Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-105
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Gjaldþrotaskipti
- Skiptastjóri
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 18. mars 2019 leitar þrotabú Saga Capital hf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 5. sama mánaðar í málinu nr. 66/2019: Þrotabú Saga Capital hf. gegn Hildu ehf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hilda ehf. leggst gegn beiðninni.
Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um ógildingu ákvörðunar kröfuhafafundar við slitameðferð Saga Capital hf. um að greiða slitastjórn 40.000.000 krónur í þóknun. Sú niðurstaða var byggð á því að fyrir þennan fund hafi slitastjórnin haft þann hátt á að tiltaka í lok hvers kröfuhafafundar að boðað yrði til þess næsta með tölvubréfum og hafi því ekki, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 79. gr. laga nr. 21/1991, verið nægilegt að boða til þessa fundar eingöngu með auglýsingu í Lögbirtingablaði.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur og myndi dómur Hæstaréttar í málinu hafa fordæmisgildi um skýringu reglna 3. mgr. 79. gr. laga nr. 21/1991 um boðun skiptafunda. Leyfisbeiðandi vísar einnig til þess að gagnaðili hafi ekki átt kröfu á hendur sér þegar ákvörðunin sem hann vill fá hnekkt var tekin og telur að niðurstaða héraðsdóms, sem Landsréttur lét standa óraskaða, um áhrif kröfuframsals valdi verulegri réttaróvissu. Hafi málið þannig víðtæk áhrif varðandi framkvæmd gjaldþrotaskipta og sé því mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um kæruefnið.
Líta verður svo á að úrlausn um hvort réttilega hafi verið staðið að boðun áðurnefnds kröfuhafafundar samkvæmt 3. mgr. 79. gr. laga nr. 21/1991 myndi hafa fordæmisgildi. Á þeim grunni er umsókn leyfisbeiðanda um kæruleyfi tekin til greina.