Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-13
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 7. janúar 2021 leitar ríkissaksóknari fyrir hönd ákæruvaldsins leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. desember 2020 í málinu nr. 7/2020: Ákæruvaldið gegn Lukasz Soliwoda og Tomasz Walkowski, á grundvelli 1. mgr. 216. gr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Gagnaðili Tomasz Walkowski leggst gegn beiðninni. Gagnaðili Lukasz Soliwoda leggst gegn því að „beiðnin nái fram að ganga á grundvelli og á forsendum þess sem fram koma í erindi ríkissaksóknara“ en ekki gegn því að leyfi verði veitt.
Með framangreindum dómi Landsréttar voru gagnaðilar sakfelldir fyrir kynferðisbrot gegn A með því að hafa haft samræði við hana án hennar samþykkis með því að beita hana ólögmætri nauðung og nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni sökum aldurs- og þroskamunar. Var brotið talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess dráttar sem hafði orðið á meðferð málsins hjá ákæruvaldinu. Var refsing hvors þeirra um sig ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá var þeim gert að greiða brotaþola miskabætur.
Ákæruvaldið telur að refsing gagnaðila hafi verið ákveðin til muna of væg. Það hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um það hver sé hæfileg refsing í nauðgunarmálum og hvaða áhrif dráttur á málsmeðferð eigi að hafa á ákvörðun refsingar í slíkum málum. Auk þess telur ákæruvaldið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni hvað varðar ákvörðun refsingar.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að mikilvægt sé að fá úrlausn réttarins um ákvörðun viðurlaga í því, sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar gagnaðila, vitna og brotaþola, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.