Hæstiréttur íslands

Mál nr. 51/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 25. janúar 2011.

Nr. 51/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. janúar 2011, klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Eins og að framan greinir gerir varnaraðili kröfu um kærumálskostnað. Það gerði hann einnig er mál hans nr. 41/2011 vegna sömu rannsóknar var til úrlausnar í Hæstarétti. Í 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 segir: ,,Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur fyrir Hæstarétti nema máli sé þá lokið með dómi.“ Samkvæmt þessu verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 28. janúar 2011 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. 

Í greinargerð ákæruvalds kemur fram að 16. janúar sl. hafi X að kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verið úrskurðaður af Héraðsdómi Reykjavíkur til að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 í dag á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.

Kærði hafi verið handtekinn þann 15. janúar sl.  vegna gruns um innbrot í [...] í [...]. Um klukkan 20:30 þann 15. janúar 2011,  hafi lögreglu borist tilkynning um yfirstandandi innbrot að [...] í [...]. Skömmu síðar hafi upplýsingar borist um að bifreið með skráningarnúmerið [...] væri tengd innbrotinu og væri á leið frá vettvangi. Lögreglubifreiðar hafi þegar verið sendar á vettvang og á eftir umræddri bifreið. För bifreiðarinnar hafi verið stöðvuð á Vesturlandsvegi skammt norðan við Þingvallaveg. Bifreiðinni hafi Y, kt. [...] ekið og verið einn í henni. Í bifreiðinni hafi reynst vera þýfi í tveimur töskum sem tilheyrði íbúum [...], þar á meðal Playstation 3 leikjatölva, Canon stafræn myndavél, tvær fartölvur og skartgripir. Ökumaður bifreiðarinnar hafi í kjölfarið verið handtekinn. Í bifreiðinni hafi  ásamt þýfinu fundist debetkort í eigu X, kt. [...], kærða í máli þessu. Kærði hafi verið handtekinn síðar sama kvöld.

Fyrirliggjandi sé í málinu framburður vitnis sem hafi orðið var við mannaferðir á 2. hæð í húsinu við [...] í [...]. Vitnið hafi jafnframt séð hvar bifreiðinni [...] var ekið að húsinu og út úr því hafi komið aðili í grárri hettupeysu og hafi vitninu fundist að hann væri asískur í útliti. Umræddur aðili muni hafa afhent ökumanni bifreiðarinnar [...] tvær töskur og hafi bifreiðinni í kjölfarið verið ekið í burtu. Vitnið hafi sagst vera nokkuð visst um að tveir menn gætu hafa verið í húsinu þó hann hafi einungis séð einn koma út úr því.

Kærði hafi fyrst verið yfirheyrður þann 16. janúar sl. og þá neitað allri aðild að málinu. Kærði hafi verið yfirheyrður á ný þann 20. janúar þar sem hann hafi breytt fyrri framburði og játað að hafa brotist inn í húsnæðið við [...], ásamt meðkærðu, þeim X og Z. Í kjölfarið hafi kærði játað að eiga þátt í fjölmörgum innbrotum sem framin hafi verið á höfuðborgarsvæðinu undanfarið, ásamt meðkærðu Y og Z. Þeir hafi selt mest allt þýfið. Aðspurður um hversu mikið kærði hafi hagnast á innbrotunum hafi hann sagt að um umtalsverða peninga væri að ræða.

Í kjölfar játningar kærða hafi lögreglumenn ekið með hann um hluta höfuðborgarsvæðisins þar sem hann hafi bent á heimili sem hann og meðkærðu hefðu brotist inn, en ekki hafi náðst að klára þá yfirferð.

Rannsókn málsins sé stutt á veg komin, en það hafi undið gríðarlega upp á sig sl. sólarhring. Fyrir liggi gögn ásamt játningu kærða sem tengi hann við fjölda innbrota á höfuðborgarsvæðinu þar sem töluverðum verðmætum hafi verið stolið. Þyki  því brýnt með hliðsjón af gögnum málanna og sterkum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á aðra samseka ef hann fái að fara frjáls ferða sinna. Jafnframt þurfi lögregla ráðrúm til að ná utan um alla anga þessa máls. Kærði sé á átjánda aldursári og hafi því barnaverndaryfirvöld verið upplýst um málið sem og móðir hans. Það sé mat lögreglu að önnur úrræði geti ekki komið í stað gæsluvarðhalds eins og málum og rannsóknarhagsmunum sé háttað, sbr. 5. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Til rannsóknar sé fjöldi meintra brota gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem brotist hefur verið inn á heimili og verðmætum stolið. Kærði sé sterklega grunaður um aðild að málinu samkvæmt gögnum og vitnisburði. Kærði hafi áður komið við sögu lögreglu í tengslum við innbrot og þjófnað þrátt fyrir ungan aldur og ekki útilokað að hann og félagar hans tengist enn fleiri innbrotum í heimahús á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum vikum og mánuðum. Það sé því brýnt og nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærði verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 28. janúar 2011 kl. 16.00 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

 Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins hefur  undið uppá sig og er stutt á veg komin. Fallist er á með lögreglustjóra að skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Eins og máli þessu er háttað koma önnur úrræði ekki í stað gæsluvarðhaldsins. Þá er fallist á að kærði verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðahaldinu stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 28. janúar 2011 kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.