Hæstiréttur íslands
Mál nr. 600/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn
17. september 2012. |
|
Nr. 600/2012. |
Ákæruvaldið (Alda Hrönn Jóhannsdóttir
fulltrúi) gegn X (Grímur Sigurðarson hdl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á
grundelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar
Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til
Hæstaréttar með kæru 14. september 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum
17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. september 2012,
þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 11.
október 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði
úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hann verði látinn sæta farbanni í
stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður
skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar
hins kærða úrskurðar.
Krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald
yfir varnaraðila er eingöngu reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Eftir
því ákvæði verður sakborningur úrskurðaður í gæsluvarðhald ef sterkur grunur
leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi,
enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til
almannahagsmuna. Samkvæmt þessu er ekki nægilegt að tvö fyrstnefndu skilyrðin
séu fyrir hendi svo gæsluvarðhald verði úrskurðað á grundvelli ákvæðisins,
heldur verður brotið, sem sakborningi er gefið að sök, jafnframt að vera þess
eðlis, með hliðsjón af atvikum máls hverju sinni, að frelsissvipting í formi
varðhalds sé nauðsynleg með tilliti til hagsmuna almennings.
Ekki verður talið að sóknaraðili
hafi sýnt fram á að nauðsyn beri til að úrskurða varnaraðila í gæsluvarðhald
með tilliti til almannahagsmuna í skilningi 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn
kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. september
2012.
Ríkissaksóknari hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur
Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði með
úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtu 11. október 2012 kl.
16:00.
Varnaraðili mótmælti kröfunni en gerði til vara að
gæsluvarhaldinu berði markaður skemmri tími.
Segir í greinargerð saksóknara að þann 25. maí 2012 kl. 16:38
hafi A, kt. [...] komið til landsins með flugi frá
Kaupmannahöfn. Tollgæslan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafði afskipti af A
ásamt kærasta hennar B, fd. [...], dönskum
ríkisborgara.
Þegar tekið var Itemiser stroksýni
úr tösku sem A hafði meðferðis kom fram há svörun við kókaín. Er stungið var í
töskuna mátti sjá hvítt duft, ætlað kókaín.
Tæknideild lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu rannsakaði
meint fíkniefni og í töskunni voru falin 569,15 g af meintu kókaíni. Efnin voru
rannsökuð af rannsóknarstofu Háskóla Íslands og skv. matsgerð rannsóknarstofunnar
er um að ræða 75 % kókaín sem samsvarar 84% kókaínklóríði. Meint fíkniefni voru falin inn í harðplasti á
hliðum töskunnar.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafði sterkan grun um að C, kt. [...] og D, kt. [...] ættu
aðild að innflutningi hinna meintu fíkniefna. A er móðir D.
C var ásamt D handtekinn þann 25. maí sl. vegna rannsóknar
málsins.
Varnaraðili var erlendis er handtökur fóru fram en skv.
gögnum lögreglu var hann staddur í Danmörku.Varnaraðili hefur verið eftirlýstur af lögreglu frá 25.
maí sl. og hefur lögreglu ekki tekist að hafa upp á varnaraðila fyrr en nýverið
þegar hann var handtekinn af lögreglunni í Hollandi vegna annars máls. Lögregla
hafði þá lýst eftir varnaraðila í gegnum alþjóðalögregluna Interpol og var hann
framseldur til Íslands þann 5. september 2012 vegna rannsóknar þessa máls.
Við rannsókn málsins hlustaði lögregla heimili C og D að
[...]. Þann 14.5.2012 hlustaði lögregla á samtal þar sem lögregla ætlar að
varnaraðili og D ræði saman um innflutning á fíkniefnunum með ferðatösku sem A
ætti að koma með til landsins. Í samtalinu greinir varnaraðili að mati lögreglu
frá því að hann sé að fara til Danmerkur. D hefur borið um það í skýrslutöku
lögreglu að hún hafi verið að ræða við varnaraðila og að þau hafi verið að ræða
um ætlaðan innflutning sem síðar átti sér stað. Varnaraðili hefur í skýrslutöku
hjá lögreglu borið um að hann muni ekkert eftir þessu og neitað sök. Þann
15.5.2012 hlustaði lögregla á samtal þar sem lögregla ætlar að varnaraðili, D
og C ræði frekar um skipulagningu á þeim fíkniefnum sem A kom með til landsins.
Meðal annars er rætt um kaup á fatnaði í töskuna og hver ætti að afhenda A
töskuna í Danmörku. Að mati lögreglu kemur fram í samtalinu að stúlka að nafni
E hafi átt að afhenda töskuna til A. D hefur í skýrslutöku hjá lögreglu neitað
aðild að þessu samtali. varnaraðili hefur í skýrslutöku hjá lögreglu borið að
hann muni ekki eftir þessum samtölum og er ekki viss um að þetta sé hann. Þá
hefur hann borið um að hafa ásamt unnustu sinni keypt fatnað að beiðni D og
afhent vinkonu hennar fötin, kannaðist hann við að hún héti E en mundi ekki
hvar þau hefðu afhent henni fatnaðinn.
Við yfirheyrslur viðurkenndu A og E, kt.
[...] að E hefði afhent A töskuna.
Við rannsókn málsins hefur lögregla aflað frekari gagna sem
rökstyðja grun lögreglu um aðild varnaraðila, C og D að innflutningi fíkniefna
og sölu og dreifingu ávana- og fíkniefna. Er það ætlun lögreglu að varnaraðili
hafi rætt við D og C um meint burðardýr til innflutnings fíkniefna í samskiptum
sem lögregla hlustaði á heimili þeirra síðarnefndu.
Varnaraðili hefur tvívegis verið yfirheyrður frá handtöku.
Hefur varnaraðili veitt lögreglu takmarkaðar upplýsingar og þegar upptökur frá [...]
voru bornar undir varnaraðila þar sem hann er að mati lögreglu að ræða við D og
C um innflutning fíkniefna kvaðst varnaraðili m.a. ekki muna hvort að hann hefði
verið í íbúðinni á [...] á umræddum
tímum og sagðist ekki vera viss um að hann væri sá maður sem væri að tala á
upptökunum. Verulegt misræmi þykir vera í framburði varnaraðila, D og vitna.
D og C hafa verið ákærð fyrir meinta aðild sína að málinu og
hefur málið verið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness.
Lögregla hefur sterkan grun um að varnaraðili hafi tekið
þátt í skipulagningu innflutningsins og vísar lögregla í samtöl þess efnis sem
voru hljóðrituð á [...] heimili C og D. Þá vísast jafnframt til þess að
lögregla telur sterkan grun vera fyrir hendi um að varnaraðili hafi útvegað
töskuna og séð um að útbúa hana með efnunum til Íslandsfarar en auk þess haft
milligöngu um að koma töskunni til framangreindrar E sem mun svo hafa afhent
móður D sem flutti svo töskuna til landsins eins og að framan greinir.
Vísast nánar til meðfylgjandi gagna málsins.
Rannsókn þessa máls er lýtur að aðild varnaraðila að
umræddum innflutningi er á lokastigi. Magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar
hafa fundist, þykir eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið
ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173.
gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 auk ákvæða laga nr. 65, 1974 um
ávana- og fíkniefni.
Varnaraðili þykir vera undir sterkum grun um stórfellt
fíkniefnalagabrot. Er lagt til grundvallar að um er að ræða mikið magn
hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þykir að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og
dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot varnaraðila
þykir mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þykir þannig einnig
nauðsynlegt að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til
meðferðar en telja verður að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn
alvarlegu broti og hann er sterklega grunaður um, gangi laus áður en máli lýkur
með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings.
Staða varnaraðila í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum
málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 659/2011, 290/2010, 164/2010, 91/2010, 56,2010,
136/2008, 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005,
488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hefur verið gert
að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hefur fyrir sterkur grunur um
beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Er ekki
talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum
hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og er talið að skilyrðum 2.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem
hér um ræðir.
Með vísan til alls framangreinds, 2. mgr. 95. gr. laga nr.
88, 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940,
laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni, telur lögreglustjóri
rannsóknarhagsmuni og almannahagsmuni standa til þess að varnaraðila verði gert
að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 11. október 2012 kl. 16.00.
Brot það sem vararaðili er sterklega grunaður um að eiga
þátt í varðar allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940. Er brotið þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með
tilliti til almannahagsmuna. Engin efni þykja til að beita vægari úrræðum. Höfð
er hliðsjón af þætti varnaraðila í brotinu, magns og styrkleika umræddra
fíkniefna, en úr þeim fást samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu H.Í. í lyfja- og
eiturefnafræðum, 1.940 g af kókaíni miðað við almennan neyslustyrk, og dóms
Hæstaréttar í máli nr. 593/2006. Verður því fallist á kröfu ríkissaksóknara um
að varnaraðili skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi, nú á grundvelli 2. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til
fimmtudagsins 11. október 2012 kl. 16:00.