Hæstiréttur íslands

Mál nr. 70/2006


Lykilorð

  • Samningur
  • Aðild


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2006.

Nr. 70/2006.

Tjaldanes ehf.

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Alfesca hf.

(Anton B. Markússon hrl.)

 

Samningur. Aðild.

A keypti fiskafurðir af J á grundvelli samnings. T krafði A um greiðslu hluta andvirðis afurðanna þar sem T hefði átt hráefnið og A hefði borið skylda til að greiða tiltekinn hluta verðsins til T en ekki J. Talið var að A hefði borið að standa skil á skuldbindingum sínum gagnvart J og ekkert hafi komið fram í málinu um að svo hafi ekki verið. Var því hafnað að T ætti kröfu á hendur A vegna viðskipta þess síðarnefnda við J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.430.020 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. júlí 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var nafni stefnda breytt úr SÍF hf. í Alfesca hf.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað í Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Tjaldanes ehf., greiði stefnda, Alfesca hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                               

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. f.m., er höfðað í febrúar 2005 af Tjaldanesi ehf., Hafnargötu 31, Grindavík á hendur SÍF hf., Fornubúðum 5 í Hafnarfirði. Fór birting stefnu fram í samræmi við ákvæði b. liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en í áritun lögmanns stefnda er birtingardagur ekki tilgreindur.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.430.020 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. júlí 2004 til greiðsludags. Að auki er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

I.

Dómkröfu sína í málinu byggir stefnandi í fyrsta lagi á samningi sem stefndi gerði 24. febrúar 2003 við Júlíus Stefánsson fiskverkanda, Brekkustíg 7 í Sandgerði, í öðru lagi á yfirlýsingu sem Júlíus og starfsmaður stefnda undirrituðu í tengslum við hann 27. febrúar 2003 og í þriðja lagi á yfirlýsingu Júlíusar frá 2. september 2004. Með samningnum skuldbatt Júlíus sig til að selja stefnda alla sína framleiðslu. Sagði í samningnum að áætlun Júlíusar gengi út á það að framleiða 150 tonn af léttsöltuðum frystum þorskflökum fram að páskum auk annarra afurða. Með 1. gr. samningsins áskildi stefndi sér rétt til að nota tiltekinn hluta afurðaverðs til greiðslu á skuld Júlíusar eða félags á hans vegum við stefnda og Saltkaup hf. Með yfirlýsingu frá 27. febrúar 2003 var mælt fyrir um það hvernig staðið yrði að greiðslu til Júlíusar. Samkvæmt henni og í samræmi við samninginn skyldi stefndi greiða „í síðasta lagi á fjórða degi eftir afskipun inn á reikning í Búnaðarbanka Íslands Kópavogi fyrir afurðirnar“. Undirritaði Hinrik Bjarnason, þáverandi starfsmaður stefnda, þetta ákvæði yfirlýsingarinnar. Þessu næst segir svo í henni: „Reikningur fyrir hráefni fylgir greiðslunni til bankans og verður sá reikningur útgefinn af Júlíusi Stefánssyni og andvirði hans greitt inn á reikning Tjaldaness ehf. [...] um leið og greiðslan berst.“ Með seinni yfirlýsingunni staðfesti Júlíus síðan að stefnandi væri eigandi að öllum þeim fiski sem hann hefði verkað á tímabilinu 17. mars til loka maímánaðar 2004 og að fiskurinn hefði verið unninn í verktöku fyrir stefnanda. Heldur stefnandi því fram að stefnda hafi í samræmi við framangreint og vitneskju starfsmanns stefnda um aðkomu stefnanda að hráefnisöflun borið skylda til að standa stefnanda skil á tilteknum hluta greiðslu fyrir fiskafurðir, samtals 9.930 kg, sem Júlíus Stefánsson hafi unnið úr hráefni frá stefnanda og stefndi hafi móttekið frá Júlíusi á tímabilinu 15. apríl til 9. júní 2004. Þar sem sú greiðsla, sem með réttu hefði átt að nema 3.430.020 krónum, hafi þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir ekki skilað sér til stefnanda eigi hann þann eina kost að höfða mál til heimtu fjárins og verja þannig lögvarða hagsmuni sína.

Tölulega byggir stefnandi kröfugerð sína í málinu á því að stefnda hafi borið að greiða stefnanda 303 krónur fyrir hvert kg af þeim afurðum sem hann móttók frá Júlíusi Stefánssyni á framangreindu tímabili að viðbættum 14% virðisaukaskatti, eða samtals 345,42 krónur fyrir hvert kg. Samtals nemi því skuld stefnda við stefnanda 3.430.020 (9.930 x 345,42) krónum.

II.

Stefndi kveður málsatvik vera þau að 6. febrúar 2003 hefðu Júlíus Stefánsson og stefndi gert með sér dómsátt vegna skuldar Júlíusar við stefnda. Í kjölfar þeirrar dómsáttar hefðu stefndi og Júlíus svo gert með sér samstarfssamning. Hafi sá samningur verið gerður í þeim tilgangi að Júlíus gæti greitt upp skuld sína við stefnda. Samkvæmt samningnum hafi Júlíus verið skuldbundinn til að greiða skuld sína upp við stefnda á þartilgreindan hátt og til að afhenda stefnda alla sínu framleiðslu. Þá hafi Júlíus skuldbundið sig til að veðsetja ekki á neinn hátt afurðir sem hann framleiddi og afhenti stefnda. Þá hafi stefndi haft  heimild til að rifta samningnum ef afurðir Júlíusar yrðu afhentar öðrum en stefnda. Jafnframt hafi stefndi átt endurkröfurétt á hendur Júlíusi ef stefndi yrði skaðabótaskyldur eða ef stefndi yrði að gefa þriðja manni afslátt af kaupverði afurða frá Júlíusi. Loks hafi stefndi haft heimild til að skuldajafna kröfu sem beint yrði að félaginu vegna afurða frá Júlíusi gegn sérhverri innstæðu hans hjá stefnda eða dótturfélögum þess. Í kjölfar þessa samstarfssamnings hafi Júlíus komið á skrifstofu starfsmanns stefnda og beðið hann að skrifa upp á sérstaka yfirlýsingu sem Júlíus hafði útbúið. Hafi starfsmaður stefnda ritað nafn sitt undir þann hluta yfirlýsingarinnar sem verið hafi í samræmi við samstarfssamninginn. Nánar tiltekið hafi starfsmaðurinn staðfest að stefndi myndi greiða andvirði reikninga, sem  útgefnir væru af Júlíusi og vörðuðu viðskipti þeirra samkvæmt samstarfssamningnum, inn á reikning í Búnaðarbanka Íslands (nú KB-banki) í Kópavogi. Hafi þessi ráðstöfun verið í samræmi við 1. mgr. 5. gr. samningsins, en það ákvæði hljóði svo: „Ef framleiðandi svo óskar er SÍF tilbúið að flýtigreiða fyrir afurðir en þó ekki fyrr en eftir 4 virka daga frá móttöku þeirra. Greiðast skal inn á reikning framleiðanda í Búnaðarbankanum í Kópavogi. Framleiðandi mun gefa upplýsingar um reikningsnúmer.“ Á grundvelli samstarfsamningsins hefðu stefndi og Júlíus átt viðskipti allt til loka ágústmánaðar 2004. Hafi Júlíus afhent stefnda afurðir á tímabilinu samkvæmt svokölluðum útskipunarnótum og á grundvelli þeirra hafi stefndi gefið út kaupnótur, eftir atvikum kreditnótur. Greiðslur hafi síðan verið inntar af hendi til Júlíusar, á sama tíma og til annarra framleiðenda, í gegnum afurðalán og KB-banki séð um að útdeila fjárhæðum inn á reikninga hinna ýmsu framleiðanda í samræmi við skilagrein frá  stefnda sem fylgt hafi færslu hverju sinni. Meðan á þessum viðskiptum stóð hafi stefndi þurft að taka tilbaka afurðir sem hann hafi fengið frá Júlíusi þar sem þær hefðu ekki uppfyllt gæðakröfur. Hafi stefndi nýtt sér rétt sinn til skuldajöfnuðar samkvæmt 9. gr. samstarfssamningsins og sent Júlíusi kreditnótur fyrir þeim afurðum.

Sýknukrafa stefnda er aðallega á því byggð að stefnandi eigi ekki þá hagsmuni sem hann krefst í málinu og því sé um aðildarskort að ræða.

Stefndi mótmælir því að stefnandi sé sá sem eigi kröfu um greiðslu og geti því stefnt stefnda til greiðslu þeirrar fjárhæðar sem krafist er. Ekkert samningssamband sé eða hafi verið í gildi milli stefnanda og stefnda, einungis milli stefnda og Júlíusar Stefánssonar. Samstarfssamningurinn frá 24. febrúar 2003  hafi verið á milli stefnda og Júlíusar. Í samningnum hafi verið kveðið á um að Júlíus afhenti allar afurðir sínar til stefnda. Þá hafi verið ákvæði um það í samningnum að afurðir sem Júlíus afhenti stefnda væru ekki veðsettar á neinn hátt. Tilgangur slíks skilyrðis af hálfu stefnda hafi verið að koma í veg fyrir að þriðji aðili gæti gert kröfu í afurðir sem Júlíus afhenti stefnda. Stefnda hafi hvorki verið skylt né borið nauðsyn til þess í viðskiptum þessara aðila að kanna eða leita eftir þeim upplýsingum úr hendi Júlíusar hvort Júlíus sjálfur væri eigandi afurðanna eða einhver þriðji aðili hverju sinni. Þá hefðu útskipunarnótur Júlíusar ekki borið það með sér að einhver annar en Júlíus væri eigandi afurðanna. Sé í þessu sambandi til þess að líta að það væri íþyngjandi kvöð fyrir viðskipti af þessu tagi ef stefndi hefði þurft að kanna það sérstaklega í hvert skipti sem reikningur kæmi frá framleiðanda hver væri eigandi afurða sem honum væri afhentar úr hendi framleiðanda.

Þá hafi stefndi haft til þess heimild, án sérstakrar tilkynningar til Júlíusar, að skuldajafna sérhverri gjaldfallinni kröfu hins stefnda félags, eða dótturfélaga þess, á hendur Júlíusi á grundvelli samstarfssamningsins við sérhverja innistæðu er Júlíus kynni að eiga hjá stefnda eða dótturfélögum, sbr. 9. gr. samningsins. Stefndi hafi nýtt sér þessa heimild þegar hann hafi fengið tilbaka frá kaupendum afurðir sem ekki hefðu uppfyllt gæðakröfur og Júlíus lagði inn til stefnda. Greiðslum til Júlíusar fyrir þessar afurðir hafi þá verið skuldajafnað við ógreiddar kröfur hans. Af framlögðum hreyfingarlistanum sé ljóst að stefndi og Júlíus hafi átt regluleg viðskipti frá 27. febrúar 2003 til 31. ágúst 2004. Stefndi hafi ekki haft um það vitneskju hvaðan afurðir komu hverju sinni. Þá séu engar nótur né hreyfingar inni í kerfum stefnda á þessu tímabili sem vísi til þess að stefnandi hafi átt kröfu á hendur stefnda. Allar greiðslur frá stefnda til Júlíusar vegna afurða frá honum hafi runnið beint til hans eins og hreyfingarlisti og allar kaup- og kreditnótur sem lagðar hafa verið fram í málinu beri með sér. Hafi greiðsla til Júlíusar verið innt af hendi af hálfu stefnda með greiðslum til annarra framleiðanda og í gegnum KB-banka.

Að því er varðar áðurnefnda yfirlýsingu Júlíusar Stefánssonar frá 27. febrúar 2003 tekur stefndi fram að þriðjamannslöggerningur geti eftir atvikum skapað þriðja manni sjálfstæðan rétt og þar með aðild að kröfu sem ella hefði verið í eigu annars manns. Yfirlýsingin hafi að geyma loforð Júlíusar, sem loforðsgjafa, til stefnanda, sem þriðja manns, um að þegar KB-banki, loforðsmóttakandi, hafi móttekið greiðslur frá stefnda til Júlíusar megi bankinn leggja þá fjárhæð inn á nánar tilgreindan reikning stefnanda. Í þessu hafi falist loforð af hálfu Júlíusar um að móta því farveg að greiðslur til hans úr hendi stefnda yrðu lagðar beint inn á reikning stefnanda. Um sé að ræða persónulega yfirlýsingu og loforð Júlíusar til stefnanda um að hann óski eftir við KB-banka að greiðslur stefnda verði greiddar inn á reikning stefnanda. Stefndi sé óbundinn af þessu loforði, enda hafi hann ekki samþykkt að greiða inn á reikning stefnenda heldur aðeins að greiða inn á reikning í KB-banka. Stefndi hafi aldrei innt af hendi greiðslu inn á reikning stefnanda né haft upplýsingar um það á hvaða reikning greiðslur til Júlíusar voru lagðar. Sá hátturinn sé hafður á hjá stefnda að greiða ávallt fyrir afhentar afurðir í gegnum afurðalán til KB-banka, sem deili svo greiðslum til framleiðanda eða eftir atvikum þeirra sem framleiðandi hefur óskað eftir að verði móttakandi greiðslu hverju sinni. Upplýsingar um annað, sem fram komi í yfirlýsingunni, hafi einvörðungu haft þýðingu þegar kom að samskiptum Júlíusar og KB-banka. Starfsmaður stefnda hafi ritað nafn sitt á yfirlýsinguna, en einungis undir þann hluta hennar þar sem fram komi að stefndi hefði gert samning við Júlíus um sölu afurða og að afskipað yrði samkvæmt þeim samningi nema um annað yrði samið. Vísað hafi verið til samningsins um greiðslufyrirkomulag, það er að stefndi myndi greiða í síðasta lagi á fjórða degi eftir afskipun inn á reikning í KB-banka. Starfsmaður stefnda hafi undirritað þetta ákvæði yfirlýsingarinnar og með því staðfest tilvist samstarfssamnings Júlíusar og stefnda og hvernig samið hefði verið um að staðið yrði að greiðslum. Yfirlýsingin mæli að öðru leyti ekki fyrir um efni samstarfssamningsins, heldur vísi til hans um efnisatriði. Yfirlýsinguna beri því að lesa í ljósi samstarfssamningsins og þeirra efnisákvæða sem þar er að finna, þar með talin ákvæði hans um rétt til skuldajöfnunar. Þá beri að líta til þess að umræddur starfsmaður stefnda hafi ekki haft þá stöðu hjá stefnda að hann gæti skuldbundið félagið með einum eða öðrum hætti.

Af hálfu stefnda er á því byggt að jafnvel þó litið yrði svo á að stefndi hafi gefið stefnanda loforð um að greiða andvirði afurða sem félagið móttók frá Júlíusi inn á reikning KB-banka hafi réttur stefnanda samkvæmt yfirlýsingunni fallið niður þar sem síðar til komin atvik hafi verið með þeim hætti að ekki verði á henni byggt. Ekkert sé fram komið um að greiðslur stefnda til Júlíusar hafi frá 27. febrúar 2003 verið lagðar inn á reikning stefnanda, heldur sé einungis gerð krafa vegna tímabilsins 15. apríl – 9. júní 2004. Þá hafi rúmt ár verið liðið frá því að yfirlýsingin var gefin. Auk þess hafi tilhögun á greiðslu frá stefnda til Júlíusar verið þannig háttað að stefndi hafi ekki vitað inn á hvaða reikning fjárhæðir til handa Júlíusi voru færðar, sbr. það sem að framan greinir. Því hafi stefndi ekki haft um það vitneskju hvort yfirlýsingunni hafi nokkurn tíma verið framfylgt. Áðurgreind yfirlýsing Júlíusar frá 2. september 2004, þar sem fram komi að fiskur sem hann verkaði á tímabilinu 17. mars 2004 til loka maímánaðar 2004 hafi verið fiskur í eigu stefnanda, staðfesti það ennfremur að stefnanda hafi borið að beina kröfu sinni að Júlíusi. Stefndi hafi engar forsendur til þess að játa því eða neita að sá fiskur sem hér um ræðir hafi verið í eigu stefnanda. Stefndi hafi ekki heldur haft vitneskju um það hvort það hráefni sem Júlíus verkaði fyrir þann tíma hafi verið í eigu stefnanda eða einhvers annars. Stefnanda hafi því borið að beina máli sínu að Júlíusi og heimta fjárkröfuna sínu úr hendi hans. Þá er því alfarið hafnað að þessi yfirlýsing færi sönnur á það að stefndi hafi vitað að fiskurinn sem Júlíus afhenti stefnda á þesssum tíma hafi verið kominn frá stefnanda. Þá styðji yfirlýsing Júlíusar til KB-banka það ekki heldur að stefndi hafi vitað um tilvist þess að fiskur sem stefndi móttók frá Júlíusi á þessu tímabili hafi verið í eigu stefnanda. Yfirlýsingin til KB-banka sé gefin rúmu ári áður en þess fiskur var afhentur. Hafi Júlíus margoft fyrir þann tíma afhent stefnda afurðir. Stefndi hafi ekki haft vitneskju um uppruna þeirra og því verið grandlaus um hvaðan Júlíus fékk hráefni til þeirra vinnslu sem hann hafði með höndum og eigi það við um allt það tímabil meðan á viðskiptum Júlíusar og stefnda stóð. Júlíus beri þannig gagnvart stefnanda ábyrgð á þeirri greiðslu sem stefnandi gerir kröfu til úr hendi stefnda.

Með vísan til alls framanritaðs krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts stefnanda.

Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli aðildarskorts er því haldið fram að sýkna beri stefnda á grundvelli þess að ekkert samningssamband sé á milli aðila og stefnandi hafi því orðið að krefja stefnda um greiðslu skaðabóta en ekki skuldar. Júlíus Stefánsson hefði einn getað haldið þeirri kröfu fram fyrir dómi að stefndi skuldaði sér þá fjárhæð sem gerð er krafa um í málinu. Hefði Júlíus þurft að sækja sér efnisdóm fyrir því að stefndi hafi ekki haft rétt til að skuldajafna þeirri fjárhæð sem hann gerði. Stefnandi hafi ekki verið aðili að samstarfssamningi Júlíusar og stefnda. Stefnandi gæti því í besta falli einungis átt rétt á skaðabótum úr hendi stefnda og þá með vísan til þess að yfirlýsingin frá 27. febrúar 2003 hafi verið þannig úr garð gerð að stefnandi hafi mátt vera í góðri trú um að stefndi myndi greiða hverju sinni samkvæmt reikningi Júlíusar í síðasta lagi á fjórða dagi eftir afskipun. Enginn fyrirvari hafi verið gerður um að greiðslu gæti verið skuldajafnað á móti inneign Júlíusar hjá stefnda og að því gæti komið upp tilvik þar sem greiðsla samkvæmt reikningi Júlíusar yrði ekki innt af hendi af hálfu stefnda í síðasta lagi fjórum dögum eftir afskipun. Einmitt vegna þessa hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem nemi þeirri fjárhæð sem stefndi skuldajafnaði á móti inneign Júlíusar hjá stefnda. Stefndi skuldi stefnanda hins vegar ekki þá fjárkröfu. Því sé þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli framangreindra málsástæðna er krafist sýknu á grundvelli þess að stefndi hafi haft heimild til skuldajöfnunar samkvæmt 9. gr. samstarfssamningsins milli Júlíusar og stefnda og stefnandi sé bundinn af þeirri skuldajöfnun. Stefndi hafi þannig haft heimild til að skuldajafna sérhverri gjaldfallinni kröfu hins stefnda félags, eða dótturfélaga þess, án sérstakrar tilkynningar til Júlíusar. Stefndi hafi móttekið afurðir frá Júlíusi sem ekki hafi uppfyllt gæðakröfur. Hafi með réttu haft heimild til að skuldajafna endurkröfu sem þar með varð til á hendur Júlíusi við hverja ógreidda kröfu hans, sbr. til dæmis 4. gr. samstarfssamningsins. Því sé þannig hafnað að stefndi skuldi þá fjárhæð sem um er deilt og ráðið verður að stefnandi telji sig geta getið gengið inn í fyrir hönd Júlíusar. Því sé krafist sýknu á greiðslu skuldar úr hendi stefnda.

III.

Málatilbúnaður stefnanda samkvæmt stefnu og málflutningi lögmanns hans verður ekki skilinn á annan veg en þann að stefndi hafi verið skuldbundinn til að greiða stefnanda hluta andvirðis 9.930 kg af söltuðum fiskflökum sem Júlíus Stefánsson lagði inn til stefnda frá 17. mars til loka maímánaðar 2004. Hefur stefnandi um þessa skuldbindingu stefnda vísað til samstarfssamnings stefnda og Júlíusar frá 24. febrúar 2003, yfirlýsingar frá 27. sama mánaðar, sem áður er getið, og þess að framangreindar afurðir hafi verið unnar úr hráefni sem stefnandi lagði Júlíusi til. Fyrri hluti yfirlýsingarinnar hljóðar svo: „Gerður hefur verið samningur við SÍF um sölu afurða Júlíusar Stefánssonar, kt. 171139-4499. Afskipað verður til SÍF skv. samningnum þegar til eru full bretti, nema um annað verði samið. Samkvæmt sama samningi greiðir SÍF í síðasta lagi á fjórða degi eftir afskipun inn á reikning í Búnaðarbanka Íslands, Kópavogi, fyrir afurðirnar. Undir þennan hluta yfirlýsingarinnar ritar Hinrik Bjarnason, sem á þessum tíma var starfsmaður stefnda, nafn sitt. Þessu næst segir svo í yfirlýsingunni: „Reikningur fyrir hráefni fylgir greiðslunni til bankans og verður sá reikningur útgefinn af Júlíusi Stefánssyni og andvirði hans greitt inn á reikning Tjaldaness ehf., kt. 670287-1689, 1193 26 526, um leið og greiðslan berst. Hvert kg í afurð kostar kr. 303 í hráefni miðað við núverandi afurðaverð og gengi EUR. Hráefnisreikningurinn verður því upp á kr. 303 + 14% VSK fyrir hvert afurðakíló.“ Yfirlýsingin í heild sinni er undirrituð af Júlíusi Stefánssyni. Þá ritar starfsmaður bankans nafn sitt undir hana. Kom fram í skýrslu starfsmannsins, Gunnars Jóakimssonar, við aðalmeðferð málsins að með undirritun sinni hafi hann eingöngu verið að staðfesta þann hluta yfirlýsingarinnar sem snýr að afurðaverði. Er það og í samræmi við texta sem handskrifaður er á yfirlýsinguna ofan við undirritun Gunnars.

Stefndi átti í viðskiptum við Júlíus Stefánsson. Frá 24. febrúar 2003 fór um þau eftir framangreindum samstarfssamningi þeirra. Þótt út frá því væri gengið að Júlíus hafi átt rétt til greiðslu úr hendi stefnda fyrir þær afurðir, sem um ræðir í málinu, þrátt fyrir umsaminn rétt félagsins til skuldajöfnunar við sérhverja kröfu sem það ætti á hendur Júlíusi eða félögum á hans vegum, eru engin efni til að fallast á það með stefnanda að stefndi hafi með einum eða öðru hætti verið skuldbundinn til að inna þá greiðslu eða hluta hennar af hendi til stefnanda. Verður þannig ekki á það fallist að yfirlýsingin frá 27. febrúar 2003, sem að hluta til var staðfest með undirritun starfsmanns stefnda og svo sem að framan greinir, geti leitt til þess að stefndi hafi borið þá skyldu gagnvart stefnanda sem er grundvöllur kröfugerðar hans í málinu. Breytir hugsanleg vitneskja starfsmanna stefnda um að stefnandi hafi verið eiganda þess hráefnis sem umræddar afurðir voru unnar úr engu í þessu sambandi. Er þessi niðurstaða í fullu samræmi við vitnisburð Júlíusar Stefánssonar fyrir dómi og þann skilning hans að með yfirlýsingunni hafi, svo sem orð hennar gefa ótvírætt til kynna, verið mælt fyrir um það hvernig greiðslum, sem Búnaðarbankinn í Kópavogi myndi móttaka frá stefnda fyrir afurðir sem Júlíus legði inn til félagsins, skyldi í öllu falli að hluta til ráðstafað af hálfu bankans. Stefnda bar að efna skyldur sínar gagnvart viðsemjanda sínum og er ekki annað komið fram í málinu en að það hafi hann gert. Vera kann hins vegar að Júlíus standi í skuld við stefnanda vegna viðskipta þeirra, en á stefnda hvíla engar skyldur í tengslum við þau.

Með vísan til framanritaðs er því hafnað að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda vegna þeirra viðskipta stefnda og Júlíusar Stefánssonar sem um ræðir í málinu. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 420.000 krónur.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Stefndi, SÍF hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Tjaldaness ehf.

Stefnandi greiði stefnda 420.000 krónur í málskostnað.