Hæstiréttur íslands

Mál nr. 574/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Föstudaginn 30. ágúst 2013.

Nr. 574/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)

Kærumál. Farbann.

X var gert að sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni til mánudagsins 23. september 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Kærði, sem er ítalskur ríkisborgari og ekki búsettur hér á landi, er undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Því er skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 fullnægt til að verða við kröfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

 Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2013.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerir þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fæddum [...], verði gert að sæta farbanni allt til mánudagsins 23. september 2013 kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að að kvöldi sunnudagsins 25. ágúst sl. hafi embætti hans borist tilkynning frá starfsmanni [...] um að hjá þeim væri erlendur ferðamaður sem hefði verið að taka myndskeið upp á símann sinn af stúlku á kvennaklósetti [...]. Maðurinn hafi reynst vera X, ítalskur ferðamaður er komið hafi hingað til lands 19. ágúst sl. Aðspurður á staðnum hafi hann sagst hafa tekið upp myndskeið á snjallsímann sinn af gerðinni iPhone. Hann kvæðist nota þessar upptökur til að horfa á og fróa sér yfir. Aðspurður hvort hann hefði verið að fróa sér inni á klósettinu í lauginni hafi hann svarað því játandi. Hann hafi ekki ráðið við sig.

                Þá kemur fram að rætt hafi verið við brotaþola ásamt móður hennar, en brotaþoli sé [...] ára gömul. Samkvæmt skýrslunni hafði brotaþoli farið ein á kvennaklósettið í suðurálmu [...]byggingarinnar. Hafi móðir hennar beðið eftir henni fyrir utan. Brotaþoli hafi farið inn á einn klósettbásinn og síðan séð svartan farsíma liggja á gólfinu. Hún hafi þá farið út og náð í móður sína sem hafi farið inn og kíkt undir básinn og þá séð að einhver aðili væri inni á þeim bás. Sá aðili hafi virst sitja á klósettinu og með buxurnar á hælunum. Hún hafi þá náð í starfsmenn [...]. Tveir starfsmenn hafi farið og bankað á klósettbásinn þar sem kærði hafi verið. Hann hafi þá opnað hurðina og verið að girða sig. Hafi hann reynt að fela farsímann fyrir starfsmönnunum en annar starfsmannanna hefði tekið símann af honum og afhent lögreglu. Lögreglan hafi þá óskað eftir því að kærði sýndi síðasta myndskeið sem tekið hefði verið á símann og hafi það sýnt myndskeið sem tekið hafi verið neðan frá á milli klósettbása og sýnt unga stúlku sitja á klósettinu með buxurnar niður um sig. Sjá hafi mátt að fleiri myndskeið hafi verið í símanum en þau hafi ekki verið skoðuð á staðnum.

                Í greinargerð lögreglustjóra segir jafnframt að farið hafi verið með kærða á lögreglustöð þaðan sem honum hafi verið fylgt á herbergi hans á [...] í [...] í Reykjavík. Hann hafi samþykkt leit og skrifað undir leitarheimild. Ekkert saknæmt hafi fundist í farangrinum, engin tölva hafi verið þar eða neitt sem gæti tengst þessu máli. Aðspurður hafi kærði sagt að u.þ.b. 10 myndupptökur væru í símanum hans af svona atvikum á salernum og að hann hefði aðallega tekið þau upp á gistiheimilinu [...], þar sem hann hafi dvalið fyrstu dagana, og í [...] þar sem að sameiginleg salerni væru með skilrúmi á milli og með opi að neðan þannig að hægt hafi verið að setja símann á gólfið og taka upp á næsta salerni. Í dag hafi sími kærða verið rannsakaður, en samtals hafi verið 34 myndskeið af börnum og fullorðnum á símanum sem tekin hafi verið á svipaðan hátt og umrætt myndskeið í [...]. Þá hafi kærði verið yfirheyrður í dag vegna málsins og nokkur myndskeið borin undir hann. Jafnframt hyggist forráðamenn brotaþola leggja fram kæru á næstu dögum og þurfi þá að fara fram skýrslutaka af brotaþola fyrir dómi. Auk þess eigi eftir að taka formlegar skýrslur af öðrum vitnum í málinu, sem og að bera allt það sem rannsókn á síma kærða hafi leitt í ljós undir hann.

                    Lögreglustjóri tekur fram að kærði sé ekki búsettur hér á landi og sé ítalskur ríkisborgari. Sé það mat lögreglustjóra að brot það sem hér um ræði sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða á landinu vegna rannsóknar málsins og til að hann geti ekki komið sér undan mögulegri málsmeðferð fyrir dómi. Því sé nauðsynlegt að kærði sæti farbanni meðan á meðferð máls þessa stendur.

                    Að öllu framangreindu virtu, og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði sé sakaður um, telji lögreglustjóri að uppfyllt séu skilyrði til að hann sæti farbanni á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008.

Niðurstaða

                Samkvæmt því sem að framan er rakið og með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er fallist á að skilyrði séu fyrir hendi til að verða við kröfu um farbann. Verður krafa lögreglustjórans því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Kærði, X, fæddur [...], skal sæta farbanni allt til mánudagsins 23. september 2013 kl. 16:00.