþoli fram á það við úrskurðarnefndina að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað þar sem gerðarþoli hygðist skjóta niðurstöðu nefndarinnar um afhendingu útboðsgagnanna til dómstóla. Úrskurðarnefndin vísaði þeirri kröfu gerðarþola frá þar sem hún hefði borist eftir að sjö daga frestur skv. 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2002 var liðinn. Var krafa um frestun réttaráhrifa af þessum sökum ekki tekin til efnislegrar meðferðar.

Þann 27. ágúst 2014 skoraði gerðarbeiðandi á gerðarþola að afhenda umrædd gögn samkvæmt úrskurði nr. A-541/2014. Tilkynnti gerðarbeiðandi að ef gerðarþoli yrði ekki við áskoruninni yrði krafist aðfarar til innsetningar í gögnin án frekari fyrirvara.

Þann 28. ágúst 2014 höfðaði gerðarþoli, ásamt Gámaþjónustunni hf., einkamál á hendur gerðarbeiðanda með birtingu stefnu til ógildingar á úrskurði nr. A-541/2014. Það mál var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 9. september 2014. Í því máli krefst gerðarþoli, ásamt Gámaþjónustunni hf., þess að umræddur úrskurður verði ógiltur með dómi. Gerðarbeiðandi lagði fram greinargerð sína í því máli þann 7. október 2014 og gerir aðallega kröfu um að dómkröfum stefnenda verði vísað frá dómi, en til vara krefst hann þess að umræddur úrskurður verði staðfestur með dómi.

Með bréfi, dags. 11. september 2014, tilkynnti gerðarþoli gerðarbeiðanda að ekki yrði orðið við áskorun gerðarbeiðanda frá 27. ágúst s.á., með vísan til þess að einkamál hefði verið höfðað til ógildingar á úrskurði nr. A-541/2014. Þá andmælti gerðarþoli fyrirhugaðri aðfarargerð.

            Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda

            Í aðfararbeiðni og greinargerð gerðarbeiðanda er ekki skilið á milli málavaxtalýsingar og lýsingar á málsástæðum.

            Kveður gerðarbeiðandi að af breytingum sem gerðar hafi verið á lögum um opinber innkaup nr. 84/2007 megi sjá að löggjafinn sé að auka gegnsæi í opinberum innkaupum og sé með þessum breytingum að leggja auknar kröfur á kaupendur við val á tilboðum og að veita upplýsingar um það tilboð sem tekið er. Af þessu megi sjá ákveðin líkindi með markmiðum upplýsingalaga nr. 140/2012 og laga um opinber innkaup nr. 84/2007 sem sé að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup og stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri. En til að ná þessum markmiðum verði að veita bjóðendum upplýsingar um hvort mat á tilboðum og tilboðsgjöfum hafi verið lögum samkvæmt.

            Í ljósi þess að gerðarþoli neiti að afhenda umkrafin gögn sé krafist innsetningar í umráð gagnanna án undangengins dóms eða réttarsáttar með vísan til 5. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 3. mgr. 23. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 73. gr. laga nr. 91/1989, sbr. 72. og 78. gr. að sýslumaður taki með valdi fyrrnefnd gögn úr höndum gerðarþola og afhendi gerðarbeiðanda með aðfararbeiðni dagsett 15. september 2014. Gerðarbeiðandi kveðst byggja rétt sinn á fyrrnefndum lagaákvæðum og innsendum úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

            Þá kveður gerðarbeiðandi að gerðarþoli hafi í raun enga lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins og sé af þeim sökum óhætt að láta gerðina fara fram. Jafnframt hafnar gerðarbeiðandi öllum sjónarmiðum gerðarþola.

            Gerðarbeiðandi bendir á að þau gögn sem krafist sé umráða yfir varði ekki gerðarbeiðanda sjálfan heldur viðsemjanda gerðarbeiðanda, Gámaþjónustuna hf., sem sé ekki aðili að þessu máli. Gerðarbeiðandi hafi gert sérstakt samkomulag við Gámaþjónustuna hf., um málarekstur til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-451/2014. Samkomulagið feli í sér að gerðarþoli skuldbindi sig til að vera aðili að dómsmáli fyrir hönd Gámaþjónustunnar hf. Þetta samkomulag sé til staðfestingar þess að gerðarþoli hafi enga hagsmuni af niðurstöðu þess máls sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 451/2014, né þessa máls sem rekið er fyrir Héraðsdómi Suðurlands, um hvort umþrætt gögn verði afhent. Séu því allar varnir gerðarþola án beinna, verulegra, sérstaka og lögvarinna hagsmuna og því ber að hafna þeim og láta gerðina fara fram.

            Vegna röksemda gerðarþola um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar hafi verið liðinn kveðst gerðarbeiðandi vera ósammála því. Kærufrestur hafi ekki verið liðinn þegar gerðarbeiðandi lagði fram kæru sína hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, þar sem tölvupóstur frá gerðarþola, dags. 17. janúar 2014, hafi ekki verið höfnun á afhendingu gagna heldur skýring á ómöguleika við að afhenda þau. Tölvupóstur frá gerðarþola dags. 29. mars 2014 hafi verið höfnun á afhendingu gagna og beri að miða við þá dagsetningu við ákvörðun frests sbr. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Hafi þannig kæra gerðarbeiðanda dags. 23. maí 2014 verið innan kærufrests og borið að fá efnislega meðferð.

            Í öðru lagi hafi svar gerðarþola með tölvupósti 17. janúar 2014 ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, meginreglur stjórnsýsluréttarins, stjórnsýslulög nr. 37/1993 né upplýsingalög nr. 140/2012 og hafi því ekki verið hægt að byggja á þeim tölvupósti varðandi upphaf kærufrests sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 140/2012.

            Þá vísar gerðarbeiðandi til þess að upplýsingar þær sem gerðarþola sé gert að afhenda með nefndum úrskurði, séu ekki upplýsingar sem teljist til tækni- og viðskiptaleyndarmála, líkt og haldið hafi verið fram af gerðarþola og sé því óhætt að gerðin nái fram að ganga, enda séu hagsmunir gerðarbeiðanda af því að fá umræddar upplýsingar ríkar þar sem þær séu fengnar til að kanna hvort rétt hafi verið staðið að útboðinu og almannahagsmunir standi til þess að veittur sé aðgangur að gögnum er varði ráðstöfun opinberra fjármuna. Þá sé rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum aðilum og meðvituð um að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera.

            Gögn þau sem gerðarþola sé gert að afhenda séu ekki þess eðlis að það varði verulega eða sérstaka hagsmuna fyrir Gámaþjónustuna hf., þar sem mikilvægi gagnanna eftir opnun tilboða sé lítið sem ekkert og feli ekki í sér neinar upplýsingar sem varðað geti mikilvæga hagsmuni að nokkru leyti.

            Um málskostnað vísar gerðarbeiðandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

            Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til framangreindra laga, en einkum kveðst hann byggja á lögum um aðför nr. 91/1989, meginreglum stjórnsýsluréttarins, ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012, ákvæðum laga um opinber innkaup nr. 84/2007 og lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

                Málsástæður og lagarök gerðarþola

                Í greinargerð gerðarþola er byggt á því að framangreint einkamál sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem tekist er á um kröfu gerðarþola um að umræddur úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál, leiði til þess að hafna beri kröfum gerðarbeiðanda í þessu máli. Hefur Hæstiréttur Íslands þegar hafnað þessari málsástæðu í framangreindum dómi réttarins í málinu nr. 150/2015. Verður henni ekki sinnt hér og ekki er þörf á að gera hér frekari grein fyrir henni. Í framangreindum dómi Hæstaréttar er lagt fyrir héraðsdóminn að „taka efnislega afstöðu til kröfu sóknaraðila, að teknu tilliti til þeirra málsástæðna og lagaraka sem varnaraðili hefur fært fram og lúta að form- og efnisannmörkum á stjórnvaldsúrskurðinum, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar.“

                Verður hér á eftir gerð grein fyrir málsástæðum gerðarþola hvað þetta varðar.

                Gerðarþoli setur málsástæður fram á kaflaskiptan hátt og verður þeirri framsetningu fylgt hér.

Efnis- og formannmarkar á úrskurði valdi því að honum verður ekki fylgt eftir.

                Gerðarþoli telur að hafna beri kröfu gerðarbeiðanda þar sem hinn umþrætti úrskurður sé ógildanlegur vegna alvarlegra form- og efnisannmarka. Telur gerðarþoli að á grundvelli 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, ásamt síðari breytingum, hafi dómstóll í aðfararmáli vald til að leggja efnislegt mat á þá stjórnvaldsákvörðun sem liggi til grundvallar aðfararbeiðni og eftir atvikum til að ákveða að aðför nái ekki fram að ganga á grundvelli úrlausnarinnar ef umrædd úrlausn sé haldin annmörkum. Þessa málsástæðu kveðst gerðarþoli byggja á því að (a) kæra gerðarbeiðanda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafi borist löngu eftir að kærufrestur var runninn út, og því hafi borið að vísa henni frá; (b) óheimilt hafi verið að afhenda gerðarbeiðanda útboðsgögn Gámaþjónustunnar hf. með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og (c) ekki hafi verið framkvæmt atviksbundið hagsmunamat skv. 3. mgr. 14. gr. nefndra upplýsingalaga. Nánar gerir gerðarþoli eftirfarandi grein fyrir þessu.

Vísa hafi átt kærunni frá úrskurðarnefnd

                Í fyrsta lagi hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra hafi borist nefndinni þann 23. apríl 2014.

                Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skuli mál samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laganna borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun.

Synjun gerðarþola á beiðni gerðarbeiðanda hafi borist til gerðarbeiðanda með tölvupósti hinn 17. janúar 2014. Tölvupóstur gerðarþola til gerðarbeiðanda hinn 29. mars 2014 hafi aðeins falið í sér tilvísun til fyrri ákvörðunar. Hafi því rúmlega þrír mánuðir verið liðnir frá því gerðarbeiðanda var tilkynnt um synjun og þar til hann kærði ákvörðun gerðarþola til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

                Í hinum umdeilda úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-541/2014 sé vikið að kröfu gerðarþola um frávísun málsins og henni hafnað. Byggi höfnunin á þeim rökstuðningi að gerðarbeiðanda hafi ekki verið leiðbeint um kæruheimild skv. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 eða kærufrest skv. 1. mgr. 22. gr. laganna. Með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 yrði kærunni því ekki vísað frá, þrátt fyrir að hún hafi borist að liðnum kærufresti. Þessa niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar kveðst gerðarþoli telja ranga. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli vísa kæru frá ef hún hefur borist að liðnum kærufresti nema (i) afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða (ii) veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ætla megi að úrskurðarnefndin hafi stuðst við fyrri heimildina þegar ákveðið hafi verið að taka málið til meðferðar, enda sé ekki að finna rökstuðning í úrskurðinum fyrir því að talið hafi verið að veigamiklar ástæður mæltu með því að kæran yrði tekin til meðferðar.

                Kveður gerðarþoli að forsenda þess að mál verði tekið til meðferðar, hafi kæra borist að liðnum kærufresti vegna meintrar vanrækslu stjórnvalda á leiðbeiningarskyldu sinni, sé sú að aðili hefjist handa við kæru án ástæðulauss dráttar eftir að honum varð kunnugt um málshöfðunarfrestinn. Felist þessi skilningur meðal annars í orðalagi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, enda sé þar sett sem skilyrði að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr. Ekki sé hægt að bera fyrir sig brot gegn leiðbeiningarskyldu þegar aðili er meðvitaður um kærufrest og kæruleiðir.

                Ekki verði fram hjá því litið að strax í fyrsta erindi gerðarbeiðanda, dags. 30. desember 2013, hafi verið vísað til þess að gerðarbeiðandi hygðist nýta sér kæruleiðir hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál ef ekkert yrði aðhafst í málinu. Gerðarbeiðandi eða a.m.k. sá lögmaður sem hafi komið fram fyrir hans hönd í málinu, hafi því vitað eða mátti vita um kærufrest frá upphafi. Þá leiði hagsmunagæsla lögfræðings almennt til þess að aðili geti ekki haldið því fram að honum hafi verið ókunnugt um kæruheimildir.

                Kveður gerðarþoli hvorki afsakanlegt né ásættanlegt að aðila að stjórnsýslumáli sé unnt að bera fyrir sig vanrækslu á leiðbeiningarskyldu til svo langs tíma sem þriggja mánaða þegar honum sé þegar kunnugt um kæruleiðir og málshöfðunarfresti. Ekki sé forsvaranlegt að unnt sé að draga mál með slíkum hætti. Kveður gerðarþoli að úrskurðarnefnd hafi því átt að vísa kærunni frá. Af þessu leiði að ógilda beri hin umþrætta úrskurð.

Óheimilt sé að veita aðgang að umbeðnum upplýsingum

                Í öðru lagi kveður gerðarþoli að á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé rétt að takmarka aðgang gerðarbeiðanda að gögnum er varði Gámaþjónustuna hf. vegna umrædds útboðs, enda hafi þau að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni Gámaþjónustunnar hf.

                Í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé takmörkun á upplýsingarétti aðila máls á grundvelli laganna. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafi að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæli með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.

                Sé ljóst af orðalagi ákvæðisins og skýringum þess í greinargerð að atviksbundið mat þurfi að fara fram á umbeðnum gögnum í hverju tilviki fyrir sig. Kveður gerðarþoli að hagsmunir þess aðila sem gögnin varða, í þessu tilviki Gámaþjónustunnar hf., vegi mun þyngra en hagsmunir gerðarbeiðanda af því að fá gögnin afhent. Í því sambandi bendir gerðarþoli á að gerðarbeiðandi hafi ekki rökstutt hvers vegna hagsmunir félagsins af því að fá gögnin standi framar hagsmunum Gámaþjónustunnar hf., sem gögnin varði, af því að þeim viðskipta- og fjárhagsupplýsingum sem umrædd gögn hafi að geyma verði haldið leyndum gagnvart samkeppnisaðilum.

                Kveður gerðarþoli að afhending gagnanna myndi hafa alvarleg áhrif á samkeppnisstöðu þess aðila sem þau varða. Ekki hafi verið sýnt fram á hagsmuni af hálfu gerðarbeiðanda sem séu til þess fallnir að vega þyngra en hagsmunir Gámaþjónustunnar hf. af því að leynt sé farið með upplýsingarnar. Um sé að ræða nákvæmar upplýsingar, svo sem um ný og nákvæm einingaverð og magntölur, yfirlýsingu um skuldastöðu við ríkissjóð og upplýsingar um lífeyrisgreiðslur. Hafi gerðarbeiðandi ekki nokkra hagsmuni af því að fá þessar upplýsingar.

                Afhending svo ítarlegra viðskiptaupplýsinga til keppinautar á samkeppnismarkaði geti ótvírætt haft í för með sér mikið tjón fyrir þann sem upplýsingarnar varða. Í því sambandi kveður gerðarþoli að upplýsingarnar séu þess eðlis að afhending þeirra til keppinautar myndi að öllum líkindum valda Gámaþjónustunni hf., tjóni, enda séu verulegar líkur á að gerðarbeiðanda verði unnt að hagnýta sér umræddar upplýsingar á kostnað Gámaþjónustunnar hf., ekki síst þar sem um sé að ræða upplýsingar sem enn hafi gildi í rekstri Gámaþjónustunnar hf. Þá séu verulegar líkur á röskun á eðlilegri samkeppni þegar einn aðili á markaði geti fært sér í nyt viðskiptaupplýsingar um keppinaut sinn og hagað starfsemi sinni samkvæmt þeim. Þá geti keppinautar t.d. samræmt verð í útboðum, til tjóns bæði fyrir kaupendur og neytendur. Gögnin varði því ekki aðeins einkahagsmuni Gámaþjónustunnar hf., heldur einnig almannahagsmuni.

                Varðandi ákvæði um trúnað sérstaklega vísar gerðarþoli til þess að takmarkanir upplýsingalaga nr. 140/2012 á trúnaði skv. 17. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup geti aðeins rúmast innan þess ramma sem upplýsingalögin setji. Gerðarþoli telji umræddar upplýsingar undanþegnar upplýsingaskyldu skv. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og því hafi verið heimilt og rétt að heita bjóðendum trúnaði í útboðsskilmálum. Þetta sé í samræmi við túlkun kærunefndar útboðsmála að því er varði samspil 17. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 annars vegar og takmarkanir á upplýsingarétti skv. upplýsingalögum nr. 140/2012 hins vegar. Í þessu samhengi verði heldur ekki litið framhjá því að allir þátttakendur í útboðinu, þ.m.t. gerðarbeiðandi, hafi afhent tilboðsskrár í trúnaði. Beiðni gerðarbeiðanda um afhendingu þessara gagna nú skjóti því skökku við.

Ekki hafi verið framkvæmt atviksbundið hagsmunamat.

                Gerðarþoli vísar í þriðja lagi til þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi við meðferð málsins ekki framkvæmt fullnægjandi mat á hagsmunum samkvæmt ofangreindu.

                Í athugasemdum frumvarps til upplýsingalaga nr. 140/2012 að því er varðar 14. gr. laganna, komi fram að líklegt sé að það reyni á andstæða hagsmuni þegar beiðni kemur fram um aðgang að gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni aðila, annars vegar þess sem óskar eftir upplýsingum og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða skuli haldið leyndum. Þá komi það jafnframt fram að kjarni reglunnar í 3. mgr. 14. gr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni. Feli þetta í sér að ekki nægi að leggja mat á hagsmuni þess sem gögnin varði, heldur þurfi að bera þá saman við hagsmuni þess sem óskað hafi eftir aðgangi að gögnum. Kveður gerðarþoli að skírskotun til almennra hagsmuna af því að njóta upplýsingaréttar á grundvelli upplýsingalaga nægi ekki í þessu samhengi. Meira þurfi að koma til.

                Til nánari skýringar sé í athugasemdum fyrrgreinds frumvarps vísað til þess að hagsmunir þeirra sem gögn varða um að tilteknum atriðum verði haldið leyndum séu að meginstefnu hinir sömu að liggi að baki 9. gr. laganna. Í athugasemdum við 9. gr., sem kveði á um takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna einstaklinga, fyrirtækja og annarra lögaðila, segi að óheftur aðgangur að öllum gögnum sem falli undir upplýsingalög nr. 140/2012 kunni að ganga gegn mikilvægum fjárhagslegum hagsmunum lögaðila. Í athugasemdunum sé m.a. vísað til þess að samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að veita aðgang að gögnum um „mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig [sé] óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni“. Gerðarþoli kveður þær upplýsingar sem um ræði í þessu máli falla ótvírætt undir þessa skilgreiningu.

                Of víðtækur réttur til aðgangs að upplýsingum um fjárhags- og viðskiptatengd málefni fyrirtækja brjóti gegn eðlilegum og réttmætum hagsmunum hlutaðeigandi fyrirtækja og annarra lögaðila af því að geta lagt grundvöll að viðskiptalegum ákvörðunum og gerningum. Sé því afar mikilvægt að framkvæma hið lögbundna mat í hverju tilviki fyrir sig, þar sem bornir séu saman gagnstæðir hagsmunir. Skipti þetta ekki síst máli í tilvikum sem þessu, þar sem þær upplýsingar sem um ræðir gefi mjög skýrt til kynna rekstrargrundvöll þess fyrirtækis sem um ræðir, með því að afhjúpa gildandi upplýsingar um einingaverð og magntölur.

                Niðurstaða þessa máls muni hafa almenna þýðingu, enda varði hún túlkun á upplýsingarétti þeirra sem eigi aðild að útboðum og muni þar af leiðandi hafa þýðingu við mat á skyldu til afhendingar upplýsinga annars vegar og skyldu til að halda trúnaði vegna einkahagsmuna hins vegar. Með of víðtækum upplýsingarétti þeirra sem taka þátt í útboðum sé vegið að fjárhags- og viðskiptatengdum hagsmunum hlutaðeigandi þátttakenda, með þeim afleiðingum að tilgangi útboða - þeim að ná fram sem hagkvæmustu samningum í opinberum innkaupum, hvetja til virkrar samkeppni og stuðla að hámarksnýtingu skattfjár - sé ógnað. Sé ljóst að gera þurfi greinarmun á gögnum sem upplýsingaréttur nái til, og að undanskilja eigi gögn sem beri með sér gildandi upplýsingar um fjárhagsleg og viðskiptaleg málefni fyrirtækja, til að koma í veg fyrir óeðlilega söfnun upplýsinga og röskun á samkeppni.

                Tekur gerðarþoli sérstaklega fram að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-409/2012, sem gerðarbeiðandi vísi til, hafi mjög takmarkað fordæmisgildi í þessu máli. Í því máli hafi verið um að ræða þriggja ára gamlar upplýsingar, auk þess sem afhending upplýsinga í því máli hafi grundvallast á því að kærandi hafi fært rök fyrir því að ólögmætt hafi verið að ganga til samninga við tiltekinn aðila í viðkomandi útboði þar sem fyrir hafi legið að sá aðili uppfyllti ekki kröfur útboðsskilmála. Úrskurðarnefndin í málinu hafi litið svo á að hagsmunir kæranda hafi vegið þyngra en hagsmunir þess aðila sem gögnin vörðuðu, enda hafi þeir lotið að því að rétt hafi verið staðið að mati á tilboðum í umræddu útboði. Slík atvik séu ekki til staðar í máli því sem hér er til meðferðar.

Krafa um að málskot fresti réttaráhrifum

                Gerðarþoli krefst þess, með vísan til 3. mgr. 84. gr. laga um aðför nr. 90/1989, að málskot úrskurðar í máli þessu til æðra dóms skuli fresta aðfarargerð. Séu hagsmunir gerðarþola í málinu ófjárhagslegir og ljóst að tjón hans yrði ekki bætt með greiðslu skaðabóta ef aðför að kröfu gerðarbeiðanda myndi ná fram að ganga, en æðri dómstóll myndi síðar komast að gagnstæðri niðurstöðu. Sé tilgangur 3. mgr. 84. gr. laga um aðför nr. 90/1989 einmitt sá að gæta hagsmuna gerðarþola í slíkum tilvikum, samanber athugasemdir við 3. mgr. 84. gr. sömu laga í greinargerð sem fylgt hafi frumvarpi til laganna.

Krafa um málskostnað

                Málskostnaðarkröfu sína byggir gerðarþoli á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þar sem gerðarþoli kveðst ekki virðisaukaskattskyldur krefst hann þess að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

            Forsendur og niðurstaða

            Í máli þessu krefst gerðarbeiðandi þess að fá afhent gögn í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-541/2014 frá 24. júlí 2014.

            Í úrskurðarorði hins umþrætta úrskurðar segir orðrétt „Sveitarfélaginu Ölfusi ber að afhenda kæranda útboðsgögn Gámaþjónustunnar hf. vegna útboðs í verkið „Sorphirða í Ölfusi 2013-2019“.

            Í 3. mgr. 23. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að úrskurður samkvæmt lögunum um aðgang að gögnum eða afrit af þeim sé aðfararhæfur, nema réttaráhrifum hans hafi verið frestað. Fyrir liggur að réttaráhrifum úrskurðarins hefur ekki verið frestað.

            Í 5. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 segir að aðför megi gera eftir úrskurðum yfirvalda, sem eru aðfararhæfir samkvæmt fyrirmælum laga. Byggir gerðarþoli mál sitt á þessu.

            Samkvæmt framangreindum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 150/2015 bar gerðarbeiðanda að beina kröfu sinni til héraðsdóms eftir 1. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1989, í stað þess að gera það með beiðni um innsetningargerð skv. 1. mgr. 78. gr. laganna. Ekki hefur gerðarþoli byggt á því að kröfu gerðarbeiðanda beri að hafna vegna þessa og verður ekki talið að þetta standi aðfararbeiðni í vegi.

            Gerðarþoli hefur byggt á því að vísa hafi átt kæru gerðarþola til úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá nefndinni þar sem hún hafi borist löngu eftir að kærufrestur hafi verið liðinn. Í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að heimilt sé að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Þá kemur fram í 1. mgr. 22. gr. laganna að mál skv. 1. mgr. 20. gr. skuli borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Gerðarbeiðandi óskaði fyrst eftir umræddum upplýsingunum frá gerðarþola 30. desember 2013. Var því erindi svarað með tölvupósti 17. janúar 2014. Í tölvupóstinum segir „með vísan í bréf þín dags. 9. janúar 2014 og 30. desember 2013, þar sem óskað er upplýsinga f.h. Íslenska gámafélagsins ehf. í tengslum við tilboð í sorphirðu hjá Sveitarfélaginu Ölfusi, tilkynnist að við getum ekki látið af hendi upplýsingar vegna þessa, m.a. þar sem tilboð eru ekki að fullu metin og ekki hefur verið gengið til samninga um verkefnið.“ Er ekki að finna annan rökstuðning í svarinu. Þá er hvorki leiðbeint um kæruleiðir né kærufrest. Þá verður ekki talið að orðalag svarsins sé þannig að viðtakandi hafi mátt draga þá ályktun að um væri að ræða endanlega afstöðu eða afgreiðslu. Þvert á móti þykir mega draga af svarinu þá ályktun að gerðarþoli kynni að geta afhent gögnin eftir að tilboð hafi verið að fullu metin og gengið hafi verið til samninga um verkefnið. Aftur bað gerðarbeiðandi um umrædd gögn með bréfi 25. mars 2014 og var þá svarað með tölvupósti 29. mars 2014 þar sem sagði að beiðni um aðgang að umbeðnum gögnum hafi þegar verið hafnað með tölvupósti 17. janúar 2014. Kærði gerðarbeiðandi synjunina með bréfi dags. 23. apríl 2014. Það er álit dómsins að þar sem hvorki var leiðbeint um kæruheimild né kærufresti skv. 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 22. gr. laga nr. 140/2012, sem og að gættu orðalagi svars gerðarþola 17. janúar 2014 sem áður er lýst, hafi úrskurðarnefndinni verið rétt að telja afsakanlegt að kæra gerðarbeiðanda hafi ekki komið fyrr fram og neyta þannig heimildar 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og taka kæruna til meðferðar. Engu breytir þó að talsmanni gerðarbeiðanda hafi verið eða mátt vera kunnugt um kæruleiðir og kærufresti í þessu sambandi. Þá getur það ekki breytt þessari niðurstöðu að lögmaður hafi komið að bréfaskriftunum fyrir gerðarbeiðanda.

            Þá byggir gerðarþoli á því að óheimilt hafi verið að afhenda gerðarbeiðanda útboðsgögn Gámaþjónustunnar hf. með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Jafnframt vísar gerðarþoli til þess að ekki hafi framkvæmt atviksbundið hagsmunamat, sem skylt sé að viðhafa.

            Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2012 segir að sé þess óskað þá sé skylt að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Verður talið að ákvæði þetta eigi við í málinu þar sem um er að tefla útboð sem gerðarbeiðandi tók sjálfur þátt í, en ekki er ágreiningur um þetta í málinu. Verður að telja þetta vera meginreglu. Undantekningar koma fram í 2. og 3. mgr. 14. gr. laganna. Undantekningarákvæði 2. mgr. 14. gr. laganna á ekki við hér, en í 3. mgr. 14. gr. laganna segir að heimilt sé „að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.“ Er samkvæmt orðanna hljóðan um að ræða heimild til að takmarka aðgang að gögnum, en ekki skyldu. Ekki hafa umrædd gögn verið lögð fram í málinu til að unnt verði að meta þau á grundvelli ákvæðisins, en um gögnin er fjallað í téðum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Segir í úrskurðinum að um sé að ræða svokallað tilboðsblað þar sem fram komi tilboðsfjárhæð Gámaþjónustunnar hf. vegna útboðsins. Í tilboðsskrá sé að finna einingaverð sem miðað hafi verið við í tilboði fyrirtækisins. Þá sé í gögnunum yfirlýsing um skuldastöðu við ríkissjóð, vottorð frá héraðsdómi, yfirlýsing frá nokkrum lífeyrissjóðum, yfirlit úr hlutafélagaskrá, almennar upplýsingar um tilboðsgjafa, skrá yfir tæki og búnað, upplýsingar um reynslu tilboðsgjafa og aðrar almennar upplýsingar og starfsleyfi frá Reykjavíkurborg. Þá sé í gögnunum almennt kynningarefni um starfsemi Gámaþjónustunnar hf.  Kemur fram í úrskurðinum að samkvæmt umsögnum gerðarþola og Gámaþjónustunnar hf. standi hagmunir Gámaþjónustunnar hf. einkum til þess að aðgangur að tilboðsblaðinu verði takmarkaður. Þá kemur fram að í umsögn Gámaþjónustunnar hf. hafi að öðru leyti verið vísað til þess að gögnin séu trúnaðargögn skv. skilmálum í útboðs- og verklýsingu. Þá hafi það komið fram í umsögn Gámaþjónustunnar hf. að fyrirtækið telji að það kunni að leiða til tjóns verði veittur aðgangur að gögnunum. Er vegna þess vísað til útboðs sem fyrirhugað hafi verið vegna sorphirðu í Hveragerði, en það útboð mun hafa farið fram meðan málið var til meðferðar fyrir nefndinni.

            Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar er gerð grein fyrir og lögð áhersla á hagsmuni þeirra sem taka þátt í tilboðum útboða á vegum þeirra sem falla undir gildissvið upplýsingalaga. Kemur fram að hagsmunir þeirra lúti að því að rétt sé staðið að framkvæmd útboðanna og að þá standi almannahagsmunir til þess að veittur sé aðgangur að gögnum sem varði ráðstöfun opinberra fjármuna. Fyrirtæki og lögaðilar verði að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum aðilum og að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera. Þá er í úrskurðinum gerð grein fyrir athugun úrskurðarnefndarinnar á þeim gögnum sem gerðarbeiðandi hefur óskað eftir. Segir að af þeim verði ekki ráðið að hagsmunum Gámafélagsins hf. sé hætta búin þótt gerðarbeiðanda verði veittur aðgangur að þeim. Í gögnunum sé ekki að finna upplýsingar um sambönd Gámafélagsins hf. við viðskiptamenn fyrirtækisins sem virðist til þess fallin að skaða hagsmuni þess, þau viðskiptakjör sem fyrirtækið njóti, álagningu þess eða afkomu. Auk almennra athugasemda hafi Gámafélagið hf. aðeins vísað til þess að fyrirtækið kynni að verða fyrir tjóni við framkvæmd eins tiltekins útboðs, en það hafi þegar farið fram.

            Að vegnum framangreindum hagsmunum og sjónarmiðum var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki bæri að neita gerðarbeiðanda um aðgang að gögnunum.

            Það er mat dómsins að gerðarþoli hafi ekki sýnt fram á að umrædd gögn séu þess eðlis að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi borið að neita gerðarbeiðanda um aðgang að þeim á grundvelli ákvæða 3. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2012. Þá verður heldur ekki séð að úrskurðarnefndin hafi vanrækt að leggja mat á þá hagsmuni sem um var að tefla í málinu, en ljóst er að úrskurðarnefndin lagði mat á gögnin og þá hagsmuni sem fyrir hendi voru, bæði af hálfu gerðarbeiðanda annars vegar og af hálfu gerðarþola og Gámaþjónustunnar hf. hins vegar.

            Gerðarþoli hefur vísað til þess að afhending upplýsinganna til gerðarbeiðanda geti leitt til röskunar á eðlilegri samkeppni þar sem gerðarbeiðandi hefði þá óeðlilega miklar upplýsingar um keppinaut sinn á markaði og gæti hagað tilboðsgerð sinni í samræmi við það. Að mati dómsins geta þessi sjónarmið ekki orðið til þess að gengið verði gegn meginreglu 1. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2012 andspænis þeim hagsmunum sem að framan hefur verið lýst og byggt var á í úrskurði úrskurðarnefndarinnar.

            Þá hefur gerðarþoli vísað til þess að þátttakendum í útboðinu, þ. á m. Gámaþjónustunni hf., hafi verið heitið trúnaði. Að mati dómsins getur þetta ekki orðið til þess að beiðni gerðarbeiðanda verði hafnað, en hér má vísa til 17. gr. laga nr. 84/2007, en í 3. mgr. 17. gr. þeirra laga kemur fram að ákvæði laganna um trúnaðarskyldu hafi ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga. Þannig getur loforð um trúnað ekki gengið framar skyldu gerðarþola skv. upplýsingalögum til að láta gögnin af hendi.

            Samkvæmt framansögðu eru ekki efni til þess að hafna kröfu gerðarbeiðanda, en heimild til aðfarar er í 1. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1989.

            Gerðarþoli hefur krafist þess til vara að í úrskurði verði kveðið á um að málskot á honum fresti aðfarargerð, sbr. 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Ljóst er að ákvæði þetta er undantekning frá þeirri almennu reglu sem fram kemur í ákvæðinu að málskot fresti ekki framkvæmd aðfarar. Hefur ákvæði þetta verið túlkað í samræmi við það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/1989 að reglan horfi einkum til þeirra tilvika „þar sem hagsmunir gerðarþola af málefni eru ófjárhagslegs eðlis og tjón hans yrði ekki bætt með fégreiðslu, ef gerðin yrði framkvæmd í kjölfar úrskurðar og æðri dómur kæmist síðar að gagnstæðri niðurstöðu við héraðsdómara. Hér gæti enn fremur átt undir, ef sérstakt tillit þarf að taka til andlags aðfarargerðar, svo sem við innsetningargerð í forræði barns.“ Ljóst er að hagsmunir gerðarþola eru hér ekki af fjárhagslegum toga, auk þess að væru gögnin komin til gerðarbeiðanda þá yrði það ekki aftur tekið þó að Hæstiréttur Íslands myndi hnekkja niðurstöðu úrskurðarins við málskot. Þykir rétt að fallast á varakröfu gerðarþola um að málskot fresti framkvæmd úrskurðarins.

            Samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, ber að úrskurða um að gerðarþoli skuli greiða gerðarbeiðanda málskostnað og er hann ákveðinn kr. 1.000.000 að meðtöldum útlögðum kostnaði gerðarbeiðanda og virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.                      

            Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

            Umbeðin gerð má fara fram.

            Málskot frestar framkvæmd úrskurðarins.

            Gerðarþoli, Sveitarfélagið Ölfus, greiði gerðarbeiðanda, Íslenska Gámafélaginu ehf., kr. 1.000.000 í málskostnað.