Hæstiréttur íslands
Mál nr. 349/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Mánudaginn 6. júní 2011. |
|
|
Nr. 349/2011. |
Ákæruvaldið (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms, þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 28. júní 2011 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, f. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans þó eigi lengur en til þriðjudagsins 28. júní nk. kl. 16.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 16. maí sl. hafi ákærði verið handtekinn grunaður um aðild að innflutningi á tæpum 60 kílóum af fíkniefninu Kat (Catha edulis) hingað til lands. Hafi honum í kjölfarið verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til dagsins í dag kl. 16, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-228/2011.
Í dag hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefið út ákæru á hendur honum, ásamt þremur öðrum mönnum, fyrir ofangreindan innflutning, sjá nánar meðfylgjandi ákæruskjal.
Ákærði, sem sé nú sterklega grunaður um alvarlegt brot gegn fíkniefnalöggjöfinni, er írskur ríkisborgari og án allra tengsla við land og þjóð.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og ætla megi, gangi hann frjáls ferða sinna, að hann kunni að koma sér undan málsmeðferð hjá dómstólum.
Til að tryggja nærveru ákærða á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómi og með hliðsjón af alvarleika sakargiftanna, er þess krafist að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og b.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 17. maí sl., sbr. úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur málinu nr. R-228/2011. Hann er erlendur ríkisborgari og hefur hann ekki sérstök tengsl við landið. Verður að telja hættu á því að hann reyni að komast úr landi meðan mál hans er til meðferðar, en ákæra hefur verið gefin út á hendur honum. Með vísan til alls framangreinds sem og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærði, X, f. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans þó eigi lengur en til þriðjudagsins 28. júní nk. kl. 16.