Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-110

ST ehf. (Birgir Már Björnsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattlagning
  • Skattheimild
  • Stjórnarskrá
  • Lagaheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 26. október 2023 leitar ST ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 29. september 2023 í máli nr. 308/2022: ST ehf. gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um endurgreiðslu á gjaldi til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í formi heildsöluálagningar á tóbak, sbr. ákvæði laga nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Leyfisbeiðandi annaðist innflutning á vindlum í þeim tilgangi að selja beint í smásölu í eigin netverslun.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Taldi leyfisbeiðandi að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefði verið óheimilt að skylda hann til að greiða gjald í formi heildsöluálags þar sem hann stundaði ekki heildsölu heldur aðeins smásölu tóbaks. Aðilar deildu ekki um að álagið væri skattur en ágreiningurinn laut að því hvort fullgild heimild hefði verið til skattlagningarinnar, sbr. 1. málslið 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Landsréttur vísaði til þess að samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak hefði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einkaleyfi til að selja tóbak innan lands í heildsölu. Í því fælist að allt tóbak sem flutt væri til landsins þyrfti að afhenda stofnuninni og kaupa síðan af henni í heildsölu en í 3. mgr. 9. gr. laganna segði að heildsöluálagning á tóbak skyldi vera 18%. Samkvæmt því væri í lögum nr. 86/2011 mælt fyrir um meginatriði skattlagningarinnar, svo sem um hver fjárhæð gjaldsins skyldi vera, hverjir væru gjaldskyldir og hver gjaldstofninn væri. Væri álagningin því byggð á beinum fyrirmælum löggjafans í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi og vísar einkum til þess að verulegur vafi sé um hvort heildsöluálagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og fyrirkomulag hennar standist í tilviki leyfisbeiðanda þá kröfu 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar að skattlagning skuli eiga sér fullnægjandi stoð í lögum. Málið varði einkum skýringu hugtakanna „heildsala“, „heildsöluálagning“ og „smásala“ sem hvergi séu skilgreind í lögum. Sá vafi sem uppi sé um skýringu þessara hugtaka leiði til þess að heimild Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til heildsöluálagningar í tilviki leyfisbeiðanda verði ekki leidd með nægilega skýrum hætti af ákvæðum laga nr. 86/2011. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda enda varði það stjórnarskrárvarin réttindi hans. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að rík ástæða sé til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem ljóst sé að sá lagagrundvöllur sem umrædd álagning sé byggð á feli ekki í sér nægilega skýra heimild fyrir heildsöluálagningunni.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.