Hæstiréttur íslands
Mál nr. 198/2006
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Fasteign
- Örorka
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 16. nóvember 2006. |
|
Nr. 198/2006. |
Fouzia Bouhbouh(Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Ingvari Helgasyni hf. (Ólafur Haraldsson hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Fasteign.Örorka. Gjafsókn.
F vann við ræstingar í húsi I en var þó starfsmaður sjálfstæðs verktaka sem annaðist m.a. þrif í húsakynnum I. F varð fyrir slysi við vinnu sína 27. desember 2001 er hún rann í hálku og skall með hnakkann á frosið malbik við ruslagám sem hún átti að fleygja rusli í. F taldi slysið vera rekið til saknæmar háttsemi starfsmanna I og krafðist skaðabóta. Ýmis atvik að slysi F og aðstæður á vettvangi þess voru óljós. Þannig lá t.d. ekki fyrir nákvæm staðsetning gámsins sem F bar ruslapokann í, ekki var ljóst hvort snjóbræðslukerfi hefði verið á allri þeirri leið sem F þurfti að bera ruslapokann, hvort borinn hefði verið sandur eða salt á planið eða hversu þungur ruslapokinn hefði verið. Hæstiréttur taldi að I hefði verið skylt að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um slysið. Þar sem I sinnti ekki þeirri skyldu sinni og engin rannsókn fór fram á aðstæðum á vettvangi var hann látinn bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem gátu haft áhrif á sakarmatið og voru talin óljós. Var því lagt til grundvallar að I hefði ekki sinnt sem skyldi framangreindum skyldum sínum til að tryggja öryggi á vinnustaðnum við húsið þar sem F slasaðist. Bæri hann því fébótaábyrgð á tjóni hennar. Hins vegar var talið að F hefði sjálf átt nokkra sök á slysinu. Hún hefði átt að vera kunnug aðstæðum og hefði borið að sýna ýtrustu aðgæslu. Var hún því látin bera helming tjóns síns sjálf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2006. Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.443.527 krónur með 4,5% ársvöxtum af 548.400 krónum frá 27. desember 2001 til 27. febrúar 2002, en af 4.443.527 krónum frá þeim degi til 12. maí 2005, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún greiðslu á 2.748.144 krónum með sömu vöxtum og greinir í aðalkröfu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en hún nýtur gjafsóknar á báðum dómsstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. fyrir Hæstarétt til réttargæslu.
I.
Stefndi tilkynnti ekki Vinnueftirliti ríkisins um slysið sem áfrýjandi varð fyrir við atvinnustöð hans að Sævarhöfða 2 í Reykjavík 27. desember 2001. Hefur hann byggt á því í málinu að sér hafi ekki verið þetta skylt þar sem áfrýjandi hafi verið starfsmaður sjálfstæðs verktaka sem annaðist þrif í húsakynnum hans. Hafi skyldan til að tilkynna slys samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með síðari breytingum hvílt á verktakanum en ekki sér. Við málflutning fyrir Hæstarétti byggði hann einnig á því að fyrirsvarsmönnum hans hafi verið ókunnugt um slysið og þess vegna ekki getað tilkynnt það.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 46/1980 skulu atvinnurekendur, þar sem fleiri eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað, sameiginlega stuðla að því að tryggja „góðan aðbúnað, heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum.“ Verður þetta túlkað á þann veg að skyldan til að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt 79. gr. laganna hvíli sjálfstætt á hverjum atvinnurekendanna fyrir sig þegar svona stendur á. Gögn málsins bera ekki með sér að stefndi hafi haldið því fram fyrir héraðsdómi að sér hafi verið ókunnugt um slysið fyrst á eftir, þannig að sér hafi af þeirri ástæðu verið ómögulegt að sinna tilkynningarskyldu sinni. Verður ekki séð að gagnaöflun fyrir héraðsdómi hafi heldur miðast að því að upplýsa um þetta, meðal annars var áfrýjandi ekkert um þetta spurð, þegar hún kom fyrir dóm, né heldur hafði henni verið gefið tilefni til að beina áskorunum um öflun upplýsinga hér að lútandi til stefnda við rekstur málsins. Málsástæða stefnda, sem að þessu lýtur, telst því of seint fram komin og kemur hún ekki til álita við úrlausn málsins.
II.
Aðila greinir á um ýmis atvik að slysi áfrýjanda og aðstæður á vettvangi þess. Er þar ýmislegt óljóst, sem ætla má að lægi að mun skýrar fyrir ef Vinnueftirlit ríkisins hefði komið á staðinn til að rannsaka vettvang og tildrög slyssins. Þannig liggur ekki fyrir nákvæm staðsetning gámsins, sem áfrýjandi bar ruslapokann í. Ekki er upplýst um hvort snjóbræðslukerfi á bílaplani virkaði þennan dag og heldur ekki hvernig því var fyrir komið eða hversu langt það náði frá húsinu, en í framburði Erlings Einarssonar, starfsmanns stefnda á þessum tíma, kom fram að slíkt kerfi væri „á plönunum næst húsinu, en það var nú ekki alltaf þegar kom fjær að það væri hægt að reiða sig á það, þannig að það voru svellbunkar á köflum sem komu, en ekki næst húsinu.“ Þá er líka óljóst hvort reynt hafði verið að bera sand eða salt á planið þennan morgun, en gögn málsins sýna að veður var vont, 7 stiga frost, hvasst og sjókoma. Þá er ekki að finna í málinu upplýsingar um pokann sem áfrýjandi bar, innihald hans og þyngd og hvort það hafi verið erfiðleikum bundið fyrir áfrýjanda að skipta innihaldinu í tvo poka ef henni þótti pokinn of þungur til að bera hann í gáminn við þessar veðuraðstæður. Ennfremur skortir upplýsingar um gerð gámsins sem ruslið var sett í, hvort lyfta þurfti ruslapokanum upp til að koma honum í gáminn og þá hversu hátt.
Ýmis ákvæði laga nr. 46/1980 leggja skyldur á herðar atvinnurekendum til að tryggja öryggi starfsmanna. Vísast hér til 1. gr., 13. gr., 37. gr. og 42. gr. laganna. Þá er ákvæði um slíkar skyldur, sem máli skipta í því tilviki sem hér um ræðir, einnig að finna í 6. gr. reglna nr 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, sem settar voru með heimild í 38. gr. laga nr. 46/1980 og í d. lið 3. tl. 41. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða, en þær reglur eru settar samkvæmt sömu heimild.
Þar sem stefndi sinnti ekki skyldu sinni um að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins og engin rannsókn fór fram á aðstæðum á vettvangi verður hann látinn bera hallan af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem geta haft áhrif á sakarmat og eru talin óljós. Verður því lagt til grundvallar að hann hafi ekki sem skyldi sinnt framangreindum skyldum sínum til að tryggja öryggi á vinnustaðnum við húsið, þar sem áfrýjandi slasaðist. Er fallist á með áfrýjanda að stefndi beri á þessum grundvelli fébótaábyrgð á tjóni hennar. Á hinn bóginn verður fallist á það með stefnda að áfrýjandi eigi sjálf nokkra sök á slysinu. Henni ber, eins og vinnandi fólki almennt, að gæta að sér við vinnu sína eftir því sem sanngjarnt og eðlilegt verður talið. Hún hafði unnið á staðnum um nægilega langan tíma til að vera orðin kunnug aðstæðum og bar að sýna ýtrustu aðgæslu er hún flutti ruslapokann yfir bílaplanið í ruslagáminn við þær veðuraðstæður sem fyrr var lýst. Verður áfrýjandi samkvæmt þessu látin bera helming tjóns síns sjálf.
III.
Í málinu er ekki ágreiningur um mat á varanlegri örorku og miska sem áfrýjandi byggir kröfur sínar á. Dómkröfur hennar eru sundurliðaðar í hinum áfrýjaða dómi. Munur á fjárhæðum aðal- og varakröfu er fólginn í því að áfrýjandi krefst þess aðallega að við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku verði með heimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 miðað við meðaltekjur verkamanna. Varakrafan er reist á lágmarksviðmiðun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna, en fyrir liggur að tekjur áfrýjanda á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. mgr. 7. gr. náðu ekki því lágmarki sem miðað er við í 3. mgr. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir sjónarmiðum sem áfrýjandi byggir aðalkröfu sína á. Stefndi telur á hinn bóginn að ekki séu skilyrði til að meta árslaun áfrýjanda sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. og mótmælir aðalkröfu áfrýjanda. Telur hann að miða beri við varakröfuna um þetta ef fallist sé á að hann beri skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda. Grein er gerð fyrir sjónarmiðum stefnda sem að þessu lúta í hinum áfrýjaða dómi.
Í forsendum mats á varanlegri örorku áfrýjanda er tekið fram að mið sé tekið af því að hún sé af erlendu þjóðerni og eigi erfitt með að tjá sig jafnvel á ensku og einnig að hún sé ófaglærð og geti ekki gengið í hvaða starf sem er. Er ljóst að þessi sjónarmið valda hækkun á mati á örorkustigi áfrýjanda. Við mat á því hvaða mælikvarði teljist hæfilegur á líklegar framtíðartekjur hennar, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, verður að telja rétt að hafa þetta í huga. Áfrýjandi var 28 ára gömul á slysdegi og hefur ekki sýnt með tekjuöflun eftir slysið eða á annan hátt að tekjur hennar fyrir slys geti talist óvenjulegar í skilningi lagaákvæðanna. Verður samkvæmt þessu ákvörðun bóta til hennar fyrir varanlega örorku miðuð við 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og sú fjárhæð dæmd sem greinir í varakröfunni en um útreikning hennar eru aðilar sammála.
Stefndi mótmælir því að dæma beri bætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga fyrir meira en fjóra daga, en áfrýjandi miðar kröfugerð sína við fimmtán daga. Í málinu liggur fyrir tilkynning til Tryggingastofnunar ríkisins frá vinnuveitanda áfrýjanda sem hún hefur áritað með samþykki sínu. Þar kemur fram að hún hafi verið tvo daga frá vinnu vegna slyssins. Með vísan til þessa verður fallist á sjónarmið stefnda hér að lútandi. Nemur þessi bótaliður þá 4.080 krónum í stað 15.300 króna sem áfrýjandi krefst.
Stefndi hefur loks mótmælt upphafsdegi dráttarvaxta í kröfu áfrýjanda. Telur hann að miða eigi við 12. júní 2005 er einn mánuður var liðinn frá þingfestingu málsins og byggir þetta á því, að hann hafi ekki fyrr en við þingfestinguna fengið upplýsingar sem þörf var á til að meta fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Ekki verður á þetta fallist. Fyrir lá þegar mál var höfðað, að stefndi hafnaði bótaskyldu sinni, enda tók hann til fullra varna í málinu. Verður upphafsdagur dráttarvaxta miðaður við þingfestingardaginn eins og áfrýjandi krefst.
Samkvæmt framansögðu telst tjón áfrýjanda nema 2.736.924 krónum. Af því ber stefnda að greiða henni helminginn eða 1.368.462 krónur með vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda sem dæmdur var í héraði er ekki til endurskoðunar og verður hann staðfestur. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti sem verður ákveðinn eins og greinir í dómsorði greiðist úr ríkissjóði. Stefndi greiði í ríkissjóð vegna málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti þá fjárhæð sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Ingvar Helgason hf., greiði áfrýjanda, Fouzia Bouhbouh, 1.368.462 krónur með 4,5% ársvöxtum af 268.590 krónum frá 27. desember 2001 til 27. febrúar 2002 en af 1.368.462 krónum frá þeim degi til 12. maí 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.368.462 krónum frá 12. maí 2005 til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skulu vera óröskuð.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hennar 400.000 krónur.
Stefndi greiði 500.000 krónur í ríkissjóð vegna málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
Ég er sammála rökstuðningi meiri hluta dómsins fyrir því að leggja skaðabótaábyrgð á stefnda. Áfrýjandi var að sinna þeirri starfskyldu sinni að koma rusli í gám þegar hún datt og slasaðist. Á vinnuveitanda hvílir sú skylda að tryggja að aðstæðum og aðbúnaði á vinnustað sé þannig háttað að starfsmenn séu ekki í hættu við störf sín. Upplýsingar um aðstæður, byrði áfrýjanda og starfsfyrirmæli eru takmarkaðar, enda fór engin rannsókn fram á slysinu. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til slíkrar óaðgæslu áfrýjanda að rétt sé gera henni að bera sjálfri helming tjóns síns. Hins vegar fellst ég á það með meiri hluta dómsins, að leggja megi á verkafólk sanngjarna og eðlilega aðgæsluskyldu þar sem unnið er við breytilegar aðstæður. Ég tel með vísan til þessa, að rétt sé að áfrýjandi beri sjálf tjón sitt að einum þriðja hluta. Með þeim breytingum sem af þessari afstöðu leiðir er ég sammála kafla III.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. desember sl., var höfðað 10. maí 2005 af Fouzia Bouhbouh, Seljavegi 42, Reykjavík, á hendur Ingvari Helgasyni hf., Sævarhöfða 2, Reykjavík, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni aðallega 4.443.527 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum af 548.400 krónum frá 27. desember 2001 til 27. febrúar 2002, en frá þeim degi af 4.443.527 krónum til 12. maí 2005, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af sömu fjárhæð til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi greiðslu á 2.748.144 krónum með vöxtum eins og í aðalkröfu af 548.400 krónum frá 27. desember 2001 til 27. febrúar 2002, en frá þeim degi af 2.748.144 krónum til 12. maí 2005, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af sömu fjárhæð til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn 29. nóvember 2004 sem takmörkuð er við 300.000 krónur.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar og engar kröfur eru gerðar á hendur honum.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi vann frá miðju ári 2001 til seinni hluta ársins 2003 við ræstingar í húsi stefnda að Sævarhöfða 2 en hún var þá starfsmaður ISS Ísland ehf. Er hún var að fara út með rusl 27. desember 2001 rann hún í hálku og skall með hnakkann á frosið malbik við ruslagáminn þar sem hún átti að fleygja ruslinu. Hún fór á slysadeild Landspítalans í Fossvogi en fram kemur í læknisvottorði að þangað hafi hún komið umræddan dag klukkan 12.50. Þar kemur einnig fram að hún hafi sagst hafa runnið aftur fyrir sig í hálku og lent á hnakkanum á jörðinni og að hún hafi strax fundið til mikilla verkja í hnakkanum. Aftan á hnakkanum sást roði og mar. Hún fékk verkjatöflur og leið henni betur eftir það. Segir í vottorðinu að áverkarnir hafi ekki verið alvarlegs eðlis og að hún ætti að ná sér að fullu á einni til tveimur vikum. Í vottorði læknis á heilsugæslustöð kemur fram að stefnandi hafi komið þangað föstudaginn 4. janúar 2002 vegna höfuðverkjar sem hún hafi haft eftir slysið. Hún hafi lýst því að hún hafi fundið eins og rafstraum út í hendur og fætur við fallið. Við samtal og skoðun hafi verið litið þannig á að hún hefði fengið vægan heilahristing eftir fallið og henni ráðlagt að hvíla sig frá vinnu fram yfir helgi.
Stefnandi telur að slysið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda sem valdi bótaskyldu. Hálka hafi verið á svæðinu sem stefnandi hafi þurft að ganga frá húsi stefnda að ruslagámnum. Hún hafi margsinnis kvartað yfir því við starfsmenn stefnda að erfitt væri fyrir hana að bera ruslapokana þessa vegalengd til að koma þeim í ruslagáminn. Hún hafi ítrekað beðið um að aðstæður þessar yrðu lagfærðar og m.a. lagt til að gámurinn yrði færður nær húsinu en það hafi ekki verið gert. Stefnandi vísar til þess að hún hafi tognað á hálsi og séu afleiðingar þess varanlegar. Hún hafi stöðuga verki og hafi þeir meðal annars valdið henni þunglyndi. Varanlegur miski og örorka stefnanda hafi verið metin 10% vegna þessa.
Stefndi mótmælir því að slysið verði rakið til atvika sem hann beri ábyrgð á og því hvíli engin bótaábyrgð á honum að lögum vegna slyssins. Stefnandi mótmælir einnig útreikningum á tjóni stefnanda en fallið var frá mótmælum sem fram koma í greinargerð stefnda á örorkumati stefnanda í þinghaldi 12. september sl.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að 27. desember 2001 hafi hún orðið fyrir vinnuslysi. Hún hafi þá verið starfsmaður ISS Ísland ehf. og hafi haft með höndum ræstingar í húsnæði stefnda. Slysið hafi orðið með þeim hætti að hún hafi verið að bera rusl í stórum og þungum ruslapoka út úr húsnæði stefnda að ruslagámi sem hafi verið staðsettur handan bílastæðis bak við húsakynni stefnda. Hált hafi verið á bílastæðinu og hafi hún runnið til og fallið aftur fyrir sig þannig að höfuð hennar hafi skollið niður í frosið malbikið. Hún hafi þegar fundið til verkja í höfði og hálsi og af þeim sökum verið flutt á slysadeild. Við skoðun þar hafi hún verið með meðvitund. Hún hafi kvartað undan miklum verkjum í hnakka og aftan á hnakkanum hafi verið roði og mar. Til öryggis hafi verið fylgst með henni í eina klukkustund á slysadeild. Hún hafi fengið verkjalyf og upplýsingar um eftirlit vegna höfuðhöggs. Eftir þetta hafi stefnandi oft leitað til Birgis Guðjónssonar heimilislæknis og Guðrúnar R. Sigurðardóttur, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, vegna afleiðinga sem slysið hafi haft á heilsufar hennar. Samkvæmt niðurstöðu örorkumats Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis hafi hún fengið hálstognun sem þrátt fyrir ýmiss konar meðferð hafi ekki lagast og hái henni mjög í dag. Þá telji læknirinn að hluti af andlegum einkennum sem stefnandi glími við séu afleiðingar af slysinu, þ.e.a.s. af stöðugum verkjum sem hafi valdið þunglyndi. Matslæknirinn hafi metið varanlegan miska og örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins 10%.
Stefnandi telji að rekja megi slysið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda sem valdi bótaskyldu en hálka hafi verið á því svæði sem stefnandi hafi þurft að ganga frá húsi stefnda að ruslagámnum. Stefnandi hafi margsinnis kvartað yfir því við starfsmenn stefnda að hún ætti erfitt með að bera ruslapokana þessa vegalengd yfir bílastæðið til að koma því í ruslagáminn. Hún hafi ítrekað beðið um að aðstæður þessar yrðu lagfærðar og m.a. lagt til að gámurinn yrði færður nær húsinu. Stefndi hafi hunsað algerlega þessar óskir hennar. Líta verði svo á að stefndi beri skaðabótaábyrgð á afleiðingum þess, enda um að ræða aðstæður sem falið hafi í sér saknæma háttsemi af hálfu stefnda. Aðstaðan er stefndi hafi lagt til hafi ekki verið forsvaranleg og í andstöðu við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Samkvæmt 1. gr. laganna hafi félaginu borið að tryggja stefnanda öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi í samræmi við tækniþróun. Samkvæmt 13. gr., sbr. 37. gr. og 42. gr. laganna hafi stefnda borið að tryggja, að gætt væri fyllsta starfsöryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað og í vinnutilhögun. Samkvæmt grunnreglu 2. mgr. 23. gr., sbr. 14. gr., hafi félaginu borið að tryggja, að hættu á slysum væri afstýrt. Auðveldlega hefði verið unnt að komast hjá slysinu með því að breyta vinnuaðstöðu í samræmi við ítrekaða beiðni hennar. Þá hafi vinnuaðstaða farið í bága við reglur um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar nr. 499/1994. Ekki hafi verið tilkynnt um slysið til Vinnueftirlits ríkisins eða lögreglu eins og boðað sé í lögum. Um þýðingu þeirrar vanrækslu sé m.a. vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 516/1997 frá 29. október 1998.
Gálaust sé að ætlast til þess að manneskja rogist með þunga ruslapoka langa leið í hálku og myrkri. Stefnandi hefði til þess að gera nýlega hafið starfið við ræstingarnar auk þess sem hún hafi verið óvön aðstæðum þar sem hún hafi ekki þekkt frost og hálku frá heimalandi sínu. Aðstæður sem ætlast var til að stefnandi ynni við hafi tvímælalaust falið í sér hættu á slysi líku því sem hún varð fyrir. Beri stefndi skaðabótaábyrgð vegna gálausrar háttsemi starfsmanna sinna og vanrækslu, þ.á m. skorti á eftirliti og verkstjórn, samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, þ.á m. reglum um vinnuveitendaábyrgð. Við hinar erfiðu aðstæður á vinnustaðnum sæti mat á skaðabótaábyrgð stefnda strangari mælikvarða en almennt gerðist þar sem um hafi verið að ræða hættulegar vinnuaðstæður starfsmanna.
Slysið sem stefnandi varð fyrir hafi haft áhrif á heilsu hennar en áverkarnir, sem hún hafi hlotið, hafi haft víðtæk áhrif á líkamlegt ástand hennar og getu til þess að starfa og sinna áhugamálum. Þar sem stefndi hafi á slysdeginum haft gilda ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda hafi félaginu verið sent bréf þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu til bótaskyldu. Málið hafi verið höfðað þar sem bótaskyldu hafi verið hafnað.
Dómkröfur stefnanda sundurliðist þannig:
|
1. Aðalkrafa |
|
|
1.1 Bætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga 15 x 1.020 krónur |
15.300 krónur |
|
1.2 Bætur samkvæmt 4. gr. sömu laga 10% af 5.331.000 krónum |
533.100 “ |
|
1.3 Bætur skv. 5. - 7. gr 2.333.659 x 1.06 x 196,4/224,8 = 2.831.378 2.831.378 x 13,757 x 10% |
3.895.127 “ |
|
Samtals |
4.443.527 krónur. |
|
1. Varakrafa |
|
|
2.1 Bætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga 15 x 1.020 krónur |
15.300 krónur |
|
1.2 Bætur samkvæmt 4. gr. sömu laga 10% af 5.331.000 krónum |
533.100 “ |
|
1.3 Bætur skv. 5. - 7. gr 1.599.000 x 13,757 x 10%
|
2.199.744 “ |
|
Samtals |
2.748.144 krónur. |
Kröfugerð stefnanda miðist við matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis um afleiðingar slyssins sem taki mið af skaðabótalögum eins og þau hafi verið á slysdeginum. Samkvæmt matsgerðinni teljist stefnandi hafa verið 100% óvinnufær í 15 daga. Í matsgerðinni komi fram að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins nemi 10%. Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlegan miska byggist á þessu og 4. gr. skaðabótalaga. Krafan vegna bóta fyrir varanlega örorku grundvallist einnig á ofangreindri matsgerð. Gert sé ráð fyrir að miða beri við meðaltekjur verkamanna við ákvörðun bóta á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga enda óvenjulegar aðstæður fyrir hendi. Stefnandi hafi nýlega hafið störf hjá stefnda auk þess að hafa flutt sig nokkuð milli starfa fyrir slysið. Hún hafi verið ung að árum og hefði nýlega hafið störf á vinnumarkaði hér á landi. Í ljósi þessa og aðstæðna allra sé í raun ekki unnt að leggja til grundvallar bótauppgjöri meðaltekjur síðastliðinna þriggja almanaksára fyrir slysið, eins og boðað sé í 1. mgr. 7. gr. laganna. Verði því að meta tekjur hennar sérstaklega með vísan til 2. mgr. sömu lagagreinar, en eðlilegt og sanngjarnt sé að leggja til grundvallar bótauppgjöri meðaltekjur verkamanna á 4. ársfjórðungi 2001. Árstekjurnar að meðtöldu 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs hafi verið leiðréttar samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við (stöðugleikatímamark).
Varakrafa sé byggð á sömu forsendum og aðalkrafan að frátöldum bótum vegna varanlegrar örorku sem taki mið af lágmarkstekjuviðmiðun 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Í báðum tilvikum sé krafist 4,5% vaxta af þjáningabótum og bótum vegna varanlegs miska frá slysdeginum, 27. desember 2001, til stöðugleikatímamarks 27. febrúar 2002, en þá einnig af bótum vegna varanlegrar örorku samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga. Dráttarvaxta sé krafist frá þingfestingardegi, 12. maí 2005.
Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993 með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur, þ.á m. reglur um vinnuveitandaábyrgð. Einnig vísi stefnandi til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og stjórnsýslureglna sem á þeim séu byggðar. Um vaxtakröfuna vísi stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um málskostnað sé vísað til 21. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
Málsástæður og lagarök stefnda
Vísað er til þess af hálfu stefnda að í gögnum málsins komi fram að um hádegi 27. desember 2001 hafi stefnandi verið við vinnu sína hjá ISS Ísland ehf. sem hafi séð um ræstingar á húsnæði stefnda. Stefnandi hafi verið á leið með ruslapoka í ruslagám þegar hún hafi runnið til í hálku og fallið aftur fyrir sig með þeim afleiðingum að hún hafi rekið höfuðið í jörðina. Engar lýsingar vitna liggi fyrir á slysinu og gögn málsins styðjist því alfarið við frásögn stefnanda sjálfs um aðdraganda slyssins og orsakir þess. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu hafi meðalhiti í Reykjavík verið -7,1°C þennan dag, snjókoma 9 mm, snjódýpt 7 cm og snjóhula 4 á skalanum 0-4. Daginn áður hafi meðalhitinn verið -1,7°C, snjókoma 0,6 mm og snjóhula 2 á sama skala.
Sigurjón Sigurðsson læknir hafi metið afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda í örorkumati 17. september 2003. Hann hafi meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði orðið fyrir 10% varanlegri örorku. Að fengnum nýjum upplýsingum um stefnanda hafi hann talið rétt í viðbótarmati 15. apríl 2004 að breyta örorkumatinu í 5% varanlega örorku. Á grundvelli þessa mats hafi verið gert upp við stefnanda úr slysatryggingu launþega sem ISS Ísland ehf. hafi haft hjá réttargæslustefnda. Sami læknir hafi metið afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda á ný í örorkumati 18. apríl 2005 og hafi hann þá meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði orðið fyrir 10% varanlegri örorku.
Stefnandi hafi fyrst leitað eftir afstöðu stefnda til bótaskyldu með bréfi 7. desember 2004 en réttargæslustefndi hafi hafnað greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda með bréfi 27. janúar 2005.
Stefndi byggi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ósannað sé að tjónið megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda, starfsmanna hans eða annarra atvika sem stefndi ber skaðabótaábyrgð á að lögum. Í öðru lagi byggi stefndi á því að stefnandi verði að bera tjón sitt að fullu sjálf vegna eigin sakar og í þriðja lagi á því að stefnandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn til stuðnings meintu tjóni sínu. Af gögnum málsins megi ráða að orsök tjóns stefnanda hafi verið óhappatilviljun og/eða óaðgæsla hennar sjálfrar.
Stefnandi hafi ekki sannað að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum og stefndi mótmæli því að mat á skaðabótaábyrgð hans eigi að sæta strangari mælikvarða en almennt gerðist. Óumdeilt sé að stefnandi hafi ekki verið starfsmaður stefnda heldur ISS Ísland ehf. sem séð hafi um ræstingar á húsnæði stefnda. Á stefnda hafi því ekki hvílt þær skyldur gagnvart stefnanda sem vinnuveitendur beri samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefnda hafi til að mynda engin skylda borið til að hafa eftirlit með störfum stefnanda eða stjórna verkum hennar. Geti fyrrnefnd lög og reglur, sem settar hafi verið með stoð í þeim, ekki haft neina þýðingu við mat á skaðabótaábyrgð stefnda. Stefnda hafi ekki verið skylt að lögum að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins eða lögreglu um slysið, enda hafi stefndi ekki verið vinnuveitandi stefnanda eins og fyrr segi. Engin efni séu því til að láta stefnda bera hallann af því að slysið var ekki rannsakað, s.s. með því að snúa sönnunarbyrði við í málinu.
Stefndi og starfsmenn hans kannist alls ekki við að stefnandi hafi margsinnis kvartað yfir því við starfsmenn stefnda að það væri erfiðleikum háð fyrir hana að bera ruslapokana þá vegalengd sem þurfti að fara yfir bílastæðið til að koma því í ruslagáminn. Þeir kannist heldur ekki við að stefnandi hafi ítrekað beðið um að aðstæður þessar yrðu lagfærðar og meðal annars lagt til að ruslagámurinn yrði færður nær húsinu og sé þessum fullyrðingum mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þar fyrir utan hafi verið mjög örðugt, ef ekki útilokað, að færa ruslagáminn nær húsinu þar sem hann hefði með því lokað fyrir leiðir bifreiða út úr því. Ruslagámurinn hafi verið skammt frá húsinu. Þá sé ósannað að stefnandi hafi verið að bera stóran og þungan ruslapoka í umrætt sinn en ruslapokar hafi almennt ekki verið stórir og þungir. Stefndi mótmæli því harðlega að aðstæður á slysstað hafi verið óforsvaranlegar og hættulegar. Snjóbræðslukerfi hafi verið undir bílastæðinu sem stefnandi hafi þurft að fara yfir að ruslagámnum. Aðstæður hafi að öðru leyti verið eins og við hafi mátt búast utandyra í desember. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við það af hálfu stefnda þótt stefnandi færi ekki með ruslið alla leið að gámnum. Því sé mótmælt að stefndi geti borið skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda enda hafi þarna verið um óhappatilviljun að ræða sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á.
Telji dómurinn að ekki hafi verið um óhappatilviljun að ræða byggi stefndi á því að stefnandi verði sjálf að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Þegar slysið varð hafi verið frost og hálka úti, snjókoma, snjóhula yfir og bjart af degi. Þessar aðstæður hafi gefið stefnanda tilefni til að sýna varfærni, en hún hefði margoft farið þarna um og því gjörþekkt aðstæður. Það að stefnandi þekkti ekki frost og hálku frá heimalandi sínu hafi gefið henni sérstakt tilefni til að gæta ýtrustu varkárni. Hún hafi þó flutt til landsins árið 1999 og því mátt þekkja til frosts og hálku af dvöl sinni hér á landi. Í desember 2001 hafi fyrir slysið verið sjö frostdagar og átta snjódagar í Reykjavík.
Stefndi telji gögn um meint tjón stefnanda ófullnægjandi. Stefndi mótmæli sönnunargildi örorkumats Sigurjóns Sigurðssonar læknis frá 18. apríl 2005. Matsins hafi verið aflað einhliða af stefnanda og læknirinn hafi ekki verið dómkvaddur til starfans í samræmi við IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnda hafi því ekki gefist færi á að koma sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri áður en matið fór fram.
Varakrafa stefnda um verulega lækkun sé byggð á eftirfarandi atriðum:
Í fyrsta lagi beri að lækka bætur verulega vegna eigin sakar stefnanda, en því til stuðnings sé vísað til röksemda sem fram hafi komið hér að framan.
Í öðru lagi mótmæli stefndi kröfu stefnanda um þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi verið frá vinnu samkvæmt staðfestingu vinnuveitanda frá 28. desember til 31. desember 2001, þ.e. í fjóra daga samtals, en engin gögn liggi fyrir um annað. Upplýsingar í örorkumati um 15 daga vinnutap komi eingöngu frá stefnanda sjálfri. Eftir að stefnandi hóf störf að nýju hafi hún ekki getað talist veik af völdum slyssins í skilningi 3. gr. skaðabótalaga og eigi því ekki rétt á þjáningabótum í lengri tíma.
Útreikningum stefnanda á tjóni fyrir varanlega örorku sé mótmælt. Stefndi telji að leggja beri lágmarkstekjuviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til grundvallar við útreikning bóta fyrir varanlega örorku, enda feli uppreiknaðar tekjur stefnanda síðustu tvö tekjuárin, þ.e. 2000 og 2001, í sér lægri viðmiðun en þar greini. Sama sé raunar að segja um uppreiknaðar tekjur stefnanda næstu tvö árin eftir slysið. Stefndi mótmæli því að skilyrði séu til að meta árslaun stefnanda sérstaklega á grundvelli undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miða við árslaun verkamanna á síðasta ársfjórðungi 2001. Af gögnum málsins verði ekki ráðið að stefnandi hafi mátt vænta hærri tekna en greini í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga í ljósi aldurs hennar, menntunar, reynslu og tungumálakunnáttu eins og fram komi í samantekt og ályktun í framangreindu örorkumati. Ekki hafi verið svo sérstakar aðstæður fyrir hendi hjá stefnanda að rétt sé að víkja frá meginreglum laganna að þessu leyti.
Dráttarvextir geti fyrst reiknast frá dómsuppsögudegi þar sem ekki hafi legið fyrir viðhlítandi gögn til að meta fjárhæð bóta.
Um lagarök vísi stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, óhappatilviljun, gáleysi og eigin sök tjónþola, auk skaðabótalaga og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en um málskostnað sé vísað til XXI. kafla þeirra laga.
Niðurstaða
Stefnandi vísar til þess að aðstæður, sem hún vann við hjá stefnda þegar slysið varð, hafi verið hættulegar en á þessu hafi stefndi vanrækt að ráða bót og þess vegna hafi slysið orðið. Hún hafi oft kvartað undan þessum aðstæðum en henni hafi verið sagt að þeim væri ekki hægt að breyta. Stefnandi lýsti vinnutilhögun fyrir dóminum þannig að í upphafi hafi starfskona ISS Ísland ehf. farið með henni í fyrirtæki stefnda og sagt henni hvað hún ætti að gera. Eftir það hafi starfsmenn stefnda sagt henni fyrir verkum ef einhverjar breytingar þurfti að gera á starfstilhögun. Eftir slysið hafi hún neitað að fara út með ruslið en frá þeim tíma hafi hún sett það við dyrnar og hafi þá einhver annar farið út með það. Engar athugasemdir virðast hafa komið fram af þessu tilefni af hálfu stefnda.
Fram hefur komið að veður hafi verið mjög vont daginn sem stefnandi féll aftur fyrir sig á hnakkann á bílastæðinu hjá stefnda, hvasst og frost, og hálka á þeirri leið sem hún þurfti að fara með ruslið. Í framburði fyrrverandi starfsmanns stefnda fyrir dóminum kom fram að hann hefði komið að stefnanda grátandi í eldhúsi hjá stefnda þennan dag eftir að hún hafði dottið. Lýsingar hans á aðstæðum hjá stefnda eru að mestu í samræmi við það sem fram hefur komið um þær. Þegar farið var út með ruslið hafi þurft að fara þvert yfir bílastæði en þar hafi ruslagámurinn verið í um það bil 30 til 40 metra fjarlægð frá húsinu. Snjóbræðslukerfi hafi verið undir bílastæðinu næst húsinu en hann mundi ekki hvort það náði að ruslagámnum. Stundum hafi verið borið salt á bílastæðið, allt eftir aðstæðum og þörfum hverju sinni. Ruslið hafi verið sett í stóra, svarta plastpoka og stundum hafi hann sjálfur farið með þá í ruslagáminn þegar of mikið hafði verið sett í þá. Hann mundi ekki eftir því að kvartað hafi verið undan aðstæðum sem þarna voru. Aðstæður í dag væru breyttar og aðrir gámar notaðir sem væru enn lengra frá húsinu.
Þótt engin vitni hafi verið að slysinu og stefnandi því ein til frásagnar um það verður að ætla, af því sem hér hefur verið rakið og fram hefur komið í málinu, að stefnandi hafi fallið vegna hálkunnar og hvassviðrisins. Þar sem þetta er lagt til grundvallar við úrlausn málsins og ágreiningslaust er að þegar slysið varð voru aðstæður eins og þeim hefur hér að framan verið lýst þykir engu breyta fyrir úrlausn málsins þótt stefndi hafi ekki tilkynnt lögreglu eða Vinnueftirliti ríkisins um slysið. Þær aðstæður sem um ræðir geta ekki talist óvenjulegar og stefnandi vissi um þær, enda fór hún þarna reglulega um þar sem eitt af venjubundnum verkum hennar hjá stefnda var að fara með ruslapoka í gáminn. Engu breytir í því sambandi þótt hún hafi ekki þekkt slíkar aðstæður frá heimalandi sínu. Ekki liggur fyrir og ekki er á því byggt að stefnandi hafi kvartað undan hálkunni á bílastæðinu þennan dag við starfsmenn stefnda eða beðið þá að sand- eða saltbera hálkuna áður en hún færi út með ruslið. Ekki virðist heldur hafa komið til að hún færi síðar út með ruslið þegar aðstæður hefðu batnað eða að einhver annar gerði það eins og stundum hafði verið gert á þeim tíma og alltaf eftir slysið samkvæmt því sem fram hefur komið. Hefði það verið gert má ætla að með því hefði verið unnt að komast hjá hættum sem stefnandi vísar til. Stefnandi heldur því fram að skort hafi á eftirlit og verkstjórn af hálfu stefnda. Hún hefur þó ekki lagt fram gögn eða frekari upplýsingar en að framan greinir um það að hve miklu leyti hún naut verkstjórnar eða tilsagnar stefnda annars vegar og ISS Ísland ehf. hins vegar í þeim störfum er hún hafði með höndum hjá stefnda. Verður með vísan til þessa að telja ósannað að slysið verði rakið til ófullnægjandi eftirlits eða verkstjórnar stefnda. Stefnda bar þó sem atvinnurekanda að sjá til þess að aðstæður væru í samræmi við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 eins og réttilega hefur verið bent á af hálfu stefnanda. Þegar framangreind atvik málsins eru metin verður þó ekki fallist á að aðgerðaleysi stefnda við að ráða bót á þessum aðstæðum verði talið brot á þeim lögum eða öðrum reglum sem stefnandi vísar til. Þegar litið er til aðstæðna, sem hér hefur verið lýst, þar með talið þess sem sagt hefur verið um þekkingu og reynslu stefnanda af þeim, þykir ekki rétt að meta stefnda til sakar að hafa ekki bætt úr þeim þannig að bótaskylda verði lögð á hann vegna tjóns stefnanda.
Með vísan til þessa verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að slysið verði rakið til sakar starfsmanna stefnda og ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að málskostnaður milli málsaðila falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 300.000 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Stefáns Geirs Þórissonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 294.615 krónur, en útlagður kostnaður er 5.385 krónur.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Ingvar Helgason hf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Fouzia Bouhbouh, í máli þessu.
Málskostnaður milli málsaðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 300.000 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Stefáns Geirs Þórissonar hrl., 294.615 krónur.