Hæstiréttur íslands

Mál nr. 107/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræðissvipting


                                     

Föstudaginn 21. febrúar 2014.

Nr. 107/2014.

 

A

(Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)

gegn

Mosfellsbæ

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Lögræði. Sjálfræðissvipting.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í eitt ár.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2014, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sér verði einungis gert að sæta sjálfræðissviptingu í sex mánuði. Í báðum tilvikum krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þóknunar úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Í vottorðum tveggja sérfræðinga í geðlækningum, sem nánar eru rakin í hinum kærða úrskurði, er lýst sjúkrasögu sóknaraðila allt frá árinu 2001 og sjúkdómsgreiningu á honum. Þar kemur meðal annars fram að sóknaraðili sé haldinn geðklofasjúkdómi og hafi viðvarandi ranghugmyndir. Einnig að kannabisneysla, sem hafi áhrif á geðrof hans, hafi aukist. Undanfarin tvö til þrjú ár hafi geðheilsu sóknaraðila hrakað mikið sem hafi haft í för með sér tíðari innlagnir, oft í kjölfar mikilla árekstra við foreldra hans og systkini. Hann hafi ítrekað hótað ofbeldi og verið ógnandi á heimili foreldranna. Sóknaraðili hafi takmarkað sjúkdómsinnsæi og fullreynt sé að meðhöndla hann utan stofnana, en ástand hans fari stigversnandi. Telja báðir geðlæknarnir, sem staðfestu vottorð sín fyrir dómi, að nauðsynlegt sé að svipta sóknaraðila sjálfræði í að minnsta kosti eitt ár svo að beita megi úrræðum í því skyni að draga úr geðrofseinkennum hans. Samkvæmt því sem rakið hefur verið eru uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna, til að taka kröfu varnaraðila til greina. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila, og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að héraðsdómari færði ekki rök fyrir  niðurstöðu sinni á þann hátt sem mælt er fyrir um í f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 112. gr. þeirra laga, sbr. og 1. mgr. 10. gr. lögræðislaga. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Sóknaraðili, A, er sviptur sjálfræði í eitt ár frá 22. janúar 2014 að telja.

Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms er staðfest.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Þorbjargar I. Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, til hvors þeirra.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2014.

        Með beiðni sem barst dóminum þann 8. janúar 2014 hefur sóknaraðili, sem er Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl., f.h. Fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, kt. [...], Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...],[...], dvalarstaður [...], verði sviptur sjálfræði tímabundið í tólf mánuði.

Málavextir, málsástæður

        Í málavaxtalýsingu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi veikst af geðrofssjúkdómi um tvítugt og sé hann enn öryrki af þeim sökum. Hann búi í eigin íbúð nálægt foreldrum sínum í [...]. Hann hafi fyrst lagst inn á geðdeild árið 2001 og þá á [...], en fyrsta koma varnaraðila á geðdeild Landspítala skv. sjúkraskrá hafi verið árið 2004, en þá leitaði varnaraðili til geðdeildar með verulegar aðsóknarranghugmyndir. Í seinni tíð hafi verið breytingar á geðslagi varnaraðila og hann sé nú greindur með geðhvarfaklofa sem sé geðrofssjúkdómur. Á síðustu tveimur árum hafi varnaraðili verið lagður inn á geðdeild níu sinnum og hann hafi verið í neyslu kannabisefna sl. þrjú ár.

         Í læknisvottorði Eriks Brynjars Schwitz Erissonar geðlæknis, dags. 7. janúar sl., sem fylgdi beiðninni, kemur fram að varnaraðili hafi lagst inn á móttökugeðdeild sjálfviljugur þann 8. desember sl. Hann hafi fyrir innlögn haft í hótunum um að skaða sig eða aðra fjölskyldumeðlimi og viðrað alvarlegar ofbeldishugmyndir við starfsfólk samfélagsteymis ásamt því að vera með miklar ranghugmyndir. Þá hafi varnaraðili haft í hótunum um að skera ákveðna aðila á háls. Varnaraðili hafi einnig lent í áflogum við ættingja. Ástand varnaraðila hafi nú hjaðnað en hann viðurkenni að fá af og til sjálfsvígshugsanir.

         Í vottorðinu kemur fram að varnaraðili sé mjög einangraður félagslega og eigi enga vini. Niðurstaða geðlæknisins er sú að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðklofasjúkdómi og hafi viðvarandi ranghugmyndir og hann hafi verið í viðvarandi kannabisneyslu. Varnaraðili leiti ávallt í neyslu á ný þrátt fyrir fyrirheit og veikist í kjölfarið. Ástand geðsjúkdóms hans hafi farið versnandi og líklegt sé að það haldi áfram að versna verði ekki gripið inn í. Geðlæknir telur því óhjákvæmilegt að svipta varnaraðila sjálfræði í að minnsta kosti eitt ár svo unnt verði að koma við sérhæfðri meðferð og endurhæfingu á Endurhæfingardeild geðsviðs LSH á Kleppi. Stefnt sé að því að varnaraðili flytjist af móttökudeild 33-A og þangað eins fljótt og auðið er. Væntanlega muni sú meðferð leiða til aukins sjúkdómainnsæis varnaraðila og koma í veg fyrir frekara heilsutjón af völdum geðsjúkdóms og fíkniefnaneyslu. Endurhæfing einstaklinga með flókinn vanda, þar sem saman fari alvarlegur geðrofssjúkdómur og fíkniefnavandi, þar sem sjúkdómsinnsæi er lítið sem ekkert, taki tíma og það sé álit meðferðaraðila að varnaraðili þurfi að vera sjálfræðissviptur í að minnsta kosti eitt ár svo unnt verði að tryggja að hann fái viðeigandi meðferð og endurhæfingu. Án áframhaldandi meðferðar stefni varnaraðili heilsu sinni í voða og spilli möguleikum á bata. Því styðji  meðferðaraðilar það að varnaraðili verði sjálfræðissviptur í að minnsta kosti eitt ár.

         Kröfu sína um sjálfræðissviptingu varnaraðila tímabundið í eitt ár styður sóknaraðili við a- og b-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Þá vísar sóknaraðili til 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

        Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/1997.

        Erik Brynjar Schwitz Erisson geðlæknir, sem annast hefur varnaraðila, gaf skýrslu fyrir dómi símleiðis, gerði grein fyrir veikindum varnaraðila og fyrirhugaðri meðferð og staðfesti vottorð sitt.

        Varnaraðili óskaði eftir því að dómurinn óskaði eftir vottorði frá Magnúsar Haraldssonar geðlæknis, sem verið hefur læknir varnaraðila í samfélagsgeðteymi geðsviðs Landspítalans frá því í september 2012. Í vottorði Magnúsar Haraldssonar geðlæknis kemur fram að samfélagsteymið sinni einstaklingum með alvarlega geðsjúkdóma sem eru í sjálfstæðri búsetu. Í vottorðinu er rakin sjúkrasaga varnaraðila sem á langa sögu um alvarleg geðræn veikindi og fram kemur að hann sé greindur með geðhvarfageðklofssjúkdóm og eigi að baki margar innlagnir á geðdeild á undanförnum árum eins og fram kemur í vottorði Eriks Brynjars Schwitz Erissonar geðlæknis sem lagt hefur verið fram. Magnús Haraldsson  geðlæknir kveðst ásamt öðru starfsfólki samfélagsteymis LSH hafa verið í mjög reglulegu sambandi við varnaraðila allt sl. ár og hann þegið forðasprautur með geðrofslyfi. Varnaraðili hafi mætt í forðasprautur á starfsstöð teymisins [...] þrisvar sinnum í viku og verið í reglulegu símasambandi. Þrátt fyrir þessa meðferð og mikinn stuðning hafi ástand varnaraðila farið jafnt og þétt versnandi samfara vaxandi kannabisneyslu hans. Varnaraðili hafi mikið sótt í að dvelja á heimili foreldra sinna og þar haft í hótunum við systkini sín sem þar búi.  Síðustu vikur fyrir innlögn á geðdeild 8. desember sl. hafi varnaraðili verið með vaxandi geðrofseinkenni með aðsóknarranghugmyndum og verið með mjög alvarlegar ofbeldis- og morðhótanir í garð starfsfólks símafyrirtækis í Reykjavík. Jafnframt hafi borið á vaxandi hugsanatruflunum.

       Í niðurstöðum vottorðs Magnúsar Haraldssonar geðlæknis kemur fram að hann telur fullreynt að meðhöndla varnaraðila utan stofnunar. Ástand hans hafi farið stigversnandi allt sl. ár þrátt fyrir bestu fáanlegu meðferð utan stofnunar og þrátt fyrir að hann sé á fullri meðferð með öflugu geðrofslyfi. Varnaraðila hafi margsinnis verið boðin afeitrun og meðferð við fíkn sinni, en hann telji hana ekki vandamál sitt og því hafnað henni. Læknirinn telur því brýnt að varnaraðili komist sem fyrst í meðferð og endurhæfingu á lokaðri endurhæfingardeild á Kleppspítala og til þess að það sé hægt verði að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið.Vegna þess hversu takmarkað sjúkdómsinnsæi varnaraðila er og vegna þess að hann er haldinn blöndu af alvarlegum geðrofssjúkdómi og fíknisjúkdómi telji hann að eitt ár sé lágmarkstími fyrir slíka endurhæfingu. Með slíkri innlögn væri hægt að halda varnaraðila frá fíkniefnum, draga úr geðrofseinkennum með lyfjameðferð og auka félagslega færni hans með markvissum hætti.

        Magnús Haraldsson geðlæknir gaf skýrslu fyrir dómi símleiðis og staðfesti vottorð sitt. Þá taldi hann það ekki hafa þýðingu að varnaraðili kæmi fyrir dóm.

        Talsmaður varnaraðila gerði grein fyrir því að rætt hafi verið við varnaraðila og hann hafi hafnað því að koma fyrir dóm, en hann mótmæli fram kominni kröfu.

Niðurstaða

           Í ljósi þess sem að ofan er rakið, og fyrirliggjandi gagna, telur dómari að skilyrði a- og b-liðar 4. gr., sbr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 séu til staðar og verður varnaraðili því sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár vegna veikinda sinna eins og sóknaraðili hefur krafist.

        Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga, þar með talin þóknun skipaðra talsmanna málsaðila, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., talsmanns sóknaraðila, og Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., skipaðs talsmanns varnaraðila, eins og segir í úrskurðarorði.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

        Varnaraðili, A, kt. [...], dvalarstaður [...], lögheimili [...], er sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár frá og með deginum í dag að telja.

         Þóknun talsmanna aðila, 170.000  kr. til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.