Hæstiréttur íslands

Mál nr. 650/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Föstudaginn 17. október 2014

Nr. 650/2014

Háfell ehf.

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Dómari. Vanhæfi.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H ehf. um að héraðsdómari viki sæti í máli félagsins gegn L hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði ritaði sóknaraðili bréf til héraðsdóms 7. ágúst 2014, þar sem krafist var að fyrrnefndur dómari í málinu viki sæti, og er meginefni bréfsins tekið upp í úrskurðinum. Fyrir Hæstarétti ber sóknaraðili fyrir sig sömu röksemdir fyrir kröfu sinni og þar greinir. Væri rétt með farið að dómari hafi látið slík ummæli falla, sem sóknaraðili heldur fram að hann hafi gert í þinghaldi 7. maí 2014, væri honum rétt að víkja sæti vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 9. janúar 2004 í máli nr. 491/2003. Til þess verður á hinn bóginn að líta að með hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari látið í ljós að frásögn sóknaraðila af atvikum í þinghaldinu sé röng og hefur varnaraðili lýst sömu skoðun í greinargerð til Hæstaréttar, en fyrir hinu gagnstæða verður sóknaraðili að bera sönnunarbyrði. Hana hefur hann ekki axlað og verður því að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2014.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. september 2014 um þá kröfu stefnanda að dómari málsins víki sæti, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 15. apríl 2013, af Háfelli ehf., Skeifunni 11, Reykjavík, gegn Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík.

I.

Af hálfu stefnanda eru í málinu gerðar eftirfarandi dómkröfur:

I.      Að viðurkennt verði með dómi:

a.       að samningur stefnanda og stefnda nr. 142868-869, sem gerður var 16. ágúst 2007, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

b.       að samningur stefnanda og stefnda nr. 143999-000, sem gerður var 24. október 2007, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

c.        að samningur stefnanda og stefnda nr. 144001-002, sem gerður var 24. október 2007, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

d.       að samningur stefnanda og stefnda nr. 146151-152, sem gerður var 22. febrúar 2008 hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

e.        að samningur stefnanda og stefnda nr. 146548-549, sem gerður var 18. mars 2008, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

f.        að samningur stefnanda og stefnda nr. 146820-823, sem gerður var 18. mars 2008, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

g.        að samningur stefnanda og stefnda nr. 147666-669, sem gerður var 26. maí 2008, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

h.       að samningur stefnanda og stefnda nr. 153732-739, sem gerður var 8. febrúar 2010, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

II.        að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 43.679.124 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. maí 2013 til greiðsludags, en til vara að viðurkennt verði með dómi:

a.       að samningur stefnanda og stefnda nr. 142487-488, sem gerður var 16. júlí 2007, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

b.       að samningur stefnanda og stefnda nr. 143057-058, sem gerður var 16. ágúst 2007, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

c.        að samningur stefnanda og stefnda nr. 143992-995, sem gerður var 24. október 2007, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

d.       að samningur stefnanda og stefnda nr. 144441-442, sem gerður var 23. nóvember 2007, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

e.        að samningur stefnanda og stefnda nr. 147318-319, sem gerður var 2. maí 2008, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

f.        að samningur stefnanda og stefnda nr. 149029-030, sem gerður var 18. ágúst 2008, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

III.     Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

II.

Í þinghaldi í máli þessu, 11. september s.l., lagði lögmaður stefnanda fram kröfu um að dómari málsins viki sæti sökum meints vanhæfis, sbr. dskj. nr. 137, en kröfunni hafði áður verið komið á framfæri við dómara í bréfi lögmannsins dags. 7. ágúst, mótteknu af dómara að loknu sumarleyfi hans, 25. ágúst. Kröfunni fylgdi svofelldur skriflegur rökstuðningur:

„Í fyrirtöku málsins 7. maí 2014 var ætlunin að undirbúa aðalmeðferð sem átti að fara fram 28. maí 2014. Í upphafi fyrirtökunnar lýsti dómari þeirri skoðun sinni að dómur Hæstaréttar frá 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013, Suðurverk hf. gegn Lýsingu hf., væri fordæmi vegna þess ágreinings sem uppi er í máli þessu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 3. apríl 2014 í máli nr. 717/2013 og frá 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011. Dómari bókaði sjálfur framangreinda skoðun sína í þingbók dómsins. Auk þess sem dómari lét sjálfur færa til bókar lýsti hann því afdráttarlaust yfir að hann teldi að stefnanda væri réttast að fella málið niður á grundvelli framangreindra fordæma. Dómari lagði hart að lögmanni stefnanda að fella málið niður og lagði m.a. til að lögmaðurinn myndi hringja í fyrirsvarsmann stefnanda í fyrirtökunni og kanna hvort hann teldi rétt að fella málið niður gegn því að stefndi félli frá kröfu um málskostnað. Þegar lögmaður stefnanda sagði slíkt óþarft lét dómari ekki staðar numið heldur spurði lögmanninn hvort hann þekkti ekki til framangreindra Hæstaréttardóma. Lögmaður stefnanda sagðist þekkja dómana en að stefnandi teldi að málin væru ekki sambærileg í mikilvægum atriðum. Dómari spurði þá lögmanninn hvort þetta væri hans persónulega skoðun eða hvort hann hefði kynnt dómana fyrir umbjóðanda sínum. Lögmaður stefnanda sagðist hafa farið yfir dómana og metið framhaldið ásamt umbjóðanda sínum. Dómari krafðist þess þá að lögmaður stefnanda reifaði þá þegar helstu ástæður þess að stefnandi teldi forsvaranlegt að halda málinu áfram og hvers vegna stefnandi teldi mál sitt ósambærileg þeim málum sem fjallað var um í framangreindum dómum. Að öllu þessu loknu tilkynnti dómari að aðalmeðferð sem fara átti fram þremur vikum síðar, 28. maí sl., yrði frestað um ótiltekinn tíma. Í því samhengi er rétt að geta þess að málið var þingfest 18. apríl 2013, greinargerð stefnda ásamt fylgiskjölum var lögð fram 13. júní 2013 en síðan hafði nánast ekkert gerst í málinu. Hefði aðalmeðferð verið 28. maí sl. hefði málið þannig verið rúma 13 mánuði hjá dómstólnum en það verður að teljast langur tími í ljósi þess að hraða ber meðferð málsins, samkvæmt 183. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Lögmaður stefnanda mótmælti frestun aðalmeðferðar og spurði hvenær aðalmeðferðar yrði að vænta. Dómari svaraði því einungis með því að segja að aðalmeðferðin yrði „einhvern tíma árið 2015“. Þegar lögmaður stefnanda benti á framangreinda skyldu til þess að hraða málsmeðferðinni svaraði dómari því að hann teldi ekki nauðsyn til að hraða meðferð málsins þar sem hann teldi að fordæmin í málinu væru skýr. Framangreind ummæli dómara bera með sér að hann hafi þegar gert upp hug sinn um úrslit málsins svo draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Sömu reglu er að finna í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur verið lögfestur hér á landi, sbr. lög nr. 64/1994. Stefnandi telur einsýnt að til að hann fái notið framangreindra grunvallarréttinda, þ.e. að mál hans fái úrlausn hjá óhlutdrægum dómstóli, verði dómari að víkja sæti í málinu. Stefnandi vísar m.a. til dóms Hæstaréttar frá 9. janúar 2004, í máli númer 491/2003 en þar var niðurstaða réttarins sú að rétt væri að dómari, sem hafði viðhaft í þinghaldi þau ummæli að hann teldi tiltekin fordæmi Hæstaréttar mjög skýr um sakarefni máls, viki sæti í málinu með vísan til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Í máli þessu hefur dómari látið sambærileg ummæli falla, líkt og greint hefur verið frá. Þá hefur dómari auk þess gefið skýrt til kynna að hann telji tilefnislaust fyrir stefnanda að halda málarekstrinum áfram. Hefur dómari þannig augljóslega gert upp hug sinn til málsins. Er það sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að munnlegur framburður vitna við aðalmeðferð mun hafa mikla þýðingu fyrir niðurstöðuna. Það lýsir svo enn fremur afstöðu dómara til málsins að fresta aðalmeðferð án þess að tilkynna um nýjan tíma til aðalmeðferðar. Þegar bréf þetta er ritað eru þrír mánuðir frá síðustu fyrirtöku, 7. maí sl., en dómari hefur enn ekki boðað til aðalmeðferðar. Af öllu framanrituðu telur stefnandi ljóst að Þórður S. Gunnarsson, héraðsdómari, sé vanhæfur til að fara með málið samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og krefst þess, samkvæmt heimild í 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að hann víki sæti sem dómari í málinu.“

III.

Lögmönnum aðila var í þinghaldinu 11. september, í framhaldi af framlagningu dómskjals nr. 137, gefinn kostur á að tjá sig munnlega um framangreinda kröfu stefnanda.

Af hálfu lögmanns stefnanda var hvað rökstuðning fyrir kröfu stefnanda um að dómari viki sæti sökum vanhæfis vísað til framangreinds rökstuðnings í bréfi lögmannsins frá 7. ágúst, sbr. dómskjal nr. 137.

Lögmaður stefnda mótmælti því að dómara  málsins bæri að víkja sæti með vísan til g.- liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 enda hefði hann undir rekstri málsins, þar með í þinghaldi 7. maí, ekki með neinum hætti, að mati stefnda, tjáð sig um fyrirsjáanleg úrslit málsins. Ábending dómara í þinghaldinu 7. maí um að tilgreindir dómar Hæstaréttar kynnu að hafa þýðingu fyrir úrslit málsins hafi verið sett fram sem spurning til lögmanna en ekki með neinum hætti falið í sér afstöðu dómara til sakarefnisins. Dómari hafi upplýst í þinghaldinu, þegar rætt hafi verið um mögulegan tíma fyrir aðalmeðferð í málinu, að fyrirsjáanlegt væri að málið gæti ekki komið til aðalmeðferðar fyrr en á næsta ári og væri sömu sögu að segja um fjölda mála sem nú biðu aðalmeðferðar, þar sem deilt væri um lögmæti gengistryggingar í fjármögnunar- og kaupleigusamningum. Væri fráleitt að halda því fram að í þeim upplýsingum hafi falist afstaða dómara til sakarefnisins.    

IV.

Í þinghaldi í máli þessu 9. desember 2013 var eftirfarandi fært til bókar:

„Dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. september 2013, í máli nr. E-3286/2012: Suðurverk hf. gegn Lýsingu hf., hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Það er mat dómara að niðurstaða Hæstaréttar í því máli geti skipt verulegu um úrslit máls þess sem hér er til meðferðar og því sé rétt að fresta málinu þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“ Þá er fært til bókar: „Lögmenn samþykkja að málinu sé frestað til föstudagsins 14. mars n.k. kl. 13.30 í dómsal 301 en gera má ráð fyrir að niðurstaða Hæstaréttar muni þá liggja fyrir.“

Vegna veikindaleyfis dómara var fyrirhuguðu þinghaldi í málinu 14. mars frestað til miðvikudagsins 7. maí. „Í þinghaldi þann dag lét dómari bóka eftirfarandi:

„Af hálfu dómara er á því vakin athygli að dómur Hæstaréttar frá 13. mars s.l., í málinu nr. 638/2013, Suðurverk hf. gegn Lýsingu hf., kunni að fela í sér fordæmi vegna þess ágreinings sem uppi er í máli þessu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 3. apríl s.l. í máli nr. 717/2013 og frá 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011.“ Þá lét dómari einnig færa til bókar: „Vegna nýliðins átta vikna veikindaleyfis dómara, sem raskað hefur verulega ráðgerðri dagskrá hans, verður fyrirhugaðri aðalmeðferð í máli þessu, sem vera átti 28. maí n.k., frestað. Boðað verður til aðalmeðferðar með tíðkanlegum hætti. Lögmaður stefnanda bókar mótmæli við frestun aðalmeðferðar. Með vísan til 2. ml. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 beinir dómari því til lögmanna aðila að þeir leggi fram skriflega kröfugerð og talningu málsástæðna við aðalmeðferð málsins.“

Af hálfu stefnanda er því ranglega haldið fram að dómari málsins hafi í þinghaldi í máli þessu, 7. maí s.l., lýst þeirri skoðun sinni að dómur Hæstaréttar frá 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013, Suðurverk hf. gegn Lýsingu hf., væri fordæmi vegna þess ágreinings sem uppi væri í málinu, sbr. einnig einnig dóm Hæstaréttar frá 3. apríl 2014 í máli nr. 717/2013 og frá 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011. Hið rétta er að dómari vakti í þinghaldinu 7. maí athygli lögmanna aðila á tilvitnuðum dómum Hæstaréttar og því að þeir en þó sérstaklega dómur Hæstaréttar í málinu nr. 638/2013 kynnu að fela í sér fordæmi vegna þess ágreinings sem uppi er í málinu.  Eins og áður hefur verið rakið hafði málinu, í þinghaldi 9. desember 2013, með samþykki lögmanna aðila, verið frestað meðan beðið var eftir dómi Hæstaréttar í málinu nr. 638/2013. Af hálfu dómara var aldrei í þinghaldinu 7. maí frekar en framangreind bókun ber með sér, lýst þeirri skoðun að um fordæmi væri að ræða og því „réttast að fella málið  niður“ hvað þá að dómari hafi lagt fast að stefnanda að fella málið niður, líkt og stefnandi heldur fram. Hins vegar taldi dómari eins og bókunin ber með sér fulla ástæðu til að vekja athygli lögmanna aðila á tilvitnuðum dómum með hliðsjón af þeim málsástæðum sem aðilar byggja á í málinu og þeim málsástæðum sem dæmt var um í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar. Það er rangt að dómari hafi krafist þess í þinghaldinu 7. maí að lögmaður stefnandi „reifaði þá þegar helstu ástæður þess að stefnandi teldi forsvaranlegt að halda málinu áfram og hvers vegna stefnandi teldi mál sitt ósambærileg þeim málum sem fjallað var um í framangreindum dómum.“ Hið rétta er að dómari varpaði þeirri spurningu til lögmanns stefnanda í þinghaldinu hvort hann vildi, í því skyni að glöggva dómarann, nefna hvaða málsástæður stefnanda væru efnislega frábrugðnar þeim málsástæðum sem dæmt hefði verið um í tilgreindum Hæstaréttardómum. Lögmaðurinn baðst undan því og náði það því ekki lengra. Í umræddu þinghaldi bauð lögmaður stefnda, án þess að það sé sérstaklega bókað í þingbók, að stefndi væri reiðubúinn að falla frá kostnaði, ef stefnandi vildi fella málið niður. Í því sambandi spurði dómari lögmann stefnanda hvort hann vildi gera hlé á þinghaldinu til að ráðgast við umbjóðanda sinn um tilboð stefnda. Lögmaðurinn taldi ekki þörf á því. Helst er að skilja á málatilbúnaði lögmanns stefnanda, í þessum þætti málsins, að dómari hafi frestað fyrirhugaðri aðalmeðferð málsins þar sem lögmaðurinn hafi ekki viljað fallast á þær meintu skoðanir dómarans að fordæmdi lægi þegar fyrir hvað ágreining aðila varðaði. Ástæðan fyrir frestun aðalmeðferðarinnar er sérstaklega tilgreind í bókun þinghaldins eins og áður hefur verið rakið.   

Með vísan til framangreinds er því hafnað að stefnandi hafi réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni dómara málsins í efa, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögleiddur var með lögum nr. 62/1994. Er sérstaklega áréttað í því sambandi að dómari hefur á engum stigum málsins tjáð sig um líkleg eða fyrirsjáanleg úrslit málsins enda gagnaöflun og málflutningi ekki lokið. Umræður í þinghöldum um mögulega þýðingu dóma Hæstaréttar fyrir niðurstöðu málsins breyta engu í þeim efnum. Kröfu stefnanda um að dómari málsins víki sæti er því hafnað.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfu stefnanda um að dómari víki sæti er hafnað.