Hæstiréttur íslands

Mál nr. 9/2016


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                               

Miðvikudaginn 6. janúar 2016.

Nr. 9/2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann. 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að staðfesta ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfesta ákvörðun hans 29. desember 2015 um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fyrrgreind ákvörðun hans verði staðfest.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þóknunar fyrir Hæstarétti.

Af gögnum málsins og framburði varnaraðila verður ráðið að þá er atburðir þeir urðu 26. desember 2015, sem öðru fremur liggja til grundvallar ákvörðun sóknaraðila um nálgunarbann, hafi varnaraðili ítrekað verið í símsambandi við starfsmann barnaverndarnefndar. Enginn reki sýnist þó hafa verið gerður að því að fá upplýsingar frá þeim starfsmanni í aðdraganda þess að tekin var ákvörðun um að varnaraðili skyldi sæta nálgunarbanni. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2016.

            Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 29. desember 2015 þess efnis að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A,  kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...], öll að [...] Reykjavík á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimili þeirra. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A, B og C eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Mál lögreglu númer 007-2015-[...]

                Í greinargerð sækjanda kemur fram að þann 28. desember 2015 hafi B og dóttir hennar A, kært til lögreglu X fyrir húsbrot, eignaspjöll og hótanir eftir atvikum líkamsárás að [...] í Reykjavík sem hafi átt sér stað 26. desember sl. Kærði og A eigi 5 ára gamlan son, en séu skilin og hafi forræðisdeila staðið yfir og hafi A nú forræði en kærði sé með umgengisréttt samkvæmt sátt frá 21. september 2015. Kvað hún kærða hafa komið að heimili sínu ásamt 14 ára syni kærða og barið á glugga og útidyr og kallað ókvæðisorðum inn um bréfalúgu og hafi A síðar opnað fyrir X, eftir að hann hafi reynt að ryðjast inn í húsið. Kærði hafi verið mjög ógnandi í framkomu og m.a. reynt að skalla hana þar sem hún hafi haldið á syni þeirra. Hafi hann verið með símann á lofti og tekið upp allt í kringum sig. Í látunum hafi útidyrahurðin skemmst svo sjá mátti á henni og körmum í kringum hurðina. Meðan á þessu stóð kvaðst B hafa verið mjög óttasleginn og hrædd, sem og brotaþoli A. Einnig kvaðst C hafa verið mjög hræddur, en hann hafi áður orðið fyrir líkamsárás af hendi kærða, sbr. síðar er nefnt. Kærði játi að hafa verið á vettvangi en gefi aðrar skýringar. Telst þetta einkum varða við 231. gr., 257., 233. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

          B og A hafi kvartað yfir sífelldu símaónæði og sms sendingum undanfarið frá kærða X og áður, síðan forræðisdeilan hófst eða frá árinu 2013. Muni lögreglan afla þeirra gagna.

          Eldri mál þar sem kvartað sé yfir ónæði af hendi kærða X.

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...], frá 17. júlí 2014, en þá hafi verið beðið um aðstoð lögreglu að [...] vegna ónæðis frá kærða. Hafði kærði verið þar með ónæði að heimili þeirra þar sem hann krafðist þessa að fá að sjá son sinn. Hafði kærði m.a. verið með ógnandi hegðan og hafði hann bankað húsið og verið að mynda að utan að sögn C.

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...], ónæði frá kærða frá 19. júlí 2014, kallað til lögreglu þar sem kærði aki fram og til baka fyrir utan heimili kæranda/brotaþola.

Mál lögreglu nr.  007-2014-[...], frá 21. júlí 2014. B lagði fram beiðni um nálgunarbann, en lögreglustjóri hafi hafnað beiðninni með bréfi 22. júlí 2014. Kvað kærða hafa hringt og sent tölvupósta á sig og vinnuveitanda.

Mál lögreglu nr. 007-2013-[...] og – [...], frá 12. og 26. nóv. 2013, þá kærðu B og C símaónæði frá X. 

Mál lögreglu nr. 007-2013-[...] 19. nóvember  2013, dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...]. janúar 2015, s-[...]/2015

Þar hafi kærði, X, verið sakfelldur fyrir líkamsárás á C, að heimili hans að [...] í Reykjavík. Kærði hafi þar hlotið 30 daga fangelsi og gert að greiða bætur. Því máli hafi verið áfrýjað og verði tekið fyrir í Hæstarétti í janúar nk. 2016.

          Lögreglustjóri byggir ákvörðun sína um nálgunarbann á því að X sé nú sterklega grunaður um húsbrot, eignaspjöll og eftir atvikum hótanir og  líkamsárás, þann, 26. desember sl., að sameiginlegu heimili brotaþola og foreldra hennar eins og áður sé lýst en einnig liggi til grundvallar ákvörðunar lögreglustjóra áðurgreind mál og bókanir úr kerfi lögreglunnar.

           Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt þegar litið sé til fyrri sögu þá sé talin hætta á að hann muni halda háttsemi sinni áfram sé hann látinn afskiptalaus. Það sé mat lögreglustjóra að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2001 séu uppfyllt enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að X hafi brotið gegn A,  kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...], öllum að [...] í Reykjavík og að hætta sé á því að hann haldi áfram að raska friði þeirra og velferð  í skilningi 4. gr. laga nr. 85/20011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.

Niðurstaða

         Í máli þessu er krafist staðfestingar á ákvörðun lögreglustjóra frá 29. desember sl. þar sem varnaraðila var bannað að nálgast barnsmóður sína og foreldra hennar. Heimild er til að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á því að viðkomandi brjóti þannig gegn brotaþola, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þessu úrræði verður þó aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2011, og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

                Eins og gögn málsins bera með sér hafa A og móðir hennar, B, lagt fram kæru á hendur varnaraðila vegna húsbrots og eignaspjalla sem eiga að hafa átt hafi sér stað 26. desember sl. á heimili þeirra að [...], auk þess sem í lögregluskýrslu er talið að varnaraðili hafi sýnt af sér heimilisofbeldi. Í greinargerð lögreglu er jafnframt talið að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um hótanir og líkamsárás.

                A og varnaraðili eiga son saman eins og rakið hefur verið. Þau gerðu með sér dómsátt um forsjá hans og umgengni 21. september 2015. Þar varð að samkomulagi að A færi með forsjá drengsins en að varnaraðili ætti umgengnisrétt sem ítarlega var fjallað um í dómsáttinni. Þar var meðal annars kveðið á um umgengni jólin 2015. Kemur þar fram að barnið skuli vera hjá móður til 26. desember. Samkvæmt dómsáttinni átti faðir þá að sækja barnið á heimili móður kl. 19.00. Síðar er þó kveðið á um að um áramótin skuli varnaraðili eiga umgengni við barnið frá kl. 20.00. Skuldbatt A sig til þess með dómsáttinni að sjá til þess að foreldrar hennar væru ekki viðstaddir þegar varnaraðili kæmi að sækja drenginn. Samkvæmt framansögðu átti varnaraðili lögmætt erindi þann 26. desember sl. á heimili kærenda að [...] þar sem hann átti að sækja son sinn sem átti að fá að dvelja með föður sínum til 3. janúar 2016 samkvæmt framangreindri dómsátt.

                Í málinu liggja fyrir sms-skeytasendingar milli A og varnaraðila 26. desember sl. þar sem varnaraðili spyr A hvort hann geti gengið að því vísu að foreldrar hennar verði ekki heima kl. 13 þegar hann komi að sækja drenginn. A leiðréttir þá varnaraðila og segir að hann eigi að koma kl. 20 til að sækja drenginn. Spyr varnaraðili þá að nýju hvort tryggt verði að foreldrar hennar verði ekki á staðnum. A svarar því ekki og lýkur samskiptum þeirra um hádegi á þann veg að varnaraðili kveðst reikna með því að A komi með drenginn til hans kl. 20 fyrst hún geti ekki staðfest að foreldrarnir verði ekki á staðnum.

                Í skýrslu sem tekin var af varnaraðila hjá lögreglu 29. desember sl. lýsir hann atvikum á þann veg að hann hafi komið að [...] kl. 20 þann 26. desember sl. til að sækja son sinn. Kveðst hann hafa bankað á dyrnar en enginn komið til dyra. Hafi hann þá gengið meðfram húsinu og kíkt inn um glugga og séð föður A sitjandi í stól. Hafi varnaraðili þá bankað að nýju á aðaldyrnar og bakdyrnar en ekki hafi verið opnað fyrir honum. Hafi hann og A þá skipst á nokkrum sms-skeytum.

                Í málinu liggja fyrir sms-skeyti sem hefjast kl. 20.13. Biður A þá varnaraðila um að hætta að „hamra um allt hús“. Gerir varnaraðili A þá grein fyrir því að hann hyggist kalla til lögreglu og barnavernd. Sakar A þá varnaraðila um endalausar hótanir og ógnanir og ekki sé hægt að bjóða barninu þetta. Um kl. 20.27 sendi A honum sms-skeyti þar sem hún segir að varnaraðili geti komið kl. 10.00 morguninn eftir til að sækja drenginn.

                Í lögregluskýrslu af varnaraðila kemur fram að hann hafi verið í símasambandi við barnaverndarstarfsmann þegar A hafi opnað dyrnar með son þeirra í fanginu. Þegar hann hafi rétt út hendurnar til að taka við drengnum hafi A skellt hurðinni á handlegginn á varnaraðila og hrópað „ertu að skalla mig“. A hafi síðan farið inn en móðir hennar komið fram í anddyrið. Hafi hún ýtt varnaraðila og eldri syni hans sem hafi verið með í för út úr húsinu. Síðan hafi hún skellt hurðinni en við það hafi jólakrans sem var á henni hrunið og fallið í hurðarfalsið þannig að hurðin hafi ekki lokast. Hafi B þá haldið áfram að skella hurðinni uns henni hafi tekist að loka dyrunum. Hafi varnaraðili þá yfirgefið staðinn. Kannaðist hann ekki við að hafa barið með offorsi á glugga og hurðir og þvertekur fyrir það að hafa skemmt útidyrnar eða nokkurn hlut. Þá sé það rangt að hann hafi reynt að skalla A.

                A segir í skýrslu sem hún gaf hjá lögreglu 28. desember sl. að varnaraðili hafi átt að sækja drenginn 26. desember sl. kl. 20.00. Hafi varnaraðili komið á þeim tíma og farið að hamra með þungum höggum á dyr og glugga. Hafi henni brugðið og farið með son sinn inn í svefnherbergi. Hafi hún því næst sent varnaraðila sms-skeyti þar sem hún hún hafi beðið hann um að hætta að berja á húsið. Hún hafi síðan opnað útidyrnar og ætlað að ræða við varnaraðila. Hafi hún þá séð að það þýddi ekki og ætlað að loka hurðinni aftur, en varnaraðili hafi þá sett höndina milli stafs og hurðar. Hann hafi síðan gert tilraun til að skalla hana þar sem hún hafi verið við dyrnar með drenginn þeirra í fanginu. Hún hafi síðan hlaupið inn í húsið en lokað millihurðinni. Kveðst hún hafa heyrt brothljóð frammi í anddyri. Móðir hennar hafi farið fram og rætt við varnaraðila og hafi hann síðan horfið af braut.

                Í lögregluskýrslu af B kveðst hún hafa verið mjög skelkaða þegar varnaraðili hafi kallað inn um bréfalúguna: „[...], pabbi er hér, kominn til að sækja þig.“ Hafi hún þá falið sig í vinnuherberginu í u.þ.b. hálftíma. Hafi hún þá heyrt brothljóð og farið fram. Hafi A þá staðið á gólfinu með drenginn í fanginu, en varnaraðili hafi þá verið í anddyrinu bakvið lokaðar dyr. Hún hafi þá farið fram í anddyrið og hafi varnaraðili og eldri sonur hans þá farið út. Ekki hafi verið hægt að loka útidyrahurðinni þar sem búið hafi verið að setja drasl í hurðarfalsið. Síðar hafi komið í ljós að þetta hafi verið jólakrans. Kvað B að útidyrnar væru mikið skemmdar eftir að varnaraðili hafi brotið þær upp, en hurðin væri að öllum líkindum ónýt. Þá væri jólakransinn ónýtur.

                Samkvæmt framansögðu bera aðilar á ólíkan hátt um atvik þegar varnaraðili átti að sækja son hans og A samkvæmt dómsátt. Eins og málið liggur fyrir er einungis við frásögn varnaraðila og A að styðjast um samskipti þeirra eftir að hún opnaði dyrnar að [...]. Gegn lýsingu varnaraðila á atvikum telur dómurinn ekki hægt að staðhæfa að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um tilraun til líkamsárásar á A eða húsbrot. Er þá meðal annars litið til þess sem að framan greinir um lögmæta ástæðu þess að varnaraðili var þangað kominn en ekkert bendir til annars en að einungis hafi vakað fyrir honum að sækja son sinn í samræmi við dómsáttina. Þá liggur ekki fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi í umrætt sinn hótað þeim einstaklingum sem hér um ræðir. Miðað við gögn málsins eru atvik málsins einnig óljós um það hvort varnaraðili beri sök á því að skemmdir urðu á hurð og jólaskreytingu sem á henni hékk. Þá er ekki unnt að fallast á að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa í umrætt sinn raskað friði ætlaðra brotaþola þannig að réttlætt geti að honum verði gert að sæta nálgunarbanni. Ekki liggur því fyrir að skilyrðum a-liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili sé fullnægt. Þá liggur ekki fyrir að hætta sé á því að varnaraðili muni brjóta á þennan hátt gegn brotaþolum, en þau mál sem vísað er til í ákvörðun lögreglustjóra og tengjast erfiðum samskiptum aðila eru orðin það gömul að þau hafa ekki þýðingu í þessu sambandi. Af þessum sökum ber að hafna kröfu sóknaraðila í málinu.

                Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og skipaðs réttargæslumanns brotaþola skal greiddur úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Hafnað er kröfu sóknaraðila um að ákvörðun hans frá 29. desember 2015 um að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni í 6 mánuði gagnvart A, B og C.

Þóknun verjanda varnaraðila, Láru V. Júlíusdóttur hrl., og réttargæslumanns brotaþola, Katrínar Theodórsdóttur hdl., 200.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.