Mál nr. 2020-254

Íslenska ríkið (Edda Björk Andradóttir hrl.) gegn Sjálfseignarstofnun OK (Ólafur Björnsson hrl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Eignarréttur.
  • Afréttur.
  • Fasteign.
  • Þjóðlenda.
  • Samþykkt.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 11. nóvember 2020 leitar íslenska ríkið eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. október sama ár í málinu nr. 322/2019: Sjálfseignarstofnunin Ok gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Í málinu er deilt um hvort landsvæðið Þóreyjartungur í Borgarfirði teljist þjóðlenda eða eignarland, í skilningi laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Með úrskurði óbyggðanefndar 11. október 2016 í máli nr. 5/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að landsvæðið, eins og það var afmarkað í úrskurðarorðum nefndarinnar, væri þjóðlenda í afréttareign Sjálfseignarstofnunarinnar Oks. Fyrir héraðsdómi og Landsrétti krafðist gagnaðili þess að það ákvæði í úrskurðinum yrði fellt úr gildi og viðurkennt að enga þjóðlendu væri að finna innan framangreinds svæðis. Reisti hann kröfur sínar á því að landið væri háð beinum eignarrétti hans. Leyfisbeiðandi var sýknaður af kröfunni í héraði. Meirihluti Landsréttar féllst á hinn bóginn á kröfur gagnaðila. Í dómi Landsréttar kom fram að ekki yrði annað ráðið en að Þóreyjartungur hefðu verið innan landnáms eins og aðliggjandi lönd og tilheyrt jörðinni Hrísum. Þegar litið væri til þess að landsvæðið skildi sig í engu, þegar kæmi að staðháttum, gróðurfari og nýtingu, frá aðliggjandi og nálægum landsvæðum, sem óbyggðanefnd hefði kveðið á um að væru eignarlönd, væri ekki ástæða til að álykta annað en að það sama hefði átt við um það. Þá hefði ekkert komið fram í málinu um að sá beini eignarréttur hefði síðar fallið niður. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði og taldi að staðfesta bæri héraðsdóm.

Leyfisbeiðandi telur að niðurstaða meirihluta Landsréttar sé bersýnilega röng að efni til og að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Hann telur að niðurstaða Landsréttur víki frá langri dómaframkvæmd Hæstaréttar í þjóðlendumálum, meðal annars varðandi þær kröfur sem gerðar séu til sönnunar um að landsvæði sé undirorpið beinum eignarrétti og varðandi mat og túlkun á fyrirliggjandi heimildum.

Þegar litið er heildstætt til þess að dómur í málinu getur haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðni er reist á og til þeirra hagsmuna sem um er deilt í málinu er beiðni um áfrýjunarleyfi tekin til greina.