Hæstiréttur íslands

Mál nr. 328/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. ágúst 2006.

Nr. 328/2006.

Sigrún Halldórsdóttir

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Sylvíu Lockey Gunnarstein

(Bjarni S. Ásgeirsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

SH höfðaði mál á hendur SL til heimtu eftirstöðva kaupverðs fasteignar og nam krafa hennar 2.000.000 króna auk dráttarvaxta. Dómsátt var gerð á milli þeirra, sem fól í sér að SL greiddi SH 1.800.000 krónur auk 300.000 króna í dráttarvexti. SH kærði úrskurð héraðsdóms um að SL bæri að greiða SH 100.000 krónur í málskostnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem SL hefði tapað málinu í öllu verulega bæri að dæma hana til að greiða SH málskostnað, sem þótti hæfilegur 300.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2006, þar sem varnaraðila var gert að greiða 100.000 krónur í málskostnað í máli sóknaraðila á hendur henni, sem lokið var að öðru leyti með dómsátt, en sóknaraðili, sem ekki var stödd við uppkvaðningu úrskurðarins, kveðst fyrst hafa fengið vitneskju um niðurstöðu hans 14. júní 2006. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér 482.385 krónur í málskostnað í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta 24. janúar 2006 til heimtu eftirstöðva kaupverðs efri hæðar fasteignar að Erluhólum 3 í Reykjavík, sem hún seldi varnaraðila með kaupsamningi 14. desember 2004. Krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum frá gjalddaga greiðslunnar 1. apríl 2005, auk málskostnaðar, allt gegn því að gefið yrði út afsal fyrir eigninni til varnaraðila. Varnaraðili tók til varna í málinu og krafðist aðallega sýknu af kröfu sóknaraðila, til vara sýknu að svo stöddu, en að því frágengnu að krafan yrði lækkuð. Í öllum tilvikum krafðist varnaraðili málskostnaðar. Varnir hennar voru aðallega reistar á því að sóknaraðili hefði látið undir höfuð leggjast að efna skyldu, sem hún tók að sér með kaupsamningnum, til að láta gera eignaskiptasamning vegna fasteignarinnar, sem kaup þeirra tóku til hluta af, og þinglýsa honum. Vegna þessarar vanefndar væri varnaraðila óskylt að standa skil á eftirstöðvum kaupverðsins. Í þinghaldi í málinu 24. maí 2006 gerðu aðilarnir dómsátt, þar sem varnaraðili hét því að greiða sóknaraðila 1.800.000 krónur auk 300.000 króna í dráttarvexti ekki síðar en 31. sama mánaðar, gegn því að fá útgefið afsal fyrir eigninni, en varnaraðili tæki að sér að láta gera eignaskiptasamning vegna fasteignarinnar. Ágreiningur stóð eftir sem áður um málskostnað og var leyst úr honum með hinum kærða úrskurði.

Í ljósi þess, sem að framan greinir, fól dómsátt aðilanna í sér að varnaraðili tapaði málinu í öllu verulegu. Eins og atvikum var háttað bar því að dæma hana til að greiða sóknaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Ekki liggur fyrir af hendi sóknaraðila hver hafi verið vinnutími lögmanns hennar við málið, en fjárhæðin, sem hún krefst í málskostnað samkvæmt áðursögðu, mun vera studd við ákvæði gjaldskrár lögmannsins, sem miða við hagsmuni umbjóðanda hans í dómsmáli. Að virtu umfangi málsins og þeim hagsmunum, sem í húfi voru, svo og að málinu var lokið án þess að gagna væri aflað af hálfu sóknaraðila eftir þingfestingu þess og án frekari málflutnings, er hæfilegt að dæma varnaraðila til að greiða henni 300.000 krónur í málskostnað í héraði.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, Sylvía Lockey Gunnarstein, greiði sóknaraðila, Sigrúnu Halldórsdóttur, 300.000 krónur í málskostnað í héraði og 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2006.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 24. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 24. janúar sl.

Stefnandi er Sigrún Halldórsdóttir, Norðurbrú 1 Garðabæ.

Stefndi er Sylvía Lockey Gunnarstein, Erluhólum 3, Reykjavík.

Í máli þessu krafði stefnandi stefndu um greiðslu eftirstöðva kaupverðs að fjárhæð 2.000.000 ásamt dráttarvöxtum auk málskostnaðar. Byggt er á kaupsamningi um efri hæð fasteignarinnar nr. 3 að Erluhólum í Reykjavík frá 14. desember 2004. Var alls þessa krafíst gegn útgáfu afsals fyrir nefndri fasteign.

Stefnda krafðist aðallega sýknu og til vara sýknu að svo stöddu og til þrautavara verulegrar lækkunar stefnukröfu og málskostnaðar í öllum tilvikum.

Með aðilum varð sátt í þinghaldi 24. maí en samkvæmt henni skal stefnda greiða stefnanda 1.800.000 krónur gegn útgáfu afsals. Enn fremur greiði stefnda 300.000 krónur í vexti af stefnukröfunni. Þá taki stefnda að sér að annast gerð eignaskiptasamnings.

Ágreiningur var um málskostnað og var hann lagður í úrskurð dómsins.

Af efni sáttarinnar er ljóst að stefnda féllst á meginhluta stefnukröfu og verður henni því samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gert að greiða málskostnað stefnda sem telst hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

             Stefnda, Sylvía Lockey Gunnarstein, greiði stefnanda Sigrúnu Halldórsdóttur, 100.000 krónur í málskostnað.