Hæstiréttur íslands

Mál nr. 528/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samaðild
  • Vátrygging
  • Umferðarlög


Miðvikudaginn 18

 

Miðvikudaginn 18. október 2006.

Nr. 528/2006.

Björn Sigurðsson

(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Kærumál. Samaðild. Vátrygging. Umferðarlög.

B stefndi V hf. til greiðslu skaðabóta vegna tjóns, sem hann hafði orðið fyrir í umferðarslysi. Þegar málið var höfðað höfðu lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga ekki tekið gildi og gátu þau því ekki haft þýðingu við úrlausn þess. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa bæri málinu frá dómi, þar sem á þeim tíma var ótvírætt að ekki var unnt að höfða mál til greiðslu skaðabóta á grundvelli umferðarlaga gegn vátryggingafélagi einu sér, sbr. 1. mgr. 97. gr. laganna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2006, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili stefnt varnaraðila einum til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem sá fyrrnefndi telur sig hafa orðið fyrir árið 1994 þegar bifreið, sem var vátryggð með lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá  varnaraðila, var ekið aftan á bifreið, sem sóknaraðili ók. Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 24. gr. laga nr. 44/1993, ber skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) vélknúins ökutækis ábyrgð á því og er fébótaskyldur samkvæmt 88. og 89. gr. umferðarlaga. Skal greiðsla á bótakröfu fyrir tjón sem hlýst af notkun bifreiðar vera tryggð með ábyrgðartryggingu, sem eiganda bifreiðar er lögskylt að taka hjá viðurkenndu vátryggingafélagi samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna með áorðnum breytingum. Viðkomandi félagi ber að standa skil á greiðslu bóta til tjónþola, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna. Í 1. mgr. 97. gr. segir að þegar einkamál er höfðað til heimtu bóta gegn þeim, sem bótaskyldur er samkvæmt 90. gr., skuli slíkt mál jafnframt höfðað gegn vátryggingafélagi því, sem hefur ábyrgðartryggt ökutækið. Ákvæðið hefur verið skilið á þann veg að tjónþoli verði að stefna þeim er ábyrgð ber á bifreiðinni sem olli tjóninu ásamt viðkomandi vátryggingafélagi. Ekki sé því unnt að stefna félaginu einu sér, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 173/1971, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1236.

Til stuðnings kröfu sinni um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi vísar sóknaraðili meðal annars til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, en þar er fjallað um réttarstöðu tjónþola gagnvart vátryggingafélagi þegar tjónvaldur hefur ábyrgðartryggingu. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að ef vátrygging tekur til tjóns vátryggðs vegna skaðabótaábyrgðar, sem hann ber, geti tjónþoli krafist bóta beint frá félaginu. Á það við jafnvel þótt félagið geti í þessum tilvikum haft uppi mótbárur gegn kröfu tjónþola á grundvelli reglna vátryggingaréttar. Ofangreind lög tóku gildi 1. janúar 2006. Ekki er þar mælt fyrir um hvaða reglum skuli fylgt ef mál hefur verið höfðað fyrir gildistöku þeirra. Það mál sem hér er til umfjöllunar var höfðað 30. júlí 2004. Þar sem lög nr. 30/2004 höfðu þá ekki tekið gildi geta þau þegar af þeirri ástæðu ekki haft þýðingu við úrlausn í máli þessu. Á þeim tíma var ótvírætt að ekki var unnt að höfða mál til greiðslu skaðabóta á grundvelli umferðarlaga gegn vátryggingafélagi einu sér, eins og vikið var að hér að framan, heldur bar að höfða það einnig gegn eiganda eða umráðamanni bifreiðarinnar, sem olli tjóninu. Er því fallist á að vísa hafi átt málinu frá dómi án kröfu og breytir engu þó að það hafi ekki verið gert fyrr en nokkur tími var liðinn frá því að greinargerð varnaraðila var lögð fram í málinu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2006.

Mál þetta var höfðað 30. júlí 2004 og tekið til úrskurðar 20. september 2006.  Stefnandi er Björn Sigurðsson, Ofanleiti 5, Reykjavík, en stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.510.535 krónur með 2% ársvöxtum frá 7. ágúst 1994 til 1. maí 1999 en þá af nefndri fjárhæð með 4,5% ársvöxtum frá þeim tíma til stefnubirtingardags, en þá af nefndri fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.036.482 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 7. ágúst 1994 til 1. júlí 1999 en þá með 4,5% ársvöxtum af nefndri fjárhæð til stefnubirtingardags, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af nefndri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. 

Í báðum tilvikum krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri ekki rekið sem gjafsóknarmál, að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.  Til vara krefst hann þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður í því tilviki felldur niður.

Málavextir eru þeir að stefnandi slasaðist er hann lenti í bifreiðaslysi hinn 7. ágúst 1994 er bifreiðinni RA-321 var ekið aftan á bifreiðina JB-905 sem stefnandi ók umrætt sinn.  Gerðist þetta við Þyril í Hvalfirði en samkvæmt gögnum málsins hafði stefnandi stöðvað bifreið sína vegna búfjár á veginum er áreksturinn varð.

Í kjölfar slyssins leitaði stefnandi til slysadeildar og kvartaði undan einkennum í hálsi og doða í hægri hendi og var sjúkdómsgreiningin sú að hann hefði tognað á hálsi.  Stefnandi leitaði síðan til Jóns Guðgeirssonar læknis sama dag og fékk hjá honum verkjalyf.  Kemur fram í læknisvottorði hans að stefnandi hefði eftir slysið haft vaxandi óþægindi frá hálsi með verki út í herðar, handleggi og stundum dofatilfinningu fram í fingur sérstaklega á vinstri hendi.  Þá hafi hann haft höfuðverk í hnakka og fram í enni og átt erfitt með að einbeita sér og sitja lengi við lestur eða skriftir.  Þá hafi þessu fylgt svefntruflanir.  Þá kemur fram í vottorði læknisins að ofannefnt einkenni hafi vaxið með árunum og seinni árum farið að bera á sjóntruflunum á vinstra auga.  Þá kveður læknirinn greinilegt að stefnandi hafi hlotið svokallaðan “whiplash“ áverka við slysið.

Að kröfu stefnanda voru dómkvaddir matsmenn hinn 28. janúar 2005 til að meta afleiðingar umferðarslyssins. Hinir dómkvöddu matsmenn, Björn Daníelsson lögfræðingur og Grétar Guðmundsson læknir, skiluðu matsgerð hinn 3. október 2005.  Í niðurstöðu matsgerðarinnar kemur fram að tímabundið atvinnutjón sé ekkert og stöðugleikatímapunktur sé ákveðinn 7. janúar 1995.  Var það niðurstaða matsmanna að ekki hafi verið að vænta frekari bata á heilsufari matsbeiðanda vegna afleiðinga slyssins þegar sex mánuðir voru liðnir frá tjónsdegi.  Sé þá fyrst og fremst miðað við hjöðnun á tognunareinkennum í hálsi og baki og liggi nú fyrir að engin einkenni standi eftir í baki sem máli skipti. Þá er það niðurstaða matsmanna að tímabil þjáningarbóta sé frá 7. ágúst 1994 til 7. janúar 1995, varanlegur miski sé 10% og varanleg örorka 15%.

Meginágreiningur aðila snýst um það hvort krafa stefnanda sé fyrnd á grundvelli fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaganna.  Stefnandi heldur fram að afleiðingar slyssins hafi ekki legið fyrir fyrr en nú á síðari árum og hafi hann því ekki átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar fyrr.  Gildi því um slys þetta tíu ára fyrningarfrestur samkvæmt fyrrgreindu ákvæði.  Stefndi hins vegar telur að stöðugleikapunkti hafi verið náð hinn 7. janúar 1995 og hafi stefnandi þá getað látið meta örorku sína af völdum slyssins.  Hafi fyrningarfresturinn byrjað að líða um áramótin 1995/1996 og því runnið út í árslok 1999.  Í málinu er ekki deilt um örorku stefnanda heldur er ágreiningur um útreikning bóta vegna varanlegrar örorku teljist krafa stefnanda ekki fyrnd.

Eins og rakið hefur verið var mál þetta höfðað 30. júlí 2004, viku áður en tíu ár voru liðin frá tjónsatburði þeim sem fjallað er um í máli þessu.  Var það svo þingfest hinn 2. september 2004.  Af bókunum í þingbók sést að lögmenn aðila fengu málinu margítrekað frestað til gagnaöflunar áður en málið fór út af reglulegu dómþingi til úthlutunar dómstjóra 12. janúar 2006.  Var máli þessu svo úthlutað undirrituðum dómara hinn 1. febrúar 2006.  Eftir það var málinu enn frekar frestað ítrekað að ósk stefnanda vegna gagnaöflunar og loks var aðalmeðferð málsins ákveðin hinn 20. september 2006 og hinn 7. júní 2006 fékk stefnandi leyfi til gjafsóknar.

Við athugun dómara á málinu áður en aðalmeðferð skyldi fara fram kom í ljós að grundvöllur kröfu stefnanda á hendur stefnda byggist á því að sá aðili, sem ók bifreiðinni á bifreið stefnanda með þeim afleiðingum að stefnandi varð fyrir tjóni á heilsu sinni, var með lögbundna ábyrgðartryggingu hjá stefnda.  Þetta kom hins vegar ekki skýrt fram í stefnu málsins.  Þar sem þeim aðila var ekki stefnt í málinu taldi dómari að það kynni að vera slíkur galli á málinu að varðað gæti frávísun þess án kröfu.  Í þinghaldi hinn 20. september 2006 var ákveðið að leysa úr þessu álitaefni áður en málið yrði tekið til aðalmeðferðar og var lögmönnum aðila gefinn kostur á að tjá sig um þetta álitaefni munnlega, sbr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Eftir að lögmenn höfðu reifað sín sjónarmið var málið tekið til úrskurðar.

Samkvæmt 90. gr. umferðarlaga ber skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) vélknúins ökutækis ábyrgð á því og er fébótaskyldur samkvæmt 88. og 89. gr. umferðarlaga.  Þá segir í 1. mgr. 97. gr. laganna að sé höfðað einkamál til heimtu bóta gegn þeim sem bótaskyldur er samkvæmt 90. gr. skuli þá höfða slíkt mál jafnframt gegn tryggingarfélagi því sem ábyrgðartryggt hefur ökutækið.  Verður ákvæði 1. mgr. 97. gr. laganna ekki skýrt á annan hátt að tjónþoli geti þannig hvorki stefnt hinum bótaskylda einum né tryggingarfélaginu einu til greiðslu bóta fyrir tjón af notkun bifreiðar. Þar sem stefnandi hefur í máli þessu einungis stefnt tryggingarfélaginu og því ekki gefið hinum meinta tjónvaldi, sem tryggður var hjá stefnda, kost á að láta mál þetta til sín taka, verður með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa máli þessu sjálfkrafa frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals að fjárhæð 1.174.350 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans sem þykir hæfilega ákveðin 750.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, Björns Sigurðssonar, samtals að fjárhæð 1.174.350 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Magnúsar B. Brynjólfssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 750.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.