Hæstiréttur íslands

Mál nr. 361/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Verjandi
  • Gögn


Mánudaginn 2

 

Mánudaginn 2. september 2002.

Nr. 361/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri)

gegn

X

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Kærumál. Verjandi. Gögn.

Héraðsdómslögmaðurinn J krafðist þess að sér yrðu afhent gögn, sem lögregla lagði fyrir héraðsdómara, vegna rannsóknar sem beindist að X. Í skýrslu, sem lögreglan tók af X, kom fram að hún hafi þá tilnefnt J til að starfa sem verjanda sinn og var hann staddur við skýrslugjöf hennar. Þrátt fyrir það var þess hvergi getið í skýrslunni eða öðrum gögnum málsins að lögmaðurinn hefði verið skipaður verjandi X, hvorki við skýrslugjöf hennar hjá lögreglunni né á síðari stigum. Í dómi Hæstaréttar segir að ákvæði 43. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999, mála taki eftir hljóðan sinni til réttinda verjanda til að fá afhent gögn, sem tengist lögreglurannsókn. Með því að umræddur lögmaður hafi ekki hlotið skipun sem verjandi X verði sú krafa, sem sé höfð uppi í málinu, ekki gerð á grundvelli þessa lagaákvæðis. Var ákvörðun héraðs dómara um að hafna kröfu J því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. ágúst 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2002, þar sem hafnað var kröfu lögmanns varnaraðila um að sér yrðu afhent gögn vegna rannsóknar sóknaraðila, sem beinist að varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að verjanda hennar verði afhent gögn, sem sóknaraðili lagði fyrir héraðsdómara til skoðunar í þinghaldi 31. júlí 2002, en ella verði héraðsdómara gert að hafna að taka við þeim gögnum. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

I.

Samkvæmt gögnum málsins barst sóknaraðila 16. júlí 2002 ósk frá Barnavernd Reykjavíkur um að leit yrði gerð að Y, syni varnaraðila, sem er 16 ára að aldri. Mun varnaraðili hafa verið svipt forsjá yfir drengnum í febrúar 2002 og barnaverndaryfirvöld tekið við henni. Á þeirra vegum mun hann hafa verið vistaður á meðferðarheimilinu [...]. Mun drengurinn hafa fengið heimild til að fara þaðan til [...] til að hitta systur sína og dvalist þar um nokkurra daga skeið, en farið með flugvél frá [...] síðdegis 15. júlí 2002 til Reykjavíkur, þar sem hann hafi síðan átt að fara með annarri flugvél til [...]. Upplýst mun hafa verið að hann hafi komið til Reykjavíkur eins og ráðgert var, en ekki haldið för sinni áfram til [...]. Taldi Barnavernd Reykjavíkur ástæðu til að ætla að drengurinn hefði síðan verið með varnaraðila.

Lögreglan hóf þegar leit að varnaraðila og drengnum, en leitin bar ekki árangur fyrr en aðfaranótt 25. júlí 2002 þegar komið var að þeim í vinnuskúr við [...] í Reykjavík, þar sem þau dvöldust. Varnaraðili var þá handtekin. Lögreglan gerði í framhaldi af því leit á dvalarstað varnaraðila og drengsins, þar sem lagt var hald á dagbók í eigu hennar. Varnaraðili var eftir handtöku vistuð í fangageymslu þar til nokkru eftir hádegi 25. júlí 2002, þegar lögreglan tók skýrslu af henni. Í skýrslunni var þess getið að hún hafi tilnefnt Jón Einar Jakobsson héraðsdómslögmann sem verjadagbók í eigu hennar. Varnaraðili var eftir handtöku vistuð í fangageymslu þar til nokkru eftir hádegi 25. júlí 2002, þeganda sinn og hafi hann verið staddur við skýrslugjöf hennar. Varnaraðili var síðan leyst úr haldi þegar skýrslutöku var lokið.

Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júlí 2002 krafðist varnaraðili þess að sóknaraðila yrði með vísan til 79. gr. laga nr. 19/1991 gert að skila henni fyrrnefndri dagbók. Þessi krafa var tekin fyrir á dómþingi 31. sama mánaðar. Afhenti þá sóknaraðili héraðsdómara rannsóknargögn málsins til skoðunar. Áðurnefndur lögmaður, sem mættur var í þinghaldinu af hálfu varnaraðila, krafðist þess að fá eintak af þessum gögnum á grundvelli 43. gr. laga nr. 19/1991, en mótmælti því að þau yrðu ella lögð fyrir dómara. Héraðsdómari hafnaði þessum kröfum með hinni kærðu ákvörðun.

II.

Eins og áður greinir kom fram í skýrslu, sem lögreglan tók af varnaraðila 25. júlí 2002, að hún hafi þá tilnefnt Jón Einar Jakobsson héraðsdómslögmann til að starfa sem verjandi sinn og var hann staddur við skýrslugjöf hennar. Þrátt fyrir það er þess hvergi getið í skýrslunni eða öðrum gögnum málsins að lögmaðurinn hafi verið skipaður verjandi varnaraðila, hvorki við skýrslugjöf hennar hjá lögreglunni né á síðari stigum. Ákvæði 43. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999, tekur eftir hljóðan sinni til réttinda verjanda til að fá afhent gögn, sem tengjast lögreglurannsókn. Með því að umræddur lögmaður hefur samkvæmt framansögðu ekki hlotið skipun sem verjandi varnaraðila verður sú krafa, sem er höfð uppi í málinu, ekki gerð á grundvelli þessa lagaákvæðis. Samkvæmt því verður að staðfesta ákvörðun héraðsdómara.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

 

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2002

Ár 2002, miðvikudaginn 31. júlí, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Eggerti Óskarssyni héraðsdómara.

Tekið er fyrir:

Mál nr. R-345/2002

X

gegn

lögreglustjóranum í Reykjavík.

lögreglustjóranum í Reykjavík.

[…]

Af hálfu sóknaraðila sækir þing Jón E. Jakobsson hrl.

Af hálfu varnaraðila sækir þing Katrín Hilmarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Hún afhendir dómara rannsóknargögn málsins til skoðunar.

Lögmaður sóknaraðila gerir kröfu með vísan til 43. gr. laga nr. 19/1991 til að fá rannsóknargögn málsins sem lögð hafa verið fyrir dómara, en mótmælir því ella að þau verði lögð fyrir dómara.

Fulltrúi lögreglustjóra mótmælir framkominni kröfu sóknaraðila um afhendingu rannsóknargagna á þessu stigi málsins. Gögnin séu lögð fyrir dómara í því skyni að hann geti kynnt sér þau.

Lögmaður sóknaraðila og fulltrúi lögreglustjóra tjáðu sig um ágreiningsefnið fyrir dóminum sem síðan var lagt fyrir dómara til ákvörðunar.

Með vísan til  2. ml. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 er það ákvörðun dómsins að hafna beiðni sóknaraðila um afhendingu rannsóknargagna málsins sem lögð hafi verið fyrir dómara.

Lögmaður sóknaraðila lýsir því yfir að hann kæri ákvörðun dómara til Hæstaréttar Íslands.

Dómþingi slitið.

Eggert Óskarsson.