Print

Mál nr. 188/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

                                                         

Þriðjudaginn 12. apríl 2011.

Nr. 188/2011.

Erlingur S. Haraldsson

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún M. Árnadóttir hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

E kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur Í var vísað frá dómi vegna vanreifunar og óskýrs málatilbúnaðar. Í málinu krafðist E þess m.a. að viðurkennt yrði að Í væri bundið af tilteknu áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og væri skaðabótaskylt gagnvart sér vegna brots á 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg- og stjórnmálaleg réttindi. Þá krafðist E jafnframt miskabóta. E byggði á því að yfirvöld hefðu valdið honum tjóni með því að synja honum um leyfi til fiskveiða sem hann ætti að fá bætt. Í úrskurði héraðsdóms var talið að heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála yrði að afmarka svo unnt væri að krefjast viðurkenningar á bótaskyldu vegna ákveðins tjóns en ekki dygði að vísa til ákveðinnar athafnar eða athafnaleysis. Útskýringar E á því tjóni sem hann vildi fá bætt væru ekki skilmerkilegar. Þá var miskabótakrafa E einnig talin vanreifuð. Í dómi Hæstaréttar sagði að áskilnaður 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 hefði í fjölda dóma réttarins verið skýrður svo að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Með vísan til þessa en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum tildæmdur kærumálskostnaður úr hendi sóknaraðila, en til vara að kærumálskostnaður verði látinn niður falla.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í fjölda dóma Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kærumálskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2011.

Mál þetta höfðaði Erlingur S. Haraldsson, kt. 140754-4319, Bárugötu 37, Reykjavík, með stefnu birtri 27. september 2010 á hendur íslenska ríkinu, kt. 550169-4319, en fyrir þess hönd er stefnt fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra. 

Í þessum úrskurði skal leyst úr kröfu stefnda um að málinu verði vísað frá dómi og honum tildæmdur málskostnaður.  Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað og honum ákveðinn málskostnaður sérstaklega í þessum þætti. 

Krafa stefnanda um efni málsins er í tvennu lagi, auk málskostnaðarkröfu.  Hann krefst þess annars vegar að viðurkennt verði að stefndi sé bundinn af áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í málinu nr. 1306/2004 frá 24. október 2007 og sé því skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna brots stefnda á 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.  Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna brots stefnda á 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.  Hins vegar krefst stefndi miskabóta að fjárhæð 6.000.000 króna auk vaxta. 

Til vara krefst stefndi sýknu, til þrautavara lækkunar stefnukröfu. 

Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi starfað á sjó meira og minna í 26 ár.  Hann hafi ásamt öðrum aðilum stofnað á árinu 1988 einkahlutafélagið Fagramúla.  Sama ár hafi félagið keypt fiskiskipið Svein Sveinsson BA-325.  Engin aflahlutdeild hafi verið tengd við skipið.  Bátnum hafi í upphafi fiskveiðiársins 2001-2002 verið úthlutað heimildum til að veiða löngu, keilu og skötusel.  Ítrekað hafi verið sótt um frekari aflaheimildir, en þeim umsóknum hafi ætíð verið synjað. 

Þá eru rakin tilvik þar sem bátnum var haldið til veiða án veiðileyfis eða afla­hlutdeildar.  Hafi stefnandi og samstarfsmaður hans tilkynnt sjávarútvegsráðherra þann 9. september 2001 að þeir hygðust veiða án heimildar til þess að fá skorið úr því hvort þeir fengju að stunda atvinnu sína áfram án þess að greiða öðrum fé fyrir.  Lauk því svo að gefin var út ákæra á hendur stefnanda og öðrum aðilum 4. mars 2002.  Með dómi Héraðsdóms Vestfjarða 2. ágúst 2002 var stefnandi sakfelldur m.a. fyrir að halda bátnum til veiða í dragnót í atvinnuskyni án tilskilinna aflaheimilda og að veiða og landa tilgreindum afla.  Skipið hafi ekki haft neinar aflaheimildir.  Var hann sakfelldur fyrir brot gegn lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða.  Honum var gert að greiða 1.000.000 króna í sekt, auk sakarkostnaðar. 

Dóminum var áfrýjað, en niðurstaða hans var staðfest með dómi Hæstaréttar 20. mars 2003. 

Stefnandi afplánaði vararefsingu sektar samkvæmt dóminum með samfélags­þjónustu. 

Fasteign stefnanda á Patreksfirði var seld nauðungarsölu 4. mars 2002.  Síðar sama ár var Sveinn Sveinsson BA einnig seldur nauðungarsölu.  Loks var bú Fagra­múla ehf. tekið til gjaldþrotaskipta í maí 2003. 

Stefnandi og fleiri aðilar kærðu íslenska ríkið til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í september 2003.  Lauk meðferð málsins fyrir nefndinni með áliti 24. október 2007.  Í lokaliðum álitsins segir: 

10.  … Aðildarríkið hefur ekki sýnt fram á að þessi sérstaka gerð og tilhögun við útfærslu kvótakerfisins samræmist kröfunni um sanngirni.  Þótt nefndin þurfi ekki að svara því hvort kvótakerfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind samræmist samningnum sem slíkum, er það afstaða hennar með hliðsjón af málsatvikum að hinn varanlegi einkaeignarréttur veittur upprunalegum handhöfum kvótans til óhagræðis fyrir kærendur sé keki byggður á sanngjörnum forsendum. 

11.  Mannréttindanefndin, með tilvísun til 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar, telur framlögð gögn leiða í ljós brot á 26. gr. samningsins. 

12.  Í samræmi við a-lið 3. mgr. 2. gr. samningsins er aðildarríkið skuldbundið til að veita kærendum raunhæfa úrbót, að meðtöldum fullnægjandi skaðabótum og endurskoðun á fiskveiðistjórnkerfi sínu. 

Stefndi segir að dómkröfur stefnanda og málatilbúnaður uppfylli ekki ákvæði 2. mgr. 25. gr. og d, e og g-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Hvorki í aðal- né varakröfu sé tilgreint í hverju brot á 26. gr. alþjóðasamningsins eigi að hafa verið fólgið.  Ekki sé afmarkað hver sú háttsemi geti verið.  Því sé kröfugerðin í 1. lið haldin slíkum annmörkum að dómur verði ekki á hana lagður. 

Þá segir stefndi að í stefnu sé ekki fjallað um ætluð brot, ætlað fjártjón og orsakatengsl milli brots og tjóns stefnanda.  Þá hafi ekki verið lögð fram nein gögn um einkahlutafélagið Fagramúla, en slíkar upplýsingar séu nauðsynlegar til að unnt sé að meta orsakatengsl við tjón stefnanda. 

Loks segir stefndi að miskabótakrafa sé haldin sama annmarka, en um hana sé að mestu vísað til ætlaðs fjártjóns. 

Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu.  Hann vísar til þess að ríkislögmaður hafi hafnað bótakröfu sem beint var að ríkissjóði.  Stefndi vísar í þessu sambandi til 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til að fá leyst úr ágreiningi um réttindi sín og skyldur fyrir dómi.  Hann segir að íslenska ríkið sé bundið af áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.  Því eigi hann rétt á því að dómstóll leysi úr um réttindi sín.  Krafa sín sé skýr og heimilt samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að krefjast viðurkenningar bótaskyldu, þó ekki sé gerð ákveðin fjárkrafa.  Segir hann að matsgerð yrði mjög kostnaðarsöm, en sér hafi verið neitað um gjafsókn. 

Niðurstaða

Í dómaframkvæmd hefur verið talið heimilt að fá viðurkenndan rétt til skaða­bóta úr hendi ákveðins aðila, þó ekki sé leyst samtímis úr um bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.  Þessi heimild var ekki til staðar fyrr en lög þessi tóku gildi.  Ákvæðið er undantekning frá þeirri reglu 1. mgr. 25. gr. að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem nauðsynlegt er til úrlausnar um ákveðna kröfu.  Nánar verður að afmarka þessa heimild svo að unnt sé að krefjast viðurkenningar bótaskyldu vegna ákveðins tjóns, slyss eða andláts manns, skemmda á munum eða almenns fjártjóns sem afmarkað er.  Ekki dugar að vísa til ákveðinnar athafnar eða athafnaleysis, en það er þó yfirleitt nauðsynlegt til að sýna fram á bóta­skyldu. 

Fyrsti hluti aðalkröfu stefnanda er um viðurkenningu á því að stefndi sé bundinn af áliti Mannréttindanefndarinnar.  Þetta er krafa um álit um lögfræðileg efni eins og lýst er í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. 

Annar hluti aðalkröfu og varakrafa eru um viðurkenningu á að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna brots stefnda á margnefndri 26. gr. samningsins.  Eins og að framan greinir er það álit dómsins að viðurkenna megi bóta­skyldu vegna tilgreinds tjóns, ekki vegna ákveðins skaðaverks.  Málatilbúnaður stefnanda er skýr á sinn hátt um að hann telur að með því að neita honum um leyfi til að veiða fisk í sjó hafi yfirvöld valdið honum tjóni, sem hann eigi að fá bætt.  Útskýringar hans á tjóni sem hann vill fá bætt eru hins vegar ekki skilmerkilegar. 

Hann segir að eignir útgerðarfélagsins Fagramúla ehf. hafi verið seldar nauðungarsölu, en stefnandi var þar hluthafi.  Loks hafi bú félagsins verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Ekki er vikið orði að samhengi milli meintra brota ríkisins gegn stefnanda og þessarar nauðungarsölu.  Með þessu hafi hann misst vinnu sína á Patreksfirði og þurft að flytja með fjölskyldu sinni til Reykhóla.  Hafi hlotist af þessu kostnaður. 

Þá hefur stefnandi sýnt reikning lögmanns vegna vinnu við kæru stefnanda og félaga hans til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.  Þessi liður gæti sem hægast orðið hluti bótakröfu og er augljóst að kostnaður þessi er afleiðing þess að stefnandi og félagar telja sig órétti beitta með því að þeim er ekki leyft að veiða fisk.  En sá ágalli á kröfugerð stefnanda að vísa einungis til ákveðins skaðaverks, leiðir til þess að vísa verður kröfu þessari frá dómi, sbr. 2. mgr. 25. gr. og d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Varðandi kostnað af búferlaflutningum stefnanda skortir algerlega greinargerð um orsakatengsl milli tjónsins og þeirrar meintu röngu synjunar á leyfi til fiskveiða, sem stefnandi styður kröfu sína við.  Þessi hluti er því svo vanreifaður að ekki yrði úr honum leyst, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. 

Stefnandi krefst loks tiltekinnar fjárhæðar í miskabætur.  Miskabótakrafan er studd við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Miskanum er einkum lýst með því að hann hafi þurft að berjast fyrir réttindum sínum, en einnig er vikið að því að hann hafi verið dæmdur til refsingar og neyðst til að flytjast búferlum.  Engin lýsing er á því í stefnu hvernig þessi atriði geta rúmast innan 26. gr. skaðabótalaga.  Í stefnu er ekki lýst líkamstjóni eða rökstutt að synjun um veiðileyfi sé meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda, frelsishugtak þessa ákvæðis skaðabótalaga er annað en atvinnufrelsishugtak 75. gr. stjórnarskrárinnar.  Þessi krafa um miskabætur er því einnig vanreifuð, sbr. e- og f-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Þá verður krafa um miskabætur ekki byggð á því að stefnandi hafi sætt refsingu samkvæmt dómi. 

Samkvæmt öllu framansögðu ber að vísa máli þessu í heild frá dómi.  Réttur stefnanda til að fá úrlausn um ágreiningsefni sín og stefnda fyrir dómi leiðir ekki til þess að hann sé undanþeginn almennum reglum réttarfars um skýra kröfugerð og málatilbúnað.

Með hliðsjón af atvikum máls verður málskostnaður felldur niður. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r  o r ð

Máli þessu er vísað frá dómi. 

Málskostnaður fellur niður.