Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Miðvikudaginn 15

 

Miðvikudaginn 15. júní 2005.

Nr. 224/2005.

Þrotabú Sveinbjörns Ragnarssonar

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

gegn

Icedent ehf.

Guðjóni Inga Árnasyni og

Helga Guðjónssyni

(Bjarni S. Ásgeirsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem Þ var gert að setja 300.000 króna málskostnaðartryggingu í máli sem búið hafði höfðað á hendur I, G og H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2005, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 300.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð í 250.000 krónur eða „aðra lægri fjárhæð að mati Hæstaréttar.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað.

Samkvæmt gögnum málsins var bú fyrirtækisins Útifána-silkiprents þjónustu ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2003 og lýsti sóknaraðili kröfu í búið. Skiptastjóri hafnaði kröfunni og á skiptafundi í þrotabúinu 9. febrúar 2005 var ákveðið að vísa ágreiningi um hana til Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Á umræddum fundi óskuðu varnaraðilar eftir því að eiga aðild að ágreiningsmálinu, sbr. 3. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991, en þeir höfðu með kaupsamningi 24. október 2003 keypt mestan hluta eigna þrotabúsins. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Sveinbjörns Ragnarssonar, greiði varnaraðilum, Icedent ehf., Guðjóni Inga Árnasyni og Helga Guðjónssyni, hverjum fyrir sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2005.

I

Málið barst dóminum 16. mars sl. og var þingfest 15. apríl sl.  Krafan, sem hér er til úrlausnar, var tekin til úrskurðar 4. maí sl.

Sóknaraðili er þrotabú Sveinbjörns Ragnarssonar.

Varnaraðilar eru Icedent ehf., Guðjón Ingi Árnason og Helgi Guðjónsson.

Við þingfestingu málsins var þess krafist af hálfu varnaraðila að sóknaraðili setti máls­kostnaðartryggingu samkvæmt 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.  Byggja varnaraðilar kröfu sína á því að sóknaraðili sé eignalaus.  Skiptum hafi lokið í þrotabúinu 11. september 2003 og hafi eignir ekki dugað til greiðslu skiptakostnaðar, en fjárhæð lýstra krafna hafi verið rúmar 35 milljónir króna.

Mótmæli sóknaraðila eru byggð á 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 171. gr. sömu laga.  Skiptastjóri þrotabús Útifána-silkiprents þjónustu ehf., en ágreiningur aðila varðar kröfu sóknaraðila í það bú, hafi sent ágreininginn til dómsins, svo sem honum hafi borið.  Það eigi því ekki við og sé ekki í samræmi við framangreind laga­ákvæði að sóknaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu.

II

Í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 er ekki sérstakt ákvæði um máls­kostnaðartryggingu.  Í 2. mgr. 178. gr. laganna segir að leiði ekki annað af ákvæðum þeirra gildi almennar reglur um meðferð einkamála um málsmeðferð fyrir héraðsdómi.  Í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að stefndi geti krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða megi líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.  Upplýst er í málinu að skiptum lauk í sóknaraðila án þess að eignir dygðu til greiðslu skipta­kostnaðar.  Þá var og upplýst af hálfu sóknaraðila að hann ætti ekki aðrar eignir en þá sem hann gerir kröfu um í framangreint þrotabú.

Samkvæmt framanrituðu hafa verið leiddar líkur að því að sóknaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar.  Það verður því orðið við kröfu varnaraðila og sóknaraðila gert að setja málskostnaðartryggingu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn

Úrskurðarorð

Sóknaraðili, þrotabú Sveinbjörns Ragnarssonar, skal setja, eigi síðar en mánudaginn 23. maí nk., tryggingu í formi peningagreiðslu, bankabókar eða bankaábyrgðar að fjárhæð 300.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðilum, Icedent ehf., Guðjóni Inga Árnasyni og Helga Guðjónssyni.