Hæstiréttur íslands
Mál nr. 97/2001
Lykilorð
- Eftirlaun
- Vanreifun
- Kröfugerð
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2001. |
|
Nr. 97/2001. |
Sigurður Njálsson(Einar S. Hálfdánarson hrl.) gegn SR-mjöli hf. (Helgi Jóhannesson hrl.) og gagnsök |
Eftirlaun. Vanreifun. Kröfugerð. Frávísun máls frá héraðsdómi.
S starfaði sem skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins (SR) frá 1. ágúst 1945 til ársloka 1958. S hélt því fram að hluti starfskjara sinna hefði falist í því að vinnuveitandi hans legði til hliðar fjármuni í eftirlaunasjóð til að standa undir greiðslu á eftirlaunum til fastra starfsmanna. Eftir að S lét af störfum var stofnaður Lífeyrissjóður starfsmanna SR, en S var ekki meðal sjóðfélaga þar. Sá sjóður var sameinaður Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins á árinu 1971. Í málinu krafðist S aðallega viðurkenningar á því að SR-mjöli hf. bæri að greiða honum eftirlaun er næmu 26,83% af „viðmiðunarlaunum skrifstofustjóra Síldarverksmiðja ríkisins“ samkvæmt þeim reglum sem giltu og gilt hefðu um lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem hófu töku lífeyris í aprílmánuði 1987. Til vara krafðist hann viðurkenningar á því að SR-mjöli hf. bæri að greiða sér eftirlaun úr Eftirlaunasjóði starfsmanna SR. Kröfur sínar studdi hann einkum við tvær stjórnarsamþykktir Síldarverksmiðja ríkisins frá árunum 1940 og 1942. Í hinni fyrri var samþykkt að stofna Eftirlaunasjóð starfsmanna SR og leggja til hans tiltekið fé. Í hinni síðari samþykkti stjórnin fyrir sitt leyti reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð SR og tók fram að leita skyldi heimildar Alþingis til að stofna sjóðinn. Í dómi Hæstaréttar segir að umrædd reglugerð hafi ekki verið lögð fram í málinu. Sé þannig óvíst um hvort og þá hvaða réttur til ellilífeyris starfsmönnum Síldarverksmiðja ríkisins kunni að hafa verið ákveðinn í hinni svonefndu reglugerð. Ekkert liggi fyrir í málinu um framlög Síldarverksmiðja ríkisins til eftirlaunasjóðsins fram til þess að lífeyrissjóður starfsmanna hafi verið stofnaður, að öðru leyti en því að staða hans í árslok 1940 og 1958 sé þekkt. Taldi Hæstiréttur málið svo vanreifað að ekki yrði komist hjá því að vísa því frá héraðsdómi. Reyndi þá ekki sérstaklega á hvort kröfugerð S væri svo skýr um þann rétt, sem hann krefðist að yrði viðurkenndur, að unnt væri að fella efnisdóm á málið samkvæmt henni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. mars 2001. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði að gagnáfrýjanda beri að greiða sér eftirlaun er nemi 26,83% af „viðmiðunarlaunum skrifstofustjóra Síldarverksmiðja ríkisins samkvæmt þeim reglum sem gilda og gilt hafa um lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem hófu töku lífeyris í aprílmánuði 1987.“ Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði að gagnáfrýjanda beri að greiða sér eftirlaun úr Eftirlaunasjóði starfsmanna SR. Í báðum tilvikum krefst hann þess að upphafstími lífeyrisgreiðslna verði 1. október 1989, en verði ekki á það fallist 1. október 1995. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 22. maí 2001. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem rakið er í héraðsdómi starfaði aðaláfrýjandi sem skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði frá 1. ágúst 1945 til ársloka 1958. Ekki er fram komið hvort skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður er hann réðist þar til starfa, en í héraðsdómsstefnu er haldið fram að hluti starfskjara aðaláfrýjanda hafi falist í því að vinnuveitandi hans legði til hliðar fjármuni í eftirlaunasjóð til að standa undir greiðslu eftirlauna til fastra starfsmanna sinna. Eftir að aðaláfrýjandi lét af störfum hjá Síldarverksmiðjum ríkisins var stofnaður Lífeyrissjóður starfsmanna SR, en aðaláfrýjandi var ekki meðal sjóðfélaga þar. Var sjóðurinn sameinaður Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins 1971.
Aðaláfrýjandi styður kröfur sínar einkum við stjórnarsamþykktir Síldarverksmiðja ríkisins frá 22. maí 1940 og 28. júlí 1942. Í hinni fyrri var samþykkt að stofna Eftirlaunasjóð starfsmanna SR og leggja til hans 50.000 krónur af óráðstöfuðum tekjuafgangi fyrra árs. Í hinni síðari samþykkti stjórnin „fyrir sitt leyti“ reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð SR. Var jafnframt tekið fram að leitað skyldi heimildar Alþingis til að stofna sjóðinn, en ekkert er fram komið um að það hafi verið gert.
Gagnáfrýjandi mótmælir því að hluti starfskjara aðaláfrýjanda hjá Síldarverksmiðjum ríkisins hafi falist í því að hann skyldi njóta ellilífeyris úr eftirlaunasjóðnum. Heldur hann jafnframt fram að af formlegri stofnun sjóðsins hafi aldrei orðið þrátt fyrir þann undirbúning, sem falist hafi í áðurnefndum stjórnarsamþykktum. Eigi það eins við þótt hann fallist á að atbeini Alþingis hafi ekki þurft til að koma svo af því gæti orðið. Starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins hafi því ekki öðlast neitt tilkall til greiðslu úr sjóðnum fyrir það eitt að fyrirtækið sjálft lagði nokkurt fé til hliðar í þessu skyni, en starfsmennirnir hafi ekki lagt neitt fé til sjóðsins. Greiðsla þeirra á iðgjöldum hafi ekki komið til fyrr en með stofnun lífeyrissjóðs eftir að aðaláfrýjandi lét af störfum. Hann hafi ekki getað bent á neinn starfsmann Síldarverksmiðja ríkisins, sem hætti störfum fyrir 1959 en hafi samt notið ellilífeyris úr eftirlaunasjóðnum. Þau örfáu tilvik um greiðslu maka- og örorkubóta fyrir 1959, sem aðaláfrýjandi bendi á, hafi hvert og eitt verið ákveðið með sérstakri stjórnarsamþykkt og þær bætur greiddar úr sjóðum fyrirtækisins sjálfs.
II.
Meðal málsgagna er bréf sjávarútvegsráðuneytis 22. desember 1997 til lögmanns aðaláfrýjanda, þar sem veitt voru svör við tilteknum spurningum varðandi Eftirlaunasjóð SR. Kemur fram í svari ráðuneytisins að af hálfu Þjóðskjalasafns Íslands hafi verið farið yfir fundabækur Síldarverksmiðja ríkisins frá 1940 til 1950 og við þá athugun meðal annars fundist bókanir á stjórnarfundum 22. maí 1940 og 28. júlí 1942, sem áður eru nefndar.
Í síðarnefndu bókuninni er getið um reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð SR. Sú reglugerð hefur þó ekki verið lögð fram í málinu og liggur ekki fyrir að sérstaklega hafi verið leitað eftir því við ráðuneytið eða gagnáfrýjanda að hlutast til um að afla hennar eftir að bókunin var komin fram. Er þannig óvíst um hvort og þá hvaða réttur til ellilífeyris starfsmönnum Síldarverksmiðja ríkisins kann að hafa verið ákveðinn í þessari svonefndu reglugerð. Ekkert liggur heldur fyrir um framlög Síldarverksmiðja ríkisins til eftirlaunasjóðsins fram til þess að lífeyrissjóður starfsmannanna var stofnaður, að öðru leyti en því að staða hans í árslok 1940 og 1958 er þekkt. Málið er því svo vanreifað að ekki verður komist hjá að vísa því frá héraðsdómi. Reynir þá ekki sérstaklega á hvort kröfugerð aðaláfrýjanda sé svo skýr um þann rétt, sem hann krefst að verði viðurkenndur, að unnt sé að fella efnisdóm á málið samkvæmt henni.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 1. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurði Njálssyni, kt. 270322-3369, Efstaleiti 14, Reykjavík, með stefnu birtri 20. september 1999 á hendur SR Mjöli hf., kt. 560793-2279, Vetrarbraut 12, Siglufirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda beri að greiða stefnanda eftirlaun, er samsvari 26,83% af viðmiðunarlaunum skrifstofustjóra Síldarverksmiðja ríkisins samkvæmt þeim reglum, sem gilda og gilt hafa um lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem hófu töku lífeyris í aprílmánuði 1987. Til vara er þess krafizt, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda beri að greiða stefnanda eftirlaun úr Eftirlaunasjóði starfsmanna SR. Aðallega er þess krafizt, að dæmt verði, að upphafstími lífeyrisgreiðslna verði 1. október 1989, en til vara, að hann verði 1. október 1995.
Krafizt er málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
II.
Málavextir:
Ágreiningur í máli þessu snýst um meinta skyldu stefnda til að greiða stefnanda eftirlaun samkvæmt þeim reglum, sem gilda um lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Aðild stefnda að þessu máli er studd við 1. mgr. 4. gr. stofnsamnings SR. Mjöls hf., þar sem fram kemur, að SR. Mjöl hf. taki við öllum rekstri, eignum og skuldum Síldarverksmiðja ríkisins, eins og það verður 1. ágúst 1993. Frá sama tíma taki félagið við hvers konar skuldbindingum, réttindum og skyldum Síldarverksmiðja ríkisins. Er málið höfðað á hendur stefnda vegna meints réttar stefnanda til eftirlauna frá Síldarverksmiðjum ríkisins, sem störfuðu samkvæmt lögum nr. 1/1938 um Síldarverksmiðjur ríkisins og voru lagðar niður með lögum nr. 20/1993 um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins.
Stefnandi var skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði tímabilið 1. ágúst 1945 - 31. desember 1958. Kveður hann það hafa verið hluta starfskjara sinna, þegar hann hóf störf, að þáverandi vinnuveitandi hans, Síldarverksmiðjur ríkisins, lögðu til hliðar fjármuni í eftirlaunasjóð til að standa undir eftirlaunum til fastra starfsmanna verksmiðjanna, og lýsir hann tildrögum þessa svo, með vísan í bréf sjávarútvegsráðuneytis, dags. 22. desember 1997, ásamt ljósriti af fundargerðum stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, að á 342. stjórnarfundi verksmiðjanna þann 1. marz 1940, sem haldinn var á Hótel Borg, hafi komið fram tillaga um, að stofnaður yrði eftirlaunasjóður fyrir starfsmenn SR. Stjórn SR hafi tekið vel í málið og falið framkvæmdastjóra að athuga þetta nánar. Í framhaldi af þessu, á 401. fundi stjórnarinnar, sem haldinn var hinn 22. maí 1940 á Hótel Borg, hafi verið tekin ákvörðun um stofnun eftirlaunasjóðsins.
Í samræmi við framangreinda samþykkt hafi síðan jafnaðarlega verið lagt fé í sjóðinn. Skömmu eftir að stefnandi kom til starfa hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, þ.e. þann 31. desember 1945, hafi verið í sjóðnum kr. 65.004,78, en kr. 141.542,92, þegar hann lét af störfum hinn 31. desember 1958, sbr. ársreikninga Síldarverksmiðja ríkisins fyrir árin 1945 og 1958.
Á 1305. stjórnarfundi Síldarverksmiðja ríkisins, sem haldinn var þann 25. nóvember 1959, kom fram sú ætlun stjórnar SR, að verksmiðjurnar stofnuðu eigin lífeyrissjóð fyrir starfsmenn sína með hliðstæðum reglum og skuldbindingum og giltu fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Stofnun sjóðsins miðaðist við ársbyrjun 1959, og skyldu greiðslur af hálfu SR og starfsmanna í sjóðinn hefjast þá. Hins vegar skyldi SR taka að sér að standa undir skuldbindingum til fastra starfsmanna miðað við, að sjóðurinn hefði verið stofnaður í ársbyrjun 1940, að svo miklu leyti sem fastir starfsmenn misstu einhvers í við það, hvað greiðslum úr sjóðnum viðvék, að hann væri ekki stofnaður fyrr en l. janúar 1959. Viðskiptaframkvæmdastjóra var falið að ganga frá uppkasti að reglugerð fyrir lífeyrissjóð SR í samráði við sérfróðan mann og bera síðan uppkastið undir verksmiðjustjórn. Í framhaldi af því voru keypt réttindi í Lífeyrissjóði starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins vegna fjórtán starfsmanna, sem taldir eru upp í bréfi Sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 8. september 1995.
Á árinu 1971 fór fram réttindaflutningur milli Lífeyrissjóðs starfsmanna SR og lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem tók að sér skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna SR. Stefnandi kveður hafa komið fram eignir að andvirði kr. 2.558.965,20, þegar lífeyrissjóðurinn hafði skilað af sér skuldbindingum sínum með ákveðnum greiðslum til lífeyrissjóðs ríkisins. Kveður stefnandi þær eignir bundnar þannig:
Í skuldabréfum kr. 461.916,16
Ógreidd skuld SR til sjóðsins kr.2.097.048,60
Samtals kr. 2.558.965,20
Stefnandi kveðst hafa starfað allan sinn starfstíma hjá verksmiðjunum í trausti þess, að með þessu væri hann að eignast eftirlaunarétt. Á árinu 1992, þegar stefnandi varð 70 ára, hafi hann gert reka að því fá greiðslur, en hann hafi talið, að réttur sinn til eftirlauna miðaðist við þann aldur. Öll svör og umfjöllun þeirra, sem stefnandi leitaði til varðandi rétt sinn, hafi byggzt á því, að ekki hafi verið stofnað til lífeyrissjóðs (eftirlaunasjóðs) fyrr en á árinu 1959, þegar stefnandi hafði hætt störfum.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi kveður fé það, sem til var í eftirlaunasjóði Síldarverksmiðja ríkisins, aldrei hafa getað orðið til frjálsrar ráðstöfunar til handa Síldarverksmiðjum ríkisins, enda hafi verksmiðjurnar fært það til skuldar, eins og aðrir væru eigendur fjárins, sbr. dskj. nr. 4 og 5.
Verksmiðjurnar hafi virt þessa skuldbindingu sína í verki alla tíð. Ekkja Magnúsar Blöndal, starfsmanns Síldarverksmiðja ríkisins, hafi fengið greidd eftirlaun frá 1945 til giftingar. Ekkja Benónýs Benediktssonar, starfsmanns Síldarverksmiðja ríkisins, hafi fengið greidd eftirlaun, meðan hún lifði á 5. og 6. áratugnum. Guðjón Jónsson yfirverkstjóri hafi fengið greidd 60% af launum, eftir að hann lét af störfum á 6. áratugnum. Hins vegar verði ekki betur séð, en að stefnandi sé eini fasti starfsmaður félagsins, sem ekki hafi fengið eftirlaunarétt fyrir áðurgreint tímabil.
Í samræmi við framangreinda málavexti sé gerð krafa um, að SR mjöl hf. viðurkenni, að félaginu beri að greiða stefnanda eftirlaun. Krafan sé á því byggð í fyrsta lagi, að áunninn eftirlaunaréttur verði ekki af stefnanda tekinn fremur en önnur starfskjör hans. Þá sé á því byggt, að það hafi verið brot á jafnræðisreglu, að Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu réttindi handa öllum öðrum starfsmönnum en stefnanda og miðuðu í því sambandi við daginn eftir að hann hætti. Það sé ekki á færi stefnanda að móta peningakröfu á hendur stefnda vegna þess að til þess hafi hann ekki nauðsynlegar upplýsingar, sbr. bréf lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á dskj. nr. 13. Því séu ekki efni til, á þessu stigi málsins, að fjalla um fjárhæð kröfunnar, enda beri ekki nauðsyn til þess. Viðmiðun stefnanda við laun skrifstofustjóra Síldarverksmiðja ríkisins byggi á þeirri stöðu, sem hann hafi gegnt, og hundraðshluti af viðmiðunarlaunum byggi á því, sem upplýst sé um það efni í bréfi lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á dskj. nr. 13.
Hvað hugsanlega fyrningu réttindanna varði, vísist til 2. greinar laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, eða 20 ár. Sá tími teljist frá þeim tímapunkti, sem réttindin verði virk. Einstakar greiðslur fyrnist á fjórum árum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905. Í þessu máli sé á því byggt, að skuldarinn, Síldarverksmiðjur ríkisins, hafi vanrækt að skýra frá atvikum, sem krafan byggist á, þ.e. hinni formlegu stofnun eftirlaunasjóðsins árið 1940. Einstakar greiðslur fyrnist því á 4 árum frá árinu 1998.
Stefnandi vísar til laga nr. 20/1993 um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins og laga nr. 29/1963 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nú laga nr. 1/1997. Þá sé byggt á ólögfestri jafnræðisreglu, nú 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt sé byggt á reglum vinnuréttarins um starfskjör launþega.
Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda:
Stefndi vísar til þess, að með lögum nr. 20 frá 5. apríl 1993 hafi verið ákveðið að stofna hlutafélag um Síldarverksmiðjur ríkisins (SR). Samkvæmt l. gr. þeirra laga hafi ríkisstjórninni verið heimilt að leggja hlutafélaginu til eignir SR sem stofnfé, og samkvæmt 9. gr. hafi ráðherra verið heimilt, fyrir hönd ríkissjóðs, að yfirtaka skuldir SR fyrir allt að kr. 500.000.000.
Vegna bágrar fjárhagslegrar stöðu SR á þeim tíma, sem unnið var að því að breyta rekstrarformi verksmiðjanna í hlutafélagsform, hafi skuldir og skuldbindingar verið lækkaðar umtalsvert, þannig að unnt væri að lögum að framkvæma breytingarnar. Stofnsamningur félagsins sé dagsettur 6. júlí 1993, sbr. dskj. nr. 12. Í l. mgr. 4. gr. segi, að félagið taki við öllum rekstri, eignum og skuldum SR, eins og þær verði 1. ágúst 1993. Frá sama tíma taki félagið við hvers konar skuldbindingum, réttindum og skyldum SR. Ekki verði af stofnefnahagsreikningi félagsins, SR Möls hf., séð, að félagið hafi yfirtekið nokkrar skuldbindingar gagnvart stefnanda, hvorki lífeyrisskuldbindingar né aðrar greiðsluskuldbindingar.
Kjarni þessa máls sé að öðru leyti sá, að þrátt fyrir að stjórn SR hafi, snemma á 5. áratugnum, ákveðið að leggja til hliðar fé til stofnunar eftirlaunasjóðs starfsmanna SR, hafi ekki orðið af formlegri stofnun slíks sjóðs fyrr en með stofnun Lífeyrissjóðs starfsmanna SR, sem stofnaður hafi verið frá og með 1. janúar 1959. Fram til þess tíma hafi ekki stofnazt til neins réttar til handa einstökum starfsmönnum. Þar sem stefnandi hafi látið af störfum fyrir fyrrgreint tímamark, hafi hann engin réttindi öðlazt til eftirlauna.
Ekki sé ágreiningur í málinu um, að stefnandi hafi gegnt starfi skrifstofustjóra SR á Siglufirði umrætt tímabil, þ.e. frá 1. ágúst 1945 til 31. desember 1958. Í stefnu segi hins vegar, að það hafi verið hluti starfskjara stefnanda, að vinnuveitandi hans hafi lagt til hliðar fjármuni í eftirlaunasjóð til að standa undir eftirlaunum til fastra starfsmanna verksmiðjanna. Sé sú fullyrðing m.a. rökstudd með vísan til fundargerða SR, sem lagðar hafi verið fram sem dómsskjöl í málinu. Stefndi geti ekki fallizt á þær ályktanir, sem stefnandi dragi af umræddum fundargerðum og öðrum fyrirliggjandi gögnum. Verði nú vikið nánar að einstökum málsástæðum stefnanda og um leið gerð grein fyrir málsástæðum stefnda.
l. Stefnandi byggir á stofnun og tilvist eftirlaunasjóðs frá 1942:
Afrit fundargerða frá árunum 1940 og 1942 sé að finna á dskj. nr. 3. Í stefnu sé bókun frá fundi stjórnar SR 22. maí 1940 rakin, en þar komi fram, að samþykkt hafi verið að stofna eftirlaunasjóð starfsmanna SR og stofntillag í sjóðinn ákveðið. Um aðdraganda þessa máls sé m.a. vísað til dskj. nr. 8, þar sem fram komi, að afkoma SR á þessum árum hafi verði með ágætum. Hafi því verið ákveðið að leggja fé til hliðar til stofnunar eftirlaunasjóðs.
Í fundarbókun frá 28. júlí 1942 komi fram, að drög að reglugerð fyrir sjóðinn hafi verið borin undir stjórn og hafi verið bókað, að leita skuli heimildar Alþingis til stofnunar sjóðsins. Engar frekari upplýsingar sé um það að finna, hver framvinda málsins hafi orðið, fyrr en umræður um stofnun Lífeyrissjóðs starfsmanna SR fóru af stað seint á 6. áratugnum.
7. gr. laga nr. 1/1938 hafi hljóðað svo: “Ríkissjóður ber eigi ábyrgð á þeim skuldum, sem Síldarverksmiðjur ríkisins stofna til eftir 31. des. 1937, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi.”
Í dskj. nr. 19, fundargerð SR frá 29. maí 1959, segi svo undir fyrirsögninni Lífeyrissjóður starfsmanna:
“Framkvæmdastjóri skýrði frá því að hann hafi snúið sér til Guðm. K. Guðmundssonar, tryggingafræðings og óskað upplýsinga um hvað kosta myndi að kaupa réttindi í lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna fyrir þá 12-15 starfsmenn S.R. sem um ræðir, miðað við að byrjað hafi verið að greiða í sjóðinn þeirra vegna af S.R. og þeim sjálfum, þegar þeir komu í þjónustu verksmiðjanna, þó ekki fyrr en frá og með l. janúar 1945. Skýrslan nái til þess hve mikla greiðslu S.R. hefði átt að inna af hendi fyrir hvern einstakan starfsmann svo hann fengi full réttindi í sjóðinn og hve mikið hver starfsmaður hefði þurft að greiða sjálfur. Reiknað verði út hversu há (sic) upphæð þessir aðilar þyrftu alls að inna af hendi, miðað við að þeir fengju full réttindi í sjóðinn frá 1. júlí 1959, þar sem tekið væri tillit til starfstíma þeirra á framangreindan hátt. Tryggingafræðingurinn færðist undan því að svara þessu sjálfur, en vísaði til stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, og framkv. stjóra hafa (sic) samband við hana næstu daga.”
Vísað sé til dskj. nr. 6 um áframhald málsins. Þar komi sú breyting fram í fundargerð frá 25. nóvember 1959, að nú skyldi miðað við 1. janúar 1959 (en ekki 1. júlí) um það, hvenær greiðslur skyldu hefjast af hálfu SR og starfsmanna í sjóðinn. Í fundarbók segi m.a.:
“Hinsvegar tækju S.R. á eigin herðar að standa undir skuldbindingum til fastra starfsmanna miðað við það, að sjóðurinn hefði verið stofnaður í ársbyrjun 1940, að svo miklu leyti sem fastir starfsmenn misstu einhvers í við það, hvað greiðslum úr sjóðnum viðvíkur, að hann var ekki stofnaður fyrr en l. janúar 1959.”
Málið hafi verið rætt áfram á fundi stjórnar miðvikudaginn 2. desember 1959, sbr. dskj. nr. 20. Þar segi m.a.:
“Samkv. beiðni stjórnar S.R. var mættur á fundinn Guðjón Hansen, tryggingafræðingur. Ræddi stjórnin ítarlega við hann um bréf hans frá 15. nóv. s.l. og um uppkast af reglugerð lífeyrissjóðs, sem hann hafði gert fyrir S.R. Eftir þær umræður sem fram fóru var Guðjón beðinn að yfirfara reglugerðaruppkastið að nýju og skila því aftur til stjórnarinnar.”
Næst hafi málið verið á dagskrá fimmtudaginn 19. maí 1960, sbr. dskj. nr. 21. Í fundarbókun segi svo:
“Fyrir fundinum lá skýrsla frá Guðjóni Hansen, tryggingafræðingi, dags. 14. febr. 1960, þar sem hann hefur reiknað út, hve háa fjárhæð myndi hafa þurft að greiða fyrir viðbótarréttindin fyrir hvern einstakan starfsmann S.R. svo hann fengi full réttindi í sjóðnum, miðað við að byrjað hefði verið að greiða í sjóðinn, þeirra vegna af S.R., þegar þeir komu í þjónustu verkmiðjanna þó ekki fyrr en frá og með 1. janúar 1940. Upphæðirnar eru þessar miðað við réttindakaup pr. l. jan. 1959:...
Málið mikið rætt. Engin ákvörðun tekin.”
Enn hafi verið fundað um málið 19. október 1960 og aftur 24. janúar 1961, sbr. dskj. nr. 23 og 24, án þess að niðurstaða fengist í málið. Það hafi ekki verið fyrr en á fundi stjórnar 22. apríl 1961, að endanleg ákvörðun var tekin í málinu og framkvæmdastjóra, Sigurði Jónssyni, heimilað að semja við stjórn lífeyrissjóðsins um kaup á réttindum fyrir 16 starfsmenn aftur í tímann, sbr. dskj. nr. 25.
Með vísan til alls ofanritaðs megi vera ljóst, að fullyrðing stefnanda um, að eftirlaunasjóður SR hafi verið til og skapað starfsmönnum verksmiðjanna rétt, áður en Lífeyrisjóður starfsmanna SR var stofnaður, standist ekki. Ofangreindar fundargerðir beri það augljóslega með sér, að enginn eftirlaunasjóður hafi verið starfræktur, fyrr en Lífeyrissjóður starfsmanna SR var stofnaður. Hitt sé annað mál, að vilji stjórnarinnar í þessu efni hafi lengi legið fyrir, eða allt frá 1940, og hafi það án vafa verið ástæða þess, að stjórnin tók ákvörðun um að kaupa föstum starfsmönnum réttindi aftur í tímann. Til þess hafi stofntillagið verið notað, sbr. það, sem fram komi í bréfi framkvæmdastjóra SR til stefnanda á dskj. nr. 8. Ekki verði með nokkru móti á það fallizt, að stefnandi þessa máls geti reist kröfur sínar á fyrirætlunum stjórnarinnar, sem ekki hafi enn verið komnar til framkvæmda, er hann lét af störfum.
2. Málsástæða stefnanda um, að stofntillagið hafi verið fært til skuldar og hækkað á starfstíma stefnanda í efnahagsreikningi SR.
Af dskj. nr. 4 og 5 megi sjá, að stofntillag stjórnarinnar hafi verið fært til skuldar í efnahagsreikningi verksmiðjanna. Hafi enda ekki verið við öðru að búast, þegar fyrir hafi legið stjórnarsamþykkt um að verja hluta hagnaðar af rekstrinum til þessa málefnis. Stefndi mótmæli því hins vegar, að fyrir hendi hafi verið eftirlaunasjóður í þeim skilningi, sem stefnandi byggi á.
Stefnandi líti svo á, að sjóðurinn hafi ekki verið til frjálsrar ráðstöfunar fyrir SR. Megi af því draga þá ályktun, að stofnazt hafi til eftirlaunaréttar fyrir alla fasta starfsmenn. Með engu móti sé hægt að fallast á þessa röksemdafærslu. Eins og áður segi, hafi í alla staði verið eðlilegt, að umræddu stofntillagi skyldi hafa verið haldið sérgreindu í bókum SR frá þeim tíma, sem stjórn verksmiðjanna hafði tekið ákvörðun um, að sjóðurinn skyldi stofnaður.
Í stefnu sé því haldið fram, að SR hafi "jafnaðarlega lagt í sjóðinn" (bls. 2). Það verði m.a. séð af því, að á því árabili, sem stefnandi starfaði þar, hafi liðurinn "Eftirlaunasjóður" í bókum félagsins hækkað úr kr. 67.004 árið 1945, í kr. 141.543 árið 1958, sbr. dskj. nr. 4 og 5.
Þessu mótmæli stefndi. Í fyrsta lagi hafi stefnandi engin gögn lagt fram, sem sýni, hver hin "jafnaðarlega" greiðsla hafi verið, eða yfir höfuð að greiðsla í eftirlaunasjóð hafi verið meðal launatengdra gjalda félagsins á umræddu tímabili. Einnig megi vekja athygli á því, að stefnandi haldi því ekki fram, að hann hafi sjálfur greitt í sjóðinn á þessum tíma. Ekkert í fyrirliggjandi gögnum staðfesti því staðhæfingu stefnanda um framangreint.
Vísbendingu í þessu efni sé hins vegar að finna í fundargerðum stjórnar, og sé í því sambandi t.d. vísað til fundargerðar frá 19. maí 1960, dskj. nr. 21, þar sem segi:
“... hve háa fjárhæð myndi hafa þurft að greiða fyrir viðbótarréttindin fyrir hvern einstakan starfsmann S.R. svo hann fengi full réttindi í sjóðnum, miðað við að byrjað hefði verið að greiða í sjóðinn, þeirra vegna af S.R., þegar þeir komu í þjónustu verkmiðjanna...”
Ofangreint sýni, að fullyrðing stefnanda um, að "jafnaðarlega" hafi verið lagt í sjóðinn, fái ekki staðizt nánari skoðun. Að öðru leyti sé vísað til þess, að umrædd hækkun virðist hafa verið í eðlilegu samhengi við vaxtastig þess tíma, sem hér ræði um. Geti hún því þegar af þeirri ástæðu ekki talizt fullnægjandi sönnun um þá inngreiðslu í sjóðinn, sem stefnandi byggi á.
3. Eftirlaunagreiðslur til starfsmanna fyrir stofnun Lífeyrissjóðs starfsmanna SR.:
Í stefnu sé vísað til þess, að SR hafi virt meinta skuldbindingu sína í verki alla tíð frá stofnun eftirlaunasjóðsins (1942), og séu rakin nokkur dæmi um, að greidd hafi verið eftirlaun. Ástæða sé til að staldra við þau dæmi, sem stefnandi nefni.
Þess beri fyrst að geta, að SR hafi áður skýrt fyrir stefnanda, á hvaða forsendum umræddar greiðslur fóru fram, sbr. dskj. nr. 8. Líkt og þar komi fram, hafi ávallt, í þeim tilvikum, sem greidd voru eftirlaun vegna starfsmanna, sem störfuðu á sama tíma og stefndi hjá verksmiðjunum, verið gerð um það sérstök stjórnarsamþykkt, sem heimilaði slíka greiðslu. Umræddar eftirlaunagreiðslur hafi því í engum tilvikum átt sér stað úr eftirlaunasjóðnum, eins og stefnandi haldi fram, eða á grundvelli hans, heldur á grundvelli sérstakrar stjórnarsamþykktar. Skuli nú gerð grein fyrir einstökum tilfellum:
Varðandi eftirlaunagreiðslu til Elsu Blöndal, ekkju Magnúsar Blöndal, segi svo í dskj. nr. 16, sem sé fundargerð stjórnar SR frá 26. október 1945:
"Stjórn SR samþ. að greiða frú Elsu Blöndal ekkju M. Blöndals framkvæmdastjóra, fyrst um sinn kr. 300,00 á mánuði frá næstu áramótum (í grunnl) í lífeyrir (sic). Tillagan samþ. með öllum atkv. "
Að því er varði greiðslu til ekkju Benónýs Benediktssonar, Sólveigar Þorkelsdóttur, sem minnzt sé á í stefnu, segi svo í fundargerð frá 19. febrúar 1951, sbr. dskj. nr. 17:
“Framkvæmdastjóri skýrði frá því að hann hefði lofað Sólveigu Þorkelsdóttur að henni yrðu greidd, full laun mans (sic) hennar í þrjá mánuði, eða til marsloka nk. að öðru leyti tæki stjórn SR málið til ákvörðunar.
Nokkrar umr. fóru fram um málið og kom fram svohljóðandi till.: "Stjórnin samþ. að greiða Sólveigu Þorkelsdóttur eftirlaun í samræmi við eftirlaun til ekkju embættismanna ríkisins og felur stjórnin framkvæmdastjóra að ákveða launin með hliðsjón af þessu.
Tillagan samþ. með öllum atkv. "
Á fundi sínum þann 25. júní 1954 hafi stjórnin haft til umfjöllunar eftirlaun til Jóhönnu Björgvinsdóttur, ekkju Þórhalls Ágústssonar, Raufarhöfn, sbr. dskj. nr. 18. Segi svo í fundargerð:
“Þórhallur heitinn fórst af slysförum s.l. haust og hafa ekkjunni verið greidd full laun í 6 mánuði frá andláti hans. Samþ. var að greiða ekkjunni kr. l.000,00 á mánuði frá þeim tíma að greiðsla fullra launa féll niður.
Greiðsla þessi er án dýrtíðaruppbóta og helst þar til öðruvísi kann að verða ákveðið. Þá var og samþ. að heimila verksmiðjustjóra á Raufarhöfn að aðstoða ekkjuna við stækkun á íbúðarhúsi ef stöðvun er á rekstri verksmiðjunnar vegna síldarskorts og önnur aðkallandi verkefni fyrir fastráðna verkamenn eru ekki fyrir hendi og er þá gert ráð fyrir að S.R. láti vinnuna í té, en konan leggi til efni. Áður sé gengið úr skugga um að húsið sé hennar eign, þannig að aðstoð þessi ef til kæmi gangi til ekkjunnar.
Samþ. með samljóða atkv.”
Um eftirlaun til Guðjóns Jónssonar, sem getið sé í stefnu, komi eftirfarandi fram í fundargerð frá 20. maí 1960, sbr. dskj. nr. 22:
“Eftirlaun til Guðjóns Jónssonar.
Samþykkt var að heimila G.J. að láta af starfi með fullum eftirlaunum, þ.e. 60% af starfslaunum, sbr. 10. gr. reglugerðar lífeyrissjóðs S.R., þegar hann kann að óska þess. Falli Guðjón frá nýtur ekkja hans fullra réttinda samkv. sömu reglugerð. En greiðslan fer fram beint frá S.R., en ekki úr lífeyrissjóðnum. Þessi sérstaka samþ. er gerð um Guðjón vegna þess að hann slasaðist í starfi hjá S.R.
Samþ. með öllum atkvæðum.”
Eins og ofangreindar tilvitnanir beri með sér, hafi í engu þeirra tilvika, sem stefnandi nefni máli sínu til stuðnings, verið greitt úr eftirlaunasjóði starfsmanna SR. Í tilfelli Guðjóns Jónssonar hafi verið greitt á grundvelli reglugerðar Lífeyrissjóðs starfsmanna SR, þó með þeirri undantekningu, að Guðjón virðist hafa notið ríkari réttinda en reglur sjóðsins gerðu ráð fyrir.
Með vísan til framanritaðs sé því mótmælt, að SR hafi sýnt skuldbindingu sína vegna eftirlaunasjóðsins í verki, enda í engu ofangreindra tilvika minnzt á hinn meinta eftirlaunasjóð einu orði. Dæmin sýni, að það hafi verið í höndum stjórnar hverju sinni að taka ákvörðun um það, hvort, og þá með hverjum hætti, eftirlifandi maki fengi lífeyri.
4. Meint brot á jafnræðisreglu:
Stefnandi byggi á því, að kaup SR á réttindum fyrir alla aðra starfsmenn en stefnanda í Lífeyrissjóði starfsmanna SR, hafi falið í sér brot á þá ólögfestri jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Þessari málsástæðu vísi stefndi algerlega á bug. Af aðdraganda stofnunar sjóðsins, eins og hann komi fram í skjölum málsins, sé ljóst, að þau sjónarmið, sem réðu því fyrir hverja starfsmenn keypt voru réttindi, hafi í alla staði verið málefnaleg og laus við mismunun. Það sé grundvallaratriði í þessu samhengi, að stefnandi hafi ekki verið starfsmaður SR við stofnun sjóðsins. Að öðru leyti leyfi stefndi sér í þessu efni að vísa til bréfs embættis ríkislögmanns til sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 5. júní 1996, sbr. dskj. nr. 11. og dskj. nr. 26, sem sé afrit af reglum Lífeyrissjóðs starfsmanna SR.
Loks verði ekki séð, hvernig kröfu vegna meints brots á jafnræðisreglunni verði haldið uppi gegn stefnda, m.a. með vísan til þess, að liðin séu tæp 30 ár frá umræddri ráðstöfun, og krafa hans á grundvelli þess brots því fyrnd. Þá sé það athyglisvert við þessa málsástæðu stefnanda, að hún virðist byggja á því, að hann hafi í raun ekki átt réttindi í eftirlaunasjóði SR, eins og aðrar málsástæður hans gangi út frá. Þannig virðist út frá því gengið, að þar sem ekki hafi verið keyptur lífeyrisréttur fyrir stefnanda hjá Lífeyrissjóði starfsmanna SR, hafi engum lífeyrisrétti verið til að dreifa vegna þess tíma, sem hann starfaði hjá verksmiðjunum. Þetta gangi þvert á fullyrðingar stefnanda um, að það hafi verið hluti starfskjara hans hjá verksmiðjunum, að SR hafi jafnaðarlega lagt fé í eftirlaunasjóð, meðan hann var þar að störfum.
5. Önnur atvik:
Í stefnu sé því lýst, hvernig svör þeirra, sem stefnandi hafi áður leitað til, hafi öll byggzt á því, að eftirlaunasjóður hafi ekki verið stofnaður fyrr en á árinu 1959. Þannig segi t.d. í stefnu: "Af svari ríkislögmanns má ráða að hann hefur ekki haft hugmynd um að eftirlaunasjóður hafi verið stofnaður af Síldarverksmiðjum ríkisins þegar á árinu 1940". Sé því þannig haldið fram, að afstaða ríkislögmanns hafi verið á röngum forsendum, eða jafnvel á misskilningi, byggð. Ekki liggi hins vegar fyrir, hvers vegna stefnandi gerði ekki gangskör að því að leiðrétta þann misskilning, hafi hann verið fyrir hendi, heldur hafi hann kosið að stefna stefnda þessa máls. Þess megi hins vegar geta, að í öllum meginatriðum séu málsástæður stefnda á sömu rökum reistar og þeirra, sem stefnandi hafi áður leitað til.
Að svo miklu leyti sem kröfur stefnanda kunni að hafa verið fyrir hendi, sé þess utan á því byggt, að þær séu nú fyrndar. Í stefnu sé á því byggt, hvað fyrningu varði, að SR hafi vanrækt að skýra frá hinni formlegu stofnun eftirlaunasjóðsins og því fyrnist einstakar greiðslur á 4 árum frá árinu 1998. Ekki verði betur séð en þessi málsástæða stefnanda sé í þversögn við málatilbúnað hans að öðru leyti, einkum þar sem segi á bls. 3 í stefnu:
“Þegar stefnandi hóf starf hjá verksmiðjunum var það hluti starfskjara hans að verksmiðjurnar lögðu fé í eftirlaunasjóð til að standa undir eftirlaunum handa föstum starfsmönnum. Hann starfaði allan sinn starfstíma hjá verksmiðjunni í trausti þess að með þessu væri hann að eignast eftirlaunarétt.”
Með vísan til þessa sé óljóst, hvers vegna stefnandi byggi á því, að SR hafi vanrækt að upplýsa um stofnun og tilurð hins meinta eftirlaunasjóðs frá 1940.
Stefndi vísar, máli sínu til stuðnings, einkum til laga nr. 20/1993 um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins, laga nr. 1/1938 um Síldarverksmiðjur ríkisins og laga nr. 101/1943 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá sé einnig vísað til laga um fyrningu nr. 14/1905. Málskostnaðarkrafa stefnda byggi á 1. mgr. 130. gr. l. nr. 91/191.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Þær upplýsingar, sem er að finna um hinn meinta eftirlaunasjóð, eru einkum úr fundargerðum Síldarverksmiðju ríkisins, sem liggja fyrir á dskj. nr. 3 og 15-26, en efni þeirra hefur að nokkru verið rakið í málatilbúnaði stefnda.
Á fundi þann 1. marz 1940 kemur fyrst fram tillaga um stofnun eftirlaunasjóðs fyrir starfsmenn SR, og er framkvæmdastjóra fyrirtækisins falið að kanna málið nánar og fá til þess aðstoð tryggingafróðra manna og gera tillögur að fyrirkomulagi, sem lagt yrði fyrir stjórnarfund. Hinn 22. maí sama ár er bókuð samþykkt stjórnar um að stofna eftirlaunasjóð og jafnframt lagt fram stofntillag. Þá er lagt fyrir fundinn, að reglugerð fyrir sjóðinn verði samin hið fyrsta. Ekkert er bókað á fundi þessum um tillögur að fyrirkomulagi sjóðsins svo sem lagt var til á fundinum þann 1. marz. Ekki verður talið, að framangreint stofntillag SR eða síðari greiðslur fyrirtækisins til væntanlegs eftirlaunasjóðs skuldbindi fyrirtækið einar og sér gagnvart starfsmönnum þess.
Á fundi hinn 28. júlí 1942 virðist reglugerð fyrir sjóðinn fyrst lögð fram á stjórnarfundi, og var hún samþykkt með smávægilegri breytingu. Þá var jafnframt bókað eftirfarandi: “Leitað sé heimildar Alþingis til að stofna sjóðinn:” Framangreind bókun vísar eindregið til þess, að á þessu stigi var ekki búið að stofna sjóðinn. Hvergi í þeim fundargerðum, sem ritaðar eru eftir þetta, kemur fram, að sjóðurinn hafi verið stofnaður formlega eða minnzt á sjóðstjórn. Samkvæmt fundargerð frá 23. ágúst 1945 samþykkir stjórn Síldarverksmiðja ríkisins að kosta útför látins starfsmanns, og samkvæmt fundargerð frá 26. október s.á. samþykkir stjórnin að greiða ekkju sama starfsmanns fyrst um sinn ákveðna fjárhæð á mánuði í lífeyri. Samkvæmt fundargerð frá 19. febrúar 1951 samþykkir stjórn fyrirtækisins að greiða eftirlaun til ekkju annars starfsmanns og samkvæmt fundargerð frá 25. júní 1954 samþykkir stjórnin að greiða ákveðna fjárhæð á mánuði til ekkju enn annars starfsmanns vegna andláts hans. Hvergi í fundargerðum þessum er minnzt á eftirlaunasjóð eða samþykktir gerðar í nafni slíks sjóðs.
Stefnandi hefur ekki lagt fram starfskjarasamning eða önnur gögn frá SR, sem sýni, að eftirlaunaréttur hafi verið hluti starfskjara hans, þegar hann hóf þar störf, svo sem hann heldur fram í stefnu. Þá verður ekki ráðið af framlögðum fundargerðum SR, að slíkur sjóður hafi verið til á starfstíma stefnanda. Enn fremur liggur ekkert fyrir um það, að stefnandi hafi sjálfur greitt af launum sínum í eftirlaunasjóð eða væntanlegan eftirlaunasjóð.
Stefnandi byggir jafnframt á því, að jafnræðisregla hafi verið á honum brotin, þar sem keypt hafi verið réttindi handa öllum öðrum starfsmönnum en stefnanda og miðað í því sambandi við daginn eftir að hann lét af störfum.
Það liggur fyrir, að umdeild lífeyrisréttindi voru keypt fyrir alla starfsmenn SR, sem enn voru við störf. Hins vegar liggur ekki fyrir, að einhverjir fyrrverandi starfsmanna SR hafi verið þar á meðal. Liggur því ekki annað fyrir en að stefnandi hafi verið jafn settur og aðrir fyrrverandi starfsmenn SR, og er ekki fallizt á, að jafnræðisregla hafi verið á honum brotin. Staða stefnanda sem fyrrverandi starfsmanns verður í þessu efni ekki lögð að jöfnu við stöðu starfandi starfsmanna. Breytir engu í því efni, að stefnandi lét af störfum daginn áður en ákvörðun um réttindakaupin var tekin.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, SR Mjöl hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sigurðar Njálssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.