Hæstiréttur íslands
Mál nr. 571/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 28. ágúst 2014. |
|
Nr. 571/2014.
|
Sýslumaðurinn á Akureyri (Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (Sigmundur Guðmundsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. ágúst 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. ágúst 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. september 2014 klukkan 14. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili er undir sterkum grun um brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. ágúst 2014.
I
Sýslumaðurinn á Akureyri krafðist þess í gær að úrskurðað yrði að sakborningur, X, kt. [...], [...], [...], skuli sæta áframhaldandi gæzluvarðhaldi til „föstudagsins 20. september“. Krafan er sögð gerð með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Sakborningur mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að varðhaldi verði markaður mun skemmri tími. Málið var tekið til úrskurðar í gær.
Hinn 14. þessa mánaðar var sakborningur úrskurðaður í gæzluvarðhald til kl. 16:00 í gær, á grundvelli A liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms um gæzluvarðhaldið var staðfestur í Hæstarétti Íslands hinn 19. ágúst með dómi í máli nr. 546/2014.
II
Sýslumaður segir að hinn 13. ágúst hafi lögregla fengið tilkynningu um hugsanlegt kynferðisbrot gegn tveimur átta ára drengjum, í fjölbýlishúsinu [...] á [...]. Drengirnir A, kt. [...], [...] og B, kt. [...], [...], hafi verið að leik á eða við bifreiðastæði við heimili sakbornings. Að sögn drengjanna hafi sakborningur komið út og sakað þá um að hafa sparkað knetti í bifreið sína. Beri annar drengjanna mjög skýrt, og hinn styðji, að sakborningur hafi hótað þeim að hringja á lögregluna nema þeir kæmu með honum og ræddu málið. Hafi hann látið drengina fylgja sér í íbúð sína og segi annar drengurinn mjög skýrt að þar hafi sakborningur tekið niður um þá buxurnar, en hinn drengurinn telji að þeir hafi sjálfir gert það. Þá segir sýslumaður að drengjunum beri saman um að sakborningur hafi sagt þeim að rassskella hvor annan, sem og um að sakborningur hafi sjálfur rassskellt þá og slegið ítrekað föst högg með flötum lófa. Þá hafi hann skipað þeim að slá fastar, hafi ekki honum ekki líkað hve höggin hafi verið létt. Sýslumaður segir að um síðari atburði sé annar drengurinn hinum mun skýrari í framburði sínum og segist hafa séð mjög skýrt að sakborningur hafi, eftir rassskellingarnar, sett kynfæri sín í munn hins drengsins. Sami drengur segi að því næst hafi sakborningur borið olíu eða krem á sitjanda drengsins sjálfs og farið með fingur þar inn og síðar með kynfæri sín.
Sýslumaður segir að hinn drengurinn beri að hann muni ekki hvað gerzt hafi eftir rassskellingarnar.
Sýslumaður segir að læknir hafi skoðað báða drengina. Hafi læknisrannsókn sýnt að báðir hafi drengirnir verið með merki eftir rassskelli og hafi annar einnig haft aðra áverka sem samrýmist sögu hans. Sá drengur staðhæfi einnig að drengirnir hafi ítrekað spurt sakborning hvort þeir mættu fara heim en hann sagt þeim að þegja. Að lokum hafi hann látið þá heita að segja ekki frá því sem gerzt hefði.
Sýslumaður segir að miðað við frásagnir foreldra drengjanna um þann tíma sem drengirnir hafi verið að leik úti, og þá frásögn annars drengsins að sakborningur hafi komið til þeirra stuttu eftir að þeir hafi byrjað að leika sér, megi gróflega ætla að þeir hafi verið um hálfa klukkustund á heimili sakbornings.
Sýslumaður segir að sakborningur hafi viðurkennt fyrir lögreglu að hafa rassskellt drengina en borið við minnisleysi þegar hann hafi verið spurður hvort hann hafi gert fleira. Þá hafi hann sagt drengina hafa fylgt sér sjálfviljuga í íbúðina.
Sýslumaður segist telja háttsemi sakbornings varða við 193. gr., 1. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn bæði 193. og 1. mgr. 202. gr. laganna geti varðað sextán ára fangelsi. Einnig megi með sterkum rökum heimfæra háttsemi sakbornings undir 1. mgr. 194. gr. laganna. Sé því ljóst að refsirammi þeirra brota sem rannsökuð séu samrýmist almennu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Sýslumaður segir að með vísan til framanritaðs leiki mjög sterkur grunur á að sakborningur hafi framið þessi brot gegn drengjunum og að þau séu svo svívirðileg í almannaaugum að valda myndi óróleika ef hann yrði látinn laus.
III
Sakborningur mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að varðhaldi verði markaður mun skemmri tími.
Sakborningur segir að ósannað sé að sterkur grunur leiki á að hann hafi framið brot sem uppfylli skilyrði um tíu ára refsiramma. Einn eða tveir rassskellir kunni að varða við hegningarlög en geti alls ekki náð þeim refsiramma. Sakborningur neiti að hafa sett kynfæri sín í munn annars drengsins og standi þar orð gegn orði. Þá kveðst hann minna á fyrirmæli stjórnarskrárinnar um að hver maður skuli talinn saklaus hafi sekt hans ekki verið sönnuð fyrir dómi.
Sakborningur segir að í læknisvottorði um skoðun á öðrum drengnum sé lýst smávægilegum áverkum en læknirinn dragi í vottorðinu enga ályktun af þeim áverkum.
Sakborningur segir að ekki hafi verið sýnt fram á að varðhald sé nauðsynlegt vegna almannahagsmuna. Hvorki lögregla né dómstólar megi láta opinbera umræðu hafa áhrif á ákvarðanir sínar.
Varakröfu sína segist sakborningur rökstyðja með því að rannsókn málsins sé á lokastigi og sé tímalengd kröfu sýslumanns úr öllu hófi.
Loks kveðst sakborningur vekja athygli á því að hann hafi hreint sakavottorð.
IV
Drengirnir hafa verið yfirheyrðir fyrir dómi og sakborningur hjá lögreglu. Allir þrír bera á þá leið að sakborningur hafi komið að máli við drengina þar sem þeir voru við leik utanhúss og í framhaldi af því hafi þeir allir farið inn í íbúð sakbornings og þar hafi drengirnir rassskellt hvor annan. Drengirnir segja sakborning hafa látið þá gera það en sakborningur segir aðdragandann hafa verið þann að hann hafi spurt þá að því og þeir ekkert verið á móti því. Drengirnir segja sakborning einnig hafa rassskellt þá en hann segist hafa rassskellt annan „til að sýna honum hvernig ætti að gera þetta“. Þá ber annan drenginn og sakborning saman um að áður en farið hafi verið inn í íbúðina hafi sakborningur gefið drengjunum þá kosti að þeir reyndu sjálfir að „leysa málið“ en ella myndi hann kalla á lögreglu.
Þegar á framanritað er horft verður að telja að sterkur grunur leiki á því að sakborningur hafi fengið drengina inn í íbúð sína undir hótun um að ella yrði lögregla kölluð á staðinn. Undir þeirri hótun hafi drengirnir fylgt honum í íbúðina. Í ljósi framburðar drengjanna beggja verður einnig að telja sterkan grun leika á því að sakborningur hafi bæði látið þá rassskella hvorn annan og sjálfur rassskellt þá. Verður að telja sterkan grun leika á því að þann tíma sem drengirnir voru í íbúð sakbornings hafi þeir verið á valdi hans.
Í ljósi þess sem rakið hefur verið er sterkur grunur uppi um að sakborningur hafi með hótun fengið drengina inn í íbúð sína þar sem hann hafi haft þá á sínu valdi um stund. Jafnvel þótt slíkt ástand vari tiltölulega skamma stund kann slík háttsemi að verða heimfærð undir 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og má þar vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 54/2014. Þegar á allt framanritað er horft verður að líta svo á að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað geti tíu ára fangelsi. Þegar horft er til málsatvika allra og aðstæðna þykir einnig verða að fallast á með sýslumanni að áframhaldandi gæzluvarðhald sakbornings sé nauðsynlegt vegna almannahagsmuna. Þykja uppfyllt öll skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að verða við kröfu sýslumanns og verður á hana fallizt svo sem í úrskurðarorði greinir, en ekki þykja efni til að marka gæzluvarðhaldinu skemmri tíma.
Af hálfu sýslumannsins á Akureyri gerði kröfuna Eyþór Þorbergsson ftr.
Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Sakborningur, X, sæti gæzluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. september kl. 14:00.