Hæstiréttur íslands

Mál nr. 25/1999


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 16. september 1999.

Nr. 25/1999.

Hólmadrangur hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Má Jónssyni

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur. Sakarskipting. Gjafsókn.

Vélstjórinn M slasaðist á baki við vinnu sína um borð í togara þegar hann ásamt öðrum vélstjóra var að lagfæra hemil á togvindu. Talið var að vinnuaðstaða við verkið hefði verið slæm, en með því að nota lyftibúnað eða láta fleiri vinna verkið var talið að koma hefði mátt í veg fyrir slysið. Var H, útgerðarmaður togarans, talinn bera bótaábyrgð vegna slyssins. Hins vegar var talið að M hefði mátt vera ljóst að ekki var varlegt að vinna verkið á þennan hátt og var hann talinn eiga að bera 1/3 hluta tjóns síns sjálfur. Var H dæmt til að greiða M bætur vegna 2/3 hluta tjónsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. janúar 1999. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að tildæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt í málinu.

I.

Að tilhlutan Hæstaréttar var aflað nýrra gagna í málinu eftir uppsögu héraðsdóms, annars vegar framburðar stefnda og Agnars Þórs Gunnlaugssonar vélstjóra fyrir héraðsdómi 6. júlí og 16. ágúst 1999 og hins vegar skoðunargerðar dómkvadds manns, Hauks Óskarssonar véltæknifræðings, 30. ágúst 1999. Staðfesti hann skoðunargerðina fyrir dómi 6. september 1999.

Málavextir eru að nokkru raktir í héraðsdómi. Eins og þar greinir slasaðist stefndi, sem var 1. vélstjóri á skuttogara áfrýjanda Hólmadrangi ST 70, við vinnu sína um borð 28. nóvember 1991. Hafði yfirvélstjóri skipsins falið honum og Agnari Þór Gunnlaugssyni 2. vélstjóra að lagfæra hemil á togvindu. Í því skyni þurfti að taka hemilinn að nokkru leyti í sundur.

Verið var að búa skipið til veiða, þar sem það lá í höfninni í Hafnarfirði. Ekki mun hafa verið haldið sjópróf vegna slyssins og ekkert liggur fyrir um að þess hafi verið getið í dagbók skipsins.

Að sögn stefnda fór hann til lögreglu og gaf skýrslu um slysið að beiðni útgerðarstjóra áfrýjanda. Lýsti stefndi atvikum svo í lögregluskýrslu 8. september 1992, að hann hafi ásamt 2. vélstjóra verið að setja saman togbremsu, sem síðan hafi fest. Hafi Agnar þá farið „niður til að athuga þetta nánar, en ég hélt við hana á meðan síðan datt hún allt í einu niður og ég hélt henni þannig að hún lenti ekki á félaga mínum, og við það að halda svona við bremsuna þegar hún féll þá eins og að það rifnaði eitthvað í bakinu á mér.“

Togbremsa sú eða hemill, sem hér um ræðir, er á aðaltogvindu Hólmadrangs á togþilfari rétt fyrir aftan brú skipsins. Samkvæmt málsgögnum er hluti af hemlinum svokallaður stimpill. Hann er áfastur efri enda lóðrétts öxuls, sem hvílir í öxulhúsi við hlið vindutromlunnar bakborðsmegin á skipinu. Eftir bréfi stefnda 7. október 1996 til vátryggingafélags áfrýjanda og framburði hans fyrir dómi voru þeir vélstjórarnir búnir að lyfta stimplinum ásamt öxlinum og stinga honum ofan í öxulhúsið, en hann komst aðeins hálfa leið. Stóðu þeir hvor sínum megin við stimpilinn og reyndu að fella öxulinn alla leið niður í öxulhúsið með því að lyfta honum upp og láta hann síðan síga niður, en árangurslaust. Við þetta mæddust þeir og gerðu stutt hlé á verkinu. Stefndi kvaðst þá hafa sagt við 2. vélstjóra, að sennilega þyrftu þeir að lyfta stimpilinum upp með öxlinum og athuga hvað ylli því að hlutirnir gengju ekki saman. Stefndi bar að hann hefði haldið í stykkið á meðan hann hafi verið að kasta mæðinni og reyna að finna betri stað fyrir fæturna, því að erfitt hafi verið að standa þarna. Í sama mund hafi stykkið fallið niður í öxulhúsið á sinn stað. Um leið og þetta gerðist hafi hann séð í bakið á 2. vélstjóra, en hann hafi verið „kominn þarna undir“. Stefndi sagðist ekki hafa getað brugðist öðru vísi við, því að hugsanlega hefði 2. vélstjóri getað verið kominn með hendurnar á milli. Eftir á hafi 2. vélstjóri sagt honum, að svo hefði ekki verið.

Þegar stefndi kom fyrir dóm 16. ágúst 1999 lýsti hann atvikum nokkuð á aðra lund. Hann kvaðst hafa verið að leita að betri stað til að standa á og verið að horfa niður fyrir og í kringum sig þegar stimpillinn með öxlinum hafi skyndilega skollið niður. Hafi hann haldið við stimpilinn til að varna því að hann dytti til hliðar. Þegar stimpillinn og öxullinn féllu niður „þá kippti hann svona hressilega í mig að ég hendist svona niður og fram með stimplinum og þá um leið tek ég eftir því að Agnar er kominn þarna undir ...“. Um hlé það á vinnunni, sem áður greinir frá, sagði stefndi fyrir dómi 16. ágúst 1999, að það hefði aðeins verið nokkrar sekúndur á meðan hann hafi verið að gera sig „kláran til þess að lyfta upp stimplinum og öxlinum“. Fyrri frásögn sín af því hefði ekki verið rétt. Í sömu skýrslu kvaðst stefndi ekki hafa búist við að 2. vélstjóri myndi stökkva þarna niður og ekkert tekið eftir því að vélstjórinn gerði það.

II.

Fyrir liggur skrifleg yfirlýsing Agnars Þórs Gunnlaugssonar, sem dagsett er 10. apríl 1995. Þar segir hann þannig frá atvikum: „Er við vorum að renna bremsuöxlinum í húsið, stöðvaðist hann og gekk ekki niður. Okkur tókst ekki að koma honum lengra og þess vegna fór ég fram fyrir og inn undir spilið til þess að athuga á hverju stæði. Áður en ég var búinn að gera nokkuð, losnaði öxullinn og gekk niður í húsið.“

Agnar kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins 27. október 1998, en hann lýsti þá ekki orsökum slyssins. Við skýrslutöku fyrir héraðsdómi 6. júlí 1999 staðfesti hann yfirlýsingu sína frá 10. apríl 1995. Lýsing hans á aðdraganda slyssins kemur, svo langt sem hún nær, í aðalatriðum heim við framburð stefnda. Agnar tók fram, að þegar slysið varð hafi stefndi einn verið með stimpilinn og viðfestan öxul í höndunum. Hann bar einnig að öxulhúsið hefði getað fallið til hliðar þegar öxullinn var ekki í því.

III.

Aðila greinir ekki á um að þegar slysið varð hafi stefndi stutt við stimpil og viðfest stykki, sem alls hafi vegið 55 kg, en öxulhúsi, 46 kg að þyngd, og öðrum hlutum toghemilsins hafi þeir vélstjórarnir áður verið búnir að koma fyrir. Af málsgögnum er ljóst, að vinnuaðstaða í umrætt sinn var slæm, ekki síst vegna þess að vélstjórarnir þurftu að setja saman allþunga vélarhluta í miklum þrengslum. Svo sem greinir í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var enginn búnaður í skipinu til að auðvelda verkið, svo sem hæfur lyftibúnaður. Ekki var notast við krana úr landi til þess að halda uppi stimplinum og stimpilöxlinum, svo sem unnt hefði verið. Hinn dómkvaddi véltæknifræðingur lét þá skoðun í ljós að setja hefði mátt upp slá á milli hemla vindunnar í því skyni að hafa þar toglyftu, sem nota mætti til að lyfta þungum vélarhlutum. Giskaði véltæknifræðingurinn á að sá búnaður myndi nú kosta um 100.000 krónur.

Telja verður að með því að nota slíkan útbúnað, sem áður er getið, eða láta fleiri menn en tvo vinna verkið, hefði mátt koma í veg fyrir slys þetta. Af þeim sökum verður að fella bótaábyrgð á því á áfrýjanda. Á hinn bóginn verður að líta til þess að stefndi stjórnaði verkinu og honum mátti vegna menntunar og starfsreynslu sinnar vera ljóst, að ekki var varlegt að vinna verkið aðeins við annan mann, úr því að nefndur búnaður var ekki fyrir hendi. Einnig verður að telja að honum hefði verið í lófa lagið að biðja samstarfsmann sinn að halda með sér við stimpilinn á meðan hann væri að leita að betri fótfestu, svo sem að framan greinir. Verður því ekki komist hjá að fella nokkurn hluta ábyrgðar á slysinu á stefnda sjálfan. Þykir hæfilegt að hann beri 1/3 hluta tjóns síns, en áfrýjandi 2/3 hluta.

IV.

Ekki eru efni til að hreyfa við ákvörðun héraðsdóms um að óbætt heildartjón stefnda vegna varanlegrar örorku og miska nemi alls 6.000.000 krónum, enda hefur stefndi ekki gert athugasemd við þá niðurstöðu. Samkvæmt ofangreindu ber áfrýjanda að greiða stefnda 4.000.000 krónur ásamt þeim vöxtum, sem dæmdir voru í héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Rétt þykir að áfrýjandi greiði 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Hólmadrangur hf., greiði stefnda, Má Jónssyni, 4.000.000 krónur ásamt ársvöxtum, sem hér segir: 3,5% frá 28. nóvember 1991 til 1. desember sama árs, 3% frá þeim degi til 1. febrúar 1992, 2,5% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 2% frá þeim degi til 21. mars sama árs, 1,25% frá þeim degi til 1. maí sama árs, 1% frá þeim degi til 11. ágúst 1993, 1,25% frá þeim degi til 11. nóvember sama árs, 0,5% frá þeim degi til 1. júní 1995, 0,65% frá þeim degi til 1. október 1996, 0,75% frá þeim degi til 21. janúar 1997, 0,9% frá þeim degi til 1. maí sama árs, en 1% frá þeim degi til 29. apríl 1998. Frá þeim degi greiðist dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði ríkissjóði 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 450.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. október sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 1. september 1997, af Má Jónssyni, Hjálmholti 4, Reykjavík gegn Hólmadrangi hf., Skeiði 3, Hólmavík og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 5, Reykjavík til réttargæslu.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.355.613 krónur með 3,5% ársvöxtum frá 28. nóvember 1991 til 1. desember 1991, með 3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1992, með 2,5% ársvöxtum frá þeim degi til 11. febrúar 1992, með 2% ársvöxtum frá þeim degi til 21. mars 1992, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1992, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11. ágúst 1993, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11. nóvember 1993, með 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 1995, með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 1996, með o,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 29. apríl 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.

Dómkröfur stefnda, Hólmadrangs hf., eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara, að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur enda engar dómkröfur gerðar á hendur félaginu.

Málavextir

Málavextir eru þeir að stefnandi starfaði sem 1. vélstjóri á Hólmadrangi ST-70. Hólmadrangur ST-70 er í eigu stefnda, Hólmadrangs hf., og er það félag með ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Hinn 28. nóvember 1991 lá Hólmadrangur ST-70 í Hafnarfjarðarhöfn og var verið að búa skipið til veiðiferðar. Veður var slæmt, rok og slydda, og komið fram yfir þann tíma er skipið átti að vera farið. Yfirvélstjóri skipsins setti stefnanda og Agnar Þór Gunnlaugsson í að gera við bremsu á spili skipsins. Til þess þurftu þeir að taka bremsuna í sundur. Þegar þeir voru að setja hana saman aftur vildi stimpilöxull bremsunnar ekki ganga niður. Án samráðs við stefnanda stökk Agnar þá niður og fór undir spilið, en skildi stefnanda eftir einan til þess að halda stimplinum, sem er 70 - 80 kg þungur. Skyndilega losnaði um öxulinn og féll hann niður. Stefnandi hélt við stimpilinn og gat ekki sleppt, þar sem hann vissi ekki nema Agnar væri undir honum. Við átakið fannst stefnanda eins og eitthvað rifnaði í bakinu og fékk mikla bakverki u.þ.b. tveimur tímum síðar. Stefnandi taldi að þetta myndi lagast og fór með skipinu út á sjó.

Hinn 10. desember 1991 leitaði stefnandi síðan til læknis á Hólmavík og fékk þar bólgueyðandi sprautu og verkja- og bólgueyðandi lyf. Hélt stefnandi síðan aftur á sjóinn með togaranum. Er hann kom í land mánuði síðar var hann orðinn illa haldinn af verkjum og tók sér frí næsta túr á eftir. Stefnandi kveðst allt frá slysinu hafa verið mjög slæmur í baki og átt mjög erfitt með að sinna starfi sínu sem vélstjóri. Það hafi þó gengið með því að honum hafi verið hlíft við erfiðari viðgerðir en fengið í staðinn að sinna léttari störfum. Stefnandi kveðst stöðugt hafa verið undir læknishendi frá slysinu auk þess sem hann hafi verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara.

Í læknisvottorði Steinunnar H. Jónsdóttur, útg. 29. janúar 1996, segir um ástand stefnanda:

„Már hefur verið misslæmur af bakverkjum en alltaf versnað við álag, fékk meðferð hjá sjúkraþjálfara um langt skeið. Verkjum er lýst aðallega í mjóbaki vinstra megin, sem versna við allar hreyfingar, en einnig leiða verkir niður í gluteal svæðið beggja vegna. Verkur er einnig paravertebralt í neðri hluta thoracalsvæðis. Við skoðun sér maður væga scoliosu. Kraftar, húðskyn og reflexar eðlilegir í ganglimum. Allar hreyfingar í mjóbaki eru mjög stirðar, einkum flexio, en verkir versna við flestar hreyfingar. Lasegue einkenni er ekki til staðar en við prófið fær hann verk vinstra megin í lumbalsvæði er fæti er lyft. Við þreifingu eru mikil eymsli yfir vöðvafestum á lumbal- og neðri hluta thoraxhryggjar. Mikil eymsli í ligamentum iliolumbali bilateralt. Er öllu verri vinstra megin.”

Í vottorði Steinunnar segir einnig að í einum túr, fyrir um það bil þremur árum, hafi stefnandi verið að bogra og virðist þá hafa versnað talsvert í baki og hafi því verið ákveðið að gera tölvusneiðmynd af mjóbaki 24. maí 1995. Niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi sýnt central discus prolaps í L:V-L:V discibili og að discurinn liggi aðeins yfir til hægri. Þá segir að ekki sé með nokkru móti hægt að segja til um hvort brjósklosið tengist áverkanum sem stefnandi hafi orðið fyrir í lok nóvember 1991 enda hafi það litla þýðingu að sanna eða afsanna það, þar sem bakeinkenni stefnanda virðist ekki tengjast brjósklosinu sem slíku.

Stefnandi fór í örorkumat til Sigurðar Sigurjónssonar læknis. Í örorkumati hans dags. 15. febrúar 1996 segir í ályktun.

„Hér er um að ræða mann sem lendir í því að fá slæman hnykk á mjóbak við vinnu sína um borð í Hólmadrangi þann 28. október 1991. Þessi verkur hefur haldið áfram þrátt fyrir ýmis konar meðferð. Röntgenmyndir hafa sýnt centralt brjósklos en taugaskurðlæknar ráðleggja ekki skurð þar sem af slíku er ekki að vænta neins bata að þeirra mati.

Þess skal getið að hinn slasaði hafði aldrei fundið fyrir bakverkjum fyrir umrætt slys og má því telja nokkuð víst að umræddur áverki hafi orsakað þau einkenni í baki sem hann þjáist af nú.

Með tilliti til þessa þykir nú rétt að meta þá tímabundnu og varanlegu örorku, sem hann telst hafa hlotið af völdum þessa slyss, og er það sem hér segir:

Eitthundrað prósent (100%) í tvo mánuði.

Eftir það varanleg örorka fimmtán prósent (15%).”

Réttargæslustefndi greiddi stefnanda hinn 15. maí 1996 bætur úr slysatryggingu sjómanna 511.680 kr. en neitaði að svo stöddu bótum vegna sakartjóns, en fékk Vélsmiðju Orms & Víglundar sf. til þess að leggja faglegt mat á vinnuaðstöðu við upptekt á bremsu við togvírstromlu. Niðurstaða þeirra var sú, að eðlilegt væri að þrír til fjórir menn framkvæmdu verk það sem stefnanda var falið við annan mann. Þrátt fyrir þetta mat Vélsmiðju Orms & Víglundar sf. var bótaskyldu á slysinu hafnað af hálfu réttargæslustefnda. Nokkur bréfaskipti áttu sér stað milli stefnanda, lögmanns hans og réttargæslustefnda auk þess sem frekari gögn voru lögð fram, en réttargæslustefndi skipti ekki um skoðun. Þá var málið lagt fyrir tjónanefnd vátryggingafélaganna, sem úrskurðaði að slysið væri ekki bótaskylt.

Stefnandi skaut málinu þá til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Niðurstaða þeirrar nefndar lá fyrir hinn 1. apríl 1997 og var á þá leið að stefnandi skyldi fá 2/3 hluta tjóns síns bætt. Réttargæslustefndi féllst ekki á úrskurð úrskurðarnefndarinnar og með bréfi dags. 11. apríl 1997 var lögmanni stefnanda tilkynnt sú afstaða félagsins.

Að beiðni stefnda og réttargæslustefnda voru dómkvaddir matsmennirnir Ísak Hallgrímsson læknir og Stefán Carlsson læknir til þess að meta tímabundna og varanlega örorku stefnanda, hvort brjósklos í baki stefnanda verði sannanlega rakið til bakáverka sem hann hlaut í slysinu og jafnframt hvort eldri eða yngri slys eða sjúkdómar eigi þátt í núverandi bakeinkennum stefnanda.

Niðurstaða þeirra var sú að brjósklos stefnanda verði ekki rakið til bakáverka er stefnandi hlaut í slysinu og töldust önnur slys eða sjúkdóma ekki eiga þátt í örorku hans vegna slyssins sem þeir mátu þannig: tímabundin örorka 100% í þrjá mánuði og varanleg örorka 8%.

Að beiðni stefnanda voru síðan dómkvaddir þrír yfirmatsmenn, læknarnir Sigurður Thorlacius, Yngvi Ólafsson og Gunnar Kr. Guðmundsson, til þess að meta framangreind atriði.

Niðurstaða þeirra var að stefnandi hefði ekki hlotið brjósklos við áverkana er hann hlaut í slysinu. Þá töldu þeir ekki að önnur slys eða sjúkdómar ættu þátt í núverandi bakeinkennum stefnanda. Töldu þeir tímabundna læknisfræðilega örorku stefnanda vegna slyssins vera 100% í þrjá mánuði en varanlega læknisfræðilega örorku 12%.

Á grundvelli yfirmatsins áætlar Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur meint vinnutekjutap stefnanda á þeirri forsendu að stefnandi hafi og muni til frambúðar tapa vinnutekjum í sama hlutfalli og örorkan er metin. Er útreikningur hans dags. 29. apríl 1998. Samkvæmt honum reiknast höfuðstólsverðmæti tekjutaps á slysdegi:

Vegna tímabundinnar örorku

828.100 krónur

Vegna varanlegrar örorku

9.324.400 krónur

Samtals

10.152.500 krónur

Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins voru áætluð 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku, 559.500 krónur.

Frá Tryggingastofnun ríkisins fékk stefnandi örorkubætur 414.990 krónur hinn 6. mars 1996 og reiknast Jóni höfuðstólsverðmæti þeirrar greiðslu á slysdegi 399.800 krónur.

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á framangreinum útreikningi.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að orsakir slyssins megi fyrst og fremst rekja til óforsvaranlegrar vinnuaðstöðu um borð í Hólmadrangi ST-70 við að vinna verk það er stefnandi var að vinna er hann slasaðist. Í öðru lagi hafi yfirvélstjóri vanmetið aðstæður þegar hann hafi aðeins látið tvo menn vinna verk sem lágmark þrjá til fjóra þurfi til að vinna og í þriðja lagi er byggt á sök vinnufélaga stefnanda er skyndilega hafi sleppt stimplinum og skilið stefnanda eftir einan með hann.

Stefnandi kveður Hólmadrang ST-70 smíðaðan árið 1983. Á stimpli skipsins sé loftbremsa en ekki glussabremsa eins og algengast sé í fiskiskipum. Loftbremsur þurfi meira viðhald og þurfi oftar að taka þær upp en glussabremsur. Til þess að gera það þurfi að lyfta upp 70 - 80 kg þungum stimpli og setja hann svo aftur á sinn stað. Í upphafi hafi krani skipsins náð yfir spilið en árið 1988 hafi Hólmadrangur ST-70 hins vegar verið lengdur og eftir það nái krani skipsins ekki yfir bremsuna. Ekkert hafi verið sett í staðinn til þess að lyfta stimplinum, hvorki stag í brúarendann með blökk né heldur nokkrir verk- eða vinnupallar til þess að gera framkvæmd verksins öruggari. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að með því að setja ekki einhvern búnað í stað kranans er skipið var lengt, hafi stefndi sýnt af sér verulegt gáleysi sem óhjákvæmilega leiði til ábyrgðar hans á slysi stefnanda.

Þá byggir stefnandi einnig kröfur sínar á því að um sök sé að ræða hjá þeim er stjórnuðu framkvæmd verksins. Yfirvélstjóri skipsins hafi aðeins sett tvo menn í að framkvæma verkið, stefnanda og annan mann. Báðir mennirnir hafi verið að vinna verk þetta í fyrsta skipti og það hafi yfirvélstjórinn vitað. Er slysið gerðist hafi verið leiðindaveður, rok og slydda, og því bæði hált og erfitt að að halda jafnvægi á þeim örmjóu brúnum, sem standa verður á til þess að vinna verk þetta.

Sumarið 1996 hafi réttargæslustefndi fengið Vélsmiðju Orms & Víglundar sf. til þess að gefa faglegt mat á vinnuaðstæðum við að taka upp togbremsuna. Niðurstaða þeirra hafi verið sú, að eðlilegt væri að þrír til fjórir menn ynnu verkið við venjulegar aðstæður. Stefndi hafi í raun allt frá slysdegi viðurkennt sök sína að þessu leyti. Eftir slysið hafi þess ávallt verið gætt að lágmark þrír menn framkvæmdu verk þetta og af þeim sé að minnsta kosti einn maður vanur verkinu.

Stefnandi hafi verið 1. vélstjóri um borð og með honum við framkvæmd verksins hafi 2. vélstjóri verið. Er stimpillinn vildi ekki ganga eðlilega niður hafi stefnandi sagt að best væri að taka hann upp og athuga hvað væri fyrir. Vinnufélagi stefnanda hafi þá svarað að bragði „eða fara niður og athuga hvað er að”. Samstundis hafi vinnufélagi stefnanda stokkið niður og hafi farið undir spilið. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hér sé um sök að ræða, er stefndi beri húsabóndaábyrgð á. Í fyrsta lagi hafi vinnufélagi stefnanda óhlýðnast fyrirmælum hans, en stefnandi hafi verið hærra settur, og í öðru lagi sé verulegt gáleysi að skilja stefnanda eftir einan með 70 - 80 kg þungan stimpil og fara undir stimpilinn til þess að gera eitthvað til að losa hann. Stefnandi eigi ekki möguleika á að sjá undir spilið og hafi því ekki getað vitað hvort eða hvenær stimpillinn losnaði. Þá hafi stefnandi að sjálfsögðu ekki átt möguleika á að halda honum ef hann losnaði, vegna þyngdar.

Málskostnaðarkrafa stefnanda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafan um að tekið verði tillit til 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem lögmönnum er gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Stefnandi reki ekki neina virðisaukaskattskylda starfsemi og sé honum því nauðsynlegt að gætt sé þessa við ákvörðun málskostnaðar.

Stefnukrafa sundurliðast þannig:

1. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. útreikningi

9.324.400 kr.

2. Bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda

559.500 kr.

3. Frádráttur vegna skattfrelsis og eingreiðslu 30%

- 2.965.170 kr.

Samtals

6.918.730 kr.

4. Bætur vegna tímabundinnar örorku

828.100 kr.

Samtals

7.746.830 kr.

5. Miskabætur

500.000 kr.

Samtals tjón

8.246.830 kr.

Greitt frá Tryggingastofnun ríkisins

- 339.800 kr.

Innborganir (reiknaðar til slysadagsverðmætis)

- 491.417 kr.

Samtals

7.355.613 kr.

Stefnanedi kveður innborgun Vátryggingafélags Íslands hf. hinn 15. maí 1996 að fjárhæð 511.680 krónur, reiknaða til slysadagsverðmætis (afvöxtuð), með sömu prósentu 3,96% og fram komi í útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar.

Þar sem meira en 4 ár eru frá því vinnuslys það varð er mál þetta fjalli um, séu vextir byrjaðir að fyrnast. Með bréfi dags. 8. nóvember 1995 hafi Ingvar Sveinbjörnsson hrl. f.h. Vátryggingafélags Íslands hf. fallist á að fresta réttaráhrifum fyrningar til 28. apríl 1996. Eftir það hafi Ingvar munnlega staðfest að Vátryggingafélag Íslands muni ekki byggja á fyrningu í málinu, enda sé sá dráttur er orðið hefur á málshöfðun ekki sök stefnanda.

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að hann eða starfsmenn hans eigi enga sök á slysinu, sem rekja megi til óhappatilviljunar og vangæslu stefnanda sjálfs.

Sé ekki saknæmt af hálfu eiganda og útgerðar togara þótt ekki séu til staðar kranar eða annar búnaður til að taka stimpilöxul í togvindu eða sérstakir vinnupallar um borð við viðgerð á bremsubúnaðinum. Sé engin föst venja fyrir slíku eða lagafyrirmæli. Sé vinnuaðstaða um borð í fiskiskipum og almennt erfiðari en í landi, eðli málsins samkvæmt, og ekki unnt að gera sömu kröfur þar og á öðrum vinnustöðum. Hafi vinnuaðstaða um borð í Hólmadrangi St-70 ekkert verið verri en gengur og gerist um borð í togskipum.

Ekki sé heldur sök yfirvélstjóra að stefnandi fór til verksins við annan mann. Verkið hafi verið einfalt og stefnandi, 1. vélstjóri á skipinu, því fullfær um að meta vinnuaðstæður og hve margra manna væri þörf við verkið. Sé og í verkahring vélstjóra að sjá um viðhald og viðgerðir á vélbúnaði skipsins. Yfirvélstjóri hafi því mátt treysta því að stefnandi og 2. vélstjóri skipsins framkvæmdu verkið áfallalaust. Hafi verið hægt að kalla á mann til viðbótar ef þörf krefði. Hafi það staðið stefnanda næst að gera það og eigi hann ekki við aðra að sakast en sjálfan sig, ef mannfæð við verkið teldist orsakavaldur á bakmeiðslum hans.

Þá verði ekki séð að 2. vélstjóri hafi óhlýðnast skipunum frá stefnanda þegar hann fór niður af slífunum til að athuga af hverju stimpilöxullinn gekk ekki niður. Verði það ekki ráðið af skýrslum eða bréfi stefnanda frá 7. október 1996. Segi þar aðeins að stefnandi hafi sagt „að það væri best að taka upp stimpilinn með öxlinum ...” og 2. vélstjóri svarað „eða fara niður og athuga hvað er að”. Hafi 2. vélstjóri ekki sett stefnanda í neina hættu þótt hann færi niður að slífunum til að athuga aðstæður, enda verði að gera ráð fyrir því að 2. vélstjóri hefði vit á því að vera ekki með hendurnar á milli ef stimpillinn færi af stað. Sé þannig vandséð að 2. vélstjóri eigi sök á baktognun stefnanda.

Hins vegar sé ljóst af frásögn stefnanda, sem hélt við stimpilinn, að stefnandi hafi ósjálfrátt hert takið er stimpillinn losnaði skyndilega og þungi stimpilsins, sem þá verði snögglega virkur, valdið baktognun stefnanda. Sé orsök slyssins því hrein óhappatilviljun og aðgæsluleysi stefnanda sjálfs. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki á sýknukröfu fallist er varakrafa stefnda byggð á því að meginorsök slyssins megi rekja til óhappatilviljunar og vanrækslu stefnanda sjálfs við undirbúning og framkvæmd verksins. Vísist um það til þess sem rakið sé að framan. Verði stefnandi að bera tjón sitt sjálfur í hlutfalli við það auk þess sem stefnukröfur beri að lækka verulega, en þeim er mótmælt sem allt of háum.

Hafnað er kröfulið um bætur fyrir tímabundna örorku, sem alfarið byggi á líkindareikningum í stað gagna um raunverulegt tekjutap, sbr. t.d. H 1988, 754.

Bótakröfu vegna varanlegrar örorku beri að stórlækka vegna skattfrelsis og eingreiðslu en um sé að ræða hátekjumann eftir viðmiðunartekjum að dæma. Þá hafi stefnandi einnig haldið starfi sínu á sjónum þrátt fyrir slysið. Þá séu til frádráttar bæturnar frá Tryggingastofnun ríkisins og síðan beri að draga frá eigin hluta stefnanda í tjóninu, Að því búnu séu til frádráttar bæturnar úr atvinnuleysistryggingunni.

Miskabótakröfu stefnanda, 500.000 krónum, verði sömuleiðis að mótmæla sem allt of hárri og andstæðri dómvenju og séu 150.000 krónur nær lagi miðað við sjúkrasögu stefnanda og örorku.

Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt frá fyrri tíma en uppsögudegi endanlegs dóms í málinu og eldri vextir en fjögurra ára frá stefnubirtingu séu fyrndir, en stefndi beri hins vegar ekki fyrir sig vaxtafyrningu í málinu.

Niðurstaða

Fram er komið að hinn 28. nóvember 1991 var verið að búa Hólmadrang ST-70 til veiðiferðar. Var komið um það bil viku fram yfir áætlaðan brottfarartíma og mikil pressa að gera skipið klárt og í mörg horn að líta.

Bremsa í togvírstromlu var biluð og fól yfirvélstjóri stefnanda, sem var 1. vélstjóri, að lagfæra bremsuna ásamt 2. vélstjóra, Agnari Þór Gunnlaugssyni.

Stefnandi hefur lýst aðdraganda slyssins þannig að þegar hann og vinnufélagi hans voru að setja saman bremsubúnaðinn vildi hann ekki ganga eðlilega saman. Þeir hafi verið búnir að lyfta stimplinum og stinga honum á sinn stað en hann ekki komist nema hálfa leið. Þeir hafi staðið sitt hvoru megin við stimpilinn og hafi lyft honum upp og niður og hafi þeir reynt að skaka honum til, til þess að reyna að koma honum í gegn. Hafi þeir verið búnir að vera dágóða stund að þessu er hann hafi sagt við Agnar að þeir yrðu að skoða hvað það væri sem ylli því að hlutirnir gengu ekki saman. Kveðst stefnandi hafa verið að reyna að finna betri stað til að standa á þegar stimpillinn sem hann hélt um féll skyndilega niður og hafi hann þá séð í bakið á Agnari sem var kominn undir. Honum hafi brugðið við það og hafi hann óttast að Agnar gæti verið með hendurnar undir stimplinum sem þeir voru að stinga þarna niður og var valtur og hefði getað oltið til hliðanna. Þegar stimpillinn, sem hann hélt um, féll skyndilega niður fékk stefnandi hnykk á bakið sem er orsök þeirra bakverkja sem hann hefur í dag.

Stefnandi byggir bótakröfu sína í fyrsta lagi á því að um sök sé að ræða hjá þeim er stjórnuðu framkvæmd verksins.

Fyrir liggur að yfirvélstjóri fól stefnanda og 2. vélstjóra að framkvæma umrætt verk. Með hliðsjón af framburði yfirvélstjórans Olav Oyahalls fyrir dómi svo og framlögðu áliti starfsmanns Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. þykir sýnt fram á í málinu að eðlilegt og nauðsynlegt hefði verið að a.m.k. þrír menn hefðu unnið það verk sem stefnanda var falið ásamt 2. vélstjóra, enda bar yfirvélstjóri fyrir dómi að hann hefði ætlað að aðstoða þá og sýna þeim hvernig þeir áttu að bera sig að við verkið svo það yrði framkvæmt á réttan hátt. Hann hefði hins vegar tafist við önnur störf.

Fram er komið að erfitt var að komast að togbremsunni, stimpillinn þungur og erfitt að fóta sig við verkið. Þá er og upplýst að veður var slæmt. Vitað var að stefnandi og 2. vélstjóri höfðu ekki gert við togbremsuna áður og hefðu því þurft á leiðbeiningum að halda. Ósannað er að þeir hafi fengið nokkrar leiðbeiningar varðandi framkvæmd verksins. Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði séð framlagða teikningu af togbremsunni. Ekki verður hins vegar séð að teikningin gefi nokkrar vísbendingar um það hvernig eigi að bera sig að við lagfæringu á bremsunni eða hvað helst beri að varast.

Þegar framanritað er virt ber að fallst á það með stefnanda að orsök slyssins megi rekja til gáleysis yfirvélstjóra sem fólst í því, eins og áður segir, að láta aðeins tvo menn vinna umrætt verk án þess að gefa þeim nokkrar leiðbeiningar um það hvernig ætti að bera sig að við það, auk þess sem honum var kunnugt um að ekki var kostur á öðrum mönnum til að aðstoða þá. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefnanda hafi orðið á mistök við framkvæmd verksins eða að hann hafi borið sig öðruvísi að en ætlast mátti til af honum í umrætt sinn. Ekki er við stefnanda að sakast þó að hann hafi ekki kvartað yfir vinnuaðstöðunni, enda þekkti hann ekki vinnuferlið og það hvernig aðstæður voru í raun við að vinna verkið.

Í öðru lagi byggir stefnandi kröfur sínar á því að vinnuaðstæður um borð í Hólmadrangi ST-70 hafi verið óforsvaranlegar.

Upplýst er að krani um borð í skipinu hafði náð yfir spilið en eftir að skipið var lengt náði hann ekki svo langt. Einnig er upplýst að aðstæður til þess að gera við togbremsuna, þegar hún bilaði, voru mjög erfiðar og enginn búnaður til staðar til þess að auðvelda verkið. Þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á það í málinu að reynt hafi verið að koma fyrir hæfum lyftibúnaði til þess að bæta vinnuaðstöðuna við verkið, t.d. með því að koma fyrir bómu sem hægt væri að hengja stimpilinn í, og þannig koma í veg fyrir slys eins og það sem stefnandi varð fyrir.

Þegar allt þetta er virt þykir sýnt fram á að stefndi beri fulla bótaábyrgð á slysi því er stefnandi varð fyrir 28. nóvember 1991. 

Málsaðilar eru sammmála um að leggja yfirmat til grundvallar varðandi læknisfræðilega örorku stefnanda. Verður því við ákvörðun bóta höfð hliðsjón af útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, dagsettum 29. apríl 1998, sem er á því byggður.

Stefnandi gerir kröfu um bætur vegna tímabundinnar öroku sem hann byggir á líkindareikningi Jóns Erlings Þorlákssonar. Honum hefur hins vegar ekki tekist að sýna fram á að hann hafi í raun orðið fyrir tjóni vegna tímabundinnar örorku og eru því engin efni til að taka kröfulið þennan til greina.

Löng dómvenja er fyrir því að skattfrelsi bóta og hagræði af eingreiðslu hafi áhrif til lækkunar við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku. Þegar tekið hefur verið tillit til þess svo og þess er greitt var af Tryggingastofnun ríkisins og innborgana Vátryggingafélags Íslands hf., þykja bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku hæfilega ákveðnar 5.800.000 krónur. Inni í þeirri fjárhæð eru bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda.

Ljóst þykir, samkvæmt þeim gögnum er fyrir liggja, að stefnandi hafi orðið fyrir nokkrum miska vegna slyssins 28. nóvember 1991. Þykja miskabætur til hans hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.

Fallast ber á vaxtakröfu eins og hún er endanlega fram sett.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 950.000 krónur, þar með talinn útlagður kostnaður stefnanda 452.230 krónur. Tekið er tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Birni Ingvarssyni yfirvélstjóra og Hrafnkeli Guðjónssyni stýrimanni.

Dómsorð:

Stefndi, Hólmadrangur hf., greiði stefnanda, Má Jónssyni, 6.000.000 króna með 3,5% ársvöxtum frá 28. nóvember 1991 til 1. desember 1991, með 3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1992, með 2,5% ársvöxtum frá þeim degi til 11. febrúar 1992, með 2% ársvöxtum frá þeim degi til 21. mars 1992, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1992, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11. ágúst 1993, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11. nóvember 1993, með 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 1995, með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 1996, með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 29. apríl 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og 950.000 krónur í málskostnað.