Hæstiréttur íslands
Mál nr. 83/2008
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 19. júní 2008. |
|
Nr. 83/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Andra Má Jóhannssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
AM var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, nemanda við grunnskólann á X, en AM var kennari hennar. Taldist háttsemi hans varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og breytti engu þótt A hafi verið fús til að hafa við hann kynferðislegt samneyti. Brot AM þóttu alvarleg og refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu Hæstaréttar 8. febrúar 2008. Hann krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest, refsing hans þyngd, honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins á báðum dómstigum og að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um miskabætur og vexti til handa A.
Ákærði krefst sýknu og að allur málskostnaður á báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði.
I.
Héraðsdómur var birtur ákærða 8. febrúar 2008, og var þá merkt við þar til gerða setningu á birtingarvottorði að hann uni dómi. Sama dag sendi skipaður verjandi hans ríkissaksóknara yfirlýsingu þess efnis að ákærði áfrýjaði dómi héraðsdóms fyrir sitt leyti. Ekki kemur hins vegar fram í áfrýjunarstefnu að áfrýjað sé af hálfu ákærða, heldur einungis ákæruvaldsins. Kröfur ákærða koma því ekki til sérstakrar úrlausnar utan þess sem leiðir af 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
II.
Með dómi héraðsdóms var ákærði sakfelldur í öllu verulegu fyrir brot samkvæmt 2., 3. og 4. lið ákæru gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum samkvæmt lögum nr. 40/1992 og 40/2003. Hann var hins vegar sýknaður af sakargiftum samkvæmt 1. lið ákærunnar og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu. Í héraðsdómi er tekið fram að ákærða, sem var kennari við grunnskóla, hafi verið trúað fyrir A til kennslu og þess uppeldis, sem grunnskólum er falið að lögum. Með framangreindu lagaákvæði sé lögð refsing við því ef maður hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn eða ungmenni, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu. Ákærði hafi unnið sér til refsingar samkvæmt þessu ákvæði og breyti engu þótt stúlkan hafi verið fús til að hafa við hann kynferðislegt samneyti. Málsvörn ákærða fyrir Hæstarétti hefur einkum falist í því að ákvæðið eigi ekki lengur við vegna breyttra þjóðfélagshátta. Þeirri varnarástæðu var einnig borið við fyrir héraðsdómi, þar sem henni var hafnað með ítarlegum rökstuðningi dómsins. Brot ákærða voru framin meðan hann var ennþá kennari stúlkunnar. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.
Brot ákærða eru alvarleg og er refsing hans, fangelsi í 15 mánuði, hæfilega ákveðin í héraðsdómi. Hann á sér engar málsbætur og eru ekki forsendur fyrir því að binda refsinguna skilorði. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um skaðabætur verður staðfest, svo og ákvæði hans um sakarkostnað. Fjárhæð þóknunar réttargæslumanns, sem ákveðin var í hinum áfrýjaða dómi verður staðfest, þó þannig að ákærði greiði hana einn.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Andri Már Jóhannsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur skal vera óraskað.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað að öðru leyti en því að ákærði greiði einn þóknun réttargæslumanns brotaþola, Lilju Jónasdóttur hæstaréttarlögmanns.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 410.329 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. desember 2007.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms 29. október sl., er höfðað af ríkissaksóknara hinn 16. ágúst 2007 á hendur Andra Má Jóhannssyni [...]
„fyrir eftirfarandi kynferðisbrot gegn A, fæddri 1990, nemanda við grunnskólann [...] á árunum 2002 til 2006 en ákærði var þá kennari hennar:
1. Með því að hafa, seinni hluta árs 2003 og árið 2004 [...] m.a. á þáverandi heimili ákærða að [...] ítrekað kysst A og þuklað á henni líkamann utanklæða.
2. Með því að hafa, á árinu 2005, á þáverandi heimili ákærða að [...] og í bifreið ákærða, að jafnaði fjórum sinnum í viku ýmist strokið um brjóst hennar utan eða innanklæða, strokið kynfæri hennar utan eða innanklæða, eða sett fingur í leggöng hennar.
3. Með því að hafa, vorið 2006, [...] látið A sjúga á sér getnaðarliminn.
4. Með því að hafa, vorið 2006, þrisvar sinnum haft samræði við A, tvisvar sinnum á þáverandi heimili A [...]og einu sinni á þáverandi heimili ákærða að [...].
Telst háttsemi ákærða samkvæmt 1. tölulið varða við 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992 og 40/2003, en samkvæmt 2., 3. og 4. tölulið við 1. mgr. 201. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakrafa:
Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta frá því fyrsta brotlega atvikið átti sér stað seint á árinu 2003 þar til einn mánuður er liðinn frá því að bótakrafa var birt ákærða en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags, allt í samræmi við 9. gr. sömu laga.“
II
Málavextir
Ákærði hóf störf sem kennari við grunnskólann [...] um haustið 2000. Á þeim tíma var hann í sambúð með B og á heimili þeirra var C, dóttir B, fædd 1990. Á þessum tíma var A nemandi við grunnskólann og tókst vinskapur með henni og C, fósturdóttur ákærða. A var tíður gestur á heimili ákærða og mun alloft hafa gist á heimili hans og þá deilt rúmi með C. Auk þess að vera kennari A þjálfaði ákærði hana um tíma í knattspyrnu. Í ágústmánuði 2006 barst lögreglunni á Sauðárkróki tilkynning frá Barnaverndarnefnd Skagafjarðar um meint kynferðisbrot ákærða gagnvart A. Í tilkynningunni er meðal annars rakið að A hafi greint vini sínum, D, frá sambandi hennar og ákærða þannig að hann taldi nauðsynlegt að hún ræddi málið við einhvern fullorðinn sem hún treysti. Úr varð að stúlkan ræddi við E, móður D. Í tilkynningunni kemur fram að A hafi tjáð E að hún hafi átt í kynferðislegu sambandi við ákærða um alllangt skeið, jafnvel frá því að stúlkan var 12 ára gömul. Í framhaldi af þessu hóf lögreglan á Sauðárkróki rannsókn á málinu. Að kröfu hennar var tekin skýrsla fyrir dómi af stúlkunni hinn 31. ágúst 2006.
III
Framburður fyrir dómi
Vitnið A bar að hún hafi verið tæplega 13 ára gömul, þegar ákærði káfaði á henni í fyrsta sinn. Þetta hafi verið í lok árs og hún nýkomin frá útlöndum. Hún hafi staðið við eldhúsvaskinn á heimili ákærða og hann hafi komið að henni og tekið utan um hana og snert á henni mjaðmirnar og rassinn. Vitnið kvaðst ekki muna hvort aðrir heimilismenn voru heima þegar þetta gerðist. Eftir þetta atvik hafi svona káf utan klæða haldið áfram í nokkurn tíma og hafi átt sér stað víða, m.a. í skólanum, en það hafi ekki gerst oft þar, varla oftar en tvisvar. Einnig hafi slíkt átt sér stað þegar þau hittust við fótboltaæfingar. Þá hafi hún kannski verið lengur á æfingu eftir að aðrir voru farnir í bað og þá hafi þau kannski kysst. Aðspurð um frumkvæði í þessum efnum bar hún að þau hafi bæði haft frumkvæðið en hún hafi talið að þau væru að gera eitthvað sem væri rétt.
Vitnið kvaðst ekki muna hvenær ákærði káfaði fyrst á henni innan klæða en það hafi verið nokkrum mánuðum eftir fyrsta tilvikið. Vitnið bar að fyrstu mánuðina hafi ákærði ekkert sagt við hana meðan hann káfaði á henni. Henni hafi í fyrstu þótt svolítið skondið og skrítið að ákærði, sem var kennari hennar, hafi verið að líta hana þessum augum og við það hafi hún fengið aukið sjálfstraust sem hafi síðar minnkað þegar hún áttaði sig á því að hún mætti ekki segja frá. Vitnið bar að raunar hafi ákærði aldrei sagt berum orðum að hún mætti ekki segja frá heldur hafi hann talað í kringum það.
Vitnið bar að samskipti hennar og ákærða hefðu þróast hratt. Hún hafi verið mikið á heimili ákærða og þá hafi hann að nokkrum tíma liðnum farið að hafa samband við hana símleiðis. Vitnið kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir því hvenær ákærði gekk lengra en að káfa á henni utan klæða. Aðspurð um hvenær hann kyssti hana fyrst tungukossi kvaðst hún ekki geta gert sér grein fyrir því þótt hún teldi sig geta tengt það við ákveðið atvik. Hún kvað þá hugsun hafa komið upp í huga sinn að þetta væri eitthvað sem hún vildi ekki en hún hafi aldrei þorað að segja nei.
Að sögn vitnisins þróuðust samskipti hennar og ákærða þannig að þau byrjuðu að stunda kynlíf, þó þannig að samfarir áttu sér ekki stað. Hún lýsti því að hún hafi oft átt munnmök við ákærða. Einu skipti lýsir hún þannig að hún hafi gist á heimili ákærða og hann hafi vakið hana um miðja nótt, með því að ýta við henni með kústskafti, og beðið hana um að koma fram. Þegar fram var komið hafi ákærði byrjað að káfa á henni og beðið hana um að hafa munnmök við sig og það hafi hún gert. Þetta atvik hélt hún að hefði átt sér stað í desember 2004. Raunar hafi hún haft við hann munnmök fyrir þennan tíma en hún kvaðst ekki geta tímasett neitt í þessu efni. Aðspurð um það hvenær hún hefði fyrst haft munnmök við ákærða taldi hún það frekar hafa verið á árinu 2005 en 2004.
Vitnið lýsti því að hún hefði í tvígang haft samfarir við ákærða. Í fyrsta sinn hafi það verið vorið 2006 en þá hafi hann komið á heimili hennar þegar hún var ein heima. Skömmu eftir þetta atvik hafi þau haft samfarir á þáverandi heimili ákærða á [...]. Vitnið sagði að hlé hafi orðið á sambandi hennar og ákærða í byrjun árs 2006 en þau hafi tekið það upp aftur í einhvern tíma en því hafi síðan endanlega lokið fyrrihluta árs 2006.
Vitnið bar að hún hefði sagt stúlku í skólanum frá sambandi hennar og ákærða og taldi hún að sú stúlka hefði rætt það við einn kennaranna. Það hafi hins vegar ekki orðið neitt úr málinu á þeim tíma. Raunar kvaðst hún, eftir að fyrsta atvikið milli hennar og ákærða átti sér stað, hafa skýrt tveimur stúlkum, F og G, frá því. Þær hafi þá allar verið staddar í sjoppunni á [...]. F sé jafnaldra hennar en G ári eldri og þeim hafi öllum þótt þetta pínulítið spennandi en ekki áttað sig á hvað var að gerast.
Vitnið greindi frá því að á þeim tíma sem mál þetta tekur til hafi hún haldið dagbók. Hún hafi hins vegar ekki skrifað berum orðum hvað átti sér stað á milli hennar og ákærða en gert merki fyrir sig sjálfa. Hún hafi vitað hvað merkin þýddu en þó þannig að hún gat ekki lesið úr dagbókinni hvort munnmök áttu sér stað ákveðinn dag heldur bara að eitthvað hefði gerst á ákveðnum degi.
Vitnið greindi frá því að upp í huga hennar hefðu komið hugleiðingar um sjálfsvíg. Hún hafi oft verið búin að skrifa niður til dæmis bara hvernig hún vildi að allt væri og ætlað að fremja sjálfsmorð og hún hafi reynt það seinnihluta árs 2004 eða í byrjun árs 2005. Aðdragandi þess hafi verið þannig að henni hafi þótt samband hennar og ákærða vera frekar henni að kenna heldur en honum. Hún hafi líka talið að hún væri bara að skemma fyrir ákærða og fjölskyldu hans. Vitnið bar að fyrsta árið hafi hún ákveðið að fara eitthvað eða láta sig hverfa. Hún hafi oft farið út um nótt en alltaf hætt við þegar hún fór að hugsa um fjölskyldu sína. Vitnið kvaðst hafa greint H frænku sinni frá hugleiðingum sínum í þessu sambandi. Hún hafi sagt henni að hún vildi ekki lifa lengur því hún vildi ekki skemma fyrir þessu fólki.
Aðspurð um viðhorf sitt til ákærða svaraði vitnið því að einn daginn hafi henni þótt samband þeirra rangt og vitlaust en hinn daginn í lagi og því hafi það verið misjafnt eftir dögum. Stundum hafi hún verið gjörsamlega ónýt og ekki viljað vita af neinu en hún hafi á þessum tíma ekki átt neinn trúnaðarvin til að ræða þetta við nema kannski H frænku sína en hún hafi ekki vitað allt og það hafi verið svolítið erfitt að tala við hana. Á tímabili hafi þetta einfaldlega verið ást þótt hún hafi varla vitað hvað var að gerast, enda hafi hlutirnir gerst hratt á þessum tíma. En nú, þegar hún hafi fengið utanaðkomandi aðstoð, viti hún að þetta hafi ekki verið nein ást. Vitnið sagði að í dag þætti henni þetta „bara ömurlegt í rauninni, ég náttúrulega hata þennan mann og þú veist finnst bara ömurlegt að hafa ekki getað sagt einhverjum og fengið eins og núna eða semsagt fengið annarra manna svona já utanaðkomandi svona hjálp í rauninni,“ eins og vitnið komst að orði.
A kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Þar kom fram hjá henni að hún hefði skrifað dagbók á þessum tíma en hún hafi verið þannig skrifuð að aðrir skildu ekki hvað hefði gerst, en það skjal sem fyrir liggur í málinu hafi hún ritað upp úr dagbók sinni. Vitnið kvaðst hafa unnið á Q í mörg sumur. Hún kannaðist við að hafa skrifað bréf sem var rifið. Hún mundi ekki hvað stóð í því eða hvenær það var skrifað en taldi þó árið 2005 líklegast. Henni hafi þótt sem hún hefði gert slæman hlut og viljað biðjast afsökunar á því og varla viljað lifa lengur. Vitnið mundi eftir því að hafa verið ein með ákærða heima hjá sér vorið 2006 og sagði hún að liður þrjú og fjögur í ákæru gæti verið eitt og sama skiptið. Vitnið kvaðst hafa sagt F og G einu sinni að eitthvað hefði gerst milli sín og ákærða. Hún mundi þó ekki hvaða ár þetta var en taldi að það hefði verið skömmu eftir að hún kom frá [...]. Vitnið lýsti þessum fyrsta atburði þannig að hún hafi staðið við vaskinn og ákærði hafi verið að koma af fótboltaæfingu. Hann hafi gripið um rassinn á henni og kysst hana á kinnina. Vitnið upplifði þetta sem kynferðislegt en ekki eitthvað eðlilegt. Vitnið lýsti því einnig að eitt sinn hafi ákærði vakið hana þar sem hún svaf í rúmi með C. Hún kvaðst ekki geta sagt hvaða ár þetta var en hún kvaðst í raun ekki geta tímasett önnur skipti fyrr en vorið 2006 þegar ákærði kom hlaupandi heim til hennar.
Ákærði bar fyrir dóminum að hann hefði flutt [...] haustið 2000 og byrjað að kenna þar og þá hafi hann fyrst hitt A. Hann hafi verið umsjónarkennari hennar í tvo vetur meðan hún var í 5. og 6. bekk. Frá árinu 2003 hafi hann einnig þjálfað hana í fótbolta. Á árunum 2005 og 2006 hafi hann kennt A raungreinar en ekki verið umsjónarkennari hennar. Síðla árs 2003 hafi hún og C, stjúpdóttir hans, orðið vinir og þá hafi A byrjað að koma á heimili hans en fram að því hefði hún ekki gert það. Hann kvaðst ótvírætt hafa orðið var við að A sýndi honum áhuga eftir að hún fór að koma á heimili hans og hafi mikið leitað eftir að vera í návist hans. Á árinu 2004 hafi honum þótt sem A væri jafnvel frekar að hitta hann en C. Fyrstu snertingar þeirra á milli hafi verið af hálfu A en hann hafi ekki litið á þær sem kynferðislegar. Í þessu sambandi nefndi ákærði sem dæmi að A hafi nuddað axlir hans, eins og hún hafi raunar gert við fleiri, og þá hafi hún strokist utan í hann og þess háttar. Ákærði neitaði því alfarið að hafa snert rassinn á A eins og hún hefur lýst. Hann kvaðst þó viss um að hafa snert hana, t.d. axlir, og kysst hana á kinn en þessar snertingar hafi ekki verið kynferðislegar.
Um páska á árinu 2005 hafi kynferðislegt samband byrjað á milli þeirra en áhugi hans á henni hafi sennilega kviknað áramótin þar á undan. Í fyrsta sinn sem þau áttu í kynferðislegu sambandi hafi hann ekið henni heim til hennar [...]. Hún hafi verið ein heima og þá hafi hann sagt henni að hann væri hrifinn af henni. Hann hafi kysst hana og hún hafi þá tekið utan um hann og kysst á móti. Í framhaldi af þessu hafi hann snert hana innan klæða, brjóst og kynfæri, og þá hafi hann sett fingur í leggöng hennar en hún hafi einnig snert hann. Næsta tilvik eftir þetta hafi sennilega verið nokkrum dögum síðar og svona hafi þetta verið gegnumgangandi þetta ár og í öll þessi skipti hafi A verið þátttakandi í því sem þau gerðu og snert hann á sama hátt og hann snerti hana. Atvik sem þetta hafi oftast átt sér stað í bifreið hans, örfá skipti kossar á heimili hans en aldrei í skóla eða meðan á æfingum stóð. Ákærði bar að eins og háttsemi hans er lýst í ákærulið 2 hafi hún oftar verið þannig að snerting hafi verið utan klæða en innan. Þau hafi hins vegar oft kysst. Ákærði hafnaði alfarið lýsingu A á því að hann hafi vakið hana einhverju sinni með kústi og látið hana hafa munnmök við sig í framhaldinu. Einnig neitaði ákærði alfarið að A hefði haft við hann munnmök fyrir árið 2005.
Ákærði greindi frá því að í byrjun árs 2006 hafi hann skilið við konu sína. Eftir að hann var kominn út af heimilinu hafi hann haft meiri tíma fyrir samband sitt við A. Um vorið 2006, í apríl eða maí, hafi þau fyrst haft samræði og það hafi verið á heimili A. Næsta tilvik hafi verið stuttu síðar og þá aftur á heimili A. Þriðja skiptið sem þau höfðu samræði hafi átt sér stað þar sem hann bjó [...] og það hafi gerst nokkru síðar. Eftir það hafi sambandi þeirra lokið en þau hafi þó kysst í tvígang eftir þetta eftir að A hafði sent honum skilaboð um að hitta hana. Ákærði kannast við að A hafi sogið á honum getnaðarliminn í sama skipti og þau höfðu samræði en hann hafnar því að hann hafi látið hana gera það. Ákærði kannaðist ekki við að hafa nokkru sinni þvingað A til að gera nokkuð í kynferðislegu sambandi. Hann hafi aldrei skynjað að hún vildi ekki eiga slík samskipti við hann og hann kvaðst aldrei hafa pressað á hana í þessu sambandi og aldrei gert neitt gegn hennar vilja. Ákærði bar að hann hafi á tímabili vitað að A var ekki tilbúin til að ganga lengra en þau höfðu gert en hún hafi sagt honum það. Hún hafi hins vegar, áður en þau höfðu samræði í fyrsta skipti, sent honum sms þess efnis að hún treysti honum til að stunda kynlíf með sér. Ákærði kvaðst aldrei hafa sagt A að hún mætti ekki segja frá sambandi þeirra. Þvert á móti hafi hann margoft rætt við hana um vorið 2006 að þau færu og segðu foreldrum hennar frá sambandi þeirra og hún hafi tekið vel í það en þegar svo átti til að taka hafi hún ekki viljað það. Ákærði kvaðst mikið hafa rætt við A í síma og sent henni sms og hún honum. Ákærði bar að þau hafi í raun verið par en samband þeirra hafi endað eftir að það komst upp. Í kjölfarið á því hafi það gerst að A hafi allt í einu verið þolandi og hann gerandi. Ákærði kvaðst hafa staðið frammi fyrir mörgum siðferðislegum spurningum á þessum tíma en hann hafi bara verið hrifinn af henni, raunar elskað hana og aldrei hugsað um samband þeirra sem lögbrot af sinni hálfu.
Að sögn ákærða var A um tíma með strák en hún hafi samt sem áður líka verið með honum. Þá hafnaði hann því algerlega að hafa boðist til að svindla á prófi fyrir A. Hann kannaðist við að hafa tekið myndir af þeim en það hafi sennilega verið í annað skiptið sem þau höfðu samræði á heimili hennar [...]. Ákærði kvaðst hafa tekið eftir að suma daga leið A ekki vel og hann hafi haft áhyggjur af því og rætt það við hana, enda hafi hann elskað hana.
Vitnið C var fósturdóttir ákærða. Hún kvaðst hafa orðið vinkona A haustið 2000 en það ár hafi hún flutt í [...]. A hafi oft komið á heimili hennar. Vitnið kvaðst aldrei hafa tekið eftir neinu óeðlilegu á milli ákærða og A. Vitnið lýsti því að hún hefði fundið bréf, sem búið var að rífa í sundur, á vinnustað sínum sem A skrifaði til ákærða. Í bréfinu hafi komið fram að ákærði væri búinn að segja nei við hana en hún geti ekki komist yfir tilfinningar sínar til hans. Þá hafi hún lýst því að henni þætti vænt um hann og að hún væri hrifin af honum. Í bréfinu hafi komið fram eitthvað í þá átt að hún gæti ekki lifað án hans og það hafi vitnið túlkað á þá lund að hún hygðist fremja sjálfsmorð. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um á hvaða ári hún fann bréf þetta. Vitninu þótti sem A vildi heldur vera á heimili vitnisins en heima hjá sér en þá hafi hún frekar talið að A væri að heimsækja móður vitnisins. Vitnið vissi um tilvik þar sem A var á heimili hennar án þess að vitnið væri þar statt en þá taldi hún að móðir hennar hefði verið heima.
Vitnið I, móðir A, bar að A hafi átt mikil samskipti við heimili ákærða. Hún hafi verið vinkona fósturdóttur ákærða og einnig hafi hún verið vinkona eiginkonu hans. Hún hafi verið þarna mikið, nánast allt frá því að ákærði flutti í [...]. A hafi gjarnan farið heim til ákærða eftir skóla en vitnið hafi ekki haft áhyggjur af veru hennar þar. Vitnið bar að hún hefði gjarnan sótt A heim til ákærða, þá hafi hún líka fengið far með öðrum en ákærði hafi einnig ekið henni heim. Vitnið bar að hún hefði orðið vör við miklar breytingar, aðrar en þroskabreytingar, á A á árunum 2002 til 2006. Hún kvaðst hafa tekið eftir því að A hafi átt erfitt með að treysta fólki. Áður hafi hún sungið opinberlega en hætt því. Þá hafi komið fram skapsveiflur sem áður hefðu ekki verið til staðar. Þá hafi hún orðið vör við mikla vanlíðan og vonleysi hjá A sem hafi týnt lífsgleðinni. Vanlíðan hennar hafi bæði verið andleg og líkamleg en engin svör hafi fengist við líkamlegu vanlíðaninni. Vitnið bar að A hafi ekki rætt við sig um sjálfsvígshugleiðingar, en hún hafi skrifað sögu í skólanum sem skólastjórinn hafi haft miklar áhyggjur af. Þessi saga hafi verið rituð á árunum 2002 til 2004. Vitnið kannaðist við að hafa fengið ákærða til að sinna bústörfum veturinn 2005 til 2006 og vorið 2006. Að sögn vitnisins sótti A fótboltaæfingar bæði í [...] og [...] en þegar æfingar voru [...], vikulega, hafi A gjarnan fengið far með ákærða en aðrir hafi farið í rútu. Vitnið bar að á þessum árum hafi A haldið dagbók.
Vitnið J, bróðir A, bar fyrir dóminum að A hafi fyrst sagt honum frá þessu máli 14. ágúst á síðasta ári. Líðan hennar hafi þá verið slæm og hún hafi viljað tjá sig um málið við fjölskyldu sína en þá hafi hún ekki verið búin að segja móður sinni frá. A hafi verið mjög niðurdregin. Vitnið sagði að afleiðingar málsins hafi verið mjög miklar fyrir A sem hafi lokast af og átt erfitt með að vera í kringum fólk. Vitnið kvaðst hafa verið í miklum samskiptum við systur sína á árunum 2002 til 2006 og hann hafi tekið eftir miklum breytingum á henni. Breytingarnar hafi lýst sér í óskýranlegum skapsveiflum og þá hafi hún oft verið mjög niðurdregin og með óútskýrða verki. Henni hafi oft liðið illa án þess að nokkur vissi hvers vegna. Hann kvaðst hafa séð breytingar á henni frá því sem var fyrir árið 2002 en hún hafi þá verið opnari og haft gaman af að syngja en nú eigi hún erfitt með að vera fyrir framan fólk. Vitnið kvaðst hafa rætt breytingarnar við foreldra sína og A líka. Þau hafi velt því fyrir sér hvort hún væri að breytast í ungling en þeim hafi þótt breytingarnar meiri en eðlilegt gæti talist. Vitnið kvaðst hafa búið í Reykjavík á þessum árum en komið heim nokkrum sinnum á ári og verið í símasambandi við sitt fólk.
Vitnið H er tvímenningur við A og sagði hún að þær frænkur hafi alla tíð verið vinkonur. Vitnið kvaðst ekki muna hvenær A sagði henni frá sambandinu við ákærða. Þó mundi hún eftir því að hafa verið í samkvæmi ásamt ákærða og fleirum í nóvember 2003 en þá hafi hún ekki litið hann þeim augum að hann hafi átt í einhverju sambandi við frænku hennar. Vitnið bar að það fyrsta sem A sagði henni frá var að þau hafi skipst á sms-skilaboðum og eitthvað væri í gangi en ekki útlistað það neitt nánar. Vitnið kvaðst ekki hafa átt von á að eitthvað fleira gerðist milli þeirra. Hvenær þetta var mundi hún ekki. Vitnið bar að A hafi sagt sér frá því að þetta hafi verið eftir að A kom heim frá [...]. Taldi vitnið að A hafi verið í 9. bekk á þessum tíma. Vitnið bar að A hafi lýst því fyrir sér að þau væru mikið skotin hvort í öðru. Af nánara sambandi milli þeirra hafi hún eingöngu lýst því að þau hefðu einu sinni sofið saman en þá hafi vitnið verið að spyrja um ýmislegt í sambandi við það. Að sögn vitnisins átti A í sambandi við stráka á þessum tíma en þau hafi ekki gengið. Nafngreindi vitnið pilt sem A var í sambandi við um vorið 2006. Eftir að því lauk hafi A og ákærði tekið aftur upp samband en vitnið sagði að sér hafi verið kunnugt um að ákærði og A hittust á þessum tíma. Vitnið kvað A hafa sagt sér frá því að þegar hún yrði 18 ára ætluðu þau að flytja saman suður. Vitnið sagði að ákærði hefði, eftir að sambandinu lauk, tjáð sér hvaða hug hann bæri til A en þá hafi hann sagt að hann hefði verið mjög ástfanginn af henni. Þá sagði hún að A hefði alla tíð verið bráðþroska.
Vitnið E bar að um haustið 2003 hafi hún komið að rekstri félagsmiðstöðvar á [...] sem opin var einu sinni í viku. Hún hafi frá haustinu 2004 til vors 2006 verið með opinn stelpuhóp á [...] og þangað hafi stelpurnar komið og A þar á meðal. Hún hafi reynt að kanna hjá stelpunum hvort þær hefðu lent í sifjaspelli eða slíku. Hún kvaðst hafa orðið vör við að A, sem henni þótti andlega þroskuð eftir aldri, leið illa og reynt að fara ofan í það en hún hafi verið eins og lokuð bók. A hafi sótt mjög í tímana sem vitnið var með en hún hafi viljað tala um allt annað en að eitthvað væri að hjá sér. Ýmsar getgátur hafi verið uppi bæði í skólanum og víðar en félagsráðgjafi, sem var að störfum á [...] frá haustinu 2003 til vors 2004, hafi tekið eftir því hve gleði A minnkaði þennan vetur. Vitnið bar að getgátur um samband A og ákærða hafi byrjað um veturinn 2003. Að sögn vitnisins var hún einhvern tíma sumarið 2006 að spila víkingaspil ásamt syni sínum og A. Þetta spil megi kalla spáspil en það sé engu að síður hálfgert grín. Vitnið kvaðst hafa sagt eitthvað í þá veru við A að upp hefði komið spil sem segði að hún þyrfti að horfa vel í sína stöðu í dag og það sem hún hefði verið að fást við í fortíðinni en draugur fylgdi henni. Um leið hefði A farið að hágráta og hún hefði á þeirri stundu bara tekið utan um hana. Degi síðar hefði A sagt henni hvað hún hefði gengið í gegnum frá því að hún var í 7. bekk. Hún hafi sagt að þetta hefði byrjað þegar hún kom frá [...] haustið 2003. Hún hafi verið að vaska upp og þá hefði ákærði komið aftan að henni og byrjað að kyssa á henni hálsinn og út um allt. Hún hafi farið hratt yfir sögu en hún hafi lýst því að henni hafi þótt þetta bæði gott og vont. Þá bar vitnið að ákærði hefði ítrekað spurt A hvort hún vissi hversu alvarlegar afleiðingar það hefði ef hún segði frá. Stúlkan hafi hins vegar aldrei sagt að hún hefði verið hrifin af ákærða. Hún hafi aftur á móti lýst því að hún hafi verið andsnúin kynlífi þeirra. Vitnið bar að A hafi vel gert sér grein fyrir því að samband þeirra myndi hafa afleiðingar þegar það kæmist upp. Vitnið taldi að A ætti mjög erfitt í dag.
Vitnið D kvaðst hafa hitt A fyrst í apríl 2006 og í framhaldi af því hafi þau orðið mjög góðir vinir. Vitnið bar að hann hafi, í byrjun sumars 2006, ásamt A og móður sinni, verið að spila víkingaspil heima hjá honum. Hún hafi dregið ákveðið spil sem átti að tákna fortíðina og þá hafi hún brostið í grát. Hann hafi seinna spurt hana hvers vegna hún hefði farið að gráta og þá hafi hún sagt að hún hefði lent í einhverju fyrir nokkru síðan. Hann hafi þá spurt hana nánar um það en hún hafi ekki viljað segja honum nafn þess sem átti hlut að máli en beðið hann um að giska og það hafi hann gert. Honum hafi þó ekki tekist að finna út þá hver ætti í hlut. Hann kvaðst ekki hafa viljað vita hvað hefði gerst á milli þeirra en hún hefði sagt frá því hvernig þetta kom til. A hafi greint honum frá einu tilviki þar sem hún var vakin um miðja nótt með kústskafti. Þá hafi hún greint frá einu tilviki þar sem hún var að vaska upp og þá hafi verið komið aftan að henni en hann mundi ekki nægilega vel til að greina frá atvikinu nánar. Vitnið bar að hann og A hafi verið kærustupar í skamman tíma sumarið 2006.
Vitnið B var sambýliskona ákærða. Að sögn vitnisins var A mikið á hennar heimili en þangað hafi hún komið sem vinkona dóttur hennar. Vitnið kvaðst hafa hvatt dóttur sína til að vingast við A en hún hafi haft áhyggjur af A. Vitnið taldi að á árinu 2000 hafi dóttir hennar greint frá því að A hafi talað um að ganga í sjóinn og því hafi vitnið talið að eitthvað væri að hjá henni, hvort sem það væri þunglyndi eða eitthvað annað. Vitnið bar að A hafi verið mikið ein heima og því hafi hún komið oft með dóttur vitnisins á heimili hennar. Þar hafi þær lært saman og gert annað það sem vinkonur gera. Vitnið kvaðst hafa lagt sig fram um að kynnast A og þær hafi oft rætt um líðan hennar og fleira því tengt. Þótti vitninu sem A hefði tekið of mikið af verkjalyfjum, hún hafi farið til lækna vegna líkamlegra verkja en þeir hafi ekki fundið neitt að henni og þá hafi A sagt þá fífl og kjána. Vitnið sagði að ef stúlkan lenti í aðstæðum sem henni væru ekki í hag hafi hún einfaldlega orðið veik. Vitnið tók þó fram að A hafi oft átt betri stundir. Að sögn vitnisins átti A á margan hátt mjög bágt. Hún hafi verið mjög dómhörð í garð fólks og það hafi verið eitt af því sem þær ræddu. Þannig hafi A greint frá hlutum sem dóttir vitnisins gerði en með því hafi hún brotið trúnað við vinkonu sína. Að sögn vitnisins er A haldin athyglissýki á háu stigi en hún hafi kallað á athygli frá því að vitnið sá hana fyrst. Vitnið sagði að sig hafi fyrst grunað að eitthvert óeðlilegt samband væri á milli ákærða og A um vorið 2006 en fyrir þann tíma hafi hún ekki tekið eftir neinu óeðlilegu í samskiptum þeirra. Þá hafi hún og ákærði verið skilin en hún hafi séð að hann var ástfanginn. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir því, eftir að ákærði flutti af heimili þeirra í febrúar 2006, að A hafi sýnt vitninu hortugheit og þess háttar í kennslustundum. Vitnið kannaðist við að C, dóttir hennar, hefði sagt henni frá bréfi sem A hafði skrifað en þetta bréf hafi hún ekki séð og hún mundi ekki innihald þess þannig að hún gæti rætt það. Þó hafi henni skilist að A væri hrifin af ákærða. Slík hrifning sé þó alls ekki óþekkt hjá nemendum en þá verði bara að taka á því. Vitnið greindi frá því að móðir A hafi í tvígang sagt við sig að stúlkunni liði betur eftir að hún fór að venja komur sínar til vitnisins. Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hvort A hafi andlega verið bráðþroska en þó hafi hún verið það að sumu leyti. Vitnið greindi frá því að nafnlaust bréf hefði borist á afdrep kennara sem gekk út á það að hún ætti að líta sér nær þar sem hún væri að ala nöðru sér við brjóst en ætlunin væri að sundra hjónabandi hennar. Vitnið kvaðst hafa sýnt skólastjóra, yfirkennara og trúnaðarmanni bréfið. Í kjölfar þess hafi verið haldinn fundur með einum kennara, sem hún taldi líkur benda til að hefði skrifað bréfið, en sá kennari hafi ekki viðurkennt það. Vitnið kvaðst hafa velt því fyrir sér hvers vegna bréfið hefði verið skrifað en hún sagði að barátta hafi verið milli A og þessa kennara um athygli ákærða sem knattspyrnuþjálfara.
Vitnið K kvaðst á stundum hafa verið á heimili ákærða meðan A var þar. Vitnið kvaðst þar ekki hafa tekið eftir neinu óeðlilegu í samskiptum ákærða og A. Henni hafi hins vegar þótt sem ákærði sinnti ekki starfi sínu í skólanum heldur verið mikið með A. Hann hafi t.d. aðstoðað A við tölvuvinnu meðan hann átti að vera að kenna sínum bekk. Að áliti vitnisins voru ákærði og A undir það síðasta einfaldlega par án þess þó að hún hafi séð snertingar milli þeirra og taldi vitnið samband þeirra ekki hafa verið á annan veginn frekar en hinn. Að sögn vitnisins kemur A ákaflega vel fyrir sjónir og er mjög dugleg. Þá kvað vitnið hana vera mjög ákveðna og að hún hefði gjarnan sitt fram og þeim hafi jafnvel lent saman út af því. Hélt vitnið að stúlkan hefði alla tíð fengið sínu framgengt og gert það sem hún vildi. Vitnið lýsti því að einhverju sinni í skólaferðalagi hefði C reiðst út í A vegna þess að hún taldi hana vera að gera það sama við Bjarka, sambýlismann vitnisins, og hún hefði gert við ákærða. Vitnið mundi eftir að hafa séð bréf þar sem B, systir vitnisins, var vöruð við A sem sögð var vera á höttunum eftir ákærða. Vitnið mundi ekki hvenær hún sá bréf þetta. Að sögn vitnisins kom C, fósturdóttir ákærða, einu sinni til hennar og lýsti því að henni þætti ákærði sýna A meiri áhuga en móður sinni. Vitnið lýsti því einnig að ákærði sýndi nemendum sínum meiri hlýju en konu sinni, þannig hafi hann t.d. nuddað axlir og strokið hár stúlkna sem hann kenndi en vitninu þótti það óeðlilegt.
Vitnið L var í skóla með A á [...]. Vitnið bar að A hafi hringt til hennar í síðustu viku fyrir aðalmeðferð málsins og sagt henni að greina frá öllu því sem A hefði sagt henni. Þá sagði vitnið að A hefði sagt frá því að hún ætti von á að fá 3.000.000 króna vegna málsins. Vitnið bar að A hefði greint henni frá því nú í haust að hún hefði verið misnotuð. Vitnið kvað A ekki hafa svarað því þegar hún var spurð að því hvort hún hefði einhvern tíma sagt „nei“ og taldi vitnið það benda til þess að það hafi hún ekki gert. Þá kvaðst vitnið hafa spurt A að því hvort hún hefði gert eitthvað til að sýna að hún vildi þetta ekki og hafi hún heldur ekki svarað því. Taldi vitnið þetta vera vegna þess að A vildi ekki ljúga að henni. Vitnið bar að A hefði ekki nákvæmlega lýst því í hverju misnotkunin hefði verði fólgin. Vitnið bar að A hefði talað um það við aðra en hana að hún væri ástfangin af ákærða og þá hafi hún sagt við vitnið að ákærði væri ástfanginn af henni. Vitnið kvað A hafa lýst einu tilviki þar sem A var við vaskinn heima hjá ákærða. Hann hafi þá verið að koma úr sturtu með handklæði um sig miðjan og kysst hana á hálsinn. Á þessum tíma hafi þær verið í 8. bekk. Þessu hafi enginn trúað, enda augljóst að A var mjög ánægð með þetta. Hafi enda legið fyrir að hún hefði verið mjög hrifin af ákærða og nefndi hún dæmi í því sambandi. Vitnið kvaðst hafa spurt A að því hvort skilnaður ákærða og B væri henni að kenna en hún hafi neitað því og sagt að þau væru vinir. Vitnið sagði að A hefði sagt henni að hún ætlaði að hefna sín á ákærða og koma öllu málinu á hann. Vitnið bar að A væri mjög sjálfselsk og gerði allt sem henni hentaði.
Vitnið M kvaðst hafa verið í grunnskóla með A. Að sögn vitnisins greindi A henni frá því, í gegnum samskiptaforritið msn, að hún ætti í ástarsambandi við ákærða og að þau væru að kyssast og snertast þegar enginn sæi til. Vitnið bar að hún hefði verið nálægt 10. bekk í grunnskóla þegar þetta var en hún kvaðst ekki hafa séð neitt þessu líkt á milli þeirra. Það gæti verið að þetta hafi verið árið 2004, hún kvaðst á þeim tíma sem þetta gerðist hafa verið í grunnskóla en hún hóf nám í framhaldsskóla 2005. Vitnið sagði að eitt sinn hefði komið fram hjá A að þau hafi fróað hvort öðru.
Vitnið F bar að A hafi átt við hana samtal einhverju sinni fyrir nokkrum árum í sjoppunni á [...]. Þá hafi A sagt frá því að hún hefði verið að vaska upp á heimili ákærða er ákærði hefði komið aftan að henni og tekið utan um hana aftan frá en nánar hafi hún ekki lýst því. Vitnið kvaðst ekki hafa trúað A á þessum tíma og geri það ekki enn. Þá sagði vitnið að A hafi átt það til að skrökva og ýkja og þá um hversdagslega hluti sem engu máli skiptu. Vitnið kvaðst hafa verið nemandi ákærða en hún kannaðist ekki við að hann hefði verið að snerta nemendur sína. Að sögn vitnisins voru ákærði og A stundum í borðtennis í skólanum en henni þótt samband þeirra ekki óvenjulegt nema henni hafi þótt augnsamband þeirra á stundum óvenjulegt. Vitnið bar að í skólanum hafi allir verið að velta fyrir sér sambandi þeirra en um það hafi gengið kjaftasaga. Vitnið kvaðst hafa heyrt að upp úr sambandi ákærða og A hafi slitnað vegna þess að A vildi ekki greina foreldrum sínum frá því, en ákærði hafi viljað það. Þá kvaðst vitnið einnig hafa heyrt frá L, vinkonu sinni, að A hefði sagt L að hún ætlaði að láta samband þeirra líta eins illa út fyrir ákærða og hún gæti til að fólkið í bænum liti ekki á hana sem druslu. Vitnið kvaðst hafa haft samband við A síðastliðið ár en A hafi hringt í hana til að spyrjast fyrir um hvað hún segði fólki í bænum. Þá hafi A á spjallrásinni msn sagt við vitnið í síðustu viku að hún vonaði að vitnið lenti í því sama og hún.
Vitnið G kvaðst hafa verið með A í skóla og bekk. Vitnið bar að fyrir löngu síðan hafi A sagt sér frá því að henni þætti skrítið að hún gæti haft tilfinningar til manns sem ætti börn og að hann hefði eitthvað verið að snerta hana. A hafi sagt að hún hafi staðið við vaskinn og verið að vaska upp og þá hafi ákærði tekið utan um hana eða eitthvað svoleiðis. Vitnið kvaðst ekki hafa trúað henni á þessum tíma vegna þess að þetta var kennarinn hennar og þá hafi A átt til að ýkja og segja ósatt. Vitnið mundi ekki hvenær þetta var en taldi að það gæti hafa verið þegar hún var 13 ára. Vitnið bar að þetta hafi verið í sjoppunni á [...] og F hafi verið þar viðstödd. Vitnið bar að hún hefði aldrei orðið vör við að eitthvað væri á milli ákærða og A en hún hafi heyrt kjaftasögur. Slíkar sögur hafi hún heyrt í langan tíma, þó þannig að þær hafi dottið niður en komið upp aftur þegar málið kom upp.
Vitnið N bar að haustið 2003 hafi hún heyrt frá M að ákærði og A ættu í sambandi en þau hefðu verið að kyssast. Þetta hafi verið eftir að A kom frá [...]. Vitnið kvaðst reglulega hafa heyrt af sambandi ákærða og A og taldi vitnið að A hefði sagt fleiri en einni vinkonu sinni frá þessu. Vitnið kannaðist við að B hefði haustið 2004 sýnt henni bréf, án þess að hún fengi að sjá innihald þess, en þetta bréf hefði hún ekki skrifað þrátt fyrir ásakanir þar um. Vitninu var kunnugt um að bréfið innihélt ásakanir í garð A. Fundur hafi verið haldinn í skólanum vegna bréfs þessa og því haldið fram að hún hefði skrifað þetta bréf. Hún kvaðst á þessum fundi hafa lagt til að vikið yrði frá bréfinu og rannsakað hvort eitthvað væri til í þessum fullyrðingum. Það hafi hins vegar ekki verið gert og þótti vitninu óeðlilegt að málið var ekki kannað. Að sögn vitnisins var greinilegt að A var alveg heltekin af ákærða og það hafi ekki farið framhjá neinum en hún kvaðst þó ekki hafa séð neitt líkamlegt á milli þeirra. Vitnið kvaðst ekki geta séð að þetta hafi verið gagnkvæmt en hún hafi ekki séð ákærða koma fram við A öðruvísi en aðra. Vitnið sagði að margir hefðu fengið sms frá A þess efnis að hún ætlaði að fyrirfara sér og bar vitnið að margir hefðu fengið slík skilaboð frá henni ef eitthvað var ekki í lagi, en við þær aðstæður hefði hún gjarnan notað slíkt. Vitnið kvaðst aldrei hafa orðið vör við að A hefði ætlað sér að láta verða af þessu. Hún kvaðst muna eftir slíkum skilaboðum þegar A var í 6. eða 7. bekk.
Vitnið O kvaðst hafa byrjað sem skólastjóri grunnskólans [...] haustið 2005 en áður hefði hann ekki starfað við skólann. Vitnið bar að í kjölfar eineltisfundar, sem haldinn var í mars 2006, hafi hann heyrt af þessu og þá hafi hann kallað ákærða til sín en hann hafi borið af sér allar sakir. Í framhaldi af þessu hafi hann rætt þetta mál við föður A en hann hafi þá ekki vitað neitt um þetta. Þá kvaðst hann hafa fengið vitneskju um að A hafi líka neitað að hafa átt í sambandi við ákærða. Vitnið kannaðist við að K hefði rætt þetta mál við sig í maí 2006. Vitnið taldi að haustið eftir hefði hann rætt þetta við ákærða en hann hafi hvorki játað né neitað.
Vitnið Ólöf Ásta Farestveit kvaðst hafa hitt A alls 12 sinnum. Vitnið bar að líðan hennar væri mjög að breytast til batnaðar en í fyrstu hafi henni liðið illa og hún átt erfitt með að tala um málið. Taldi vitnið að A þyrfti áfram meðferð fram eftir vetri. Nú sé stúlkan að verða 17 ára og aukinn þroski muni hjálpa henni að takast á við sín mál. Vitnið bar að stúlkan kviði því að hitta þá sem tengdust ákærða. Þá komi fram líkamlegir verkir sem tengja megi kvíða, eins og verkir í maga og höfði. Vitnið kvaðst í fyrstu hafa rætt sjálfsvígshugsanir við A en þessar hugsanir komi ekki upp hjá henni í dag.
IV
Niðurstaða
Ákæru er skipt upp í fjóra tölusetta liði. Við úrlausn málsins þykir rétt að leysa fyrst úr fyrsta ákæruliðnum, sem tekur til áranna 2003 og 2004, en síðan hinum þremur sameiginlega. Ákærði hefur allt frá upphafi neitað sök varðandi fyrsta lið ákærunnar. Framburður hans fyrir dóminum og hjá lögreglu hefur verið staðfastur. Hjá lögreglu lýsti ákærði daðri, síðar kossum og faðmlögum á árunum 2003 og 2004 en hefur neitað því að kynferðislegt samband hafi verið milli sín og stúlkunnar fyrr en árið 2005. Þá hefur ákærði ekki reynt að fegra sinn hlut varðandi aðra liði ákærunnar. Í raun hefur ekkert komið fram í málinu sem er til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar ákærða. Ákærði bar fyrir dóminum að hann hefði vissulega snert A á þeim tíma sem fyrsti liður ákærunnar tekur til en það hafi ekki verið gert í kynferðislegum tilgangi.
Að framan er gerð grein fyrir framburði vitna fyrir dóminum. Þegar framburður A er skoðaður lýsir hún í raun bara einu tilviki þar sem ákærði setti hönd á mjaðmir hennar eða rass og kyssti hana á kinnina en þetta á að hafa gerst við vask á heimili ákærða í lok árs 2003. Öðrum beinum tilvikum lýsir hún ekki. Þá er gegnumgangandi í framburði hennar að hún á mjög erfitt með að átta sig á því hvenær atvik í þessa veru áttu sér stað. Þetta er ekki endilega til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar hennar en verður til þess að vafi er um tímasetningar og þann vafa verður að skýra ákærða í hag. Vinkonur A, sem hún sagði frá atvikinu við vaskinn, komu fyrir dóminn og mundu eftir því að hún skýrði þeim frá því og var þeirra lýsing í samræmi við lýsingu A. Þær lögðu hins vegar ekki trúnað á frásögn hennar. Önnur vitni virtust einnig eingöngu hafa heyrt af þessu eina tilfelli. Þegar horft er til þess hvernig A lýsti atvikinu við vaskinn, en hún sagði að ákærði hefði sett hönd á rass eða mjaðmir hennar og kysst hana á kinnina, verður ekki gegn staðfastri neitun ákærða talið að slík háttsemi hafi verið af kynferðislegum toga þótt A hafi upplifað það svo. Fyrir liggur að A hélt dagbók á þessum tíma. Hún hefur borið að hún hafi skráð í dagbókina þegar eitthvað gerðist á milli hennar og ákærða, þó þannig að aðrir en hún gátu ekki skilið það sem þar var ritað um samskipti þeirra. Þessi dagbók, eða dagbækur, voru til þegar rannsókn máls þessa hófst. Eftir þeim var hins vegar ekki kallað en yfirferð yfir þær, þar sem A hefði getað skýrt út það sem þar var ritað, hefði getað varpað ljósi á atvik sem hugsanlega gerðust á þeim árum sem fyrsti liður ákærunnar tekur til.
Þegar horft er til þess sem að framan er rakið verður ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem lýst er í fyrsta tölulið ákæru.
Varðandi aðra liði ákærunnar liggur fyrir að ákærði hefur skýlaust játað háttsemi þá sem þar greinir. Hann hefur þó gert athugasemdir við þriðja lið ákærunnar en hann kveðst ekki hafa látið A sjúga á sér getnaðarliminn heldur hafi það verið hluti af samræði þeirra og því hluti af fjórða töluliðnum. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að þetta hafi verið sérstakt tilvik heldur hafi það verið hluti samræðis sem fram fór á heimili A og hefði því verið eðlilegra að fella það undir fjórða tölulið ákærunnar. Ekkert hefur heldur komið fram sem bendir til þess að þetta tilvik hafi verið gegn vilja A fremur en önnur tilvik sem lýst er í ákæruliðum tvö til fjögur. Þá er að framan rakin lýsing ákærða á atvikum er varða annan lið ákærunnar en hann bar fyrir dóminum að hann hafi oftar snert A utan klæða en innan. Að framkominni skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins, telst sannað að hann hafi framið háttsemi þá sem lýst er í ákæruliðum tvö til fjögur.
Fyrir liggur að A varð 14 ára 7. desember 2004. Á þeim tíma sem annar til fjórði liður ákærunnar tekur til var refsilaust að hafa samræði eða önnur kynferðismök við einstakling sem orðinn var 14 ára en með lögum nr. 61/2007 var þessi aldur hækkaður um eitt ár. Eftir stendur þá hvort háttsemi ákærða var refsiverð vegna þess að hann var kennari A og honum hafi þar með verið trúað fyrir henni til kennslu eins og greinir í 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga, sem við á í þessu máli, hefur að efni til verið óbreytt frá því að hegningarlög voru sett árið 1869 en hefur sætt endurskoðun nokkrum sinnum, síðast á þessu ári, en alltaf verið látið standa óbreytt. Þegar ákvæðið var sett í upphafi voru aðrar aðstæður í þjóðfélaginu og kennsluhættir allt aðrir en í dag. Í þá daga var algengt að börn væru send til náms og þá dvöldu þau um tíma hjá kennara sínum. Við lestur nefndrar 1. mgr. 201. gr. má gera ráð fyrir að börn og ungmenni sem hún á að vernda búi eða dvelji langdvölum á heimili þess sem brotlegur getur gerst við ákvæði greinarinnar. Í greinargerð með lögum nr. 20/1992, sem breyttu 1. mgr. 201 gr. hegningarlaga, en þá var bætt inn í greinina stjúpbarni og sambúðarbarni, segir m.a. svo: „Áhersla er hér lögð á það að vernda heimilið og fjölskyldulíf fyrir háttsemi sem er til þess fallin að raska fjölskylduböndum og særa trúnað og traust barna á sameiginlegu heimili.“ Þetta orðalag í greinargerðinni verður að skoða í því ljósi, að verið var að skilgreina nánar umfang ákvæðisins, þannig að það tæki tvímælalaust til stjúpbarna og sambúðarbarna, en ekki var verið að fjalla sérstaklega um eða raska gildandi rétti um þá aðstöðu ef manni hafði verið trúað fyrir barni til kennslu eða uppeldis. Til þess verður einnig að líta að það er ekki skilyrði samkvæmt ákvæðinu að brotaþoli og hinn brotlegi dvelji á sama heimili, hvernig sem tengslum þeirra er háttað.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 66/1995, sbr. 1. gr. laga nr. 98/2006, er öllum á aldrinum 6 til 16 ára skylt að sækja grunnskóla, nema sérstök undanþága sé veitt. Samkvæmt 2. gr. sömu laga er það hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið. Af þessu leiðir að foreldrum stúlkunnar var að lögum skylt að trúa grunnskóla, og þar með ákærða sem kennara, fyrir stúlkunni, bæði til kennslu og uppeldis ef litið er til efnis 2. gr. laga nr. 66/1995.
Samkvæmt þessu var ákærða sem kennara við grunnskólann trúað fyrir stúlkunni til kennslu og þess uppeldis sem grunnskólum er falið að lögum. Með því að hafa kynferðismök við stúlkuna, eins og nánar er rakið í öðrum til fjórða lið ákæru og talið er sannað eins og greint er hér að framan, braut hann því gegn ákvæði 1. mgr. 201. gr. laga nr. 19/1940 með síðari breytingum sem raktar eru í ákæru, sbr. nú 10. gr. laga nr. 61/2007, sem leggur refsingu við því ef maður hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn eða ungmenni sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis. Varðar þetta fangelsi allt að 12 árum ef barn er yngra en 16 ára. Hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt þessu ákvæði og breytir þar engu að fyrir liggur að stúlkan felldi hug til hans og var fús til að hafa við hann kynferðislegt samneyti.
V
Ákærði hefur hreinan sakaferil. Með því að taka upp kynferðislegt samband við nemanda sinn, sem varði í langan tíma, framdi hann alvarlegt trúnaðarbrot, sem þung refsing liggur við að lögum. Með tilliti til þess verður refsing hans ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Ákærða verður virt til mikilla málsbóta að gagnkvæmt ástarsamband var á milli hans og stúlkunnar og lýsti hann því að fyrir sitt leyti hefði hann viljað halda því áfram og gera það opinbert. Þykir því eins og hér stendur á mega skilorðsbinda refsinguna að fullu eins og nánar greinir í dómsorði.
Í málinu gerir skipaður réttargæslumaður stúlkunnar, Lilja Jónasdóttir hrl., bótakröfu fyrir hennar hönd. Er krafist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna og 300.000 króna vegna lögmannsþóknunar og virðisaukaskatts á hana, samtals 3.373.500 króna, auk vaxta og dráttarvaxta.
Hér að framan er rakinn framburður Ólafar Ástu Farestveit um viðtöl sín við stúlkuna og efni þeirra. Þá liggur frammi í málinu greinargerð Ólafar Ástu um hið sama. Ljóst er að samband stúlkunnar og ákærða hefur haft áhrif á tilfinningalega líðan hennar og valdið henni félagslegum erfiðleikum. Þykir ákærði vera bótaskyldur gagnvart stúlkunni samkvæmt b-lið 26. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Þykja bætur hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Er fjárhæðin ákveðin án vaxta miðað við það tímamark er bótakrafa var kynnt ákærða, með heimild í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, en ber dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 8. júlí 2007 en þann dag var mánuður liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan. Ekki verða dæmdar sérstakar bætur vegna lögmannsþóknunar, enda bótakrafa höfð uppi af skipuðum réttargæslumanni brotaþola.
Samkvæmt yfirliti rannsóknara er áfallinn sakarkostnaður við rannsókn málsins 165.400 krónur en sá kostnaður er vegna réttargæslumanns. Vegna aðalmeðferðar málsins var kostnaður vegna vitna samtals 179.838 krónur. Málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns eru hluti sakarkostnaðar og þykja hæfilega ákveðin 560.250 að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknun Lilju Jónasdóttur hæstaréttarlögmanns, sem var réttargæslumaður brotaþola, þykir hæfilega ákveðin 311.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og telst þóknunin til sakarkostnaðar en áður hefur verið greitt úr ríkissjóði 165.400 krónur. Útlagður kostnaður réttargæslumanns, 45.560 krónur, telst einnig til sakarkostnaðar í málinu. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalög við aðalmeðferð málsins. Samtals nemur sakarkostnaður því 1.096.898 krónum.
Eftir framangreindum málsúrslitum þykir rétt að kostnaður vegna vitnaleiðslu við aðalmeðferð málsins greiðist úr ríkissjóði. Ákærði verður dæmdur til að greiða annan sakarkostnað að tveimur þriðju hlutum en þriðjungur greiðist úr ríkissjóði.
Dóm þennan kveða upp Halldór Halldórsson dómstjóri og meðdómendurnir Erlingur Sigtryggsson og Greta Baldursdóttir héraðsdómarar. Hefur dómsuppsaga dregist nokkuð vegna anna dómenda við önnur embættisstörf. Sakflytjendur lýstu því yfir að þeir teldu ekki þörf á endurflutningi vegna tafar sem varð á uppsögu dómsins.
DÓMSORÐ
Ákærði, Andri Már Jóhannsson, sæti fangelsi í 15 mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, enda haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 611.373 krónur í sakarkostnað, þar með taldir tveir þriðju hlutar málsvarnarlauna Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðast í heild 560.250 krónur, og tveir þriðju hlutar 311.250 króna þóknunar réttargæslumanns, Lilju Jónasdóttur hæstaréttarlögmanns. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.
Ákærði greiði A 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júlí 2007 til greiðsludags.